Á æskuheimili mínu var þvottur upphaflega þveginn í hvernum. Síðan kom til sögunnar þvottavél í samræmi við vaxandi efni, en mesta byltingin í þvottamálum varð þegar á heimilið kom þvottavél sem bar nafnið Centrifugal Wash. Ég minnist þess að mér þótti nafnið frekar töff og hætti ekki fyrr en ég komst að því hvað það merkti. Það voru engin vandræði með WASH hlutann, sem augljóslega þýddi þvottur. Ég komst fljótt að því að CENTRIFUGAL var samsett orð þar sem fyrri hlutinn merkti miðja og sá síðari flótti. Þar með var komin merkingin á heiti vélarinnar: MIÐJUFLÝJANDI ÞVOTTUR. Síðan rann auðvitað samhengið upp fyrir mér, eins og nærri má geta: þvottavél af þessu tagi byggði á því að nota miðflóttaaflið við vindingu á þvottinum, með því belgurinn snérist á ógnahraða og þrýsti þvottinum eins langt frá miðju hans og mögulegt var. Vatnið í þvottinum þrýstist síðan úr þvottinum og út fyrir belginn, eftir varð þvotturinn, tilbúinn að að hengja til þerris.
Þessi inngangur á sér tiltölulega einfalda skýringu: Mér verður stundum hugsað til þessarar þvottavélar þegar ég velti fyrir mér málefnum sem tengjast uppsveitum Árnessýslu. Í því samhengi hugsa ég eins og Laugarásbúi, þar sem Laugarás er í miðju svæðisins. Síðan koma til kraftar, sem vel má kalla einhverskonar miðflóttaafl. Þessir kraftar hafa það í för með sér að flest sem gert er, eða flestar hugmyndir sem fram koma um uppbyggingu, sogast út úr þessari miðju.
Ég leyfi mér að halda áfram að hafa þann draum að uppsveitir Árnessýslu sameinist í eitt öflugt sveitarfélag og að þeir kraftar sem ákvarða staðsetningu þessa eða hins marki stefnu sem tekur mið af því að heildarhagsmunum íbúanna verði þjónað sem best.
Ég hef áður fjallað um hjúkrunarheimili í uppsveitunum. Það gerði ég hér, hér og hér. Ég vísa í þessi skrif ef einhver vill kynna sér það betur. Ég tel mig hafa sagt það sem ég hef að segja í þeim þrem færslum sem þar er um að ræða.
Árið 2010 var tekin í notkun brú yfir Hvítá sem opnaði stystu leið milli Reykholts og Flúða. Barátta fyrir brúnni hafði staðið lengi og því var haldið mjög á lofti að eini möguleikinn á að hún yrði að veruleika væri alger samstaða á svæðinu um mikilvægi hennar á þeim stað sem síðan varð. Á þeim tíma kom ég að sveitarstjórnarmálum í Biskupstungum og er minnisstætt hve mikil áhersla var lögð á þessa samstöðu. Mínar skoðanir á staðsetningu þessarar brúar voru ekki í samræmi við það sem barist var fyrir, en ég, með það að leiðarljósi að betri væri brú en engin brú, tók þátt í þeirri samstöðu sem þarna var um að ræða. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því, að þessi brú breytti engu í jákvæða átt fyrir Laugarás, enda er leiðin frá Laugarási að Flúðum nákvæmlega jafnlöng hvor leiðin sem valin er.
Árið 2010 var opnaður nýr vegur frá Laugarvatni á Þingvöll. Um þessa framkvæmd ríkti mikil samstaða hér á svæðinu og aðeins vegna hennar varð af þessari vegagerð. Vegalengdin frá Laugarási til Reykjavíkur breyttist ekkert við þessa framkvæmd. Hún er hinsvegar afar mikilvæg fyrir heildarhagsmuni íbúa í uppsveitunum.
Ýmislegt af þessu tagi kennir okkur, að ef við náum saman, þó ekki séu allir fullkomlega sáttir, þá náum við margfalt meiri árangri en með því að togast á innbyrðis.
Hjúkrunarheimilið sem rætt hefur verið í vetur er verkefni af þessu tagi. Það þarf að sækja fé í ríkissjóð til þess arna og ef við komum ekki fram sem eitt á þeim vettvangi verður þetta verkefni framkvæmt annarsstaðar.
Ég minni enn á, ef einhverjum skyldi ekki vera það ljóst, að Laugarásjörðin er í eigu allra uppsveitahreppanna. Þeir keyptu jörðina á 3. áratug síðustu aldar undir læknissetur. Þar réði framsýni för og við, sem svæðið byggjum búum við einhverja bestu læknisþjónustu sem völ er á á þessu landi.
Hér við hliðina er úrklippa úr Litla Bergþór frá 2011. Þar er um að ræða hluta úr erindi sem Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu flutti í útvarpið 1971.
29 mars, 2015
14 mars, 2015
Hreinn og beinn
Starfsfólk ML fór í námsferð á Íslendingaslóðir í Kanada 2008 og þar fann Hreinn Silfur hafsins á bókasafni Manitóbaháskóla og var sáttur við það. |
Hreinn Ragnarsson kom með fjölskyldu sinni á Laugarvatn 1970 og hóf að kenna við Héraðsskólann. Eftir því sem líftími Héraðsskólans styttist lét Hreinn sig flæða æ meir inn í kennslustofur menntaskólans. Mér finnst þetta hafi bara gerst einhvernveginn af sjálfu sér.
Í annarri ferð starfsmanna ML, til Bæjaralands 2011, varð á vegi okkur sölubás í Nürnberg þar sem hægt var er einhver ákveðin síldartegund. |
Ætli mér sé ekki óhætt að segja að Hreinn hafi verið kennari af gamla skólanum, eldri skóla en mínum og ævafornum skóla ef tekið er mið af nútíma kennsluháttum. Á hans tíma í Héraðsskólanum var kennarapúltið á upphækkun svo vel sæist yfir. Þar sat kennarinn oftar en ekki og talaði við eða yfir bekkinn milli þess sem nemendur voru teknir upp með því að þurfa að svara spurningum eða skila af sér verkefnum á töflunni. Ég kenndi um tíma í Héraðsskólanum undir lokin á skólahaldi þar og þá voru þar þessar upphækkanir, sem gerðu ekkert nema þvælast fyrir þar sem ég með mína, þá nýjustu kennsluhætti, dansaði um stofuna fram og til baka, stundum gleymandi upphækkuninni og því hrasandi fram af henni eða hrasandi um hana. En svona var hlutunum fyrir komið í Héraðsskólanum og því varð ekki breytt.
Það áttu sér stað umtalsverðarbreytingar á kennsluháttum á þeim tíma sem Hreinn starfaði í ML. Hann hélt nú samt sínu striki og framkvæmdi sín verk eins og hann taldi að best hentaði markmiðunum. Ég skil hann nú og finn það á sjálfum mér hve fjarri nútíma kennsluhættir eru þeim sem mér voru innrættir á sínum tíma. Um það gæti ég sagt margt en læt það vera þessu sinni.
Þeir sem starfa lengi í kennslu kynnast stöðugum breytingum á starfsumhverfi sínu, en þegar upp er staðið eru það ekki kennsluaðferðirnar sem eru úrslitaatriðið þegar gagnsemi kennslunnar eða námsins eru metin, heldur eðlislæg hæfni til starfsins og þekkingin á viðfangsefninu. Hreinn hefði líklega ekki starfað við kennslu alla sína starfsævi nema hafa það til að bera sem þurfti. Hann bjó yfir djúpri þekkingu á viðfangsefnum sínum og gat tekið að sér ólíkar námsgreinar. Hann átti í engum vandræðum með að tjá sig og koma efninu til skila þannig að unga fólkið hefði af gagn bæði og gaman, kysi það svo. Mig grunar, eða réttara sagt ég veit, að tilkoma tölvunnar inn í skólastarfið, hafi ekki verið honum sérlega að skapi og hann taldi sig ekkert sérstaklega knúinn til að tileinka sér neina umtalsverða færni á því sviði. Með tilkomu fartölvunnar fór Hreinn fram á að nemendur stunduðu frekar prjónaskap í kennslustundum en tölvuspil.
Þar kom þó að Hreinn fékk ekki hunsað tölvuöldina og þar kom til lokafrágangur á stórvirki hans Silfur hafsins, gull Íslands. Það þurfti að lesa yfir, bæta við og lagfæra og ég reikna fastlega með að við þá vinnu hafi Hreinn uppgötvað nytsemi tölvunnar þó hann hafi aldrei viðurkennt hana eða tekið í sátt í orði.
Samstarfsmaðurinn Hreinn var, í mínum huga, tengingin við söguna. Hann var þar í flokki með Kristni skólameistara og Óskari Ólafssyni. Ég er af þeirri kynslóð sem þeir félagar leiddu í gegnum skólana á Laugarvatni ég var svo gæfusamur að fá að kynnast þessum ágætu körlum frá ýmsum hliðum. Ég hafði skilning á stöðu þeirra í því flóði breytinga sem með reglulegu millibili æðir fyrir skólakerfið. Ég skildi og skil efasemdir þeirra um að við værum á réttri leið með uppfræðslu ungmenna.
Hreinn kenndi ML-ingum á bíl áratugum saman og ökukennslan og umferðarmál voru honum alltaf ofarlega í huga. Hann hélt áfram að kenna á Nissan eftir að að lét gott heita í störfum utan heimilis að öðru leyti.
Oft lá leið piltsins upp í menntaskóla eftir að hann hætti þar störfum, en frú Guðrún (fG) starfaði þar áfram nokkur ár eftir að Hreinn hætti.
Hreinn lést þann 3. mars, s.l. og útför hans fór fram frá Skálholtskirkju í gær. Ég reikna ekki með að gleyma kynnunum af honum í bráð.
21 febrúar, 2015
Friðhelgi einkalífs á heimavist
Þessi mynd og aðrar myndir með þessum pistli
eru af lífi nemenda í Menntaskólanum að
Laugarvatni. Tilgangurinn með þeim er enginn annar
en að lífga upp á textann.
|
Ég vara mögulega lesendur við því að það sem fer hér á eftir getur ekki talist skemmtilestur. Hér er fjallað um aðstæður ungs fólks sem tekur þá góðu ákvörðun, að fara í framhaldsskóla með heimavist. Ég veit að ég tala fyrir munn margra með því að fullyrða að fáar leiðir eru betri til alhliða þroska en heimavistardvöl. Þeir sem fara þess leið eiga yfirleitt vinafjöld til æviloka að henni lokinni.
Tilefnið
Tilefnið þessa pistils er að finna hér.
Þarna segir meðal annars:
Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, segir að allar reglur um heimavist verði að vera í samræmi við réttindi nemenda sem eigi að sjálfsögðu rétt á friðhelgi til einkalífs eins og aðrir.Ekki efa ég að umboðsmaðurinn talar hér samkvæmt bestu vitund og í samræmi við það sem rétt er, samkvæmt lagabókstafnum. Við eigum rétt á friðhelgi einkalífs, hvort sem við erum börn eða fullorðin. Það er mikilvægt að uppeldisumhverfi barna sé verndandi og leiðbeinandi. Foreldrar eru ábyrgir fyrir því að skila börnum sínum til samfélagsins sem heilsteyptum einstaklingum. Þessa ábyrgð axla þeir með mismunandi hætti. Í auknum mæli gera þeir kröfur til þar til ætlaðra stofnana um að þær axli hluta ábyrgðarinnar á uppeldinu. Þar með má segja að þeir framselji uppeldishlutverkið að meira eða minna leyti til þessara stofnana, bæði að því er varðar menntun barnanna og aðlögun þeirra að þeim reglum og siðum sem samfélagið samþykkir. Foreldrar gera í mörgum, tilvikum meiri kröfur til þess uppeldis sem stofnanirnar taka að sér, en til sjálfra sín.
segir Margrét.
Ef grunur vakni hins vegar um refsiverða háttsemi, til dæmis þjófnað eða vörslu fíkniefna, er hægt að hafa samband við lögreglu sem hefur heimild til að framkvæma leit vegna sakamálarannsóknar.
„Það þarf lagaheimild eða dómsúrskurð til þess að það sé heimilt að leita í herbergjum nemenda, en engin heimild er til þess í núgildandi lögum. Ég á því erfitt með að sjá að þessar reglur séu í samræmi við lög og réttindi nemenda,“
Þann 1. janúar 1998 tóku gildi lögræðislög, en samkvæmt þeim teljast einstaklingar sem orðnir eru 18 ára lögráða. Þar með urðu allir einstaklingar sem voru yngri er 18 ára skilgreindir sem ólögráða, eða börn. Mér hefur reyndar alltaf verið frekar í nöp við þessa breytingu, ekki síst vegna þess að mér finnst að með henni sé verið að skilgreina hálffullorðið fólk sem börn, sem ekki þurfa að axla ábyrgð á sjálfum sér. Með þessu hefur sú þróun orðið, að smám saman hefur það síast inn í þjóðarsálina, að fólk teljist börn til 18 ára aldurs, ekki aðeins í lagalegum skilningi heldur einnig í raun.
Lögin eru svona, hvaða skoðun sem ég kann að hafa á því.
Sú skylda hvílir á hverju samfélagi, hvort sem það nú eru foreldrarnir eða stofnanirnar sem taka að sér uppeldi barna til 18 ára aldurs að koma börnunum til manns, sjá til þess að þau verið tilbúin til að takast á við líf fullorðinna og sjálfstæðra einstaklinga. Á skólunum hvílir ekki aðeins fræðsluskylda til 18 ára aldurs, heldur einnig uppeldisleg skylda.
Þetta var svona inngangur að umfjöllunarefninu.
Börn sem dvelja í heimahúsum þar til þau verða lögráða eru á forsjá foreldranna, svo sem vera ber. Þeim eru væntanlega innrættir góðir siðir og allt það. Þau hafa jafnvel eigin herbergi til umráða, en sem ábyrgir uppalendur, kenna foreldrarnir þeim að umgangast herbergið með viðunandi hætti, til dæmis að taka til og þrífa með reglulegu millibili. Börnunum eru einnig settar reglur um hvað má og hvað má ekki gera í herbergjunum. Börnin undirgangast þær reglur sem foreldranir setja, enda eru það þeir sem bera ábyrgð á að börnin læri alla grunnþætti þess sem líf manneskjunnar í samfélagi manna krefst. Foreldrarnir áskilja sér eðlilega rétt til að fylgja reglunum eftir, meðal annars með því að athuga hvort umgegni og hegðun innan veggja þess er í samræmi við þær. Foreldrar telja sig líklega ekki þurfa dómsúrskurð til að leggja leið sína í herbergi barna sinna í þessu skyni.
Fólk sem fer að heiman á 16da ári í heimavistarskóla, er ennþá börn í skilningi laga og þar með flyst uppeldishlutverkið til heimavistarskólans að hluta til þann tíma sem þau dvelja þar. Heimavistarskólinn setur reglur um umgengni í herbergjum og framgöngu barnanna, hvort sem er inni í herbergjunum eða í skólahúsnæði að öðru leyti. Þessar reglur eru ekki síst til þess ætlaðar að skapa heilbrigðar og æskilegar uppeldisaðstæður og sömu reglur verða augljóslega að gilda um alla þá lögráða og ólögráða einstaklinga sem þessi heimavistarskóli tekur að sér.
Þegar umsækjandi er tekinn inn í heimavistarskóla undirgengst hann skriflegar reglur sem gilda í skólanum og í heimavistarhúsnæði, þar með talið á herbergjum. Hann og forráðamenn hans þurfa að samþykkja með formlegum hætti þær reglur sem starfað er eftir. Það verður sem sagt til samningur sem segir efnislega að skólinn tekur eintaklinginn inn og lofar að tryggja öryggi hans innan veggja skólans og sjá honum fyrir menntun. Á móti samþykkir umsækjandinn og forráðamenn hans að undirgangast þær reglur sem skólinn hefur sett varðandi dvölina á heimavistinni. Þessi samningur byggir á 3. málsgrein 1. greinar húsaleigulaga nr. 36. 1994, en þar segir:
Friðhelgi einkalífs - hvað er nú það?
Sé íbúðarhúsnæði leigt til ákveðinna hópa, svo sem námsmanna, aldraðra eða öryrkja, þar sem sérstakar aðstæður kalla á aðra skipan en lögin mæla fyrir um, er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilt, vegna sérstaks eðlis eða tilgangs starfseminnar, að víkja frá einstökum ákvæðum laganna með samningi.
Ég tek hér nokkuð öfgafullt dæmi.
Ef ég, lögráða einstaklingur, sit inni í bílnum mínum í rólegheitum og neyti áfengis eins og mig lystir, væri það líklega brot á friðhelgi einkalífs míns að rífa upp dyrnar á bílnum, gera áfengið upptækt eða hella því niður og láta mig gjalda þess með einhverskonar refsingu. Ef ég myndi hinsvegar skella mér í bíltúr við þessar aðstæður myndi málið horfa öðruvísi við. Ég væri þar með orðinn hættulegur samferðamönnum mínum og þar með búinn að brjóta lög og hlyti viðeigandi refsingu ef ég yrði uppvís að akstrinum. Þarna kemur líklega til skoðunar t.d. 2. málsgrein 71. greinar stjórnarskrárinnar:
71. gr. [Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.Það má, sem sagt takmarka friðhelgi einkalífs þar sem um er að ræða að vernda réttindi eða öryggi annarra.
Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.]1)
Ef ég velti nú fyrir mér aðstæðum á heimavist einhvers framhaldsskóla þá blasir það við að það þarf að huga að tvennskonar hagsmunum barnanna/unglinganna/hinna ólögráða einstaklinga:
1. Það þarf að tryggja velferð íbúanna, tryggja að þeir fái notið friðhelgi einkalífs, ekki aðeins gagnvart starfsmönnum skólans, heldur einnig öðrum íbúum. Þeir skulu njóta öryggis og heilbrigðra uppeldisaðstæðna í hvívetna. Þessir hagsmunir eru mikilvægari en aðrir.
2. Það þarf einnig að huga að hagsmunum þeirra barna/unglinga/ólögráða einstaklinga sem kjósa að láta reyna á einhver mörk, eins og nokkuð algengt er meðal unglinga. Sannarlega eiga þeir að njóta alls þess sama og aðrir svo fremi að þeir fari ekki út fyrir þau mörk sem tilgreind eru í þeim samningi sem þau og forráðamenn þeirra gerðu við upphaf skólagöngunnar/heimavistardvalarinnar. Sá samningur, sem kallast yfirleitt heimavistarreglur, kveður á um það sem má og það sem ekki má innan veggja þeirrar uppeldisstofnunar sem um er að ræða. Mikilvægur þáttur í þeim samningi er ákvæði um aðgang tiltekinna starfsmanna að herbergjum barnanna/unglinganna/ hinna ólögráða einstaklinga, til að tryggja öryggi þeirra, leiðbeina þeim, t.d. varðandi umgengni og til að hafa eftirlit með því að þau/þeir haldi þann samning sem gerður var við upphaf dvalarinnar.. Aðgangurinn sem þar er tilgreindur er engan veginn meira íþyngjandi en sá sem börnin/unglingarnir/ hinir ólögráða einstaklingar þyrftu að búa við byggju þeir á heimili foreldra sinna. Þarna má segja að ákveðinn réttur eða ákveðnar skyldur foreldris/forráðamanns séu færður yfir til uppeldisstofnunarinnar.
Meðan á dvöl í framhaldsskóla með heimavist stendur, ná börnin að verða 18 ára og þar með lögráða. Samningurinn sem þau undirrituðu heldur hinsvegar áfram fullu gildi. Það sem breytist er, að samskipti stofnunarinnar við foreldra hætta. 18 ára einstaklingur verður einn og sjálfur ábyrgur fyrir framgöngu sinni. Við þessar aðstæður hefur hann val: að undirgangast þann samning sem gerður var og gildir áfram, eða taka á leigu annað húsnæði, sem gerir minni kröfur til umgengni og hegðunar og þar með líklega hætta í viðkomandi skóla.
Niðurlag
Í upphafi þessa pistils vitnaði ég til orða umboðsmanns barna, og til upprifjunar þá voru þau svona:
Ef grunur vakni hins vegar um refsiverða háttsemi, til dæmis þjófnað eða vörslu fíkniefna, er hægt að hafa samband við lögreglu sem hefur heimild til að framkvæma leit vegna sakamálarannsóknar.„Það þarf lagaheimild eða dómsúrskurð til þess að það sé heimilt að leita í herbergjum nemenda, en engin heimild er til þess í núgildandi lögum. Ég á því erfitt með að sjá að þessar reglur séu í samræmi við lög og réttindi nemenda,“Ég tel að umboðsmaður þurfi að taka tillit til þess að börn/unglingar sem dvelja á heimavistum eru þar í uppeldisumhverfi og í trausti þess að öryggi þeirra sér tryggt og að þau/þeir njóti sambærilegra uppeldisaðstæðna og börn/unglingar sem dvelja á heimili foreldra sinna. Ég sé ekki fyrir mér, að unglingur geti sett foreldrum sínum verulegar skorður þegar kemur að aðgangi þeirra að herbergi hans. Á heimilinu gilda reglur sem uppalandinn setur, reglur sem miða að því að upp verði alinn heilsteyptur, sjálfsöryggur og dugandi einstaklingur.
Það er ekki bara svo, að allt geti snúist um rétt fólks. Rétturinn er auðvitað mikilvægur, en skyldurnar eru það ekki síður. Þeir sem engar telja sig hafa skyldurnar geta ekki búist við að komast langt á rétti sínum einum saman.
08 febrúar, 2015
Betra seint
Ég hef ekki haft mörg orð um dugnað minn til verklegra framkvæmda, en nú get ég ekki orða bundist. Ég er búinn að koma sjálfum mér ítrekað á óvart undanfarnar vikur, svo oft reyndar, að dugnaður minn er hættur að koma á óvart. Það hefur komið í ljós að verklegar framkvæmdir henta mér að mörgu leyti mjög vel. Mig hefur reyndar alltaf grunað að í mér leyndist dugnaðarforkur, en ég hef passað mjög vel að gefa honum ekki lausan tauminn. Undanfarnar vikur hef ég létt af honum öllum hömlum og það er ekki að sökum að spyrja. Það stefnir í að það verði til íbúð í kjallaranum ef áfram heldur sem horfir. Hver veit nema innan skamms verð fD komin á kaf í ferðaþjónustu með útleigu á 50 fermetra túristaíbúð. Ég veit um að minnsta kosti tvær slíkar nú þegar í Laugarási.
Kva, það verður nú lítið mál fyrir Pál, sem nú þegar hefur komið sjálfum sér á óvart með parketlagningu sem hefði verið hverjum húsasmíðameistara til sóma. Enn augljósari varð snilldin þegar hurðakarmar voru settir í. Eitt baðherbergi og eldhús verða sennilega tertusneið í ljósi þess sem lokið er. Reyndar á eftir að setja hurðirnar í rammana og enn liggur ekki fyrir hvort þær passa, en til þess standa þó vonir.
01 febrúar, 2015
Frostgúrka
Eftir reynsluna af gúrkukaupum í stórmarkaði eða lágvöruverðsverslun sem ég greindi frá hér og hér, hef ég það fyrir sið, áður en ég skelli gúrku í körfuna, að þukla hana, með sviðpuðum hætti að sauðfjárbændur þukla hrúta. Séu báðir endar stinnir, litaraftir fremur dökkgrænt en gulleitt og áferðin frekar hrjúf en slétt, hef ég talið að mér væri óhætt.
Svo er hinsvegar ekki.
Gúrkan á myndinni var keypt í lágvöruverðsverslun í höfuðstað Suðurlands fyrir 2 dögum og uppfyllti ofangreindar kröfur mínar.
Hún kom til neyslu í dag eftir að hafa verið geymd við löglegar aðstæður frá kaupum. Innvortis lítur hún svona út og helst má ætla að þarna sé um að ræða frostskemmdir.
Það var mikið framfaraspor þegar íslenskir garðyrkjubændur fóru að nýta orku landsins til að framleiða grænmeti allt árið. Það er hlýtt í gróðurhúsunum hvernig sem viðrar utan dyra, en þar getur orðið ansi kalt eins og hver maður getur sagt sér.
Hvernig er það tryggt að grænmetið frjósi ekki á leiðinn til Reykjavíkur og þaðan aftur í lágvöruverðsverslanir í höfuðstað Suðurlands?
Því miður stefnir í að ég verði enn meira hikandi við grænmetiskaup hér eftir. Því fleiri sem búa við svona reynslu, því minna verður selt af þeirri dásemdar vöru sem íslenskt grænmeti er.
Eitt að lokum:
Hvenær hyggjast garðyrkjubændur hætta að pakka gúrkum í loftþétt plast?
25 janúar, 2015
Þorrablót 2015
Hvítá að morgni annars dags þorra. |
Fyrir mína hönd þakka ég öllum sem þarna komu að kærlega fyrir það sem fram var borið og ekki var annað að heyra en áhorfendur deili þessum þökkum með mér.
Þó bræður mínir hafi ítrekað látið í ljósi svo ég heyrði, málamyndakvartanir yfir hvað þetta væri mikil vinna, fór blikið í augunum ekki framhjá mér. Þeir nutu "stritsins" í botn. Það sama held ég að megi fullyrða um aðra þátttakendur einnig.
Allt þetta breytir þó ekki þeirri skoðun minni (sem er auðvitað til komin vegna persónueiginleika minna, aldurs og sjálfsagt annarra þátta) að félagsheimilið Aratunga er ekki nægilega stórt til að hýsa viðburð af þessu tagi. Þar sem ég sat við langborð í miðjum sal og var gert að rísa á fætur til að taka þátt í fjöldasöng, vafðist það fyrir mér, eins og flestum öðrum. Til þess að uppstandið tækist þurftu að eiga sér stað samningaviðræður við þann sem sat við næsta borð, til dæmis þannig að hann myndi fyrst færa sinn stól aftur svo langt sem unnt væri. Smeygja sér síðan upp af stólnum til hægri eða vinstri og ná þannig að rísa upp. Renna því næst stólnum sínum undir borð og opna þannig færi á að ég gæti rennt mínum sól aftur með sama hætti. Þessi aðgerð öll, kallaði einnig á samningaviðræður við þá sem sátu til beggja handa. Eftir þetta uppstand var síðan hægt að syngja af list áður en framkvæma þurfti sömu aðgerð í öfugri röð til að geta sest aftur.
Þrátt fyrir þessa vankanta var ég alveg sáttur og við fD hurfum á braut áður en við tók borðaflutningur af gólfinu upp á svið til að rýma fyrir dansandi gestunum.
Ekki neita ég því að það er ákveðinn "sjarmi" yfir þrengslunum og borðaflutningnum; kann að þjappa fólki saman og ýta undir samskipti, sem æ meir skortir á.
Miðasala á skemmtunina var auglýst svo sem hefðin segir til um. Miðarnir seldust upp á örskotsstund, sem varð tilefni til stöðufærslna á blótssíðunni. Þar leyfði ég mér að taka lítillega þátt og sendi frá mér eftirfarandi texta, sem ég læt fylgja hér með aðallega til að geyma hann á vísum stað. Í honum eru tilvísanir í það sem einhverjir aðrir settu þarna inn og því kunna einstaka setningar að virðast úr samhengi.
Forsíðumynd Þorrablótssíðunnar eftir fyrri miðasöludaginn. |
Þorrablót er einn þessarar viðburða sem eru fastur punktur í tilveru margra Tungnamanna og tækifæri til að koma saman og skemmta sér kvöldstund fram á nótt. Ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér.
Það sem hinsvegar hefur gert mig fremur afhuga þessum
skemmtunum (fyrir utan það að vera að eldast og róast) eru nokkur atriði:
1. Miðaskömmtun eða takmarkaður miðafjöldi, af augljósum
ástæðum sem allir þekkja.
2. Borðadráttur, sem er auðvitað alger veisla fyrir
spennufíkla, en heldur síðra fyrirkomulag fyrir þá sem vilja bara sæmilega
góðan stað til að sitja á.
3. Þrengsli, en það segir sig sjálft, að með hámarksfjölda í
húsinu þurfa sáttir að sitja þröngt, og líka ósáttir.
Svo vil ég bæta við fjórða þættinum, sem tengist þessu, en
það er sú staða sem fólkið sem í undirbúningsnefnd/framkvæmdanefnd lendir í,
algerlega án þess að hafa til þess unnið. Það selur miðana á blótið svo lengi
sem þeir eru til, eftir einhverjum reglum sem ég veit ekki einu sinni hvort eru
skýrar, og þegar miðarnir eru búnir situr það ef til vill undir einhverjum
meiningum um að það misfari með eitthvert vald.
Í aðdraganda að þorrablóti Tungnamanna er réttlæti fyrir
alla vandséð.
Auðvitað má spyrja sig hvort það sem ég nefndi sé
nauðsynlegur hluti af þorrablótum Tungnamanna: það þurfi að vera spenna, það
þurfi að vera hasar, það þurfi að vera þröngt.
Sé svo, þá er þetta bara þannig samkoma og ekkert meira um það að segja.
Sé vilji til að setja þessa ágætu skemmtun upp með öðrum
hætti, er það örugglega ekkert stórmál.
Ein(n) þeirra sem hér settu inn færslu að ofan töldu mig
vera kjarkaðan að nefna hlaðborð og jafnframt að ég gæti átt von á
krossfestingu ;). Ég get fullyrt að frá minni hendi snýst það ekki um neinn
kjark, enda finnst mér það afar skemmtilegur siður að hver komi með sinn mat
til þorrablóts. Það er hinsvegar ekkert
sem bannar það, mér vitanlega, að þegar ásókn í þessa skemmtun er orðin svo
mikil sem raun ber vitna, að allir geti átt kost á þorrablótsfyrirkomulagi við
sitt hæfi.
Annar sem hér tjáði sig hér fyrir ofan sagði: „krossarnir
eru tilbúnir“. Mig langar nú eiginlega dálítið að sjá þá krossa. J
17 janúar, 2015
Viltu bækur? Vertu snögg(ur).
Sýnishorn |
Mér varð það á fyrir áratugum að ganga í bókaklúbb sem síðan sendi mér bækur mánaðarlega þar til loks ég áttaði mig á hvert þetta myndi leiða.
Samviska mín bannar mér að henda bókum, en vilji enginn þiggja þær bíður þeirra bara endurvinnslan.
Langi einhvern í bækur
má hann koma og taka það sem hann vill.
Vilji enginn þessar bækur verður samviskan örlítið hreinni þegar ég fer með þær í gáminn.
Netfangið mitt er pallsku@gmail.com - sími: 8989152
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)
Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)
Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...