18 apríl, 2011

Í útlöndum er ekkert skjól

Kvisthyltingar þeir að hafa kosið að dvelja til skemmri eða lengri tíma erlendis, koma stundum til tals í samræðum við gamla unglinginn, sem alloft hefur átt sinn þátt í að efla andagift við þessi skrif.  Það bregst ekki, þegar 'útlendingana' ber á góma, að sá gamli skýtur þessu að, á einhverjum tíma:


Ja, í útlöndum er ekkert skjól,
eilífur stormbeljandi.
sagði skáldið.

Hann vissi nú ekkert hvaðan þetta var komið og uppi hafa verið kenningar í samræðunni um, að hér hafi verið á ferðinni einn úr fyrri bylgju útrásavíkinga okkar, sem gisti kóngsins Kaupmannahöfn á einhverjum tíma, áður fyrr.

Myndin sem var þarna dregin upp, var af Íslendingnum, sem fór utan í leit að fé og frama, en reyndist  þegar upp var staðið, hafa dottið í það þar ytra og legið úti allan veturinn fyrir hunda og manna fótum, síðan komið heim í heiðardalinn og gert lítið úr því að dvelja ytra vegna þeirra aðstæðna sem að ofan er lýst.
Forvitni mín um uppruna þessara lína hefur aukist jafnt og þetta og loks tók ég mig til og gúglaði. Niðurstaðan var hreint ekki sú sem ég átti von á.
Hér er um að ræða línur úr vögguljóði eftir Nóbelsskáldið, en vissulega virðist það ort til að dásama dýrð og fegurð föðurlandsins og allt það skjól og öryggi sem það veitir þegnum sínum:
Íslenskt vögguljóð (á Hörpu)
Ég skal vaka og vera góð
vininum mínum smáa
meðan óttan rennur rjóð,
roðakambinn bláa,
og Harpa syngur hörpuljóð
á hörpulaufið gráa.

Stundum var í vetur leið
veðrasamt á glugga:
var ekki' eins og væri' um skeið
vofa' í hverjum skugga?
Fáir vissu að vorið beið
og vorið kemur að hugga.

Sumir fóru fyrir jól.
fluttust burt úr landi,
heillum snauðir heims um ból
hús þeir byggja' á sandi.
Í útlöndum er ekkert skjól,
eilífur stormbeljandi.

Þar er auðsýnt þurradramb
þeim sem út er borinn,
engin sól rís yfir kamb
yfir döggvuð sporin.
Þar sést hvorki lítið lamb
né lambagras á vorin.

Þá er börnum betra hér
við bæjarlækinn smáa,
í túninu þar sem trippið er.
Tvævetluna gráa
skal ég, góði gefa þér
og gimbilinn hennar fráa.

Og ef þig dreymir, ástin mín,
Oslóborg og Róma,
vængjaðan hest sem hleypur og skín
hleypur og skín með sóma,
ég skal gefa þér upp á grín
allt með sykri og rjóma.

Eins og hún gaf þér íslenskt blóð,
ungi draumsnillingur,
megi loks hin litla þjóð
leggja' á hvarm þinn fingur
á meðan Harpa hörpuljóð
á hörpulaufið syngur.
HALLDÓR LAXNESS

11 apríl, 2011

Með bleyju fyrir báðum götum.

Mér fannst fyrirsögnin heldur gassaleg og varla þess eðlis að ég gæti notast við hana. Það sem hinsvegar réði því að ég lét hana vaða var, að þarna má finna þessa fínu stuðla, þannig að þetta er ágætis upphaf að vísukorni eða tveim.

Innihaldið á að vísa til þess að nú er smám saman að koma í ljós það sem ég óttaðist. Ákveðinn hluti þjóðarinnar fer nú á handahlaupum við að tryggja það að honum verði ekki núið því um nasir að hafa tekið rangan pól í hæðina.

Ef við verðum nú dæmd til að borga draslið, virðist vera tilbúin, fyrirfram, skýringin á því: ríkisstjórnin klúðraði málinu. 

Ekki heyrist mér, eða sýnist, að bökum verði snúið umtalsvert saman á næstunni.

Eftir sitja Jóhanna og Steingrímur - sátu uppi með endurreisn eftir hrunið þannig að það er orðið þeim að kenna í hugum þjóðarinnar. Sitja síðan uppi með sökina, ef mögulegur málarekstur fer ekki eins og menn vilja.

Það eru miklir snillingar sem stjórna þjóðarsálinni þessi árin.

Hér er dæmi um hvernig þetta gengur fyrir sig.

10 apríl, 2011

Ég-sagði-þér-það tími?

Nú vitum við það. Við sögðum nei. Þannig fór það og framundan er að vinna úr því, til góðs eða ills. Það mun koma sá tími, ef við höldum okkur áfram í skotgröfunum, að annar hópurinn kemst að því að hinn hafði rangt fyrir sér, og öfugt.
Ef þessi niðurstaða hefur það í för með sér, að við losnum undan því að greiða það sem um hefur verið rætt, þá verður það að teljast hreint ágætt. Ef hin verður raunin og okkur gert að greiða að fullu, þá verður það að teljast afar slæmt.
Ef niðurstaða hefði orðið á hinn veginn og eignasala hefði í framhaldinu leitt til þess að við þyrftum ekkert að borga, hefði það talist ansi vel sloppið. Ef allt hefði þar farið á versta veg myndi það þá hafa talist afar slæmt.

Kjarni málsins er auðvitað sá, að við "nutum þess" að búa í lýðræðisríki. Það var sett á herðar okkar ábyrgð sem fólst  í því að taka ákvörðun um málefni sem er þess eðlis að við vitum ekki hvað hún hefur í för með sér. Mannkynslausnarar fengu frítt spil til að sannfæra okkur um hver sannleikurinn er. Svart var gert hvítt og hvítt, svart.
---------------------------
Setjum sem svo, að þú eigir að velja milli tveggja manna í eitthvert embætti. Þú þekkir hvorugan þeirra persónulega, en hefur upplýsingar um að  þeir eru báðir vel hæfir til að gegna þessu embætti, en þú veist auðvitað ekki hvernig embættisfærslur þeirra muni verða.
Tveir aðilar koma að máli við þig. Annar þeirra er vinur þinn og mærir annan manninn. Hinn er hinn versti skúrkur, að þínu mati, og hann mærir hinn.  Hvorn manninn skyldir þú velja?

Vorum við, í þessum kosningum, að velja þann kostinn sem er, eðlis síns vegna, betri kosturinn, eða voru það einhver önnur og óskyld mál sem urðu þess valdandi að þetta varð niðurstaðan? Þetta munum við auðvitað aldrei vita.  Það er bæði gallinn og kosturinn við svona kosningar.

Svo nenni ég ekki að tjá mig fekar um þetta mál - það gerist eitthvað, svo mikið er víst.

07 apríl, 2011

Ekkert um já eða nei.....

...vegna þess hve mér blöskrar orðið ótrúlegt bullið sem mætasta fólk tekur þessa dagana þátt í og það í flestum tilvikum algerlega án þess að vita hvað það er að tala um.  En nóg um það.

Þessa dagana er ég dálítið að velta fyrir mér fyrrverandi höfuðborg hins heilaga rómverska ríkis, sem Karlamagnús stofnaði til árið 800, en þessi gaur hafði einsmitt aðsetur í þessari borg. Þessa borg þekkjum við nú reyndar best í tenglsum við einhver þekktustu réttarhöld 20. aldar. Þarna virðist vera afar margt að sjá og upplifa og það er tilhlökkunarefni, að ég verði í hópi vinnufélag sem hyggjast heimsækja þessar slóðir á komandi vori.
Tilefni ferðarinnar er að heimsækja lítinn bæ í Bæjaralandi sem heitir Sulzbach-Rosenberg, en við höfum nú um tveggja áratuga skeið, átt í samskiptum við menntaskólann þar. Þessi bær er í 50 km fjarlægð frá borginni, sem ég nefni ekki nafni sínu (þó ég efist ekki um að flestir sem þetta lesa séu búnir á að átta sig á nafni hennar). Í S-R munu heimamenn taka á móti okkur og ef ég þekki þá rétt munu þeir leggja sig fram um að gera okkur dvölina sem ánægjulegasta. Auk skólans í S-R, sem heitir Herzog Christian- August Gymnasium, munum við kynna okkur framhaldsskóla í öðrum bæ í nágrenninu, sem heitir Amberg. Stærstur hluti ferðarinnar á hins vegar að nýtast til að kynnast slóðum sem venjulegir ferðamenn leggja ekki leið sína að öðru jöfnu. Ég reikna með að einhverjir hlakki mest til bjórhátíðarinnar sem  bíður hópsins.

Við fD hyggjumst, í ljósi reynslu síðasta sumars, taka bíl á leigu í framhaldinu og renna í norðaustur átt, til landamæra Póllands, þar sem tenórinn, eini sanni og stækkandi fjölskylda hans, ala manninn.

Tilhlökkunarefni, allt saman.

Ofangreint er talsvert miklu ánægjulegra að hugsa um en t.d. eftirfarandi ömurleiki, sem hver apar nú upp eftir öðrum:

Fólk er byrjað að spyrja mig hvað ég ætla að kjósa í Icesave. Þannig að ég fór að spyrja mig. Var mér boðið á Elton John? Á 50cent? Fékk ég far í einkaþotu? Samþykkti ég að taka yfir Landsbankann? Tók ég mér ofurlán og eyddi því öllu í fasteignir vina minna? Á ég flottan bíl? Fékk ég að fara í laxveiði í boði bankanna? Svaf ég hjá Jónínu Ben? Svarið við þessu verður það sama og ég mun haka við á atkvæðaseðilnum!


eða þá þetta:


Nei, skilaði okkur fullveldi 1918.
Nei, skilaði okkur lýðveldi 1944.
Nei, skilaði okkur 200 mílna landhelgi 1976..............
Nei, forðar okkur frá þjóðargjaldþroti 2011 !!!



Finnst einhverjum vera málefnaleg umræða hér á ferð?


Hér má sjá sögulegan atburð frá borginni sem ég fjallaði um


Njótið. 


Kannski fáum við einn svona.  

03 apríl, 2011

Between the Devil and the deep blue sea

Mér finnst það illa gert, ósanngjarnt og vanhugsað, að setja mig í þá stöðu sem kjósanda, að þurfa að taka afstöðu í því ólukkans máli, sem er búið að halda okkur í hálfgerðri spennitreyju allt of lengi.

Auðvitað eru þarna sannfærandi rök færð fram, með og á móti, en vandinn við þau er bara sá, að við vitum ekkert hvað tekur við, á hvorn veginn sem er. Dettur það nokkrum manni í hug, að einhver umtalsverður hluti þjóðarinnar muni, eða sé í stakk búinn til að kynna sér þennan blessaða samning þannig að hann geti tekið fyllilega upplýsta afstöðu?

Nei, sannarlega held ég að öllum sé ljóst, að það mun ekki gerast. Allt í lagi með það. Þá ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir, að til þess að þjóðin geti næstum því vitað hvaða afleiðingar verða af hvoru svari, er ef til vill viturlegt að fá fræðastofnanir til að setja valkostina upp þannig að hún (þjóðin) fái í hendur einhver þau gögn sem auðvelda ákvörðunina. Þetta er nú verið að reyna á ýmsum vettvangi, sýnist mér.

Það sem ég óttast hinsvegar er, að skýrar upplýsingar verði algerlega hunsaðar af meginhluta kjósendanna. Ég held að áfram munni gjammið í misvitrum besserwisserum verða það sem úrslitum ræður.

Ég var að hlusta á viðtal við Lee Bucheit, þar sem hann fór, eins vel og hann gat, sýndist mér, yfir stöðuna sem upp kann að koma, hvor sem niðurstaðan verður. Þetta viðtal bar mig talsvert nær því að ákveða hvorum megin ég set krossinn, en eftir stendur, að ég veit ekki hverjar afleiðingarnar verða.

Þetta er í mínum huga ekki ólíkt því  og að standa fyrir framan tvennar dyr. Á öðrum stendur JÁ, en á hinum NEI.  Vandinn er sá, að ég veit ekki hvað gerist þegar ég opna þessar dyr. Hjá mér stendur fólk af ýmsum toga, hluti þess segir mér að opna JÁ-dyrnar, og annar hluti segir mér að opna NEI-dyrnar.
Hvorum hlutanum á ég þá að treysta? Þeim hlutanum sem veitir mér hlutlaust mat á því sem hugsanlega er handan dyranna, eða þeim hluta sem hrópar sannfæringu sína á annan hvorn veginn? Auðvitað vil ég helst hlusta á hlutlausu upplýsingarnar, en gjammararnir hafa bara hærra. Ég get skipt þessum gjömmurum í einhverja hluta, t.d. eftir því hvernig ég treysti þeim til að vera ekki að blekkja mig. Þarna eru gjammarar sem ég hef staðið að því að stuðla með beinum eða óbeinum hætti að því, að rústa heilu þjóðfélagi. Þarna eru gjammarar sem básúna skoðanir sínar út frá pólitískum hagsmunum, andúð á fólki, andúð á öðrum þjóðum, eða einfölduðum, en rakalausum slagorðum.

Það er óþolandi að vera settur í þessa aðstöðu.
Auðvitað vil ég ekki sitja uppi með það að börn mín og barnabörn þurfi að greiða skuldir sem stofnað var til á minni vakt.
Auðvitað vil ég ekki vera að taka óþarfa áhættu af einhverju dómsmáli, sem ég veit ekki hvernig fer.
Auðvitað vil ég ekki verða til þess að þetta þjóðfélag skaðist af ákvörðun minni meira en orðið er.

Grundvöllur þessa alls er illa lagður.
Ég lýsi talsverðri skömm á öllum þeim sem hafa leitt okkur að því að verða að taka þessa afstöðu.

02 apríl, 2011

Studio XPS 8100

Það er ótrúlega auðvelt að sannfæra sjálfan sig um að maður þurfi eitthvað, þó svo maður geti nú í rauninni lifað góðu lífi án þess. Það má alltaf finna rök, að vísu mis skotheld, og oft talsvert veik, ef nánar er að gáð, fyrir því að láta eftir sér að aðhafst eitthvað það sem mann langar að gera. 
Ég er í grunninn á móti þessum mannlega þætti, sem þó virðist hrjá okkur Vesturlandabúa, sem vorkennum okkur slæm kjör mitt í allri hlutfallslegri velmegun veraldarinnar.

Ég fann afsökun núna, alveg eins og þegar ég hef, í annan tíma verið að láta eitthvað eftir mér, sem þatttakanda í neyslusamfélaginu. Þessi afsökun hljóðar upp á það að eftir einhver ár kemur að því, að starfsævinni lýkur og við tekur tíminn þar sem maður gerið það sem mann langar til; eftirlaunaaldurinn, sem á að felast í því að einstaklingurinn nýtur uppskerunnar af ævistarfinu með því að gera nákvæmlega það sem honum dettur í huga og hann hefur heilsu til. Ég sannfærði mig um það, að þá væri gott að eiga góða græju til að geta sinnt helstu áhugamálum mínum.

Ég þarf auðvitað varla að tína til alla veikleika þessarar röksemdafærslu - sá auðvitað stærstur, að þegar kemur að ofangreindum tímamótum, verða komnar miklu öflugri og fullkomnari græjur, sem ég mun þá væntanlega eiga auðvelt með að samnnfæra sjálfan mig um að ég þurfi á að halda. Ég ákvað hinsvegar núna, að til þess að verða í stakk búinn þá, til að nýta mér tæknina sem þá verður í boði, verði ég að halda mér við. Til að svo megi verða sé mér nauðsynlega að leika millileikinn sem hér um ræðir.

Eitt leiddi af öðru. Ferlið að endanlegri ákvörðun ver engan veginn fyrirsjáanlegt, en var í stórum dráttum svona:

Ákveðið var að endurnýja vinnutölvuna mína. Ég á að fá öflugri græju til að sinna daglegum störfum. Það var komið tilboð í það sem kallað var "öflug vél". Þarna var um að ræða tilboð til stofnunarinnar sem fól í sér talsverðan afslátt frá skráðu verði. Þarna vaknaði spurning í huga mér, hvort það gæti kannski verið viturlegt að freista þess að fá að ganga inn í þetta tilboð og endurnýja með þeim hætti tölvukost minn. 

Tækni er ekki mín sterka hlið, og upptalning á öllu því sem tiltekin tölva býr yfir, segir mér ekki margt. Því var það að ég ákvað að leita til þeirra Kvisthyltinga, sem betur eru að sér á þessu sviði. Þeir sáu það auðvitað strax að tilboðstölvan væri nú bara "ræfill", sem myndi ekki duga í þau verk sem ég ætlaði henni. Með fylgdi útlistun þeirra á þeim eiginleikum sem góð tölva, eins sú sem ég væri að hugsa um, þyrfti að hafa til að bera. Þarna var að finna upptalningu á ótal þáttum sem sögðu mér nú ekki neitt. Ég treysti Kvisthyltingunum til þess að vita hvað þeir voru að tala um og þegar annar þeirra sendi mér hlekk að tiltekinni tölvu, sem átti að hafa allt það til að bera, eða nánast, það sem ég þyrfti, varð ekki aftur snúið.
Ég hringdi eitt símtal, festi mér tækið, átti síðan leið í borgina til að nálgast það, þar sem ég komst  að því, að hún var uppseld og ekkert var skráð um að ég ætti pöntun.
"Það var að koma í hús ný útgáfa, þú getur bara fengið hana á sama verði" sagði  þjónustulundaður afgreiðslumaðurnn. "Hún er með 2 terabæta hörðum disk, en ekki 1 terabæti og svo er hún með öflugra skjákort. Það er helsti munurinn á þeim."


Hver láir mér að hafa stokkið á þetta kostaboð. Heim kom ég með græjuna.


Nú er uppsetning hafin og flutningi gagna milli þeirrar gömlu og þeirrar nýju lokið. Framundan er ýmislegt, sem ég veit ekki hvernig ég leysi, en sem nauðsynlegt er að gera til að starfsemi græjunnar uppfylli kröfur mínar.

Ætli það endi ekki með því að ég leiti aftur til þeirra sem til þekkja.











Þetta er fyrir þá sem greina í tæknilegri útlistun.


Intel Core i7 870 örgjörvi

2.93GHz, 1066/1333 Mhz FSB, 8MB Smartcache
6GB 1333MHz DDR3 vinnsluminni (2x2048 + 2x1024)
2TB (2x1TB RAID 0 Stripe) harðir diskar (7200rpm)
16X DVD+/-RW ásamt hugbúnaði
10/100/1000 Gigabit Ethernet netkort
1GB ATI Radeon HD5770 skjákort
Innbyggt 7.1 HDA Dolby Digital hljóðkort
Tengi:
- 8 USB 2.0 (fjögur að framan)
- Tengi fyrir hljóðnema og heyrnartól að framan
- Ethernet, IEEE 1394a, eSATA
Dell USB lyklaborð með íslenskum táknum
Dell 6 hnappa USB Laser mús
Studio XPS 8100 Resource DVD
MS Office 2010 Starter (Word/ Excel Starter)
Windows 7 Home Premium (64 BIT)
Mini turn kassi:
- 40.9cm x 18.5cm x 45.467cm (h x b x d)
- 1x PCI, 2x PCIe x1, 1x PCIe x16
- 3x 3.5" drifhólf / 2x 5.25" drifhólf
- Minnisraufar: 4x DIMM
- 350W spennugjafi

Ritföng

Staður: Kassi í lágvöruverðsverslun.
Aðstæður: Maður á sextugsaldri ekur körfunni sinni að færibandinu og tínir varning á bandið: skyr, harðfisk, bjúgu, bláa mjólk, smjör, haframjöl, og svo framvegis, vona eins og fólk á þessum aldri kaupir inn. Við kassann stendur dökkhærður piltur, á að giska 15-16 ára. Hann tekur við vörunni jafnóðum og hún kemur með færibandinu í átt til hans, og skannar verðið inn í tölvuna, setur síðan vöruna áfram þar sem hún telst vera tilbúin til að fara í innkaupapokann.
Þegar hann hefur skannað vöruna fyrir  manninn á sextugsaldrinum á þetta samtal sér stað:



"5643"
"Eruð þið ekki með ritföng hérna?"
Þögn.
"Ha?"
"Ritföng?"
"Ritföng?"
"Já."
"Hvað er það?"
"Hvað er það? Veistu það ekki?"
"Nei."
"Það eru t.d stílabækur, blýantar og pennar!"
"Núúú. Nei, við eru ekki með svoleiðis."
"Jæja, hvað var þetta mikið, segirðu?"
"5643"
Maðurinn á sextugsaldrinum gengur frá sínum málum, meðan Kvisthyltingar við næsta kassa hristast í taugaveikluðu hláturskasti.



Íslensk tunga


Hvað er nú tungan? - Ætli enginn
orðin tóm séu lífsins forði. -
Hún er list, sem logar af hreysti,
lifandi sál í greyptu stáli,
andans form í mjúkum myndum,
minnissaga farinna daga,
flaumar lífs, í farveg komnir
fleygrar aldar, er striki halda.

Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
darraðarljóð frá elztu þjóðum.
Heiftareim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum - geymir í sjóði. 


Sæludagar í sandkassanum (3)

Framhald af þessu Þau fÁ og hS búa í hverfi í Dúbæ sem kallast   Sustainable city . Með því að smella á hlekkinn hér fyrir framan er hægt að...