Framhald af
þessuÞennan þátt tileinka ég því sem flokkast undir ýmis skringilegheit í Dúbæ, sem þýðir, að þar er um að ræða eitthvað sem ég hef ekki átt að venjast gegnum lífsgönguna, en þykir þarna sjálfsagðir hlutir, ekki síst fyrir fólk sem hefur eitthvað á milli handanna. Mikið af þessu helgast af því að á þessum slóðum sýndist mér að stéttaskipting væri ansi mikil og þannig væri það bara.
En áður en ég kem að skringilegheitunum, finnst mér nauðsynlegt að eyða nokkrum orðum á umferð og umferðarmenningu í þessari arabísku borg, sem er í rauninni hreint ekki arabísk, allavega ekki arabísk í þeim skilningi sem ég legg í þá menningu.
Umferðarmenningin
Þegar Dúbæingarnir tóku á móti okkur á flugvellinum voru þeir á tveim bílum, eins og áður er getið. Við þurftum að skipt okkur á bíla og fÁ ráðlagði mér og tveim öðrum að fá far með hS, vegna þess að hann væri "sunnudagsbílstjóri". Það var ekki fyrr en nokkru seinna, sem ég áttaði mig á því að þarna í Dúbæ hefur þetta hugtak alveg öfuga merkingu við það sem ég hef átt að venjast. Á þetta reyndi ekki fyrr en ekið var um svæðið að degi til.
Til að útskýra þetta aðeins, þá hafði ég, áður en ferðin hófst, látið mér detta í huga að taka bíl á leigu svo við gætum farið í bíltúra þarna austurfrá; kíkt á eyðimörkina og svona. Hefði ég gert þetta, væri ég sennilega enn staddur, kolfastur í einhverju umferðarmannvirki, ef ég hefði þá komist út frá bílaleigunni yfirleitt. Umferðin um þessa borg er gífurleg og vegirnir margar akreinar og akstur milli tveggja staða felst í því, að sveigja milli akreina, þar sem þéttar raðir bíla eru fyrir. Þetta felst í því að beygja bara, í þeirri von að bílstjórinn við hliðina gefi sig. Þetta snýst um að láta vaða og það virðist einhvernveginn vera sameiginlegur skilningur bílstjóra, að svona sé þetta. Það kom alloft fyrir, að mér leist ekki alveg á blikuna og "sunnudagsbílstjórinn" tjáði sig nokkuð líflega um ökumenn sem á vegi hans urðu. Ég hefði ímyndað mér að við svona aðstæður væru sírenuhljóð helstu umhverfishljóðin, en svo var reyndar ekki.
Sendlarnir
Hluti af ómanneskjulegri umferðinni eru skellinöðrur. Stundum náðu þær að verða nánast helmingur þeirra sem brunuðu í stórsvigi milli akreina. Þetta voru allt sendlar. með stóra kassa fyrir aftan sig á nöðrum sínum. Þeir voru að flytja mat frá veitingastöðum, eða varning úr búðum. Í kringum matmálstíma voru þessi farartæki óhemju mörg á ferðinni, en þegar við ókum á flugvöllinn um miðja nótt á leið heim, þá voru þar sendlar á ferð. Mér varð hugsað til þeirra kjara sem þessir sendlar búa við. Ef þeir ná ekki að komast á leiðarenda innan tiltekins tímafrests, fá þeir ekkert í sinn hlut, sem er ávísun á óvarkárni. Það sem ég sá jákvætt við þessa sendlaþjónustu var aðallega, að með tilveru sendlanna, dregur úr umferð stærri farartækja. Nema auðvitað fólk færi að elda mat hema hjá sér í meiri mæli. Ætli næsta skref verið ekki að taka upp matarsendingar með drónum, sem myndi þá líklega kalla á einhverskonar flugumferðarstjórn.
Skattamál
|
mynd af vef |
Fólk greiðir ekki tekjuskatt í Dúbæ. Á móti skildist mér, að ýmisskonar óbeinir skattar stuðli að því að kroppa aura af fólkinu. Mér var til dæmis spurn, hvernig fjármögnun á feikilegum umferðarmannvirkjunum færi fram, en tókst aldrei að skilja hvernig henni er háttað.
Mér sagt, að innfæddir íbúar Dúbæ nytu sérstakrar velvildar stjórnvalda og það væri séð til þess að þeir hefðu nóg fyrir sig.
Ég ætla ekki að þykjast vita neitt um hvernig innviðir í þessu samfélagi eru fjármagnaðir. og segi ekki margt um það. Ég veit hinsvegar, að ég þurfti að kíkja til læknis, sem var á einkarekinni læknastofu (clinic). Biðin eftir að komast að var um það 15 mínútur. Viðtalið tók svona 4 mínútur og kostaði ISK 23.000 og pilluskammtur og krem kostaði einnig kr 23.000. Kannski eru það bara fyrirtækin sem standa undir þeim útgjöldum sem til falla í svona samfélagi.
Þjónusta
|
Mynd af vef |
Ef þig vantar eldsneyti á bílinn þá geturðu bensínafgreiðslumenn heim.
Ef þig vantar þrif á bílnum (það liggur sekt við því að aka um á skítugum bíl) þá geturðu fengið bílaþvottamenn heim til þess arna. Ég skil það vel, að svona þjónusta skuli vera svo aðgengileg sem raun ber vitni, því það er bara heilmikið mál, að leggja út í umferðina, þar sem heilmikill tími fer í að bíða á ljósum, eða stunda svig milli akreina í miklu bílakraðaki.
Stéttaskipting
Stór hluti íbúa í Dúbæ starfar fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki og nýtur afar góðra kjara, bæði í launum og fríðindum af ýmsu tagi. Þetta eru mikið Vesturlandabúar. Stór hluti íbúanna sinnir ýmisskonar þjónustustörfum og þá á eigin ábyrgð. Þetta fólk virtist mér að væri aðallega upprunnið enn austar, til dæmis frá Indlandi, Pakistan eða Filippseyjum. Hlutskipti Araba sjálfra veit ég svo sem ekki um, þeir voru þarna á stangli og sjálfsagt í ýmsum hlutverkum.
Þessar byggingar!
Það virðist vera eitthvert markmið þarna austurfrá, að byggja upp í loftið og hver sem litið var, voru háhýsi í byggingu. Verktakarnir virðast mjög stolti af byggingum sínum, því afar oft merkja þeir sér þær. Ég sá alveg fyrir mér samskonar merkingu hérna við Austurveginn.
Þrifnaður
|
Mynd af vef |
Það var allt svo hreint og fínt þarna. Götur, bílastæðakjallarar, verslanir, hvergi var að sjö örðu af óþrifnaði, sem er svo sem ekkert skrítið. Allstaðar rakst maður á fólk sem var að þrífa. Sérstaklega var minnisstæður einn, sem var að pússa polla fyrir framan dyr upp úr einum bílakjallaranum. Þetta er glansveröld. Það var svo hálfgert áfall að aka inni í bílakjallarann við Bilka í Ishöj. Þar hefði sannarlega þurft að taka til hendinni til að ná, þó væri ekki nema í skottið að dúbæskum bílakjöllurum.
Skólinn
Við fengum að koma í skólann sem börn Dúbæinganna ganga í. Við skólalóðina voru öryggisverðir sem hleyptu engum inn nema fólki sem hafði til þess leyfi. Börnin voru í skólabúningum og anddyrið minnti einna helst á móttöku í 4 stjörnu hóteli.
Í skólanum eru um 3300 nemendur og þetta er auðvitað einkaskóli, sem er hluti af starfskjörum útlendinga og þar fer kennsla fram á ensku. Kurteisi til orðs og æðis er þarna höfð í hávegum og kennararnir ávarpaðir sem Miss/Mrs og Sir/Mr. Mér varð hugsað til landisn í norðrinu, ég neita því ekki. Við sáum börnin koma úr skólanum eftir skóladag og það var ekki sjáanlegt á þeim að þau þyrftu að þola kúgun af einhverju tagi, brosmild og afslöppuð.
Svona gæti ég haldið lengi áfram, en ætli þetta sé bara ekki orðið gott.