Sýnir færslur með efnisorðinu Pælingar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Pælingar. Sýna allar færslur

23 júlí, 2016

Vanþróuð víkingaþjóð

Um aldamótin fylgdi ég nemendahópi í heimsókn til vinaskóla í Bæjaralandi í Þýskalandi og þar áttum við ágætan tíma og nutum gestrisni Þjóðverja.  Einn dagur heimsóknarinnar fór í rútuferð í skóg nálægt landamærunum við Tékkland, sem ég man ekki lengur hvað heitir. Þarna var um að ræða skóg sem fékk að þróast algerlega án aðkomu mannsins; tré uxu af fræi og féllu þegar sá tími kom. Fallin tré lágu síðan þar sem þau féllu og hurfu með tímanum aftur til jarðarinnar til að af henni gætu vaxið ný tré.
Þarna gegum við um þennan villta skóg dagspart og gerðum ýmislegt. Einn þáttur dagskrárinnar fólst í því að nemendunum var skipt í tvo hópa, Íslendingar í öðrum og Þjóðverjar í hinum. Hóparnir fengu í hendur spegla og áttu síðan að keppa í því hvorum gengi betur að ganga um skóginn þannig, að þátttakendur héldu speglunum fyrir framan sig eins og sjá má á myndinni. Með þessum hætti sáu þátttakendur upp í trjákrónurnar og himininn.
Það kom í ljós, að mig minnir, að Íslendingaliðinu gekk betur.
Í spjalli við kennara Þjóðverjanna á eftir sagði hann mér hver tilgangur leiksins hefði verið, nefnilega sá, að staðfesta þá kenningu að Íslendingar væru tengdari náttúrunni en Þjóðverjar. 

Ég ætla hreint ekki að þvertaka fyrir, að við þessar upplýsingar varð ég nokkuð hugsi og það örlaði á því sem kalla mætti móðgun. Það var auðveldlega hægt að túlka þessa kenningu sem svo, að þar sem styttra væri síðan Íslendingar komu út úr torfkofunum væru þeir skemmra á veg komnir og þar með síður þróaðir en Þjóðverjar (og þá væntanlega aðrar vestrænar þjóðir) að flestu leyti og í grunninn með vanþróaðri heila.
Auðvitað var þetta ekki lagt svona upp af kennaranum, heldur þannig að það væri jákvætt að vera nær náttúrunni. Það breytti hinsvegar ekki því hvernig ég sá þetta fyrir mér.

Síðan gerðist það nokkrum dögum síðar, að einn nemandinn úr mínum hópi kom að máli við mig í talsverðu uppnámi eftir að þýskur félagi hans hafði upplýst hann um að heilinn í Íslendingum væri vanþróaðri en Þjóðverjum.   Auðvitað varð niðurstaða um að gera ekkert veður úr þessu, enda varla auðveld umræða sem það fæli í sér. Við ákváðum bara að við vissum betur og þar við sat.

Mér hefur oft orðið hugsað til þessa spegilleiks síðan.
Var þetta kannski bara rétt hjá Þjóðverjunum?
Er kannski of stutt síðan við komum út úr torfkofunum?
Ráðum við við að halda í við þær þjóðir sem byggja á lengri þróunarhefð?
Erum við kannski ennþá víkinga- og veiðimannasamfélag sem er að þykjast vera eitthvað annað, uppblásin af minnimáttarkennd? (hádújúlækÆsland?)

WE ARE THE VIKINGS, HÚ!!
Æ, ég veit það ekki.

Svo er það hin hliðin á peningnum.

Er viðhorf útlendinga til okkar með þeim hætti sem ég lýsti hér að ofan?
Líta þeir á okkur sem skemmra á veg komin á flestum sviðum, kannski bara hálfgerða villimannaþjóð, þar sem lög og regla eru bara til hliðsjónar og siðferðileg álitamál eru ekki mál?
Skýrir það að einhverju leyti margumrædda og óvirðandi hegðun einhverra ferðamanna?  Kannski líta þeir svo á að þeir séu komnir til landsins sem leyfir þér allt.

Ég bið þá lesendur, sem mögulega taka efasemdir mínar um söguþjóðina nærri sér, afsökunar.

Ég held svo bara áfram að efast.


17 apríl, 2016

X3990

Þetta númer var síðast á Nissan Prairie.
Hlutverki þess lauk með dramatískum hætti
16. nóvember, 1996
"Hver var þetta?"
"Ekki hugmynd."
Hve oft skyldu nú samskipti af þessu tagi hafa átt sér stað þar sem við fD stundum kraftgöngu eftir malbikuðum gangstígnum sem stuðlar að bættu líkamsástandi og betri líðan Laugarásbúa og gesta þeirra?
Tilefni spurningarinnar og svarsins er ávallt bíll sem ekur hjá og við greinum óljósar útlínur handar sem veifar.  Stundum læt ég mig hafa það að veifa á móti, vegna þess að það telst kurteisi að heilsa fólki. Einnig vegna þess, að ef ég ekki veifa þá gæti bílstjórinn eða farþeginn í bílnum fengið þá flugu í höfuðið að mér væri eitthvað í nöp við hann, og þyrfti síðan að berjast við þá  tilhugsun næstu daga.  Ég hef vissulega sleppt því að veifa á móti, hef þess í stað látið sem svo, að ég væri mjög einbeittur við gönguna, því ganga er alvörumál, gæðatími.
Hvernig sem viðbrögð mín eru, hverju sinni má halda því fram að þau séu vandræðaleg og feli í sér ólíklegustu gildrur sem forðast ber í mannlegum samskiptum.

Þetta var einfaldara áður fyrr. Þá þekkti maður helstu númer og gat þannig með góðum fyrirvara brugðist rétt við hverju til viki, allt frá því, auðvitað, að þekkja ekki númerið og þar með sleppa því að veifa í kurteisisskyni, upp í það að spandera breiðu breiðu brosi, ásamt því að veifa kröftuglega.  Allt auðveldara og engin móðgun möguleg,

Það er nú farið að fenna dálítið yfir helstu bílnúmer, en ég man að pabbi var með X1567, Ég með X3990, lengst af, Ólafur læknir með G44, Grímur læknir með X1000, lögreglubílarnir (svarta María) með X1, X2, X3 og svo framvegis (ekki það að ég hafi átt mikið samamn við lögregluna að sælda).

Mér hnykkti dálítið við um daginn, en í einhverri spurningakeppni þar sem æska landsins tók þátt var spurt hvar bílar með tilteknum númerum hefðu verið á landinu. Það stóð á svörum og þau komu ekki.  Auðvitað á hvert mannsbarn að læra hvernig þessu var háttað áður fyrr. X-bílar vori í Árnessúslu, R í Reykjavík, G í Hafnarfirði (Gullbringusýslu), Y í Kópavogi og svo framvegis.  Þetta er þekking sem ætti að varðveita eins og hver önnur menningarverðmæti.

Ég verð að viðurkenna, að í ákveðnum tilvikum var frekar óhagstætt að búa við gamla númerkerfið. Þegar maður fór til Reykjavíkur á bíl með X-númeri brugðust innfæddir ekki alltaf vel við "sveitalúðanum" sem kunni ekki að keyra í höfuðstaðnum. Nokkur flautin fékk ég meðan ég var að ná tökum á tilverunni að þessu leyti í borginni.


Til gamans, bara vegna þess að ég fann, læt ég fylgja lista yfir gömlu númerin, en undir lok síðustu aldar tóku þau að víkja fyrir þeim sem við nú þekkjum.


A-Akureyrarkaupstaður og Eyjafjarðarsýsla
B-Barðastrandasýsla
D-Dalasýsla
E-Akraneskaupstaður
F-Siglufjarðarkaupstaður
G-Hafnarfjarðarkaupstaður og Gullbringu- og Kjósarsýsla
H-Húnavatnssýsla
Í-Ísafjarðarkaupstaður og Ísafjarðarsýsla
K-Sauðárkrókskaupstaður og Skagafjarðarsýsla
L-Rangárvallasýsla
M-Mýra- og Borgarfjarðarsýsla
N-Neskaupstaður
Ó-Ólafsfjarðarkaupstaður
P-Snæfells- og Hnappadalssýsla
R-Reykjavík
S-Seyðisfjarðarkaupstaður og Norður-Múlasýsla
T-Strandasýsla
U-Suður-Múlasýsla
V-Vestmannaeyjakaupstaður
X-Árnessýsla
Y-Kópavogur
Z-Skaftafellssýsla
Þ-Þingeyjarsýsla
Ö-Keflavíkurkaupstaður

14 apríl, 2016

Sjálfutækni

Við Lagarfljót
Þessum pistli er fyrst og fremst ætlað að vera fræðandi og þáttur í því að opna  fyrir þeirri kynslóð sem ég tel að helst lesi þessi skrif, undraveröld sem ungdómur á þessum tíma drakk í sig með móðurmjólkinni, nánast, samt ekki í eiginlegri merkingu.
Fram til þessa hef ég tekið tvær sjálfur, Önnur þótti sérlega vel heppnuð og áhorfendur höfðu uppi mörg fögur orð um myndefnið.  Hin varð að verða til, enda enginn annar, sem gat framkvæmt myndatöku, með í för. Þessar myndir má sjá hér til vinstri.

Í Eiffelturninum
Þá kem ég að tilefni þessa pistils, sem er uppljóstrun fjármálastjórans í ML, sem er það sem kalla má "advanced", eða svona framhalds-farsíma gúrú, að það væri til svokölluð tveggja fingra tækni við að taka sjálfur.  Þetta varð tilefni mikilla umræðna á kennarastofunni og má jafnvel segja að störf hafi verið lögð niður lengur en ásættanlegt var.

Ég mun hér gera greina fyrir muninum á tveggja fingra og þriggja fingra tækninni við sjálfutöku. Ég biðst að sjálfsögðu velvirðingar á því að andlit mitt kann að blasa við óþægilega oft, en tilgangurinn helgar meðalið.


Þriggja fingra tæknin
Hér er um að ræða þá aðferð sem "elementary" (byrjendur) sjálfutökufólk hefur stuðst við og þar sem ég hef lítið lagt mig eftir sjálfutökum, hefur þetta verið mín aðferð.  Myndin til hægri sýnir vel hvernig myndatakan er framkvæmt með þessari tækni. Tveir fingur, langatöng og þumall, hafa það hlutverk að halda símanum, meðan vísifingur er notaður til að snerta hnappinn á miðjum sjánum og þannig gerist það,  að símamyndavélin smellir af, eða þannig.
Mynd  tekin með þriggja fingra tækni
Beiting þriggja fingra með þessum hætti kallar á talsverða einbeitingu, sem síðan getur birst á myndinni.  Mér hefur lengi þótt undarlegt, ég segi ekki að ég hafi dáðst að fólki sem getur virst alveg afslappað, brosandi og hresst á sama tíma og það þarf að stjórna þrem fingrum með ofangreindum hætti.  Svarið við pælingum mínum að þessu leyti (pælingum sem hafa aldrei átt sér stað, reyndar, svo því sé nú haldið til haga) fékk ég í dag, hjá gjaldkeranum, sem bjó yfir hinni meira þróuðu sjálfutækni: tveggja fingra tækninni, svokölluðu.

Tveggja fingra tæknin

Afsmellihnappurinn
Sú tækni sem hér er gerð grein fyrir, byggir á því að hnappurinn sem alla jafna stýrir hljóðstyrk og hægt er að finna á hlið betri síma (svona eins og mínum), breytist á afsmellingarhnapp um leið og síminn er settur í sjálfuham.
Þarna fannst mér vera komin lausnin sem gæti orðið til þess að ég yki sjálfutökur og gæti jafnvel farið að miða mig við ýmsa jafnaldra mína að því leyti.
Æfingamynd með tveggja
fingra aðferðinni.
Ég leyni því ekki, að ég hóf, strax í dag, æfingasjálfutökur. Fann staði sem mér fannst vera hentugir, reyndi fá fD til að vera með, svona eins og á að vera. Tilmæli mín gáfu ekki þann árangur sem lagt var upp með og þar með snérust æfingarnar aðeins um mig og engan annan. Það kann að vera, þegar ég hef náð fullkomnu valdi á tækninni, að mér takist að breyta afstöðu fD að þessu leyti. er samt ekki vongóður.
Það fæðist enginn sem sjálfutökumaður (nema kannski nútímabörn) og þess bera fyrstu æfingatökurnar merki. Það sem ég mun þurfa að takast á við er sú staðreynd, að linsan á símanum vill lenda á bak við vísifingur (hér hér fyrir ofan til hægri).  Ég er þegar búinn að ná vel viðunandi tökum með þumalinn á afsmellihnappnum.  Þó ég sé búinn að prófa ýmisskonar nálgun að tökum, sem beinast að því að komsta hjá því að vísifingur verði hluti af öllum sjálfum sem ég tek, er ljóst að frekari æfingar er þörf, áður en mér tekst að ná fullkomnum sjálfum, sem óhætt er að bjóða kröfuhörðum neytendum samfélagsmiðla upp á.

10 apríl, 2016

Finslit

Orðið "vinur" hefur aðra merkingu á samfélagsmiðlinum Facebook en raunheimi. Vináttu taka menn upp á svona miðli af ýmsum ástæðum öðrum en að þeir séu vinir í raun. Þarna tilkynnir fólk sig til vináttu, jafnvel bara vegna þess að það þekkist af afspurn. Að nota orðið "vinátta" um það samband fólks sem þarna verður til, má kallast rangnefni og það má vel halda því fram að með þeirri tilhögun sé búið að eyðileggja ágætt orð.  Hvað merkingu leggur fólk í þessa yfirlýsingu, ef hún er ekki sett í eitthvert samhengi: "Við erum búin að vera vinir í 7 ár"?
Ég legg til að til aðgreiningar fari fólk að tala um FINI í þessu sambandi (Facebook vini). FINUR er bara fallegt orð sem fer vel við íslenska tungu.


Ég er búinn að læra hvernig ég get hætt að vera finur fólks og það sem meira er, ég get hætt fináttunni án þess að fyrrum finur minn viti af því, nema hann renni í gegnum breytingar á finalista sínum.  Ég er búinn að prófa að ljúka fináttu við nokkra nú þegar og hef ekki fengið neinar athugasemdir við það frá fyrrverandi, sennilega vegna þess að þeir vita ekki einusinni af því, sem segir margt um hverskonar finátta var þar á ferð.

Ég ætti að vera búinn að grisja finahópinn talsvert meira, en annaðhvort nenni ég því ekki eða þá ég hef öðlast nokkra leikni í því að skrolla eða skruna og líta framhjá; segja sem svo: "Já, þessi er við sama heygarðshornið!".

Mér finnst stærsti kosturinn við þennan miðil vera þeir möguleikar til að vera í sambandi við fólk sem þú myndir að öðrum kosti ekkert vita um: ættingja, gamla skólafélaga, fyrrum nágranna og því um líkt.

Það má flokka þá fini mína, sem mig langar minnst að vita mikið af í fernt:

1. Þeir sem gera fátt annað en deila einhverju sem aðrir hafa sagt þó ég viti að oft eru þeir með því, að upplýsa okkur, fini sína um eitthvað merkilegt, eða skemmtilegt sem þeir hafa rekist á í víðáttum veraldarvefsins. Það er svo sem ýmislegt til þar. Ég er sekur um þessa iðju í einhverjum mæli.

2. Þeir sem taka þátt í öllum deilileikjum fyrirtækja (auglýsingum) í von um að fá vinning. Þessi iðja er af sama tog og þegar hlustendur hringja inn í útvarpsþátt í von um að fá bíómiða, eða eitthvað þvíumlíkt.  Ég hef gert þetta einusinni. Það var í dimmasta skammdeginu og um var að ræða að komast í pott til að vinna mögulega sólstrandaferð.

3. Þeir sem með einhverjum hætti finna hjá sér þörf til að deila með finum sínum fjölkyldulífi sínu og þá, að því er mér virðist, aðallega í upphafningarskyni. Fá síðan helling af viðbrögðum eins eins. "krúttsprengja", "rúsínurass", "heppin þú", "yndislegt", "gellan!"og þar fram eftir götunum.

4. Þeir sem strá inn hávaðanum af órökstuddum skoðunum sínum og dylgjum, og virðist skorta sómatilfinningu, réttsýni, skynsemi, sjálfsgagnrýni og því um líkt. Hér er auðvitað oft um að ræða pólitíska sleggjudóma af ýmsu tagi.

Það er fjarri því að ég hafi áhuga á því, að hafa áhrif á hvernig finir mínir kjósa að tjá sig. Ég þarf bara að vega og meta hvernig ég bregst við.  Oftast er um að ræða ágætis fólk sem leggur einnig margt fleira til málanna.

Af ofangreindu héld ég að ég hafi einna minnst þol fyrir órökstuddum sleggjudómum sem ganga gegn mínum lífsskoðunum og kalla á að ég bregðist við, sem ég geri auðvitað ekki. Með sama hætti get ég alveg reiknað með að það hafi fækkað í finahópi mínum vegna minnar tjáningar að þessu leyti.

Samfélagsmiðlar hafa gjörbreytt þjóðfélögum um allan heim. Það er hægt að nota þá til góðs eða ills og allt þar á milli.   Það má spyrja sig um hvert það leiðir okkur.







07 apríl, 2016

Góður biti í hundskjaft

Orðtök geta verið skemmtileg og til þess fallin að skerpa á því sem sagt er. Mér hafa dottið nokkur í hug að undanförnu.
Í dag tók Sigurður Ingi Jóhannsson við embætti forsætisráðherra í þessu, að mörgu leyti undarlega þjóðfélagi okkar. Hve lengi honum tekst  að gegna því, veit ég ekki, auðvitað. Þetta getur verið upphafið að endinum á stjórnmálaferli Hreppamannsins eða upphafið á löngum og farsælum ferli. Það kemur allt í ljós og veltur á ótal fyrirsjáanlegum og síður fyrirsjáanlegum þáttum.

Það vill svo til að ég hef átt samleið með þessum pilti á tvenns konar vettvangi. Annarsvegar áttum við ágætt samstarf þegar uppsveitahrepparnir ákváðu að efna til kosninga um sameiningu sveitarfélaga í uppsveitum á 10. áratugnum. Þar sátum við báðir í nefnd sem hélt utan um undirbúning og kynningu á því verkefni. Hinsvegar hafa leiðir legið saman í gegnum aðkomu Sigurðar Inga að málefnum Menntaskólans að Laugarvatni, en þar hefur hann átt sæti í skólanefnd í óskaplega mörg ár og var formaður nefndarinnar um alllangt skeið. Velferð skólans hefur skipt hann miklu máli.

Sigurður Ingi er vandaður maður, traustur og svona eiginlega gegnheill, ef mér hefur tekist að lesa hann rétt. Ætli megi ekki lýsa honum einnig sem svo, að hann hafi virkað á mann sem þungavigtarmaður í bæði eiginlegum og óeiginlegum skilningi.

Ég varð hugsi þegar ég frétti af því að hann væri kominn í framboð fyrir þann flokk sem hann síðan hefur unnið sig upp innan. Það kom mér nokkuð á óvart, því hann hafði ekkert ýjað að hneigingu til stuðnings við neinn sérstakan flokk, eins og lenskan hefur verið meðal sveitarstjórnarmanna í uppsveitum. Ég var aldrei búinn að staðsetja hann í þeim flokki sem reyndin varð.

Við þær aðstæður varð mér á orði, í huganum, svo orðvar sem ég nú er: "Þar fór góður biti í hundskjaft!"
Áður en við var litið tók Sigurður Ingi síðan að rísa hærra og hærra innan þessa flokks, að mínu mati að stórum hluta í hópi sem var honum ekki sæmandi. Það var bara mitt mat auðvitað, þar sem ég fylgdist með eins og hver annar, litaður að eigin lífsskoðunum og getu til að lesa í fólk, sem auðvitað er umdeilanleg, eins og flest annað.
Framinn var hraður, miklu hraðari en venjulega gerist innan stjórnmálaflokka. Áður en við var litið var hann kominn á þing, orðinn varaformaður og síðan ráðherra og nú síðast forsætisráðherra.   Þá datt mér í hug annað máltæki: "Í landi hinna blindu er sá eineygði kóngur".

Ég hef haft það á tilfinningunni, að sá stakkur sem maðurinn hefur verið settur í, innan þessa flokks hvorki fari honum vel, né virðist þægilegur.  Þar sem hann stóð í stiganum í gærkvöld, við hlið viðskiptamanns sem var bólginn af hroka og ekki í jafnvægi, fann ég þessa tilfinningu enn skýrar.

Það sem ég óttast er, að ítök þess sem þurfti að hrökklast frá, verði til þess að koma í veg fyrir að Sigurður Ingi fái að njóta sín eins og hann er. Vonandi ber hann gæfu til að hrista þann skugga af sér.




03 apríl, 2016

Hungur

Þeir sem telja sig vera góða í að lesa á milli línanna gætu mögulega ályktað sem svo, að mig hungri í að sjá "ástsæla" leiðtoga þjóðarinnar falla af stalli vegna ósæmilegrar framgöngu fyrr og nú, eða mig hungri í að öðlast hugarró með uppljóstrunarþætti sem verður sýndur á RUV í dag kl 18:00.
Þetta má svo sem vera satt og rétt, að minnsta kosti að því leyti að það leiðir hugann frá hungrinu, við og við.

Það er margt sem getur valdið hungri

Nú er ég á öðrum degi hungurs og vonast til að komast af þar til sú stund rennur upp að fái aftur að borða fasta fæðu. Ég læt liggja milli hluta tilefni þess að ég er hungraður og læt þá sem eru góðir í að lesa á milli línanna og móta samsæriskenningar um að velta því fyrir sér eða upp úr því. Þetta hungur er í það minnsta ekki tilkomið vegna þess að peningasending frá Tortóla tafðist.

Þessi hungurlota hófst með því að við fD fórum í kaupstað til helgarinnkaupa, s.l. föstudag. Ef allt hefði verið með eðlilegum hætti, hefðum við gengið úr versluninni með troðna poka af matvælum til næstu viku: mjólk, kjöt, brauð, ávexti, grænmeti.... nenni ekki að tína fleira til, vegna hungurtilfinningarinnar sem að kallar fram.
Ég var sérlega einbeittur þessu sinni við innkaupin, enda bara að kaupa fyrir mig, þurfti ekkert að spá í hvort fD mundi mögulega hafa áhuga á hinu eða þessu. Það er nefnilega þannig, að þegar ég tek frumkvæði í matarinnkaupum þá gerist það alla jafna, að þau matvæli renna jafnvel fram yfir síðasta neysludag, þar sem ég hafði ekki gert grein fyrir, með skýrum hætti til hvers og/eða hvenær ég hafði hugsað mér að þeirra skyldi neytt. Stundum bara langar mig í eitthvað, án þess að velta hinni praktísku hlið málsins meira fyrir mér.  En nóg um það.

Í umræddri verslunarferð keypti ég eftirfarandi: te, drikkeboullion, eplasafa, tæra bollasúpu og gosdrykki.  Ég gekk einbeittur framhjá girnilegum steikum í kjötborði, sælgtisrekkunum, snakkinu, ostunum og nýbökuðum brauðum og kökum.  Þann hluta lét ég fD eftir, en það kom fljótt í ljós, að hún, meðvitað, eða ómeðvitað, stefndi á einhverskonar samúðarhungur.

Þessi hungurvaka mín hófst síðan á laugardagsmorgni og stendur fram á miðjan dag á morgun, ef allt fer eins og ætlað er.
Tilfinningin, nú á öðrum degi, birtist fyrst og fremst í einhverskonar tómleika og vangaveltum um tilgang þessa alls. Það sem léttir svona aðgerð einmitt núna er ákveðin spenna vegna þess sem framundan er. Ekki hjá mér, ef einhver skyldi nú hafa lesið það á milli línanna, heldur hjá þessari þjóð, sem fékk víst ekki allar upplýsingarnar síðast þegar hún kaus.

Þar sem ég reyni að leiða hugann frá djöflatertunni minni með bananakreminu og þeyttum rjómanum, reyni ég sannfæra mig um að sú áþján sem þetta hungur er, sé jákvæð fyrir mig og mína. Í huganum og meira að segja beinlínis hvet ég fólk til að leggja þetta á sig.

28 mars, 2016

Að liðka til við Hliðið


"Þú ert að liðka til við Hliðið" varð föður mínum að orði fyrir allmörgum árum þar sem við sátum yfir kaffibolla og það kom til tals, að framundan væri messusöngur, eða "gigg" eins og það stundum  verið kallað nýlega. Síðan gamli maðurinn lét sér þetta um munn fara hefur það oft komið upp í hugann og hver veit nema í þessum orðum sé að finna eina ástæðu þess að ég komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hefja aftur þátttöku í kórstarfi á þeim vetri sem nú gefur hægt og rólega eftir fyrir enn einu vorinu.
Í gær, á páskadag lauk einhverri mestu kórsöngslotu sem ég hef tekið þátt í, og er þá langt til jafnað.
Ekki svo að mér hafi borið skylda til að mæta í öll þau skipti sem talin verða hér á eftir, en við fD ákváðum að taka þetta bara alla leið, ekkert hálfkák.
Mér þykir rétt að halda því til haga að þessi ákvörðun var ekki meðvitað tekin vegna þess að við værum svo gott fólk, heldur einhver önnur, sem erfiðara er að útlista og sem ég kýs að láta liggja milli hluta að mestu leyti.  Möguleg ástæða er sú, að á þessum vetri höfum við fundið aftur örla á því að kórfélagar taki þetta áhugamál sitt það alvarlega að þeir mæta öllu jöfnu á æfingar. Við vitum að öll, að til þess að kór nái að hljóma vel saman, þurfa kórfélagar að mæta á æfingar og skiptir þá engu hversu vel menntaðir eða færir þeir eru í tónlist.  Fyrir utan það, að með góðri æfingasókn verður til einhver samhljómur, þá verður einnig til ákveðin samkennd sem síðan leiðir til þess að fólki finnst ekki slæmt að vera í samvistum hvert við annað og hlakkar frekar til kóræfinga en eitthvað annað.

Hvað um það, lotan sem nú er búin, var svona:
Laugardagur 19. mars. kl. 14 -  Útför Gunnars Haraldssonar og hann var síðan jarðsettur á Stóru Borg í Grímsnesi.
Þriðjudagur 22. mars kl. 20 - Æfing fyrir  vikuna framundan og var þar, vegna fjölda verka sem framundan var að syngja, farið á hundavaði yfir sumt, sem ég reikna með að hafi tekið á hjá þeim kórfélögum sem ekki eru búnir að vera í bransanum árum saman.
Miðvikudagur 23. mars kl. 20 - Æfing með Söngkór Miðdalskirkju fyrir fermingarmessu á skírdag. Það kom til þar sem óskað hafði verið eftir  viðbótarfólki í þann kór, sem er smám saman að mjakast þá leið sem bíður allra á öllum tímum.
Fimmtudagur 24. mars kl 11 - Fermingarmessa það sem tveir piltar úr Laugardal staðfestu skírn sína.
Fimmtudagur 24. mars kl 20:30 - Messa/guðsþjónusta með svokallaðri Getsemanestund.
Föstudagur 25. mars kl. 16 -  Messa/guðsþjónusta í tilefni dagsins þar sem skiptust á lestrar út ritningunni og kórsöngur.
Laugardagur 26. mars kl. 14 - Útför Jóns Karlssonar frá Gýgjarhólskoti, en hann var jarðsettur í Haukadalskirkjugarði.
Sunnudagur 27. mars, páskadagur, kl. 14 - Hátíðarmessa.

Eins og hver maður getur talið þá lögðum við leið okkar átta sinnum í Skálholt á þessum tíma (tíu sinnum ef með eru taldar heilsubótargöngur).  Þar söng kórinn um það bil 30 mismunandi verk (sálma og aðra tónlist).

Það er fjarri mér að láta það líta svo út hér, að ég sé að kvarta yfir þessari miklu tónlistarviku. Þetta var bara ágætt og enn einusinni áttaði ég mig á því að ég væri lifandi hluti að einhverju.

Það var gott hjá sr. Agli, í upphafi messunnar í gær, að geta um og þakka fyrir framlag kórsins í vikunni, því þó fólk sinni kórstarfi vegna áhuga síns á söng þá er mikilvægt að það finni að það sem gert er sé þakkarvert.
-------------
Tenórröddin er auðvitað orðin enn mýkri og fegurri en hún hefur veið um langa hríð, þrátt fyrir að sá staður sem tenórnum er ætlaður hæfi ekki svo mikilfenglegri og mikilvægri rödd.  Það er eiginlega með eindæmum að hann hafi þurft að búa við svo slakar aðstæður svo lengi. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru þær með svofelldum hætti:
Að baki organleikaranum er trébekkur, um það bil 30 cm hár.  Þessi baklausi trébekkur er fyrir aftan vel viðunandi stóla sópransins, en setan á þeim er um það bil 45 cm frá gólfi.  Augljóslega hefur þetta það í för með sér að mikið ójafnvægi myndast. 
Til þess að fegursta röddin fái notið sín verða þeir sem yfir henni búa, að príla upp á baklausan trébekkinn og standa þar með eins og turnar upp úr kvennafansinum fyrir framan.  Fyrir utan það að svo er háttað, getur hver maður ímyndað sér að príl upp og niður af trébekk í athöfn þar sem ekkert má fara úrskeiðis, er áhættuatriði, ekki síst þegar eigendur raddarinnar einu eru komnir á sjötugsaldur. Á þeim aldri vilja menn síður vera að príla mikið fyrir framan fulla kirkju af fólki. Það er fremur óvirðulegt, hæfir ekki röddinni og dregur athygli kirkjugesta frá henni yfir á prílið. Það má ætla að áheyrendur bíði frekar í spennu eftir því að prílið upp á eða niður af bekknum, endi með ósköpum, en að þeir hlakki til að heyra röddina hljóma og það er skaði..
Ég birti hér fyrir neðan tillögu mína að bekk sem hæfa myndi tenórum við þessar aðstæður. Þó það sjáist ekki á teikningunni, þá er, að sjálfsögðu gert ráð fyrir að bekkurinn sé vel bólstraður í bak og fyrir, til að tryggja nauðsynleg þægindi, því ekki viljum að að mikilvægasta röddin gjaldi þess að búa ekki við bestu aðstæður.



 

Myndirnar sem notaðar eru til að lífga upp textann voru teknar fyrir og í lok páskamessu. Sú síðasta af Jóni Bjarnasyni leika útgöngutónlist.

22 mars, 2016

Þar sem ljósið nær ekki að skína

Öll eigum við hliðar sem við kjósum að vera ekkert að halda á lofti út á við. Það er mjög eðlilegt, enda erum við bara mannleg.  Þau hlutverk sem við tökum að okkur í lífinu kalla á að við nýtum þann styrk sem við búum yfir, hæfileikar okkar til að leika hlutverk okkar eru stundum miklir, stundum minni.  Flest reynum við að leika eins vel og geta okkar leyfir, hvort sem við störfum á eigin vegum eða hljótum umbun fyrir frá þeim sem við störfum fyrir. Hvernig sem það er, þá skiljum við alltaf hluta af okkur eftir, þar sem ljósið ekki skín. Við viljum geta ákveðið hvað við höfum bara fyrir okkur.  Fyrir lang flesta er þetta fullkomlega eðlilegt. Það getur enginn krafið okkur um að sýna þá þætti lífs okkar sem koma hlutverki okkar ekki við.

Þau eru mörg og margvísleg, hlutverkin og krefjast mis mikils. 

Fólk býður sig fram til að starfa í þágu almennings. Það býður fram krafta sína í þágu íbúa sveitarfélags eða jafnvel þjóðarinnar allrar.  Við slíkar aðstæður, ekki síst eftir það sem gerðist haustið 2008, spyrjum við hvað þar liggur að baki. Við viljum að það fólk sem býður fram krafta sína geri okkur grein fyrir bakgrunni sínum og forsendunum að baki framboðsins.  Sum okkar eru búin að læra að þær bakgrunnsupplýsingar sem við erum mötuð með og forsendurnar fyrir því að einstaklingar bjóða sig fram til almannaþjónustu, kunna að vera aðrar en þær sem upp eru gefnar. Við komumst að því þegar samfélagið riðaði til falls, að það er oft harla lítið að marka það sem gerist á yfirborðinu. Við áttuðum okkur á því að það var annað í gangi en okkur var sagt.

Þar með fauk traustið. En það leið ekki á löngu áður en upp reis fólk með ásjónur engla og kvaðst hafa allar lausninrnar fyrir íslenska þjóð og stór hluti þjóðarinnar þjáðu gleypti við boðskapnum.
Það er byrjað að falla á engilsásjónurnar. Sumum finnst að merki um að þær séu að umbreytast í guðlegar ásjónur,  öðrum finnst að smám saman, undir ódýrum leikhúsfarðanum sé að koma í ljós, smátt og smátt andlit spillingar, undirferli og dulins tilgangs.

"Skortur á gegnsæi leiðir til vantrausts
og djúpstæðs öryggisleysis".
Ég ber lítið traust  til þeirra afla sem nú stýra þessu landi og það er vissulega slæm tilfinning. Ég les fullt af orðum, ég heyri endalaust orðaflóð, en á þessum tímum eru orð ódýr. Fólkið sem við kusum til að leiða okkur, virðist hafa tileinkað sér þá aðferð að segja bara eitthvað á þeirri forsendu að eitthvað sé nógu gott, nú eða segja bara hreint ekki neitt, hugsandi sem svo: "Það bíður sér til batnaðar".
Sannleikur, réttsýni, hugsjónir, mannúð, jafnrétti, virðing. Allt eru þetta hugtök sem eiga að vera þrungin merkingu, en eru léttvæg fundin þar sem þau leka eða renna, jafnvel frussast út úr munnum stjórnmálamanna meðan ljósið skín á þá og myndavélarnar eru í gangi.

Hvað gerist þegar ljósin slokkna eða þegar myndvélunum er beint annað?

Við þessar aðstæður myndast kjöraðstæður fyrir samsæriskenningar og ekki ætla ég mér að feta þá braut, þó margt komi upp í hugann. Eitt veit ég þó fyrir víst: þar sem ljósið ekki skín og þar sem myndvélarnar og hljóðnemarnir ná ekki til, þar heldur líf stjórnmálamanna eða annarra sem gegna háum embættum í opinberum stofnunum eða stórum fyrirtækjum sem þjóna almenningi, áfram. Hvað er þetta fólk að gera þá? Varla er það bara að kúra. Ekki leggst það í hýði.

Þetta er birtingarmynd vantraustsins í mínum huga.

Þessi stubbur er skrifaður undir áhrifum frá talsverðri reynslu af því að vera þjóðfélagsþegn á Íslandi, kosningabaráttu forsetaframbjóðenda í landi hinna frjálsu og sjónvarpsþættinum "Spilaborg", sem RUV sýnir þessar vikurnar, hvort sem það er nú tilviljun eða ekki.







12 mars, 2016

Bönnum það bara

Í sannleika sagt veit ég ekki alveg hvernig réttast væri að bregðast við fregnum af því, að einhver, að öllum líkindum fulltrúi sveitarstjórnar Blaskógabyggðar, eftir að ákvörðun hafði verið tekin þar, er búinn að koma fyrir skilti í brennustæði við Brennuhól, þar sem Laugarásbúar hafa í fjölmörg ár hist á gamlárskvöld, til að njóta ylsins frá veglegum bálkestinum sem safnað hafði verið í allt árið. Þarna hafa Laugarásbúar einnig fengið að njóta skottertu í boði björgunarsveitarinnar og flugeldasýningarinnar í Reykholti í fjarskanum.

Það sem mér finnst mæla með því að banna losun við Brennuhól er aðallega sú misnotkun á staðnum sem erfitt hefur verið að sporna við.
Það er til fólk sem lifir fyrir sig í núinu. Þetta fólk skortir sýn á að verk þess kunna að hafa áhrif á líf/lífsgæði annarra, eða lætur sig það bara engu skipta. Það hefur brenglaða siðferðiskennd og ætti bara að skammast sín. Þetta er fólkið sem fór með ruslið sitt í brennustæðið við Brennuhól; gömul sófasett, eða eldhúsinnréttingar og jafnvel bara úrgang.
Mig grunar að þessi staða sé uppi nú vegna þessa fólks.

Ég tel hinsvegar, að það hefði átt að láta reyna á aðrar leiðir áður en gripið var til þess ráðs að setja þarna upp skilti sem bannar losun af af hvaða tagi sem er,  t.d. sakleysislegt skiltið sem búið var að koma þarna fyrir og sem flutti þessi skilaboð: Hér má einungis henda timbri, engu öðru, annars missum við brennuleyfið.

Það sem nú blasir við, ef við Laugarásbúar, svo hlýðnir og lítillátir sem við erum nú, þurfum að flytja allt timbur sem fellur til hjá okkur, aðallega vegna grisjunar, upp í Reykholt, en það er 12 km. spotti. Þar með þurfum við að eiga bíl með dráttarkúlu og viðeigandi kerru. Síðan þurfum við að fá eins og einn gám af timbri sendan úr Reykholti þegar áramót nálgast, ef við stöndum þá bara nokkuð í þessari áramótavitleysu á annað borð.

Það sem er kannski erfiðast að kyngja í þessu máli er samráðsleysið. Við vitum ekki einusinni hver setti þetta skilti þarna upp þó svo leiða megi líkur að því.

Það er líklega kominn tími til að við stofnum þorpsráð og kjósum okkur þorpshöfðingja til að sinna samskiptum við utanaðkomandi vald.  Ég er viss um að í skóginum leynist fólk sem er tilbúið að tala máli okkar út á við.


Til að fyrirbyggja misskilning, þá var það SA-hvassviðri á þessum degi, sem getur orðið vart við Brennuhól (þó ekki verði þess vart í þorpinu sjálfu), sem felldi bannskiltið. Ég viðurkenni hinsvegar, að ég reisti það ekki upp.

10 mars, 2016

Ég stend mig að því að......

Í Njáluferð í 1. bekk. Þarna fylgist ég með, auðvitað 
áhugasamur, fróðleik úr munni dr. Haralds Matthíassonar. 
Hvítu prjónahúfuna og lopapeysuna á ég móður minni
að þakka.
Þegar maður uppgötvar eitthvað í fari sínu sem var ekki talið eiga þar stað, bregst maður við með því að þegja um það, eða þá að maður lætur eðlið hafa sinn gang og tekur því jafnvel bara fagnandi.   
Fyrir nokkrum árum skaut því óvænt upp í huga mér, að það gæti verið gaman að taka saman upplýsingar um húsin og íbúana í Laugarási. Þarna var varla um meira en 70 ára sögu að ræða svo það ætti nú að vera hægt að ná utan um það.
Söfnun á þessum upplýsingum hefur staðið yfir síðan, svona í hjáverkum og mörgu er þar ólokið.

Önnur saga hefur orðið mér hugleikin með árunum, en hún tengist vinnustað mínum til næstum 30 ára. Þar hafa lengi verið til gamlar ljósmyndir af ýmsu tagi og einnig fullur kassi af skyggnum (slædsmyndum /"slides" - en aðeins þeir sem  eru orðnir fullorðnir vita hvað það er).
Njáluferð 1971: Kristinn Kristmundsson sinnir fróðleiksþorsta
tveggja bekkjarfélaga minna, Eiríks Jónssonar frá Vorsabæ 
og Magnúsar Guðnasonar.
Við uppgötvun þessa vaknaði hjá mér áhugi á að koma þessum myndum í rafrænt form, og vista þær síðan þar sem ML-ingar á öllum tímum gætu notið þeirra og yljað sér við minningar frá löngu liðnum tíma.  
Skólinn og júbílantar hafa lagt fram fé til tækjakaupa vegna þessa og ég hef, þegar eyður myndast í daglegu amstri, lokað mig af í þar til ætluðu herbergi og skannað eða myndað myndirnar sem um er að ræða.  Þetta hefur gengið ágætlega og nú eru komnar um 800 myndir, flokkaðar og fínar að sérstakt vefsæði sem stofnað var til af þessu tilefni. Heilmikið bíður skönnunar og þá aðallega myndir sem Rannveig Pálsdóttir/Bubba tók stóran hluta þess tíma sem þau Kristinn Kristmundsson gistu Laugarvatn.
Njáluferð 1971: Þarna má sjá, auk vormanna Íslands,
dr. Harald og Björn Inga Finsen, enskukennara.
Það er ætlunin að þróa þessa hugmynd lengra og nú liggur fyrir að leita til júbílanta næstu 5 ára, biðja þá að kíkja í gömlu albúmin sín, velja skemmtilegar myndir frá Laugarvatnsárunum, merkja þær og gefa skólanum til vistunar á vefnum. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.

Áhugi minn á þessari myndvinnslu efldist til muna þegar ég fann nokkrar myndir frá mínum árum í ML frá 1970-74. Megi þær verða fleiri.

03 mars, 2016

Jákvætt eða neikvætt - kannski bara kvætt.

Þetta tengist línuritunum sem finna má neðar, en hefur
enga skírskotun til einhverrar skoðunar höfundar.
Ég fann þessi merki á netinu og tek enga
afstöðu til litanna
Börn eru alltaf að fæðast eins og hver einn veit. Algengast er að kyn þeirra við fæðingu sé annað hvort kvenkyn eða karlkyn. Það mæta litlar stúlkur og litlir piltar á svæðið, foreldrum sínum til mikillar gleði, í það minnsta ef það sem á undan fór fæðingunni var í samræmi við það sem almennt er talið rétt og eðlilegt.
Ástríkir foreldrarnir eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að sá jarðvegur sem barnið þroskast síðan upp úr verði sem allra næringarríkastur og að ávestir ástar þeirra njóti besta mögulega atlætis.  Sumir birta meira að segja myndir af litlu krúsidúllunni á samfélagsmiðlum, væntanlega til að leyfa öðrum að njóta þessarar dásemdar með sér eða kannski til að fá eilítið hrós fyrir vel smíðaðan grip. Fljótlega fer hinsvegar ýmislegt að koma í ljós, jafnvel eitthvað sem öðruvísi en foreldrarnir bjuggust við; lífið sjálft eins og það birtist í hversdagsleik sínum, allar flækjur þess og hömlurnar sem unginn setur á ástfangna/ástríka foreldrana. Þeir þurfa að fara að neita sér um það sem sjálfsagt þótti áður og reynist það mis auðvelt. Þeir komast að því að barn er ekki bara krúsídúlla heldur einnig beisli, eða haft.

Svo er það þetta með kynið.
Hvað á nú að gera í því?
Má klæða unga stúlkubarnið í bleikan kjól, eða piltbarnið í bláar buxur?
Hvert á hlutverk móðurinnar að vera eða hlutverk föðurins?
Hvað á að ganga langt í því að láta stúlkuna leika sér með bíla eða piltana með brúður?
Stærsta spurningin er kannski: Hver er hinn raunverulegi munur á piltum og stúlkum?

Svo tekur samfélagið við, því foreldrarnir þurfa að afla tekna til heimilisins.
Fyrst er það leikskólinn. Þar mætir barninu móðurleg veröld.


Hefur leikskólagangan einhver varanleg, mismunandi áhrif á kynin? Hvar byrja þau að leita sér fyrirmynda? 
Allt í lagi með það. 
Við tekur grunnskólinn þar sem móðirin er enn allsráðandi. Móðirin verður alltaf kona, hvað sem við reynum að gera til að breyta því.
Í grunnskólanum má reikna með að kynin fari að pæla í hlutverkum hvors um sig. Það eru strákar og það eru stelpur. "Til hvers er það nú?", spyrja blessuð börnin og leita svara. 
Stelpurnar sjá fyrirmyndar konur allan daginn. Strákarnir sjá fyrirmyndarkonur allan daginn, sem segja þeim að vera stilltir eins og stelpurnar, kannski af því þær eru konur. Konur eru konur, en ekki karlar, nefnilega.  Strákarnir vita oftast af pabbanum, þeir sjá hann yfirleitt á kvöldin og um helgar, ef þeir eru heppnir  með pabba. Eiga jafnvel pabba sem er ekkert svo mikið í tölvunni þegar hann kemur heim úr vinnunni.  Strákarnir fara að velta fyrir sér hvað það er að vera karlmaður; átta sig á því að þeir muni verða svoleiðis. Hvar geta þeir fundið sýnishorn af þannig fyrirbæri. Jú, vissulega heima, á kvöldin og um helgar, ef þeir eru heppnir. Hvar annars?  Jú, í sjónvarpinu þar sem hetjurnar ríða um héruð og drepa mann og annan, kannski. Og í tölvunni þar sem er nú aldeilis úrval af ímyndum hinnar sönnu karlmennsku, ekki síst eftir að hvolpavitið er farið að beina  huganum inn á ýmsar framandi slóðir.

Eftir grunnskólann tekur við framhaldsskólinn. Þá ber aðeins nýrra við:


Það var ekki fyrr en skólaárið 2005-6 sem konur urðu fjölmennari en karlar við kennslu í framhaldsskólum. 
Maður skyldi ætla að þarna fái allir nauðsynlegar fyrirmyndir. Fyrirmyndar kvenkennara og fyrirmyndar karlkennara.  Ekki verður hér og nú, í þessum pistli á hálu svelli, gerð tilraun til að draga miklar ályktanir. Kannski má halda því fram að þegar komið sé á framhaldsskólastig sé of seint að kynna fyrir piltunum venjulega karlmenn, sem ekki eru hasarmyndahetjur, íþróttahetjur eða jafnvel klámstjörnur með þann búnað sem þær hafa.  Það kann meira að segja að vera svo, að grámóskulegir karlkennararnir í framhaldsskólunum, með einhverjar undarlegar hugmyndir um samskipti standist hreinlega ekki mál þegar leitað er að fyrirmynd í lífinu. Þær geta ekki verið svona! Þarna er mögulegt að vonbrigði piltanna verði mikil og þeir ákveði að þrátt fyrir fyrirmyndar kvenkennarana sé ekki líft innan veggja framhaldsskólans. Skýrir það mögulega að einhverju leyti umtalsvert meira brotthvarf pilta úr framhaldsskólum en stúlkna?

Hvað gerist síðan í sambandi við framhaldið, eftir að framhaldsskóla er lokið? Þá gerist þetta:


 Er mögulegt á finna í þessu samsvörun við eitthvert meint kvenlegt uppeldi og skort á eðlilegum fyrirmyndum pilta?

Ég leyfði mér einhverju sinni að nefna það sem möguleika, en slíkar hugmyndir voru slegnar fast út af borðinu með: Allar rannsóknir hafa sýnt að það breytir engu. Mig langar dálítið að sjá þær rannsóknir. Rannsóknir eru af ýmsum toga.

Ég kann að fjalla meira um þessi mál síðar. 


28 febrúar, 2016

Opnun fyrir mannkynslausnara

Ég hef ekki, alllengi, tjáð mig neitt um stjórnmál, en gerði talsvert af því fyrir einhverjum árum. Meginástæða þessarar þagnar minnar er tilgangsleysi þess að fjalla málefnalega um stjórnmál á þessu landi. Í skúmaskotum leynist fólkið sem hefur öll svörin og bíður færis að láta á sér kræla ef það telur sig finna færi á.

Ástæða þess að ég skelli hér nokkrum línum á blað um stjórnmál er ákveðinn ótti um að stjórnmálaaflið sem hefur notið mikils og vaxandi fylgis í skoðanakönnunum um langt skeið verði fórnarlamb fólksins í skúmaskotunum, sem ég hef kosið að kalla "mannkynslausnarana".  Flokkurinn sem um ræðir er fremur óskrifað blað og þar með berskjaldaður fyrir tilraunum til yfirtöku. Það vill svo til, að ég hef lítilsháttar reynslu af svona löguðu.

Þjóðvaki

Ég bendi þeim sem eru að lesa þetta og ekki vita neitt um þetta fyrirbæri, að gúgla bara. Þarna var um að ræða stjórnmálaafl sem kom fram  í aðdraganda þingkosninga 1995. Þetta var eiginlega flokkur sem var stofnaður af og í kringum Jóhönnu Sigurðardóttur og stærsti tilgangurinn með stofnun hans var að freista þess að búa til einhverskonar sameiningarafl vinstri manna, en ýmsum hefur orðið fótaskortur við slíkar tilraunir.
Þjóðvaki  mældist með 17,5 prósenta fylgi fyrst eftir að flokkurinn var stofnaður. Fylgið minnkaði og var mánuði síðar orðið 10,5 prósent og þegar að kosningum kom var fylgið farið niður í 7,2 prósent.

Á þessum tíma var ég einhvernveginn tilbúinn að taka þátt í stjórnmálastarfi og var mjög fylgjandi því að fólk sem skilgreindi sig á vinstri vængnum ætti að finna sér sameiginlegan farveg.  Þjóðvaki varð þarna til og vettvangurinn virtist sá rétti. Ég lét slag standa og fór að sækja fundi.  Ég var mikið barn á stjórnmálasviðinu, hélt að þar starfaði fólk af heilindum fyrir hugsjónum.  Ég var nokkuð fljótur að læra, að aðrir þættir og ógeðfelldari, voru jafnvel enn mikilvægari. 

Það var boðað til stofnfundar Þjóðvaka á Suðurlandi og þar var saman komið margt ágætis fólk, sem hafði heilbrigða sýn á það sem framundan var. Þar var líka fólk sem var komið til starfa á allt öðrum forsendum. Það kom nefnilega í ljós að X (nefni hann ekki þar sem persóna hans skiptir engu máli í því samhengi sem ég skrifa þetta) hafði eytt miklum tíma og fyrirhöfn í að ferðast vítt og breitt um Suðurland til að afla sér fylgismanna. Þeir reyndust síðan fjölmennir á fundinum. X hafði góðan talanda og virðist hafa öll svör á reiðum höndum og ég neita því ekki að mér fannst bara nokkuð til hans koma.  Það kom fljótlega í ljós, að það bjó annað undir hjá honum en baráttan fyrir sameiningu vinstri manna. Hann ætlaði sér forystuna með fulltingi stuðningsmanna sem hann hafði safnað um persónu sína fremur en málefnin sem flokkurinn átti að standa fyrir fyrir. 

Í hönd fóru fundir vítt og breitt um Suðurland. Þetta reyndust ekki vera neinir skemmtifundir og það rann upp fyrir okkur sem þarna höfðum komið bláeyg til leiks, að ef eitthvað ætti að verða úr þessu framboði, yrðum við að láta sverfa til stáls.  Sem við og gerðum, en auðvitað varð það til þess, að ágreiningurinn komst í fjölmiðla og þá var ekki að sökum að spyrja. Hér er umfjöllun í ónefndu dagblaði eftir afskaplega erfiðan og harðan fund:
2. mars, 1995:  
Tveir bítast um efsta sætið hjá Þjóðvaka í Suðurlandskjördæmi, Þorsteinn Hjartarson skólastjóri á Brautarholti á Skeiðum og X. 
Á fundi Þjóðvaka sem haldinn var á Þingborg í Flóa á þriðjudagskvöld urðu átök um fyrsta sætið. Greidd voru atkvæði á fundinum um skipan tveggja efstu sætanna eftir orðaskipti milli fylkinga. Á fundinum var síðan samþykkt að talning færi ekki fram fyrr en eftir klukkan 19 á laugardag og að fram til þess tíma hefðu þeir félagar í Þjóðvaka á Suðurlandi sem ekki mættu á fundinn rétt til að greiða atkvæði um skipan efstu sætanna á listanum.
Fundurinn snerist upp í prófkjör
Fyrir fundinum lá tillaga um að Þorsteinn Hjartarson, Skeiðum, Ragnheiður Jónasdóttir, Hvolsvelli, og Hreiðar Hermannsson, Selfossi, skipuðu þrjú efstu sætin. Á fundinum kom fram tillaga um að Þorsteinn Hjartarson  skipaði fyrsta sætið og X, annað sætið. Fundurinn á Þingborg snérist því upp í prófkjör fram til laugardagskvölds um tvö efstu sætin á framboðslistanum.
Þorsteinn Hjartarson kvaðst mundu taka niðurstöðunni hver svo sem hún yrði. X hefur lýst því yfir að ólíklegt sé að hann taki annað sæti á listanum fái hann ekki fyrsta sætið. Hann vísar til tilnefninga sem félagsmenn gerðu um fólk á listann. Hann hefði fengið mun fleiri tilnefningar en Þorsteinn og vill að farið sé eftir þeim.
Í mínum huga er þetta stærsta áskorunin sem blasir við þegar ný stjórnmálaöfl reyna að ná fótfestu. Þar sjá ýmsir tækifæri til persónulegs ávinnings og hugsjónirnar víkja fyrir vongóðum smákóngum sem langar að komast í valdastöðu.
7. apríl, 1995:Yfirlýsing frá 60 Sunnlendingum Hörð gagnrýni á forystu Þjóðvaka
Sextíu Sunnlendingar hafa undirritað yfirlýsingu til stjórnar suðurlandsdeildar Þjóðvaka, sem barst blaðinu í gær, þar sem forysta og framboðsmál Þjóðvaka á Suðurlandi eru harðlega gagnrýnd.
Í fréttatilkynningu, sem fylgdi yfirlýsingunni, segir m.a. að í tilefni þess, að undanfarna daga hafi umræða átt sér stað um framboðslista Þjóðvaka á Reykjanesi og víðar og að ritari flokksins hafi sagt að um einstakt óánægjutilvik sé að ræða, vilji 60 Sunnlendingar tilkynna að svo sé alls ekki. Gríðarleg óánægja hafi lengi verið með forystu og framboðsmál Þjóðvaka á Suðurlandi og mál þar þróast með þeim endemum að þeir sem undirriti yfirlýsinguna hafi kosið að nota þetta tækifæri til þess að segja skilið við flokkinn. Í yfirlýsingunni er meirihluti stjórnar suðurlandsdeildar Þjóðvaka sakaður um að hafa margbrotið lög félagsins og traðkað á lýðræðislegum réttindum félagsmanna.

Svo mörg voru þau orð. Daginn eftir voru síðan haldnar þingkosningar.

Því miður held ég, að þessi sömu örlög bíði Pírata í kosningum eftir rúmt ár ef forystumönnum þeirra tekst ekki að loka fyrir skúmaskotin og halda aftur af mannkynslausnurunum sem þau fylla.




04 janúar, 2016

Gamanvísur um Skitu-Lása

smella til að stækka
Ég var að leita að einhverju þegar ég rakst á vélrituð, samanheftuð blöð í pappírum sem foreldrar mínir skildu eftir sig.  Ég blaðaði í gegnum þetta og fannst kveðskapurinn eitthvað undarlegur þar til ég áttaði mig á að þarna voru vísur til söngs við sama lag og Bílavísur sem er þekkt revíulag og byrjar svona:
Halló þarna bíllinn ekki bíður.Æ, blessuð flýtið ykkur tíminn líður.Sæti, fröken, sestu þarna manni. Þau ætluðu nefnilega rétt sem allra snöggvast að skreppa suður í Hafnarfjörð og auðvitað  íleyfisleysi og banni.
Nafn höfundarins var skráð undir vísunum. Ég reiknaði í fyrstu með að það væri dulnefni.  Ég ákvað samt að gúgla,  með þeim árangri að þarna reyndist vera um að ræða raunverulegan einstakling: Hjörmund Guðmundsson 
Hjörmundur Guðmundsson (1876-1960) var fæddur á Hjálmsstöðum í Laugardal, vinnumaður á Hjálmsstöðum, síðar verkamaður í Hafnarfirði. Foreldrar: Guðmundur Pálsson bóndi á Hjálmsstöðum og kona hans Gróa Jónsdóttir.
Í minningargrein Karls Jónssonar í Gýgjarhólskoti um Hjörmund segir:
Hjörmundur var sérstaklega skemmtilegur, kátur og glaður, hagorður í bezta lagi, enda mikið um vísna- og ljóðagerð á Hjálmsstöðum á þeim árum, oft orti hann af munni fram, og fauk þá margt sem ekki var ætlazt til að lifði, en oft voru orðatiltækin hnittin og vöktu kátínu og gleðskap. Hann var sérstakur geðprýðismaður, og ég fullyrði að ég sá hann aldrei reiðan.
Í framhaldi af þessum fundi ákvað ég að prófa að gúgla Skitu-Lása og viti menn:
Hann var sagður förumaður, tómthúsmaður og hjónabandsmiðlari.Það mun vera þáttur um þennan mann í bókinni "Grímsnes: búendur og saga"
Nikulás Helgason "Skitu-Lási" var fæddur 5. apríl 1855 í Ölvaðsholtshjáleigu í Holtum. Foreldrar hans voru Helgi Jónsson (1822-1894) og k.h. Guðríður Magnúsdóttir (1821-1894). Nikulás giftist Sigríði Jónsdóttur (1861-?) og áttu þau tvö börn. Hann andaðist 18. janúar 1929 á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði.
Með alla þessa vitneskju fengu þessar vélrituðu vísur allt aðra merkingu og ég fór að reyna að átta mig á hvenær þær hefðu verið ortar. Nafn einnar konu í vísunum kannast ég við, en það er Sigríður Tómasdóttir í Brattholti. Hún fæddist 1874 og af því má álykta að vísurnar hafi verið samdar 1923-24, þar sem Sigríður er sögð vera á "fimmtugasta ári".

Það væri ekki leiðinlegt ef einhver kynni betri skil á þessum vísum og því fólki sem þar er tilgreint.

Gamanvísur um Skitu-Láka

Hjörmundur Guðmundsson

Það þekkja flestir farfuglinn hann Lása,
sem flögrar milli sveita rödd með hása.
Hans starf er nú að kynna konur mönnum.
Honum þykir það afturför í landinu hve lítið að unga fólkinu giftir sig og ungu piltarnir líta varla við
fagur leitum svönnum.

Hann sér að fólkið síst er glatt í lyndi
og seglunum það hagar eftir vindi,
en hugsar sér að bíða og sjá hvað setur.
Svo hefur hann tekið eftir að stúlkurnar eru hálf daufar og niðurdregnar þegar 
kemur fram á vetur.

En sumir fóru að segja Lása í hljóði
hvort sæi hann nokkurstaðar völ á fljóði,
sem gæti þénað búskapsþörfum bráðum,
bara að hún væri snotur útlits, og ekki mjög gömul og 
sniðug vel í ráðum.

Hann Lási sagðist lítið hafa að gera
og líklegur til útréttinga vera.
Já, þetta er eitt sem þarf í hasti að laga,
svo þaut hann upp og fór í bestu flíkurnar, setti upp harða hattinn og hvítan flibba sem tók honum 
langt niður á maga.

Og bílstjórinn á Borg hann fyrstur sendi
og bíður honum gjaldið strax í hendi,
ef kæmi hann með konu til sín fríða.
Ég er kominn undir fertugt, alveg uppgefinn á lausamennskunni 
og hálfþreyttur að bíða.

Það er sagt að Lási svæfi ei vært þá nóttu,
hann sveif á burtu löngu fyrir óttu
og barði á dyr um fótaferð í Hólum,
spurði hvað framorðið væri, flensaði snjóinn burt af 
slitnum göngutólum.

En heimasætuna Hildi vildi hann finna
og henni þessa málaleitan kynna,
en samningurinn síður er mér kunnur,
en svo mikið er víst að Lási hrópaði "halló" og 
opinn var hans munnur.

Hann Sigurð, karlinn setti dáltið hljóðan,
þeir sögðu hann ýmist hvítan eða rjóðan.
Hann tók á líku traustum karlmannshöndum
það tekur ei að æðrast út af svona smámunum 
svo sem ljón í böndum.

Hann tekur Lása á eintal úti í kofa
því inni fyrir sá til skýja rofa,
og biður hann í Brattholt strax að hlaupa
og biðja fyrir sig heimasætuna þar - þeir 
óðar þessu kaupa.

En ef þér lukkast ferðin, frændi góður,
þá færðu Grána strax og allt hans fóður
og þrettán ærnar þrifa og kosta gildar.
Þú skalt svei mér ekki ver haldinn hjá mér, en þeim sem 
sendi þig til Hildar.

Hann Lási brá sér leiðina inn með Hlíðum,
í léttum göngumannabúning víðum
og barði svo í Brattholti að dyrum
og bóndadótturina Sigríði
Tómasdóttur spyr um.

Það segir ekki af Siggu og Lása fundum,
því samtal oft eru heimulegt með sprundum.
Hún sendi aftur silfur lokk af hári,
sem sagður fullur meter á lengd, en Sigríður nú á
fimmtugasta ári.

Í bakleið aftur Efstadal hann finnur,
þar ekkja býr hún Guðný mest sem vinnur.
Hann býður henni að bjarga henni í skyndi,
semsé að útvega henni mannsefni, sem veiti
henni skjól og yndi.

En þetta gjörðu þau ei lengur ræða,
en þegar hann var búinn sig að klæða
þá skaust hann eins og kólfur eða kúla,
kom hvergi á bæi, kokkaði málið og trúlofaði hann 
Ingvar bónda í Múla.

Svo brá hann sér í Borgar háa ranninn
og býður Hrefnu að útvega henni manninn.
Hún var hálf treg og gaf þó síðar svarið:
"Mér er alveg sama hvort eða síðar
tekið verður af skarið".

Hann Lási þurfti þarna ekki meira
og þessi svörin hrópar Karli í eyra,
en Kalli sá að happ var honum hlotið.
Það var hreinasta undur
hve vel hann fór með skotið.

Að Gýgjarhóli gekk hann einhvern daginn
og guðaði að kvöldlagi á bæinn.
Hann hafði mér sér umboð ýmsra sveina
að inna að því við heimasæturnar þar
hvort þeir mættu reyna.

Því gullæðin um Gýgjarhólinn streymir,
um gullnar vonir marga pilta dreymir,
Og gullhár hefur heimasætan bjarta.
Það kvað hafa töluverð áhrif á
mannlegt auga og hjarta.

Hann bauð henni Magnús, búfræðinginn unga,
sem bragna og meyja lofar sérhver tunga.
En stúlkan hafði ei bónorð fegnið betri,
hún bara vildi giftast honum sem fyrst,
helst á þessum vetri.

Svo hélt hann áfram út um sveitir allar
og alltaf hann um sama málið fjallar,
uns sextán pör hann saman hefur bundið.
Það kostaði hann talsverða fyrirhöfn og skófatnað og 
margra að því fundið.

Hann þreytist ekki góðverkin að gera,
fyrir giftingunum vill hann agitera.
Hann sjálfan vantar aðstoð þó í elli,
það eru helst efnaðar piparmeyjar og ríkar ekkjur sem
þar í kramið félli.

Og sjálfan hafði hann sig á bak við eyra
svona jafnvel lét það á sér heyra,
að ef sér yrði gerður dáldill greiði,
þá gæti hugsast að Tjarnarkot í Tungum fari ei
næsta vor í eyði.



30 desember, 2015

Þorpið í skóginum á nýju ári: Ofar og hærra

Það sem hér fylgir hentar örugglega ekki öllum jafn vel, mér hentar það ágætlega. Ég freista þess að það beina spjótum mínum ekkert sértaklega  mikið að neinum, vonandi ekkert, en kannski eitthvað. Ég veit það ekki fyrr en ég verð kominn lengra.
Árið sem er að líða hefur falið í sér merki um að jákvæðra breytinga sé að vænta í Laugarási.

Ferðaþjónusta

Ég hef þegar fjallað um eitt slíkt merki þess sem framundan er hér. Síðan það var ritað hef ég fengið frekari staðfestingu á að þarna er alvara á ferðinni. Áætlanir gera ráð fyrir að haustið 2017 taki 72 herbergja lúxushótel til starfa þar sem sláturhúsið stendur nú, á einstaklega fögrum stað, þar sem Hvítá, Hvítárbrúin og Vörðufell sameinast um að móta sérlega fagurt umhverfi. Þetta hótel á að rísa þar sem ég var búinn að leggja til að við uppsveitamenn myndum sameinast um að byggja veglegt hjúkrunarheimili nánast á hlaðinu við heilsugæslustöðina.

"Þar er ekki neitt".

Ég hef fjallað nokkuð ítarlega um þá skoðun mína, að betri staður fyrir aldraða í uppsveituim á ævikvöldi, sé vandfundinn. Það gerði ég í þessum pistlum:
Einskis manns eða allra
Sólsetur í uppsveitum (1)
Sólsetur í uppsveitum (2)
Sólsetur í uppsveitum (3)
Ég stend að sjálfsögðu við allt sem þar kemur fram og er enn þeirrar skoðunar, að Laugarás sé afar hentugur staður fyrir hjúkrunarheimili. Einnig fyrir dvalarheimili fyrir aldraða eða þjónustuíbúðir fyrir aldraða.  Ég veit það hinsvegar, eftir að hafa heyrt það í umhverfi mínu, að svona hugmyndir falla í afar grýttan jarðveg í uppsveitum. Einu rökin sem ég hef heyrt gegn þessum skoðunum mínum hljóða upp á, að í Laugarási "sé ekki neitt", sem ég get auðvitað ekki tekið sem sterk, vel ígrunduð rök. Ég nenni hinsvegar ekki að fara að fjargviðrast frekar um þetta mál, enda veit ég að ástæður fólks fyrir andstöðu við uppbyggingu af þessu tagi eða öðru í Laugarási, eru aðrar og, mér liggur við að segja "heimóttarlegri", en það vil ég ekki segja.
Vonbrigði mín í þessu máli snúa auðvitað fyrst og fremst að því, að sveitastjórnum á svæðinu skuli ekki takast að sjá mikilvægi samstöðunnar í þessu máli.
Mér sýnist að Selfoss verði valinn sem staður fyrir hjúkrunarheimili til að þjóna öldruðum í uppsveitunum.

Fólksfjölgun

Ég neita því ekki, að ég var farinn að gerast nokkuð svartsýnn á framtíð Laugaráss á tímabili. Íbúarnir gerðu ekkert nema eldast og hverfa lengra inn í skóginn. Það var svo komið að framundan blasti við að skólabílaakstur myndi leggjast af.
Svo frétti ég af því, að ungt par með barn væru flutt á staðinn. Nokkru síðar bættist annað par við, með tvö börn. Nú veit ég af tveim  pörum til viðbótar  sem koma eftir áramótin eða á fyrri hluta árs með hóp af börnum. Fregnir af þessu tagi eru ótrúlega jákvæðar og bætast við fréttirnar af hótelbyggingunni.

Einkaframtak

Ég hef aldrei verið einhver sérstakur talsmaður einkaframtaks á þeim sviðum sem lúta að grunnþjónustu við íbúa þessa lands. Ég fagna hinsvegar einkaframtaki þar sem það á við og samgleðst þeim sem vel gengur á þeim vettvangi.  Í þeirri stöðu sem Laugarás er í, í uppsveitasamfélaginu, verður það einkaframtakið sem eitt getur framkallað breytingar. Það er ekki mengað af hrepparíg, þarf ekki að hafa neitt í huga við val á stað fyrir starfsemi sína annað en, að þar muni það mögulega fá viðunandi arð af starfseminni.  Sú starfsemi sem þannig verður til, elur síðan af sér aðra starfsemi, og skýtur þannig stoðum undir frekari þróun byggðarinnar.


Það var síðast í gær að ég fregnaði að á nýju ári verði stigið annað mikið skref sem mun efla byggðina í Laugarási, en ég tel mig ekki geta farið nánar út í það á þessu stigi.

Með því að atvinnutækifærum fjölgar í Laugarási, og þar með íbúunum blasa við fleiri jákvæðar breytingar eins og hver maður getur ímyndað sér. 


--------------------------------------------------



Ég leyfi mér að halda því fram að árið 2016 verði árið þegar ný bylgja uppbyggingar í Laugarási hefst. Jafnvel gæti hún orðið stærri en sú sem var á síðari hluta sjöunda áratugs síðustu aldar.

Það er nóg af fallegum stöðum fyrir aldraða í Laugarási þó svo sláturhúslóðin verði nýtt fyrir hótel og það má alltaf vona, að viðhorfsbreyting  eigi sér stað.

Loks þakka ég lesendum þessara pistla minna kærlega fyrir lesturinn á árinu og óska þeim alls hins besta á nýju ári.


01 desember, 2015

Í auga stormsins, í Laugarási eða úlfur, úlfur!

"Maður er kominn á þann aldur að fara ekkert að þvælast út í einhverja óvissu og vita síðan ekki hvort maður kemst aftur heim í dag".  Ætli þetta hafi ekki, efnislega, verið spekin sem rann upp úr mér í morgun, þar sem miðlar af öllu tagi vöruðu fólk við að ana út í óvissuna. Það var gengið ansi langt í lýsingum á þeim ósköpum sem framundan voru.
Undirtektir við þennan málflutning minn voru óvenju jákvæðar og þar með varð til sú niðurstaða að heima skyldi setið og óveðrinu leyft að leika lausum hala úti fyrir.
Ákvörðunin var tilkynnt á viðeigandi stöðum, í ágætu veðri, lítilsháttar golu og hita sem var að mjakast yfir frostmarkið. Fyrir landið í heild sinni var þessi veðurlýsing kannski ekki nákvæm, en hún var það fyrir Laugarás. Ég hafði síðan í hyggju að bregða mér út fyrir Þorpið í skóginum þegar birti til að gá til veðurs sem gæti samsvarað því sem fjölmiðlar höfðu lýst, en ég gerði það reyndar ekki.
Það leið á morguninn, það hlýnaði heldur og það var líka eina breytingin sem við urðum vör við.
Það leið að hádegi, tímanum sem veðrið var sagt mundu verða í hámarki, en í Laugarási var stinningskaldi, úrkomulaust og hiti um 3 gráður.

Það er ástæðulaust að fjölyrða frekar um þetta mál: Hér hefur verið ágætis veður í allan dag, og reyndar ekki bara hér heldur á öllu svæðinu sem Laugarás tilheyrir.

Ég leit sennilega ekki vel út á vinnustaðnum í dag.

Ég velti fyrir mér hvaða ákvörðun ég muni taka næst þegar fjölmiðlar flytja boðskap færustu manna um ofasaveður um allt land og að fólki sé ráðið til að "halda sig heima, sé þess nokkur kostur".  Ætli verði ekki úr að Qashqai verði tekinn til kostanna í fullvissu um að allt svoleiðis veðurtal sé bara enn eitt fjölmiðlabullið.

Mér finnst líklegt að það sé ástæða fyrir öllum þessum varnaðarorðum: það sé betra að vara við af fullum krafti en að gera  minna úr en síðan verður raunin og sita uppi með ásakanir um að hafa ekki varað nægilega mikið við.
Kannski verður fólk ekki jafn reitt eftir að veðrið reynist minna en spáð var og þegar spáin gerir ráð fyrir skaplegu veðri sem síðan reynist óvitum í umferðinni þungbært.

Þarna þarf einhvern milliveg.





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...