Það er ansi athyglisvert að heyra að í fréttunum um að háskólakennarar á Íslandi kvarti yfir að nemendur nenni ekki að læra. Spurning hvaðan það kemur. Hérna í DK fara nemendur í grunnskólum aldrei í próf enda orkar það tvímælis að auka andlegt álag á börnin með slíkum óþarfa. Slíkt er heldur ekki í anda “janteloven” þar sem tryggja þarf að enginn skari fram úr heldur eiga allir að vera jafnir. Þetta er allt mjög göfugt einhverntíma kemur að því að svona hugsunargangur virkar ekki. Vinnumarkaðurinn vill væntanlega fá þá sem eru “bestir”, hvernig það svo sem er metið, fyrir utan að allir lenda í því óréttlæti að þurfa gangast undir próf á seinni skólastigum. Þetta hefur maður orðið var við og þá sérstaklega Ásta, enda er hún í skóla með þessu liði. Það líður varla sá dagur að einhver fari ekki að grenja ( í alvörunni að grenja meina ég ) af því að eitthvað er ósanngjarnt í skólanum (t.d. eins og að þurfa hugsanlega að svara spurningu fyrir framan bekkinn). Þetta er fullorðið fólk…..hefði maður haldið. Virðist vera afurð kerfis sem virkar ekki. Útskýrir kannski hvers vegna u.þ.b þriðjungur aðspurðra meðal fólks sem er nýkomið út á vinnumarkaðinn hér er að kikna undan stressi sem getur varla talist skrýtið þegar þetta er í fyrsta skipti sem einhvers er krafist af viðkomandi. (Þorvaldur Skúli Pálsson),
Það skiptir nú kannski ekki máli hver skrifar það sem stendur hér fyrir ofan, en ég nefni það samt að hann er talsvert skyldur mér.
Ég verð auðvitað að viðurkenna að við svona lestur hellist yfir mann eitthvert vonleysi um það sem framtíðin ber í skauti sér fyrir ofverndaða Vesturlandabúa. Sú þróun sem þarna er lýst er sannarlega á hraðferð um íslenskt samfélag, ef það er þá ekki komið jafn langt og þarna er lýst.
Ég viðurkenni líka, að ég nálgast hratt þann tíma þegar ég geng út úr ævistarfinu inn í, væntanlega friðsæl, elliárin. Í því ljósi get ég með talsverðum rétti sagt: "Til hvers að vera að ergja sig á þessu? Það hlustar enginn, hvert sem er. Fólk er að hugsa um aðra hluti, sem eru miklu mikilvægari; rétti einstaklingsins til umönnunar samfélagsins, þegar foreldrarnir geta ekki meir."
Ég er samt, í litlu, að klóra í bakkann, þó ekki nema til að ögra sjálfum mér og lesendunum mínum fáu. Í þau fáu skipti sem ég hef tekið mig til og ýjað að allri þessari aumingjavæðingu sem blasir við hvert sem litið er, hvernig foreldrar eru er bregðast í því stærsta hlutverki sem þeim er falið á lífsleiðinni, svona maður á mann, snýst umræðan óðar upp í stórfeminískar yfirlýsingar um að ég sé karlrembusvín (þó það sé auðvitað ekki sagt berum orðum).
Já, þetta er svo skemmtilegt - í einhverjum afbrigðilegum skilningi.
Skyldi ég fara á listann?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli