Mér finnst það illa gert, ósanngjarnt og vanhugsað, að setja mig í þá stöðu sem kjósanda, að þurfa að taka afstöðu í því ólukkans máli, sem er búið að halda okkur í hálfgerðri spennitreyju allt of lengi.
Auðvitað eru þarna sannfærandi rök færð fram, með og á móti, en vandinn við þau er bara sá, að við vitum ekkert hvað tekur við, á hvorn veginn sem er. Dettur það nokkrum manni í hug, að einhver umtalsverður hluti þjóðarinnar muni, eða sé í stakk búinn til að kynna sér þennan blessaða samning þannig að hann geti tekið fyllilega upplýsta afstöðu?
Nei, sannarlega held ég að öllum sé ljóst, að það mun ekki gerast. Allt í lagi með það. Þá ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir, að til þess að þjóðin geti næstum því vitað hvaða afleiðingar verða af hvoru svari, er ef til vill viturlegt að fá fræðastofnanir til að setja valkostina upp þannig að hún (þjóðin) fái í hendur einhver þau gögn sem auðvelda ákvörðunina. Þetta er nú verið að reyna á ýmsum vettvangi, sýnist mér.
Það sem ég óttast hinsvegar er, að skýrar upplýsingar verði algerlega hunsaðar af meginhluta kjósendanna. Ég held að áfram munni gjammið í misvitrum besserwisserum verða það sem úrslitum ræður.
Ég var að hlusta á viðtal við Lee Bucheit, þar sem hann fór, eins vel og hann gat, sýndist mér, yfir stöðuna sem upp kann að koma, hvor sem niðurstaðan verður. Þetta viðtal bar mig talsvert nær því að ákveða hvorum megin ég set krossinn, en eftir stendur, að ég veit ekki hverjar afleiðingarnar verða.
Þetta er í mínum huga ekki ólíkt því og að standa fyrir framan tvennar dyr. Á öðrum stendur JÁ, en á hinum NEI. Vandinn er sá, að ég veit ekki hvað gerist þegar ég opna þessar dyr. Hjá mér stendur fólk af ýmsum toga, hluti þess segir mér að opna JÁ-dyrnar, og annar hluti segir mér að opna NEI-dyrnar.
Hvorum hlutanum á ég þá að treysta? Þeim hlutanum sem veitir mér hlutlaust mat á því sem hugsanlega er handan dyranna, eða þeim hluta sem hrópar sannfæringu sína á annan hvorn veginn? Auðvitað vil ég helst hlusta á hlutlausu upplýsingarnar, en gjammararnir hafa bara hærra. Ég get skipt þessum gjömmurum í einhverja hluta, t.d. eftir því hvernig ég treysti þeim til að vera ekki að blekkja mig. Þarna eru gjammarar sem ég hef staðið að því að stuðla með beinum eða óbeinum hætti að því, að rústa heilu þjóðfélagi. Þarna eru gjammarar sem básúna skoðanir sínar út frá pólitískum hagsmunum, andúð á fólki, andúð á öðrum þjóðum, eða einfölduðum, en rakalausum slagorðum.
Það er óþolandi að vera settur í þessa aðstöðu.
Auðvitað vil ég ekki sitja uppi með það að börn mín og barnabörn þurfi að greiða skuldir sem stofnað var til á minni vakt.
Auðvitað vil ég ekki vera að taka óþarfa áhættu af einhverju dómsmáli, sem ég veit ekki hvernig fer.
Auðvitað vil ég ekki verða til þess að þetta þjóðfélag skaðist af ákvörðun minni meira en orðið er.
Grundvöllur þessa alls er illa lagður.
Ég lýsi talsverðri skömm á öllum þeim sem hafa leitt okkur að því að verða að taka þessa afstöðu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Orðlaus ég íhuga málin
SvaraEyðaætti ég að segja Já?
Mætast hér stinn mjög stálin
stend ég með pálmann þá?
Eða ber Nei helst að nefna?
Nálgast þá dómsmál fer:
Útlenskir alls munu hefna
Á alþýðu landsins – á mér.
Hirðkveðill tekur ""ábyrga afstöðu til Icesave