30 maí, 2021

Dragferja í ein 14 ár

Eins og við vitum mörg, þá eru Biskupstungur umkringdar ám og fljótum og sú var tíð, að á þeim voru ekki brýr, þannig að það fólk sem þurfti að komast í eða úr sveitinni þurfti að vaða þessar ár, eða, eins og algengara var, að notast við báta. Það var væntanlega til í dæminu að á bæjum sem stóðu við einhverjar þessara fljóta, ættu menn sinn eigin bát. Þar sem hinsvegar var mest umferð fólks voru settar upp ferjur og varð það þá kvöð á viðkomandi bæjum að sinna flutningi fólks frá öðrum bakkanum til hins. Þessar ferjur gengu undir heitinu "lögferjur". Það þýddi það, að búendur á bæjum þar sem slíkar ferjur voru ákveðnar, voru skyldugir til að flytja ferðalanga yfir, ef fært var, gegn svokölluðum ferjutolli, sem var ekki há upphæð og jafnvel engin. Einhvern styrk fengu ferjumennirnir frá hinu opinbera. Ferjubátarnir voru venjulegir árabátar.  

Í kringum Laugarás voru þrjár  lögferjur (í 3 ár voru þær fjórar), eins og alkunna er: 
Tvær á Hvítá, önnur var Iðuferja, sem var þar sem brúin er nú, milli Iðuhamars og Skálholtshamars, en hin Auðsholtsferja, milli Auðsholts og Auðsholtshamars, Laugarásmegin.
Á Brúará var lögferja við Spóastaði fram til 1903. Þegar ákveðið var, vorið 1900, að lögferja skyldi vera, í Reykjanesi í Grímsnesi, sem var talsvert neðar í Brúará, var fallist á þá ósk bóndans á Spóastöðum, að leggja af lögferjuna þar árið 1903. 

Það var Sýslunefnd Árnessýslu sem hafði með ferjumálin að gera, en hver hreppur hafði það hlutverk að sjá til þess að lögferjum væri sinnt svo vel sem kostur var og skiluðu árlegum skýrslum til sýslunefndar um hvernig staðan var á hverri ferju. 

Um aldamótin 1900 jókst umferð um ferjustaðina, ekki síst vegna þess að þá var komið læknissetur í Skálholti. 
Í ljósi þessa fóru Tungnamenn að huga að því að fá uppsetta dragferju við Iðu og sendu í því skyni bréf til sýslunefndar, í apríl 1903, sem hljóðaði svo (bara nokkuð skemmtilegt bréf):

Hreppsnefnd Biskupstungnamanna leyfir sér hjer með að beiðast liðsinnis hinnar heiðruðu sýslunefndar Árnessýslu til að koma á dragferju á Hvítá að Iðu.

Tungnamönnum er það mikið áhugamál, að því fyrirtæki geti framgengt orðið nú þegar í vor, enda munu allir, sem til þekkja, játa að það sé mikil nauðsyn.

Tungnamenn eru verst settir allra Árnesinga að því er snertir samgöngur og aðdrætti, þar sem þeir eigi aðeins eiga lengsta leið í kaupstað, heldur hafa og stórárnar Brúará og Hvítá, sína á hvora hlið og þriðja stórvatnið, Tungufljót, skiptir sveitinni að endilöngu. Að vísu er nú góð brú á Brúará, svo að sjaldnast þarf að sundleggja hesta til Reykjavíkur, þó getur það komið fyrir, því að brúin er svo sett, að bæði er þangað mikill krókur fyrir marga sveitarmenn, svo að þeir nota hana ekki nema í brýnustu nauðsyn, og landslagi er svo háttað beggja vegna við hana, að þar er opt ófært hestum úr því snjór er kominn til muna. Þrátt fyrir það hafa þó flestir Tungnamenn til þessa kosið að sækja heldur yfir Brúará til Reykjavíkur, heldur en niður á Eyrarbakka, og er þó vegamunur svo mikill, að munar hjer um bil 2 dögum í hverri lestaferð. Aðalorsökin til þess er sú, að Hvítá er þröskuldur á leiðinni niður á Eyrarbakka. Hún er, eins og kunnugt er, miklu meira vatnsfall en Brúará og auk þess flugmikil dögum saman, bæði haust og vor, þegar ferðalög eru mest, og stundum svo, að hún er engum hesti fær. Eptir því sem miskunnsemi við skepnur fer í vöxt, blöskrar mönnum meir og meir að sundleggja hesta sína yfir hana hvað eptir annað og hvernig sem á stendur.

Um brú yfir hana á hentugum stað getur ekki verið að tala, til þess er áin langt of breið og því hefur nú verið vakið máls á því, að setja á hana dragferju. Með henni er unnið það þrennt, 1) að ekki þarf að sundleggja hestana, 2) ferðamenn þurfa ekki að telja sig þurfa að spretta af hestunum, jafnvel ekki taka ofan klyfjarnar og 3) hvorki væta sig né farangur sinn, sem opt vill verða á hinum ferjunum.

Vitanlega verður dragferja ekki notuð nema á sumrin, en á vetrin er lítið um lestaferðir yfir Hvítá hvort sem er, nema á ís. Það má telja víst, að er dragferjan væri komin, mundu Tungnamenn snúa verzlun sinni miklu meir til Eyrarbakka og Stokkseyrar heldur en nú, til þess að spara sjer Reykjavíkurferðirnar, sem eru svo miklu lengri, eins og áður er sagt.

Máli þessu til undirbúnings hefur verið leitað álits verkfróðra manna. Herra Páll Jónsson vegagjörðamaður, hefur skoðað ferjustaðinn og gjört mælingar þar, er hann taldi nauðsynlegar. Síðan hefur málið verið borið undir verkfræðing landsins, herra Sigurð Thoroddsen og hefur hann lofað að gjöra uppdrátt af ferjunni og áætlun um kostnaðinn. Var svo ráð fyrir gjört, að áætlun sú kæmist til hreppsnefndarinnar nú fyrir sýslufund, en því miður hefur það brugðist, og getur því hreppsnefndin enga vissa hugmynd haft um kostnaðinn. Þar er þó sú bót í máli, að ráðstöfun hefur verið gjörð til þess að áætlunin verði send oddvita sýslunefndarinnar svo að hún verði þar til sýnis er mál þetta kemur til umræðu í sýslunefndinni. Hið eina sem hreppsnefndin getur byggt á, að því er til kostnaðarins kemur, er það, að dragferjurnar á Héraðsvötnum kostuðu önnur rúml. 1300 kr, en hin rúml. 1000 kr og má ætla, að kostnaðurinn yrði svipaður við dragferju að Iðu.

Nú má að vísu segja, að fyrirtæki þetta sje mest fyrir Tungnamenn, og er það satt, þó má benda á það, að margir eiga erindi yfir Hvítá að Iðu úr öðrum sveitum, ekki síst nú, síðan Skálholt varð læknissetur, og allur helmingur umdæmisins verður að sækja til læknisins yfir Hvítá, og þá einmitt helzt á þessum stað. Þar á og prestur yfir að sækja og sóknarfólk til kirkju sinnar.

En þó væntum vjer, að sýslunefndin líti einkum á það, að hjer er að ræða um mikið nauðsynjamál, sem vert er að styðja, bæði vegna manna og skepna. Það er einnig hið fyrsta fyrirtæki þess kyns hjer um slóðir og sýnist mega fremur njóta þess en gjalda.

Þá er og á það að líta að hjer á sá hluti sýslunnar í hlut, sem á örðugra aðstöðu í samgöngumálum en aðrir. Landssjóður hefur tekið ómakið af flestum öðrum hreppum sýslunnar með því að brúa Ölfusá, svo að nú þurfa menn þar hvorki að sundleggja hesta sína, nje tefja sig, nje gjalda ferjutolla. Leggja Tngnamenn þar árlega til sinn skerf eins og aðrir sýslubúar, til þess að losa þá við töf og kostnað og hesta þeirra við sund, en sjálfir hafa þeir brúarinnar svo að segja engin not. Þykir það, sem og er, ekki nema sjálfsagt, því það heimtar allur fjelagsskapur, að hver veri byrðina með öðrum, en hart mundi oss þykja, Tungnamönnum, ef þeir hreppar sýslunnar, er fengið hafa, án sjerstakra fjárframlaga slíka samgöngubót sem Ölfusárbrúin er, vildu lítið eða ekkert styrkja oss til að fá þá litlu samgöngubót, er nú förum vjer fram á.

Ekki kemur oss þó til hugar að fara fram á það að sýslan kosti dragferju þessa að öllu leyti, en vjer leyfum oss að fara þess á leit, að hin heiðraða sýslunefnd vilji veita allt að helmingi kostnaðarins úr sýslusjóði. Vér ætlum, að vísu, að sýslunefndin vilji heldur veita einhverja tiltekna upphæð til þessa fyrirtækis, enda er oss það jafnkært, en með því að vjer höfum eigi fyrir oss áætlun um kostnaðinn, viljum vjer ekki nefna upphæðina, heldur fela það sýslunefndinni, því að, eins og áður er sagt, treystum vjer því, að áætlunin verði komin til hennar, þegar málið kemur til umræðu.

Að því er snertir framkvæmd verksins sjálfs, skal geta þess, að hreppsnefndin hefur ætlað Páli Jónssyni, verkfræðingi, að sjá um það, og munu allir er þekkja hann, telja allvel fyrir því verki sjeð, er hann á að stjórna.

Biskupstungnahreppi 11. apríl 1903

Undir bréfið rituðu nöfn sín þeir:
séra Magnús Helgason, Torfastöðum,
Björn Bjarnarson, Brekku,
Gísli Guðmundsson, Kjarnholtum,
Ingimundur Ingimundsson, Reykjavöllum,
Geir Egilsson, Múla og
Eiríkur Eiríksson, Miklaholti.
(Þetta bréf er að finna í bréfasafni sýslunefndar Árnessýslu á myndasetur.is)
Páll Jónsson (1853-1939)

Sýslunefnd tók málið fyrir og samþykkti að veita kr. 550 til uppsetningar á dragferju. Tungnamenn reiknuðu með að uppsetningin myndi kosta á bilinu 1.000 til 1.300 krónur, sem eru, uppreiknað skv neysluvísitölu í kringum 300.000 krónur.
Ferjan var sett upp og það var Páll Jónsson sem hafði veg og vanda að því verki. 
Það var svo í september þetta ár, að ferjumaðurinn Runólfur Bjarnason, bóndi á Iðu, drukknaði eftir slys við ferjuna. Um þetta slys var fjallað allnákvæmlega í Þjóðólfi og einnig skrifaði Skúli Sæland, ítarlega grein um það í Litla Bergþór 1. og 2. tbl. 2018. Fyrra blaðið er að finna á timarit.is.

Dragferjan var notuð á þessum stað til 1917, en var þá flutt á Brúará við Spóastaði og var þar, þar til brú þar leysti hana af hólmi 1921.

Fyrstu árin eftir að hún var tekin í notkun var kvartað talsvert undan henni og sýslunefnd sá ítrekað ástæðu til að hvetja  Tungnamenn til að koma á hana skikki.

Engin ummæli:

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (1)

Ég veit það vel, að aldur er afstæður og hef reynt það á eigin skinni, að mat mitt á eigin aldri og því sem honum fylgir er ekki alltaf hárn...