15 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (7)

Framhald af þessu.

Það var kominn föstudagurinn 25. október.  Dúbæingarnir höfðu tekið sig til og pantað snekkju til þriggja tíma siglingar sem hefjast skyldi kl. 16 og standa yfir meðan ljósaskiptin (twilight) stóðu yfir. Á þessum slóðum pantar maður bara snekkju, en til að halda niðri kostnaði safnar fólk saman í hóp, í þessu tilviki rúmlega 20 manns og heldur þannig kostnaði niðri.  Svo er bara haldið Pálínupartí, sem, eins og flestum ætti að vera kunnugt, felst í því að gestirnir koma sjálfir með mat og drykk. Við fimmmenningarnir lögðum ekkert á borð með okkur en Dúbæingarnir voru því betur búnir vistum af ýmsu tagi.

Af stað

Við lögðum upp í þessa ferð, á heimilisbílunum tveim, fljótlega upp úr hádegi, enda mátti reikna með að umferðin yrði eins og hún svo varð. Á þessum tímapunkti var ég nú aðeins farinn að venjast aksturslaginu á þessum slóðum, svo svigið milli akgreina var bara farið að verða vinalegt.  
Eftir viðkomu í einu af þessum hverfum þar sem varðmenn gæta íbúanna, lá svo leiðin í átt á Dubai Marina (smábátahöfn) og plássið sem hægt vara troða bílum um, vegna annarrar umferðar, þrengdist stöðugt og á endanum var bifreiðin stöðvuð nánast úti á miðri götu þar sem bannað var að stöðva eða leggja bílum. Einkennisbúinn umferðarsjóri gaf ótvíræðar bendingar um að þarna mættum við sko ekki vera, en Dúbæingarnir létu það sem vind um eyru þjóta og þarna yfirgáfum við, fimmmenningarnir, bílana, hlaðin vistum. Svo miklar voru þær, að ekki var um að ræða að bera þær, heldur þurfti að notast við trillu, eins og þær sem notaðar eru til húsgagnaflutninga. Hvað varð um bílana, vissum við hinsvegar ekki.

Við fengum þarna leiðbeiningar um hvert við ættum að leggja leið gangandi með farangurinn og það var nokkur óvissuferð. Við áttum að koma okkur þangað sem var brú, koma okkur undir hana og bíða þar. Merkilegt nokk, þá fundum við brúna og komum okkur þar fyrir með varninginn.  Svo fóru fleiri þátttakendur að tínast á staðinn, allir með allskyns kælibox, kassa og poka. Brúin lá yfir smábátahöfnina og þarna voru auðvitað bátar af ýmsum gerðum, og yfir gnæfðu skýjakljúfar hvert sem litið var.

Um borð

Þarna biðum við þar til merki var gefið um að haldið skyldi um borð. Farangrinum trillað meðfram höfninni, í gegnum varðhlið og út á bryggju, eina af mörgum sem þarna voru. Þar beið væntanleg partísnekkja.


Í áhöfninni virtust mér vera tveir piltar sem gátu rakið uppruna sinn til Indlandsskaga, eftir því sem ég best fékk séð. Eftir að greiðsla fyrir siglinguna hafði verið reidd af hendi, var haldið út úr smábátahöfninni, til hafs. 
Hér fyrir neðan læt ég fylgja leiðina sem farin var, en giska á þann hluta leiðarinnar sem sigld var eftir að myrkur lagðist yfir.


Á sjó

Þarna var um að ræða siglingu inn í Palm Jumeirah, sem var úrbúinn fyrir svona 20 árum og mun hafa verið fjármagnaður með olíufé. Ekki varð það svo, að á þessari siglingu gæti maður séð að þarna væri um svona pálma að ræða. Það sést ekki nema bara úr lofti.
Það var siglt og það það voru tekin fram drykkjarföng og matvæli eftir því sem siglingunni vatt fram. Ég einbeitti mér þó talsvert að umhverfinu, sem mér fannst með nokkrum ólíkindum. Ef það voru ekki skýjakljúfa, þá voru það skýjakljúfar í byggingu. Allt þetta umhverfi er manngert og ekki get ég sagt að það hafi fallið mér neitt sérstaklega í geð. Það hentaði þó vel til myndatöku og ætli ég hafi bara ekki verið hálf ofandottinn yfir þessu sem við blasti af bátsfjöl og hvernig umhverfið breyttist smám saman, eftir því sem sólin seig í rólegheitum nær sjóndeildarhringnum.


Áning

Eftir nokkra siglingu lá leiðin inn í einskonar vík, manngerða og þar var akkerum varpað (sjá rauða punktinn á myndinni ofar). Þar var tekið til við að reiða fram veitingar af ýmsu tagi og þeim gerð góð skil. Einnig skellti hluti hópsins sér í sjóinn, svamlaði þar og naut sín vel. Ég hefði alveg getað séð fyrir mér að Þorvaldsdætur hefðu nú tekið sundprett þarna, en hugmyndum í slíkt var tekið nokkuð fjarri. Eftir reynslu mína sem tengist bananabát á Atlantshafi fyrir nokkrum árum, ákvað ég að sleppa sundferð þessu sinni.


Stemmningin í hópnum var góð og fór stöðugt vaxandi eftir því sem á leið, við undirleik  tónlistar sem glumdi úr hljóðkerfi snekkjunnar. Ég skildi enn á ný hversvegna foreldrar mínir gerðu þá kröfu til systra minna, að þær lækkuðu í bítlagarginu fyrir slatta af ártugum síðan. Hljóðstyrkurinn var heldur mikill fyrir minn smekk, en ég lét það ekki á mig fá.  Þarna dró sjóferðarfólkið fram ágætis veitingar í mat og drykk og þessu voru gerð góð skil. Það var meira að segja dansað til að fagna lífinu og tilverunni.

Eftir sólarlag

Svo var bara akkerum létt, enda orðið ansi dimmt og siglt lengra inn í pálmann, ásamt fjölda annarra báta sem þarna voru einnig á ferð. Stöðugt birtust manni nýir ljósgjafar, þannig að ljósakeðja í útistofunni við Austurveg bliknar og vafasamt hvort tekur því að fara að hengja hana upp, eftir það sem þarna bar fyrir augu.  
Það leið að lokum ferðarinnar og því siglt til hafnar á ný. 
Í ljósi þess að þol Dúbæskra laga fyrir prómillum í blóði er nákvæmlega ekkert, fór ekki hjá því að ég velti fyrir mér, hvernig Dúbæingarnir hefðu skipulagt heimferðina frá smábátahöfninni. Viti menn, enn kom í ljós lausn sem ekki hafði hvarflað að mér. Það höfðu bara verið pantaðir tveir bílstjórar til að aka okkur á bílunum tveim. Þeir voru svo klárir þegar við mættum í bílana og brunuðu með okkur áfallalaust beint í sjálfbæru borgina. Á eftir kom svo þriðji bíllinn, sem sá um að flytja bílstjórana  til baka. Þetta mun vera ódýrara en að taka venjlegan leigubíl. Ja, svei mér þá.


Fólkið sem þarna var í för var einhverju yngra en við fimmmenningarnir, þannig að þegar það safnaðist, að hluta til,  á heimili Dúbæinganna, eftir að heim var komið, hafði ég ekki þrek til frekari gleðskapar og leyfði mér að setja stefnuna á draumaheima, eftir fínasta dag. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...