Sýnir færslur með efnisorðinu myndir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu myndir. Sýna allar færslur

11 janúar, 2011

Nú árið er liðið

Á þessum degi fagnar þessi ungi maður því, að fyrsta ári lífsins er lokið og að í hönd fer ár númer tvö. Þetta er ekki svo lítill áfangi á þessu æviskeiði, annað en með mig, sem þarf orðið að reikna út hver staða mín er. Yfir hálendið flyt ég honum árnaðaróskir.

08 október, 2010

Sorp-/ruslatunnuskýli/geymsla (3)

framhald

Mig minnti að á æskuheimilinu hefði verið til heilmikil vélsög sem hét ELU og hélt því þangað, en það var ekki ferð til fjár, þó svo mér hefði verið boðin til láns Europriskeypt bútasög, sem hM hafði fjárfest í vegna pallasmíða í kringum heitan pott sinn og sem þannig myndi henta vel þegar kæmi að því að búta niður pallaefnistimbur sorptunnuskýlisins. Ég setti hana bakvið eyrað.


ELU sögin mikla var til og talið líklegt að hún væri til húsa í gamla fjósinu uppi á Hæð, í umsjá hB, sem reyndist vera og ég kom heim með sög á endanum. Það var vissulega galli, að þessi sög gat ekki sagað nema 80mm þykkt efni, en staurinn sem ná þurfti í sundur var 95mm. Hvað um það, góð sög með rétt stillt blað átti að fara létt með, í góðum höndum, að ná þessum staur í sundur þannig að úr yrðu fjórir hornstaurar.

Allt klárt og fD kom út í suddann til að halda undir staurinn meðan ég beitti ELU, fagmannlega. Ég þarf auðvitað ekki að nefna fagmennskuna frekar, en sundur fór staurinn á endanum á þrem stöðum. ELU er einhverra áratuga gömul vélsög og það hefur líklega verið aldurinn sem olli því að blaðið var ekki fyllilega rétt, með þeim afleiðingum, að endarnir sem voru fagmannlega sagaðir í hvívetna, reyndust ekki verða fyllilega réttir. Við þær aðstæður varð mér, fyrsta sinni á, að tala um að þetta væri nú bara ruslatunnuskýli. Það stóð einnig til að skella þar til gerðum höttum á staurendana og því skipti útlit þeirra ekki öllu máli.  Þar með voru 4 hornstaurar tilbúnir til þurrkunar, sem, sem betur fór þurftu nú að vera þar óhreyfðir í nokkra daga, áður en fD gæti borið á þá viðeigandi efni, eins og áður hefur verið nefnt.

Svo var það dag einn þegar ég kom heim, að það var nánast liðið yfir mig þegar ég opnaði útidyrnar. Áburði var lokið. Við gátum bæði verið sammála um að það væri eins gott að Kvistholtsanginn frá Danmörku var ekki kominn, en hans var von ásamt foreldraeintökum sínum, skömmu seinna.
Það var allavega allt orðið klárt fyrir sögun. Ég man ekki einu sinni hvernig mér tókst að humma fram af mér að hefja það verk, líklega var það blanda af þreytu minni eftir krefjandi vinnudaga og væntanleg koma Dananna okkar. Allavega var það ekki fyrr en hÞ fór að hafa orð á því, upp úr þurru, hvort við ættum kannski að fara að saga þetta niður, að mér varð ljóst, að fD hafði ekki látið deigan síga. Þegar hér var komið var fátt um afsakanir, enda komin helgi og veðrið nokkuð þolanlegt. Við þessar aðstæður skellti ég mér í Hveratún og fékk þar lánaða áðurnefnda Europrisbútasög. Flutti hana heima og stillti upp á stéttina og mældi réttar lengdir. Svo var bara farið að saga. Fyrst sagaði ég og hÞ hélt við, svo sagaði hÞ og ég hélt við, þá sagaði hÞ og fÁH hélt við, þar til yfir lauk.


All gekk þetta áfallalaust utan að stilling Europrisgræjunnar fór úr skorðum á tímabili svo endarnir fjarlægðust það nokkuð að vera 90°, en því var kippt í liðinn með þeim orðum, að þetta væri nú bara ruslatunnuskýli.
Allt efnið niðursagað og tilbúið fyrir samsetningu, og ég taldi þetta vera orðið gott dagsverk.

18 september, 2010

Raunverulegt fornrit - 238 ára

Þetta rakst ég á í dag.

Sagan af Njáli Þorgeirsyni og sonum hans.
Útgefin eftir gömlum skinnbókum
með konunglegu leyfi

Prentað í Kaumannahöfn 1772 
af Jóhann Rúdolph Thiele



Holar Laugarásdropinn steininn?

Meðfylgjandi er ástand nýju graseyjunnar í Laugarási eins og búast má við hún fari inn í veturinn.

Mér þykir þetta miður.

Nú er bara að vona að samningar nýrrar stjórnar sveitarfélagsins við sláttufyrirtæki verði með öðrum hætti næsta sumar.

Mér telst til að það hafi verið slegið þrisvar á þessu sumri.


22 ágúst, 2010

Leitin að Sandhóla-Pétri

Einhvernveginn svona
eiga sandhólar að líta út
Það er tvennt sem varð til þess að móta hugmyndir mínar um vesturströnd Jótlands: svarthvít mynd, sem mig minnir að hafi verið að finna í Kennslubók í dönsku, eftir Ágúst Sigurðsson (pabba Helgu), af sandhólunum á fremur hrjóstrugri og vindbarðri ströndinni og hinsvegar bók sem ég las á unglingsárum: Sandhóla-Pétur, eftir Anders Christian Westergaard.
Mér varð það á, í heimsókn okkar í fjónska bænum við Litlabelti, að minnast á Sandhóla-Pétur. Eftir það kom ekkert annað til greina en að skjótast yfir á vesturströndina í leit að sandhólum. Það var einmitt á leiðinni þangað, sem komið var við á Engilshólmi. Þaðan leiddi GPS græja okkur í átt til hraðbrautarinnar sem leiðir vegfarendur til Esbjerg, en þar töldum við líklegt að rekast á, þó ekki væri nema einn sandhól.

Þetta var það næsta sem við
komumst þvíað greina sandhóla
Þegar nær dró vesturstrandarborginni þurfti að finna einhvern stað til að láta tækið vísa okkur á og varð FANØ fyrir valinu. Við hefðum nú getað sagt okkur það sjálf, að hér var um að ræða eyju, og reyndar gerðum við það, en töldum að sá möguleiki væri fyrir hendi að þangað lægi brú, eða eiði af einhverju tagi. Það kom svo sem ekkert á óvart, að þessi eyja er ótengt landi og þangað gengur ferja. Um ferjuferð gat ekki orðið að ræða og því varð úr að finna stað þar sem hægt væri að fá sér í svanginn. Til þessa var auðvitað notað galdratækið GPS. Þarna sannfærðist ég endanlega um það að framleiðendur forrita fyrir GPS tæki geri kostunarsamninga við tiltekna ameríska skyndibitakeðju; engir aðrir veitingastaðir birtust. Því var ekki um annað að ræða en snæða enn og aftur á slíkum stað. 
Í framhaldi af því hélt leitin að sandhólunum áfram, a sjálfsögðu með aðstoð GPS. 
Sandhóla-Pétur
nútímans?
"Þeir eru örugglega þarna
fyrir norðan"
Óumræðilegur áhugi

















Leitað var að götum með nafnið: Strandvejen. Þegar tækið vísaði okkur beint í austurátt, inn í land, varð leitað áfram, aftur og aftur að ýmsum útgáfum strandlægra gatna. Fyrir tilviljun fann ég götu sem heitir Sædding Strandvej, sem tækið kvað vera í vesturátt, í átt til hafs. Þarna fundum við sannkallaða sandhólagötu, þó svo hólarnir væru mikið til horfnir undir mannvirki. Við ákváðum að láta þessa sandhóla duga - sandurinn var allavega sandhólalegur.
Við höfðum reyndar komist að því, við fyrirspurn í ferjuhöfninni til Fáneyjar, að til að kynnast sandhólunum af einhverri alvöru, þyrftum við að aka til Blávatns, en tíminn leyfði ekki frekar leit.

Ég hef verið að kynna mér lítillega upplýsingar um Sandhóla-Pétur (Klit-Per)  frá því heim kom og kemur á óvart hve fátt er um þessa ágætu bók að finna. Hún lýtur að hafa verið alveg ágæt, úr því hún er mér enn í minni. Ég hef komist að því að  að það var gerð kvikmynd eftir sögunni sem heitir Vesterhavsdrenge. Hún var síðan bútuð niður í 10 mín þætti sem voru sýndir í sjónvarpi. Þá gerði Walt Disney mynd sem byggir á því sama. 
Loks fann ég upplýsingar um að bókin er til í Sunnlenska bókakaffinu:




Höfundur A. Chr. Westergaard.Útgáfuár 1964






Notuð bók
Hilla R4 
Verð kr. 500,-






Kannski er þetta Sandhóla-Pétur í dag.









20 ágúst, 2010

Engilshólmshöll

Eftir Þýskalandsdvölina tóku Kvistholtstengdir Danir við okkur í Flensburg og báru síðan hitann og þungann af dvöl okkar í Danaveldi í vikutíma, eða svo. Margt tóku menn sér fyrir hendur, og ekki verða því öllu gerð skil hér, heldur birtar nokkrar minnismyndir.
Ef grannt er skoðað má sjá, að þumalfingur vinstri handar
bendir upp á við í stórum dráttum.
Í baksýn er Engilshólmshöll

Engilshólmshöll (Engelsholm Slot) stendur því sem næst á miðju Jótlandi og hefur tengst Kvisthyltingum um nokkurt skeið sökum þess, að þar er starfræktur skóli fyrir fólk sem leggur fyrir sig að koma frá sér, með einhverjum hætti, hugarstarfi sínu, eða hugarórum, í einhverju formi, hvort sem um er að ræða léreft, pappír, gler, járn, stein, eða ennað efnislegt eða efnislaust.
Þarna sést til þeirra bygginga (sem sjálfsagt hafa gegnt
hlutverkigripahúsa áður fyrr) sem hýsa listsmiðjur.
Í tilefni af stórafmæli fD varð það úr, að hennar næsta fólk sameinaðist um að stuðla að því að þangað færi hún til að efla sig í myndrænni tjáningu. Í kjölfar þess kom það sem allir þekkja: hrunadans íslensks þjóðfélags, sem enn er dansaður af fullum krafti. Því varð ekkert úr að fyrirhugaður afmælisglaðningur næði að fullkomnast og leiða til aukins listræns þroska og færni gjafarþegans.
Það þótti ekki vitlaus hugmynd, þrátt fyrir máttlítil mótmæli fD, að leggja lítilsháttar lykkju á leið um hinar jósku heiðar, að freista þess að renna í hlað að Engilshólmi og kanna þar með hvort þar væri um það að ræða sem hugmyndir höfðu lotið að.
Hér var málað af miklum móð.
Það varð ljóst þegar nálgaðist höllina, að hún er sérlega falleg í dáindisgæsilegu umhverfi. Ekki varð annað fundið en fyrrverandi afmælisbarni litist sérlega vel á allt sem þarna bar fyrir augu, enda fengum við að leiðsögn um höllina sjálfa og máttum síðan fara hreint um allt til að kynnast enn betur því starfi sem þarna er unnið. Í málningarhúsinu varð á vegi okkar Íslendingur, sem þarna var öðru sinni á námskeiði, sem dásamaði hóflítið staðinn og námið. Sérstakleg held ég að það hafi verið frásögnin af rauðvínslistakvöldunum, sem varð til þess að fD heillaðist endanlega.
Nú er framundan tímu umþenkingar og skipulagningar, sem væntanlega lýkur með því að Kvisthyltingurinn fer til einhverra vikna dvalar á þessum dýrðarstað.
Ég get nú sjálfur alveg hugsað mér að eyða þarna einhverjum tíma við listsköpun, svona þegar sá tími rennur upp, sem nálgast óðum, að formlegu ævistarfi ljúki. Hver veit.
Feðgarnir komust í snertingu við náttúruna á hlaðinu við höllina.

09 ágúst, 2010

Gendarmenmarkt (3)

......framhald
Tónleikasvæðið
Þegar hér var komið, var einstakri upplifun tónleikanna lokið og þá var ekkert annað en að drífa sig í VIP-mótttökuna, en þar áttum við fD að hafa verið skráð á gestalista.


8. Því héldum við í átt að VIP tjaldinu, sem áður er nefnt og fundum þar í grennd hlið inn á svæði listamannanna. Þar stóðu beljakar og sú til þess að enginn óviðkomandi kæmist inn. Af fyrri reynslu reyndi ég ekki einusinni að halda því fram við þá að við værum á VIP lista. Við ákváðum bara að bíða þarna fyrir utan og sjá hvað það hefði í för með sér. Innan einhverra mínútna birtist dívan Lucia Aliberti, umkringd lífvörðum. Gekk út um hliðið og í átt að sölutjaldi sem þarna var og hóf að árita geisladiska.
Egill Árni, Lucia Aliberti og hljómsveitarstjórinn Hendrik Vestmann
      Skömmu síðar sáum við tenórinn inn um hliðið og í kjölfar ábendinga frá honum breyttist allt viðmót í hliðinu, mennu bukkuðu sig og buðu okkur velkomin inn fyrir, þar sem við síðan fengum að svala þorsta okkar um stund ásamt því að hitta skipuleggjanda tónleikanna, sem hafði það á orði að þetta yrði hreint ekki í síðasta sinn sem hann óskaði eftir samvinnu við soninn. Hér leið nokkur stund, áður er tilkynnt var að nú skyldi gengið til VIP tjaldsins. Sem var gert. Í þeirri prósessíu voru, að sjálfsögðu einsöngvararnir og hljómsveitarstjórinn, ásamt skipuleggjandanum. Við fylgdum þarna með, talsvert útblásin, og töldum okkur heldur betur vera þarna í góðum hópi.
Þegar inn í tjaldið var komið flutti skipuleggjandinn ávarp þar sem hann þakkaði þátttakendum og þeim vara fagnað eins og vera bar.

9. Þá lá leið hópsins (bara hluta hans, reyndar. Tenórinn benti okkur að fylgja með) inn í nokkurskonar VIPVIP hluta VIP tjaldsins. Þar inni var allt skjannahvítt, veggir, stólar, borð og gólf. Þar inni stóðu krásir gestum til boða og fólk tilbúið að hella hverju sem hugurinn girntist í glös gestanna. Þarna hefði maður getað, við eðlilegar aðstæður, belgt sig út, en einhvernveginn var maður hálf lystarlaus eftir adrenalínflæði undanfarinna klukkustunda. Þarna var háborð sem var merkt: ARTISTS, og þar var okkur ætlað, sökum tengsla, að sitja og njóta veitinga.
Myndin sem olli uppnáminu
Allt fallið í ljúfa löð

10. Á einum tímapunkti ákvað ég að taka mynd af tenórnum í þessum hvíta heimi, en það fór harla illa í sópransöngkonuna. Hún benti mér á það, með allmiklum þjósti, að myndatökur væru ekki leyfðar. Þarna var þó ljósmyndari í tjaldinu, sem myndaði í gríð og erg. Tenórinn útskýrði þá fyrir henni, hvers lags var, með þeim afleiðingum að hún skipti algerlega um kúrs og vildi endilega leyfa mér að taka þarna myndir af henni með tenórnum. Þarna skellti hún sér í hlutverk fyrirsætunnar og sýndi samsöngvara sínum ótvíræð blíðuhót.
----------------------------
Viðdvölin í VIP tjaldinu var skemmtileg viðbót við tónleikana, en þar kom að haldið skyldi heim á leið. Ég gerði eins og í bíómyndunum, veifaði hendi, og umsvifalaust renndi leigubifreið að gangstéttarbrúninni. Því næst var ekið til Kurfurstenstrasse í þrumum og eldingum.

07 ágúst, 2010

Gendarmenmarkt (2)

...framhald.

6. Ég hef staðið mig að því gegnum ævina, að vera afskaplega regluhlýðinn maður. Því var það, að ég þurfti talsvert að taka á til að láta verða af því, að beita hreyfimyndafídusnum á EOS550, þar sem við því hafði verið lagt blátt bann. Ég byrjaði smátt, með því að taka upp nokkrar sekúndur, þegar tenórinn okkar gekk inn á sviðið fyrsta sinni. Slökkti síðan snarlega á upptöku þegar arían hófst. Þar sem engar viðvörunarbjöllur fóru af stað, ákvað ég að gera tilraun með að taka upp næstu aríu, að hluta. Byrjaði með því að halda myndvélinni fyrir framan mig eins og ég væri að taka hefðbundna mynd. Fannst þá að fólkinu fyrir aftan mig hlyti að finnast þetta grunsamleg myndataka og því varð upptakan talsvert stutt. Næst reyndi ég þá aðferð sem ég síðan notaði við þær upptökur sem bættust við, að halda vélinni miklu neðar og freista þess þannig að ná stöðugleika. Þetta hafði það í för með sér, að til þess að vita hvort linsan beindist að viðfangsefninu, þurfti ég stöðugt að beina sjónum mínum niður, í stað þess að fylgjast með því sem fram fór á sviðinu. Þar sem oftar en ekki var frammistaða tenórsins með þeim hætti að ekki var um að ræða annað en fylgjast með, var undir hælinn lagt hvort myndavélin beindist að honum á sviðinu. Því var það svo, þegar upp var staðið, að á áhrifamestu augnablikunum beindist linsan um allar trissur, en ekki að því sem henni var ætlað.  Þá fór það auðvitað svo, að þar sem ég var þarna að taka fyrstu hreyfimyndirnar á nýju græjuna, að ég átti í mesta basli með fókusinn.  En hvað um það: Upptökurnar á ég, kolólöglegar, en tek ekki áhættuna af því að setja þær inn á vefinn, af ótta við lögbann og málsókn. Þeir sem hugsanlega vilja líta brot af, óneitanlega stórgóðri, frammistöðu Kvisthyltingsins þarna á sviðinu, verða bara að koma í heimsókn.


7. Það var gert hálftíma hlé á tónleikunum til að gestir gætu vætt kverkarnar. Það reyndist valda enn einum sálarvandanum, með því að ég þurfti að fá höfnun þegar ég freistaði inngöngu í VIP tjaldið, þar sem allt stóð gestum boða án endurgjalds. Við reyndumst ekki vera á neinum lista yfir VIP gesti og útprentaða A4 blaðið frá Íslandi breytti engu þar um. Við hjónakornin þurftum að horfa á eftir danska Kvisthyltingnum og eiginkonu tenórsins inn í VIP tjaldið þar sem sá fyrrnefndi stóð síðan hálftímann á enda og skóflaði í sig kræsingum og hellti í sig ómældu magni af drykkjarvörum af ýmsu tagi. Þetta helgaðist af því, að á miðum þeirra stóð beinlínis að þau væru VIP. Ég skellti mér hinsvegar í langa röð sem beið eftir að fá afgreiddan einn drykk. Það stóð á endum, að þegar hléinu var að ljúka fékk ég afgreiðslu - sjaldan hef ég drukkið drykk af því tagi sem þarna var um að ræða, jafnhratt, enda aðframkominn af þorsta.


-------------------------------------
Eftir því sem á tónleikana leið, gerðu gestir sér betri grein fyrir að tenórinn var ekki bara einhver eldfjallaeyjargaur, heldur fullskapaður stórtenór. Fögnin urðu meiri og meiri eftir því sem á leið og bravóhrópunum ætlaði seint að linna eftir flutninginn á 'O, sole mio'.  Foreldrarnir voru sem í vímu við þetta allt saman, svo mjög, að því er mig varðar, að ég fylgdist ekki nægilega vel með upptökunni, með þeim afleiðingum að myndefnið varð veggur einhversstaðar á bakvið hljómsveitina. Hjóðið komst þó vel til skila.
------------------------------------

Eftir tónleikana tóku síðan við enn frekari ævintýri.


framhald...............

06 ágúst, 2010

Gendarmenmarkt (1)

Já, ég talaði um sálarháska síðast. Auðvitað er þetta alltaf spurning um hvernig maður skilgreinir það hugarástand, en ég kýs að túlka það nokkuð vítt, í þessu tilviki sem þá tilfinningu sem maður verður fyrir þegar afkvæmi manns er í þann mund að stíga á svið fyrir framan 7000 áheyrendur, vitandi það, að þarna mun ef til vill ráðast hvað framtíðin getur borið í skauti sér.
Innifalið í þessu yfirhugarástandi voru síðan allskyns lítilmótlegri sálarháskar - þessir helstir:
1. Ferð um Berlín með neðanjarðarlest með þær leiðbeiningar, að við skyldum fara úr lestinni á stöð sem héti Stadtmitte - þegar við stigum upp á yfirborðið áttu síðan að blasa við okkur amerískir kaffi- og skyndibitastaðir. Nöfn þeirra 10 stoppistöðva lestarinnar sem voru á leiðinni að hinni einu sönnu, voru vel lesin allt talið í bak og fyrir. (Þetta eru reyndar ýkjur, þar sem við voru auðvitað alvön lestarferðum í Berlín eftir heimsókn þangað vorið 2009 með fyrrverandi Skálholtskórnum).


2. Leitin að eina hliðinu inn á tónleikasvæðið þar sem hægt var að framvísa útprentuðum miðanum, sem keyptur var um miðjan mars í latastráksstólnum mínum í Kvistholti. Til undirbúnings fyrir þetta atriði hafði ég auðvitað með reglulegu millibili, allt frá miðakaupum, grandskoðað aðstæður á tónleikastaðnum. Það voru 4 hlið inn á svæðið og það eina sem við þurftum að gera til að komast inn um hliðið eina, var að láta dyravörð skanna strikamerkið á miðanum.
Rétt er að geta þess, að með okkur fD í för á leið á tónleikastað, var Kvisthyltingurinn sem dvelst um þessar mundir í ríki Margrétar drottningar. Við höfðum áætlað rúman tíma til að geta brugðist við óvæntum aðstæðum, en þar sem greiðlega gekk að tryggja að allt væri eins og til stóð, gafst okkur færi á að setjast niður um stund og skella í okkur smá salati, sem reyndist þegar til kom vera nóg til að fæða 15 svanga tenóra.
3. Á stórum skiltum fyrir utan torgið var lagt blátt bann við myndatökum með blossa, og einnig myndbandsupptökum. Það leit ekki vel út og það var því með nokkrum kvíða sem ég nálgaðist hliðið með skannanum, með nýju myndavélina mína í stærðar tösku á öxlinni. (Ég þori nú varla að segja frá því, en fyrir ferðina gerði ég tvenns konar ráðstafanir sem báðar verða að teljast ólöglegar á landi voru. Önnur fólst í því að festa kaup, með tilteknum hætti, á myndavél einni allsvakalegri og sem felur í sér möguleika á að taka HD (háskerpu) kvikmyndir. Hin bíður seinni umfjöllunar). Ekki var gerð athugasemd við myndavélatöskuna.
4. Það var einkennileg tilfinning að ganga inn á áhorfendasvæðið: stólar svo langt sem augað eygði og áheyrendur streymdu að. Ef ekki hefði komið til forsjálni mín (búinn að margstaðsetja okkur í stólahafinu), hefði leitin eflaust orðið þrautin þyngri. Maður hálfvorkenndi þessum greyjum sem sátu í 100 metra fjarlægð frá sviðinu með kvöldsólina beint í augun, meðan við gengum sem leið lá að sætum okkar í Blokk H, röð 8 sætum 29 og 30. Þarna biðu þau okkar algerlega tilbúin til notkunar og ekkert annað að gera en setjast. 
5. Sætin voru tvö og nú þurfti að ákveða hvar ég skyldi sitja og hvar fD. Annað var á raðarenda og ekkert sæti fyrir framan - útsýni óskert inn á sviðið, hitt var einu sæti innar með útsýn á sviðið milli tveggja sæta sem þar voru fyrir framan. Með þeirri óumdeilanlegu röksemdafærslu, að ég hygðist taka merkar heimildamyndir af tenórnum, tókst mér að koma málum svo fyrir að ég sat í endasætinu, þar sem ég tók fram vélina miklu og var þar með tilbúinn fyrir það sem koma skyldi. Reyndin varð sú að það voru engir risar sem settust í sætin tvö fyrir framan þannig að yfirsýn fD skaðaðist ekki svo orð sé á gerandi.

framhald......síðar

04 ágúst, 2010

Heim og blogg á ný

Það hefur orðið úr, að gleðja fjölmarga aðdáendur þessarar síðu með anda míns fóðri, enn um sinn. Þetta er aðeins inngangur að því sem á eftir kemur í formi smámynda frá mikilli Evrópuferð minni og fD. Þó svo oft hafi mér þótt það sem á mig var lagt í þessari ferð, nálgast sálarleg þolmörk, er ég kominn heim til landsins sem hvílir í Norður Atlantshafinu, heill á húfi og má það sama má segja um fD, að því er ég best veit. Ekki ber að skilja það svo, að synir, tengdadætur og barnabörn, né heldur Íshæðarbúar, hafi valdið ofangreindum sálarháska. Þvert á móti var samveran með þeim með þeim hætti, að ekki verður betur gert. Þakkir verða ekki settar í orð hér, heldur er þeim ætlað að berast með fuglum himins, sem brátt hefja flug sitt suður á bóginn. Þá verður heldur ekki sett á þessum vettvangi fram lýsing á þeirri ómældu gleði sem við höfðum af því að endurnýja kynnin við barnabörnin tvö. Við vonum auðvitað, að þau hafi ekki borið skaða af návist okkar, heldur hafi lært eitthvað lítilsháttar af því sem eldri kynslóð ber ávallt að miðla til ungviðisins.
Júlía lærði að segja "Pish" (PEACE)
Gabríel náði mikilli leikni í að taka gleraugun af afa sínum.

Nú er framundan að melta viðburði ferðarinnar og koma þeim í viðeigandi búning, sem hæfir svo virðulegri bloggsíðu sem hér er um að ræða. 
Það gerist þegar hæfilegu jafnvægi hugans er náð og reynslan hefur náð viðunandi fjarlægð frá núinu. Ef fer sem horfir, er von á litríku orðskrúði, þar sem þess verður freistað að varpa sem bestu ljósi á þá hluta Evrópuferðar okkar fD, sem hæfir að tjá sig um hér.

10 júní, 2010

Nauðsynlegar forvarnir eða firring nútímamannsins


Á hverju ári eiga sér stað hörmuleg slys hér á landi og annars staðar í veröldinni. Það er ekki síst náttúran  sem reynist okkur skeinuhætt. Með því að mennirnir fjarlægjast náttúruna læra þeir síður að umgangast hana með þeirri virðingu sem hæfir, telja sig jafnvel ósigrandi í umgengni við hana og virðast alltaf verða jafn undrandi þegar þeir átta sig ekki á að hún felur ekki í sér fullnægjandi viðvaranir, áminningar eða andmælarétt. Hún er er jafn miskunnarlaus og hún er fögur.
Hættur felast auðvitað ekki bara úti í náttúrunni, heldur einnig og ekki síður í ýmsu því sem við höfum komið okkur upp sem hin mest viti borna skepna jarðar. Verk okkar eru auðvitað aldrei fullkomin og kalla því að ákveðnar varúðarráðstafanir ef ekki á illa að fara.

Þessi skrif eru auðvitað til komin vegna hörmulegs slyss nýlega, þar sem erlendur ferðamaður lést. Það er fjarri því að það sem ég skrifa hér sé hugsað til að lítilsvirða hann á neinn hátt, né heldur aðra sem hafa beðið bana, eða slasast alvarlega. Slys munu alltaf eiga sér stað, sama hvað við gerum til að koma í veg fyrir þau.

Tilgangur minn er, að velta fyrir mér hvort við erum í raun komin svo langt frá uppruna okkar að það sé orðin þörf á að vara okkur við öllum hugsanlegum hættum sem geta steðjað að okkur. Ég viðurkenni, að það getur verið nauðsynlegt að vara okkur við þar sem ekki er augljós hætta fyrir hendi. Ég spyr hinsvegar hvar menn telja rétt að setja mörkin.

Ég bý í Laugarási, eins og margir vita. Þar rennur um stórfljótið Hvítá. Ég ólst upp í nágrenni við þetta stórfljót, en umgekkst það frá upphafi með nægilegri virðingu til að fara ekki að storka því. Ég veit að áin er köld og straumhörð og að ég á ekki roð í hana. Verður sett skilti upp við hana á næstunni, sem felur í sér þessa viðvörun?

Það er mikið hverasvæði í Laugarási. Vatnið milli 95 og 100°heitt. Gufubólstrar stíga upp af þessum hverum.  Er þetta framtíðin í merkingum á hverasvæðinu?


Þegar ég stend á þverhníptu bjargi hvarflar ekki annað að mér, en að það geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef ég stíg fram af. Það myndi ég aldrei gera og held að það geri enginn vísvitandi. Verða  öll þverhnípi landsins merkt með þessum hætti í framtíðinni?


Það er hægt að rökstyðja merkingar eins og þær sem eru hér fyrir ofan, þó ég geti það ekki. Mér er hinsvegar spurn hvar á að draga mörkin. Má kannski búast við því, að það teljist nauðsynlegt að setja svona viðvaranir upp við alla vegi landsins?


Mun allt grjót þurfa svona merkingu?:

Mun það teljast nauðsynlegt að setja svona varúðarmiða á bjórdósirnar?:


Ég þykist vita að umræða um varúðarmerkingar í náttúrunni sé að hluta til, í það minnsta til komin vegna ótta við málshöfðanir. "Það var ekkert varað við þessu, og því berið þið ábyrgðina". Við erum smám saman að læra af 'vinum okkar' í vestrinu, að það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum.

Það verða áfram slys af ótrúlegustu orsökum. Þau kallast slys vegna þess að þau eru slys, en ekki gildrur sem eru settar upp til að skaða fólk.

15 maí, 2010

Frumsýning - toj, toj


Á þessum degi er hugur okkar Kvisthyltinga hjá tenórnum okkar í Görlitz, austast í Þýskalandi. Þar er hann að frumsýna Der Besuch der alten Dame, ásamt félögum sínum. 
Ekki drögum við í efa, að piltur stendur sig með afbrigðum vel.



Fjörutíu árum seinna

Þessari helgi verður að mestu eytt í að rifja upp lif eða líferni sem átti sér stað fyrir 10 árum minna en hálfri öld. Eftir veturlangan undirbúning skólafélaga í Héraðsskólanum á Laugarvatni, veturinn 1969-70, mun á fjórða tug fyrrverandi unglinga koma saman á Laugarvatni til að rifja upp liðnar mótunarstundir.
Hlutverk mitt í þessum undirbúningi hefur verið tvennskonar:
A. -  að sjá til þess að hópurinn fái tækifæri til að skoða sig um innandyra í Héraðsskólahúsinu og
B. - að tryggja að "pöbbarölt" geti átt sér stað.
Þessum ábyrgðarmiklu hælutverkum hef ég að sjálfsögðu reynt að sinna af kostgæfni, en það verður síðan að koma í ljós hve vel hálfsextugur hópur fyrrverandi skólafélaga lætur að stjórn.
Í hópnum afar minnisgott fólk, og það er ekki laust við að nokkurrar tilhlökkunar gæti, þegar það hefur upp raust sína: "Já, í þá daga gerðist nú margt eftirminnilegt, og það held ég nú. O, jamm og já."

- myndina á, og tók Karl Skírnisson - 

Skólanum stýrði á þessum tíma hinn litríki Benedikt Sigvaldson, ásamt konu sinni (geri ég ráð fyrir) Öddu Geirsdóttur.

------------------------------------------

Leturstærð á bloggskrifum mínum hef ég valið m.t.t. .þess, að lesendahópurinn er að líkindum kominn af léttasta skeiði í sjónarlegu tilliti. Þetta met ég ekki síst þar sem ég sjálfur þarf í sífellu að stækka letrið sem lesa þarf, eins og t.d. hér.
_______________________________

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...