Sýnir færslur með efnisorðinu Sögur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Sögur. Sýna allar færslur

22 nóvember, 2015

Skálholtskórinn til Þýskalands og Frakklands 1998 (1)


Það sem hér birtist í tveim hlutum er ferðsaga sem ég færði í letur í nóvember 1998 og hún birtist síðan í Litla Bergþór, (19. árg. 3. tbl, desember 1998).
Ferðasöguna birti ég einnig á vefsíðu sem ég var þá að reyna að koma mér upp, en umsýsla með henni fjaraði út, þó enn hangi hún þarna eftir um 20 ár. Internetið gleymir engu.

Ég fór að leita að myndum úr þessari ferð,af tilteknu tilefni, eitt leiddi af öðru og ég ákvað að setja þessa ferðasögu hér inn og tengja hana við myndirnar sem voru teknar á myndavél í minni eigu í ferðinni. Þetta geri ég nú bara til að halda þessu til haga - geri ekki ráð fyrir að fólk fari að leggja í lestur, enda margt þarna sem aðeins þeir sem í ferðinni voru munu mögulega skilja.

Textann hef ég óbreyttan og óaðlagaðan. Slóðin á myndirnar

Ferð Skálholtskórsins, maka og áhangenda til Þýskalands og Frakklands 1.- 8. október 1998 

1. hluti

tímalaust

tilurðin, ábyrgðin, frásögnin

Sú frásögn sem hér fer á eftir er ekki opinber ferðasaga Skálholtskórsins þó svo hún greini nokkurn veginn í réttri tímaröð frá því sem gerðist í ferðinni. Ýmsir atburðir eru færðir í stílinn til að fullnægja kröfum um óábyrga frásögn. Ég valdi þá leið að fjalla ekki um fólk undir nafni nema í undantekningartilfellum. Ástæða þess er aðallega sú, að með því að fjalla um nafngreint fólk er höfundur að taka á sig meiri ábyrgð en ég er tilbúinn til á þessu stigi. Ef þið lesendur góðir teljið ykkur þurfa nánari útskýringar á því sem ýjað er að í frásögninni þá skuluð þið bara hafa samband við einhvern þeirra sem í ferðina fóru. Meðfylgjandi er listi yfir þá. Ég fékk í hendur punkta frá Perlu, formanni og hef nýtt þá mikið, bæði beint og óbeint, þannig að hennar hlutur í frásögninni er umtalsverður. Hinsvegar verð ég einn að teljast ábyrgur (svo fremi að hægt sé að tala um ábyrgð í því sambandi, því ég hef þegar vísað frá mér ábyrgðinni og gert grein fyrir því) fyrir skrifunum en tek það strax fram, að öllum hugsanlegum ákúrum fyrir óvönduð eða ófagleg vinnubrögð við skriftirnar vísa ég til föðurhúsanna fyrirfram.

miðvikudagurinn, 30. september 

eftirvæntingin, lýsingin, flugstöðin 

Það er nú varla hægt að segja annað en að hópur sá, sem tók sig upp frá landinu elds og ísa að morgni hins 1. október, hafi fundið til eftirvæntingar og spennu. Eftirvænting og spenna eru hér notuð einvörðungu í þeim tilgangi að nota einhver lýsingarorð um allar þær kenndir sem ég tel að hafi bærst í hugum og hjörtum ferðalanganna úr hinni íslensku sveit þennan dag. Reyndar var það nú svo, að til að taka örlítið forskot á dýrðina dvaldi stór hluti hópsins, sem utan fór, á Hótel Keflavík nóttina fyrir brottför. Því var ég fegnastur þar, að hafa ekki kvartað undan því við hótelstjórann, að rafmagni á herberginu okkar hjóna hlyti að hafa slegið út. Hefði ég gert það hefði komist upp þvílíkur sveitamaður var hér á ferð. Það var nefnilega svo á þessu hóteli, að til þess að "ræsa" lýsinguna í herberginu þurfti að beita lykilígildinu á þar til gerðan útbúnað.

fimmtudagurinn, 1. október 

morgunverðurinn, fríhöfnin 

Klukkan 4.30 var risið úr rekkju, snæddur indæll morgunverður og því næst haldið í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Einhvern veginn hefur það þróast þannig að Fríhöfnin er nauðsynlegur þáttur í utanferð hvers Íslendings; táknmynd fyrir hinn framandi heim sem ekki allir fá að upplifa og njóta. Þeir sem komast í þá aðstöðu þurfa að sjálfsögðu að fá tækifæri til að eyða þar drjúgum tíma áður en þeir setjast upp í Flugleiðavélina og ferðin yfir Atlantshafið hefst. Þetta allt gerðist þarna.

2. hluti - Þýskaland

Erst Deutschland 

rútan, Bæjarajakkinn, afþrýstibúnaðurinn 

Ferðin yfir hafið hafði sinn endapunkt í Luxembourg í hlýju veðri, og gaf það góð fyrirheit um framhaldið. Rútubílstjórinn sem þar tók þar á móti okkur og seldi okkur gosdrykki, meðal annars, alla ferðina á 2 mörk, er íslenskur og við það létti sumum ferðalanganna töluvert, hann myndi skilja hið sérstaka íslenska hegðunarmynstur sem yrði áberandi í rútuferðum og annars staðar næstu 8 daga.

Ferðin frá flugvellinum til næsta áfangastaðar tók nokkra stund og reyndi leiðsögumaðurinn að fræða landann um sögu svæðisins. Athyglin var upp og ofan hjá farþegum.

Til hinnar sögufrægu borgar Trier kom hópurinn. Gengu menn þarna frá borði rétt við hið forna borgarhlið, Porta Nigra (Svarta hliðið) . Út frá hliðinu var síðan aðal verslunargatan í bænum. Voru menn fljótir að finna helstu stórmarkaðina á svæðinu: Kaufhof og Karstadt (undirritaður reyndist hafa klætt sig á ófullnægjandi hátt fyrir þann lofthita sem var á staðnum, svo hann varð sér þarna úti um jakka einn ágætan, sem kórstjórinn síðar tjáði honum að kallaðist "Bæjarajakki" og að ekkert vantaði á hann nema merki þýskra þjóðernissósíalista.) Þarna dvöldum við um stund svona aðallega til að fá tilfinningu fyrir hinu erlenda andrúmslofti, svona eins og þegar kafarar eru settir í afþrýstibúnað. Fyrir utan að kynna sér verslunarhætti þýskra, setjast á útikaffihús og virða fyrir sér fornar byggingar, kynntust nokkrir úr hópnum lífi innfæddra næstum því náið, að því er sagt er.

Á tilsettum tíma hittist svo hópurinn á tilsettum stað og hafði ferðalöngunum flestum tekist ná aftur yfirvegun hugans. Þótti þá einhverjum við hæfi að hefja umræðu um íslensk sveitastjórnarmál, og segir ekki fleira af þeirri umræðu.

Síðasti áfanginn þennan daginn var stuttur spölur til smábæjarins Leiwen í

Móseldalnum, en þar var síðan samastaður okkar næstu fjóra daga.

vínræktin, hjónarúmið

Beggja vegna árinnar Mósel eru hlíðar dalsins þaktar vínviði. Þar er nú aldeilis ekki eyðilegt um að litast. Viði vaxið milli fjalls og fjöru. Þorpið Leiwen er fremur ríkmannlegt, enda býr þar vínræktarbóndi í nánast hverju húsi (Weingut), auk þess sem stór hluti íbúanna hefur atvinnu af ferðaþjónustu.

Þegar inn í þorpið var komið tók Ásborg þeirra Leiwenmanna, Frau Spieles-Fuchs, á móti okkur og vísaði okkur til dvalarstaða, en hópurinn dvaldi þarna í nokkurs konar bændagistingu vítt og breitt um þorpið á einum átta stöðum segja þeir sem töldu.

Það verð ég að segja, fyrir okkur hjónin í það minnsta, að á betra varð ekki kosið í aðbúnaði öllum á þessum stað. Í okkar hlut kom íbúð með baðherbergi, eldhúsi og risastóru hjónarúmi. Það sama held ég sé hægt að segja um flesta aðra.

kvöldverðurinn, aðlögunin

Það var hjá stórhöfðingjanum Jóhanni Lex sem allir komu saman eftir að hafa tekið upp út töskunum. Lexarnir reka nefnilega all umfangsmikla ferðaþjónustu auk vínræktarinnar og fóru því létt með að taka við ríflega 40 manns í kvöldmat. Þarna var borið fram hið indælasta "schweinerschnitzel" að hætti þeirra Leiwen manna (í 98% tilvika gerði svínakjöt ferðalöngunum gott, þannig að á annað verður ekki minnst.) Eftir matinn skemmti hópurinn sér hið besta við söng og grín fram eftir kvöldi, eins og sagt er.

Það var feikilega dimmt í Leiwen á þeim tíma sólarhrings sem hér um ræðir og því ekki að undra, og reyndar vel skiljanlegt, að ferðalöngunum hafi gengið misvel að finna sinn næturstað þessa nótt. Ýmsar sögur gengu svo sem meðal fólks um óvænta gesti, en skýringarinnar er fyrst og fremst að leita í því að þetta var dimmt, framandi umhverfi og kennileiti fá, í það minnsta verður sú skýring að duga.

Til þess var sömuleiðis tekið um tíma, hve utan við sig faglegur stjórnandi hópsins er sagður hafa verið. Það verður í því sambandi að taka mið af því hvílíkt álag var á stjórnandanum við þessar aðstæður. Hann var þarna mættur með heilan kór á erlenda grund til að syngja í stærstu kirkjum fyrir háa sem lága, hátt og lágt, sterkt og veikt. Eðlilega var hann með hugann við það vandasama verkefni sem framundan var, en ekki húsdyralykil. Lyklinum hélt hann auðvitað á í hendinni allan tímann sem leit stóð yfir að honum. Ég veit ekki einu sinni til hvers ég er yfirleitt að minnast á þennan lykil!

Það annað sem nefna má, og sem fylgdi þessu kvöldi (þegar ég segi "kvöldi" er það auðvitað ekki mjög afmarkað hugtak) var auðvitað að sá kvittur heyrðist morguninn eftir, að líkur væru á að heimilisfólki á nokkrum bæjum í íslenskri sveit fjölgaði. Staðfestingar er enn beðið á því hvort nokkur fótur er fyrir þessu.

föstudagurinn, 2. október

klettasyllan, kastalinn, Jungfrauin, söngurinn, iðnaðarmennirnir, þrautagangan, útsýnið

Undir hádegið var lagt í hann til Bernkastel, og voru allir endurnærðir eftir góðan nætursvefn (svona er þetta orðað í ferðasögum).

Á leiðinni um Móseldalinn var mest áberandi, auk árinnar Mósel, vínviðurinn. Hver einasti skiki lands, í bókstaflegri merkingu, er þarna nýttur til ræktunar vínviðar. Ef einhvers staðar var smá klettasylla þá hafði þar verið plantað 5-6 vínviðartrjám. Í fljótu bragði verða vinnuaðstæður þarna í hlíðunum að verða að teljast illa viðunandi, á íslenskan mælikvarða.

Borgin Bernkastel-Kues á sér langa sögu og merkilega, sem ég treysti mér ekki til að rekja hér, enda alger óþarfi þegar hafður er í huga tilgangurinn með þessum skrifum. Það verð ég hinsvegar að segja að sagan helltist yfir okkur þarna í formi þess andrúmslofts sem við upplifðum á þessum stað. Þröngar göturnar, bindiverkshúsin og kastalarústirnar. Þetta var eins og að ganga inn í gamalt ævintýri.

Iðnaðarmennirnir í hópnum urðu fyrir vægri heilabilun…jæja, allavega smávægilegu menningarlegu áfalli, þegar þeir litu þá byggingarlist sem þarna hafði tíðkast. Ég fullyrði hér með að, þarna hafi þeir áttað sig á því að það er hægt að reisa falleg hús án þess að vinklar, tommustokkar eða hallamál komi mikið við sögu. Ég tel að þeir komi miklu frjálslyndari að þessu leyti til baka og þess muni sjást merki í húsagerð í uppsveitunum á næstu árum.

Á litlu torgi, sem iðaði af mannlífi og sögu, tróðum við upp fyrsta sinni í ferðinni og það með glæsibrag. Þarna var gefinn tónninn fyrir framhaldið.

Í fjarska glitti í kastalarústir. Þangað lögðu flestir leið sína. Og leiðin var löng og ströng: í það minnsta 2 km. og öll upp á við. Það verður að segjast eins og er, að í það minnsta ég var þeirrar skoðunar á tímabili, og reyndar heyrði ég aðra einnig hafa á því más á leiðinni upp að kastalanum, að þarna hefði ef til vill verið færst of mikið í fang. Hreppsnefndin í Bernkastel-Kues þyrfti að huga að því að koma þarna upp svona nokkurs konar togvíralyftu eins og tíðkast í Ölpunum til að ekki verði gert upp á milli ferðalanga eftir því hvort þeir stunda keppnisíþróttir að staðaldri eða ekki.

Hún gleymdist fljótt, þrautagangan þegar upp var komið. Köstulum var valinn staður með tilliti til þess hve víðsýnt var (þetta er nú speki sem varla er þörf á að hafa mörg orð um). Þessi kastali er engin undantekning. Ef ekki hefði komið til nagandi samviskubit vegna aumingja þjónustustúlkunnar, "Die Bernkastler Jungfrau", sem stóð og reytti hár sitt yfir þessu vandræðafólki sem þarna helltist yfir hana óundirbúna og krafðist þess að fá að borða, meira að segja úti, þá finnst mér að kastalagangan hafi verið einn af hápunktunum í þessari ferð.

Sökum þess hve tímafrek máltíðin í kastalaveitingahúsinu varð, gafst minni tími til að rölta um hjarta bæjarins og njóta andblæs liðinna alda í bland við höfgan ilminn af Kebab og Bratwurst. Þetta gerði samt hver sem betur gat, þó mest þau þrjú sem ekki lögðu í brattann.

snitzelin, salatbarinn, knattspyrnuleikurinn

Þetta kvöld fór hópurinn á veitingahús að borða. Borðhaldið hófst með salathlaðborði. Það hvarf snarlega í maga, og það þrátt fyrir að einhver teldi sig hafa orðið vara við líf í því. Þá gat fólk valið um 3 tegundir af svínakjöts Schnitzel í aðalrétt: Wienerschnitzel, Jägerschnitzel og einhverja þriðju tegund af Schnitzel. Megin munurinn á þessum þrem tegundum var sósurnar. Um 2% hópsins fengu nautasteik.

Þarna var sem sagt borðað og sungið í kapp við knattspyrnuleik í sjónvarpinu. Segir ekki meira af þessu kvöldi, enda flestir tilbúnir að hvílast eftir fjallgönguna.

laugardagurinn, 3. október

stundvísin, kirkjurnar, baðhúsin

Það var nú bara haldið snemma af stað þennan daginn, því margt var á dagskránni – eins og reyndar allan tímann. Íslendingar hafa það orð á sér að sveigja fyrirmæli og reglur án þess að hafa svo sem stórar áhyggjur af því. Það bar eðlilega á þessum eðlisþætti í þessari ferð. Þetta gerir þá bara auknar kröfur á útsjónarsemi fararstjórans og sveigjanleika ferðaáætlunarinnar. Það getur þó komið fyrir að seinkun í ferðaáætlun geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar, eins og varð þennan dag. Þarna varð alvarlegur árekstur milli hins mikla heraga og reglufestu sem Þjóðverjar hafa tamið sér, en ekki Íslendingar. Kem ég að því hér nokkru síðar á þessum degi.

Hópurinn hélt nú aftur til Trier, hinnar fornu borgar Rómaveldis. Þar hittum við annan tveggja kórstjóra sem tóku á móti okkur í tónlistarlegum skilningi, í ferðinni. Þetta var hann Heiko. Þarna fengum við hina bestu leiðsögn um borgina; kynntumst glæsilegum dómkirkjum og rómverskum baðhúsum.

Meginmarkmið okkar sumra var náttúrulega að leyfa þeim sem kost áttu á, að njóta þeirrar fegurðar sem sönglist okkar hafði upp á að bjóða. Af þessum sökum tók Skálholtskórinn lagið hvar og hvenær sem unnt var eða leyft, alla ferðina. Þess vegna fer ég ekkert að tilgreina hvert einstakt tilvik þar sem kórinn hóf upp raust sína. Þarna í Trier fórum við í þrjár risakirkjur: dómkirkjuna, Maríukirkjuna, sem var næstum sambyggð dómkirkjunni og var í laginu eins og rós, sem mun vera tákn hinnar helgu meyjar, og síðan í feikilega stóra mótmælendakirkju, sem átti sér sögu frá tímum Rómaveldis og hafði gengt ýmsum hlutverkum á þeim tíma sem liðinn er síðan þá.

elliheimilið, áheyrendurnir

Eftir kirkjuskoðunarferðina var komið að hádegisverði sem beið okkar á elliheimili í göngufæri frá miðborg Trier. Eftir á að hyggja var sú leið sem fara þurfti nú ekki ýkja flókin, en reyndist þó flóknari en svo að öllum tækist að rata, meira að segja þó allir væru í einum hóp með Heiko í fararbroddi.

Maturinn á elliheimilinu tókst hið besta og þetta var sérlega snyrtileg og hlýleg stofnun. Næstum því örugglega einkarekin og fyrst og fremst á færi ákveðins þjóðfélagshóps að eyða þar síðustu árunum.

Þá kem ég að frásögninni af árekstrinum milli íslenskrar og þýskrar menningar. Okkur þykir ekki tiltökumál þótt eitthvað dragist fram yfir tilsettan tíma að mæta á samkomur eða fundi, en það finnst Þjóðverjum hinsvegar. Skálholtskórinn og föruneyti kom til hádegisverðarins svona hálftíma - klukktíma of seint miðað við þá áætlun sem gerð hafði verið. Þannig er það með eldra fólk, eins og ungabörn, að það þarf á meiri hvíld að halda en gengur og gerist um þá sem eru á besta aldri, eins og sagt er. Í stuttu mál gerðist það þarna, að þegar Skálholtskórinn og föruneyti hafði lokið við að snæða hádegisverð og hugðist taka til við að syngja nokkur lög fyrir íbúana, eins og um hafði verið samið þá var, samkvæmt klukkunni, kominn hvíldartími eldri borgaranna. Og þegar sá tími var kominn þá hvíldu eldri borgararnir sig, hvað sem tautaði og raulaði. Allir utan tveir. Í samkomusalnum sátu tvær gamlar konur (sem eiga alveg örugglega ættir sínar að rekja til föðurlands vors). Það skipti engum togum að Skálholtskórinn upphóf þarna raust sína fyrir þessar gömlu konur og það reyndist alveg þess virði. Það sannaðist þarna eins og svo oft áður, að það er ekki magnið sem skiptir máli, heldur gæðin. Þessir áheyrendur fóru glaðari af fundi okkar. Hinir sváfu svefni hinna réttlátu eins og reglur gerðu ráð fyrir. Heiko sannaði þarna snilli sína sem hljóðfæraleikari þar sem hann var undirleikari okkar við Húmljóð Lofts S. Loftssonar. Hann spilaði þarna óaðfinnalega verk sem hann var að sjá í fyrsta sinn.

baðhúsin, garðurinn, kommúnísminn

Eftir viðkomuna á elliheimilinu var haldið áfram um stund skoðunarferðinni um Trier. Við komum þarna við í rústum rómverskra baðhúsa og garði keisarahallar og var hvort tveggja eftirminnilegt. Ég hafði fyrir tilviljun rekist á að einhvers staðar í Trier hafði Karl Marx fyrst séð ljós þessa heims. Mig langaði töluvert að sjá staðinn þar sem það gerðist. Á leið okkar um borgina heyrðist mér ég einu sinni heyra fararstjórann okkar spyrja fólk hvort það langaði að heimsækja staðinn þar sem þessi áhrifamikli einstaklingur fæddist, en viðbrögð hópsins, allavega þeirra sem hæst létu, voru á þann veg að ég treysti mér ekki til að hvetja til heimsóknarinnar. Þar fór það. Öreigar allra landa, sameinist!

messan, kaþólikkarnir, kuldinn, trúarbragðastyrjöldin

Það sem næst var á dagskrá ferðarinnar var söngur við messu í bæ sem heitir Fell. Þessi messa var kl. 18.00 og því lá á að drífa sig heim til Leiwen og skella sér í kórgallann: svörtu buxurnar, hvítu skyrtuna, græna vestið, SVARTA BINDIÐ og viðeigandi búnað annan.

Með Skálholtskórnum sungu við þessa messu tveir kórar, annar var kirkjukórinn á staðnum undir stjórn Heikos og ekki veit ég hvaðan hinn var, en stjórnandinn var yngri bróðir Heikos sem heitir Ralf. Þannig var, að þessi messa var sú fyrsta í kirkjunni um all langan tíma þar sem umfangsmikil viðgerð hafði staðið yfir á henni. Þarna var kirkjusókn góð og söngurinn ekki síðri. Í messunni las séra Egill ritningarorð.

Með einhverju móti hafði sú hugmynd skotið upp kollinum, allavega í huga prestsins á staðnum, að Skálholtskórinn væri kór kaþólska safnaðarins á Íslandi. Þetta held ég að ekki hafi tekist að leiðrétta, allavega ekki formlega, enda breytir það sjálfsagt ekki neinu. Trúarbragðastyrjaldir heyra sögunni til, og þó…….

Ég hef fengið ábendingu um að geta þess sérstaklega að eitthvað skorti á að hitakerfið í kirkjunni virkaði sem skyldi og að innfæddir hljóta að hafa haft af því pata. Þeir komu til messu dúðaðir í hlý föt, meðan Frónbúar gerðu enn ráð fyrir því, á þriðja degi ferðarinnar, að það væri hlýtt í Þýskalandi á þessum árstíma. Eftir messuna heyrðust heitingar um að kvarta aldrei aftur yfir kulda í Skálholtskirkju.

móttakan, lopapeysurnar, veiðimaðurinn

Að lokinni messunni buðu kórarnir okkur til móttöku í safnaðarheimili sínu. Nóg var þar af hvítvíni, pylsum, kjötbollum, osti og brauði. Þarna undum við okkur hið besta um stund hjá sérlega gestrisnu og alúðlegu fólki. Það var þarna sem þeim Heiko og Ralf voru afhentar lopapeysurnar sem Helga María prjónaði (fallegar peysur að sjálfsögðu). Það mun hafa verið kórstjórinn Hilmar sem hafði gefið upp málin á þeim bræðrum, sem peysurnar voru síðan prjónaðar eftir. Vandinn var bara sá, að þegar hann sá þá bræður síðast var Heiko frekar lágvaxinn og grannur, en núna bara lágvaxinn, og Ralf hafði einnig verið lágvaxinn og grannur, en núna hvorki lágvaxinn né grannur. Þetta kom þó ekki að sök, því hefðbundnar íslenskar lopapeysur eru yfirleitt víðar. Nú vill hinsvegar svo til, að tískan hefur ákveðið að þær skuli vera þröngar. Þær voru sem sagt bara alveg eins og til stóð þegar upp var staðið. Helsta áhyggjuefni Hilmars, fyrir utan það að eiga að halda utan um stjórnina á kórnum, hafði þar með verið rutt úr vegi.

Einn makinn hvarf þarna út í nóttina með skuggalegum, þýðverskum veiðimanni og skildi eiginkonuna eftir á nálum. Myndi hún nokkurntíma sjá elskuna sína aftur? Ó, já - makinn kom aftur, hlaðinn gjöf. Ekki skal fullyrt neitt um það hvort þetta voru heimagerð ilmkerti, en svo mikið er víst að plastpokinn utan um gjöfina ilmaði heil ósköp.

Hugmyndin, sem upp hafði komið um að kíkja á hátíð í nágrenninu þetta kvöld, reyndist sjálfdauð þar sem það var orðið áliðið þegar heimsókninni til Fell lauk. Þessi laugardagur var nefnilega þjóðhátíðardagur í Þýskalandi; dagurinn þegar þýsku ríkin voru sameinuð.

Í stað hátíðarinnar héldum við heim til Leiwen.

sunnudagurinn, 4. október

samhljómurinn, heimsklassinn, toppurinn

Þegar svona hópur fær tækifæri til að eyða nánast öllum sólarhringnum saman (sumir kannski mis ánægðir með það) við söng, borðhald og ekki síst allt það nýja sem mætir honum nánast í hverju skrefi, verður vart hjá því komist að það myndist einhver óútskýranlegur samhljómur í honum. Sama reynsla, sama hugsun eykur líkurnar á að það finnist hinn eini sanni hljómur.

Þetta er allavega sú skýring sem ég hef á því sem gerðist þennan dag á tónleikum Skálholtskórsins með kirkjukórnum og karlakórnum í Leiwen, sem voru haldnir í kirkjunni þeirra Leiwenbúa. Ég ætla hér að gefa Perlu, formanni orðið: "Þetta voru skilyrðislaust bestu tónleikar sem haldnir hafa verið hjá okkur. Það var eins og fólkið hafi lent í einhvers konar leiðslu, ekki bara einn eða tveir, heldur allir" Ég held að ég geti bara tekið undir þetta. "Weltklasse!"

skugginn, slysið, drykkirnir, þvotturinn,

Allt annað, sem gerðist á þessum síðasta degi í Þýskalandi, féll í skuggann. Meira að segja ímynduð stórslys sem áttu að hafa átt sér stað þegar hundtryggir eiginmenn mættu ekki á "treffpunkt" á réttum tíma, eða þegar ákveðinn fjöldi kóladrykkja var pantaður með matnum um kvöldið, eða þegar verið var að gera upp við Frau Spieles-Fuchs á heimili hennar, eða þegar gerð var tilraun til að þvo óhrein föt á ónefndum stað og tíma og allt hitt. Svona er nú lífið.


framhald..........

16 maí, 2015

Með ásjónur engla

Í dag langaði mig að prófa nýja filterinn minn (Tiffen variable ND), en það þýðir bara það, að það myndefnið þarf að vera á hreyfingu til að ná fram tilteknum áhrifum. Fossar eru t.d. tilvaldir til þess arna. Ég veit bara um einn foss í nágrenninu og ég er nú búinn að komast að því að hann kallast Dynjandi og er í Brúará um það bil kílómetra fyrir ofan brúna. Ég hef reyndar ekki rannsakað til hlítar hvort þetta er rétt nafn þessa foss, eða flúða, en kalla hann bara Dynjanda þar til annað kemur í ljós.
Til að komast að fossinum er í fljótu bragði um tvær leiðir að ræða. Annarsvegar gengur maður frá brúnni, meðfram ánni þar til komið er að fossinum. Þessa leið fór ég einhverntíma í gamla daga.
Hina leiðina sá ég með því að fara á Google-maps. Sú leið virðist ótrúlega einföld: það liggur akvegurvegur frá Biskupstungnabraut og nánast alveg að fossinum.
Það þarf ekki að spyrja að því hvora leiðina ég valdi, og við fD lögðum í hann eftir að ég hafði tínt til græjurnar, sem verða stöðugt umfangsmeiri (og flottari).
Ég vissi að það var hlið þar sem ekið er inn á veginn niður að ánni, en hafði aldrei kannað hverskonar hlið það var. Nú veit ég það hinsvegar.
Þar sem ég beygði af aðalveginum, blasti við mjög sterkbyggt hlið og á því var skilti sem gaf skýrt til kynna að þarna væri um einkaveg að ræða. Það varð þá svo að vera, og við fD vorum þess albúin að yfirgefa Qashqai og ganga spölinn niður að ánni. Sannarlega var sá kostur og aka þennan spöl þó talsvert eftirsóknarverðari.
Í þann mund er við vorum að stíga frá borði, bar að bifreið innan af svæðinu handan hliðsins. Þegar hún nálgaðist opnaðist hliðið hægt og rólega og ég ákvað að reyna að ná sambandi við ökumannin til að kynna mér hve mikinn einkaveg væri þarna um að ræða. (Þetta gat verið einkavegur eins og sá sem liggur heim í Kvistholt og þetta gat líka verið einkavegur þar sem alvarleg viðurlög eru við akstri í óleyfi og jafnvel kölluð til lögregla. Hliðið benti til þess að einmitt sú gæti verið raunin).
Bílstjórinn, kona á ríflega miðjum aldri, stöðvaði bíl sinn hjá okkur og renndi niður hliðarrúðunni, þess albúin að tilkynna okkur að þarna færum við ekki í gegn. Í sama mund rann hliðið til baka og lokaði leiðinni. Spurningu minni um hvort það gæti verið möguleiki að við fengjum að aka veginn handan hliðsins svaraði hún sem svo:
"Þetta er einkavegur", hverju ég svaraði þannig að ég hefði fullan skilning á því, og svo framvegis og gaf til kynna að þá næði þetta ekki lengra. Konan horfði rannsakandi á okkur um stund en sagði svo:
"Þið eruð svo heiðarleg á svipinn að það hlýtur að vera óhætt að hleypa ykkur í gegn", og þar með ýtti hún á opnara (svona eins og notaðir eru á bílhurðir) og hliðið rann frá.
"Það gæti orðið vandamál hjá ykkur að komast út aftur, en það er yfirleitt hægt með því að........(hér vil ég ekki ljóstra upp um aðferðina). Ef það gengur ekki þá verðið þið að semja við einhvern um að hjálpa ykkur".
Spennan ætlaði ekki að verða endaslepp þennan daginn. Þar sem við erum spennufíklar, ekki síst fD, létum við slag standa og ókum þennan veg sem við alderi höfðum farið áður, könnuðum sem sagt ókunnar slóðir á 30 km hámarkshraða eins og tilskilið var, engin ástæða til að taka áhættuna á að verða tekinn fyrir of hraðan akstur. Qashqai var lagt  við sumarhús sem greinilega var mannlaust. Það, eins og ótrúlega mörg hús, sem við höfðum ekki áður haft vitneskju um, stóð á fögrum stað á bakka Brúarár og við blasti fossinn Dynjandi, sem venjulega væri nú bara kallaður flúðir frekar en foss.

50 m ganga var allt sem til þurfti til að komast að ánni. Græjurnar settar upp, stilltar og hvaðeina sem þurfti til myndatöku. Það var ágætur bónus að geta fylgst með og myndað straumandarpar og auka stegg sem létu fara vel um sig við bakkann okkar megin.
Segir ekki af myndatökunni fyrr en henni lauk, enda um að ræða enn eina æfinguna í að ná tökum á broti þeirra möguleika sem búa í græjunum.

Þegar konan ók frá okkur við hliðið fannst mér hún glotta, frekar en brosa, sem gæti þýtt að ráðið sem hún gaf okkur til að komast úr aftur væri ekkert sérstaklega gott.  Af þessum sökum fylgdi því nokkur spenna að aka veginn til baka á löglegum 30 km hraða, að hliðinu.
Hvernig skyldi enda vor för?
Á leiðinni sáum við nokkra einstaklinga horfa rannsakandi á löglegan akstur okkar og mér fannst ég geta greint af svipbrigðum þeirra og látbragði að við værum ekkert sérlega velkomin á þessum slóðum og að það gæti nú verið fróðlegt að sjá hvernig við færum að því að komast út.
Hliðið nálgaðist æ meir og spennan fór vaxandi.
Þar sem við vorum að verða komin að verklegu hliðinu tók það sig til og renndi sér kurteislega til hliðar og hleypti okkur í gegn og þar með hafði ráð konunnar dugað til.

Við heimkomu skoðaði ég afraksturinn til þess eins að komast að því að ég get gert betur, eins og ávallt.  Hvað væri líka varið í að ná einhverri fullkomnun á þessu sviði frekar en öðrum, ef út í það er farið.

26 apríl, 2015

Tveggja kerru barnahús (síðari hluti)

Hér er um að ræða framhald þessa.
Viðskiptavinum verslunarinnar fór fjölgandi og það var brýnt að losa bílastæðin sem allra fyrst. Það eitt var ljóst í mínum huga, að þarna gæti ég ekki bara aftengt kerruna og ekið á braut. Aðrir möguleikar í stöðunni voru:
     - að fara aftur í verslunina þar sem ég hafði keypt húsið og fá að geyma það þar, þar til lausn fyndist. Sú lausn myndi ekki koma húsinu uppeftir fyrr en eftir dúk og disk (í lok máltíðar, sem sagt), fyrir utan auðvitað þá staðreynd að verslunin tilheyrði vandalausum og þar myndi líklega ekki ríkja mikill skilningur á stöðunni.
     - að finna autt svæði í höfustaðnum þar sem ég gæti lagt kerrunni þar til framhaldið fyndist, sem var augljóslega ekki vænlegur kostur þar sem um væri að ræða óþarflega mikla freistingu fyrir óvandaða.
     - að taka áhættuna af því að renna uppeftir í þeirri von að hjólið héngi á. Þessi hugmynd var afleit og kallaði fram ótal grafalvarlegar* sviðsmyndir*.
     - að fá að geyma kerruna á Birkivöllum þar til annað yrði ákveðið, var hugmynd sem fljótt kom upp í hugann. Birkivellir voru skammt frá áðurnefndu bílastæði og því lítil áhætta tekin með því að draga kerruna þangað. Og ég hringdi í Birkivelli, en þar býr fólk sem hefur áður komið við sögu í þessum pistlum, til dæmis hér og hafa reynst haukar í horni, enda nátengdir okkur Kvisthyltingum.
Það svaraði ekki á Birkivöllum.
Það verð ég að segja, að fD hafði farið mjúkum munni um stöðuna og á þeim bænum var ekki um að ræða neinar meiningar um að hið skakka hjól væri mögulega skakkt vegna einhvers sem ég hefði getað gert betur eða með öðrum hætti. Hún tók hinsvegar fullan þátt í að leita lausna og þar sem enginn svaraði:
"Þau eru auðvitað í vinnunni. Hringdu í 482 XXXX".
"Hvernig getur þú munað símanúmerið þar?"
"Nú, ég þarf ekki svo sjaldan að hringja þangað".
"Hvert er númerið aftur?" (ég man aldrei svona símanúmer)
"482XXXX!!" (auðvitað fer ég ekkert að auglýsa umrætt númer hér, enda er það ekki hluti frásagnarinnar út af fyrir sig, þó svo það sé vissulega hluti af lausninni á kerrumálinu).
Ég hringdi og fS svarði:
"T....stofan, fS"
Ég kynnti mig og gerði grein fyrir stöðu mála og lagði fram ósk um að fá að leggja kerrunni á Birkivöllum þar til lausn fyndist.
"Við eigum kerru, geturðu bara ekki notað hana? Ég veit ekki til að við þurfum að nota hana um helgina."
Í sem skemmstu mál dró ský frá sólu og það kviknaði von um að málið gæti fengið farsælan endi. Þetta var auðvitað sólríkur dagur með norðaustan garra, hæð yfir Grænlandi, hita við frostmark og allt það. Það voru, að sjálfsögðu,  óveðursskýin sem fylltu hugann sem gufuðu upp við svo afdráttarlaust tilboð um kerrulán, en ég hafði ekki haft vitneskju um að á Birkivöllum væri yfirleitt til kerra.
Nú virtist ekkert í veginum, utan áhættuakstur frá áðurnefndu bílastæði inn á Birkivelli. Leiðin var ekin í 1. gír og í hliðarspegli gat ég fylgst með hjólinu, sem var augljóslega ekki í því formi sem maður vill að kerruhjól séu. Á Birkivelli komumst við og viti menn: við húsið stóð forláta kerra, jafnvel stærri og veigameiri en sú sem ég bakkaði þarna inn á bílastæðið.

Það sem fylgdi fól ekki sér sér nein álitamál eða vandamál. Við fD fjarlægðum umbúðirnar af væntanlegu barnahúsi og fluttum síðan  innihaldið yfir í Birkivallakerruna, sem við tengdum síðan við Qashqai og ókum heimleiðis.

"Aumingja maðurinn!", varð mér á orði þar sem við sáum framundan, fljótlega eftir að við vorum komin austur fyrir höfuðstaðinn, spýtnabrak í vegkantinum og kerru á hvolfi fyrir aftan jeppling. Annað hjólið var horfið út í móa. Þar stóð umkomulaus maður og virti fyrir sér eyðilegginguna um leið og hann var að hringja eftir hjálp af einhverju tagi. Var þetta kannski afi sem hafði verið að kaupa barnahús? Það var ekki laust við að hrollur færi um mig við þá sviðsmynd* sem þarna var uppi og lýsti því svo vel hvernig staða mín hefði getað verið.

Segir síðan ekki af ferð okkar fyrr en í Kvistholt var komi. Barnahúsefnið borið upp fyrir hús og komi fyrir á pallinum eina, þar sem það bíður dásemda sumarsins þegar þeg tek mig til að fera að setja að saman.  Hvort mér tekst það nokkurntíma verður tíminn að leiða í ljós, en við snögga skoðun á leiðbeiningunum sem fylgja timbrinu, sýnist mér að til þess að haugurinn verði einhverntíma að húsi þurfi ég að hugsa lengi. Finna staðsetningu, ákveða hvernig grundvöllurinn verður lagður, og reyna síðan að raða saman efninu svo úr verði hús.  Það eru spennandi tímar framundan.

Tvennt hef ég lært eða kannski frekar fengið staðfestingu á eftir þetta:
1. Þegar maður á kerru notar maður hana ekki. Þegar maður á ekki kerru þarf maður oft á kerru að halda.
2. Það fylgja því átök að vera afi og mikil ábyrgð.
----------------------------------

* orðin sviðsmynd og grafalvarlegur eru ekki notuð hér nema vegna þess að þau eru dæmi um tískuorð eða tískuhugtök sem hafa verið áberandi í íslenskri umræðu, það fyrrnefnda í kringum eldgos í Holuhrauni og hið síðarnefnda í tengslum við átök á vinnumarkaði þessar vikurnar.  Bæði þessi orð finnst mér dæmi um þá þá eftiröpun sem á sér stað sem hluti af umræðuaðferð landans. Afleiðingar eftiröpunarinnar verða síðan útþynning og merkingarleysi.  Tvö dæmi önnur sem koma upp í hugann í fljótu bragði eru ómöguleiki og heimilin í landinu.

25 apríl, 2015

Tveggja kerru barnahús (fyrri hluti)

Ég átti einusinni kerru. Hún var reyndar ekki til stórræða og reyndist ekki mikið notuð þegar til kom. Þá átti ég Land Rover Discovery og það var ekki hægt að segja að ég liti mjög vel út þar sem ég dró þessa kerru aftan í honum. Hún einhvernveginn lafði í honum þannig að aftasti hluti hennar nam nánast við jörðu. Svo eignaðist ég bíl sem var ekki með dráttarkúlu og kerran stóð bara algerlega ónotuð. Svo gerðist það dag einn um vetur að ég fékk snjóruðningstæki til að létta á heimreiðinni og hlaðinu, að kerran lenti fyrir tönninni og kengbeyglaðist og skekktist. Þar með lauk sögu hennar, utan þess  að nágranni sem hefur áhuga á að gera við dót, falaðist eftir henni þar sem hún stóð skökk og skæld úti í kanti einhverjum árum seinna.

Síðan hef ég ekki átt kerru.

Ég ég á núna bíl með dráttarkúlu.

Nágrannar mínir eiga ágætis kerru.

Ég, og reyndar fD einnig, eigum barnabörn og skógi vaxið og skjólgott land, með alla möguleika á að geta orðið prýðis leiksvæði fyrir ungt fólk.
Sem afi hef ég tilteknar skyldur, sem felast líklega einna helst í því að skapa jákvæða ímynd Kvistholts  í hugum unganna. Jákvæð ímynd verður til vegna þess að eitthvað er skemmtilegt eða áhugavert.

Jæja, hvað um það, það kom bæklingur í póstkassann. Þar var að finna mynd af barnahúsi. Ákvörðun var tekin. Húsið pantað. Nokkru síðar kom tilkynning um að húsið væri komið í verslun í höfuðstað Suðurlands. Það þurfti að ákveða hvernig það yrði sótt.
Það var hringt í nágranna sem á kerru.
Kerrulán reyndist auðsótt mál.
Upp rann dagurinn sem húsið yrði sótt.
Ég fór á Qashqai til að ná í kerruna, í íslensku vorveðri. Það hafði verið frost um nóttina og hitinn var rétt að skríða yfir frostmarkið.
Það var þarna sem hið raunverulega tilefni þessara skrifa gerði vart við sig.
Það reyndist fremur þungt að draga kerruna að dráttarkúlunni. Það var eins og annað kerruhjólið væri stíft. Öll fór þó tengingin eins og til stóð, beislið small á kúluna að rafmagn í sting og þar með ók ég af stað í Kvistholt til að nálgast fD, áður en lagt yrði í hann. Það heyrðist eitthvert undalegt hljóð frá kerrunni, en ég skrifaði það á frostið, og mögulega að eigandanum hefði lásðst að smyrja legur, eða eitthvað slíkt. Skömmu eftir að lagt var af stað hætti þetta hljóð að heyrast og ferðin niðrúr gekk svo sem til stóð.
Í versluninni var gengið frá kaupunum og eftir allanga bið, sem hentar mér afar vel, svo þolinmóður sem ég er, tók afgreiðslumaður á lagernum við afgreiðsluseðli mínum og hóf síðan leitina að húsinu, fann það, innpakkað á palli og náði í framhaldi af því í stórna lyftara, sem hann síðan notaði til að lyfta húsinu (þegar ég segi húsinu á ég auðvitað við niðursniðnu timbrinu sem fer í húsið, þegar og ef mér tekst einhverntíma að setja það saman) upp á kerruna, sem reyndist ekki alveg nógu stór til að húsið kæmist ofan í hana. Úr varð að afgreiðslumaðurinn fann tvær spýtur sem hann lagði þvert á kerruna og tyllti síðan húsinu ofan á. Húsið var ekki fest með öðrum hætti og fD hafði á því orð að það væri miður viturlegt að keyra með þetta svona í Kvistholt. Það taldi hún ekki verða ferð sem endaði vel (ég nota hér ekki beinlínis þau orð sem fD notaði, en þeir sem til þekkja verða bara að gera sér í hugarlund hver þau voru).
Allt klárt og ekið af stað í síðustu búðina áður en haldið yrði uppeftir.
Ég steig út úr Qashqai við búðina og þá fannst mér ég taka eftir að annað kerruhjólið hallaði lítillega inn á við að ofan (eða út að neðan). Þetta skrifaði ég í fyrstu á fjaðrabúnað kerrunnar og sinnti þar með erindum mínum í áðurnefndri verslun. Þegar ég kom síðan að kerrunni aftur sá ég að hitt kerruhjólið var fullkomlega eins og maður býst við að kerruhjól séu. Þegar ég bar hjólin tvö saman sá ég greinilegan mun á hjólunum.  Sannarlega langaði mig ekki til þess (see no evil....) en ég ákvað samt að leggjast á hnén til að athuga hvort eitthvað væri að sjá við hjólið innanvert.  Þar sem mér hafði tekist að koma mér á hnén og kíkja undir kerruna sá ég það sem ég vildi síst af öllu sjá: skekktan hring þar sem öxullinn gekk inn í hjólið og mér varð ljóst á þeirri stundu að þessi kerra myndi ekki flytja húsið í Kvistholt. Mér var jafn ljóst að ég gæti ekki skilið hana eftir með húsinu á, á þeim 4 bílastæðum sem ég hafði lagt í.
Þær aðstæður sem þarna voru uppi buðu upp á grafalvarlega (tískuorð í íslensku þessar vikurnar) sviðsmynd (tískuorð í íslensku frá tímum gossins í Holuhrauni).

Frá framhaldinu verður greint í síðari hluta.

30 desember, 2014

Af sprengiþroska

Traustu og öflugu kaupin
Á síðustu árum hef ég komist að þeirri niðurstöðu að mér hafi mistekist að ala upp í börnum mínum áhuga á áramótasprengingum. Fyrir hver áramót hef ég "þurft" að standa í því að velja og kaupa "fíriverk" til að nota til hátíðarbrigða á gamlárskvöld og eitthvað inn í nýársnótt. Aðrir Kvisthyltingar hafa yfirleitt látið sér fátt um finnast:
  • jú-það-er-svo-sem-allt-í-lagi-að-kaupa-eitthvað, 
  • mér-er-alveg-sama, 
  • ég-get-svo-sem-kveikt-í-þessu, 
  • ætli-maður-verði-ekki-að-fara-út-í-dyr-til-að-kíkja-á-þetta-úr-því-búið-er-að-kaupa-það 
Ég átti ekkert von á að á þessu yrði breyting nú og í nauðsynlegri áramótaferð í höfuðborg Suðurlands í dag þurfti ég, eins og venjulega, að minna á að "fíriverkið" væri ókeypt. Þá þegar var fD búin að sjá til þess að komið væri við í sérstakri búð til að kaupa leir.
Þar sem ég stöðvaði Qashqai fyrir utan Björgunarmiðsöðina spurði ég, sem oft áður, hvort farþegarnir ætluðu að bíða í bílnum. Mér til nokkurrar undrunar, þó svo ég léti á engu bera, voru þrennar aðrar dyr opnaðar og allir áramótaheimaverandi Kvisthyltingarnir stigu frá borði og fylgdu mér inn í spengihöllina.

Ég hef það fyrir sið við þessar aðstæður að taka mér stöðu nokkuð frá afgreiðsluborðinu og velta fyrir mér því sem fyrir augu ber og reyna þannig að komast að niðurstöðu um hvað gæti verið við hæfi. Markmið mín, sem ég lét auðvitað ekki uppi við nokkurn mann, voru að trappa mig niður í "fíriverkskaupum" þetta árið, en vanda frekar valið.

Sem fyrr breytti það engu þó ég stæði úti á gólfi og horfði á hillurnar og þar  með nálgaðist ég afgreiðsluborðið í fullvissu um að þar myndu mér verða gefin góð ráð. Á þessu varð engin breyting nú. Ég veit af fyrri reynslu að skoðanir fæ ég ekki upp á yfirborðið frá þeim sem eru með í för. Á því varð ekki breyting nú.

Það varð hinsvegar bylting.

fD-kaupin
Hægra megin við mig, þar sem mæðgurnar stóðu í hnapp heyrði ég eitthvert hvísl og síðan gerðist það, að afgreiðslumaður seildist upp á vegg eftir flugeldapakka. Því næst heyrði ég fD gefa eftirfarandi yfirlýsingu: "Það er svo fallegt nafn á þessari. Ég ætla að fá hana". Þar með náði afgreiðslumaðurinn í Melkorku Mýrkjartansdóttur upp í hillu. "Eigum við ekki líka að kaupa svona löng stjörnuljós?" sagði hún þessu næst, en ekki við mig.  
Þarna var um að ræða einhver ótrúlegustu umskipti sem ég hef reynt í fari fD. Nú sé ég fram á að þurfa ekki framar að hafa áhyggjur að neyða neinn óviljugan til "fíriverkskaupa". 

Sannarlega hafði kaupæði fD ekki áhrif á skýr markmið mín og að ráði afgreiðslumanns festi ég kaup á afar traustum og öflugum sprengjum.

Ég hafði verið búinn að sjá fyrir mér að þetta yrðu áramótin sem Kirkjuhyltingar myndu bera sigur úr býtum, en með leikfléttu fD varð ljóst, að enn eitt árið munu þeir þurfa að hneigja sig í lotningu á brekkubrúninni.
---------------------------------------------

Styrkjum björgunarsveitirnar með því að kaupa "fíriverk" af þeim, en ekki öðrum.

11 september, 2014

Ekki sáttur

Ég er maður sem fylgist með stefnum og straumum, enda löngu búinn að átta mig á því að þeir sem gleyma sér smá stund í tíma sem löngu er liðinn (eða ekki svo löngu) eru óðar orðnir á eftir að flestu leyti, ekki aðeins tæknilega heldur einnig í hugsun, málbeitingu og flestu því öðru sem því fylgir að lifa og starfa í nútímanum. Lengi gæti ég nú fjallað um þetta eins og margt annað, en það bíður eftirlaunaáranna. Nú er það hraðinn sem gildir; snaptsjattshraðinn.

Fyrir skömmu átti ég leið um Egilsstaði og Hallormsstað ásamt fleira fólki. Þar sem það fólk kemur við sögu hér síðar þá er bara best að geta þeirra: Hveratúnsbændurnir Sigurlaug og Magnús, tenórinn Egill Árni og píanóleikarinn Hrönn. Þarna vorum við á ferð í ágætum bíl Einbúablárhjónanna Sæbjörns (Mannsa) og Arndísar (Dínu) og þar sem veðrið var með slíkum eindæmum að annað eins höfðum við ekki upplifað sunnanlands misserum saman, varð úr að við renndum í Atlavík.
Sá staður, við þessar aðstæður, var eiginlega draumkenndur, ekki aðeins fyrir fegurðar sakir og veðurs, heldur einnig vegna blámóðu loftsins og drapplits Lagarfljótsins.

Við svona aðstæður er fyrsta hugsun nútímamannsins að taka af sér sjálfsmynd til dreifingar, svo aðrir geti notið hennar með honum. Þarna voru nútímamenn á ferð og viðþolslitlir drifu ferðalangarnir sig úr bifreiðinni og niður á vatnsbakkann og hófu að taka sjálfsmyndir. Og þeir tóku sjálfsmyndir, og þeir tóku sjálfsmyndir og síðan tók við tími sem fór í að séra þessum myndum, öðrum til ánægju.

Um þessa mynd er lítillega fjallað í textanum.
Ég er auðvitað nútímamaður og sem slíkur var ekki um annað að ræða hjá mér en að taka sjálfsmynd(ir), sem ég  gerði auðvitað, þó svo þetta sé einn þeirra þátta í fari nútímamannsins sem ég hef enn einna minnsta skilninginn á.

Ég, ólíkt sumum hinna, séraði myndunum ekki og hafði það svo sem ekki einusinni í hyggju, taldi myndefnið ekki vera þess eðlis að það ætti erindi í almenna dreifingu.
Það var, sem sagt, sérað og síðan fóru sérarnir að keppast um hver fengi flest lækin, svona rétt eins og gengur og gerist.  Og ekki meira af því, utan eftir á að hyggja þá velti ég fyrir mér, hvort það var náttúrufegurðin eða sjálfsmyndirnar, sérin og lækin, sem héldu athygli ferðamannanna mest.

Það var haldið heim á leið og daginn eftir varð mér litið í símann minn (já, ég á snjallsíma með myndavél). Þá blasti þar við mér einstaklega vel heppnuð sjálfsmynd og þar með varð ekki aftur snúið.
Ég séraði sjálfsmyndinni með þessum hætti:

Það var eins og við manninn mælt, miðillinn logaði fram eftir kvöldi og næsta dag, bæði af lækum og kommentum. Annað eins hef ég ekki reynt á þessum vettvangi og neita því auðvitað ekki, þó svo sjálfsmyndinni hafi verið sérað í hálfkæringi, að viðbrögðin kitluðu og eftir þau er ég líklega orðinn meiri nútímamaður. Uppskeran varð 113 læk og 16 komment. Kommentin voru sum þess eðlis að ég roðnaði með sjálfum mér og lyftist allur að innan, en hvorki lét né læt á neinu bera hið ytra.

Sagan er hinsvegar ekki öll.

Skömmu eftir þetta átti Hveratúnsbóndinn afmæli. Hann er reyndar bróðir minn, fyrir þá sem ekki vita. Eins og vera bar streymdu inn að prófílinn hans hlýjar afmæliskveðjur. Allt í lagi með það.
Sjálfsmynd Hveratúnsbóndans, sem vikið er að í textanum.
Eins og vera ber þakkaði maðurinn svo fyrir allar kveðjurnar daginn eftir og lét þar fylgja með sjálfsmynd sem hafði verið tekin við áðurnefnt tilvik í Atlavík. Þessi sjálfsmynd komst auðvitað ekki í hálfkvisti við mína fínu mynd, Bæði var, að uppbygging myndarinnar fullnægði ekki stöðlum góðrar sjálfsmyndar og myndefnið skorti einfaldlega hinn rétta tón.
En viti menn.
Lækin og kommentin streymdu að og nú er þarna að finna 119 læk og 17 komment!

Ég hef velt talsvert fyrir mér ástæðum þessa sigurs bróður míns, en ekki fundið neina haldbæra, utan þá að þarna bættust við nokkrir sem höfðu gleymt að óska honum til hamingju með afmælið og reyndu þarna að bæta úr, eftir því sem kostur var, með þessum hætti.

-------------------------------------------------

Varnagli: Ég vona að lesendur átti sig á raunverulegum tilgangi mínum með þessum skrifum. Áður en þeir túlka þennan tilgang  með neikvæðum hætti, þætti mér vænt um að fá að heyra frá þeim.

11 júlí, 2014

Keðjusagarfrúin

"Þarf að gera eitthvað fleira?" spurði ég, harla slakur, þar sem við Kvistholtshjón renndum úr hlaði stórmarkaðs í höfuðstað Suðurlands um hádegisbil í dag. Innkaupin höfðu gengið átakalaust fyrir sig og ég hafði meira að segja sýnt talsvert frumkvæði í innkaupunum, þó flest af því væri allt annað en stóð að listanum hjá fD, þar á meðal rauðrófur og chili.
"Ég ætla að kaupa keðjusög", kom svarið, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þó ég hafi ekki látið á neinu bera, fór lítillega um mig við þessa ákveðnu yfirlýsingu. Ég renndi meira að segja í huganum yfir það sem gerst hafði í innkaupaferðinni en fann ekkert það í henni sem gæti gefið tilefni til að keypt yrði keðjusög, en hvað vissi ég svo sem? Eitt var mér ljóst, þegar fD er búin að taka svo eindregnar ákvarðanir verður þeim ekki breytt, nema hún geri það sjálf.
"Það er nefnilega það" sagði ég því og renndi mér út úr hringtorginu í átt að annarri byggingavöruversluninni.
"Nei, ekki í þessa. Ég ætla að fara í hina". Þar með var komin fram tvöföld ákvörðun sem erfitt yrði að hagga: það skyldi keypt keðjusög í tiltekinni byggingavöruverslun, og ekki meira um það að segja.
Ég fann fljótlega leið til að snúa við, enn ekki alveg viss um hvernig ég ætti að taka þessu öllu saman, en brátt fékk ég meira að vita.
"X (sálfræðingur) sagðist hafa notað keðjusög sem hann hefði fengið hjá þessari byggingavöruverslun til að saga niður tré hjá sér og þó stofnarnir væru 40 cm í þvermál hafi sögin runnið í gegnum þá eins og hnífur smjör við stofuhita. Ég vil þannig  keðjusög". 
Nú, úr því X hafði sagt þetta, hlaut það að vera rétt. Ég velti fyrir mér örskotsstund hvort blandan sálfræðingur og keðjusög gæti með einhverju móti orsakað hættuástand á heimilinu, en sá strax að þar gæti ekki verið rökrænt samhengi.

Þar með renndum við í hlað á réttri byggingavöruverslun.

Þar innan dyra var allt í rólegheitum, en svo undarlega sem það hjómar var, eins og fyrir yfirnáttúrulega krafta, búið að raða upp á borð keðjusögum af ýmsum gerðum, beint á móti innganginum. Það sem meira var, þær voru með 25% afslætti. Á þeim, tímapunkti varð mér ljóst, að út úr þessari verslun færum við ekki keðjusagarlaus.
Ég fann á endanum afgreiðslumann sem ku vita ýmislegt um keðjusagir og sýndi honum með látbragði sverleika þeirra trjáa sem hún þyrfti að ráða við.

"Ég vil fá sög eins og sálfræðingurinn notaði". Það var fD sem kom þarna inn í umræðuna, og hafði í engu slegið af ákveðni sinni.  Þar með gengum við í halarófu inn í vélaleigusalinn. Þar kom í ljós að tiltaknar Texas vélar voru aðallega notaðar í leigunni, svo þær hlutu að vera réttu vélarnar. Það voru teknar niður tölur svo ekkert færi á milli mála. Síðan voru fest kaup á sálfræðingsvélinni, með 25% afslætti.
"Þarf að gera eitthvað fleira?" spurði ég þar sem við renndum úr hlaði byggingavöruverslunarinnar.
"Nei, ekkert fleira", og þar með lá leið í Kvistholt, með keðjusögina.
Við renndum í hlað og við blöstu tilvonandi fórnarlömb keðjusagarinnar.
"Þau eru ekki næstum því jafn sver og þú sýndir afgreiðslumanninum."
Ég kvað fD misminna um sverleika trjáa í Kvistholti sem biðu nú dauða síns.
Ég get nefnilega líka verið ákveðinn.

--------------

Ég reyndi nýlega að fá vottorð hjá Pétri þess efnis, að ég þyldi ekki búðarölt. Hann neitaði, en sagði aðeins að maður ætti að forðast það sem maður þyldi ekki.
Ég lét mynda á mér mjóbakið í dag. Kannski kemur þá í ljós að ég þoli ekki skógarhögg. Hver veit?.

Varðandi X þá vil ég ekki nafngreina hann fyrr en hann hefur gefið mér til þess leyfi.

04 febrúar, 2014

Ungur Norðmaður varð úti

Þann 6. desember, 1929 kom ungur maður, 21 árs, að Torfastöðum til frú Sigurlaugar og séra Eiríks. Hann kom austan frá Hallormsstað og fyrir lá, að hann myndi hefja störf á Syðri-Reykjum, hjá Stefáni og Áslaugu um mánaðamótin janúar febrúar, 1940. Hann fékk þarna inni á Torfastöðum í tæpa tvo mánuði sökum kunningsskapar frú Sigurlaugar og frú Sigrúnar Blöndal á Hallormsstað, en hana kallaði þessi ungi maður, Skúli Magnússon, "fóstru".
Það  hefur greinilega verið ætlun hans að skrásetja nú vel og rækilega þann tíma sem hann átti hér fyrir sunnan og hélt því dagbók um daglegt líf í eitt ár, árið 1940, svo ekki söguna meir.

Dagbókin geymir aðallega frásagnir af daglegu lífi á Torfastöðum og Syðri-Reykjum. Það sem hér fer á eftir er frásögn af einum atburði, og því sem honum fylgdi.

29. janúar, 1940
Austan gola og dálítil rigning. Þeir menn sem eru nú í vinnu hjá Stefáni eru Magnús Sveinsson frá Miklaholti, Bergur Sæm(undsson), Olav hinn norski og ég.
Færslurnar næstu daga greina að mestu leyti frá daglegum störfum, en síðan kemur laugardagurinn 17. febrúar:

Mbl. 23. febrúar
Laugardagurinn 17. febrúar, 1940
Norðaustan kaldi, bjart veður, 10°frost. Ég var í ýmsum snúningum, svo sem fægja rör, láta rúður í glugga og grafa skurði. ég fékk bréf að heiman og frá móður Hlyns.
Ólav fór upp að Efstadal.

Sunnudagurinn 18. febrúar.
Norðan og norðaustan gola og 2°frost, mikil snjókoma með morgninum.
Olav var ókominn frá Efstadal.

Mánudagurinn 19. febrúar
Norðaustan strekkingur, mikil snjókoma og fjúk er á daginn leið, en var slydda um morguninn og fremur stillt veður. Þegar við höfðum borðað morgunverð lögðum við fjórir af stað, Stefán, Jón Guðmundsson (hann kom að S.-Reykjum 31. janúar til að leggja miðstöð í gróðurhusin), Bergur (Sæmundsson) og ég til að líta eftir Olav, því að veður tók heldur að versna, snjókoman og vindurinn jókst. Við vonuðum að hann hefði aldrei lagt af stað frá Efstadal, en þorðum samt ekki annað en grennslast eftir því. Þegar við vorum koomnir norður fyrir Brúará var kl. 9.50. Við reyndum að hraða ferð okkar sem mest, en það var ekki auðvelt, því að snjórinn var mjög mikill, stöðugt kafald í mitt lær og mitti og jafnvel enn meira sumsstaðar. Okkur sóttist seint sem vonlegt var.
Þegar við höfðum gengið æði spöl áleiðis til Efstadals mættum við pilti þaðan sem fræddi okkur á því að Olav hefði farið þaðan kl 8 um morguninn og kvaðst ekki hafa þorað annað en fara á eftir honum er hann varð þess var hve veðrið var orðið ískyggilegt.
Nú leist okkur ekki á blikuna og vissum sem sagt ekki hvað gera skyldi. Snjókoman jókst enn meir, jafnframt því sem hvessti. Loks tókum við þá ákvörðun að fara vestur að Böðmóðsstöðum, því að okkur þótti líklegt að hann hefði leitað þangað, þar eð þetta var næsti bær. Eftir hér um bil tvær klukkustundir komumst við þangað (þegar sæmilegt er umferðar er þessi vegalengd farin á 20' til hálftíma) og vorum flestir orðnir þurfendur hvíldar. Eftir að við höfðum hresst okkur þar og fengið þau klæði sem okkur vanhagaði um (við höfðum ekki búið okkur nægilega vel er við lögðum af stað að heiman) lögðum við af stað sömu leið ásamt Guðmundi bónda. Ferðin heim gekk slysalaust og vorum við komnir þar um kl. 5.
Jón fór með Guðmundi til baka aftur, því að varhugavert þótti að láta einn mann vera á ferð í þessu veðri.
Þreyttir og áhyggjufullir lögðumst við til hvíldar.

Þriðjudagurinn 20. febrúar
Hvass norðaustan, snjókoma og talsvert frost. Dimmviðri var svo mikið að ekki þótti fært nokkrum manni að leita Olavs. Sátu því allir heima og gátu ekkert að gert.

Miðvikudagurinn 21. febrúar
Austan kaldi, úrkomulaust, en dálítið fjúk. Fjórir menn héðan af bæjunum fóru norður að Efstadal og vestur að Laugardalshólum til að vita hvort Olav hefði komið þangað, en svo reyndist ekki vera. Leituðu þeir síðan hér á mýrunum meðan bjart var, en án nokkurs árangurs.
Nú gerðu menn sér ekki von um að Olav væri lífs fyrst hann hafði ekki komist til þessara áðurnefndu bæja. Var nú tekið að safna lið hér í nágrenni til að leita á morgun.

Fimmtudagurinn 22. febrúar
Austan strekkingur, krapahríð. Laitað var að Olav meirihluta dagsins. Við vorum átta, sem tókum þátt í leitinni. Heim komum við án nokkurs árangurs. Eins og áður er sagt var krapahríð, enda urðum við mjög hraktir og kaldir. Á mýrunum var snjóinn ekki að sjá, en í skóginum og þar sem eitthvert afdrep var, var kafald og him mesta ófærð.
Okkur þótti fullvíst að leit yrði árangurslaus meðan þessi snjóþungi væri á þessum slóðum. Var því ákveðið að geyma hana þar til þiðnaði.

Föstudagurinn 23. febrúar.
Norðaustan gola, skýjað loft, úrkomulaust, að kvöldi var 4°frost.
Við lögðum rör í 4 og 5 (númer gróðuhúsa), en létum okkar týnda vin og félaga hvíla í sinni hvítu og friðsömu sæng, óáreittan.

Næstu daga er ekki vikið að hvarfi Olavs, en veðri lýst, svo og daglegum störfum á Syðri Reykjum.

Föstudagurinn 1. mars.
Hæg suðvestan átt, éljaveður en bjart á milli. 1°frost. Lokið var við að logsjóða miðstöðina í 4 og 5. Ég fór niður að Torfastöðum með Agli logsuðumanni.
Lík Olavs heitins fannst. Var það á svokallaðri áveitu, sem er vestur af Efstadal. Hafði hann auðsjáanlega ætlað að rekja sig með girðingu sem liggur frá grundarhúsunum í Efstadal suður að Brúará, en sökum dimmviðris tekið skakka girðingu og lent suður á áveituna.

Laugardagurinn 2. mars
Suðvestan kaldi, rigning af og til, 5°hiti. Ég batt upp tómata í 6 og lauk því.
Gröf Olavs var tekin af Bergi. Systir Olavs heitins og maður hennar komu hingað.

Mánudagurinn 3. mars
Norðaustlæg átt, bjart veður, 5°frost.
Jarðarför fór fram á Torfastöðum.
Í framhaldi af þessum lestri komst ég að því að Olav sá sem þarna lét lífið hét fullu nafni Olav Sanden og systir hans, Liv Sanden var kona Stefáns Þorsteinssonar, garðrkjufræðings í Hveragerði á þessum tíma. Þau höfðu gengið í hjónaband 1938. 1946 fluttu Liv og Stefán að Stóra-Fljóti og bjuggu þar saman til 1951, en þá lést Liv úr berklum. Stefán bjó áfram á Stóra-Fljóti til 1956. Hann lést 1997.



 Myndin er komin frá Jarle Sanden í Molde í Noregi, með aðstoð Sigrúnar Stefánsdóttur, dóttur Stefáns og Liv. Á henni eru Liv og Stefán, ásamt elstu börnum sínum, Aðalbjörgu (f. 1940), Þorsteini (f. 1938) og Guri Liv (f. 1941). Mynd: Vigfús Sigurgeirsson (1943).


19 janúar, 2014

Skálholtssókn á sjötta áratug síðustu aldar

Þessi mynd er tekin 1961 frá læknishúsinu.
Þarna er nýja húsið í Hveratúni í byggingu.
Það stefnir hraðbyri í að ég tilheyri elstu kynslóðinni sem spígsporar á jörðinni. Síðastliðin 20-30 árin hefur kynslóðin á undan mér verið að ljúka jarðvist sinni, nú síðast heiðurskonan Ingibjörg á Spóastöðum.
Mér telst svo til, án þess að ég sé viss um það að nú séu þau sex eftir, sem voru í blóma lífsins að koma upp barnahópnum sínum hér í Skálholtssókn á fyrstu árum ævi minnar.
Á þeim tíma var samgangur talsvert mikill meðal íbúa í sókninni, meiri en er í dag og fjölskyldurnar flestar frekar stórar, enda var þetta á barnasprengjuárunum eftir seinni heimsstyrjöld.
Hér á eftir fylgir fremur óvísindalegt yfirlit um það umveerfi sem ég fæddist inn í og ólst upp við fyrstu árin á sjötta áratug síðustu aldar.

Spóastaðir
Á Spóastöðum bjuggu Ingibjörg Guðmundsdóttir (1916-2014) og Þórarinn Þorfinnsson (1911-1984). Steinunn (Stenna) (40), Sigríður (Sigga) (?), Þorfinnur (43),Guðríður Sólveig (Gurra) (45), Bjarney Guðrún (Badda) (46) og Ragnhildur (53).

Skálholt
Í Skálholti bjuggu þau María Eiríksdóttir (1931- ) og Björn Erlendsson (1924-2005). Dætur þeirra eru, Kristín (52), Jóhanna (55), Kolbrún (60)

Þá eru það prestshjónin í Skálholti, sr. Guðmundur Óli Ólafsson,(1927-2007) og frú Anna Magnúsdóttir (1927-1987), en þeim varð ekki barna auðið.

Höfði
Í Höfða var á þessum tíma ráðsmaður, Stefán J. Guðmundsson, "Stebbi í Höfða", (1912-1972) og tvær Rúnur, þær Guðrún Þóra Víglundsdóttir (1918-2002) og Guðrún Jónsdóttir (systir Eiríks á Helgastöðum, frá Neðra-Dal) (1899-1995)

Helgastaðir
Hinumegin við Laugarás voru síðan þrír bæir, Iða, Helgastaðir og Eiríksbakki. Ég man nú ekki mikið eftir fólkinu sem bjó á Helgastöðum eða Eiríksbakka á 6. áratugnum Á Helgastöðum bjuggu á þessum tíma Eiríkur Jónsson (1894-1987) og Ólafía Guðmundsdóttir (1901-1983). Ég man eftir syni þeirra Gísla (50), sem er eitthvað aðeins eldri en ég. Þau Eiríkur Jónsson og Ólafía fluttu frá Helgastöðum 1967.

Eiríksbakki
Á Eiríksbakka bjó lengst af á þeim tíma sem ég man Hulda Guðjónsdóttir (1917-1995). Hún bjó þar ein, og tók við búi foreldra sinna.

Iða
Á Iðu var stórt heimili og ég man eftir Bríeti Þórólfsdóttur (1899-1970), Lofti Bjarnasyni (1891-1969), syni Bríetar, Ingólfi Jóhannssyni (1919-2005) og Margréti Guðmundsdóttur (1920-). Þau Magga og Ingólfur eignuðust 4 börn, Jóhönnu Bríeti (45), Guðmund (47), Hólmfríði (51) og Loft (55).

Laugarás 
Uppi á hæðinni í Laugarási bjuggu Helgi Indriðason (bróðir Guðmundar á Lindarbrekku) (1914-1995) og Guðný Aðalbjörg Guðmundsdóttir (systir Jóns Vídalín á Sólveigarstöðum) (1913-1993). Þau ólu upp tvö börn sem voru tiltölulega nálægt mér í aldri, Birgi (48) og Gróu (52).

Laugarás læknishús
Í læknishúsinu voru til 1956 Knútur Kristinsson, læknir (d. 1972) og Hulda Þórhallsdóttir (d. 1981). Ég man eiginlega ekkert eftir þeim, enda á þriðja ári þegar þau fluttu burt. Í stað þeirra  komu þau Grímur Jónsson (1920-2004) og Gerða Marta Jónsson (1924-2013). Þau voru hér í 10 ár og áttu 6 börn, Grím Jón (Nonna)(49), Lárus (Lalla)(51), Þórarin (Dodda)(52), Jónínu Ragnheiði (56), Bergljótu (Beggu)(59) og Egil (62).

Lindarbrekka
Á Lindarbrekku bjuggu Guðmundur Indriðason (1915-) og Jónína Sigríður Jónsdóttir (1927-). Þau fluttu nýlega í þjónustuíbúð á Flúðum. Þau eignuðust 4 börn, Indriða (51), Jón Pétur (55), Katrínu Gróu (56) og Grím (61).

Launrétt - dýralæknishús
Bragi Steingrímsson (1907-1971) tók við dýralæknisembætti 1958 og flutti ásamt konu sinni Sigurbjörgu Lárusdóttur (1909-1999), í nýbyggt dýralæknishúsið í Launrétt þagar það var tilbúið (mér sýnist að þangað til nýja húsið var tilbúið hafi þau búið á Stóra-Fljóti). Þau áttu 8 börn:
Grímhildi (37), Baldur Bárð (39), Halldór (41), Steingrím Lárus (42), Kormák (44), Matthías (45), Þorvald (48), Kristínu (49). Eðlilega man ég lítið eftir börnum Braga og Sigurbjargar, og þaf helst af Sigurbjörgu að til henna sóttum við nokkur n.k. forskóla áður en formleg skólaganga hófst.


Tekið í gróðurhúsi Jóns Vídalín 1961.
Aftastur er líklega Erlingur Hjaltason, fyrir framan hann
Guðmundur Daníel Jónsson og systir hans, Lára.
Mig grunar að fremstur standi síðan Jakob Narfi Hjaltason.
Sólveigarstaðir
Á Sólveigarstöðum bjuggu Jón Vídalín Guðmundsson (1906-1974) og Jóna Sólveig Magnúsdóttir (1928-2004). Jóna kom með 2 börn inn í hjúskap þeirra þau Magnús Þór Harðarson (1946-1966), Hildi E.G. Menzing og saman eignuðust þau Guðmund Daníel (Mumma)(55), Láru (57) og Guðnýju (60) og Arngrím (1962-2003)

Einarshús og síðar Laugargerði 
Fríður Pétursdóttir (1935 -) og Hjalti Ólafur Elías Jakobsson (1929-1992) fluttu í Laugarás snemma á sjötta áratugnum og þau eignuðust sex börn, Pétur Ármann (53), Erling Hrein (55), Hafstein Rúnar (57), Jakob Narfa (60), Guðbjörgu Elínu (64) og Mörtu Esther (68). 

Hveratún
Þarna bjuggu foreldrar mínir frá 1946, en þau voru Guðný Pálsdóttir (1920-1992) og Skúli Magnússon (1918 -). Þau eignuðust 5 börn, Elínu Ástu (47), Sigrúnu Ingibjörgu (49), Pál Magnús (53), Benedikt (56) og Magnús (59)

Ég vona að ég hafi ná hér saman nöfnum allra sem við sögu komu í Skálholtssókn á sjötta áratug síðustu aldar. Af þessari upptalningu má sjá að barnafjöldinn var mikill, en hér fyrir ofan eru upp talin 43 börn í sókninni. Nú er öldin önnur.

Fyrst ég er nú búinn að safna þessu saman, tel ég vera kominn grundvöll til að halda áfram - skoða kannski betur sögu þessa fólks og afkomendanna, safna saman myndum (nú þegar er ég kominn með þó nokkrar) og loks má spjalla um samspil fólksins í Skálholtssókn á síðari hluta síðustu aldar.
En þegar íbúasprengingin varð í Laugarási á sjöunda áratugnum fóru málin að flækjast heldur betur og til að ná saman upplýsingum um alla sem þar komu við sögu þarf heilmikla rannsóknavinnu.

Það er ljóst að þetta er stærra verkefni en ég treysti mér mér í að svo stöddu
-----
Vinsamlegast látið mig vita um villur sem kunna að leynast í þessari samantekt.

11 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (2)

Það var að morgni föstudagsins 27. desember, að síminn hringdi. Sá sem hringdi kynnti sig sem blaðamann á tilteknu dagblaði og að hann starfaði við þann hluta þess blaðs sem kallaðist Íslendingar. Hann spurði hvort hann mætti ræða við mig í tilefni yfirvofandi afmælis.
Þarna þurfti ég að hugsa hratt, sem ég gerði auðvitað. Eldsnöggt renndi ég yfir, í huganum allt það sem mælti með því að ég svaraði þessu játandi og allt sem mælti gegn.
Þetta eru tvær megin ástæðurnar sem mæltu eindregið gegn því að ég samþykkti að taka þátt í umbeðnu  viðtali:
1. Frá því núverandi ritstjóri tók við þessu blaði, hef ég aldrei flett því, jafnvel þó svo ég sæti einn heima hjá mér með eintak af blaðinu á borði fyrir framan mig í boði fD. Ekki hef ég heldur farið inn á vef þessa blaðs.  Já, já, lesendur verða bara að sætta sig við að svona er ég nú og ég hef ekki hugsað mér að breyta því. Með þessu móti hef ég að mörgu leyti verði sáttari við sjálfan mig en ella hefði verið.
2. Ég hef ekki tilheyrt þeirri manngerð sem telur það mikilvægt að halda sjálfum sér á lofti út á við. Þeir sem vilja sjá hver ég er, eða fyrir hvað ég stend, geta kynnt sér það. Að öðru leyti hef ég leyft umheiminum (fyrir utan þennan vettvang, auðvitað) að vera lausan við fregnir af því hverskonar snillingur ég er, að flestu leyti. Ég tel mig vera svona, eins og kallað hefur verið - prívatmanneskja eða "private person".

Þetta er það sem mælti hinsvegar með því að ég tæki í mál að taka þátt í þessum leik:
1. Ég hef stundað það nokkuð, aðallega mér sjálfum til skemmtunar, að fara aðrar leiðir en fólk á endilega vona á, og mér hefur stundum tekist að sýna á mér óvæntar hliðar. (jú, víst!)
2. Ég beiti nokkuð oft ákveðinni og fremur kaldranalegri kaldhæðni í daglegum samskiptum. (það held ég nú).
3.  Hér var um að ræða ákveðin, óeiginleg, tímamót í lífi mínu, en því gæti verið tilvalið fyrir mig að sýna nýja hlið.
4. Upp að vissu marki tel ég mig búa yfir ákveðnum húmor, ekki síst gagnvart sjálfum mér.
5. Maðurinn í símanum var afar kurteis, og virtist vera eldri en tvævetur.
6. Með umfjöllun um mig í þessu blaðið yrði minna pláss fyrir annað, sem hefði verri áhrif á þjóðina.

Eftir 5 sekúndna umhugsun samþykkti ég viðtalið, sem síðan fór fram og tók um 45 mínútur. Þar kom í ljós að viðtalstakandinn hefði alveg geta skrifað um mig án þess að hafa við mig samband, því hann gat fundið allt sem um mig var að segja með því að gúgla.
Á meðan á viðtalinu stóð gekk á með símhringingum, og ég fékk skilaboð um að það væri blaðamaður að reyna að ná sambandi við mig. Mér var farið að líða eins og einhverri mikilsháttar manneskju með öllum þessum áhuga fjölmiðlanna og það kann að hafa haft áhrif á það sem ég lét frá mér fara.
Viðtalinu lauk. Skömmu síðar hringdi síminn og þar var á ferð blaðamaður sem óskaði eftir viðtali við mig í tilefni af afmælinu. Þarna var ég orðinn heitur, og til í allt, en samt varð ekki af þessu viðtali, þar sem þessi reyndist vera frá sama blaði og hinn, og ég taldi að nóg væri að gert, þó eflaust hefði umfjöllun um persónu mína einnig farið vel, t.d. þar sem staksteina er að finna, öllu jöfnu (þá var að finna í þessu blaði þegar ég sá það síðast fyrir 5-6 árum).

Ég fékk viðtalið sent til yfirlestrar og mér var falið að senda tilteknar myndir, sem hvort tveggja gekk vel fyrir sig.

Mánudaginn 30. desember birtist svo viðtalið í þessu blaði.
Ég verð að viðurkenna, að sjálfhverfa mín olli því, að ég skoðaði umrædda opnu, en hinsvegar ekkert annað. Mér varð ekki um sel til að byrja með og þá aðallega vegna stærðar myndefnisins, en þá varð mér aftur hugsað til þeirra raka sem ég hafði fært með sjálfum mér fyrir að taka þátt og ákvað að láta þetta  ekki á mig fá.
Yngsti sonurinn lét mynd af greininni inn á samfélgsmiðil og þar tóku að birtast athugasemdir, flestar fremur jákvæðar og aðrar athyglisverðar:


Hér var á ferð samstarfsmaður minn, sem áttaði sig fullkomlega á hvað þarna var á ferðinni.
Svo kom annar samstarfsmaður, sem tók annan pól í hæðina, væntanlega í þeirri von að ég færi loks að nálgast lífsskoðanir hans, sem seint mun verða, eins og hver maður getur ímyndað sér. Það stóð ekki á viðbrögðum kvennanna, sem ávallt taka upp hanskann fyrir mig þegar því er að skipta:


Hvað sem því öllu líður fór þetta allt nokkuð ásættanlega og ég hef hafið vegferð mína inn í nýjan áratug ævinnar (reyndar hef ég vart mátt á heilum mér taka frá því afmælið skall á sökum ólukkans pestar sem á mig hefur lagst og sem óðum er að rjátlast af mér - ég hafna því að hún hafi verið áminning um að nú væri kominn tími til að hugsa málin upp á nýtt).
---
Þann 30. desember fékk ég ýmsar góðar kveðjur, þar sem mér voru eignaðir ýmsir góðir kostir, bæði að því er varðar eðliseiginleika mína og ytra útlit. Allt þetta lyftir mér upp.
Ein kveðjan, frá æskufélaga á sjötugsaldri, fékk mig til að staldra aðeins við:

Í "denn" minnist ég þess að einhverntíma hafi ég reynt að ímynda mér, hvernig komið yrði fyrir mér árið 2000. Þá yrði ég 47 ára. Sú hugsun leiddi ekkert af sér sem eðlilegt var. Ætli foreldrar mínir hafi ekki verið á þeim aldri þá og þau voru nú bara talsvert öldruð í mínum huga þá. 
Að hugsa sér sjálfan sig enn síðar, sem sextugan stútungskall, sem væri farinn að huga að starfslokum og lífeyristöku, var auðvitað enn fjær. 

Ég var við jarðarför í gær. Fyrrverandi nemandi, rétt skriðinn yfir tvítugt, lést eftir bílslys á afmælisdaginn minn. Það er skammur vegur milli lífs og dauða og þá er ekki spurt um aldur. Í þeim efnum er sanngirnin engin. 

Sannarlega vonast ég til að fá að njóta efri ára fullfrískur og þætti ekki slæmt að takst að viðhalda tiltölulega jákvæðu lífsviðhorfi - losna við að verða fúllynt og þreytt gamalmenni, en - "den tid den sorg" - ég er enn á fullu og verð, um langa hríð enn, ef......
-------------------------
Vegna tilmæla þeirra sem ekki hafa séð fjölmiðlaumfjöllun þá sem hér hefur verið vísað til:







06 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (1)

Ekki vil ég nú viðurkenna að það hafi hvarflað að mér að árans pestarskrattin sem hefur verið að leika mig grátt undanfarna daga, sé aldurstengdur, og ekki fannst mér skólameistarinn fara fínt í það þegar hann ýjaði að því að svo kynni að vera, þegar ég tilkynnti mig veikan, fyrsta sinni þennan veturinn. 

Ég blæs á allt sem gefur í skyn að með því aldur minn fluttist úr því að vera 59 ár, yfir í 60, hafi eitthvað breyst að því er varðar líkamlegt atgerfi mitt. Vissulega hefur það verið að þroskast og breytast í allmörg undanfarin ár; ýmislegt, sem á hverjum tíma hefur mátt teljast lítilsháttar, hefur, þegar litið er til lengri tíma, reynst hafa þroskast og breyst stórlega. Ég tel ekki að þessi vettvangur sé sá rétti til að velta sér upp úr því hvernig ástand mitt að þessu leyti, hefur breyst frá sem það var fyrir 40 árum eða svo: það getur hver maður (á mínum aldri, í það minnsta) ímyndað sér.
Það er miklu áhugaverðara, að mínu mati, að skoða aðra þætti sem viðkoma sjálfum mér, í þessu samhengi. Það sem þessir þættir eiga sameiginlegt hefur með að gera þá starfsemi sem á sér stað í heilanum: hugsuninni, tilfinningunum (sálarlífinu) og viðhorfunum.  Að þessu leyti má segja að mikil átök séu í gangi. Þar eru á ferð ótal spurningar um lífið og tilveruna. Þar er fjallað um hlutverk mitt sem einstaklings í samfélaginu. Svakalegar spurningar, sem fá svör fást við.

Ég, auðvitað til í að prófa ýmislegt, lét mig hafa það um daginn, að taka þátt í einhverju vitleysisprófinu sem gaf sig út fyrir að geta sagt til um aldur minn í andanum (mental age). Það kom mér svo sem ekki í opna skjöldu að ég skyldi reynast vera 19 ára á þeim mælikvarða. Sem sagt, annaðhvort afskaplega vanþroskaður, eins og flest fólk á þeim aldri er (að mínu mati), eða þá einstaklega vel með á nótunum í nútíma samfélagi. Auðvítað kýs ég að telja það vera hið síðarnefnda, þó ekki geti ég nú sagt að það höfði sérstaklega til mín að fara á "djammið" um hverja helgi (enda snýst slíkt aðallega um hormónastarfsemi) eða skjótast í Smáralindina til að öskra af tilfinningasemi yfir einhverjum internetgúrúum (reyndar var það fólk ekki 19 ára, en liggur bara vel við höggi sem samanburður).

Mér finnst það hafa komið mér vel á þessu sviði að hafa fengið að umgangast fólk milli tektar og tvítugs í daglegum störfum áratugum saman of þannig notið þess að drekka í mig tíðarandann á hverjum tíma. Mér finnst ég skilja fólk á þessum aldri að ýmsu leyti, en það sem skilur mig frá því er lífaldurinn. Ég er í þeirri aðstöðu að geta metið viðhorfin og skoðanirnar í ljósi áratuga reynslu. 
Jú, ég gæti fjallað um það allt saman í löngu máli, en það er ekki markmið þessa pistils, heldur frekar þau óeiginlegu tímamót sem ég upplífði þann 30. desember s.l.

Ég hef nú aldrei verið þessi afmælismaður. Man enga afmælisdaga að ráði, hef ekki talið mikilvægt að halda upp á afmælið mitt (fD hefur reyndar ávallt af gæsku sinni reitt fram tvennt á þessum degi, árlega, sem mér finnst betra en margt annað; brauðtertu og rjómatertu). Þessir dagar haf liðið einn af öðrum án þess að mikið væri við haft. Þar fyrir utan er þessi dagur á þeim stað í almanakinu, að varla er á bætandi hátíðahöldin.
Það varð niðurstaða þessu sinni, að sinna þessum degi, þó í litlu væri, enda varlegt að blása til stórveislu þegar allra veðra er von. Þessi samkoma fór vel fram og ég var harla kátur með að Kvisthyltingar voru þarna allir saman komnir meðal annarra góðra gesta.

Í tilefni þessa dags, sem markaði fyrst og fremst tímamót í óeiginlegum skilningi, bárust mér ansi margar kveðjur um samfélagsmiðla og með öðrum hætti. Ég mun koma að þeim að einhverju leyti í framhaldspistli, en hér læt ég fylgja eina kveðjuna, en hún lyfti sannarlega andanum og líklegast umfram það sem innistæða er fyrir. 
Hér mælir rímsnillingur sem hefur gefið sjálfri sér skáldanafnið "Hirðkveðill Kvistholts", en raunverulegt nafn hennar er Helga Ágústsdóttir:

Sextíu árin svifin eru að baki,
söm er lundin, gleði prýðir fas,
þó áfram líði tíminn taumaslaki,
sem telur korn í lífsins stundaglas.

Það er mælt að miklu ætíð varðar,
að mega ganga farsældar um veg,
og vera sannur vinur fósturjarðar,
þá verður æviferðin dásamleg.

Gleðstu Páll með gáskafullu sinni,
og geðprýði sem ávallt fylgir þér.
Allir þeir sem eiga við þig kynni,
af þér geyma mynd í hjarta sér.

Þakkir eiga skilið þjóðarhlynir,
þú ert slíkur eins og fjöldinn sér,
undir þetta allir taka vinir,
einum rómi og skála fyrir þér.

Ég hef bara ákveðið að trúa því að þarna sé á ferð raunsönn lýsing, og hyggst halda hnarreistur á grundvelli hennar inn í nýjan áratug.

Það er von á framhaldi umfjöllunar af sama tilefni og þá ekki síst í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun sem varð vegna hennar í til teknu dagblaði og viðbrögð mín og annarra við henni.

16 nóvember, 2013

RETARD - vel dulin örvænting (4)

Fyrstu þrjá hluta þessarar frásagnar er að finna hér.

Þar var komið sögu síðast, að við sexmenningarnir stóðum frammi fyrir því að taka einhvers konar ákvörðun og hún gat skipt sköpum um það hvort lent yrði á Íslandi á þessu mánudagssíðdegi. Þarna lá það fyrir að ef RER B lestar kæmu ekki  með tveggja mínútna millibili, nánast umsvifalaust, myndum við fjögur sem hugðumst hefja okkur til flugs kl 12:15 ekki fá þá ósk okkar uppfyllta. Þau tvö sem stefndu á vængjum málmfuglsins til höfuðborgar herraþjóðarinnar fyrrverandi áttu ekki flug fyrr en löngu síðar um daginn, svo þau þurftu ekki að svitna jafn mikið. Þau fengu þó að kenna á því síðar, eins og ég mun greina frá í nokkrum orðum síðar.
Mannhafið í iðrum Parísar reyndist stærri biti en sú Þorvaldsdætranna sem er komin á sjötugsaldur gat kyngt og því kvað hún, skýrt og skilmerkilegu upp úr með eftirfarandi:
"Við tökum leigubíl!" 
Efi okkar hinna var orðinn  það mikill á þessum tímapunkti, að þessi afdráttarlausa yfirlýsing reyndist dropinn sem fyllti mælinn eða stráið sem hryggbraut kameldýrið. Það brást enginn við yfirlýsingunni með orðum, augnaráð ferðafélaganna sagði allt sem segja þurfti. Teningnum var kastað: það yrði tekinn leigubíll. Á þeirri niðurstöðu voru þó tveir hængar:
1. Af þeim þúsundum manna sem þarna voru staddir í neðanjarðarhvelfingum mátti reikna með að, að minnsta kosti 5% tækju svipaða ákvörðun á svipuðum tíma.
2. Við höfðum verið vöruð við að taka leigubíl í París þar sem þar væri að finna tvenns konar leigubíla, sem útilokað var að greina í sundur:
   a. leigubíla sem voru opinberlega viðurkenndir.
   b. leigubíla sem voru ekki opinberlaga viðurkenndir og gátu átt það til að fara krókaleiðir með túrista til að krækja sér í meira pening -  og sem fólu í sér ýmsar aðrar hættur sem sakleysingjar geta lent í á ókunnum slóðum.
Hvað sem þessu leið hafði ákvörðun verið tekin og ferðin upp á yfirborðið hófst, upp hvern rúllustigann á fætur öðrum (guði sé lof fyrir rúllustiga, ekki síst vegna farangursins sem var síst til þess fallinn að létta þessa reynslu).
"Upp upp mín sál og allt mitt geð,
upp minn skrokkur og taska með".
Eftir því sem ofar dró, þar sem við létum leiðast áfram af skiltum með áletruninni SORTIE, sem við þekkjum betur sem EXIT, fjölgaði skiltum sem greindu frá því að við værum á leiðinni á stað þar sem væri að finna leigubíla - TAXI. Það er ekki ástæða til að eyða fleiri orðum að uppstigninguna og þar kom að við vorum komin á jarðahæð, sem sjá mátti af því, að þar voru gluggar og fyrir utan fólk og bílar. Þangað var nú stefnt.

Fyrir utan Gare du Nord lestarstöðina þurfti að átta sig á aðstæðum, eftir að hafa dvalið langdvölum neðanjarðar. Þarna kom í ljós gata og eftir henni óku bílar. Fyrstu viðbrögð mín voru að ég tldi mig geta reiknað með, að miðað við það að það er hægri umferð í Frakklandi, myndu leigubílarnir vera til taks þeim megin götunnar sem var nær stöðinni, þannig að ekki þyrfti að fara yfir götuna til að ná þeim.  Eftir því sem umhverfið skýrðist þá kom í ljós að gatan var einstefnugata og þeir leigubílar sem þarna fóru hjá tóku upp farþega hinumegin götunnar.
Eins og áður hefur verið minnst á þá lenti fD í hremmingum þar sem hún var á ákveðnum tímapunkti síðust til að fara í gegnum hlið með lestarmiðanum sínum. Þá stóð hún eftir ein á ókunnri strönd og menn geta rétt ímyndað sér hvers konar hugarangur það hafði í för með sér. Reynslan af hliðinu varð síðar til þess að hún var næstum farin ein af stað með lest sem við áttum ekki að taka.
Nú vorum við komin þar sem leigubílar beinlínis sáust taka farþega upp í. Þetta sá fD einnig og það var eins og við manninn mælt, hún tók forystuna og skeiðaði yfir götuna. Þar beið hópur manna í skipulegri röð, upp undir 100 manns, eftir því að komast í leigubíl. Leigubílarnir áttu hinsvegar ekkert sérlega oft leið þarna hjá, svo það virtist ljóst, að biðin gæti orðið löng. Þarna kom fD í fararbroddi að röðinni framanverðri í þann mund er leigubíll nam staðar og bílstjórinn, á áttræðisaldri, steig út, gekk rakleiðis að tösku fD og skellti henni í skottið.
Ég ætla ekki að reyna að lýsa svipnum á fólkinu sem þarna beið stillt og prútt í röðinni. Ég sá rétt í svip svipi undrunar, hneykslunar og fyrirlitningar sem skullu á bakin á fD þar sem hún stóð töskulaus við leigubílinn. Við hin komum í humátt á eftir, en bílstjórinn hafði ekkert gert ráð fyrir að fleiri en fD væru á ferð. Ég gaf mig hinsvegar fram með stóru ferðatöskuna, sem fór einnig í skottið. Þangað fór einnig taska fS. Þar með lokaði bílstjórinn skottinu og opnaði afturdyrnar fyrir dömunum, eins og sannur sjentilmaður. Ég fór hinsvegar götumegin að bílnum og opnaði framdyrnar. Sætið var sneisafullt af einhverjum pappírum og dóti frá bíleigandanum, enda var hann fljótur að beina því til mín að fara aftur í. Viðbrögð mín við því voru að benda honum á að við, sem með honum ætluðum, værum fjögur, en ekki þrjú. Þar með vék ánægja bílstjórans með að fá svona góðan túr. Hann snaraði sér inn í bílinn og tók í snarhasti samn staflann af pappírum og dóti úr framsætinu og skellti í einn haug á gólfið fyrir framan bílstjórasætið. Ein ferðataskan hafði ekki farið í skottið, enda bílstjórinn nú með hugann við annað en gera farþegunum gott.
Öll þessi aðgerð var talsvert streituvaldandi, þar ssem það var afskaplega mikilvægt að við kæmumst að stað áður en einhver þeirra sem stóð með reiði og hneykslunarsvip í biðröðinni léti verða af því að mótmæla, með einhverjum aðgerðum, frekjunni og óskammfeilninni sem þarna hafði birst þeim í uppítöku fD og okkar hinna. Okkur lá því á að komast af stað og fD, fS og hR skelltu sér inn í aftursætið með töskuna, sem ekki hafði farið í farangursgeymsluna í fanginu. Ég settist í framsætið, sem bílstjórinn hafði, af lítilli elskusemi, fjarlægt persónulegar eigur sínar úr.
Það var ekið af stað eftir götum Parísar, og léttirinn var meiri en orð fá lýst, en samt var einn efi eftir: var þetta viðurkenndur bíll eða gullgrafarabíll? Ég get svo sem ekki fullyrt neitt um það, en ferðin á flugvöllinn, sem tók um 40 mínútur var slysalaus og bílstjórinn sinnti sinni vinnu eins og hægt var að ætlast til. Við renndum upp að Terminal 3 um klukkustund fyrir áætlað flugtak og léttirinn var svo mikill og þakklætið í garð leigubílstjórans að hafa, í einhverjum skilningi, bjargað okkur úr fyrirsjáanlegum hremmingum, að við bættum 5 evrum við uppgefið fargjald. Eftir að úr bílnum var komið tók við þetta sem fólk gerir á flugvöllum og síðan flug í NNV þar sem við lentum næstum hálftíma á undan áætlun.
Við fréttum það síðar að RER B lestin hafi farið að ganga á ný í þann mund sem VÁvélin okkar lyfti hjólum af flugbrutinni á CDG. Ákvörðunin um leigubílaferðina öðlaðist þar með sess meðal góðra ákvarðana.

Af þeim tveim sem eftir voru, og sem stóðu ein eftir til að fást við ógnandi biðröðina og sem varla tókst að kasta kveðju á í leigubílshasarnum, er það að segja að þeirra beið æsilegur dagur, fullur af hættum þar sem þau, meðal annars, lentu nánast í slagsmálum þegar þau ætluðu að freista þess þess að komast í strætisvagn, og seinna í margvíslegri tvísýnu í tengslum við flug sitt til Kastrup flugvallar. Það er ekki mitt að greina frá öllu því sem þar bærðist í brjósti, en ég er meira en tilbúinn að flytja þá frásögn þeirra inn á þetta svæði og leyfi mér reyndar að beina þeim eindregnu tilmælum til þeirra fA og hA að setja saman góðan pistil og senda mér.

----------------------------------------

Í minningu Pöllu
Hún hefði viljað taka þátt í þessari Parísarferð.
Hver veit nema svo hafi verið? 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...