26 febrúar, 2012

Þrútin þjóð af visku......eða er það svo?

MANIMAL 

Mér hefur nú ekki sjaldan blöskrað hvernig þjóðin sem ég tilheyri opinberar grunnhyggni sína og almennt vitleysi. Þetta hefur nokkuð oft orðið mér umfjöllunarefni hér. Á síðustu dögum virðist eins og æ fleiri séu að koma út úr skápnum með samskonar skoðanir.

Þeir sem eiga sitt undir því að þjóðin velji þá sem fulltrúa sína hér og þar, mega með engu móti anda því út úr sér, að þjóðina kunni að skorta nokkuð upp á almenna skynsemi eða vit. Einn þingmaður hélt því fram að eitthvert tiltekið brot þjóðarinnar gengi ekki heilt til skógar að þessu leyti og uppskar mikinn hávaða og hann mun væntanlega ekki reyna að bjóða sig fram aftur.

Þjóðin er góð í drama. Þegar um er að ræða málefni þar sem mögulega er hægt að hneykslast, þá tekst okkur sannarlega vel upp, auðvitað með dyggri aðstoð fjölmiðla sem þekkja hvað gengur í okkur - hvað selur.
Við erum líka sérlega góð í að takast á við mál sem eru tiltölulega einföld - svona vondi kallinn, góði kallinn mál. Við getum meira að segja eytt tíma í að fjalla um hvernig einhver meintur skúrkur í útlöndum virðist hafa rekið heilt vændishús, en vissi það ekki. Við erum svo góð í þessum "human interest" málum, því þau kalla fram frumstæðustu tilfinningar okkar - gleði, sorg, reiði o.s.frv. Þarna erum við á heimavelli. Þessar tilfinningar sjáum við einnig meðal dýra merkurinnar - þetta eru sem sagt ekki þær tilfinningar sem greina manninn frá öðrum dýrum.

Maðurinn hefur talið sig vera talsvert frábrugðinn öðrum spendýrum, ekki síst vegna vitsmunalegra yfirburða sinna. Heilinn í okkur á að gera okkur mögulegt að, t.d.
- greina sundur orsök og afleiðingu,
- lesa í það sem sagt er og skrifað,
- velta fyrir okkur aðstæðum og draga ályktanir,
- setja okkur í spor annarra.
Vandinn við þessa þætti er, að þeir krefjast þess af okkur að við leggjum eitthvað á okkur, gagnstætt hinum frumstæðu tilfinningum.
Við nennum ekki að leggja neitt á okkur lengur.
Það sem er auðvelt er gott og skemmtilegt, það sem er erfitt er vont og leiðinlegt.
Við erum þjóðin sem búið er að ala upp í allsnægtum.
Við teljum okkur eiga allan rétt í heimi til að gera það sem okkur þóknast.
Við nennum ekki að hugsa það út, að ef skuldir eru felldar niður einhversstaðar, þá þarf að borga þær annarsstaðar, ef skattur er lækkaður hér, þá verður annað hvort að draga úr þjónustu, eða leggja skattinn á einhverja aðra.
Við nennum ekki að hugsa það út að staða mála í þessu þjóðfélagi er að öllum líkindum ekki sök núverandi stjórnvalda.
Við nennum ekki að leita skýringa á því, að það er að stærstum hluta sá þjóðfélagshópur sem minnst má sín, sem styður þá stjórnmálastefnu sem er síst líkleg til að bæta kjör hans.
--------------------------

Þá er þetta uppsafnaða blástursfóður komið frá og ég held áfram með lífið.

Já, ég er hrokafullur í meira lagi.

Njóttu dagsins, Bragi :)

3 ummæli:

  1. Dásamlegt! Dásamlegt! Dásamleg grein. Ætla að dreifa henni um landsbyggðina að geðþótta ef þú stoppar ekki það atferli mitt innan sólarhrings.

    Hirðkveðill Kvistholts...

    SvaraEyða
  2. He he
    Dásemdin þessi er nú ekki líkleg til rata þangað sem hún þyrfti að ná, ekki frekar en aðrar yfirvegaðar pælingar um lífið og tilveruna.

    Takk samt, fH

    SvaraEyða
  3. Nei, það er sussum rétt miðað við þá raunverulegu vini sem ég á... en ég leyfi þeim þá bara að njóta með mér vitneskjunnar um að enn eru til sæmilegir menn á landinu (sæmd)

    fH - Hirðkv.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...