10 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (3)

Framhald af þessu

Þau fÁ og hS búa í hverfi í Dúbæ sem kallast  Sustainable city. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir framan er hægt að fá hugmynd um hvað þar er um að ræða. Fyrir þau ykkar sem ekki vita, þá er bein þýðing á nafni þessa hverfis "Sjálfbæra borgin", sem auðvitað þýðir að hverfið er beinlínis byggt með það í huga að innan marka þess sé sjálfbært samfélag. Ég hef nú reyndar átt í nokkrum vandræðum með það gegnum tíðina að skilja þetta hugtak "sjálfbær" fyllilega, en skil það í stórum dráttum þannig að sjálfbært svæði eða samfélag, sé mikið til sjálfu sér nægt og valdi ekki skaða á auðlindum og svo framvegis. 

Sjálfbæra hverfið


Dúbæbúarnir sóttu okkur fimmenningana þarna á flugvöllinn í tveim bifreiðum sínum og fluttu okkur til síns heima aðfaranótt 22. október. Þarna var um að ræða um það bil hálftíma akstur, sem var langt umfram það sem ég hafði svo sem átt von á. Aðallega var það nú vegna þess að hugmyndir mínar um þetta furstadæmi komu ekki heim og saman við raunveruleikann, eins og hann birtist mér þessa nótt og dagana sem á eftir fylgdu. Það var margt sérstakt þarna, sem ég vonast til að geta varpað lítilsháttar ljósi á hér, þótt síðar verði.

Þetta er kannski tækifæri til að geta þess, að við ritun þessa texta, hyggst ég einbeita mér að upplifun minni, sem kann að víkja talsvert frá upplifun hinna ferðafélaganna, svo ekki sé nú talað um reynslu og þekkingu Dúbæbúanna á svæðinu. Þannig verður þetta bara að vera og vanþekking mín og mögulegir fordómar verða bara að fá að njóta sín.

Varðmaður í Sustainable city -
myndin tekin af vefnum.
Þar sem við komum þarna um nóttina að þessu hverfi þar sem Dúbæingarnir búa, var fyrst komið að slá yfir götuna. Þar var varðmaður í búri sínu. Ég komst aldrei að því, hvort hann þurfti að lyfta slánni með því að ýta á hnapp, eða hvort skynjari las bílnúmerið og sendi frá sér merki um að slánni skyldi lyft. Það breytir svo sem engu. Sláin fór upp og dúbæski ökumaðurnn veifaði kumpánlega til varðmannsins um leið og hann ók í gegn. Svo var haldið lengra inn í hverfið og viti menn, þegar komið var inn í þann hluta þessarar sjálfbæru borgar, þar sem hús Dúbæinganna stendur, blasti við önnur slá yfir götuna og annar varðmaður, sem þurfti að hleypa okkur í gegn. Þarna er um að ræða tvöfalda sólarhringsvörslu á svæðinu. 
Mér láðist nú að spyrja hvort svona væri staðið að málum í öllum hverfum þessarar borgar, en allavega komum við síðar í ferðinni inn í annað íbúðahverfi, sem varið var með þessum sama hætti.  Mér skildist að stærstur hluti íbúanna í þessari sjálfbæru borg, væru útlendingar, mikið til komnir frá vesturlöndum.

Sustainable City - yfirlitsmynd og dæmigerð íbúð. Myndir af vefnum. 

Ekki fjölyrði ég um húsnæðið sem þarna beið okkar. Öll herbergin reyndust vera með baði og sér loftkælingu, þannig að aðbúnaðurinn var eins og hóteli með slatta af stjörnum. 
Svo tók svefninn við og nokkur spenningur fyrir því sem byði morguninn eftir. 

Mig grunar, að ef ég held svona áfram um það sem ferð fól í sér, muni úr verða helst til mikil langloka. Ég mun því reyna að draga úr orðaflóðinu eins og kostur reynist, í því sem fylgir. Það verður að láta á það reyna, hvort það tekst. 

Skipulag ferðarinnar gerði ráð fyrir að fyrsti dagurinn færi í að hvíla sig eftir ferðalagið, enda engin unglömb þarna á ferð. Þetta var vel til fundið og tími gafst til að ná aðeins áttum og ræða stöðuna og framhaldið og mögulega fá sér smók.
Til að ferðast um innan hverfisins, hafa íbúar aðgang að rafmagns "buggy" bílum, eins konar skutlum, sem geta flutt 4 farþega. Íbúar hafa kort sem þeir geta notað til að nálgast ýmsa þjónustu innan hverfisisn, meðal annars til að virkja þessi farartæki og til að komast í sundlaugina. Leið okkar lá einmitt í sundlaugina á fyrsta degi okkar í Dúbæ, til að innbyrða D-vítamín, og/eða kalla fram sólaexem eða annað skemmtilegt. Þetta var ágætur dagur afslöppunar, og til að safna kröftum fyrir næsta dag, en hann kemur til skoðunar næst.




09 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (2)

Framhald af þessu.

Fyrst aðeins um Dúbæ, sem er hluti af Sameinuðu arabísku furstadæmunum, sem eru 7 að tölu. Þau eru, auk Dubai, Abu Dhabi, sem er langstærst að flatarmáli, Sharjah, Ajman, Umm Al Quwain, Ras Al Khairmah og Fujairah.  Höfuðborg þessara furstadæma er Abu Dhabi, en Dubai er þettbýlasta borgin og  einkonar alþjóðleg miðstöð á svæðinu með þennan feiknastóra alþjóðaflugvöll sem við áttum leið um. 
Olíuframleiðsla Dubai fer stöðugt minnkandi að sögn kunnugra og áherslan á ferðaiðnað eykst að sama skapi. Það eru stórar fyrirætlanir fyrir svæðið og markmiðið sett á að tvöfalda íbúafjöldann á næstu 10 árum, úr 4 milljónum í 8. Þetta sást glöggt á gríðarlegum byggingaframkvæmdum hvar sem drepið var niður fæti.  Meiri fróðleikur um ýmis skringilegheit í Dúbæ síðar.

Flugstöðin í Dúbæ

Þar sem við komum þarna úr flugvallarstrætó inn í flugstöðina, blasti við kona sem hélt á skilti með nöfnum okkar fimmmenninganna. Það var aldeilis ekki vegna þess að til stæði að hindra för okkar, skal ég segja ykkur. Ætli sé ekki rétt að útskýra þetta aðeins. 
Þannig var, að sögur höfðu borist af því til landsins bláa, að flugstöðvarbyggingin væri ógnarstór og fyrri gestir hefðu þurft að ganga á annan kílómetra til að komast þar á milli staða. Auðvitað stökk fD af þessum sökum, á upplýsingar frá Dúbæ um, að það væri hægt að panta fylgdarþjónustu frá flugvél að útgangi. Það hafði sem sagt verið gengið frá því, að hS pantaði þjónustu af þessu tagi fyrir tengdaforeldra sína og okkur hin. Það skildist okkur, að með því móti myndi bíða okkar rafmagnsknúinn kaggi, sem myndi síðan flytja okkur sem leið lá gegnum vegabréfaeftirlit og töskumóttöku.

Konunni með skiltið fylgdi enginn rafmagnskaggi, heldur benti hún okkur á að fylgja sér að stærðar lyftu, sem flutti okkur á næstu hæð fyrir neðan (eða ofan - hvað veit ég). Þegar úr lyfunni kom blasti við mikið kraðak af fólki sem beið þess að komast í gegnum vegabréfaeftirlit. Fylgdarkonan fór hinsvegar með okkur í gegnum sérstakt hlið, sem lá beint að borði, þar sem hvítklæddur landamæravörður tók ljúflega á móti okkur, skoðaði vegabréfin og tók af okkur andlitsmyndir.  Lítið mál það. 

Þessu næst leiddi konan okkur áfram inn gríðarstóran sal og þar bættist henni liðsauki, karlmaður, sem þýddi að við vorum komin með tvær fylgdarmanneskjur. Þau fóru með okkur að töskufæribandinu og sögðu okkur að setjast niður og bíða meðan þau fyndu töskurnar okkar. Ekki neita ég því, að mér fannst nú ekkert sérlega þægilegt að sitja þarna og fylgjast með ókunnugu fólk leita að töskunum okkar, sem við vissum hvernig litu út og hefðum því haft minna fyrir að finna. Fylgdarfólkið var búið skönnum sem það notaði við að þefa uppi töskurnar.

Fylgdarfólk leitar að töskum, Dúbæfarar slappa af.

Hátt til lofts og vítt til veggja
Töskurnar fundust, að sjálfsögðu og þá var bara að koma sér út með farangurinn. Auðvitað sá fylgdarfólkið um töskurnar, en við fylgdum, eins og fínt fólk, sem við vorum auðvitað.  Gangan reyndist enginn kílómetri, svo það hefði verið harla ankannalegt að keyra þessan spotta í rafmagnsrútu. 
Fljótlega komum við að þar sem fólk beið til að taka á móti flugfarþegum og meðal þess voru Dúbæingarnir, fÁ og hS, sem ætluðu að vera gestgjafar okkar næstu 10 daga, eða svo.  Þau voru auðvitað á tveim bílum, ekki dugði nú minna. Svo var haldið frá flugstöðinni að áfangastað, sem reyndist miklu lengra í burtu en ég hafð ímyndað mér. Reyndar var bara allt miklu stærra en ég hafði ímyndað mér, ef út í það væri nú farið.

Fyrir utan það að hitinn sem skall á okkur þegar við stigum úr flugvélinni var rúmlega 30°C, þá var mistur í lofti, sem okkur var tjáð að væri einskonar blanda af  sandryki frá eyðimörkinni og einhverskonar raka í lofti.  

Svo fór nú, eins og reikna mátti með, að síðasta legg ferðarinnar lauk á heimili Dúbæinganna þegar nokkuð var liðið á nótt.  Þau búa í borgarhverfi sem er all sérstakt, svo ekki sé meira sagt, en frá því segir næst.

Sæludagar í sandkassanum (1)

fS, fA og fD með Burj Al Arab í baksýn. 
Í baksýn má greina á himni helstu martraðarsviðsmynd
ferðarinnar, sem ekki raungerðist.
Ferðin sem hér er ætlun mín að gera tilraun til að varpa nokkru ljósi á, á sér margra ára aðdraganda. Hún varð ekki eins uppsett og upphaflega var ætlun fD, en hún hafði hugsað sér sð við færum tvö í einhverja svakalega reisu, sem ætti endapunkt í Ástralíu, en með viðkomu í Dúbæ við Persaflóa í bakaleiðinni, þar sem áð skyldi í einhverja daga til að njóta getrisni Dúbæ-búandi frændfólks hennar. Ég spyr mig auðvitað, hvort undirtektir mínar hafi ef til vill ekki verið nægilega afgerandi til að af þessu ferðalagi yrði á þeim tíma. Við því er ekkert svar. Það má hinsvegar velta fyrir sér, hvort skipulag ferðar af þessu tagi hefði reynst mér ofviða, þar sem þarna hefði ég þurft að stíga ansi langt út fyrir þægindarammann.

Draumurinn um Dúbæferð lifði þó áfram.


Ætli sé ekki að verða ár síðan hugmyndir um þessar ferð fóru að taka á sig skýrari mynd. Áður en lengra er haldið er rétt að greina aðeins frá fólkinu sem hér kemur við sögu. Þar ber fyrst að nefna Þorvaldsdætur, sem ólust upp hjá foreldrum sínum í Kópavogi í árdaga og eru nú allar komnar á eða að nálgast áttræðisaldurinn. Þetta eru þær Dröfn (fD) sem býr nú á Selfossi, Auður (fA) sem hefur búið um langt árabil í Ishøj í kóngsins Kaupmannahöfn og Sóley (fS), sem situr á föðurleifð sinni í Kópavogi. Systrunum til aðstoðar í þessu ferðalagi voru svo Anfinn (hA) sem fæddur er og uppalinn Færeyingur, og eiginmaður fA og svo sá sem þetta ritar, sem gegndi sérstöku hlutverki aðstoðarmanns fD.  Loks ber að geta fólksins sem fékk það hlutverk að taka við þessum fimm  manna hópi og leiða í allan sannleik um lífið í sandkassanum þarna austurfrá; arabíska furstadæminu Dúbæ. Þetta eru hjónin Áslaug (fÁ), dóttir fA og hA og Sören Ekelund (hS). Þau hafa búið í Dubai um árabil og komið sér þarvel fyrir.

Ferðin raungerist.

Það varð úr að Þorvaldsdætur ákváðu ýmislegt:
1. Að ferðin skyldi eiga sér stað í síðari hluta októbermánaðar, þar sem þá yrði farið að kólna nokkuð á Arabíuskaganum.  Rannsókn leiddi í ljós,að sumarhitinn á þessum slóðum geti verið frekar lítt þolandi, meðalhiti í júní til ágúst er 33-42°C, í október er hann að jafnaði 30-38°C.

2. Að verða sér úti um viðeigandi höfuðbúnað, til að fá inngöngu í bænahús múslima, mosku. Mér fannst eiginlega, að þessi slæðumál væri alltaf stærsta ákvörðunaratriðið. Frænka í sandkassanum fékk það hlutverk að útvega sérhannaðar slæður, þannig að engin hætta yrði á því að virðulegar vestrænar konur yrðu sér til minnkunar þegar  í moskuna kæmi.



Það var ekki nóg með það, heldur var gerð tilraun til mátunar á mismunandi hyljandi slæðum, með aðstoð AI var gerð við Austurveginn. 

Upphaf ferðar.

Nú, þetta hófst allt með eðlilegum hætti, þannig séð. Það var þó alltaf nokkur óvissa um það hvernig ástandið við botn Miðjarðarhafsins yrði og á tímabili voru jafnvel uppi efasemdir um að  óhætt yrði að leggja leið þarna austur eftir, en slagur var látinn standa. 
Þorvaldsdætur á leið að flugvöllinn

Íslandsbúandi hluti hópsins flaug til Kaupinhafnar þann 19. október og gisti þar hjá Íshæðarhjónunum í tvær nætur, áður en Emirates flugvélin hóf sig til flugs með hann innanborðs, mánudaginn 21. október.
Sögur höfðu gengið af flugferðum með þessu flugfélagi, sem leiddu til allmikillar tilhlökkunar, en búist hafði verið við rúmgóðum sætum og þjóni á hverjum fingri alla leið. Þetta reyndist svo bara vera venjuleg flugvél, með venjulegum flugvélamat. Engin gullslegin hnífapör eða sérhannaðir matardiskar. 
Það var auðvitað hægt að fylgjast með flugleiðinni á skjá fyrir framan sig, en hún lá yfir Miðjarðarhafið í grennd við Kýpur og síðan í sveig framhjá átakasvæðum, þannig að við, með mismikinn móral yfir þessu ferðalagi okkar á þessum slóðum, þyrftum ekki að berjast við aukinn hjartslátt með kvíðahnút í maganum.


Á kortinu af flugleiðinni mátti einnig sjá í hvaða átt Mekka var hverju sinni, sem auðvitað hentaði vel þeim sem þurftu af hafa það í huga.
Svo segir ekki af flugferðinni fyrr en lent var í Dúbæ um miðnætti, eftir um það bil 6 klukkustunda ferð.

Flugvallarstrætó tók við okkur úr flugvélinni og ók með okkur ógnarlengi þar til komið varð að inngangi í flugstöðina. Þar sem við komum þar inn blöstu nöfn okkar við á skilti, sem hefði getað verið áhyggjuefni, en var þvert á móti talsvert gleðiefni, af ástæðum sem greint verður frá í næsta þætti.



29 september, 2024

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa.

Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi með krónur, sem hefðu allt eins getað lent annarsstaðar en á mínum bankareikningi. Við þær aðstæður þurfti ég að ákveða hvað gera skyldi við þennan aur. 
  
Ég hafði komist að því, að skjávarpa eins og þann sem ég hafði greitt fyrir hjá Snjallkaupum, var hægt að fá á nákvæmlega helmingi lægra verði á AliExpress. Ágætur peningur fyrir Snjallkaupsmenn að leggja 100% á vöru fyrir það eitt að vera milliliður með staðlaða frasa á íslensku í kynningarefni sínu.
Hvað um það, þarna var ég kominn í nokkurn gír og ákvað bara að nýta endurgreiðsluna til þess að kaupa skjávarpa frá Ali Express. Hann myndi þá ekki gera annað en koma ekki.

Þann 20. september pantaði ég, sem sagt skjávarpa, sem var helmingi dýrari en sá sem ég hafði áður pantað frá Snjallkaupum, eins og verðið var á honum hjá Ali Express. 
Til að útskýra þetta á einfaldan hátt:
Skjávarpi A kostaði tæpar 15.000 kr hjá Snjallkaupum, en 7500 hjá Ali Express.
Skjávarpi B kostaði kr. 15.000 hjá AliExpress - og það var hann sem ég festi kaup á. Þetta var sem sagt merkilegri græja.

Ali lét mig vita af því að það gæti dregist fram í lok desember, að pakkinn næði til mín og því var ég bara rólegur.  Ég upplýsti fD ekki um kaup mín á þessum skjávarpa. Ég þyrfti þá ekki að fara að verja neitt, ef hann kæmi aldrei. 


Mér til óumræðilegrar undrunar fékk ég tilkynningu um það í gær, 8 dögum eftir pöntunina, að skjávarpinn biði mín í póstboxi.   
Þegar framundan var, að ég nálgaðist hann, þótti mér óhætt að upplýsa frúna um stöðu mála. Ekki get ég nú sagt að hún hafi steypt stömpum af fögnuði, en það "slædaði".
Skjávarpinn reyndist vera í póstboxinu, eins og  skilaboð póstsins höfðu gefið til kynna.


Þetta er búið að vera nokkurt ævintýri í hinum óáþreifanlega heimi sem internetið er. Eftir situr spurningin um hvernig þessi skjávarpi getur nú komið að sem bestum notum.
Það hafa komið fram ýmsar áhugaverðar tillögur í því efni - það verð ég að segja, en svo segi ég ekki meira.

Þakkir til ykkar sem lesið hafa. Farið varlega í viðskiptum við vefverslanir.  



 

22 september, 2024

Eldri borgari kaupir skjávarpa (3)

Þetta er framhald af þessu

Þegar hér var komið var engin leið fyrir mig að rekja eitt eða neitt, með aðra sendinguna afhenta í Kópavogi og hina í Dongguan borg í Kína. Ég stóð því frammi fyrir því, að hætta bara þessu veseni, eða reyna að berjast eitthvað áfram. 
Yrði hið fyrrnefnda niðurstaðan yrði ég að takast á  við tilfinninguna um að hafa látið plata mig og ekkert gert í málinu - látið það yfir mig ganga.
Hið síðarnefnda fólst í því að berjast áfram, sýna þessum andlitslausu kónum hvar Davíð keypti ölið og falla síðan með sæmd, ef á annað borð er hægt að tala um slíkt í þessu sambandi.

Auðvitað valdi ég síðari kostinn, því nú var verulega farið að síga í mig. Við þær aðstæður hlóð ég í enn einn tölvupóstinn til Snjallkaupa og hann var svohljóðandi:












.... og hananú. Efnislega fól þessi tölvupóstur í sér nokkurskonar úrslitakosti: Ég gaf Snjallkaupum sólarhring til að koma skjávarpanum af stað til mín eða endurgreiða mér hann að öðrum kosti. Yrðu þeir ekki við þessari kröfu myndi ég tilkynna þá fyrir sviksemi, til viðeigandi yfirvalda hér á landi - eins og það myndi breyta einhverju, svo sem. En þetta gerði ég. Fannst ég allavega hafa reynt að sýna tennurnar, allavega þessar fremstu, sem enn eru upprunalegar.  Ekki átti ég von á að þessi póstur myndi breyta neinu og hélt bara áfram með skjávarpalaust lífið. 

Þennan póst sendi eftir hádegið þann 18. september. Það varð mér talsvert gleðiefni að hann reyndist hafa þau áhrif, að 6 klst síðar fékk ég svar frá Snjallkaupum. Þeir voru þá þarna eftir allt saman. Hér er þessi merkispóstur:

18. sep., 20:31
Thanks for contacting,
We are extremely sorry for the delayed response, we will look into this matter for you. Typically most orders take between 7-21 business days for delivery. We ask for the tracking number that arrived in Iceland, did you contact your local post office about that package to see if they possibly have the package?
Thank you

Efnislega segja þeir í þessum pósti að þeim þyki þetta rosalega leiðinlegt og lofa að skoða málið fyrir mig. Venjulega taki þessar sendingar 7-21 virkan dag að komast á leiðarenda. Svo spyrja þeir hvort ég hafi haft samband við pósthúsið til að athuga hvort pakkinn sé kannski þar, eftir allt saman.

Ég ákvað að nota nóttina til að láta mig dreyma um svarpóst til Snjallkaupa, sem ég sendi síðan árla morguninn eftir:

19. sep. kl. 07:41
Yes, I contacted Pósturinn, as I have already informed you in several attempts to get responses from you.
I suggest you check the emails I have already sent to you concerning this matter. A package with one of the tracking numbers you gave me, has been delivered to a woman by the name Hugrún in Kópavogur, and a package with the other tracking number you gave me, has been delivered to someone in a city in China. Please, read my emails!.
I have done all I can to trace the package and have come to the conclusion that I have been fooled, which is not a good feeling. This is now in your hands .
I give you 24 more hours to either refund the projector or to convince me that the projector is on the way to my address.
Páll M Skúlason

Efnisleg þýðing þessa pósts er, að ég kveðst hafa verið í sambandi við póstinn rétt eins og ég sé búinn að margsegja þeim. Bendi þeim á, að láta verða af því að lesa þessa pósta frá mér.  Ég kveðst vera kominn að þeirri niðurstöðu að þeir væru að hafa mig að fífli, sem ekki sét sérlega skemmtileg tilfinning. Þá segi ég málið vera í þeirra höndum til úrlausnar. Annahvort endurgreiði þeir mér, eða sannfæri mig um að skjávarpinn sé á leiðinni til mín, innan 24 tíma frá sendingu þessa pósts.  Já, ég er svakalegur nagli, eða þannig. 😑 

Fimm tímum síðar kom aftur svar frá Snjallkaupum:

19. sep. kl. 12:52 
We apologize for the confusion, by the looks if it your package got lost in delivery/shipping so we have refunded your order.

Þarna biðjast þeir enn afsökunar og segja pakkann hafa tapast við afhendingu eða flutning. Jafnframt segjast þeir hafa endurgreitt pöntunina.

Þegar hér var komið var það eiginlega ósk mín að fá þetta bara endurgreitt og þar með yrði málið úr sögunni, en ég var nú samt ekkert hættur, eins og ég lét þá vita í svarpósti:

19. sep. 2024, 16:39

Fair enough. You say you "have refunded" the order. What does that mean? To me this means that you have paid me back the ISK14.680 that I paid you for the projector. Have you?

Sem þýðir: Látum svo vera. Þið segist hafa endurgreitt pöntunina. Hvað þýðir það?  Ég skil það svo að þið hafið endurgreitt kr. 14.680 sem ég greiddi fyrir skjávarpann. Er það svo? 

Daginn eftir fékk ég svo senda tilynningu um endurgreiðslu á andvirði skjávarpans, kr. 13.790. Sá var þó hængur á að upp á vantaði kr. 890, sem var sendingarkostnaður og þarna var ég nú kominn í slíkan gír gagnvart þessu, að ég var ekkert tilbúinn að gefa þeim eftir þessar 890 krónur:

20. sep. 2024, 13:50
I will wait and see if this appears on my bank account.
I cannot understand why the amount is ISK13.790 instead og ISK14.680.
I bought and paid for a projector ISK14.680.
I didn't get the projector, but still I lose ISK890. Are you really telling me that I have to pay for the shipping of a package I never got?
For me this is a question of principle, not the amount in question. I still feel entitled to the whole amount, not to mention compensation.
Páll M Skúlason

Efnislega spurði ég þarna hvort ég ætti virkilega að greiða flutningsgjasd af vöru sem ég fékk aldrei. Jafnframt segi ég þetta vera spurningu um grundvallaratriði en ekki upphæðina sem um ræðir. Ég viðurkenna að þetta var nú dálítið illgirnislegt, sem svona var það nú. Ég átti nú ekkert von á því að þeir myndu taka neitt mark á þessu, en það reyndist hreint ekki svo:

20. sep. kl 18:12
Hi!
We apologize for this mistake and will refund the full amount
Enn biðjast þeir afsökunar fyrir mistökin og segjast munu greiða alla upphæðina, mér til nokkurrar undrunar.
20. sep. kl. 18:54
Thank you for your answer.

 

...var svar mitt við þessum pósti og þetta voru jafnframt síðustu samskipti mín við Snjallkaup. Enn trúði ég ekki að þessi upphæð myndi nokkurntíma birtast á reikningnum mínum - þetta væri tapaður peningur, sem ég hafði svo sem allt eins átt von á að yrði, þegar ég hóf þessa vegferð.

Nú er kominn sunnudagsmorgunn, dagurinn er 22. september árið 2024 og ég sé Snjallkaup í allt öðru ljósi en áður. Endurgreiðsla fyrir alla þá upphæð sem ég greiddi fyrir skjávarpann frá Kína, er komin í var, á reikningi mínum.  

Snjallkaup rústuðu orðspori sínu í mínum huga, með 18 daga þögn, sem lauk ekki fyrr en ég fór að hóta, sem er reyndar fjarri mínu eðli.  Á bak við þetta fyrirtæki er örugglega bara fólk sem er að skapa sér lífsviðurværi eins og við öll, en, sem þarf að treysta á aðrar vefverslanir og flutningsþjónustur til að geta veitt viðskiptavinum sínum viðunandi þjónustu.

Ég myndi ráðleggja þeim og öðrum fyrirtækjum sem vilja láta taka sjálf sig alvarlega, að fela sig ekki á bakvið eitt netfang. Það þarf að liggja fyrir heimilisfang, símanúmer og jafnvel nafn eða nöfn.  

Það eru mörg svona fyrirtæki á sveimi núna, t.d. Snilldarkaup og Ofurkaup, sem eru í rauninni bara að taka að sér að þjónusta Íslendinga sem treysta sér ekki til að versla beint við Ali Express.  Sjávarpinn minn, sem Snjallkaup seldi mér á ISK14.680 fæst á Ali Express fyrir ISK7.404 á þessum morgni. 


Nú er það spurningin, þegar peningurinn sem ég var nánast búinn að afskrifa, er kominn aftur: Hvað verður um hann?  Verður ekki að nota hann?
Já, hver veit? 
Bara ég.




 Hér er svo nokkurskonar eftirmáli.



20 september, 2024

Eldri borgari kaupir skjávarpa (2)

Þetta er framhald þessarar færslu.

Þegar hér var komið bárust ekki lengur stöðluð svör, á íslensku, frá Snjallkaupum og mig fór að gruna (hafði svosem grunað það lengur), að hér væri bara hreint ekki um að ræða fyrirtæki sem starfar hér á landi.  Ég kíkti því í fyrirtækjaskrá og komst þar að því að Snjallkaup ehf  var úrskurðað gjaldþrota fyrir einum 10 árum.  Hvar þetta núverandi Snjallkaup er til húsa í veröldinni, hefur mér ekki tekist að finna neitt um. 

Þegar Snjallkaup svaraði ekki tölvupóstum mínum á íslensku, nema með stöðluðum hætti, ákvað ég að skella mér yfir á tungu Shakespeare's, enda gat ég hreint ekki hugsað mér, að gefast bara upp og láta einhverja kóna hafa af mér pening (ISK14.680), ekki háa upphæð, en upphæð samt ....
Ég, sem sagt sendi þetta á netfang Snjallkaupa:

3. sep kl 09.13

I really need an explanation of this. I ordered an item from "Snjallkaup".  Then I got this tracking number: RG026125626CN, which, to begin with, I couldn't find on tracking sites. A bit later I got this tracking number: LR179315267NL and followed that through the Netherlands to a post office in Kopavogur Iceland (this post office is in a different part of the country). When I contacted the Iceland Post about this, I was told that this package was not being sent to me, but to some woman by the name of Hugrún. This baffled me. 

This morning I tried to track the original tracking number: RG026125626CN, and according to Package Radar that package is still in China, as a matter of fact, and that it will be returned to the sender!!!. See here: 

 I need your explanation for all this and an assurance that I will get what I ordered from you. If not, I demand a refund, not  an INNEIGN in your store: 

regards Páll M Skúlason

 Í sem stystu máli rek ég þarna það sem á undan er gengið með þessi tvö rakningarnúmer og að LR179315267NL hefði tilheyrt pakka sem var ætlaður henni Hugrúnu í Kópavogi, en ekki mér. Sömuleiðis greini ég þeim frá því, að þegar ég fór að athuga með upprunalega rakningarnúmerið, RG026125626CN, kom í ljós, að hann var á leiðinni aftur til sendanda pakkans (hver eða hvar sem hann nú var eða er). Hann var þarna staddur í borginni Guangzhou á einhverri póstmiðstöð. 
Þarna sendi ég einnig þessar myndir af síðu PackageRadar - rakningarfyrirtækisins þar sem staða pakkanna tveggja kemur fram: annar í Guangzhoou í Kína og inn á Pósthúsinu í Kópavogi:


þetta sendi ég einnig til Póstsins:

3. sep kl. 09.26
Til póstsins:
Sæl Ég sendi hér afrit af pósti mínum til Snjallkaupa, þó ég ímyndi mér svo sem ekki að þið lítið á þetta sem ykkar mál.
Ég hafði samband við ykkur í gær
[í spjalli, sjá ofar] vegna pakka til mín sem reyndist vera kominn í pósthúsið í Kópavogi. Þá fékk ég þær upplýsingar, að þessi pakki væri hreint ekki til mín, heldur einhverrar Hugrúnar. Ég er búinn að reyna að ná sambandi við Snjallkaup, án árangurs enn sem komið er.
Þegar pakkinn fór af stað frá Kína bar hann rakningarnúmerið RG026125626CN, en það breyttist svo á leiðinni og varð LR179315267NL. Hér er sem sagt um að ræða tvö rakningarnúmer á sama pakkanum og ég veit hreint ekki hverju ég á að trúa í þessum efnum. Ég læt fylgja hér með skjáskot frá Package Radar
[myndin sem er hér fyrir ofan].
bkv pms

Ekkert heyrðist frá Snjallkaupum og ég ætlaði nú ekki að gefa mig:

4. sep kl 1800
Til Snjallkaupa
Hi, I'm still waiting for your response to my emails.

4. sep 1804
Why don't you answer emails?

Svo sendi ég skjáskot af síðu þeirra:

4. sep kl.18.36 

 

Þá er að standa við stóru orðin! 

Enn engin viðbrögð frá Snjallkaupum, en þetta fékk ég frá rakningaraðilanum, PackageRadar:
We have got an update for your package.
LR179315267NL
September 4
10:39 Package delivered
Pósthús Kópavogi, Iceland Post
See tracking info on PackageRadar.com

Thank you for using our service! If you have any questions or suggestions please visit our official forum.

Sem sagt, það var búið að afhenda pakkann. Það var á þessum degi sem Hugrún í Kópavogi fékk pakkann sinn. Þá lá það fyrir, en eftir stóð spurningin um örlög pakkans sem var með hitt rakningarnúmerið, RG026125626CN, sem enn var í Kína.

Daginn eftir þessa niðurstöðu fékk ég svo sendingu frá Póstinum:

5. sep kl 11.29
Daginn,
Sending RG026125626CN er stíluð á þig og er enn skráð væntanleg frá útlöndum. Við getum því miður ekki haft nein áhrif á hana fyrr en hún kemur til landsins.
Sending LR179315267NL er komin til landsins en er skráð á annan einstakling. Innihaldslýsing pakkans stemmir ekki við skjávarpann sem þú hyggst að fá til landsins.
Ég get því einungis bent þér á að hafa samband við sendanda, þar sem ábyrgðin er á þeim og við höfum ekki nánari upplýsingar.
Kær kveðja,
Finnur
Þjónustufulltrúi | Þjónustudeild - Akureyri
Ég er kurteis og brást við þessum upplýsingum:
5. sep kl 12.26
Takk fyrir svarið.
Ég sé ekki betur en þessi pakki sem hefur númerið RG026125626CN, sé enn á upphafsstað - ef það er þá eitthvað á bak við hann.
kv pms

Daginn eftir fékk ég síðan þetta frá honum Finni hjá Póstinum:

6. sep kl 09.23
Daginn,
Því miður getum við ekki haft áhrif á, né séð ítarlegar upplýsingar, um sendingar sem eru ókomnar til landsins. Því verð ég að benda þér á að hafa samband við sendanda.

Kær kveðja,
Finnur
Þjónustufulltrúi | Þjónustudeild - Akureyri

Ég freistaði þess þarna, að kæla mig aðeins niður og beið aðeins með næstu lotu, en hún hófst þann 9. september, þegar pakkinn með rakningarnúmerið RG026125626CN hafði verið óhreyfður í Guangzhou síðan 31. ágúst.:

9. september, kl 12.37  
Could you, please, explain to me why the projector, that I have paid for, is still in China?

Það voru engin viðbrögð, frekar en fyrri daginn. 

Það næsta sem gerðist var, að ég fékk tilkynningu frá PackageRadar rakningarfyrirtækinu:

11. sep kl 11.32
PackageRadar
We have got an update for your package.
RG026125626CN
September 10
20:12 Package delivered
Dongguan city, China Post

See tracking info on PackageRadar.com
Thank you for using our service! If you have any questions or suggestions please visit our official forum.

Jæja, þá lá það fyrir, að pakkinn minn, með skjávarpanum, hafði verið afhentur í Dongguan borg í Kína. Þar með hafði ég misst alla möguleika á að reyna að rekja  einhverja sendingu til mín. Ég varð auðvitað nokkuð pirraður (ekki í fyrsta skipti í þessu ferli) og skellti í næsta póst til Snjallkaupa:

11. sep kl 12.14
I found out this morning that my projector was delivered in Dongguan city in China, last night (see below).
Since I have already paid for the projector, I expect you to deliver it to me, which is reasonable, in my opinion. I live in Iceland, as you should be well aware of..
You have chosen not to answer my emails recently, which leads me to question your motives. Proof me wrong in having come to the conclusion that you are a fraud company.
Þarna greini ég sem sagt frá stöðu mála og gagnrýni skort á viðrögðum frá hendi Snjallkaupa. Jafnframt skora ég á þá að sýna mér fram á að sú skoðun mín, að um sé að ræða svikafyrirtæki, sé röng.
En, það bárust engin viðbrögð frá Snjallkaupum. Hér voru liðnir 18 dagar frá síðustu viðbrögðum. 

... segja þeir á vefsíðunni sinni.

Þegar hér var komið taldi ég nóg komið. Annaðhvort var að gefa þetta bara upp á bátinn, eða þá grípa til frekari aðgerða. Hvorn kostinn skyldi ég nú hafa valið?

Þetta fer að verða bein lýsing, en við sjáum hvað setur --- næst 😐


18 september, 2024

Eldri borgari kaupir skjávarpa (1)

Það er þannig, að ef þú ætlar að eiga viðskipti við vefverslun, þarftu að hafa vaðið fyrir neðan þig. 

Það var viðtal við gamla konu í Danmörku um daginn, í sjónvarpsfréttum. Hún var búin að fylla íbúðina sína af allskyns dóti sem hún hafði sankað að sér í viðskiptum við vefverslanir. Ástæðan sem hún gaf upp fyrir kaupunum var sú, aðallega, að það væri svo gaman að láta sig hlakka til að fá pakkasendingarnar og opna svo pakkana.  

Kannski fór eitthvað svona í gegnum huga minn, þann 13. ágúst síðastliðinn, þar sem enn einu sinni birtist, á samfélagsmiðli, auglýsing frá vefverslun sem bar nafnið Snjallkaup . Ég er viss um, að þér lesandi góður, þykir skjávarpinn hér vinstra megin bara skrambi flottur og ekki varð hann síðri þegar nánari upplýsingar um hann voru skoðaðar. 
Auðvitað velti ég fyrir mér, til hvers ég ætti nú að fara að kaupa mér skjávarpa. Hér innandyra er hreint ekkert pláss á veggjum til að sýna nokkurn hlut, hvað þá óskarsverðlaunamyndir í cinemascope, eða hvað sem það nú er. Til að gera langa sögu stutta, eftir að ég hafði sannfært sjálfan mig um að skjávarpinn myndi nýtast vel við hitt og þetta, skoðaði ég þetta fyrirtæki aðeins nánar (en ekki nógu nákvæmlega) og komst meðal annars að þessu:


Auðvitað klikkaði ég að að skoða þetta allt betur, t.d  hvernig hægt væri að ná sambandi við þetta fyrirtæki, öðruvísi en með tölvupósti.  
Hvað um það, þarna bauðst mér þessi frábæri skjávarpi á ISK14.680 og endaði á sannfæra sjálfan mig (ég á of auðvelt með það, reyndar) um, að ég yrði svo sem ekkert fátækari í peningalegu tilliti, við að tapa þessum krónum, ef þetta reyndist nú allt vera í plati. Ég myndi reyndar lenda í hópi fólks, sem hefur látið glepjast af gylliboðum á samfélagsmiðlum, en þá væri bara að taka því. 

Þetta fór nú bara harla vel af stað og ég mun hér freista þess að gera grein fyrir öllum þeim tölvupóstsendingum sem áttu sér stað í framhaldi þess að ég ýtti hnappin sem gaf til kynna, að kaup hefðu átt sér stað:

SNJALLKAUP
13. ágúst
Takk fyrir pöntunina!
Við erum að gera pöntunina þína tilbúna til sendingar. Við munum láta þig vita þegar hún hefur verið sent.

Gott, svo langt sem það náði.

Næsti póstur kom svo  þann 16. ágúst, og þá var ég aðeins að byrja að efast, en hann var svohljóðandi:

SnjallKaup™ mailer@shopify.com

Your 6-digit code is:
911554
This code can only be used once. It expires in 15 minutes.
© SnjallKaup™
Engelbrecht LLC, 6527 Falls Lake Drive, Charlotte NC 28270, United States
Þarna þurfti ég að slá inn kóða til að komast að því hvernig skjávarpanum liði. Eftir notkun kóðans á viðeigandi stað, komst ég að því að póstrakningarnúmerið sem þar var að finna, vísaði ekki á neina sendingu. Þetta númer var:
RG026125626CN
Rakningarnúmerið skiptir máli upp á framhaldið, en þarna var mér orðið ljóst, að sendingin væri á leiðinni frá Kína, hvorki meira né minna og ég sem var búinn  að sjá fyrir mér "krúttlegt" lítið fyrirtæki í höfuðborginni.

Nú úr því rakningarnúmerið virkaði ekki sendi ég þeim Snjallkaupsmönnum póst:
16. ágúst
Sæl Ég frétti ekkert af þessum skjávarpa sem ég festi kaup á hjá ykkur. Rakning virkar ekki og nú er ég smám saman að verða fullur efasemda. Vonandi eiga þær ekki við rök að styðjast.
kv pms
Ég fékk svar sem var svona:17. ágúst kl 00,55


Sendingin er á leiðinni og ætti hún að koma bráðlega, engar áhyggjur.
Við afsökun þessa töf og vonum við að skilningur berist á því. Starfsmenn hafa verið í sumar fríi.
Kær kveðja,
SnjallKaup

Mér var auðvitað létt og svaraði því:  

17. ágúst kl 07.23
Fínt er. Þá get ég verið rólegur :)
kv pms
Það næsta sem gerðist var þetta:

17. ágúst kl 08.48
SnjallKaup™
Order #2497
Sendingin þín er á leiðinni. Fylgstu með sendingunni þinni.
tracking number: RG026125626CN
... en það gerðist fátt og því fylgdist ég, fullur efasemda, grannt með ferðum sendingarinnar. Þar sem rakningarþjónustan fann ekki uppgefið rakningarnúmer, sendi ég þetta á Snjallkaup: 

20. ágúst kl 07.08
Eitthvað lítið að gerast.....

 ásamt þessari mynd frá rakningarþjónustunni:

... þar sem fram kemur að þar á bæ séu engar upplýsingar um þetta rakningarnúmer.

Enn létu Snjallkaupsmenn svo lítið að virða mig viðlits og sendu mér þennan póst:

 21. ágúst kl. 01.07

Hæ,
Sendingin er á leiðinni og ætti hún að koma bráðlega, engar áhyggjur.
Við afsökun þessa töf og vonum við að skilningur berist á því. Starfsmenn hafa verið í sumar fríi.
Kær kveðja,
SnjallKaup

 

.. en þetta var nánast orðrétt sama svar og ég hafði áður fengið og enn jukust grunsemdir mína um maðk í mysunni.

23. ágúst kl 02.52
SnjallKaup™
Order #2497
Your shipping status has been updated
The following items have been updated with new shipping information.
DHL tracking number: LR179315267NL
Hér var, sem sagt komið til sögunnar nýtt rakningarnúmer LR179315267NL og ég fann ekkert um pakka með því númeri og sendi því þetta:

23. ágúst kl 07.06
Þetta sendingarnúmer finnst ekki á rakningarsíðum.
Við þessu kom kunnuglegt svar:

24 ágúst, kl 00.28
Hæ,
Sendingin er á leiðinni og ætti hún að koma bráðlega, engar áhyggjur.
Við afsökun þessa töf og vonum við að skilningur berist á því. Starfsmenn hafa verið í sumar fríi.
Kær kveðja,
SnjallKaup

Þegar hér var komið, gat ég fylgst með ferðum pakkans, sem þá var sagður vera kominn til Hollands og í vinnslu þar í nokkra daga. Á endanum var hann sagður kominn til Íslands og farinn í vinnslu þar.  Þar kom, að ég fékk tilkynningu frá Póstinum um að pakkinn væri tilbúinn til afhendingar á pósthúsinu í Kópavogi.  Þetta kom mér á óvart í tvennu tilliti: Ég hafði ekki verið rukkaður um toll og pakkinn fór í Kópavog en ekki á Selfoss.  

Þarna fór ég á spjallsíðu hjá Póstinum og þar fékk ég þessi viðbrögð:


Þarna fékk ég að vita að viðtakandi sendingarinnar væri Hugrún nokkur, sem ætti heima í Kópavogi. Með þessar upplýsingar snéri ég mér enn til Snjallkaupa:

2. sep kl 16.43
Sæl enn
Nú er pakkinn kominn til landsins, það á að vera búið að reikna út toll og hann er sagður vera kominn á pósthúsið í Kópavogi - en ég bý nú á Selfossi. Það á að vera búið að senda mér tilkynningu um hann, en ég hef enga fengið. Það á að vera búið að reikna út aðflutningsgjöld, en ég hef ekkert fengið um það. Ég er búinn að hafa samband við Póstinn og þeir halda enn, að ég heiti Hugrún ...
Þetta er dularfullt mál.
pms
Þegar hér var komið hætti ég að fá viðbrögð frá Snjallkaupum og hef ekkert heyrt frá þeim síðan. Ég var samt ekki hættur, en frá því greini ég næst. 

FRAMHALD >>>>> HÉR

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...