Sýnir færslur með efnisorðinu uppeldi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu uppeldi. Sýna allar færslur

21 janúar, 2017

Hetjudraumar

Kynjahlutfall meðal kennara í grunnskólum.
Það fór lítilsháttar hneykslunaralda um samfélagsmiðla fyrir nokkrum dögum þegar framkvæmdastjóri jafnréttisstofu  tjáði sig um ástæður þess að drengir falla frekar út úr skólakerfinu.  Framkvæmdastjórinn var m.a. útnefndur "skúrkur vikunnar": 
Hjörvar Hafliðason og Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmenn Brennslunnar, útnefndu Kristínu skúrk vikunnar fyrir þessi ummæli hennar og gagnrýndu þau harðlega.(Nútíminn 17. janúar)
Það sem framkvæmdastjórinn mun hafa sagt, efnislega, er að piltar falli frekar úr skólakerfinu vegna þess að þeir ala með sér drauma um að verða hetjur eða fáránlega ríkir.
Þetta er auðvitað alveg rétt hjá framkvæmdastjórnanum.
Það sem vantar hinsvegar í málflutninginn er ástæðan fyrir þessum draumum ungra pilta. 

Hér fyrir neðan er að finna hlekki þar sem ég fjalla um uppeldismál eins og ég sé þau vera.
Ég nenni varla að fara enn einu sinni að fjargviðrast út að stöðu uppeldismála í þessu samfélagi, ætla bara segja þetta þessu sinni, en vísa að öðru leyti í það sem ég hef sagt um þessi mál áður. Það sem ég hef sagt hefur ekki fengið neinar undirtektir og ég hef hvergi séð neinn annan halda þessu fram.
Við höfum flest séð skemmtileg myndskeið af því hvernig dýr, sem alin eru upp meðal annarrar dýrategundar en sinnar eigin, hafa aðlagast lifnaðarháttum og atferli tegundarinnar sem elur það upp.
Þetta myndskeið sýnir lamb sem telur sig vera hund:




HÉR er það hundur sem telur sig vera kött.

Svo er hér myndskeið af úkraínskri stúlku sem var alin upp meðal hunda:



Ekki er ég nú svo mikill öfgamaður í uppeldismálum að ég haldi því fram, að uppeldisaðstæður drengja séu fyllilega sambærilegar við það sem sjá má hér fyrir ofan, en samt tel ég að þær séu talsvert langt frá því að vera eins og best getur verið.
Það getur vel verið að við séum sammála um að það beri að ala stráka og stelpur eins upp. Þá er það bara svo, en uppeldið hlýtur þá að vera með þeim hætti að það taki með í reikninginn mismunandi líffræðilega eiginleika kynjanna.

Ég vil halda því fram að drengir fái ekki það uppeldi sem þeir þurfa til þess að geta notið sín sem karlmenn síðar.  

Uppalendur þeirra eru nánast eingöngu konur. Það er þannig með konur, að líffræðilega eru þær eru ekki karlar. Reynsluheimur þeirra er kvenlegur, hugsanir þeirra, skoðanir, atgerfi, útlit, eða bara flest, er kvenlegt. Það segir sig nokkuð sjálft. Af þessum ástæðum hlýtur uppeldið sem þær veita börnum að henta kynjunum mis vel.  Mér finnst að þetta segi sig sjálft.

Uppalendurnir eru fyrirmyndir barnanna. Fáir geta víst neitað því. Það er af foreldrum og kennurum sem börnin öðlast hugmyndir um það hvað þau eru, en þar með er ekki öll sagan sögð.  Tíminn með foreldrunum verður æ styttri og börnin eyða stærstum hluta vökutíma í stofnunum þar sem einvörðungu (nánast) starfa konur.  Tíminn með foreldrunum er frá því um kl . 17:30 til kl 20 á virkum dögum. Hve mikið af þeim tím nýtist til samskipta eða raunverulegrar samveru með foreldrunum? Hve mikinn hluta þess tíma nýta foreldrarnir til þess að ná sér niður eftir vinnudaginn eða sinna nauðsynlegum heimilisverkum. Hvað með helgarnar. Hve mikinn tíma um helgar hafa drengir með föður sínum í raun? 

Ég hef haldið þessum skoðunum fram. Einu viðbrögðin sem ég hef fengið eru að þetta sé bara bull;  rannsóknir sýni að kyn kennara skipti engu máli. Ætli það sé ekki einhver svona rannsókn sem vísað er til?

Dæmi um rannsókn sem var hluti af B.Ed. verkefni við HA árið 2005:
Rannsóknarspurningarnar sem leitast var við að svara voru: Hefur kyn kennara áhrif á kennslu? Finnst nemendum á unglingastigi skipta máli af hvoru kyninu kennari þeirra er? Hvaða eiginleikum telja nemendur að kennari þeirra eigi að búa yfir? Notuð var megindleg rannsóknaraðferð þar sem spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur í 9. bekk á Akureyri. Úrtakið var 266 nemendur eða 134 stelpur og 132 strákar.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að nemendum finnst ekki skipta máli af hvaða kyni kennari þeirra sé. Nemendur hafa hins vegar ákveðna skoðun á því hvaða eiginleika þeir vilja helst hafa í fari kennarans. Hann á einkum að vera skemmtilegur, fyndinn og þolinmóður. Kyn kennara virðist ekki hafa áhrif á kennslu, heldur þykir mikilvægara að kennari sé hæfur í starfi. (úr rannsókn sem var hluti af B.Ed. verkefni við HA árið 2005).

Ég verð að segja það, að á niðurstöðum þessarar rannsóknar get ég ekki tekið mark. Segjum sem svo að lambið á myndskeiðinu hér fyrir ofan gæti svarað spurningunum: Skiptir það máli hvort þú elst upp meðal hunda eða sauðfjár? og Hvaða eiginleika telur þú að góður uppalandi eigi að hafa?  Myndi lambið sem hefur bara alist upp meðal hunda moögulega hafa forsendur til að telja uppeldi meðal sauðfjál betra? Myndi það t.d. hafa hugmyndaflug til að segja að það væri góður eiginleiki uppalenda að geta jarmað?

Nei, strákar skortir fyrirmyndir í skólakerfinu og þar er auðvitað við karlmenn að sakast. Þeim ber skylda til að gera sig gildandi á þessu sviði og ég tel þar mikið vera í húfi.

Líffræðilega eru strákar strákar, hvað sem tautar og raular, en hvað gerir umhverfið úr þeim sem manneskjum?
Ég er ekkert hissa á niðurstöðu framkvæmdastjóra jafnréttisstofu. Ég er hinsvegar hissa á að hann skuli ekki fjalla um ástæður þess að strákar vilja verða atvinnuknattspyrnumenn.

Hlekkir á nokkur fyrri blogg mín um þessi mál:

Kannski bara vitlaust gefið  2013
Alhæfingar rétttrúnaðarins    2012
Það má auðvitað ekki segja það, en .........  2010
Þjóðfélag á hverfanda hveli 1  2008
Þjóðfélag á hverfanda hveli 2  2008
Þjóðfélag á hverfanda hveli 3  2008

03 mars, 2016

Jákvætt eða neikvætt - kannski bara kvætt.

Þetta tengist línuritunum sem finna má neðar, en hefur
enga skírskotun til einhverrar skoðunar höfundar.
Ég fann þessi merki á netinu og tek enga
afstöðu til litanna
Börn eru alltaf að fæðast eins og hver einn veit. Algengast er að kyn þeirra við fæðingu sé annað hvort kvenkyn eða karlkyn. Það mæta litlar stúlkur og litlir piltar á svæðið, foreldrum sínum til mikillar gleði, í það minnsta ef það sem á undan fór fæðingunni var í samræmi við það sem almennt er talið rétt og eðlilegt.
Ástríkir foreldrarnir eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að sá jarðvegur sem barnið þroskast síðan upp úr verði sem allra næringarríkastur og að ávestir ástar þeirra njóti besta mögulega atlætis.  Sumir birta meira að segja myndir af litlu krúsidúllunni á samfélagsmiðlum, væntanlega til að leyfa öðrum að njóta þessarar dásemdar með sér eða kannski til að fá eilítið hrós fyrir vel smíðaðan grip. Fljótlega fer hinsvegar ýmislegt að koma í ljós, jafnvel eitthvað sem öðruvísi en foreldrarnir bjuggust við; lífið sjálft eins og það birtist í hversdagsleik sínum, allar flækjur þess og hömlurnar sem unginn setur á ástfangna/ástríka foreldrana. Þeir þurfa að fara að neita sér um það sem sjálfsagt þótti áður og reynist það mis auðvelt. Þeir komast að því að barn er ekki bara krúsídúlla heldur einnig beisli, eða haft.

Svo er það þetta með kynið.
Hvað á nú að gera í því?
Má klæða unga stúlkubarnið í bleikan kjól, eða piltbarnið í bláar buxur?
Hvert á hlutverk móðurinnar að vera eða hlutverk föðurins?
Hvað á að ganga langt í því að láta stúlkuna leika sér með bíla eða piltana með brúður?
Stærsta spurningin er kannski: Hver er hinn raunverulegi munur á piltum og stúlkum?

Svo tekur samfélagið við, því foreldrarnir þurfa að afla tekna til heimilisins.
Fyrst er það leikskólinn. Þar mætir barninu móðurleg veröld.


Hefur leikskólagangan einhver varanleg, mismunandi áhrif á kynin? Hvar byrja þau að leita sér fyrirmynda? 
Allt í lagi með það. 
Við tekur grunnskólinn þar sem móðirin er enn allsráðandi. Móðirin verður alltaf kona, hvað sem við reynum að gera til að breyta því.
Í grunnskólanum má reikna með að kynin fari að pæla í hlutverkum hvors um sig. Það eru strákar og það eru stelpur. "Til hvers er það nú?", spyrja blessuð börnin og leita svara. 
Stelpurnar sjá fyrirmyndar konur allan daginn. Strákarnir sjá fyrirmyndarkonur allan daginn, sem segja þeim að vera stilltir eins og stelpurnar, kannski af því þær eru konur. Konur eru konur, en ekki karlar, nefnilega.  Strákarnir vita oftast af pabbanum, þeir sjá hann yfirleitt á kvöldin og um helgar, ef þeir eru heppnir  með pabba. Eiga jafnvel pabba sem er ekkert svo mikið í tölvunni þegar hann kemur heim úr vinnunni.  Strákarnir fara að velta fyrir sér hvað það er að vera karlmaður; átta sig á því að þeir muni verða svoleiðis. Hvar geta þeir fundið sýnishorn af þannig fyrirbæri. Jú, vissulega heima, á kvöldin og um helgar, ef þeir eru heppnir. Hvar annars?  Jú, í sjónvarpinu þar sem hetjurnar ríða um héruð og drepa mann og annan, kannski. Og í tölvunni þar sem er nú aldeilis úrval af ímyndum hinnar sönnu karlmennsku, ekki síst eftir að hvolpavitið er farið að beina  huganum inn á ýmsar framandi slóðir.

Eftir grunnskólann tekur við framhaldsskólinn. Þá ber aðeins nýrra við:


Það var ekki fyrr en skólaárið 2005-6 sem konur urðu fjölmennari en karlar við kennslu í framhaldsskólum. 
Maður skyldi ætla að þarna fái allir nauðsynlegar fyrirmyndir. Fyrirmyndar kvenkennara og fyrirmyndar karlkennara.  Ekki verður hér og nú, í þessum pistli á hálu svelli, gerð tilraun til að draga miklar ályktanir. Kannski má halda því fram að þegar komið sé á framhaldsskólastig sé of seint að kynna fyrir piltunum venjulega karlmenn, sem ekki eru hasarmyndahetjur, íþróttahetjur eða jafnvel klámstjörnur með þann búnað sem þær hafa.  Það kann meira að segja að vera svo, að grámóskulegir karlkennararnir í framhaldsskólunum, með einhverjar undarlegar hugmyndir um samskipti standist hreinlega ekki mál þegar leitað er að fyrirmynd í lífinu. Þær geta ekki verið svona! Þarna er mögulegt að vonbrigði piltanna verði mikil og þeir ákveði að þrátt fyrir fyrirmyndar kvenkennarana sé ekki líft innan veggja framhaldsskólans. Skýrir það mögulega að einhverju leyti umtalsvert meira brotthvarf pilta úr framhaldsskólum en stúlkna?

Hvað gerist síðan í sambandi við framhaldið, eftir að framhaldsskóla er lokið? Þá gerist þetta:


 Er mögulegt á finna í þessu samsvörun við eitthvert meint kvenlegt uppeldi og skort á eðlilegum fyrirmyndum pilta?

Ég leyfði mér einhverju sinni að nefna það sem möguleika, en slíkar hugmyndir voru slegnar fast út af borðinu með: Allar rannsóknir hafa sýnt að það breytir engu. Mig langar dálítið að sjá þær rannsóknir. Rannsóknir eru af ýmsum toga.

Ég kann að fjalla meira um þessi mál síðar. 


19 júní, 2015

Gekt fab einkanir

Ég er enginn veiðimaður, en hef þó farið nokkrum sinnum að veiða um ævina og þá bara á svæðum þar sem mögulegt er að veiða silung. Ég hef fundið þá tilfinningu  að hafa veitt silung, einhverskonar sigurtilfinningu með tilheyrandi adrenalínflæði (einkunn 9,5). Oftast veiddi ég þó ekkert þó ég hafi vandað mig við val á veiðarfærum og staðið tímunum saman úti í á eða á árbakka (Einkunn 4,0).
Það eru sennilega um 20 ár síðan ég fór, ásamt fleirum úr fjölskyldunni til silungsveiða á stað þar sem silungur var ræktaður og sleppt í lítið vatn eða tjörn og síðan gat fólk keypt veiðileyfi þannig að greitt var fyrir hvert kíló sem veiddist.  Við hófum þarna veiðar og ekki leið á löngu áður en það beit á (9,5) hjá mér og hinum. Frábært, fannst okkur. Við kunnum að veiða, eftir allt saman. Hentum út í aftur og viti menn, það beit aftur á, og aftur og aftur og aftur. Eftir því sem aflinn varð meiri minnkaði ánægjan og á endanum nenntum við þessu ekki lengur og síðan hefur mig ekkert langað til veiða.

Þetta var inngangur til að sýna fram á munninn á ánægjunni af því að leggja sig fram til að ná árangri, annarsvegar og ánægjuleysinu af því að ná fyrirhafnarlausum árangri, hinsvegar.

Það er rætt um það þessa dagana, að margt bendi til þess, að einkunnir nemenda sem sækja um inngöngu í framhaldsskóla fari hækkandi ár frá ári, þær samræmist æ ver þeim kröfum sem framhaldsskólinn gerir til nemenda sinna og að þær séu ekki sambærilegar milli grunnskóla.

Framhaldsskólar kalla eftir samræmdum prófum til að unnt sé raða umsóknunum á sambærilegan mælikvarða.
Foreldrar gera kröfur til þess að árangur barna þeirra sé metinn þannig að þau komist í þá skóla sem þau (eða foreldrana) fýsir að komast í.

Nú er ég kominn á svæði sem er fullt af jarðsprengum og ég vil forðast feilspor.

Þar sem ég sit við tölvuna mína og skoða umsóknir grunnskólanema um bóknámsframhaldsskólann sem ég starfa við velti ég óhjákvæmilega fyrir mér hvað liggur að baki þeim einkunnum sem þar birtast mér. Þarna blasa við mér einkunnir þriggja nemenda (A, B og C) úr þrem mismunandi grunnskólum (1, 2  og 3). Þær eru alveg sambærilegar, en ég verð að velja á milli þeirra. Einn kemst inn, en hinir tveir ekki.
Með því að slá einkunnum umsækjendanna inn í excel kemst ég að því, að einkunnir nemanda B úr grunnskóla 1 eru örlítið hærri en einkunnir A og C. Ég vel nemanda B. En spyr mig jafnframt hvort það val var sanngjarnt. Ég spyr mig hvað það var sem myndaði einkunnir þessara nemenda. Voru þær sambærilegar, eða var ég kannski að hafna nemanda sem væri talsvert betur undirbúinn en B fyrir bóknám?  Hafði nemandinn sem ég hafnaði allt til brunns að bera sem einkennir öflugan námsmann, en bara svo "óheppinn" að koma úr grunnskóla þar sem kennarar hans höfðu gert kröfur á hann og ekki gefið honum neitt sem hann ekki átti? Kom nemandinn sem ég valdi úr grunnskóla þar sem matið byggði einvörðungu á hæfni hans til að taka próf? Kom hinn nemandinn sem ég hafnaði úr skóla þar sem matið byggðist að miklum hluta á öðru en prófum, þar sem metnir voru aðrir þættir frekar en þekking á námsefninu, s.s. ástundun, samvinnuhæfni, samviskusemi, viðhorf eða því um líkt? Var það jafnvel svo, að kennarar nemandans sem ég valdi höfðu gefið honum einkunnir á öðrum forsendum en þeim sem ég geng út frá? Var það kannski svo að einkunnagjöfin í viðkomandi grunnskóla endurspeglaði hreint ekki getu eða hæfni nemendanna?

Mér er það fulljóst, þar sem ég sit og velti þessu fyrir mér, að einkunnirnar, það eina sem ég hef á skjánum, kunna að vera og eru líklega algerlega ósambærilegar.

Ég vona að það sé orðið þeim ljóst, sem þetta lesa (ef þeir eru á annað borð einhverjir) að ég er talsverður talsmaður þess að nemendur sem útskrifast úr grunnskóla og ætla sér í framhaldsnám, gangist undir samræmt mat, annað er ávísum á að þeir verði ekki metnir inn í framhaldsskóla á sömu forsendum og aðrir.

Ég veit að það er trúaratriði hjá mörgum að berjast gegn samræmdum prófum og þeirra vilji er ofan á þessi árin.  Trú þeirra breytir engu um það að nemendur halda áfram að flytjast milli grunnskóla og framhaldsskóla. Framhaldsskólar munu varla til lengdar sætta sig við að val á nýnemum sé einhverskonar happdrætti. Einhverjir eru farnir að tala um inntökupróf.  Hvernig ætti nú að framkvæma slíkt? Ef tekið verður upp inntökupróf í framhaldsskóla, þá mun það líklega enda sem samræmt próf, því ekki gengur að hver nemandi þurfi að fara í inntökupróf í 2-4 framhaldsskólum, það segir sig sjálft.

Hvað er til ráða?  
Það þarf enginn að fara í grafgötur um að ég veit það, en það er víst ekki nóg. Þrátt fyrir það leyfi ég mér að hvísla það hér inn í storminn.
1. Foreldrar gera sér grein fyrir því að það er börnum þeirra fyrir bestu að fara í það nám sem hentar hæfileikum þeirra og áhuga.
2. Foreldrar gera sér grein fyrir því að einhverntíma þurfa börn þeirra að takast á við eitthvað sem gerir kröfur til þeirra, setur pressu á þau, veldur þeim kvíða, stillir þeim upp í samkeppnisaðstæðum.
3. Grunnskólar skipuleggja nám þannig í 9. og 10. bekk, að nemendur fái að njóta sín á þeim sviðum sem hentar áhuga þeirra og hæfileikum. Foreldrar eru kallaðir að borðinu og þeir sannfærast  um hvaða leiðir í framhaldsnámi henta börnum þeirra. Þeir vita hvaða leiðir eru í boði fyrir hvern og einn.
4. Á haustmánuðum í 10. bekk er tekin ákvörðun um hvert stefnt skal og í framhaldi af því eru nemendur 10. bekkjar skráðir í mismunandi tegundir samræmds mats allt eftir áhuga, hæfni, viðhorfum, lífssýn eða hvaðeina. Markmiðið: nemandinn fái að njóta sín til fullnustu. Hver getur mótmælt slíku?
5. Á vormánuðum gangast nemendur í 10. bekk undir samræmt mat til undirbúnings umsóknar um framhaldsskóla á viðkomandi sviðum.
6. Nemendur senda inn umsóknir sínar um þá skóla sem stefnt er á. 
7. Framhaldsskólarnir fá í hendur algerlega sambærilegar niðurstöður og vinna úr þeim.

Ég veit að það vakna ótal spurningar í þessu sambandi, en kjarninn er sá, að mér finnst foreldrar og grunnskólar  verði að taka undirbúning fyrir umsókn um framhaldsnám föstum tökum. Það hefur átt sér stað og á sér stað feikileg sóun á hæfileikum margra ungmenna sem hafa lagt í nám sem þau hafa ekki áhuga á eða hæfni til að stunda. Því þarf að breyta.

Á sextánda ári eiga unglingar að vera færir um að takast á við krefjandi verkefni, streitu og kvíða í hæfilegum skammti. Slíkt tel ég vera góðan undirbúning fyrir framhaldið.


21 febrúar, 2015

Friðhelgi einkalífs á heimavist


Þessi mynd og aðrar myndir með þessum pistli 
eru af lífi nemenda í Menntaskólanum að
Laugarvatni. Tilgangurinn með þeim er enginn annar
en að lífga upp á textann.
Til að taka af allan vafa þá endurspegla þær skoðanir sem ég kann að setja fram hér á eftir einungis mínar skoðanir og hafa ekkert með stofnunina sem ég starfa fyrir að gera.  

Ég vara mögulega lesendur við því að það sem fer hér á eftir getur ekki talist skemmtilestur. Hér er fjallað um aðstæður ungs fólks sem tekur þá góðu ákvörðun, að fara í framhaldsskóla með heimavist. Ég veit að ég tala fyrir munn margra með því að fullyrða að fáar leiðir eru betri til alhliða þroska en heimavistardvöl.  Þeir sem fara þess leið eiga yfirleitt vinafjöld til æviloka að henni lokinni.

Tilefnið
Tilefnið þessa pistils er að finna hér.
Þarna segir meðal annars:
Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, segir að allar reglur um heimavist verði að vera í samræmi við réttindi nemenda sem eigi að sjálfsögðu rétt á friðhelgi til einkalífs eins og aðrir.
 segir Margrét.
Ef grunur vakni hins vegar um refsiverða háttsemi, til dæmis þjófnað eða vörslu fíkniefna, er hægt að hafa samband við lögreglu sem hefur heimild til að framkvæma leit vegna sakamálarannsóknar.

„Það þarf lagaheimild eða dómsúrskurð til þess að það sé heimilt að leita í herbergjum nemenda, en engin heimild er til þess í núgildandi lögum. Ég á því erfitt með að sjá að þessar reglur séu í samræmi við lög og réttindi nemenda,“
 Ekki efa ég að umboðsmaðurinn talar hér samkvæmt bestu vitund og í samræmi við það sem rétt er, samkvæmt lagabókstafnum. Við eigum rétt á friðhelgi einkalífs, hvort sem við erum börn eða fullorðin. Það er mikilvægt að uppeldisumhverfi barna sé verndandi og leiðbeinandi. Foreldrar eru ábyrgir fyrir því að skila börnum sínum til samfélagsins sem heilsteyptum einstaklingum. Þessa ábyrgð axla þeir með mismunandi hætti. Í auknum mæli gera þeir kröfur til þar til ætlaðra stofnana um að þær axli hluta ábyrgðarinnar á uppeldinu. Þar með má segja að þeir framselji uppeldishlutverkið að meira eða minna leyti til þessara stofnana, bæði að því er varðar menntun barnanna og aðlögun þeirra að þeim reglum og siðum sem samfélagið samþykkir. Foreldrar gera í mörgum, tilvikum meiri kröfur til þess uppeldis sem stofnanirnar taka að sér, en til sjálfra sín.

Þann 1. janúar 1998 tóku gildi lögræðislög, en samkvæmt þeim teljast einstaklingar sem orðnir eru 18 ára lögráða.  Þar með urðu allir einstaklingar sem voru yngri er 18 ára skilgreindir sem ólögráða, eða börn. Mér hefur reyndar alltaf verið frekar í nöp við þessa breytingu, ekki síst vegna þess að mér finnst að með henni sé verið að skilgreina hálffullorðið fólk sem börn, sem ekki þurfa að axla ábyrgð á sjálfum sér. Með þessu hefur sú þróun orðið, að smám saman hefur það síast inn í þjóðarsálina, að fólk teljist börn til 18 ára aldurs, ekki aðeins í lagalegum skilningi heldur einnig í raun.
Lögin eru svona, hvaða skoðun sem ég kann að hafa á því.

Sú skylda hvílir á hverju samfélagi, hvort sem það nú eru foreldrarnir eða stofnanirnar sem taka að sér uppeldi barna til 18 ára aldurs að koma börnunum til manns, sjá til þess að þau verið tilbúin til að takast á  við líf fullorðinna og sjálfstæðra einstaklinga.  Á skólunum hvílir ekki aðeins fræðsluskylda til 18 ára aldurs, heldur einnig uppeldisleg skylda.

Þetta var svona inngangur að umfjöllunarefninu.

Börn sem dvelja í heimahúsum þar til þau verða lögráða eru á forsjá foreldranna, svo sem vera ber. Þeim eru væntanlega innrættir góðir siðir og allt það. Þau hafa jafnvel eigin herbergi til umráða, en sem ábyrgir uppalendur, kenna foreldrarnir þeim að umgangast herbergið með viðunandi hætti, til dæmis að taka til og þrífa með reglulegu millibili. Börnunum eru einnig settar reglur um hvað má og hvað má ekki gera í herbergjunum.  Börnin undirgangast þær reglur sem foreldranir setja, enda eru það þeir sem bera ábyrgð á að börnin læri alla grunnþætti þess sem líf manneskjunnar í samfélagi manna krefst. Foreldrarnir áskilja sér eðlilega rétt til að fylgja reglunum eftir, meðal annars með því að athuga hvort umgegni og hegðun innan veggja þess er í samræmi við þær. Foreldrar telja sig líklega ekki þurfa dómsúrskurð til að leggja leið sína í herbergi barna sinna í þessu skyni.

Fólk sem fer að heiman á 16da ári í heimavistarskóla, er ennþá börn í skilningi laga og þar með flyst uppeldishlutverkið til heimavistarskólans að hluta til þann tíma sem þau dvelja þar. Heimavistarskólinn setur reglur um umgengni í herbergjum  og framgöngu barnanna, hvort sem er inni í herbergjunum eða í skólahúsnæði að öðru leyti. Þessar reglur eru ekki síst til þess ætlaðar að skapa heilbrigðar og æskilegar uppeldisaðstæður og sömu reglur verða augljóslega að gilda um alla þá lögráða og ólögráða einstaklinga sem þessi heimavistarskóli tekur að sér.
Þegar umsækjandi er tekinn inn í heimavistarskóla undirgengst hann skriflegar reglur sem gilda í skólanum og í heimavistarhúsnæði, þar með talið á herbergjum. Hann og forráðamenn hans þurfa að samþykkja með formlegum hætti þær reglur sem starfað er eftir. Það verður sem sagt til samningur sem segir efnislega að skólinn tekur eintaklinginn inn og lofar að tryggja öryggi hans innan veggja skólans og sjá honum fyrir menntun. Á móti samþykkir umsækjandinn og forráðamenn hans að undirgangast þær reglur sem skólinn hefur sett varðandi dvölina á heimavistinni. Þessi samningur byggir á 3. málsgrein 1. greinar húsaleigulaga nr. 36. 1994, en þar segir:

 Sé íbúðarhúsnæði leigt til ákveðinna hópa, svo sem námsmanna, aldraðra eða öryrkja, þar sem sérstakar aðstæður kalla á aðra skipan en lögin mæla fyrir um, er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilt, vegna sérstaks eðlis eða tilgangs starfseminnar, að víkja frá einstökum ákvæðum laganna með samningi.
Friðhelgi einkalífs - hvað er nú það?
Ég tek hér nokkuð öfgafullt dæmi.
Ef ég, lögráða einstaklingur, sit inni í bílnum mínum í rólegheitum og neyti áfengis eins og mig lystir, væri það líklega brot á friðhelgi einkalífs míns að rífa upp dyrnar á bílnum, gera áfengið upptækt eða hella því niður og láta mig gjalda þess með einhverskonar refsingu. Ef ég myndi hinsvegar skella mér í bíltúr við þessar aðstæður myndi málið horfa öðruvísi við. Ég væri þar með orðinn hættulegur samferðamönnum mínum og þar með búinn að brjóta  lög og hlyti viðeigandi refsingu ef ég yrði uppvís að akstrinum. Þarna kemur líklega til skoðunar t.d. 2. málsgrein 71. greinar stjórnarskrárinnar:
 71. gr. [Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.
 Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.
 Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.]1)
Það má, sem sagt takmarka friðhelgi einkalífs þar sem um er að ræða að vernda réttindi eða öryggi annarra.

Ef ég velti nú fyrir mér aðstæðum á heimavist einhvers framhaldsskóla þá blasir það við að það þarf að huga að tvennskonar hagsmunum barnanna/unglinganna/hinna ólögráða einstaklinga:

1. Það þarf að tryggja velferð íbúanna, tryggja að þeir fái notið friðhelgi einkalífs, ekki aðeins gagnvart starfsmönnum skólans, heldur einnig öðrum íbúum. Þeir skulu njóta öryggis og heilbrigðra uppeldisaðstæðna í hvívetna. Þessir hagsmunir eru mikilvægari en aðrir.

2. Það þarf einnig  að huga að hagsmunum þeirra barna/unglinga/ólögráða einstaklinga sem kjósa að láta reyna á einhver mörk, eins og nokkuð algengt er meðal unglinga. Sannarlega eiga þeir að njóta alls þess sama og aðrir svo fremi að þeir fari ekki út fyrir þau mörk sem tilgreind eru í þeim samningi sem þau og forráðamenn þeirra gerðu við upphaf skólagöngunnar/heimavistardvalarinnar. Sá samningur, sem kallast yfirleitt heimavistarreglur, kveður á um það sem má og það sem ekki má  innan veggja þeirrar uppeldisstofnunar sem um er að ræða. Mikilvægur þáttur í þeim samningi er ákvæði um aðgang tiltekinna starfsmanna að herbergjum barnanna/unglinganna/ hinna ólögráða einstaklinga, til að tryggja öryggi þeirra, leiðbeina þeim, t.d. varðandi umgengni og til að hafa eftirlit með því að þau/þeir haldi þann samning sem gerður var við upphaf dvalarinnar.. Aðgangurinn sem þar er tilgreindur er engan veginn meira íþyngjandi en sá sem börnin/unglingarnir/ hinir ólögráða einstaklingar þyrftu að búa við byggju þeir á heimili foreldra sinna. Þarna má segja að ákveðinn réttur eða ákveðnar skyldur foreldris/forráðamanns séu færður yfir til uppeldisstofnunarinnar.

Meðan á dvöl í framhaldsskóla með heimavist stendur, ná börnin að verða 18 ára og þar með lögráða. Samningurinn sem þau undirrituðu heldur hinsvegar áfram fullu gildi. Það sem breytist er, að samskipti stofnunarinnar við foreldra hætta. 18 ára einstaklingur verður einn og sjálfur ábyrgur fyrir framgöngu sinni. Við þessar aðstæður hefur hann val: að undirgangast þann samning sem gerður var og gildir áfram, eða taka á leigu annað húsnæði, sem gerir minni kröfur til umgengni og hegðunar og þar með líklega hætta í viðkomandi skóla.

Niðurlag
Í upphafi þessa pistils vitnaði ég til orða umboðsmanns barna, og til upprifjunar þá voru þau svona:

Ef grunur vakni hins vegar um refsiverða háttsemi, til dæmis þjófnað eða vörslu fíkniefna, er hægt að hafa samband við lögreglu sem hefur heimild til að framkvæma leit vegna sakamálarannsóknar.„Það þarf lagaheimild eða dómsúrskurð til þess að það sé heimilt að leita í herbergjum nemenda, en engin heimild er til þess í núgildandi lögum. Ég á því erfitt með að sjá að þessar reglur séu í samræmi við lög og réttindi nemenda,“
Ég tel að umboðsmaður þurfi að taka tillit til þess að börn/unglingar sem dvelja á heimavistum eru þar í uppeldisumhverfi og í trausti þess að öryggi þeirra sér tryggt og að þau/þeir njóti sambærilegra uppeldisaðstæðna og börn/unglingar sem dvelja á heimili foreldra sinna.  Ég sé ekki fyrir mér, að unglingur geti sett foreldrum sínum verulegar skorður þegar kemur að aðgangi þeirra að herbergi hans. Á heimilinu gilda reglur sem uppalandinn setur, reglur sem miða að því að upp verði alinn heilsteyptur, sjálfsöryggur og dugandi einstaklingur.

Það er ekki bara svo, að allt geti snúist um rétt fólks. Rétturinn er auðvitað mikilvægur, en skyldurnar  eru það ekki síður. Þeir sem engar telja sig hafa skyldurnar geta ekki búist við að komast langt á rétti sínum einum saman.


29 desember, 2014

Samtíðin er jafnan verst.

Ég er sjálfsagt ekki einn um það meðal þeirra sem eldri eru á hverjum tíma að telja margt vera verra en það var. Það er algengt viðhorf að tímarnir breytist til hins verra; hver sú kynslóð sem við tekur sé lakar sett að mörgu leyti en þær en á undan hafa farið.
Faðir minn gekk um tveggja vetra skeið (1936-7 og 1937-8) í Menntaskólann á Akureyri. Á þeim tima og einnig eftir að hann kom að S-Reykjum í árslok 1939, skrifaðist hann á við fósturforeldra sína, Sigrúnu og Benedikt Blöndal á Hallormsstað. Það virðast reyndar aðallega hafa verið þau sem skrifuðu, sem má sjá af því að í hverju bréfi þeirra kvarta þau yfir að hafa ekki fengið bréf (á Akureyri var hann á aldrinum 17-19 ára svo það er ef til vill skiljanlegt).
Í bréfum sínum segja þau fréttir að austan og spyrja frétta frá Akureyri. Þau leggja honum einnig lífsreglurnar og veita góð ráð. Þar er margt áhugavert, ekki síst ef það er tengt stöðu mála á okkar tímum. Í bréfi sem hann skrifaði pabba í nóvember 1937 segir Benedikt Blöndal:


Úr bréfi Benedikts
"Annars er einkennilegt hvernig eldra fólkið lítur ávallt á samtíð sína. Hún þykir jafnan verst og æskan og ungdómurinn stórum verri en var í ungdæmi þeirra. Mikil væri sú afturför frá kynslóð til kynslóðar ef þessir dómar hefðu við full rök að styðjast".

Í bréfi í lok árs 1941, en þá er pabbi búinn að vera tæp tvö ár á S.-Reykjum, skrifar Sigrún Blöndal (skólastýra í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað):


Úr bréfi Sigrúnar
"Stúlkur eru að búa sig á "ball" út í Ketilsstaði, því ekki hefur maður frið með heimili sitt einusinni á jólunum fyrir þessum strákagörmum sveitarinnar, sem ekki geta látið þessa aumingja sakleysingja í friði og finnst víst eðlilegast að Jesús Kristur byrji frelsunarstarf sitt í sálum þessara ungu stúlkna á "balli"! Þess vegna stilla þeir því upp fáum dögum eftir minningarhátíðina um fæðingu hans! Og dettur ekki í hug, að hann eigi að fæðast í hverju einasta mannshjarta! Það er erfitt að glíma við heimskuna og óþokkaskapinn og barnalegt að hafa nokkurntíma látið sér detta í hug, að maður væri þess megnugur".
Bréf þeirra hjóna staðfesta að mannskepnan er söm við sig á öllum tímum.

Þrátt fyrir þetta ætla ég ekkert að víkja frá þeirri skoðun minni, að þær breytingar sem hafa orðið frá því mín kynslóð óx úr grasi, við undirleik Bítlanna, Rolling Stones, Jethro Tull, Bob Dylan, Joan Baez, The Kinks og svo  mætti lengi telja, séu síður en svo til bóta. Með þessu er ég ekki að halda því fram að ungt fólk nú sé eitthvað lakara að upplagi en það hefur verið á hverjum tíma. Það kann jafnvel að vera talsvert betra.

Umhverfi og uppvaxtarskilyrði barna finnst mér hafa farið verulega versnandi síðastliðin 15-20 ár og hér tíni ég fram nokkrar ástæður fyrir þessari skoðun minni:


  1. Veröldin er orðin miklu flóknari en hún var og þar með meiri óvissa um framtíðina.
  2. Uppeldi fer æ meir fram á stofnunum þar sem börn læra að talsverðum hluta hvert af öðru frekar en af foreldrum sínum. Máltaka á sér því miður stað í of miklum mæli í gegnum samskipti jafnaldra.
  3. Rafrænt umhverfi getur haft neikvæð áhrif á ýmsa þætti sem lúta að mannlegum samskiptum. Foreldrar og börn sogast æ meir inn í þann heim sem tölvur og internet búa þeim til afþreyingar.


Til að vera jákvæður vil ég halda opnum þeim möguleika að hvað sem breytist muni manninum takast að breytast með og ná einhverju jafnvægi við umhverfi sitt á hverjum tíma.
Hver segir líka að það megi ekki segja: "Það var sagt mér að það væri ball í kvöld"?



31 ágúst, 2014

Nýja hænan í kofanum (2)

Skírn 2014
Það sem fer hér á eftir getur seint talist neinn skemmtilestur, en þeir fá hrós sem klára. :) 
-------
Ég held að pæling mín í fyrri hluta þessa pistils hafi reynst nokkuð gagnsæ, en til upprifjunar þá hljóðaði hún upp á það að í einhverjum skilningi hefði ég verið hænsnahirðir stærstan hluta ævi minnar.  Fyrsta reynsla mín í því starfi var hænsnaumhirðan í Hveratúni í æsku, en síðan valdi ég mér nám og starfsvettvang sem leiddi mig að störfum í skólakerfinu, síðustu tæpu 30 árin í heimavistarframhaldsskóla á  Suðurlandi, nánar tiltekið á  Laugarvatni. Það er þaðan sem ég hef séð einna mesta samlíkingu við starf mitt í æsku.

Inngangur 

Án þess að ég viti það með einhverri vissu, þá tel ég að í dýraríkinu, og þá aðallega meðal dýra sem eru hópsækin, þurfi þau dýr sem koma ný inn í hópinn að undirgangast einhverjar raunir, eða að sanna sig, áður en þau geta talið sig til hópsins. Þá er það alþekkt að dýr sem skera sig frá öðrum í hópnum, víkja frá því sem hópurinn telur eðlilegt, eiga erfiðara uppdráttar en önnur.  Ég þykist hafa heyrt eða lesið um að þetta teljist vera hluti af svokölluðu náttúruvali; gallaðir einstaklingar hafa síðri möguleika á að flytja erfðaefni sitt áfram (við slíkar aðstæður verður þá eineltið til, eitthvert mesta böl sem manninum fylgir, en sem verður líklega aldrei aflagt).
Skírn 2011
Hvað varðar það fyrrnefnda þá hefur maðurinn þróað með sér gegnum árþúsundin einhverskonar vígsluathafnir til að staðfesta fullgildingu einstaklinga inn í tiltekna hópa. Það er sama hvert litið er, hvarvetna þurfa einstaklingar að sanna sig til að öðlast hlutdeild í hópum.
Þeir gera það  með því að taka próf af einhverju tagi: bílpróf, stúdentspróf, háskólapróf, pungapróf, sveinspróf, meistarapróf, og svo framvegis.
Þeir gera það með vígslum eða formlegum inntökuathöfnum: prestvígslu, fermingu, skírn, doktorsvörn, svo einhver dæmi sú nefnd.
Þarna er um að ræða formlegar og viðurkenndar aðferðir við að taka fólk inn í hópa, þó svo samlíkingin við hænurnar mínar sé sannarlega sjáanleg.
Hugmyndirnar á bak við allar inntökuathafnir eða próf snúast auðvitað um að viðkomandi þarf að sanna með einhverjum hætti að hann sé þess verður að verða hluti hópsins.

Prófum og inntökuathöfnum má svo í grófum dráttum skipta í tvennt: formlegum og viðurkenndum, annarsvegar og óformlegum og ekki almennt viðurkenndum, hinsvegar.
Ég ætla að fjalla lítillega um um þessar síðarnefndu athafnir hér á á eftir.

Skírn 2011

"Busavígslur"

Hvað er busi?
Vísindavefur Háskólans svarar því svo:
Orðið busi hefur verið notað í íslensku frá því á 19. öld. Þá var það haft um stráka í neðsta bekk mennta- eða latínuskóla en nú er það haft jafnt um stráka og stelpur. Það er líklegast myndað af lýsingarorðinu novus ‘nýr’. Þágufall fleirtölu er novis en busi er hugsanlega myndað af síðari lið orðmyndarinnar novibus sem er ranglega myndað þágufall fleirtölu.
Þetta hugtak, "busi" merkir með öðrum orðum nýnemi, sem hefur komist í viðkomandi skóla á grundvelli fyrri afreka í námi, en á eftir að undirgangast innvígslu í samfélag þeirra nemenda sem fyrir eru í skólanum.  Þar með verða síðan til "busavígslur", sem eru eiginlega eins nálægt þeim raunum sem nýjar hænur í hænsnakofa þurfa að undirgangast og hugsast getur. Hugmyndin er væntanlega sú, að til þess að vera tækir í nemendasamfélagið þurfi nýir nemendur að standast ýmsar þolraunir. Það er ekki fyrr en að þeim loknum sem þeir teljast hæfir til að taka vígslu. Vígslan inn í nemendafélagið í Menntaskólanum að Laugarvatni felst í því að nýnemar eru vatni ausnir í Laugarvatni. Til verksins er notuð gömul skólabjalla og skírarinn (hávaxinn piltur úr 4. bekk) fer með texta á latínu (þó svo latína sé ekki lengur kennd í skólanum).
Skírn 2014

Skírnin hefur ekki verið umdeild og að mínu mati er hún afar skemmtileg hefð. Aðdragandi skírnarinnar; það sem nemendur hafa bætt við gegnum árin, er það sem umdeilt er og það með réttu.
Ég ætla ekki að eyða tíma í að lýsa því hvernig þessi aðdragandi hefur farið fram, ég hef talið að þær athafnir hafi ekki sýnt eldri nemendur í mjög jákvæðu ljósi.  Sannarlega hafa þeir litið á þær "hefðir" sem um hefur verið að ræða sem skemmtun eða grín og þannig hefur það verið, þegar grannt er skoðað. Þessi skemmtun eða grín, var hinsvegar klædd í einstaklega neikvæðan búning, sem einkenndist af dýrslegum öskrum og ógnandi búningum (svartir plastpokar og sósulitur), sem gerði, að mínu mati ekkert annað en gera lítið úr eldri nemendum og þar með námi þeirra í skólanum: þeir sýndu mátt sinn og megin með því að vísa beint í dýrslegt eðli, en ekki þroska hins menntaða einstaklings. Með öðrum orðum fólust þessar athafnir í því að þeir sem eldri voru og þroskaðri gerðu lítið úr sjálfum sér í stað þess að sýna fram á andlega yfirburði sína.
Skírn 2014
Í allmörg ár hafa skólayfirvöldin ljóst og leynt freistað þess að fara þá leið að vinna með nemendum að því að breyta innihaldi þeirra "hefða" sem mótuðust í aðdraganda skírnarinnar í vatninu og því er ekki að neita að það tókst að talsverðum hluta. Gleðin og galsinn varð stöðugt ríkari þáttur í uppákomunum. Það sem erfiðast og nánast ómögulegt reyndist, var að fjarlægja umbúnaðinn og þar skipti litlu þó ýmis gagnmerk rök væru færð fram. "Hefðunum" mátti ekki breyta, í það minnsta ekki með góðu. Þar kom til aðallega tvennt, að því er ég tel: annarsvegar vildi engin stjórn verða stjórnin sem átti þátt í að afnema "hefðirnar" og hinsvegar voru fyrrverandi nemendur ákafir í því að viðhalda þessum og héldu þeim skoðunum mjög á lofti - þar til þeirra börn nálguðust framhaldsskólaaldur.

Hvernig urðu svo þessar "hefðir" "busavikunnar" til?  Jú, þær voru eftirlíkingar á svipuðu fyrirbæri í öðrum framhaldsskólum, þar sem hver apaði eftir öðrum, en ekki upphugsaðar og mótaðar innan skólans.
-------------
Skírn 2011
Á þessu hausti sýndi stjórn nemendafélagsins þann kjark, að vinna með skólastjórnendum að því að umbylta aðdraganda skírnarinnar. Í stað svartra ruslapoka og sósulitar komu litríkir skrípabúningar og fastir þættir sem verið hafa undanfarin ár voru hreinlega skornir af og aðrir jákvæðari settir inn.  Á þessu hausti var þetta fyrirkomulag prufukeyrt, og mun vonandi mótast sem jákvæður þáttur í skólalífinu.

Grundvallaratriðið í mótttöku nýnema in framhaldsskóla er að þeim finnist þeir velkomnir, en jafnframt að þeir fái tækifæri til að blandast eldri nemendum með skemmtilegum uppákomum.
------------
Svo er það nú annað mál, en samt tengt og sem lengi má ræða, en það er hvort við erum farin að vernda börn of mikið, of lengi.  Hvenær rennur upp sá tímapunktur að við teljum börnin okkar orðin fær um að takast á við allt óréttlætið og erfiðleikana sem fylgja því að vera fullorðin manneskja?
Ég get sagt óskaplega margt um það, en nenni því bara ekki núna.

Ég held áfram enn um sinn að vera nokkurskonar hænsnahirðir, en ég held að skjólstæðingarnir nú séu á réttri leið.

30 ágúst, 2014

Nýja hænan í kofanum (1)

Þetta er ekki hæna frá Hveratúni.
Það kann að virðast undarlegt að ég skuli skrifa það sem hér fer á eftir, en fyrir því eru ástæður sem ég mun fjalla um í framhaldinu.

Þegar ég var í kringum 10 ára aldur var ég maður með hlutverk á heimili fjölskyldunnar. Ég var hænsnahirðir og fóðraði hænur heimilisins, sem voru eitthvað í kringum 20 að jafnaði, bara svona venjulegar hænur, hvítar með rauðan kamb. Fóðrið var blanda af hænsnakorni og leifum sem hrutu af borðum Hveratúnsfólks.  Starfi mínu fylgdi einnig sú ábyrgð að sjá til þess að hænurnar hefðu alltaf nóg að drekka, hleypa þeim út til að viðra sig á sumrin og ná í eggin sem þær notuðu til að greiða fyrir tilveru sína.

Ég veit ekki hvernig svo æxlaðist að ég fékk þetta hlutverk, en held því auðvitað fram að systkin mín hafi bara ekki talist hæf til starfans. Ég veit hinsvegar að þau munu bera fram aðrar skýringar á ástæðum þessa og munu örugglega halda því fram að þau hafi einnig sinnt fiðurfénu, en ég andmæli slíkum fullyrðingum.

Náið samneyti við hænur í svo litlum hóp, þar sem hver hæna fékk að lifa svo lengi sem henni entist heilsa, hafði óhjákvæmilega þau áhrif að hænsnahirðirinn myndaði tengsl við flokkinn. Hver hæna fékk nafn og þær höfðu mjög mismunandi persónueiginleka. Sumar voru gæfar, en aðrar vildu sem minnst samskipti hafa við hirði sinn.

Hænsnakofinn var bak við gamla bæinn, með einum suðurglugga og dyrnar sneru að bakhlið íbúðarhússins. Byggingarefnið var holsteinn. Innan dyra var borð vinstra megin þegar inn var komið og þar fyrir ofan prik sem íbúarnir settust á þegar rökkvaði. Í hægra horninu fjærst voru síðan varpkassarnir og mig minnir að í þá hafi verið settir hefilspænir.  Loftið var rykmettað og með einhverju millibili þurfti að moka út úr kofanum og í staðinn var settur ilmandi spænir.

Ég tel að hænurnar í Hveratúni hafi verið það sem kallast núm "hamingjusamar hænur". Þær nutu útiverunnar í heimilsgarðinum fyrir framan suðurhlið íbúðarhússins (ég sé fyrir mér hænur spígsporandi á pallinum í Kvistholti, þar sem fD liggur og nýtur sólar. Afar rómatísk hugmynd). Hamingja þeirra fólst einnig í því að hafa svo umhyggjusaman hirði sem raun bar vitni.

Þar kom í lífi hænsnanna að þær drápust úr elli eða sjúkdómum. Ég hygg að ekki hafi verið mikið spáð í hvort þær verptu eða ekki, þó mig minni að hænsnabóndi í Hrunamannahrepp, sem var alltaf kallaður Blómkvist eða Blommi (Andrés Blómkvist Helgason í Miðfelli 3 (1927-2005)) hafi eitthvað komið að endurnýjun stofnsins.  Ég minnist þess að hafa nokkuð oft fjarlægt hænsnalík úr kofanum.

Nýrra hænsna, sem voru varla komnar af ungaaldri beið ekkert sældarlíf til að byrja með. Oftar en ekki lögðust hænurnar sem fyrir voru á þær, gogguðu í hausinn á þeim eða plokkuðu af þeim fjaðrirnar. Eins og allir vita þá er í gildi skýr goggunarröð í hænsnakofum, og ég vissi hverju sinni hver var forystuhænan og hver var sú sem neðst var í goggunarröðinni.
Eftir raunirnar voru nýju hænurnar yfirleitt teknar í hópinn, en það kom vissulega fyrir að þær lifðu ekki af.

Ætli hænsnahaldi hafi ekki lokið í Hveratúni einhverju eftir að fjölskyldan flutti í nýja bæinn, eða eftir að ég komst á þann aldur að erfiðara var að fá mig til að sinna skyldum mínum. Ég efast ekki um að systkini mín muna þetta betur en ég, en svo mikið veit ég, að ég var farinn að nálgast tvítugt þegar ég borðaði fyrst kjúkling.

Ég er eiginlega farinn að ímynda mér að, þegar grannt er skoðað, hafi ég gegnt starfi hænsnahirðisins stærstan hlut lífs míns.

En meira um það næst.
  

10 desember, 2013

Krakkakassar

Ef þú nennir ekki, eða hefur ekki læsi til, þá dugir þér að skrolla niður fyrir línuna hérna fyrir neðan, til að átta þig á hvað ég er að fara með þessu kassatali.

Við erum góð í að búa til kassa utan um börnin okkar. Við tölum okkur niður á hentuga stærð og gerð - einn stóran kassa sem á að rúma öll börnin okkar. Þessi kassi samanstendur af öllum þeim lögum og reglum sem við viljum að gildi um blessaða ungana, allt frá því þau byrja í leikskóla og þar til þau ljúka háskólanámi. Þarna mynda allskyns námskenningar, sem breytast í áranna rás, hryggjarstykkið. Þarna er ákveðið hvernig námið á að fara fram, hvernig framvinda þess á að vera, hvernig aðbúnaður barnanna á að vera, hver réttindi barnanna og foreldra þeirra eru, hvenær börnin hætta að vera börn, hverjar kröfurnar skuli vera til barnanna, og svo framvegis. Þetta er kassi 1.

Inn í þennan stóra kassa setjum við svo fjóra kassa, sem einnig eru hentugir að stærð og gerð þar sem hver um sig á að rúma tiltekið aldursbil, eða skólastig. Þarna inni skal síðan beita öllum því sem kassi 1 ákvarðar að beita skuli  á hverju skólastigi. Þetta er kassi 2

Inni í hverjum þessara fjögurra kassa eru síðan settir misjafnlega margir kassar sem eru einnig taldir vera hentugir að stærð og gerð, en þetta eru einstakir skólar. Í þessum kössum skal það gerast sem ákvarðað er af kössum 1 og 2. Þarna skal hver kassi tileinka sér allt það sem við á, en getur beitt ólíkri útfærslu og skipulagt starf sitt með mismunandi hætti, svo fremi að regluverkinu sem ákvarðað hefur verið með fyrri kössum, sé fylgt.    Þetta er kassi 3

Inni í hverjum þessara kassa eru enn margir kassar sem rúma ákveðin aldursbil, brautir eða deildir og þessir kassar eru einnig, að okkar mati hentugir að stærð og gerð fyrir blessuð börnin. Þarna kemur til regluverk sem sett er af kassa 3, sem sett er á grundvelli og með hliðsjón af því sem kassi 3 segir til um á grundvelli fyrstu tveggja kassanna. Þetta er kassi 4

Inni í þessa kassa, hvern um sig, eru enn settir kassar, mismargir eftir hlutverki hvers, en þarna væru þá komnir kassarnir sem börnin fara endanlega inn í - það sem við getum einnig kallað námsgreinar eða námshópa. Það sem þarna á að fara fram á að byggja að öllu því sem ákvarðað hefur verið af fyrstu fjórum kössunum. Þarna skal það gerast - þarna menntast börnin okkar. Allavega viljum við trúa því. Þetta er kassi 5

Svona lítur þessi kassaleikur út.

KASSI 1:
Þjóðin talar um stóra kassann sinn sem gott menntakerfi sem sendir frá sér "menntaða" einstaklinga í stórum stíl.

KASSI 2:
Þó svo það sem gerist ínni í þessum kassa lúti (eða eigi að lúta) lögmálum kassa 1 virðist talsvert skorta á að samspil þeirra sé eins og gert er ráð fyrir. Þegar allt kemur til alls þá voru þessir fjórir kassar settir í þann stóra, einmitt til að mynda samfellu fyrir börnin á eins ár aldri og uppúr, þegar þau myndu skríða fullmenntuð út úr stóra kassanum.

KASSI 3:
Hér koma til allkyns skólagerðir. Sumar eru reknar af sveitarfélögum, aðrar af ríkinu og enn aðrar eru einkareknar. Allar eiga þær í grunninn að starfa samkvæmt þeim lögum og reglum sem sett hafa verið. Því setur hver skólagerð sér námskrá, sem á að endurspegla þann grundvöll sem lagður hefur verið. Þessar námskrár eiga að lýsa því hvernig viðkomandi skólagerð ætlar að koma nemendum áfram á næsta stig.

KASSI 4:
Hér koma allskonar deildir, bekkir og brautir, sem byggjast til að byrja með á aldri nemenda, en síðar einnig á vali þeirra. Þarna kemur til deilda- eða brautaskipulag, sem, sem fyrr, á að byggja á öllu því regluverki sem ytri kassar hafa sett. Hér er tilgreint hvaða námsgreinar nemendum er ætlað að læra á hverri braut/deild, hver markmiðin skuli vera á grundvelli þeira laga og reglna sem sett hafa verið með ytri kössunum þrem.

KASSI 5:
Hér koma til sögunnar einstaka fagmenn sem hlotið hafa, á einhverjum tíma, þjálfun í ólíkum greinum og hvernig kenna beri þær ungu fólki á menntabraut. Þeir setja fram reglur og áætlanir um einstaka námsáfanga eða námsgreinar; hvað nemendur eiga að kunna við námslok.

_______________________________________________________________________

Sannarlega þarf að hafa lög og reglur, marka stefnuna eins við við teljum hana vera réttasta. Það verður hinsvegar ekki framhjá því litið að lögin, stefnan og markmiðin er eitt, hinn mannlegi þáttur í öllu saman getur svo verið eitthvað allt annað. Í gegnum allt þetta kerfi okkar kemur mannskepnan að, á öllum stigum, með sína drauma og þrár, viðhorf og persónueiginleika. Þarna koma við sögu foreldrarnir, ráðuneytismennirnir, sveitarstjórnendurnir, skólastjórnendurnir og kennararnir, auk nemendanna. Ráðuneytismennirnir horfa á einhverja heildarmynd og reyna að sjá til þess að hún líti eins vel út og kostur er, og í því skyni setja þeir þrýsting á sveitarstjórnarfólk og skólastjórnendur, sem þrýsta síðan niðurfyrir sig  og þar er áfram beitt þrýsingi enn neðar. Foreldranir eru eins misjafnir og þeir eru margir, flestir hafa tiltölulega jákvætt viðhorf til þessa kerfis og reyna að aðstoða, aðrir sjá skólann sem óvin barnanna sinna og leggja sig fram um að krefjast þess sem þeir telja barni sínu vera fyrir bestu þó svo það geti komið barninu fremur illa þegar upp er staðið.

Hver kassi um sig, reynir að verja sig, og gefur ekkert annað út til kassanna sem hann er í, en að hann sé algerlega með þetta, fremstur á sínu sviði, allir ánægðir, allir í bullandi menntagír, hann sé að gera allt rétt. Það er í eðli okkar að verja það sem okkar er. Ekki efa ég það, að á öllum stigum eru margir að gera margt rétt, en ég fullyrði einnig að á öllum stigum eru margir að gera ýmislegt sem hægt er að segja, út frá þeim lögum og reglum sem sett eru, sé rangt.

Við tölum um að menntunarstig þjóðarinnar sé hátt, sem er nú dálítil klisja, sem ekki hafa endilega verið færðar sönnur á. Miðað við hvað er menntunarstigið hátt?

Þegar upp er staðið spyr ég mig hvort þetta menntakerfi okkar sé að senda frá sér afurð sem hægt er að vera stoltur af, svona í alþjóðlegum samanburði.
Ég spyr mig oft, hvort skólakerfið er að gera það sem það segist vera að gera.
Leikskólinn segist sinna málörvun barna af krafti, en er hann að gera það? Getur hann gert það?
Grunnskólinn segist vera að kenna börnum að lesa. Er hann að gera það?  Er hann kannski að kljást við börn sem koma úr leikskóla mállítil vegna örvunarleysis?
Framhaldsskólinn kveðst vera fyrir alla. Er hann það í raun?
Háskólar útskrifa meistara og doktora sem aldrei fyrr. Hefur innihald slíkrar menntunar haldið gildi sínu?

Ég þykist ekki hafa svörin, frekar en fyrri daginn, en það þarf að spyrja.

Á öllum skólastigum starfar úrvalsfólk, miðlungsfólk og fólk sem ætti frekar að sinna öðrum störfum og hentugri, rétt eins og annarsstaðar. Ég tel, að mestu máli skipti í menntun barna og ungs fólks sé það sem gerist innan veggja skólans (kassa 4) og innan veggja skólastofunnar (kassa 5). Hinir kassarnir, hversu fallegir sem þeir kunna að vera, eru til lítils ef þessir tveir kassar klikka.

07 desember, 2013

Kannski bara vitlaust gefið

Það er nú kannski að bera í bakkafullan lækinn að ætla sér að bætast í flokkinn sem hefur allar skýringarnar á því að íslenskir grunnskólanemendur koma illa út úr alþjóðlegri könnun  á læsi. Það fór eins og mig grunaði, að margir hafa  á þessu skoðanir, sem er smám saman að stefna í þá átt að þessi könnun sé að mæla vitlaust; við séum bara að leggja áherslu á aðra og nútímalegri kennsluhætti, sem gamaldags könnunin er mælir ekki. Við séum í farabroddi í kennslu og námi ef grannt er skoðað.

Ég er nánast að springa undir þessari umræðu allri, en verð að gæta mín að segja ekkert, stöðu minnar vegna, sem gæti gengið verulega gegn viðtekinni skoðun fólks, hvort sem það er til kallað til að lýsa áliti sínu, eða tjáir sig um þetta hvar sem tjáning er möguleg.

Það er fjarri mér að skella því framan í lesendur, að það hafi allt verið betra áður fyrr, engin vandamál, eða börn í vandræðum með nám - það hefur alltaf verið og mun alltaf verða. Ég ætla hinsvegar að varpa fram nokkrum dæmum um spurningar hér á eftir, sem mér finnst nauðsynlegt að fá svör við áður en við hlaupum til og dæmum PISA könnunina sem gamaldags. Það er góð regla, að fullyrða sem fæst áður en fyrir liggur einhver ábyggileg rannsókn sem styður það sem maður er að segja.

1. Hvernig læra börn málið í nútímanum? Það liggur fyrir, óvéfengjanlega, að langstærstur hluti barna fer í leikskóla áður en máltaka hefst. Þar dvelja þau, í miklum mæli, 8 klukkustundirvirka daga með hóp af öðrum börnum fram á grunnskólaaldur. Ég tel að það sé nákvæmlega sama hve metnaðarfullir leikskólakennarar eru, þeir ná því ekki að sinna málfarslegum þörfum barna á þeim tíma ævinnar sem þau eru móttækilegust fyrir að læra móðurmálið, máltökuskeiðið. Jú, jú það er lesið fyrir börnin og þau fá eflaust formlega þjálfun í ýmsum þáttum málsins, en hvar beita þau málinu mest? Ég tel að máltaka barna fari fram að stærstum hluta gegnum samtöl við önnur börn á sama aldri. Ef ég hef rétt fyrir mér, þá er það talsvert alvarlegt. Jú, jú, foreldrarnir tala eflaust við börnin þegar þeir koma þreyttir heim úr vinnu, og um helgar, en er það í einhverjum umtalsverðum mæli? Er það ef til vill svo, að einhver umtalsverður hluti foreldra, þegar þeir loksins fá hvíld frá vinnunni, líti svo á að þá eigi þeir rétt á að fá einnig hvíld frá samskiptum við börnin sín? Finnst þeim þeir eiga rétt á að sinna sínum áhugamálum óáreittir? Hve miklum tíma, síðdegis, á kvöldin og um helgar, eyða foreldrar t.d. í tölvum? Hve miklum í heimilishald af ýmsu tagi? Hve miklum í bein, jákvæð samskipti við börnin?  Hver ber megin ábyrgð á máltöku barna? Er það ef til vill svo, að í nútímasamfélaginu okkar sé mikilvægi færni í beitingu tungumálsins ofmetin? Er tungumálið smám saman að leita einföldunar?
Getur það verið að þær uppeldisstefnur sem unnið er eftir í leikskólum, t.d. svokölluð Reggio-Emilia stefna, séu bara hreint ekki að virka?
Á þessu sviði finnst mér nauðsynlegt að byrja að rannsaka. Kannski er það búið, hver veit? Ef svo er væri gaman að skoða niðurstöðurnar.

2. Hvernig má það vera að svo stór hluti barna sem raunin virðist vera, samkvæmt könnuninni getur ekki lesið sér til gagns eða yndis við fimmtán ára aldur? Er skýringarinnar að leita í einhverju sem gerðist á máltökuskeiðinu,  þeim námskenningum sem unnið er eftir (t.d. uppgötvunarnám**), lestrarkennslu í molum, tölvunotkun, starfsfólki sem ekki veldur starfi sínu, almennri upplausn í samfélagsgerðinni? Ef stór hluti að skólagöngu barna í leikskóla og fyrrihluta grunnskólans fer í að fjalla um tilfinningar, innsæi, tjáningu án orða, rökhyggju og kerfishugsun (sjá Reggio-Emilia), fer þá ekki eitthvað forgörðum, sem síðara nám krefst. Ef máltökuskeiðið (sá tími ævinnar sem barn er móttækilegast fyrir að tileinka sér tungumálið) fer að einhverju leyti forgörðum má álykta sem svo að framhaldið geti orðið erfitt, nema því meiri áhersla verði lögð á tungumálið síðar.  Mér finnst þetta nú afskaplega rökrétt. Börn verða ekki alltaf börn og þar kemur að til þeirra eru gerðar kröfur um að þau búi yfir þekkingu og færni til að geta tekist á við nám, störf og líf sem fullvaxta, ábyrgir einstaklingar. Ef þeir geta ekki lesið, tjáð sig með orðum, þannig að mark sé á takandi, verð ég að gera ráð fyrir að þeir rekist á veggi.
Þetta samhengi allt þarf að rannska svo hægt sé að tala um það á einhverjum vitrænum grundvelli og að skoðanir séu ekki afgreiddar sem bull og vitleysa.

3. Hversvegna koma strákar talsvert ver út en stelpur í könnuninni?
Er það vegna þess að þeir eiga í eðli sínu erfiðara með nám? Er það vegna þess að sá rammi sem skólinn er, hentar þeim ekki? Er meðferð skólakerfisins á þeim með einhverjum öðrum hætti en meðferðin á stelpum? Getur það verið að skólinn sé kvenlæg stofnun, með kvenlæg gildi, kvenlæga sýn  og kvenlægar aðferðir við nám, sem strákar í eðli sínu finna sig ekki eiga samleið með?  Getur verið að strákar haldi síður áfram í námi og gangi ver, vegna þess að sú mynd af náminu sem þeir fá í gegnum 14 ára mótun kvenna (meira og minna), gengur gegn eðli þeirra?  Gengur skólinn í of miklum mæli út frá því, að strákar og stelpur séu, að upplagi, eins?
Tölvunotkun hefur verið tiltekin sem mikilvægur þáttur í þeim mun sem þarna kemur fram og það má vel vera. Ég stóð sjálfur að könnun á tölvunotkun meðal hóps  framhaldsskólanema s.l. vor, og þar kom í ljós, mér til undrunar, að stelpur nota jafn mikinn tíma í tölvum, fyrir utan námstengda notkun, og strákar.

Ég get sjálfsagt haldið lengi áfram um þessi mál, mörgum til armæðu, og hver veit nema ég taki næst fyrir efniviðin sem framhaldsskólinn fær til að vinna úr, eftir að fólk hefur varið 15 árum með ástríkum foreldrum, velmeinandi leikskólum, og alltumlykjandi grunnskólum.  Þar er ótal spurningum ósvarað, t.d. hvort framhaldsskólinn sé í takt við það sem á undan er gengið? Þetta þarf að rannsaka áður er eitthvað er fullyrt út í bláinn.



* Reggio-Emilia- stefnan:    Í héraði á Ítalíu varð til eftir síðari heimstyrjöldina leið/stefna í uppeldi ungra barna sem hefur notið vaxandi athygli víða um lönd. Þessi uppeldisstefna er kennd við hérað á Ítalíu þar sem hún varð til og nefnist Reggio Emilia. Stefnan spratt upp að frumkæði foreldra sem var umhugað um að fasismi næði aldrei aftur að höfða til fólks. Þeir stofnuðu leikskóla sem áttu að ýta undir gagnrýna hugsun barnanna. Sálfræðingur að nafni Loris Malaguzzi var helsti höfundur að hugmyndafræði leikskólanna í Reggio Emilia. Hann gagnrýndi vestrænt skólakerfi og menningu og sagði hefðbundna skólann byggja á rökhyggju og kerfishugsun og að of rík áhersla væri lögð á tungumálið. Ekki væri litið til tilfinninga og innsæis, tjáning án orða ætti sér ekki viðreisnar von í hinu almenna skólakerfi, hugur og líkami væru aðskilin. Malaguzzi varð strax hugmyndafræðilegur leiðtogi leikskólanna sem átti eftir að fjölga. Starfið í skólunum var mótað af heimspeki, sálfræði, vísindum og listum. Uppeldisstarf Reggio leikskólanna byggist á hugmyndum Malaguzzi, auk kenninga Piaget, Dewey, Celestine, Freinet, Bruno Giari og Gianni Rodari (Berglind Káradóttir o.fl. 1994-5:4).
Malaguzzi lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að örva sjón og skynjun barns fyrir vitsmunaþroska þess. Skynjun er börnum mikilvæg til að geta tengt hluti og atburði fyrri reynslu. Barnið þarf að fá að vera sjálfstætt þegar það túlkar reynslu sína og upplifun, fullorðnir verða að varast að stýra skoðunum barna um of. Markviss örvun sjónskyns leiðir til lifandi og skapandi hugsunar sem er í senn hugmyndarík og raunsæ (Börn hafa hundrað mál 1988:7-8). Þannig beinist uppeldisstefna Reggio mjög að auganu sem sér og hendinni sem framkvæmir. Augað sér það sem höndin framkvæmir og tengir allt við þá heild sem heilahvelin mynda, það vinstra með orðagreiningu og það hægra með myndskyni sínu (Börn hafa hundrað mál 1988:14-15).*Uppgötvunarnám: 
** Uppgötvunarnám: Sú kennsluaðferð sem Jerome S. Bruner lagði áherslu á hefur verið kölluð uppgötvunarnám (e. learning by discovery). Að mati Bruners tileinkar nemandinn sér skipan námsefnis best með uppgötvunarnámi. Nemandinn leitar sjálfur að lausn viðfangsefna og aflar þekkingar til að svara spurningum sem vekja áhuga hans. Þessi kennsluaðferð er í eðli sínu aðleidd aðferð. Í framhaldi af þessu talar Bruner fyrir svokallaðri spíralaðferð við framsetningu á námsefni og þeirri skoðun sinni að kenna skuli undirstöðuatriði, meginlögmál eða „strúktúr“ fræðigreinar í stað einstakra þekkingaratriða. Nemandinn á ekki að læra að hrúga upp staðreyndum, hann á að læra að skipa staðreyndum í kerfi og nýta á þann veg þekkingu sína á tilteknum grundvallarlögmálum. Grundvallarhugsun hjá Bruner var að allar kennslufræðikenningar yrðu að ganga út frá sýn á þroska mannsins (Bruner, 1966). Hann leit einnig svo á að nám væri virkt, félagslegt ferli þar sem einstaklingurinn skapar nýjar hugmyndir og hugtök sem byggð eru á fyrri þekkingu. Félagsleg samskipti, í ólíku samhengi, eru lykilatriði í námsferlinu.

14 mars, 2012

Alhæfingar rétttrúnaðarins

Það vitum við vel, að þegar um er að ræða að halda fram málstað, er oftar en ekki gripið til alhæfinga. Þetta er afskaplega algengt meðal stjórnmálamanna, sem hika ekki við að tala um engan eða alla, þjóðina, eða mannkynið, ef það skyldi verða til að slá nokkrar keilur, litla stund.

Mér finnst málflutningur af þessu tagi með eindæmum hvimleiður. Látum vera ef talað væri um, t.d. alla kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem einn hóp, svo lengi sem aðrir landsmenn eru látnir í friði að þessu leyti.

Þeir eru nú ekki fáir sem telja sig búa yfir hinum eina sannleik í tilteknum málaflokkum. Þar hika menn aldeilis ekki við að flokka fólk undir sama hattinn, sem t.d. á fátt sameiginlegt nema kynið.  Svona flokkun er óskaplega auðveld: þú ert karl og þess vegna ertu svona, ef þú ert svartur þá ertu svona, ef þú ert Færeyingur þá ertu svona, og svo framvegis. Með flokkun af þessu tagi er verið að búa til svokallaðar stereotýpur, þannig, að ef eitthvert einkenni er til á einhverjum tilteknum hóp, þá á það við allan hópinn. Flokkun af þessu tagi felur í sér fordóma - fordómar finnst okkur flestum vera afar vondir.

Mér líkar illa að vera settur í flokk með ofbeldismönnum, nauðgurum eða svokölluðum karlrembusvínum, en ég á ekkert val um það - það er nefnilega ekki mitt að meta hvernig ég er.

Það er sama hvert litið er í samfélagi okkar, hvarvetna blasir "sannleikurinn" um hina ýmsu hópa við:

Börn eru...
Börn þurfa...
Prestar eru....
Alþingismenn eru....
Karlar eru......
Konur eru....
...það er sama hvar gripið er niður, allsstaðar blasir flokkunin við, oftar en ekki í formi einhvers rétttrúnaðar.

Nú ætla ég að fullyrða eftirfarandi:
Strákar fá ekki uppeldis- og námsumhverfi við hæfi, með þeim afleiðingum að þeir eru nú í miklum minnihluta í háskólanámi.
(Árið 2011 í háskólum á Íslandi: karlar 7681, konur: 12296 - heimild: Hagstofan)

Svo sest ég bara aftur í hægindastólinn (Lay-Z-Bojinn) minn og hugsa með mér:
"Let them deny it."

29 febrúar, 2012

Að klikka á stærsta hlutverkinu



Það er ansi athyglisvert að heyra að í fréttunum um að háskólakennarar á Íslandi kvarti yfir að nemendur nenni ekki að læra. Spurning hvaðan það kemur. Hérna í DK fara nemendur í grunnskólum aldrei í próf enda orkar það tvímælis að auka andlegt álag á börnin með slíkum óþarfa. Slíkt er heldur ekki í anda “janteloven” þar sem tryggja þarf að enginn skari fram úr heldur eiga allir að vera jafnir. Þetta er allt mjög göfugt einhverntíma kemur að því að svona hugsunargangur virkar ekki. Vinnumarkaðurinn vill væntanlega fá þá sem eru “bestir”, hvernig það svo sem er metið, fyrir utan að  allir lenda í því óréttlæti að þurfa gangast undir próf á seinni skólastigum. Þetta hefur maður orðið var við og þá sérstaklega Ásta, enda er hún í skóla með þessu liði. Það líður varla sá dagur að einhver fari ekki að grenja ( í alvörunni að grenja meina ég ) af því að eitthvað er ósanngjarnt í skólanum (t.d. eins og að þurfa hugsanlega að svara spurningu fyrir framan bekkinn). Þetta er fullorðið fólk…..hefði maður haldið. Virðist vera afurð kerfis sem virkar ekki. Útskýrir kannski hvers vegna u.þ.b þriðjungur aðspurðra meðal fólks sem er nýkomið út á vinnumarkaðinn hér er að kikna undan stressi sem getur varla talist skrýtið þegar þetta er í fyrsta skipti sem einhvers er krafist af viðkomandi. (Þorvaldur Skúli Pálsson), 

Það skiptir nú kannski ekki máli hver skrifar það sem stendur hér fyrir ofan, en ég nefni það samt að hann er talsvert skyldur mér.

Ég verð auðvitað að viðurkenna að við svona lestur hellist yfir mann eitthvert vonleysi um það sem framtíðin ber í skauti sér fyrir ofverndaða Vesturlandabúa. Sú þróun sem þarna er lýst er sannarlega á hraðferð um íslenskt samfélag, ef það er þá ekki komið jafn langt og þarna er lýst.

Ég viðurkenni líka, að ég nálgast hratt þann tíma þegar ég geng út úr ævistarfinu inn í, væntanlega friðsæl, elliárin. Í því ljósi get ég með talsverðum rétti sagt: "Til hvers að vera að ergja sig á þessu? Það hlustar enginn, hvert sem er. Fólk er að hugsa um aðra hluti, sem eru miklu mikilvægari; rétti einstaklingsins til umönnunar samfélagsins, þegar foreldrarnir geta ekki meir."

Ég er samt, í litlu, að klóra í bakkann, þó ekki nema til að ögra sjálfum mér og lesendunum mínum fáu. Í þau fáu skipti sem ég hef tekið mig til og ýjað að allri þessari aumingjavæðingu sem blasir við hvert sem litið er, hvernig foreldrar eru er bregðast í því stærsta hlutverki sem þeim er falið á lífsleiðinni, svona maður á mann, snýst umræðan óðar upp í stórfeminískar yfirlýsingar um að ég sé karlrembusvín (þó það sé auðvitað ekki sagt berum orðum).

Já, þetta er svo skemmtilegt - í einhverjum afbrigðilegum skilningi.

Skyldi ég fara á listann?


13 nóvember, 2011

Aumingjarnir litlu - þetta er svo erfitt!

Þessi mynd hefur gjarnan verið notuð í rökræðum um samræmd próf. Já, já, sannarlega er ósanngjarnt að gullfiskurinn þurfi að taka sama próf og apinn: reyna að klifra upp í tré. Við getum öll verið sammála um að það væri ójafn leikur og að gullfiskurinn myndi sennilega upplifa sjálfan sig sem tapara eftir þetta próf. Hann myndi skora miklu hærra í prófi þar sem reyndi á aðra þætti, til dæmis keppni í útlitsfegurð.  Það er jafn ósanngjarnt að ætlast til þess af hinum dýrunum á þessari mynd að reyna að klifra upp í þetta tré.

Ég geri ráð fyrir, að úr því það á að fara að prófa öll þessi ólíku dýr með sama prófinu, þá hafi þau öll verið samskonar námi - kannski námi í klifurfræði. Ef svo var, þá vaknar miklvæg spurning: hvernig kom það til að svo ólík dýr lentu í þessu sama námi? Hvernig var það ákveðið og af hverjum?
(Af myndinni að dæma eru dýrin búin að vera að læra fræði sín hjá manndýri, sem er nú ekkert sérlega þekkt af klifurgetu sinni).
Voru það foreldrar þessara dýra sem ákváðu að þau skyldi fara í þetta nám? Ef svo er, þá eru foreldrarnir sennilega annað hvort afar illa upplýstir um eðli og inntak námsins, eða þá að klifurfræðinám nýtur svo mikillar virðingar í samfélagi dýranna, að til að tryggja stöðu fjölskyldunnar, sjái foreldrarnir ekki aðra leið betri en setja afkvæmi sín í þetta nám.

Ég verð að viðurkenna, að mér finnst að betra hefði verið að setja þessi dýr í mismunandi nám strax til að byrja með. Þá hefðu aparnir lagt sig eftir klifurfræðinni, fuglarnir farið í flugnám, fílarnir í aflfræðina, mörgæsin hefði rústað suðurskautsfræðinni, gullfiskurinn hefði plumað sig vel í fyrirsætunáminu, selurinn í haffræðinni og úlfurinn í söngnáminu. Við þessar aðstæður hefðu allir fengið að nýta styrkleika sína og allir komið út úr dýraskólanum fullir sjálfstrausts. Það sem myndi þar að auki vinnast við þetta fyrirkomulag væri, að samfélag dýranna yrði miklu sterkara ef það hefði vel menntuð dýr í sem flestum greinum.

Þetta má ekki. Hversvegna skyldi það nú vera?
Jú, klifurfræðin nýtur virðingar umfram aflfræðinámið. Hún er eftirsótt. Kannski reynist fræðilegi hlutinn ekki vera fílnum um megn, en hann "sökkar" örugglega í verklega prófinu. 
Eðlilega vorkenna foreldrar fílsins honum að þurfa að fara í eins próf og apinn. Þeim finnst það ekki vera jafnrétti. Það þurfi að prófa í klifurfræðinni þannig, að allir standi jafnfætis. Foreldrunum finnst kannski líka, að það sé of mikið álag fyrir afkvæmin að þurfa að fara í svona próf. Það eigi bara að sleppa prófum.

Getur það verið (nú bara spyr ég eins og fávís karl) að með því að koma námi dýranna þannig fyrir að þau megi helst aldrei lenda í aðstæðum þar sem þau standa og falla með verkum sínum, eða getu, eða hæfileikum, þá muni samfélag þeirra veikjast með einhverjum hætti?  Hvað þarf eitt lítið samfélag dýra eiginlega mikið af klifurfræðingum, jafnvel sívaxandi fjölda doktora í greininni, kannski með doktorspróf í rannsókn sinni á samhæfingu hægri framlims í öðru klifurtaki?

Það er hægt að spyrja margs, en mín kynslóð er væntanlega farin að draga sig töluvert til baka í þessari umræðu. 

Því læt ég staðar numið núna - þurfti bara að koma þessu frá. Held kannski áfram síðar.



14 desember, 2010

Gegn straumnum

Það sem ég skrifa hér á eftir er ekki allra. 
Auðvitað er punkturinn sem ég vel til að senda þetta frá mér, af gefnu tilefni, sem enn skýtur stoðum undir áratuga skoðun mína á því hvernig námi verður best háttað. Ég er strax kominn með efasemdir um að rétt sé að leggja af stað í þessa vegferð, ekki síst vegna þess að hún virðist harla tilgangslaus. Ég er líklega kominn á það lífsskeið að það er auðvelt að afgreiða mig sem fastan í einhverri fortíð og að ég beri ekki skynbragð á nútíma skólastefnur.

Það má bara vel vera.

Á þessum tímapunkti nenni ég nú ekki að fara út í að skrifa langloku máli mínu til stuðnings, því enda þótt ég eigi nokkra trausta og rétthugsandi lesendur, þá lít ég bara á það sem of mikla vinnu fyrir ekki meira fjölmenni.

Í mínum huga felst traust nám í því af öðlast góða heildarmynd. 
Það er byrjað að mála þessa mynd strax í fæðingu í faðmi foreldra, síðan fer málningarvinnan fram með stöðugt skipulegri hætti í leikskóla og grunnskóla. Í framhaldsskólanum hefst ákveðin sérhæfing, en þó þannig, að mikilvægi almennrar þekkingar og færni fá að fylla út í málverkið og tengja þannig saman þá fleti sem fókusinn er mestur á. 
Í lok framhaldsskólans á að vera komin góð mynd á verkið. Þá tel ég eðlilegt að þess sé farið á leit að viðkomandi geti gert grein fyrir myndinni, lýst henni og því samspili sem á sér stað milli ólíkra þátta hennar. 
Til að vera nú ekki að týna mér í þessari samlíkingu þá þýðir þetta einfaldlega, að það er í mínum huga afskaplega mikilvægt í menntun ungs fólks að það öðlist heildarmynd af því samfélagi sem það á eftir að eyða ævinni í: sögu þess, menningu þess, reglum þess, samskiptum innan þess, ábyrgð sinni innan þess, og svo framvegis, og svo framvegis. 
Nú, þegar samfélagið er flóknara en nokkurn tíma og því enn meiri ástæða til að tryggja staðgóða þekkingu á því og færni til að komast af innan þess, er drifið í því, undir taktslætti útrásarvíkinga, að stefna að því leynt og ljóst að stytta nám í framhaldsskólum. 

Það voru sett ný lög.

Við erum búin að komast að því á undanförnum árum, að það er ekki allt með felldu í íslensku menntakerfi. Þetta bara fullyrði ég, og ætla ekki hér og nú að leiða að því rök, enda tel ég þess ekki þörf.

Kröfur eru stöðugt að aukast á skóla um innra eftirlit og skýra markmiðssetningu. Þetta er komið á það stig að ég, í það minnsta, fæ það á tilfinninguna, að eftirlitið og markmiðssetningin séu að verða mikilvægara í skólastarfi en að koma unga fólkinu til manns. Það má halda því fram, að skólum sé ekki lengur treystandi til að sinna meginhlutverki sínu af bestu getu.

Það hefur verið að aukast stemning fyrir því að búta námið niður í vel skilgreindar einingar, án þess að úr því myndist hin nauðsynlega heildarmynd. Svo ég taki aftur samlíkinguna við málverkið. Bútanámið felur í sér, að það er málað þetta fína græna hús í hægra hornið. Svo er það bara búið. Því næst er máluð rauð glæsibifreið í vinstra hornið. Svo er hún búin. Þá kemur þessi dásamlega manneskja í óræðum lit efst fyrir miðju. Henni er þar með lokið.  Það sem vantar í þessa mynd er samhengið milli þessara þátta. Hvernig tengist t.d. bíllinn húsinu, eða manneskjan bílnum? Hvernig leiðir liggja þarna á milli? Það er sem sagt talsverður skortur á bakgrunni í þessa mynd.

Skyldi það vera svo, að hraðnámið sem hefur verið til umræðu undanfarna daga sé eitthvað í likingu við svona mynd. Er ekki hætta á að myndin sem verður máluð með styttra námi í framhaldsskólum verð jafn brotakennd.

Í stuttu máli:
Ég vil 4 ára námí framhaldsskóla þar sem náminu lýkur með því að nemandinn geti lýst allri myndinni sem hann er búinn að vera að mála undanfarin 20 ár. 

Þá er hann tilbúinn til að halda áfram.

23 október, 2010

"Ég á rétt á......." (2)

framhald...

Hér var komin fram kynslóð sem var afsprengi nýrrar tegundar uppeldis. Hún var þeirrar skoðunar að hún gæti fengið allt og gæti gert hvað sem var. Hún hafði alist upp við efnishyggjublandaða helgarást foreldra sinna og notið þess að fá allt upp í hendurnar. 
Á sama tíma og þessi kynslóð var að vaxa úr grasi var fræjum hrunsins sáð af spilltum stjórnmálaöflum. Frelsi varð lykilhugtakið, ríkið varð hið illa í mannlegu samfélagi. 
Þegar saman fer sjálfhverf kynslóð og nánast ótakmarkað frelsi til athafna, má í rauninni alveg giska á útkomuna.
Þessi kynslóð vildi verða rík (á þessum tíma spurði ég nemendur mína oft hvað þau teldu vera eftirsóknarverðast í lífinu og svarið var ávallt ríkidæmi. Tillögur mínar um annað mættu talsverðri andúð). Þessi kynslóð sá brátt jafnaldra sína auðgast ógurlega. Það voru jafnaldrar þeirra sem stofnuðu fyrirtæki og hlutafélög og keyptu síðan og seldu þannig að hagnaðurinn fór upp í áður óþekktar upphæðir. Hvað skyldi kynslóðin hafa hugsað við þessar aðstæður? Það er einfalt. Fyrst Jón, svona venjulegur maður getur orðið ríkur þá get ég það líka. Ég á rétt á því að eiga jafn mikið af peningum og hann. Auðvitað gerðist það á sama tíma, að bankarnir voru einkavæddir og peningar virtust flæða um allt. Hver og einn gat fengið lán nánast eins og hann bað um. Þau eru örugglega mörg dæmin sem má tína til um fólk sem taldi það rétt sinn að eignast fullbúið einbýlishús og nýjan bíl án þess að hugsa langt fram í tímann hvernig það gæti síðan greitt af lánunum. Kannski er hún dálítið dæmigerð sagan af manninum, sem vann á bifreiðaverkstæði, fyrir venjulegum launum, sem langaði í einbýlishús fyrir sig og litlu fjölskylduna sína. Svo langaði hann líka í bíl. Hann uppfyllti ekki kröfur um tekjur til að geta fengið 100% lán í einkarekna bankanum. Hann bað því vinnuveitanda sinn um að votta það að laun hans væru miklu hærri en þau voru í raun. Hann fékk 100% lán, Hann keypti einbýlishús. Hann keypti flottan, nýjan bíl. Síðan fóru hlutirnir að fara á verri veg. Hann þurfti að fara að greiða af láninu. Það var erfitt. Svo kom hrunið. Þá varð það ómögulegt. Honum fannst það óréttlátt og fór að berja tunnur og skrifa vanstillta mótmælastatusa á fésbókina, til að mótmæla því að það hafði ekki verið byggð um hann skjaldborg. Húsið fór á uppboð og bíllinn var tekinn. 

Við ólum af okkur þessa kynslóð sem þekkti ekkert nema allsnægtir, sem kunni sér ekki hóf, sem trúði því að hún yrði bara ríkari og ríkari og myndi vel ráða við lánin sín. Hér var á ferðinni íslenska útgáfan af ameríska draumnum. Þetta er kynslóðin sem ég hef stundum kallað "ÉG-NÚNA"-kynslóðina. Þetta er kynslóðin sem er nú að vakna upp við það að allt er breytt. Það er harkaleg lexía. Henni fylgja oft persónulegar hörmungar.  Nú vill kynslóðin, börnin okkar, koma málum þannig fyrir, að við, foreldrarnir, tökum á okkur skuldir þeirra. Kannski er það réttmæt krafa. Við kenndum þeim að allt væri hægt og að þau gætu fengið allt. Við kenndum þeim vitlaust. Kannski hefðum við átt að leggja  áherslu á önnur gildi.

--------------------

Ég er hér búinn að draga hér upp ákveðna mynd af samfélagsgerð sem hefur sett þessa þjóð á ystu nöf. Auðvitað er það ekki svo, að þessi mynd eigi við alla sem tilheyra minni kynslóð og kynslóð barna okkar, hinsvegar tel ég að hún skýri margt sem hér hefur gengið á.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...