02 apríl, 2011

Studio XPS 8100

Það er ótrúlega auðvelt að sannfæra sjálfan sig um að maður þurfi eitthvað, þó svo maður geti nú í rauninni lifað góðu lífi án þess. Það má alltaf finna rök, að vísu mis skotheld, og oft talsvert veik, ef nánar er að gáð, fyrir því að láta eftir sér að aðhafst eitthvað það sem mann langar að gera. 
Ég er í grunninn á móti þessum mannlega þætti, sem þó virðist hrjá okkur Vesturlandabúa, sem vorkennum okkur slæm kjör mitt í allri hlutfallslegri velmegun veraldarinnar.

Ég fann afsökun núna, alveg eins og þegar ég hef, í annan tíma verið að láta eitthvað eftir mér, sem þatttakanda í neyslusamfélaginu. Þessi afsökun hljóðar upp á það að eftir einhver ár kemur að því, að starfsævinni lýkur og við tekur tíminn þar sem maður gerið það sem mann langar til; eftirlaunaaldurinn, sem á að felast í því að einstaklingurinn nýtur uppskerunnar af ævistarfinu með því að gera nákvæmlega það sem honum dettur í huga og hann hefur heilsu til. Ég sannfærði mig um það, að þá væri gott að eiga góða græju til að geta sinnt helstu áhugamálum mínum.

Ég þarf auðvitað varla að tína til alla veikleika þessarar röksemdafærslu - sá auðvitað stærstur, að þegar kemur að ofangreindum tímamótum, verða komnar miklu öflugri og fullkomnari græjur, sem ég mun þá væntanlega eiga auðvelt með að samnnfæra sjálfan mig um að ég þurfi á að halda. Ég ákvað hinsvegar núna, að til þess að verða í stakk búinn þá, til að nýta mér tæknina sem þá verður í boði, verði ég að halda mér við. Til að svo megi verða sé mér nauðsynlega að leika millileikinn sem hér um ræðir.

Eitt leiddi af öðru. Ferlið að endanlegri ákvörðun ver engan veginn fyrirsjáanlegt, en var í stórum dráttum svona:

Ákveðið var að endurnýja vinnutölvuna mína. Ég á að fá öflugri græju til að sinna daglegum störfum. Það var komið tilboð í það sem kallað var "öflug vél". Þarna var um að ræða tilboð til stofnunarinnar sem fól í sér talsverðan afslátt frá skráðu verði. Þarna vaknaði spurning í huga mér, hvort það gæti kannski verið viturlegt að freista þess að fá að ganga inn í þetta tilboð og endurnýja með þeim hætti tölvukost minn. 

Tækni er ekki mín sterka hlið, og upptalning á öllu því sem tiltekin tölva býr yfir, segir mér ekki margt. Því var það að ég ákvað að leita til þeirra Kvisthyltinga, sem betur eru að sér á þessu sviði. Þeir sáu það auðvitað strax að tilboðstölvan væri nú bara "ræfill", sem myndi ekki duga í þau verk sem ég ætlaði henni. Með fylgdi útlistun þeirra á þeim eiginleikum sem góð tölva, eins sú sem ég væri að hugsa um, þyrfti að hafa til að bera. Þarna var að finna upptalningu á ótal þáttum sem sögðu mér nú ekki neitt. Ég treysti Kvisthyltingunum til þess að vita hvað þeir voru að tala um og þegar annar þeirra sendi mér hlekk að tiltekinni tölvu, sem átti að hafa allt það til að bera, eða nánast, það sem ég þyrfti, varð ekki aftur snúið.
Ég hringdi eitt símtal, festi mér tækið, átti síðan leið í borgina til að nálgast það, þar sem ég komst  að því, að hún var uppseld og ekkert var skráð um að ég ætti pöntun.
"Það var að koma í hús ný útgáfa, þú getur bara fengið hana á sama verði" sagði  þjónustulundaður afgreiðslumaðurnn. "Hún er með 2 terabæta hörðum disk, en ekki 1 terabæti og svo er hún með öflugra skjákort. Það er helsti munurinn á þeim."


Hver láir mér að hafa stokkið á þetta kostaboð. Heim kom ég með græjuna.


Nú er uppsetning hafin og flutningi gagna milli þeirrar gömlu og þeirrar nýju lokið. Framundan er ýmislegt, sem ég veit ekki hvernig ég leysi, en sem nauðsynlegt er að gera til að starfsemi græjunnar uppfylli kröfur mínar.

Ætli það endi ekki með því að ég leiti aftur til þeirra sem til þekkja.











Þetta er fyrir þá sem greina í tæknilegri útlistun.


Intel Core i7 870 örgjörvi

2.93GHz, 1066/1333 Mhz FSB, 8MB Smartcache
6GB 1333MHz DDR3 vinnsluminni (2x2048 + 2x1024)
2TB (2x1TB RAID 0 Stripe) harðir diskar (7200rpm)
16X DVD+/-RW ásamt hugbúnaði
10/100/1000 Gigabit Ethernet netkort
1GB ATI Radeon HD5770 skjákort
Innbyggt 7.1 HDA Dolby Digital hljóðkort
Tengi:
- 8 USB 2.0 (fjögur að framan)
- Tengi fyrir hljóðnema og heyrnartól að framan
- Ethernet, IEEE 1394a, eSATA
Dell USB lyklaborð með íslenskum táknum
Dell 6 hnappa USB Laser mús
Studio XPS 8100 Resource DVD
MS Office 2010 Starter (Word/ Excel Starter)
Windows 7 Home Premium (64 BIT)
Mini turn kassi:
- 40.9cm x 18.5cm x 45.467cm (h x b x d)
- 1x PCI, 2x PCIe x1, 1x PCIe x16
- 3x 3.5" drifhólf / 2x 5.25" drifhólf
- Minnisraufar: 4x DIMM
- 350W spennugjafi

2 ummæli:

  1. þetta hjómar sem sem nokkuð góð græja. svipuð fartölvunni sem ég var að huXa um... annars er ég í alveg sömu sporum og þú en bý svo illa að þekkja ekki neina "nörda" sem geta ráðlagt mér. Veit þó að i7 örgjörvinn er með því betra sem fæst í dag. En það er víst von á einhverjum betri eftir ca 3-4 vikur ... :-)

    SvaraEyða
  2. Þú ætti að bíða eftir nýja örgjörvanum, sem síðan víkur fyrir öðrum, nokkrum vikum seinna. Svona er þetta bara í neyslubransanum. :)

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...