28 maí, 2021

Guðjón í Reykjanesi

Sýslunefnd Árnessýslu á fyrstu áratugum 20. aldar.
Ágúst Helgason, Árni Pálsson 1859-1941,
Bjarni Halldórsson 1867-1915, Björn Bjarnarson 1864-,
Gísli Scheving, Guðmundur Lýðsson 1867-1965,
 Guðmundur Sigurðsson, Guðmundur Þorvarðarson 1870-1939,
Gunnlaugur Þorsteinsson 1851-1936, Halldór Einarsson 1852-1912,
Júníus Pálsson, Kolbeinn Guðmundsson 1873-1967,
Ólafur Magnússon 1864-1947,  Ólafur Sæmundsson 1865-1936,
Sigurður Ólafsson 1855-1927, Stefán Stefánsson Stephensen 1832-1922,
Valdimar Briem 1848-1930,

Í bréfasafni Sýslunefndar Árnessýslu frá árinu 1901, er að finna bréf frá ábúandanum í Reykjanesi í Grímsnesi, Guðjóni Finnssyni, þar sem hann lýsir óþægindum vegna þess að sýslunefndin hafði ákveðið að í Reykjanesi skyldi vera lögferja yfir Brúará. Bréfið er svona:

Eins og kunnugt er setti sýslunefnd Árnessýslu lögferju hjá mér síðastliðið vor. Eins og á stóð þorði ég ekki að mælast undan að taka við lögferjunni og veit ekki hvort ég hafði ástæður til þess, en það skildist mjer þo ekki, að ferja hlyti að verða mjer byrði. Umferð verður mikil af lausaríðandi og gangandi mönnum, einkum þeim sem leita læknis að Skálholti úr útparti sýslunnar, en lestaferðir engar eða mjög litlar, helst frá Skálholti, sem að líkindum hefur fríjan flutning.Tekjur verða því litlar af ferjunni, en ónæði og kostnaður mikill.
Hingað til hef ég ferjað alla sem leitað hafa til mín og hefur það gengið slysalaust og ég vona að engin kvarti undan að ferjan hafi verið illa stunduð, en við ferjuna hef jeg þó orðið að nota lítt nýtt bátshróf, sem ég átti og sem hafði verið ókleyft að nota, ef tíð hefði ekki verið ágæt og svo að segja aldrei ísskríð á ánni.

Eigi ferja að vera hjer framvegis í fullu lagi er því óhjákvæmilegt að kaupa nýjan, góðan bát, en til þess vantar mig efni og álít ósanngjarnt að mjer sje gjört að skyldu að hleypa mjer í skuld fyrir bát við ferju, sem als ekki getur svarað kostnaði að stunda þótt bátur væri til og engu þyrfti til hans að kosta.

Á það skal jeg líka leyfa mér að drepa, að vegur er lítt fær frá ferjunni, mýrarsvað með fleiri illfærum keldum og þyrfti þar, ef vegur ætti að heita fær, um 400 ....(faðma) brú.

Jafnframt því og jeg því hjer með leyfi mjer að skora á hina heiðruðu sýslunefnd að veita mjer á næsta fundi sínum styrk til að kaupa bát fyrir til notkunar við ferjuna, skal ég einnig benda á það, að nýnefnd vegabót er bráðnauðsynleg, eigi ferjan að koma að tilætluðum notum, einkum vegna þess að læknis er leitað, ekki síður í svartnætti en um bjartan dag. Reykjanesi 16 marz, 1901
Guðjón Finnsson

 Guðjón Finnsson (1853-1923)  flutti í Reykjanes 1899 og bjó þar með fjölskyldu sinni til 1914 þegar sonur hans, Guðmundur tók við búinu og Guðjón hvarf á braut. Kona Guðjóns var Guðlaug  Sigvaldadóttir (1853-1932) sem var 46 ára þarna um aldamótin og þau áttu tvö börn sem bjuggu hjá þeim, Guðrúnu sem var 17 ára og Guðmund, 12 ára. Auk þeirra var á heimilinu vinnukona að nafni Jóhanna Finnsdóttir (1866-1960) og tvö börn hennar og Guðjóns, þau Friðsemd, 7 ára og Anna 6 ára. Þá var þar  vinnumaðurinn Ólafur Grímsson (22) og sveitarómagi Kristín Jónsdóttir (80).

Í sóknarmannatali er Guðlaug sögð vera kona Guðjóns, en í Íslendingabók er hún skráð sem vinnukona í Reykjanesi. 

Ekki neita ég því, að ég þurfti aðeins að velta því fyrir mér hvernig heimilisbragurinn var hjá þessu fólki. Eiginmaðurinn og eiginkonan á saman tvær dætur, sem voru 17 og 12 ára. Bóndinn og vinnukonan áttu saman tvær dætur sem voru 7 og sex ára. Árið eftir höfðu þau, bóndinn og vinnukonan, svo eignast þriðju dótturina.  

Mig langaði að vita aðeins meira um Guðjón Finnson og fann þá út að hann hefði látist með voveiflegum hætti árið 1923.

Hér má sjá nokkrar frásagnir af því í blöðum:

Guðjón Finnsson heitir gamall maður, sem hvarf hjer í bænum á föstudagskvöldið [26. október]. Var hann lengi bóndi austur í Grímsnesi, en hafði verið 3 síðustu árin hjer í Reykjavík. Hann er meðalmaður vexti, þrekinn, alskeggjaður. Eru þeir beðnir að gera lögreglunni aðvart, sem kynnu að verða varir við hann.

Þann 10. nóvember voru komnar fram grunsemdir um að hann hefði verið myrtur og 13. nóvember var greint frá eftirfarandi:

Taska, er Guðjón Finnsson, sem hvart um daginn, hafði meðferðis, hefir fundist rekin við vesturgarð hafnarinnar skamt frá  Örfirisey. Voru í henni sparisjóðsbækur og fleira, sem í henni átti að vera. Er því talið vlst, að maðurinn hafi fallið í hðfnina, en ekki hefir enn fundist líkið. (10/11)

Rannsókn er hafin út af hvarfi Guðjóns Finnssonar og hefir einn maður verið settur í gæsluvarðhald. Líkindi eru til, að hattur Guðjóns hafi fundist í fjörunni vestur í bæ. (28/11)

Í janúar var svo greint frá því að gunuðum drápsmanni hafi verið sleppt: 

Úr gæsluvarðhaldi hefir nú manni þeim verið slept, er setið hefir þar síðan í haust, að Guðjón Finnsson hvarf. Var honum slept fyrir nokkrum dögum. Voru líkurnar með því, að hann væri valdur að hvarfi mannsins ekki svo sterkar, að rjett þætti að halda honum lengur í varðhaldinu. (20/01)

Mál Guðjóns var síðar notað sem eitt dæmi um að réttarfari hér væri stórlega ábótavant. Þannig segir í Lögbergi þrem árum síðar:  

Fjórða dæmið er af meðferð máls manns þess, er Guðjón Finnsson hét og hvarf vofeiflega, en fanst síðar dauður í sjónum; og satt að segja er saga þessa máls, sem greinilega er sögð í bókinni, svo óskapleg, að vér minnumst naumast að hafa séð aumlegri frammistöðu. Fleiri dæmi minnist höfundurinn á, sem sýna berlega, að réttarfarinu þar heima í höfuðstaðnum er meira en lítið ábótavant, og er það illa farið, þegar menn hætta að bera virðingu fyrir réttvísi og lögum. Þá er skamt eftir orðið til menningar og siðferðisþrota. 

Á vefnum gardur.is segir svo um Guðjón: 

Hvarf úr Reykjavík. Þrír menn voru settir í gæsluvarðhald, grunaðir um að vera riðnir við hvarf hans. Tveimur þeirra var sleppt nokkru síðar.

Já, þetta var allt út af einu bréfi í bréfasafni sýslunefndar. Það er ekki nema von að þetta gangi hægt hjá mér. 


Engin ummæli:

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (1)

Ég veit það vel, að aldur er afstæður og hef reynt það á eigin skinni, að mat mitt á eigin aldri og því sem honum fylgir er ekki alltaf hárn...