04 júní, 2021

Af sjónarhóli ekkjunnar

Dragferja á ótilgreindum stað.

Runólfur Bjarnason,
bóndi á Iðu og ferjumaður, drukknaði í Hvítá, í september 1903, skömmu eftir að dragferjan þar var tekin í notkun. Hann skildi eftir sig konu sína Guðrúnu Markúsdóttur (1874-1965) og þrjár dætur á barnsaldri, þær Þorgerði (1895-1966), Sigríði (1899-1987) og Guðnýju (1902-1953). Guðrún var þá þunguð og eignaðist fjórða barn þeirra hjóna Runólf (1904-1933) í apríl árið eftir lát bónda síns.

Frá vinstri: Guðrún Markúsdóttir, Þorgerður, Sigríður, Guðný og Runólfur Runólfsbörn, Páll Jónsson.

Guðrún stóð þarna ein uppi  með dæturnar þrjár og ófrísk að fjórða barninu. Það varð úr að Páll Jónsson, sá sem hafði sett upp dragferjuna, kom að Iðu og gerðist þar vinnumaður, eða "fyrirvinna", eins og segir í sóknarmannatali. Páll Jónsson (1853-1939) (sjá einnig hér) var kallaður "trúr þjónn" í grein sem skrifuð var um hann í Óðni árið 1936. Þar segir um ástæður þess að hann gerðist vinnumaður hjá Guðrúnu á Iðu:
Haustið 1903 vildi það hörmulega slys til, að Runólfur bóndi á Iðu druknaði í Hvítá, frá konu og 4 börnum ungum. Þau hjón voru nýkomin þangað austan úr Skaftafellssýslu. Efni voru lítil og ekki annars kostur en að ekkjan yrði að flytjast aftur austur á sína sveit, nema einhver maður fengist til bús með henni. Var nú leitað til nokkurra, en allir neituðu; þótti ráðið ekki fýsilegt. Þá bauðst Páll til; sagðist ekki geta hugsað til, að börnin yr'ðu tekin frá móðurinni og sett niður. Þessu boði var tekið fegins hendi og fór hann að Iðu vorið 1904, og veitti búinu forstöðu með ekkjunni (Guðrúnu Markúsdóttur) til vorsins 1913. Þá voru börnin uppkomin öll, og fluttist þá ekkjan með þeim austur í átthaga sína. Páll vann kauplaust öll árin, og gaf af sínu fje til styrktar að auki, eftir þörfum, svo að stóru nam. 

Á hinum bænum á Iðu bjó Sigmundur Friðriksson (1840-1908) ásamt tveim börnum sínum og öðru fólki.

Eftir að dragferjan var tekin í notkun, sumarið 1903, þurfti að ákveða hvernig rekstri hennar skyldi háttað, og voru um það talsverðar deilur milli hreppsnefndar Biskupstungnahrepps, en oddviti var þá Björn Bjarnarson á Brekku  og, að því er mér sýnist, Guðrúnar Markúsdóttur, ekkju Runólfs Bjarnasonar. Þessar deilur stóðu í nokkur ár og komu til umfjöllunar á fundum sýslunefndar. 

Árið 1905 óskuðu Tungnamenn eftir að sýslunefndin setti reglur fyrir dragferjuna "þar eð hreppsnefndin ekki geti komist að samningum við ferjubændurnar. Sýslunefndin álítur sér ekki skylt, jafnvel naumast heimilt að semja reglugjörð um þetta, sem hafi fult gildi, heyri það beinlínis til hreppsnefndinni, enda hefir sýslunefndin ekki þá staðlegu þekkingu, sem til þess þarf. En með því að sýslunefndin hefir yfirumsjón með þessari ferju, sem öðrum lögferjum, vill hún fyrir sitt leyti kjósa mann til að vera í ráðum með hreppsnefndinni um þetta."

Ferjustaðurinn við Iðu 1947.
Myndin er tekin af Iðuhamri.
Mynd Geir Zoega

Á sýslunefndarfundum var það auðvitað þannig, að þeir sem höfðu valdið, komu saman til að ráða málum og ráðum sínum. Þar inn flutti sýslunefndarmaður Biskupstungnamanna erindi hreppsnefndar og talaði í umboði hennar. Ætti hreppsnefnd í deilum við íbúa, einn eðpa fleiri, má því ætla að sjónarmið þeirra hafi ekki fengið að njóta sín sem skyldi á fundum nefndarinnar.  Íbúarnir gátu komið sínum sjónarmiðum á framfæri með því að skrifa bréf og það var einmitt það sem Guðrún Markúsdóttir á Iðu gerði, árið 1906, en bréf hennar er að finna í bréfasafni sýslunefndar. Ég verð að viðurkenna það, að ekki tókst mér að lesa texta bréfsins fullkomlega og þau tilvik þar sem ég gafst upp við að skilja, eru tiltekin í texta bréfsins, sem hér fylgir:
Af sýslufundi Árnessýslu 1904 má sjá, að kosin?? var maður til að semja við Iðubændur um dragferjuna við Iðuhamar, en með því hann hefur ekki komið að semja við mig um þetta mál, þá varð ég að sleppa ferjurétti mínum sökum svo óaðgengilegra skilmála er tungnahreppsnefnd setti, eða að öðrum kosti leita hans í aðra átt, en hef þó ekki gjört það fyr en nú að ég fer þess á leit. Verð því að skýra þetta mál nokkuð nákvæmar.

Sem öllum sýslubúum mun kunnugt var dragferja sett á Hvítá við Iðuhamar sumarið 1903 af tilhlutan sýslunnar og tungnahrepps. Ferjan kostaði als um 1.000 kr., hún sjálf rúm 800 og strengurinn tæp 200 kr. Enginn getur annað álitið en þetta væri mikil samgöngubót fyrir ferðamanninn á móti því að flytja á róðrarbátum og þá ekki síður þegar skoðað er frá mannúðarlegu tilliti. Því á meðan dragferjan verður brúkuð þarf öngvan hest að sundleggja. Þar á móti verður hún að öllu útgjaldaliður á ferjumanninum og öngvu hægari flutnings aðferð með núverandi fyrirkomulagi því róðrarbáta verður að hafa sem áður, því hún (drf.) verður ekki brúkuð nema að sumarlagi þegar áin er íslaus.

Nú vildi hreppsn. (tungnahr) að ferjan yrði eign ferjubænda með sömu ferjutollum, að öðru en því, að 5 aura skyldi borga fyrir hest hvern er hafður væri í henni, en það var sama gjald og halda í hest á eftir róðrarbát. Að þessum skilmálum gat ég ekki gengið, að minnsta kosti ekki fyr en ég var búin að sjá hvað þessi inntekt hennar næði til að jafna útgjaldalið hennar, sem voru að öllu ný útgjöld, en inntektin að nokkru eða öllu tekin frá róðrarbátnum, en engin sönnun var fengin (í fyrstu) hvort fleiri myndu brúka hana til hestaflutninga en hesta á eftir róðrarbát. Þennan reikning hélt ég sumarið 04 og var það að mjög jöfnu útgjöld og inntekt það árið, en nákvæmur gat hann ekki verið, sem meðfylgjandi skýrslur og athugasemdir sýna. Þessi reikningur var svo sendur til oddvita (t.hr).
Sumarið 1904 samþykti hreppsnefnd að ferjan skyldi vera eign hreppsins, en ég mætti halda hana, með því að borga hana ef hún færist fyrir handvömm, en viðhald hennar og önnur útgjöld – sem hljóta að vaxa með tímanum – var ekki frekar rætt að öðru en lausleg tillaga um að mundi meiga hækka ferjutolla á utanhreppsmönnum – einkum utan sýslu – að jafna á móti útgjöldunum. Þessa samþykt vildi ég ekki gangast undir og get heldur ekki í efnahagslegu tilliti, hvað sem út af bar og fyrir þetta var ég neydd til að sleppa ferjurétti mínum, en skil þó svo 7. gr., að rétti mínum hafi verið misboðið.

Síðan hefur hreppsnefnd haft hana sem eign hreppsins. Hefur hún leitast við að fá aðra að gegna ferjustörfum en ekki komist að aðgengilegri skilmálum – með ferjutolla og annað – en við Sigmund sambýlismann minn, en hverjir þeir eru, veit ég ekki, mér hafa þeir ekki verið kyntir??, enda álit skilmála frá hreppsnefnd og öðrum en sýslunefnd óviðkomandi gagnvart núgildandi ferjulögum.

Iðuferja 1956 (mynd líklegst Jón Eiríksson)
Í vetur eða vor tapaði Sigm[undur] bát sínum í ána, en með því hann hafði ekki annan forsvarlegan ferjubát, sem meðfylgjandi vottorð st.st. (séra Stefán Stephensen] vitnar, þá var minn fenginn, en af því mér hefur gengið fremur ervitt að fá útborguð skuldaviðskifti mín hjá Sigm[undi] og hreppsn[efnd], búin að taka ferjubát minn, þá fór ég þess á leit við oddvita í áheirn Jóns bónda í Skálholti og heimilisfólks míns, að hann hlutaðist svo um, að ég fengi um 10 kr. þóknun fyrir bátslánið og færði hann það í tal við Sigmund á heim. Tómasar hreppstjóra og J[ón] bónda í Skálh[olti]., en hann tók þá dauflega undir að greiða neina þóknun og var því þá slept, eða að minsta kosti hef ég ekki orðið vör við hann; þegar ég var orðin vonlaus að fá neinn greiða þá fór ég þess á leit við séra Stefán í Laugardalshólum að hann gæfi mér meðmæli sín til sýslunefndar ef ég vildi krefjast þess og gaf hann þá góðfúslega það meðfylgjandi vottorð sitt, án þess að ég hefði nokkra heimtingu af honum að geta það fremur en öðrum sérstökum ferðamanni sem??? brúkaði bátinn eftir það.

Þegar fyrst var þröngvað svo að rétti mínum að ég sá mér ekki fært að halda honum, sökum 400-800 kr. ábyrgðar sem ég mátti búast við að borga hvað sem útaf bar, því þó svo væri að orði komist, að mér bæri ekki að borga ferjuna að öðru en ef hún færist fyrir handvömm (og ég af öllum vilja gjörð að láta það ekki ske) þá hafði ég öngva tryggingu fyrir hvort fremur mundi álítast ef óhöpp kæmu fyrir.

Eigi nú einnig að fara að brúka bát minn sem ferjubát eftir þörfum, án nokkurs endurgjalds og eiga á hættu að hann glatist á mína ábyrgð, þar hann er í þess manns höndum er ég get síst treysti til þeirra hluta, þá get ég ekki lengur stilt mig um að snúa mér með þetta mál, er mér virðist að við eiga. Strangri réttarkröfu vil ég þó ekki að sé framfylgt í þessu máli og heldur vil ég gefa eftir bátslánið í þetta sinn, arðleysi hans og viðhaldi í 2 ár og önnur óþægindi sem ég hef orðið fyrir að þessum tíma, en að það þurfi að kosta málarekstur, en vil þar á móti mælast til að þér hr. sýslumaður sem oddviti sýslun[efndar]. hlutist svo um við sýslunefnd að ég hér eftir hafi og haldi ferjurétti mínum óskertum eftir sem áður (þar ég get ekki séð að ég hafi brotið af mér ferjurétt minn) á meðan ég er ábúandi á Iðu og vil þá gangast undir
Niðurlag bréfs Guðrúnar Markúsdóttur

1. að halda ein ferjuna í 2 ár að jöfnu við það sem sambýlismaður minn hefur haft hana, þar ég hef jafnrétti við hann sjá 5. og 6. gr. með þeim skilmálum er réttsýni þeirra mælir með, er um þetta mál – lögferjumál – eiga að ræða, sjá 3,4,5,6,.... 20 og í heild sinni allar greinar ferjulaganna.
2. Með því að semjendur núgildandi laga hafa ekki haft neina hugmynd um dragferju, né tilkostnað við hana, sjá 14, 15 og 19. gr. þá að sá tilkostnaður verði tekin til greina, eða samið við mig um hann.
3. Þá eru og um nokkrar lagagr. sem mér virðist að verði að koma sér saman um við sýslunefnd, þar til önnur, ný lög verða samin og mun ég benda á þær á sínum tíma.

Iðu 29. okt. 1906

Guðrún Markúsdóttir
-------------------
Páll Jónsson


Ári síðar, var ferjumálið enn óleyst og virtist vera í talsverðum hnút, en á sýslunefndarfundi það ár var þetta bókað:
Út af umkvörtunum um margfalda vanrækslu og vanhirðu á dragferjunni við Iðuhamar, skoraði sýslunefndin á hreppsnefndina í Biskupstungum að bæta úr þessu með nýjum, glöggum og haganlegum samningum við þá sem ferjan verður falin, svo og að ganga stranglega eftir því að ferjan verði betur hirt og stunduð eftirleiðis. Jafnframt skoraði sýslunefndin á oddvita sinn að vera til aðstoðar við samningana, ef með þarf og hafa strangt eftirlit með því, að þeir sem ábyrgð og umsjón ferjunnar verður falin, gæti skyldu sinnar í því efni.

Það er fjallað meira um þessar deilur á fundum sýslunefndar og fleiri bréf er þar að finna um þær. Þau koma mögulega hér inn, eftir því sem verk mín vinnast.

Guðrún flutti með börn sín í Meðalland vorið 1913, en þar voru átthagar hennar. Síðar flutti hún til Sigríðar, dóttur sinnar í Hveragerði og var þar til æviloka.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...