25 janúar, 2015

Þorrablót 2015

Hvítá að morgni annars dags þorra. 
Ég gat horfið stoltur af þorrablóti Skálholtssóknar á bóndadagskvöldi og átti svo sem ekki von á öðru. Hafði heyrt af undirbúningnum mánuðum saman, ritun kvikmyndahandrita, kvikmyndatökum vítt og breitt, jafnvel við erfiðustu aðstæður, klippivinnu, þar sem krafa var gerð um niðurskurð sem var varla framkvæmanlegur, ritun handrita að lifandi atriðum og æfingar fyrir þau. Það er feikileg vinna sem er að baki svo metnaðarfullri dagskrá sem þorrablótsgestum var boðið upp á, meiri en margir geta ímyndað sér.
Fyrir mína hönd þakka ég öllum sem þarna komu að kærlega fyrir það sem fram var borið og ekki var annað að heyra en áhorfendur deili þessum þökkum með mér.
Þó bræður mínir hafi ítrekað látið í ljósi svo ég heyrði, málamyndakvartanir yfir hvað þetta væri mikil vinna, fór blikið í augunum ekki framhjá mér. Þeir nutu "stritsins" í botn. Það sama held ég að megi fullyrða um aðra þátttakendur einnig.

Allt þetta breytir þó ekki þeirri skoðun minni (sem er auðvitað til komin vegna persónueiginleika minna, aldurs og sjálfsagt annarra þátta) að félagsheimilið Aratunga er ekki nægilega stórt til að hýsa viðburð af þessu tagi. Þar sem ég sat við langborð í miðjum sal og var gert að rísa á fætur til að taka þátt í fjöldasöng, vafðist það fyrir mér, eins og flestum öðrum. Til þess að uppstandið tækist þurftu að eiga sér stað samningaviðræður við þann sem sat við næsta borð, til dæmis þannig að hann myndi fyrst færa sinn stól aftur svo langt sem unnt væri. Smeygja sér síðan upp af stólnum til hægri eða vinstri og ná þannig að rísa upp. Renna því næst stólnum sínum undir borð og opna þannig færi á að ég gæti rennt mínum sól aftur með sama hætti. Þessi aðgerð öll, kallaði einnig á samningaviðræður við þá sem sátu til beggja handa. Eftir þetta uppstand var síðan hægt að syngja af list áður en framkvæma þurfti sömu aðgerð í öfugri röð til að geta sest aftur.
Þrátt fyrir þessa vankanta var ég alveg sáttur og við fD hurfum á braut áður en við tók borðaflutningur af gólfinu upp á svið til að rýma fyrir dansandi gestunum.
Ekki neita ég því að það er ákveðinn "sjarmi" yfir þrengslunum og borðaflutningnum; kann að þjappa fólki saman og ýta undir samskipti, sem æ meir skortir á.

Miðasala á skemmtunina var auglýst svo sem hefðin segir til um. Miðarnir seldust upp á örskotsstund, sem varð tilefni til stöðufærslna á blótssíðunni. Þar leyfði ég mér að taka lítillega þátt og sendi frá mér eftirfarandi texta, sem ég læt fylgja hér með aðallega til að geyma hann á vísum stað. Í honum eru tilvísanir í það sem einhverjir aðrir settu þarna inn og því kunna einstaka setningar að virðast úr samhengi.

Forsíðumynd Þorrablótssíðunnar eftir fyrri miðasöludaginn.

Þorrablót er einn þessarar viðburða sem eru fastur punktur í tilveru margra Tungnamanna og tækifæri til að koma saman og skemmta sér kvöldstund fram á nótt. Ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér.
Það sem hinsvegar hefur gert mig fremur afhuga þessum skemmtunum (fyrir utan það að vera að eldast og róast) eru nokkur atriði:
1. Miðaskömmtun eða takmarkaður miðafjöldi, af augljósum ástæðum sem allir þekkja.
2. Borðadráttur, sem er auðvitað alger veisla fyrir spennufíkla, en heldur síðra fyrirkomulag fyrir þá sem vilja bara sæmilega góðan stað til að sitja á.
3. Þrengsli, en það segir sig sjálft, að með hámarksfjölda í húsinu þurfa sáttir að sitja þröngt, og líka ósáttir.
Svo vil ég bæta við fjórða þættinum, sem tengist þessu, en það er sú staða sem fólkið sem í undirbúningsnefnd/framkvæmdanefnd lendir í, algerlega án þess að hafa til þess unnið. Það selur miðana á blótið svo lengi sem þeir eru til, eftir einhverjum reglum sem ég veit ekki einu sinni hvort eru skýrar, og þegar miðarnir eru búnir situr það ef til vill undir einhverjum meiningum um að það misfari með eitthvert vald. 
Í aðdraganda að þorrablóti Tungnamanna er réttlæti fyrir alla vandséð.
Auðvitað má spyrja sig hvort það sem ég nefndi sé nauðsynlegur hluti af þorrablótum Tungnamanna: það þurfi að vera spenna, það þurfi að vera hasar, það þurfi að vera þröngt.  Sé svo, þá er þetta bara þannig samkoma og ekkert meira um það að segja.
Sé vilji til að setja þessa ágætu skemmtun upp með öðrum hætti, er það örugglega ekkert stórmál.
Ein(n) þeirra sem hér settu inn færslu að ofan töldu mig vera kjarkaðan að nefna hlaðborð og jafnframt að ég gæti átt von á krossfestingu ;). Ég get fullyrt að frá minni hendi snýst það ekki um neinn kjark, enda finnst mér það afar skemmtilegur siður að hver komi með sinn mat til þorrablóts.  Það er hinsvegar ekkert sem bannar það, mér vitanlega, að þegar ásókn í þessa skemmtun er orðin svo mikil sem raun ber vitna, að allir geti átt kost á þorrablótsfyrirkomulagi við sitt hæfi.
Annar sem hér tjáði sig hér fyrir ofan sagði: „krossarnir eru tilbúnir“. Mig langar nú eiginlega dálítið að sjá þá krossa. J
Ég hef ekki reynslu af því að ætla að fá miða á knattspyrnuleik og ekki fengið. Reikna reyndar ekki með að verða nokkurn tíma þeirri reynslu ríkari. Ég er hinsvegar viss um það, að ef KSÍ hefði mögulega átt kost á því að flytja leikinn sem hér hefur komið til tals, á annan völl sem tæki kannski 15000 manns í stað 10000 þá hefði það verið gert.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...