04 mars, 2012

Það kólnaði þegar á leið daginn

"Ég ætla að skjótast í myndaleiðangur eftir hádegið" tilkynnti ég í morgun, enda veðrið eins og best verður á kosið á þessum árstíma. Það var blankalogn í Laugarási, sem er nú svo sem ekkert nýtt, sólin glampaði á bláum himni, hitinn reyndi að ákveða hvorum megin frostmarks hann ætti helst að halda sig. Upp úr hádeginu lét hann verða af því að skjótast aðeins uppfyrir núllið.


Ég ákvað að leita að nýju sjónarhorni á mitt klassíska myndefni - nenni nú ekkert að vera að keyra langar leiðir fyrr en ég met það svo að ég hafi endanlega tæmt þann fjársjóð sem nánasta umhverfi mitt er. Við fD héldum sem leið lá út yfir á, að vegi sem lliggur í sumarbústaðaþyrpinguna sem þarna er. Það var hlið með lás fyrir sem sá til þess að úr þessu varð ágæt hreyfing, en leiðin lá smám saman hærra í hálendið umhverfis Iðu, svo hátt að Laugarás blastir talsvert vel við linsunni. Þegar hér var komið var orðið nokkuð skýjað, en þó skaut sól geislum niður hér og þar.

Ég smellti og smellti og smellti... blés og blés og blés (það þurfti að ganga upp í móti).

Að lokinni myndatöku héldum við heim á leið og ég settist við að koma myndunum í gegnum Photomatix, sem ég nota við að búa til HDR. Þarna var klukkan að verða þrjú. Þá, eins og hendi væri veifað, fór að snjóa og hvasst hringrokið skall á glugga, nánast eins og gjörningaveður. Myndirnar, hver annarri fegurri hurfu inn í möppu og ég ákvað af rælni að kíkja á vefmiðlana.........."Ólafur ætlar........" Nei, nei, nei! - o, sei sei - jæja, ætlar hann að gera það, karlinn?

Þetta hefur verið svona venjulegur, íslenskur dagur: það virðist vera að að birta og vorið handan við hornið þegar náhvít hönd vetrarins leggur vonina í fjötra.

Myndirnar er að finna hér.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...