Sýnir færslur með efnisorðinu Laugarás. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Laugarás. Sýna allar færslur

03 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (2)

Þessi mynd, frá fjölskyldu Ólafs Einarssonar læknis, var tekin um 1950.
Þarna er horft frá sumarhúsi fjölskyldunnar, yfir garðlönd, að gróðurhúsum
og bragga sem þau byggð. Þar fyrir aftan er Hveratún og sjá má þar fyrir
aftan gróðurhúsin á Sólveigarstðum.
Hér er um að ræða framhald af Jaðarsett sameiningartákn (1).
Uppsveitahrepparnir eignuðust sem sagt jörðina Laugarás í Biskupstungum árið 1923, til að gera að læknissetri fyrir uppsveitirnar. Utan um málefni Grímsneslæknishéraðs (eins og læknishéraðið kallaðist þá) héldu oddvitar hreppanna í umboði hreppsnefndanna og héldu gjörðabækur um starfsemina. Enn hefur mér ekki unnist tími til að vinna upp úr gjörðabókunum, en það hefur nú tekist að safna saman á Héraðsskjalasafn Árnessýslu öllum gjörðabókum frá árinu 1931. Það þýðir að það vantar enn efni frá um það bil fyrstu 10 árum í sögu læknishéraðsins. Ég hef reynt að leita þeirra, en enn hefur sú leit ekki borið árangur. Svo mikið veit ég þó, að Helgi Ágústsson í Birtingaholti var formaður þessarar oddvitanefndar fyrstu árin, en við af honum tók sr. Guðmundur Einarsson á Mosfelli um 1931. Ég held að nánast upp frá því og þar til Biskupstungnahreppur tók við umsýslu með málefnum Laugaráss, hafi þeir feðgar Eiríkur Jónsson og Jón Eiríksson í Vorsabæ, verið atkvæðamestir í því sem sneri að Laugarási. Jón var lengi vel nokkurskonar oddviti oddvitanna og framkvæmdastjóri Laugaráslæknishéraðs. Hann var stundum kallaður borgarstjóri í Laugarási og "Jón í Vossas".

Jón Eiríksson
Ég gríp hér niður í viðtal við Jón, sem birtist í Sveitarstjórnarmálum árið 1978:

— Á ekki Skeiðahreppur samaðild að Laugaráslæknishéraði ásamt fleiri hreppum? 
„Jú, Skeiðahreppur, Grímsneshreppur, Laugardalshreppur, Biskupstungnahreppur, Hrunamannahreppur og Gnúpverjahreppur eiga saman jörðina Laugarás í Biskupstungum. Þar hefur nú risið upp heilsugæzlustöð fyrir þessar uppsveitir Árnessýslu. Jörðina keyptu hrepparnir á árinu 1922 til þess að reisa á henni læknisbústað. Var það mikið heillaspor. Auk þess sem jörðin liggur miðsvæðis í héraðinu, er þar mikill jarðhiti og góð aðstaða til ylræktar. Læknishéraðið hefur leigt út lönd og hita og hefur komið upp hitaveitu á staðnum. Eru þarna orðnar fjórtán garðyrkjustöðvar, og því allmyndarlegur byggðarkjarni. Á staðnum hefur verið byggð upp heilbrigðisþjónusta, og á árinu 1971 var þar stofnuð læknamiðstöð, sem nú hefur breytzt í heilsugæzlustöð. Þar starfa tveir læknar, hjúkrunarfræðingur og læknaritari."
— Nú hefur þú haft forgöngu um framkvæmdir í Laugarási um árabil. Hvernig er stjórnarfyrirkomulagi háttað á staðnum?
„Þetta er í rauninni nokkuð flókið mál. Oddvitar hreppanna, sem eiga jörðina Laugarás, hafa með höndum yfirstjórn allra mála á staðnum, og hefi ég verið formaður oddvitanefndarinnar síðan árið 1959. Hefi ég þvi séð um uppbyggingu og daglegan rekstur á staðnum. Síðan heilsugæzlustöðin komst á, lýtur hún sérstakri stjórn, og hefi ég einnig verið formaður í henni."
— Nú er Laugarás í Biskupstungnahreppi. Hvernig fer það saman, að oddviti Skeiðahrepps sé að ráðslaga þar með t. d. skipulags- og byggingarmálefni?
„Ég vil svara því til, að Biskupstungnahreppur sér um skipulagsmál, eins og honum ber að lögum, og að farið sé eftir byggingarsamþykkt hreppsins. En ég hefi í umboði oddvitanefndarinnar leigt út lönd og hita. En samstarf við oddvita Biskupstungnahrepps hefur verið ágaett, t. d. um skipulagningu byggðarinnar þar."
— Hefur þú trú á því, að Laugarás muni vaxa ört sem byggðarkjarni?
„Ég tel, að Laugarás búi yfir miklum ónýttum möguleikum til aukinnar ylræktar. Það hefur sýnt sig, að þar er unnt að fá mikið viðbótarvatn og að það er óvenjulega gott, ekki til í þvi kísilmyndun né önnur skaðleg efni. Þá tel ég, að þarna muni í framtíðinni rísa upp stofnanir, sem byggjast á þessari góðu aðstöðu, og hef ég þá í huga til að mynda heilsuhæli eða elliheimili. Síðan á stríðsárunum hefur Rauði kross Islands rekið barnaheimili í Laugarási. Það hefur ekki verið starfrækt nokkur allra síðustu árin, en til athugunar er að reisa þar nýtt barnaheimili."
— Nú nær Biskupstungnahreppur talsvert suður fyrir Hvítá. Eru það ekki harla óvenjuleg og annarleg hreppamörk?
„Það er rétt, að landfræðilega ættu þrjár jarðir í Biskupstungnahreppi frekar að heyra til Skeiðahreppi, því þær eru sunnan Hvítár. Þetta fyrirbæri mun vera frá tíma biskupsstólsins í Skálholti. Á 18. öld voru allar jarðir í Skeiðahreppi og flestar jarðir í Biskupstungnahreppi í eigu stólsins. Ég hefi ekkert reynt til þess að fá þessu breytt, enda ávallt verið gott samstarf milli þessara sveita."
Svo mörg voru þau orð Jóns og einhvernveginn minnir mig nú, að Laugarásbúar hafi nú ekki alltaf rekist vel og samskipti þeirra við þá yfirstjórn oddvitanefndarinnar sem birtist í viðtalinu við Jón, virðast ekki hafa verið alveg slétt og felld. Sérstaklega olli hitaveitan ýmsum núningi, en hún var stofnuð 1964 ásamt Vatnsveitufélagi Laugaráss (kalt vatn). Þessar veitur voru ekki síst nauðsynlegar vegna Sláturhússins, sem tók til starfa haustið 1964. Hitaveitan ásamt Hvítárbrú (1957) opnaði síðan möguleika á mikilli fjölgun garðyrkjubýla í Laugarási.
Það var þessi núningur milli stjórnar læknishéraðsins og  íbúa (garðyrkjubænda) sem leiddi til þess að þessi samþykkt var gerð á aðalfundi Hagsmunafélags Laugaráss. áið 1980:

Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 2. júní, 1980, skorar á hreppsnefnd Biskupstungna að stefna að því af fullum einhug, að taka jörðina Laugarás á leigu með réttindum og skyldum, af læknishéraðinu.
Árið 1982 var Biskupstungnahreppur svo tekinn við rekstri hitaveitunnar, en notendur veitunnar skipuðu meirihluta stjórnar. Það féll ekki allt í ljúfa löð við breytta rekstrarstjórn veitunnar, sem sjá má af aðalfundarsamþykkt frá 1985:
 
Aðalfundur Hagsmunafélags Laugaráss haldinn 22/4, 1985 mótmælir eindregið þeirri aðferð sem notuð er við skipulagningu Laugaráshverfis, en hún felst í því, að hreppsnefnd Biskupstungnahrepps lætur skipulegga lóðir hingað og þangað í landi Laugaráss og ætlar síðan Hitaveitu Laugaráss og Vatnsveitu Laugaráss að leggja stofna á þessi svæði, án þess að tryggt sé að þau byggist í náinni framtíð, eða jafnvel yfirleitt, eins og skipulag gerir ráð fyrir.

Af þessu ráðslagi leiðir, að kostnaður hitaveitu og vatnsveitu verður óhóflega mikill fyrir þá íbúa sem fyrir eru í Laugarási. Aðalfundurinn telur hreppsnefnd ábyrga fyrir þessu skipulagshneyksli og fer þess á leit, að kostnaður sá sem hitaveita og vatnsveita verða fyrir, verði greiddur úr hreppssjóði.
 Af þessu má sjá, að ekki virðast nýir herrar yfir málefnum Laugaráss, hafa sinnt málum eins og vonast hafði verið eftir.
Var þetta skref úr öskunni í eldinn?

01 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (1)

Uppsveitir Árnessýslu: rauða lína sýnir, í stórum dráttum,
það svæði sem er í byggð.
Í þessum pistli: Þrjátíu ára þróun fjallaði ég um þróun mannfjölda í þrem byggðakjörnum Bláskógabyggðar, frá 1990 til dagsins í dag, en í þessum hyggst ég freista þess að byrja að velta fyrir mér stöðu Laugaráss, innan Bláskógabyggðar og almennt í uppsveitum Árnessýslu.

Það var árið 1923 sem hrepparnir sem stóðu að Grímsneslæknishéraði eignuðust jörðina Laugarás í Biskupstungum til þess að koma þar upp aðsetri fyrir héraðslækni. Hvernig hrepparnir greiddu fyrir jörðina er mér ekki alveg ljóst. Kaupverðið var kr. 11000

Þessari gjörð var þinglýst þann 25. júní, 1927:
Með því að Helgi Ágústsson bóndi á Syðraseli hefur tekið að sjer fyrir hönd Grímsneslæknishéraðs, gagnvart Veðdeild Landsbanka Íslands greiðslu á veðskuld þeirri er hvílir á jörðinni Laugarási að upphæð   kr. 1141.00og greitt mér eftirstöðvar kaupverðsins      kr.  9859.00     Samtals kr. 11000.00- ellefu þúsund krónur – þá lýsi ég hann fyrir hönd Grímsneslæknishéraðs hjermeð rjettan eiganda að jörðinni Laugarás í Biskupstungum upp frá þessum degi og ber mjer að svar til [um] vanhemildir.Til staðfestu nafn mitt ritað í viðurvist tveggja vitundarvotta.     
Þórarinsstöðum 8. júní, 1923  
Guðm. Þorsteinsson (sign)
Vitundarvottar Þorgeir Halldórsson (sign) Ögm. Sveinbjörnsson (sign) 
Eignarheimild þeirri er virðast mætti að jeg hefði á jörðinni Laugarás, samkvæmt framanrituðu afsali, afsala jeg mér hjer með fyrir [fult] og alt til handa Grímsneslæknishjeraði.   
Syðraseli 16/12 1924   
Helgi Ágústsson (sign)
  
Ekki dreg ég í ef eignarhald hreppanna á Laugarásjörðinni, en er ekki alveg jafn viss um að þeir hafi greitt fyrir hana úr sveitarsjóðum. Ástæða þess er  fyrst og fremst þetta, sem birtist í læknablaðinu 1922:

Þetta skil ég ekki öðruvísi en svo, að í fjárlögum fyrir árið 1923, hafi Árnessýslu, eða væntanlega sýslunefnd Árnessýslu  verið veitt allt að þeirri upphæð sem nam kaupverði jarðarinnar: kr. 11000. Ég reikna síðan með, allavega þar til annað kemur í ljós, að Grímsneslæknishéraði hafi verið afhent jörðin til eignar. Með öðrum orðum: hrepparinir, sem að Grímsneslæknishéraði, fengu jörðina að gjöf frá ríkinu.  Kostnaðurinn sem síðan féll á sjóði hreppanna í framhaldinu fólst í að kaupa konungshúsið sem hafði staðið við Geysi frá 1907, flytja það í Laugarás og endurbyggja þar.
Grímsneslæknishérað varð að Laugaráslæknishéraði á fimmta áratugnum. Með því það var lagt niður þegar heilsugæslan var sett inn í Heilbrigðisstofnun Suðurlands, árið 2004, má velta fyrir sér hvað verður eða varð um eignir héraðsins.
Geta hrepparnir sem að Laugaráslæknishéraði stóðu, bara skipt eignum hennar á milli sín, si svona, í einhverjum hlutföllum? Væri ef til vill réttast, að þessi eign, Laugarásjörðin, yrði afhent ríkinu, enda ríkið sem greiddi fyrir hana?

Ég skil þessar spurningar eftir úti í tóminu og held svo áfram síðar á þessari braut.


03 maí, 2019

Undur Laugaráss (996)

María Sól Ingólfsdóttir
Ég fer ekki ofan af því að það er eitthvað við Laugarás sem leiðir unga fólkið sem hér vex úr grasi til ákvarðana um framtíð sína sem eru oft á tíðum frábrugðnar því sem gengur og gerist.  Ég hef áður fjallað um þann fjölda doktora sem Laugarás hefur alið og í þann hóp kann að hafa bæst síðan ég fór yfir það mál.
Hér geri ég að umfjöllunarefni tónlistarmenn sem hér hafa drukkið í sig einhvern þann elexír sem leiddi þá inn á listabrautina.
Í gærkvöld fengum við fD  að vera viðstödd útskriftartónleika Maríu Sólar Ingólfsdóttur frá Engi, úr Listaháskóla Íslands í Salnum í Kópavogi, en hún er nú að ljúka burtfararprófi í söng þaðan, áður en hún heldur til frekara náms á erlendri grund.  Við erum þakklát fyrir að hafa vera boðið á þessa glæsilegu tónleika og þar var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, enda er það haft eftir stúlkunni að í hennar huga sé tónlist galdur, hvorki meira né minna.


Ef ég svo læt hugann reika yfir aðra tónlistarmenn úr Laugarási koma þessi helst í hugann:


ELÍN GUNNLAUGSDÓTTIR frá Brekkugerði, 
tónskáld og tónlistarkennari


Elín lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987. Útskrifaðist frá sama skóla úr tónfræðadeild árið 1993. Þar sem kennarar hennar í tónsmíðum voru þeir Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson og Guðmundur Hafsteinsson. Árið 1998 lauk hún post graduate námi frá Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag og þar voru kennarar hennar í tónsmíðum þeir Theo Loevendie og Diderik Haakma Wagenaar.


Elín býr og starfar á Selfossi. 

(texti af vef Ísmús)

EGILL ÁRNI PÁLSSON frá Kvistholti,  
söngvari og söngkennari


Egill lauk 8.stigi frá Söngskólanum í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur árið 2008 og fluttist til Þýskalands sama ár.  Hann tók þátt í og vann til verðlauna í keppnum eins og Kammeroper Schloss Rheinsberg og Oper Schloss Laubach.
Í kjölfarið bauðst honum að taka þátt í viðburðum eins og Classic Open Air í Berlin ásamt sópransöngkonunni Lucia Aliberti,  Gala tónleikum í Mercedes World í Berlín og Das Lied von der Erde í Frankfurt og Berlín.
Egill var fastráðinn við Gerhardt-Hauptmann Óperuhúsið í Görlitz árið 2010. 
Egill hefur ferðast víða til að læra hjá bestu kennurum sem völ er á eins og David L. Jones í New York,  Janet Williams, Prof.Edwin Scholz og Prof. Wolfgang Millgramm í Berlín. Að auki hefur hann sótt einkatíma hjá: Johan Botha, Reiner Goldberg, Elisabeth Mayer-Topsöe og Kiri Te Kanawa.  Meðal stjórnenda sem hann hefur unnið með og sótt tíma hjá eru: Martin Fischer-Dieskau, Kevin McCutcheon, Howard Griffiths og Frank Strobel svo einhverjir séu nefndir.
Egill hefur lokið 4 ára námi í kennslu og söngtækni við David Jones Voice Studio í New York, og er að ljúka námi til kennsluréttinda hjá Associated Board of the Royal Schools of Music.

Árið 2016 kom út fyrsta plata Egils “Leiðsla”.

Egill er formaður Félags Íslenskra Söngkennara og í stjórn Fagfélags Klassískra Söngvara á Íslandi auk þess að vera kennari við Söngskólann í Reykjavík.

HREIÐAR INGI ÞORSTEINSSON, frá Launrétt II, 
tónskáld og kórstjóri




Hreiðar Ingi Þorsteinsson lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2001 og BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands 2007. Ári síðar lauk hann burtfararprófi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík. Erlendis stundaði hann tónsmíða- og kórstjórnarnám í Finnlandi og Eistlandi, lauk við MA-gráðu í tónsmíðum frá Tónlistarháskólanum í Tallinn, útskrifaðist þaðan með láði árið 2011. Hreiðar Ingi hefur að námi loknu fengist við tónsmíðar og kórstjórn. Hann er meðlimur í Tónskáldafélagi Íslands og stjórnar þremur kórnum: Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, Kór Menntaskóla í tónlist og Ægisif.
(texti af vef ísmús)

LAUGARÁSKVARTETTINN
Egill Árni Pálsson og Þorvaldur Skúli Pálsson frá Kvistholti,
Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Þröstur Freyr Gylfason frá Launrétt II


Það er nú ekki hægt annað en minnast á Laugaráskvartettinn, sem hóf göngu sína upp úr aldamótum og hefur síðan þegar færi hefur gefist, komið saman til æfinga og tekið upp allmikið efni. 
Það má kynnast verkefnum þeirra félaga betur hér. 

Loks má hér sjá nýjustu upptöku sem gerð hefur verið af söng Laugaráskvartettsins, í Skálholtsdómkirkju í október, 2016. Það var Brynjar Steinn Pálsson frá Kvistholti, sem annaðist upptökuna ásamt mynd- og hljóðvinnslu.


Við bíðum eftir því að Laugaráskvertettinn nái að koma saman áfram, til að auðga tónlistarlífið, en þar er yfir Atlantsála að fara.  Kannski verður það á þessu vori. 😃

Eins og alltaf, þegar maður fer að telja upp nöfn þá er möguleiki á að gleyma einhverjum. Ég biðst fyrirfram forláts ef sú er raunin og vona að ég verði þá látinn vita svo ég geti bætt úr.

09 júlí, 2018

Nú stendur til að kanna þann möguleika, .....

Hvítárbrú hjá Iðu
.... að byggja hjúkrunarheimili í Uppsveitum Árnessýslu.
Frétt á Bylgjunni

Að hluta til fagna ég því auðvitað, að enn fer af stað umræða um að byggja hjúkrunarheimili í Uppsveitum; hjúkrunarheimili sem ætti að vera komið hér fyrir löngu.

Að öðrum hluta til lít ég þessa frétt sem enn eina umræðuna sem fær að renna út í sandinn. 

Mér finnst það gott framtak hjá Hrunamönnum að setja þessa umræðu af stað, þessu sinni. Þeir hyggjast ræða við hin sveitarfélögin um málið og vona að það náist samstaða um þetta verkefni. Það má vera orðin mikil breyting á ef slík samstaða á að nást, einfaldlega vegna þessa að allir hrepparnir eiga besta staðinn fyrir hjúkrunarheimili. Þannig er það bara.

Ég bendi, eins og oft áður, á þann samnefnara sem uppsveitahrepparnir eiga, en það er jörðin Laugarás.  Fyrir utan það, auðvitað að Laugarás er sá staður í uppsveitum sem er næst miðjunni, þá er þar heilsugæslustöð sem mikilvægt er að styrkja af öllum mætti.

Það hefur verið þannig og er enn, að þegar umræða í uppsveitunum beinist að Laugarási, eru sveitarstjórnir og reyndar íbúar hreppanna, utan Laugaráss, fljótir að fara í vörn, einfaldlega vegna óttans við að fari eitthvað í Laugarás af þeim verkefnum sem sinna þarf í uppsveitunum, sé það jafnframt tap allra hreppanna.  Vegna þess að allir vilja opinbera þjónustu til sín, fær enginn neitt. 
Svo einfalt er það nú. 

Jæja, ég er búinn að skrifa mig bláan í framan á þessum miðli mínum um þá skoðun mína, að eðlilegasti samnefnarinn í þessu sé Laugarás. Ég var búinn að ákveða að hætta að skipta mér af þessu máli og sú ákvörðun stendur enn. 

Þumbist hrepparnir enn við varðandi hjúkrunarheimili í Laugarási, tel ég eðlilegast að þeir selji jörðina.  Eignarhald þeirra á henni skaðar framþróun byggðar í Laugarási verulega. Ágætur Skeiðamaður sagði við mig að Laugarás hefði borið mikinn skaða af þessu eignarhaldi. Nú þegar Laugaráslæknishérað er ekki lengur til, er ekki lengur ástæða til þessa sameiginlega eignarhalds hreppanna á jörðinni.
Svona gengur þetta ekki áfram, að því er ég tel.
Og hananú.

Þetta er hlekkur þar sem finna má þau tilvik sem ég hef notað orðið hjúkrunarheimili undanfarin allmörg ár.




15 maí, 2018

Skurðir

Þegar ég hugsa til baka, finnst mér ekkert hafa verið í umhverfinu hér í Laugarási, sem taldist stafa hætta af. Það hefur ef til vill bara verið vegna þess að ég áttaði mig ekki á því. Þá rann opnn hveralækur með yfir 90°C heitu vatni á löðarmörkunum í Hveratúni, þeim sem snúa að brekkunni. Auðvitað var það svo Hvítá sjálf, þetta jökulfljót nánast við bæjardyrnar.
Ekki minnist ég þess að nokkurntíma hafa foreldrar mínir sett okkur einhverjar sérstakar hömlur í kringum þessar hættur í umhverfinu. Sannarlega voru þarna lífshættulegir staðir, sem eru það enn.
Ekki tel ég að við fD höfum verið sérstaklega á varðbergi gagnvart hættunum í umhverfinu þegar okkar börn voru að alast upp hérna. Það kann að sýna ábyrgðarleysi okkar.

Það eru mörg ár síðan og margt hefur breytst, ekki síst umhverfið. Nú er hverasvæðið að mestu varið fyrir umgangi, þó með góðum vilja geti fólk farið sér þar að voða enn.
Það sem hefur breyst umtalsvert er , að skurðirnir sem grafnir voru á lóðamörkum, þessir fínu skurðir sem gerðu mýrina byggingar- og ræktunarhæfa, eru orðnir gamlir og þreyttir.
Skurðir æsku minnar eru margir hverjir orðnir að einhverjum sakleysislegum dældum, en skurðirnir sem aðskilja lóðirnar sem voru byggðar síðar, eru nú margir hverjir orðnir stórhættulegir.

Mér hefur skilist að viðhald þessara skurða sé á ábyrgð leigutaka á þessum lóðum (vil þó ekki fullyrða um það), en það má öllum vera ljóst, að það þarf mikið að koma til til að þeir taki sig til og lagfæri þá þannig að hættulausir verði.

Það hefur orðið nokkur umræða um skurðamálin hér í Laugarási á undanförnum misserum eftir að hundar hafa lent í þeim og drepist eða brunnið svo þurfti að aflífa (auðvitað á heitt vatn undir engum kringumstæðum að renna í þessa skurði). 

Satt er það, við verðum að varast að gerast ekki of dramatísk í þessu sambandi. Við vitum öll af þeim hættum sem þarna eru, hegðum okkur í samræmi við það og vonum hið besta. Við vitum það jafnframt að vonin ein lætur vandann ekki hverfa.

Það er kominn tími til að leita lausna.

Ég teiknaði að gamni mínu inn á kort (sjá myndina) þá skurði sem ég þykist vita að eru opnir og margir hálffullir af vatni (ég veit af mörgum öðrum skurðum sem þarf að loka, en lét þessa duga í bili).. Þá litaði ég rauða. Ég set grænt á þá skurði sem hafa verið teknir í gegn.

Ég myndi vilja sjá þarna samstarf jarðareiganda og leigutaka um að loka þessum skurðum svo sómi sé að, hvað sem líður ákvæðum samnings (ef þar er að finna ákvæði um þetta, en ég finn minn samning ekki í augnablikinu og vil því ekki fullyrða of mikið).

Jarðareigandi á dágóðan sjóð og gott samstarf hans við leigutakana gæti komið þessu í ásættanlegan farveg.  Ég held að það geti verið þess virði, áður en eitthvað mögulega gerist sem við viljum ekki einu sinni hugsa til.





04 september, 2017

Mynd frá lokum sjötta áratugarins.


Ég var að hreinsa þessa mynd, en hún var afskaplega rispuð og illa farin. Hún er reyndar ansi óskýr enn, en á henni má þó greina ýmislegt. Ég hef áður sett inn skýringarmynd sem þessa, en en er talsvert eldri.
Ég tel að þessi mynd hafi verið tekin því sem næst árið 1958 eða 1959. Ég tel svo vera vegna þess að þarna er ekki hafin bygging á nýja bænum í Hveratúni, en það er risið gróðurhús í LaugaRgerði. Hjalti og Fríður fluttu í Laugarás 1957 og ræktuðu fyrst í gróðurhúsum Ólafs Einarssonar (nr. 5). Byggðu síðan gróðurhús og pökkunarskúr (nr. 2) áður en þau fluttu í eigið íbúðarhús í lok ár 1965. Vonandi er þetta rétt. :)
Að öðru leyti má sjá á þessari mynd:
1. Gróðurhús sem tilheyrðu Sólveigarstöðum.
2. Gróðurhús og pökkunarskúr Laugargerðis.
3. Fjárhús frá Hveratúni (í í brekkufætinum sunnan íbúðarhússins í Kvistholti)
4. Skúlagata.
5. Gróðurhús í eigu Ólafs Einarssonar, læknis. Þar stendur nú bragginn einn eftir.
6. "Gamli bærinn" í Hveratúni, sem Börge og Kitta Lemming byggðu 1942 eða 43. Þau hurfu á braut 1945.
7. Pökkunarskúr í Hveratúni. Hann mun hafa komið frá Skálholti og svei mér ef hann stendur ekki þarna fyrir framan kirkjun 1956 :) (sjá mynd)


8. Gróðurhús í Hveratúni: "Bennahús"
9. Lítið gróðurhús, getur hafa verið kallað "Kotið". Notað fyrir uppeldi og blómarækt (aðrir vita meira en ég um þetta).
10. "Þróin" steinsteypt vatnsþró þar sem heitt affall af gróðurhúsunum var kælt og síðan notað til vökvunar.
11. Gamli pökkunarskúrinn.Hann var með tveim rýmum. Vinstra megin var pökkunaraðstaða en hægra megin tækja- og áburðargeymsla.
12. "Nýja húsið" gróðurhús.
13. "Pallahús" gróðurhús
14. "Miðhúsið" gróðurhús.
15. "Kusuhús" gróðurhús. Í vesturenda þess var kýrinni á bænum, henni "Kusu" komið fyrir.
16. Hveralækur (græna brotalínan)
17. Heimreiðin í Hveratún.
Fremst á myndinni er garður þar sem ýmislegt var ræktað. Ætli Ólafur læknir hafi ekki fyrst ræktað þarna, en síðan nýttur af Hveratúnsfólki.

12 ágúst, 2017

Götuheiti í fokki.

Ég átta mig á því að fyrirsögn þessa pistils er fremur vandræðaleg, komandi frá málfarsfasistanum, mér. Fyrirsögnin er bara í stíl við þann vandræðagang sem virðist vera uppi þegar nöfn á götum og vegum í Laugarási eru annars vegar.
Ég ætla hér að birta helstu rök mín fyrir að halda þessu fram og meira að segja ganga svo langt að birta myndir máli mínu til stuðnings.

Ég byrja á kortinu sem fylgir já.is og  tína til það helsta sem þar er að sjá:
1. Vegurinn frá Skúlagötu að Ferjuvegi heitir HÖFÐAVEGUR.
2. Vegurinn sem er framhald Skúlagötu, upp brekkuna og í Austurbyggð, kallast AUSTURBYGGÐ.
3.  Vegurinn inn eftir allri Vesturbyggð kallast SKYRKLETTAGATA.
4. Á þessum vegi er síðan að finna hliðargötu sem kallast KLETTAGATA,  en úr Klettagötu kemur hliðargata sem heitir fyrst BRENNIGERÐI, en síðan HOLTAGATA.
5. Við endann á Skyrklettagötu (ef hún heitir það) er stutt gata sem heitir ÁSMÝRI.
6. Í framhaldi Ferjuvegar til vesturs má sjá götuna KIRKJUHOLT. Ekki verður annað séð að símaskúrinn græni hafi fengið hið virðulega heiti LAUGARÁS og heimreiðin að Asparlundi er í gegnum hlaðið í Kirkjuholti. Áhugavert.

Næst birti ég mynd úr kortasjá Loftmynda.

1. Gatan milli Skúlagötu og Ferjuvegar heitir SKÓGARGATA.
2. Gatan upp brekkuna í framhaldi Skúlagötu, inn í Austurbyggð heitr ekkert.
3. Gatan inn í Vesturbyggð heitir VESTURBYGGÐARVEGUR


Þá er komið að uppsveitakortinu, sem dreift er til ferðamanna.
1. Gatan milli Skúlagötu og Ferjuvegar  kallast HÖFÐAVEGUR.
2. Ekki er ljóst hvað leiðin upp brekkuna kallst, en sennilega HVERABREKKA, þar sem gamla læknishúsið ber nafnið Hverabrekka.
3. Vegurinn ínn í Vesturbyggð (Hvaða svæði í Laugarási kallast yfirleitt Vesturbyggð?) virðist ekki heita neitt fyrr en hann skiptist í SKYRKLETTAGÖTU og HOLTAGÖTU.
4. Svo er það þessi HLÍÐARVEGUR þarna efst?


Loks leita ég á náðir GOOGLE sjálfs. Hann er ekkert að flækja málin.
1. Vegurinn milli Skúlagötu og Ferjuvegar kallast HÖFÐAVEGUR.
2. Vegurinn inn eftir allri Vesturbyggð kallast ÁSMÝRI.
3. Áin sem liðast framhjá Laugarási kallast ÖLFUSÁ.


Það eru sjálfsagt til önnur kort með öðrum götunöfnum, en þegar upp er staðið þá tel ég nú að það hljóti að vera á borði yfirstjórnar sveitarfélagsins að sjá til þess að svona hringlandaháttur sé ekki fyrir hendi.
Það er heilmikið verk framundan við að:
1. ákveða endanlega heiti gatna eða vega í Laugarási.
2. tryggja að þessi nöfn séu rétt á opinberum kortum af svæðinu.

Ég hef hvergi rekist á að nafnið Dungalsvegur/Dungalsgata/Dunkabraut eða annað sem minnir á nafna minn Dungal sem fyrstur settist að við Höfðaveg/Skógargötu, árið 1962 og kallaði býli sitt Ásholt.

09 maí, 2017

Íbúafundur

Ætli mér væri ekki nær að skammast mín fyrir að hafa ekki lagt leið mína á íbúafundinn sem sveitarstjórn Bláskógabyggðar boðaði til og sem var haldinn í gærkvöld?
Nei, ég kann sennilega ekki að skammast mín, Það ætti að vera metnaðarmál mitt að mæta á íbúafund þegar sveitarstjórn gefur færi á slíku, ekki síst þar sem ég var nýbúinn að skrifa langloku í tilefni af bókun á sveitarstjórnarfundi, sem snertir málefni sem ég hef allmikinn áhuga á.

Ég fór ekki á íbúafundinn.  Ég geri mér þar með ljóst, að ég get ekki kvartað yfir að ekki skuli vera haldnir íbúafundir. Þar með er það frá.

Ég hef farið á íbúafundi. Þeir eru alla jafna þannig upp settir að það gefst ekkert færi á að fjalla um þau mál sem brenna kunna á íbúum. Jú, vissulega brenna einhver þeirra mála sem eru sett á dagskrána á einhverjum íbúanna og þeir mæta á fundinn. Aðrir sem fara, gera það ef til vill í þeirri von, að færi gefist að koma einhverju áhugamáli á dagskrá undir liðnum "Önnur mál". en það er þannig með þessa íbúafundi að dagskráin sem er í boði sveitarstjórnar, fyllir meira en þann tíma sem eðlilegt má telja að fundur sem þessi standi.

Til upplýsingar er dagskrá fundarins hér:
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar boðar til íbúafundar 
í Aratungu 8. maí 2017 kl. 20:00.
Dagskrá:
1. Löggæslumál – Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi.
2. Ársreikningur Bláskógabyggðar 2017 – Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri
3. Ljósleiðaramál, staða mála í Bláskógabyggð – Guðmundur Daníelsson
4. Samgöngumál í Bláskógabyggð – Ásmundur Friðriksson alþingismaður, formaður samgönguráðs og fulltrúi í samgöngunefnd Alþingis.
5. Framkvæmda- og viðhaldsáætlun Bláskógabyggðar 2017 – Bjarni D. Daníelsson
6. Íþróttamannvirki á Laugarvatni
7. Önnur mál.

Það sér hver maður, og það sá ég, að þarna er um að ræða málefni sem hægt væri að ræða út í hið óendanlega.  Þannig mun það hafa verið í gærkvöld.  
Eðlilega hafur fólk borið saman bækur sínar eftir fundinn og ég hef enn ekki hitt neinn sem var ánægður og fannst tíma sínum vel varið. Það er talað um of langar ræður um of lítið. Þetta hafi verið frekar leiðinlegur fundur.  Þetta er svona það sem stendur upp úr eftir því sem ég hef hlerað í dag.  

Ég vil halda því til haga, að sveitarstjórn er að vissu leyti vorkunn. Hún vill vel. Vill ástunda góð vinnubrögð. Vill gera sitt besta.  Allt sem hún gerir er hinsvegar gagnrýnivert á einhvern hátt. Það heyrist  alla jafna meira af því sem fólki mislíkar, en því sem það er ánægt með í störfum sveitarstjórnar. Þannig er það nú bara og því þarf sveitarstjórn víst að geta tekið.

Íbúafundir geta verið ágætir, en áhugamál fólks eru afar misjöfn.  Íbúar í Bláskógabyggð eru einhversstaðar nálægt 1000 og áhugamál okkar hvers og eins eru ólík.  Ég á mitt, Laugdælir eiga sitt, Hlíðamenn sitt, Þingvellingar sitt, eldriborgarar sitt (og þó ekki), foreldrar sitt, og svo framvegis.   

Ég leyfi mér að leggja til, að íbúafundir framtíðarinnar fjalli um afmarkaðri og staðbundnari mál og ekki síst mál sem eitthvað er um að segja, eða hafa skoðun á.  Fyrir fundi af því tagi þyrftu sveitarstjórnarmenn að vera búnir að kynna sér mál í þaula og móta einhverskonar afstöðu til þeirra, en samt vera tilbúnir að hlusta og taka rökum.  Ég held að slíkir íbúafundir yrðu frjórri en það sem mér skilst að boðið hafi verið upp á í gærkvöld.

Í mínum huga gætu svona opnir fundir sveitarstjórnar verið af tvennum toga; annarsvegar upplýsingafundir, svipaðir þeim sem var haldinn í gærkvöld og hinsvegar samráðsfundir, þar sem samtal á sér stað milli sveitarstjórnar og íbúa um afmörkuð málefni.

Sannarlega ber að þakka sveitarstjórn það að hafa haldið fundinn í gærkvöld. Það er ekkert sjálfgefið að slíkir fundir séu haldnir.  Svo er ár í kosningar... og svona :), en ég held að það hafi nú ekki verið ástæða fundarins.

Mér finnst ekki nægilega gaman á fundum til að sækja þá bara til að sýna einhvern lit. Ég vil gjarnan fara á fundi sem eru vel skipulagðir, afmarkaðir og um málefni sem ég hef áhuga á.

Áfram sveitarstjórn, til allra góðra verka, eins og stundum er sagt.



08 maí, 2017

Enn á að selja

Ég virðist æ oftar vera búinn að fjalla um málefni sem ég kýs að taka hér fyrir. Þessu sinni hér og hér.

Mér virðist ljóst, að vilji uppsveitahreppanna til að losa sig við jörðina Laugarás, sem sýslunefnd Árnessýslu keypti upp úr 1920, undir læknissetur, fari vaxandi. Ekki ætla ég að hafa sérstaka skoðun á því, utan þá sem ég hef oft áður tjáð, sem felst í því að Laugarás teljist í hugum ýmissa í uppsveitum, hálfgerður vandræðagemlingur, sem truflar eðlilega uppbyggingu á svæðinu, komi að einhverkju leyti í veg fyrir að hrepparnir fái að blómstra, hver á sinni forsendu.  Það hefur hver sína skoðun á þessu, eins og við má búast.

Í gær rakst fD, sem fylgist grannt með sveitarstjórnarmálum í Bláskógabyggð, á lið í fundargerð sveitarstjórnar, sem hljóðar svo:

198. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, 5. maí, 2017
6. Bókun Skeiða- og Gnúpverjahrepps um Laugarásjörðina. Lögð fram bókun frá fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps, dags. 7. desember 2016. Í bókununni kemur fram að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur eðlilegast að setja hlut Laugarásjarðarinnar sem er í eigu sveitarfélaganna í Uppsveitum Árnessýslu í sölu. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að fela oddvita og sveitarstjóra að skoða forsendur málsins og afla gagna. Jafnframt að eiga viðræður við forsvarsmenn hinna eignaraðilanna.

Þar sem mig langaði að vita meira um uppruna þessa, fann ég umrædda samþykkt sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

36. fundur sveitarstjórnar Skeiða-og Gnúpverjahrepps 7. desember 2016
Samningar og umsagnir:
28. Samningur um umsjón jarðarinnar Laugarás. Þarfnast staðfestingar samningur staðfestur. Gunnar Örn Marteinsson lagði fram svohljóðandi bókun : Eðlilegast er að setja hlut Laugarásjarðarinnar sem er í eigu sveitarfélaganna í sölu. Á þeim tíma sem sveitarfélöginn sem stóðu að uppbygging heilsugæslu í Laugarási keyptu þau land og heitavatnsréttindi í Laugarási, þau kaup voru nauðsynleg á þeim tíma, í dag eru hinsvegar aðrir tímar og eingin þörf fyrir sveitarfélöginn að hald í þessa eign. Samþykkt samhljóða.  

(málfar og stafsetning er eins og það er í fundargerðinni)

Ekki nenni ég að leita eftir bókunum um málið í fundargerðum annarra hreppa.
Bókunin sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Skeiða-og Gnúpverjahrepps er ósköp blátt áfram: allir voru sammála um að eðlilegast væri að selja Laugarásjörðina vegna þess að nú væru breyttir tímar.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tók þessa samþykkt fyrir fimm mánuðum síðar, svo ekki virðist nú vera mikill asi.  Sveitarstjórnin samþykkti, samhljóða, að fela oddvita og sveitarstjóra að skoða forsendur málsins og afla gagna. Jafnframt að eiga viðræður við forsvarsmenn hinna eignaraðilanna.


Óhjákvæmilega vakna ýmsar spurningar þegar bókanir af þessu tagi eru lesnar. 
Til að halda því til haga, fyrir þá sem ekki vita, þá eru allar lóðir í Laugarási, ef frá er talin svokölluð "sláturhúslóð", þar sem nú stendur yfir bygging á miklu hóteli, leigulóðir.  Þannig greiða allir lóðarhafar leigu til Bláskógabyggðar, enda telst Laugarás vera hluti af því sveitarfélagi (áður hluti af Biskupstungum). 

Hér eru nokkrar spurningar sem svara þarf með óyggjandi hætti, að mínu mati:

1. Eiga uppsveitahrepparnir Laugarásjörðina?  

Í læknablaðinu í apríl 1922 segir svo m.a. um fjárveitingar í fjárlögum fyrir árið 1923:
"alt að 11000 handa Árnessýslu til þess að kaupa Laugarás fyrir læknissetur".  
Þarna var sem sagt um að ræða framlag ríkisins til Árnessýslu
Brynjúlfur Melsteð skrifaði eftirfarandi í tengslum við byggingu Iðubrúar í janúar, 1952:
"Það var viturleg ráðstöfun er Sýslunefnd Árnessýslu keypti á sínum tíma Laugarás fyrir læknissetur".

Samkvæmt þessu var það sýslunefnd Árnessýslu sem keypti jörðina, en ekki uppsveitahrepparnir. Sannarlega ætla ég ekki að efast um eignarhald hreppanna, en það þarf þá að liggja fyrir.

Ef hrepparnir eiga jörðina, hvenær eignuðust þeir hana?
Hver er eignarhluti hvers og eins? 
Hvað greiddi hver og einn fyrir hana? 
Hverjar eru tekjur hvers hrepps af jörðinni?
Hver er kostnaður hvers hrepps af þessari eign?

2. Hvernig sala á þetta að vera?

Í samþykktri bókun Skeið/Gnúp segir: Eðlilegast er að setja hlut Laugarásjarðarinnar sem er í eigu sveitarfélaganna í sölu.   Þetta felur ekkert annað í sér en að þetta þyki sveitarstjórninni "eðlilegast" og þá mögulega að það sé "óeðlilegt " að hreppurinn eigi einhvern hlut í jörð í öðru sveitarfélagi. Ekki ætla ég að agnúast út í það.  Mig grunar hinsvegar að þarna á bak við hljóti að vera eitthvað fleira, sem ekki er sagt. Vissulega er það rétt sem fram kemur, að margt hefur breyst frá því jörðin komst í eigu sýslunefndar Árnessýslu og vel kann að vera að kominn sé til á að endurskoða eignarhald á jörðinni.  
Samþykki allir hrepparnir að kominn sé tími til að selja Laugarásjörðina (sem þeir eiga væntanlega), hverjir eru þá mögulegir kaupendur?

3. Þurfa Laugarásbúar að hafa áhyggjur?

"Til sölu er jörðin Laugarás í Bláskógabyggð"
Mun þetta birtast okkur svona, rétt eins og auglýsing um sumarbústað til sölu?  
Því er ekki að neita, að maður veltir fyrir sér ýmsum "sviðsmyndum"  við tilhugsunina um, að Laugarás verði selt, rétt eins og hver önnur bújörð í Bláskógabyggð, þó mig gruni að hugsunin sé frekar, að Bláskógabyggð kaupi. En vill Bláskógabyggð það? Um það hef ég ákveðnar efasemdir, svona í ljósi sögunnar.  Ég held hinsvegar, að Bláskógabyggð hafi ekki val.

Hvað gerist nú ef Bláskógabyggð vill ekki kaupa?  Myndi Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur eða Grimsnes- og Grafningshreppur sjá einhvern hag í að eignast þessa kostajörð?

Vilji allir hrepparnir selja, en enginn kaupa, hvað gerist þá?  Auðvitað yrði jörðin auglýst, eins og hver önnur jörð, væntanlega á evrópska efnahagssvæðinu.
Mögulegir kaupendur, hverjir gætu þeir nú verið?
1. Orkufyrirtæki - Orkuveita Reykjavíkur hefur haslað sér völl víða.
2. Skálholt - á sennilega ekki pening.
3. Eigendur nýja hótelsins?
4. Erlendur milljarðamæringur.
5. Hlutafélag í eigu óþekktra aðla, sem mögulega, hugsanlega vilja flytja heim fé sunnan úr höfum.
6. Íbúar í Laugarási. 

Ef hrepparnir vilja selja til þess að fá pening í hreppakassana, er auðvitað eðlilegast að auglýsa bara og sjá hver býður best. Þar með væru þeir líka að henda íbúunum út á kaldan klaka í mikilli óvissu um hvað við tæki.  Öllum lóðasamningum yrði þá sagt upp og íbúunum boðið að semja aftur, um margfalda leiguupphæð.

Mér finnst sjötti liðurinn áhugaverður. Bláskógabyggð myndi kaupa jörðina með gæðum og gögnum, á málamyndaverði, að öðru leyti en þann hluta hennar sem nú þegar er leigður undir íbúðabyggð. Íbúunum yrði gefinn kostur á að kaupa sínar lóðir fyrir málamyndaupphæð í hlutfalli við landstærð, t.d.hundrað krónur á hektara.  Ég veit að mörgum mun finnast þetta fáranleg hugmynd, en ég tel hana ekki vitlausari en margt annað, að minnsta kost þangað til ég fæ upplýsingar um hvað hver hreppur greiddi fyrir jörðina á sínum tíma, ef eitthvað.
Reyndur sveitarstjórnarmaður sagði eitt sinn við mig að hreppar væru ekki gróðafyrirtæki.

Ætli ég láti þetta ekki duga í bili.  Held áfram að hafa áhyggjur.


11 apríl, 2017

不要在我的花园里屎 - No cagar en mi jardín - Don't shit in my garden

Tillaga að veggskreytingu á símaskúrinn.
Ég reikna með því að það sé vegna þess að ég á EOS, sem ég fæ stundum ábendingar frá nágrönnum um hitt og þetta. Eina fékk í gærkvöld:

Í tilefni frétta af óþrifnaði túrista þá nefnum við, að það hefur verið töluverð ásókn í að gera þarfir sínar við símaskúrinn. Í dag var t.a.m. stór hlessingur með tilheyrandi pappír.
Tækifæri f. þig og Eos.

Einnig var fjallað um fyrri dæmi um svipað atferli á þessum slóðum, og nefnd dæmi um Íslendinga sem léttu á sér og brúkuðu síðan kjaft þegar þeir voru atyrtir.

Ég verð nú að viðurkenna, að þetta með EOS-inn kitlaði aðeins og ég lagði leið mína að gatnamótum Skálholtsvegar og Ferjuvegar þar sem er að finna grænan símaskúr, sem allt eins gæti verið almenningssalerni. 
Ég fann fyrir lítilsháttar skilningi á aðstöðu fólks sem sér skúrinn, sér vonina um að geta létt af sér því sem fólk þarf að létta af sér með reglulegu millibili. Þegar það síðan uppgötvar að þarna er um að ræða tengivirki símans, er það bara of seint og ekki um að ræða annað en láta náttúruna hafa sinn gang.  
Auðvitað getur það einnig verið svo að gestir okkar líti á þetta land sem náttúruparadís og að í náttúruparadísum sé heimilt að sinna frumþörfum sínum án þess að til þurfi að koma einhver mannvirki.
Ég veit það svei mér ekki. 

Það er mér þó ljóst, eins og mörgum öðrum, að þetta gengur bara ekki svona. Hvað er til ráða, Ég hef ekki hugmynd hugmynd um hvað er til ráða frekar en aðrir, að því er virðist.   Jú, jú, ég get tekið myndir á EOS-inn og skrifað pistil um málið, en það bara breytir engu. 

Ég held að tvennt valdi þessari stöðu: 
a. salerni ætluð ferðafólki eru alltof fá (innviðavandamálið) og 
b. ferðamenn fara um landið í of ríkum mæli á eigin vegum í bílaleigubílum eða "kúga"-vögnum sem gera ekki ráð fyrir að þaurfi að kúka.

Dæmið sem birtist hér á myndunum sýnir að viðkomandi vildi hafa vaðið fyrir neðan sig. Ákvað að sinna verkefni sínu við horn símaskúrsins þar sem hann gat síðan haft varann á sér og var í minnstri hættu á að verða gripinn með allt glóðvolgt fyrir neðan sig.

Ég læt þetta duga, en leyfi myndunum að njóta sín. Þeir sem áhuga hafa geta sé nákvæmari mynd af afurðinni hér lengra fyrir neðan, en sannarlega ræð ég þeim frá því, þó auðvitað gefi ég kost á að  fólk geti rekið nefið í "hlessinginn"og séð hvað viðkomandi borðaði síðast. :)

Ég veit að þið skrollið öll niður 
😎   
þar með eruð þið búin að missa réttinn til að hneykslast á myndbirtingunni. 
































25 desember, 2016

Jólajákvæðni

Stundum eiga sér stað átök hið innra. Það er svona eins og með klassísku myndina af púkanum með þríforkinn á annarri öxlinni og englinum með geislabauginn á hinni. Maður stendur frammi fyrir einhverju sem hægt er að bregðast við með tvennum hætti: annaðhvort að "standa í lappirnar" og berjast gegn meintu óréttlæti eða broti gegn þér og hagsmunum þínum, eða sýna skilning, sjá aðrar hliðar á málinu, neita að trúa því að eitthvað annað búi undir en virðist vera við fyrstu sýn.

Þarna kristallast baráttan milli engilsins og púkans, sem báðir búa innra með þér og valda því að þú er oftast í ákveðnum vafa þegar kemur að því að bregðast við ytra áreiti.  Það er, sem betur fer svo, að oftar en ekki er það engillinn ber sigur úr býtum, í það minnsta út á við. Maður hneigist til að trúa því, á endanum, að það sé ekki verið að brjóta á þér með neinum hætti. Maður kemst að þeirri niðurstöðu að það séu málefnalegar ástæður fyrir því sem kann að líta fremur illa út við fyrstu sýn.

Ekki neita ég því að púkarnir hafa háð dálitla baráttu á öxlum mínum undanfarnar vikur og sjálfsagt fleirum í umhverfi mínu. Það er dálítið kaldhæðnislegt í kringum hátíð ljóssins, að barátta þeirra er til kominn vegna ljóss sem kom og kom ekki, réttinn til ljóssins eða ekki. Kannski hefur þetta snúist um baráttuna milli þess sem samfélagið ætti að gera fyrir þig eða þú fyrir samfélagið, vegið á móti því sem samfélaginu er ætlað að öðru leyti. Mögulega gæti þetta snúist um kröfur til samfélagsins sem eru eðlilegar eða óeðlilegar.

Ég átta mig á því, að það sem er búið að brjótast í mér og fleirum að undanförnu eru siðferðisleg álitamál framar öðru eins og reyndar afar mörg mál um alllanga hríð, sem smám saman hafa gert það erfiðara að taka afstöðu með englinum. Það er þessi eilífa spurning um réttlæti og ranglæti, sem hægt er að teygja og toga þangað til að þessu háleitu hugtök verða að merkingarlausum klisjum.

Með engilinn sigri hrósandi á annarri öxlinni og sigraðan púkann á hinni held ég áfram göngunni í gegnum það sem er og verður, héðan í frá sem hingað til.
Þó engillinn hafi sigrað þessu sinni, veit maður aldrei hvað gerist næst.

Hvítárbrú hjá Iðu í desember 2016 - fyrir PS

Hvítárbrú hjá Iðu í desember 2016 - eftir PS



07 nóvember, 2016

Með hálfum huga

'Furðufuglar" með nýju merkingunni.
Hver er mögulegur tilgangur minn með því að auglýsa sjálfan mig?
Þykist ég hafa eitthvað fram að færa umfram aðra?
Er ég með þessu að sýna af mér samskonaar innræti og faríseinn í Biblíunni?
Þetta eru mikilvægar spurningar þegar maður spyr sjálfan sig þeirra þar sem maður stendur frammi fyrir því að ákveða hvort maður opinberar verk sín fyrir öðru fólki.

Fyrir nokkru hélt fD sýningu á myndverkum sem hún hefur unnið að undanfarin ár. Þetta gerði hún eftir mikla umhugsun og vangaveltur af því tagi sem nefndar eru hér fyrir ofan. Lét vaða og það sem meira er, henni tókst að draga mig inni í málið einnig.

Sýningin gekk glimrandi vel og nú er frúin nánast horfin inn í dyngju sína til að freista þess að vinna upp lagerinn sem tæmdist.  Tenórsöngurinn sem oftast hefur verið í bakgrunni er hljóðnaður um stund.

"Verð ég ekki að setja upp einhverja síðu?" var óhjákvæmileg spurning í kjölfar sýningarinnar. Svarið var einnig óhjákvæmilegt. Og framkvæmd verksins einnig.
Nú er hafin uppestning á galleríi í kjallaranum í Kvistholti.
Auðvitað mun það heita 'Gallerí Kvistur'
Sem fyrr þegar ég fæ spurningar, tæknilegs eðlis frá fD, kemur svar mitt: "Ég veit ekkert hvernig það er gert". Spurningin hljóðnaði samt ekki og ég fór að prófa mig áfram og komst fljótt að því, að enginn þeirra möguleika sem boðið var upp á passar við það sem um var að ræða.  Valdi þar með bara einhvern sem gat ekki verið langt frá því rétta.

Það var ekki um að ræða að mynd af fD yrði gerð að prófíl mynd síðunnar, en hún reyndist ekki í vandræðum með að finna lausn á því máli: "Getum við ekki bæði notað þessa síður og merkið sem þú bjóst til?"  og þar með var ég orðinn virkur þátttakandi í innihaldi þessarar kynningarsíðu. Þarna skyldu sem sagt vera myndverk okkar beggja, sitt á hvað undir vörumerki Kvisthyltinga, en það hannaði ég fyrir rúmum þrjátíu árum og gerði grein fyrir tilurð þess hér.  Merkið hef ég síðan notað til að merkja ljósmyndir sem ég hef dundað mér við að taka og vinna úr síðan. Nú fékk þetta merki nýtt og mikilvægt hlutverk: að fylgja öllum myndverkum fD héðan í frá.

Það þarf ekki að orðlengja það, en í morgun var síðunni https://www.facebook.com/kvisturart/ varpað út í alheiminn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég neita því ekki að það bærðust með mér ýmsar hugsanir þar sem ég sat frammi fyrir því að hefja útgáfuna, en lausnarorðin voru, á nútímamáli, en aðeins í huganum: "Fokkitt" og þar með smellti ég á fyrsta mögulega gestinn á síðunni.

Úr því ég er blandaður í málið hlýt ég að birta hér mynd
af minni mynd. Hún ber nafnið 'Verkfallsórar' máluð í
síðasta verkfalli ævi minnar í mars 2014.
Ég hef látið þess getið að mynd þessi sé föl fyrir
ISK350000. Þetta er akrýlmynd 140x130 cm.

29 september, 2016

Er þetta nú svona merkilegt?

Inngangur, eða bakgrunnur

Ég kann ekki að taka myndir af norðurljósum og hef heldur ekki þolinmæði til að standa tímunum saman í bítandi kulda við að horfa á þau.  Ekki fD heldur og enn síður en ég.
Samt, eftir óendanlegan áróður í fjölmiðlum í marga daga, vorum við búin að fá á tilfinninguna, að við myndum bera ábyrgð á því að láta lífið sjálft framhjá okkur fara ef við legðum ekki leið okkar út fyrir hússins dyr til að líta þá himnanna dásemd og ólýsanlega dýrð dansandi norðurljósanna í gærkvöld. Ég lét mig hafa þetta, jafnvel þó ég hefði, hefði ég verið með réttu ráði, átt að kúra undir sæng til að ná úr mér flensuskít. Ég hugsaði þetta sem svo, að þarna þyrfti ég að velja á milli heilsunnar og norðurljósanna. Heilsan vék.
Ég er viss um, að ef áróðurinn fyrir framsóknarflokknum verður jafn brjálaður og fyrir þessari norðurljósasýningu, gæti vel farið svo að hann fái atkvæði mitt þegar sá tími kemur.

fD hefur ekki lagt það á sig undanfarna áratugi að fara úr húsi til að skoða norðurljós, svo ég muni, en ég hef gert það nokkrum sinnum og þá aðallega til að láta á það reyna hvort mér tekst að ná myndum sem ég tel vera boðlegar. Það hefur ekki tekist enn og ég er kominn að þeirri niðurstöðu, að til myndatöku af þessu tagi þurfi sérfræðinga, sem eru tilbúnir  að vaða elda og brennistein, í bítandi kulda, kvöld eftir kvöld, tímunum saman, með fullkomnustu græjur sem völ er á, til að ná einhverjum myndum af viti, en ekki meira um það.

Út í myrkrið

Við héldum út í myrkrið um 22:30 í gærkvöld á Qashqai. Ég dúðaði mig eins og kostur var í þeirri von að mér myndi ekki slá niður og enda í kjölfarið á sjúkrastofnun.  Að sjálfsögðu var EOS-inn með í för og þrífóturinn mikli. Ég var búinn að forstilla tækið í samræmi við mjög misvísandi leiðbeiningar, sem höfðu fylgt ofangreindum áróðri.

Fyrsti staður 

Á fyrsta staðnum sem reyndum, við vestari endann á brúnni, lýsti fD með sýnum hætti því sem fyrir bar, sem var bara norðurljósalaus, stjörnubjartur himinn. Ég reyndi að malda þarna nokkuð í móinn; hélt því á lofti sem fjölmiðlar höfðu sagt að myndi gerast, maður þyrfti að vera þolinmóður.
Ég stillti öllu upp, tilbúinn fyrir hinn glæsilega dans, en velti því jafnframt fyrir mér, hversvegna í ósköpunum ég léti ekki bara duga að horfa á dýrðina þegar og ef hún birtist. Þúsundir fólks væru nú úti í sömu erindagjörðum og ég, með mismerkilegar græjur og mis hæft til myndatöku af þessu tagi, fullt vonar um að nú myndi það ná  hinni einu sönnu norðurljósamynd.
Þessar pælingar komu ekki í veg fyrir að ég stillti upp. Ég gat þó haft Hvítárbrúna og Skálholtskirkju í forgrunni og hafði því talsvert forskot á flesta.
Ég byrjaði á að taka mynd af brúnni, Í þann mund kom bíll vestan að og lýsti hana upp. EOS-inn lokaði ekki ljósopinu fyrir en bíllinn var kominn nokkuð inn á brúna. Þarna varð til hin ágætasta mynd, sem er hér efst, og ég hef kosið að kalla: "Ljósmengun".

Annar staður

Það bólaði lítið á ljósunum merku og því varð það úr að við ókum sem leið lá að heimreiðinni í Skálholt. Þarna sýndum við af okkur talsverða þolinmæði. Það var einmitt þarna, sem dans norðurljósanna hófst af einhverri alvöru. Ég smellti og beið, smellti og beið, stillti, smellti og  beið, stillti aftur hraða, ljósop, ISO og allt þetta sem maður stillir og beið.
Þarna dönsuðu norðurljosinn sannarlega í tvær mínútur eða svo og auðvitað sagði ég "VÁ", en ekki "WOW".
Að þessum tveggja mínútna dansi loknum gerðist ekkert. Þarna var bara einhver ólöguleg ljósrák eftir himinhvolfinu. Við þær aðstæður var ákveðið að prófa nýjan stað.

Þriðji staður

Nú lá leið inn á gamla Skálholtsveginn, þar sem Skálholtskirkja, upplýst í bak og fyrir, blasti við. Hugsunin var að að ná glæsilegri mynd af kirkjunni, baðaðri í ljósum, umvafðri dansandi himinljósum. Í huganum gæti þarna orðið til verðlaunamynd.
Upp var stillt og tilraunaskot framkvæmd. Ekki verður nú sagt hér, að dýrð ljósanna hafi valdið því að ég félli í stafi (og þá ekki fD). Ég smellti þó og beið, eins og maður gerir.  Alltaf var ljósum prýdd kirkjan hroðalega yfirlýst á myndunum, jafnvel þó ég héldi fingrum fyrir neðri hluta linsunnar, stóran hluta lýsingartímans (tæknimál).  Í rauninni var það eina markverða sem gerðist á þessum stað, þar sem ég einbeittur stillti fyrir næsta skot, að vinstra megin við mig heyrðist óhugnanlegt og ókennilegt hljóð, sem varð til þess að ég hrökk í kút að kuldahrollur hríslaðist niður bakið. Það munaði sáralitlu að þrífóturinn missti fótanna þar sem ég stökk upp. Þegar um hægðist í huganum leit ég í þá átt sem hljóðið hafði borist úr. Þar sá ég grilla í nokkur hross, en eitthvert þeirra virðist hafa ákveðið að láta vita af sér með ofangreindum hætti.

Fjórði staður

Þrátt fyrir að hugurinn stefndi heim og undir sæng, klukkan talsvert farin að ganga tólf, varð úr að við lögðum leið niður í sláturhús (þar sem glæsihótelið mun rísa, að því er oddvitinn segir).
Á þessum fjórða stað reyndust norðurljósin vera á vitlausum stað, en í huganum hafði ég séð þau dansa yfir Vörðufelli og í forgrunni væri stórfengleg brúin.
Sú ljósasýning sem þarna átti sér stað, náði aldrei að uppfylla vonir mínar og svo fór að ég pakkaði saman og við héldum við svo búið heim.  fD fjallaði á leiðinni um það hvernig norðurljós æsku hennar hefðu fyllt himinnin tímunum saman í ægifögrum dansi. Ég vildi á móti halda því fram, að ekki væru nú alveg treystandi á að æskuminningar færu með rétt mál.

Lok

Í dag fór ég svo að vinna myndirnar. Þær voru eins og ég átti von á, en ég hafði vonað að ljósblossanum sem á að vera Skálholtskirkja, gæti ég breytt þannig að í það minnsta væri hægt að sjá hvað fælist í ljósinu, en vonin sú brást.
Ég veit, að þegar ég hitti næst norðurljósdýrkendur fái ég að heyra allt um hve frábær norðurljósin (já, jafn vel geðveik) hefðu verið upp úr miðnættinu.  Þá var ég bara hættur að fylgjast með.  Ef mig langar að sjá norðurljós aftur, þá reikna ég með að þau eigi eftir að sýna sig, þó síðar verði.


FLEIRI MYNDIR

02 september, 2016

Úrið

Þó frá og með nýliðnum mánaðamótum beri ég hinn virðulega titil  "ráðgjafi" þýðir það ekki að ég sé fær um að gefa ráð varðandi hvað sem er. Ráð mín varðandi nýja námskrá fyrir framhaldsskóla geta orðið óteljandi og viturleg að stærstum hluta, en þau munu sennilega ekki alltaf falla í kramið, þar sem þau litast óhjákvæmilega á skoðun minni á því fyrirbæri.
Ég hef skoðun á flestu og um margt get ég veitt fólki ráð kjósi ég svo. Þó eru til þau svið þar sem ráð mín, ef ég á annað borð er tilbúinn að gefa þau, munu verða gagnslaus og byggð á mikilli vanþekkingu og áhugaleysi. Þetta á t.d. við um nýja úrið sem fD fékk að gjöf frá afkomendum í tilefni stórafmælis fyrir nokkru.
"Hvernig virkar þetta?"
"Afhverju kemur þetta?
"Hvað á ég að gera núna?"
"Hvernig losna ég við þetta "auto"?"
"Hvað gerist svo þegar ég kem heim?"
"Á svo bara að smella hér?"
"Hvernig stillir maður þetta?"
Þessar spurningar eiga það sameiginlegt, að við þeim hef ég ekki haft nein svör og get þar af leiðandi ekki gefið nein ráð, utan hið eina sem ég gef ávallt þegar þær spretta fram: "Þú verður bara að spyrja..." svo nefni ég tiltekinn höfuðborgarbúa, sem er nær því að tilheyra græjukynslóð en við.
Að öðru leyti hljóma svör mín t.d. svona:
"ÉG veit það ekki."
"Ég hef ekki hugmynd um það."
"Hvernig á ég að vita það?"
"Þú bara syncar það við símann."
"Hef ekki grun um það."

Það er alveg sama þótt ráð mín varðandi úrið séu algerlega gagnslaus, spurningarnar spretta fram, þó vissulega fari þeim fækkandi og nú er orðið hægt að merkja meiri sjálbærni í samskiptum fD og úrsins.

Til nánari útskýringar á úrinu má geta þess, að um er að ræða svolkallað GPS-úr sem maður getur látið mæla nánast alla hreyfingar sem eiga sér stað í líkamanum, með mikilli nákvæmni, jafnt í vöku og svefni. Síðan er hægt að láta það senda upplýsingar í viðeigandi APP í símanum, þar sem síðan er hægt að njósna um líkamsstafsemi sína niður í smæstu einingar.  Svona græja hentar ekki síst fólki sem stundar líkamsrækt af einhverju tagi, til að mæla vegalengdir, skrefafjölda, hjartslátt og kalóríubrennslu, svo eitthvað sé nefnt.
Nú skellir fD úrinu á sig fyrir hverja gönguferð og tekst á endanum að láta það synca við símann að gönguferð lokinni. Fagnar glæstum kalóríubruna og spyr síðan hvernig hægt er að skoða þetta eða hitt, annað.
Það nýjasta snýst um þetta "AUTO", en þannig er á í gönguferðir fer hún með bæði úrið á úlnliðnum og símann í vasanum, hvorttveggja stillt il að mæla vegalengdir og kalóríubrennslu. Þegar hver ganga stendur síðan sem hæst byrjar úrið að láta ófriðlega á úlnliðnum, sýnir "auto" á skjánum og í sama mund hefst tónlistarflutningur í símanum. Það fór nánast heil ganga hjá henni fyrir nokkru í að finna út úr hvernig ætti á fá þessa "ömurlegu" tónlist til að hætta.  Það tókst hjá henni að lokum, en eftir stóð spurningin um tilganginn með látunum í úrinu og tónlistinni í símanum. Þessa spurningu fékk ég, ráðgjafinn. Þar sem ég, eðlilega, hef ekki hugmynd um þetta, svaraði svaraðí ég í þá veru.
"Ég fer þá með símann með mér í bæinn í dag."

Ég set spurningamerki við þetta úr, ekki síst þar sem talsvert oft hittist svo á, að ég slæst í för á gönguferðunum um Þorpið í skóginum og nágrenni. Það er nefnilega þannig, að með tilkomu úrsins hefur sprottið fram ófyrirsjáanleg samkeppni fD við sjálfa sig, með þeim afleiðingum að göngurnar verða æ lengri. Með sama áframhaldi verður spurning um hvort hún nær háttum (kvöldfréttum, á nútímamáli).


02 ágúst, 2016

Í bráðri lífshættu

Dæmi um límmiða á stiganum
Á fyrstu árum áttunda áratugs síðustu aldar var sumarvinnan mín brúarvinna og eftir mig liggja allmargar merkar brýr, svo sem nærri má geta. Ætli tvær þær eftirminnilegustu séu ekki brúin yfir Þjórsá fyrir ofan Búrfell og brúin í botni Skötufjarðar á Vestfjörðum hún hefur nú vikið fyrir annarri og nútímalegri, sem styttur leiðina fyrir fjarðarbotninn).
Á vorin tók það aðeins á fyrstu dagana að príla upp í stillansana og ógnvænlegt, mögulegt hrap niður í straumhart jökulfljót, eða grjótharða klöpp blasti við. Lofthræðslan rjátlaðist fljótlega af manni og  áður en varði var maður farinn að príla upp og niður, þvers og kruss án þess að leiða hugann að einhverju mögulegu falli. Þarna var ég nokkuð yngri en nú; menntaskólagaur, eitthvað liprari, léttari og óvarkárari.
Þar með vippa ég mér fram í tímann um vel á fimmta tug ára, til dagsins í dag.

Það lá fyrir að það þurfti að bera á húsið á þessu sumri og ekki hefur nú vantað blíðviðrið til þess arna. Heimadveljandi Kvisthyltingar gengu í verkið og auðvitað var byrjað á þeim hlutum hússins sem auðveldastir eru, en þar kom að ekki varð því frestað lengur að takast á við þá hliðina sem fram á hlaðið snýr. Af ókunnum ástæðum kom það í minn hlut að sjá um að bera á þennan hluta, allavega efri hluta hans ("Ég skal reyna að bera á undir gluggunum" - var sagt). 
Auðvitað var mér það vel ljóst, að ekki yrði um að ræða að fresta verkinu út í hið óendanlega og því fékk ég mikinn álstiga að láni hjá Hveratúnsbóndanum. Þessi stigi getur verið langur, alveg ógnarlangur. Svo langur að framleiðandinn hefur, örugglega í ljósi reynslunnar, klístrað á hann límmiðum hvar sem við var komið, með varnaðarorðun og nánast hótunum um slys eða dauða ef ekki væri rétt farið með stigann.
"HÆTTA. Ef leiðbeiningar á þessum stiga eru ekki lesnar og þeim fylgt, getur það leitt til meiðsla eða dauða", er dæmi um lesefni á límmiðunum. Ég játa það, að lesefnið var ekkert sérlega hvetjandi, þvert á móti.
Þó svo í gegnum hugann hafi þotið leiftur um allskyns fall með eða úr stiganum, þar sem ég myndi t.d. ligg, fótbrotinn, handleggsbrotinn, nú eða höfuðkúpubrotinn á stéttinni, leiddi ég þau hjá mér af fremsta megni. Fjandinn hafi það, ég hafði klifrað upp þennan stiga áður til að mála þennan sama gafl, og mundi óskaplega vel eftir tilfinningunni.

Til að orðlengja það ekki og kynda þannig undir frestunaráráttunni, þá stóð ég við stigann með málningarfötu og pensil í annarri hönd/hendi. Hinn endi stigans var einhversstaðar þarna hátt uppi, svo hátt, að hann mjókkaði eftir því sem ofar dró. Efst mátti greina mæninn, tveim hæðum, plús hæð rissins ogar jörðu. Uppgangan hófst, hægri fótu upp um  rim og síðan vinstri fótur að þeim hægri og svo koll af kolli, um leið og vinstri hönd var beitt til að halda jafnvægi. Ég horfði beint fram, á húsvegginn og alls ekki niður og helst ekki upp heldur.
Um miðja leið fór stiginn að titra og síðan vagga til hliðanna og mér komu í huga, með réttu eða röngu ljóðlínur úr Grettisljóðum Matthíasar:
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,
heldur í feldinn, horfir í eldinn
og hrærist ei.
Þarna er lýst spennunni sem verður til þar sem maður veit ekki hvað er framundan. Ég bara vonaði að framhaldið yrði ekki eins og fram kemur aðeins síðar í ljóðinu, nefnilega:

Það hriktir hver raftur.
Hann ríður húsum og hælum lemur,
það brestur,
það gnestur,
nú dimmir við dyrin,
það hlunkar, það dunkar,
það dynur, það stynur.
Framhaldið varð ekki eins og í ljóðinu. Smám saman og á þrjóskunni einni saman, nálgaðist ég efri enda stigans og þar með einnig vegginn. Til þess að ná alla leið upp í kverkina undir mæninum þurfti ég að stíga í eitt efstu þrepanna í stiganum og mála síðan nánast beint upp fyrir mig.
Óvíst var hvernig ég færi með að halda jafnvæginu við þessar aðstæður, en smátt og smátt, með því að hugsa hverja hreyfingu áður en hún var framkvæmd, tókst mér að teygja mig alla leið. Út úr kverkinni skaust stærðar kónguló með hvítmálað bak og ekki einu sinni reiðileg framganga hennar varð til þess að ég missti taktinn, slík var einbeitingin. Ég málaði og málaði, bar á og bar á og þar kom að þarna gat ég ekki málað meir, niðurferðin hófst: fyrst vinstri fótur niður og siðan hægri fótur að honum, meðan pensill og dós héldu hægri hönd upptekinni starfaði sú vinstri við að halda öllu í réttum skorðum.
Eins og lesa má út úr þessum pistli komst ég til jarðar, óskaddaður og þess albúinn að klifra upp aftur jafnskjótt og viðbótarmálning hefur verið keypt og það hættir að rigna.

(myndir: óttaslegin fD, eða þannig)

07 júlí, 2016

Einn komma fimm kílómetrar um álfabyggð

MYND 1 -
Aðal gönguleiðin á Vörðufell (um það bil)
Þegar við gengum á Vörðufell í (eld)gamla daga fórum við aðra leið en nú. Þá var lagt af stað frá sumarbústaðnum sem er beint á móti Iðu (sjá mynd 2) - ég í það minnsta. Leiðin lá í gegnum stórgrýtisbelti í miðri hlíðinni, sem var auðvitað því stórfenglegra sem göngufólkið var lágvaxnara. Ekki held ég að við höfum endilega verið að ganga á fjallið, kannski frekar að heimsækja þann ævintýraheim sem þessir klettar (eða stórgrýti) var.
MYND 2
Ljósasta minning mín frá einni slíkri gönguferð átti sér stað þegar ég var líklega í kringum 10 ára. Ekki þori ég samt að fullyrða það.  Við fórum þarna uppeftir, nokkrir strákar á líkum aldri (man ekki eftir að það hafi verið stelpur í hópnum).  Gott ef við vorum ekki í feluleik eða einhverjum slíkum á milli klettanna, en þar voru ótæmandi möguleikar á að láta sig hverfa. Það var farið að líða á dag og framundan að halda aftur heim. Við stóðum nokkrir í lok leiks, austan megin við stóran klett. Hliðin sem að okkur snéri var slétt og lóðrétt, hefur verið svona 3-4 m á hæð.
Það sem þarna birtist okkur greiptist síðan í hugann. Fyrir framan klettinn voru steintröppur sem lágu niður á við, að timburhurð í því sem kalla má "rómönskum" stíl.  Hurðin var járni slegin, lamir, umbúnaður og lokur.
Þarna stóðum við um stund og hver hlýtur að hafa hugsað sitt. Það gæti verið gaman að banka á dyrnar. Hvað ætli gæti gerst?
Niðurstaðan varð, í ljósi þess að við höfðum allir heyrt og lesið um álfa, að við vorum fljótir niður af fjallinu og heim, því ekki höfðum við hug á að ganga í björg.

Mörgum árum seinna átti ég leið um þetta svæði og reyndi að finna steininn sem ég bar í huganum, en leitin bar engan árangur. Ég efast oftast um að ég hafi séð þennan álfabústað, en samt aldrei nægilega mikið til að ég hendi þessu atviki í glatkistu minninga.  Kannski var var þetta bara eitthvað sem varð til í ævintýragjörnum barnshuganum. Hver veit?  Kannski getur einhver þeirra sem þarna voru með mér vottað að eitthvað líkt því sem ég lýsti, hafi átt sér stað.

Á 63. aldursári gekk ég á Vörðufell í gær ásamt fD og uG. Ekki reyndist gangan sú neitt sérstaklega auðveld, en við vörðuna hvarf öll þreyta. Ég hafði unnið sigur á sjálfum mér. Leiðin niður var lítið auðveldari, en talsvert öðruvísi erfið, þó.
Ofan af fjallinu opnast  einstök sýn yfir Laugarás, auðvitað, en ekki er síður magnað að sjá hvernig árnar fjórar: Tungufljót, Hvítá, Stóra-Laxá og Brúará sameinast ein af annarri áður en Hvítá leggur leið sína niður í Flóa, þar sem hún tekur Sogið til sín og breytist í Ölfusá.  Þá er fjallahringurinn auðvitað yfirmáta glæsilegur.



Smella á myndirnar til að stækka þær.


VIÐBÓT





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...