16 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (9)

Framhald af þessu

Svo var það eftir hádegið á sunnudeginum 27. október, að LandCruiser renndi í hlað í Sjálfbæru borginni. Dúbæingarnir höfðu pantað hann, eins og flest annað í þessari ferð. Þarna var kominn maður frá fyrirtæki sem heitir Arabian Nights Tours
þess albúinn að flytja okkur fimmmenningana: Þorvaldsdæturnar þrjár og tvö viðhengi þeirra, í ævintýraferð út í eyðimörkina.  Bílstjórinn var þrautreyndur í bransanum; hafði ekið ferðafólki í ferðir af þessu tagi síðan 1998. Hann var ekkert margorður, blessaður, en meira en til í að segja frá ef hann var spurður.  
Eins og allt á þessum slóðum, þá var áfangastaðurinn langt í burtu. Það var ekið í norður frá Dúbæ inn í annað furstadæmi sem heitir Sharjah. 

Kampurinn fyrri

Á leiðinni var komið við í því sem kallað var Camp, þar sem hægt var að leigja sér fjórhjól til að bruna um sandöldurnar. Útsýnið þaðan var yfir risastóra sandöldu, sem var morandi í  fjórhjólum og LandCruiserum með fólki sem var að skemmta sér við að aka í sandi, upp og niður eða til hliðar.  Á þessum stað var ýmislegt til sölu, því allir þurfa að lifa á einhverju.
Þarna var meðal annars maður, sem gekk um með fálka sem hann reyndi á láta ferðalanga fá  til að halda á og sitja á  öxlum sér. Ég veit um einn sem leyfði því að gerast, en sá svo eftir öllu saman, þegar í ljós kom, að upplifunin kostaði stórfé, sem kom ekki í ljós fyrr en eftir á.   


Þarna var hægt að komast á snyrtingu, fyrir utan það að fá að losa sig við pening, áður en sest var aftur upp í Cruiserinn og haldið á vit aðal ævintýranna, sem hófust þegar bílstjórinn sá til þess að farþegarnir væru allir kyrfilega festir í öryggisbelti og hann sjálfur losaði sitt belti af sér. Því næst setti hann í fjórhjóladrif og ökuferðin um sandöldurnar hófst. Hann sagði mér að venjulegur þrýstingur í dekkjum væri 35psi en við þessar aðstæður væri hann settur í 15psi.
Til að orðlengja það ekki hófst þarna talsverð rússíbanareið um sandöldurnar og flestir farþegarnir reyndust vera tiltölulega hljóðir, þó fyrir kæmi, þegar ekki var útséð um að allt færi vel, að það heyrðist nokkuð kröftugt ÚÚ.......HHH!!! úr aftasta hluta bifreiðarinnar. Aðrir farþegar gáfu spennu sinni orð til að breiða yfir mögulega skelfingu. Kannski er það bara ekki við hæfi að öldungar gefi frá sér of unggæðisleg hljóð.  
Hér koma nokkrar myndir af umhverfinu.







Eftir akstur um þetta nýstárlega landssvæði, jafnvel lengur en ónefndur farþegi taldi við hæfi, stöðvaði bílstjórinn bílinn á sagði "take photos". Þar með hófst tilraun til að festa minninguna um eyðimerkurförina á myndflögu. Ég hafði gert mér vonir um að hópurinn myndi nú leyfa sér að sleppa aðeins fram af sér beislinu, svona eins og ætti kannski að gerast við magnaðar æðstæður eins og þær sem þarna voru. Það gerðist hinsvegar ekki. Fólk á þessum aldri er búið að læra það, að halda aftur af sér í gleðilátum; komið á lygnan sjó.  Látum svo vera.

Samanburður á tveim kynslóðum

Þrátt fyrir að tilraunir til að fá hópinn til að stökkva í loft upp þarna á sandöldunni, tækjust ekki, náðist, á endanum, með þrautsegjunni, viðunandi árangur,  meðan bílstjórinn smellti af í gríð og erg. 

Það náðist árangur 😃


Eftir að akstrinum um þetta magnaða svæði lauk, var haldið aftur áleiðis til Dúbæ og sólin bjó sig undir að kveðja, þennan daginn. Það átti hinsvegar ekki við um bílstjórann. Nú lá leiðin í annan Kamp, þar sem kvöldfagnaður ferðarinnar skyldi fara fram.


 Kampurinn síðari

Þessi kvölfagnaðarkampur var innan girðingar og þar var að finna verslanir og veitingar. Fyrir utan lágu tveir úlfaldar og biðu þess að við klifruðum á bak fyrir myndatöku. Ég reiknaði með, að það yrði síðar um kvöldið, sem svo varð aldrei. Strax og við komum inn tók á móti okkur ilmvatnssölumaður.  Ætli það hafi ekki verið einmitt hann, sem kom í veg fyrir að úlfaldarnir fengju að njóta þyngdar okkar, nú eða myrkrið sem skall á fljótlega eftir að við komum á staðinn, eða bara tilgangsleysi þess að láta þessi stóru dýr rísa á fætur með okkur á bakinu, bara til þess að leggjast aftur. Ég veit ekki hvað varð til þess að þetta fórst fyrir. Mögulega aldur okkar.

Eftir að okkur hafði verið vísað til sætis við eitt fjölmargra borða umhverfis teppaklæddan pall, kom ilmvatnssölumaðurinn aftur og vildi gjarnan selja okkur armbönd með nöfnum okkar, eins og þau líta út með arabísku letri og það endaði með því að 4/5 hópsins festu sér slíka græju, sem skyldi afhent strax þegar vinnslu lyki.  

Þarna var ýmislegt að sjá innan girðingar, meðal annra fatnaðar- og minjagripaverslanir og vatnspípureykingasalur. Þá var þarna einnig mátunarklefi fyrir gesti sem langaði að prófa hvernig þeim færi að klæðast arabafatnaði af ýmsu tagi. Ég hafði fullan hug á að prófa, svo úr varð, að við svilarnir lýstum áhuga okkar við fatakaupmanninn, sem þegar hafði komið fram sem ilmvatns- og armbandasölumaður.

Hann var allt í öllu og framkoma hans fór vel í konurnar í hópnum. Kurteis og brosmildur í einbeittri sölumennsku sinni. Hvað um það, við hA nálguðumst hann í fatnðarversluninni og tjáðum áhuga okkar. Hann taldi enga meinbugi vera á því að leyfa okkur að prófa, vatt sér að næstu hillu og tók fram kassa með splunkunýjum hvítum kirtlum. Við höfðum nú reyndar reiknað með að fá bara að máta einhverja notaða og snjáða, sem fólki væri almennt boðið að prófa. 
Ég fékk nú lítilsháttar samviskubit yfir því að klæðast þarna splunkunýjum kirtli, bara til þess að fara úr honum aftur. Þannig gerðist það, að ég eignaðist, ekki bara kirtil, heldur einnig höfuðklút og svarta hringi til að setja ofán á.  Það sem meira var, ég prúttaði í fyrsta skipti. Hann vildi selja mér þennan búnað á  150 dirhams, eða um 5600 krónur. Ég sagðist bjóða 120 ( eða ISK4500). Nokkuð stoltur, bara, eftir það. Fatnaðarkaupmaðurinn sló til og tilkynnti mér jafnframt, að magadansmærin sem væntanleg væri í komandi skemmtidagskrá, myndi veita mér sérstaka athygli (sem svo varð auðvitað ekki).
Ég var svo bara í þessum galla, það sem eftir lifði kvölds, án þess að verða fyrir nokkru áreiti. Hinsvegar velti ég fyrir mér, hvernig ég gæti mögulega notað þennan útbúnað í framtíðinni. Vissulega myndi ég geta klæðst þessu í fyrirhugaðri moskuheimsókn, en hvað svo?  Ég sá fyrir mér og geri enn, að freistist ég til þess að skella mér í þetta á mannamótum á okkar fagra landi, verði ég óðara sakaður um menningarnám (cultural appropriation). 

Hvað sem því líður fylgdi þessi búningur mér hér norðureftir og notkun hans verður að liggja milli hluta í bili.
Eftir fatakaupin hófst skemmtidagskrá, þar sem eldlistamaður og magadansmær sáu um að gleðja okkur með listum sínum. Einnig fengum við fylli okkar af ágætum mat af arabískum toga. 
Ilmvatnssölumaðurinn kom aftur með armböndin og tókst í leiðinni að selja eins og eitt ilmvatnsglas.  Þegar upp var staðið held ég að fullyrða megi, að ilmvatns- fatnaðar- armabandasölumaðurinn hafi farið alveg sæmilega út úr viðskiptum við okkur þetta kvöld.

Svo var bílstjórinn okkar kominn á Cruisernum og úfaldarnir farnir að sofa einhversstaðar þarna úti í myrkrinu og því ekkert eftir af ágætum degi annað en njóta ferðarinnar alveg heim að dyrum í Sjálfbæru borginni, drífa sig úr gallanum, fá sér én øl og svífa síðan inn í draumaheima eyðurmerkursanda.





 

15 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (8)

Framhald af þessu.

Þða hefur örugglega farið framhjá einhverjum, en það fór ekki framhjá mér, að einn af stóru hvötunum til Dúbæferðarinnar, var  skyldubúnaður kvenna, sem lögðu leið í moskur. Um þetta var mikið rætt og sýnikennsla fór fram og ég gerði meira að segja mitt til að létta á þrýstingnum hér heima fyrir í aðdragandum. Þetta gerði ég með því að beita myndvinnslu á einkar hugkvæman hátt. (segjum það). Útkoman hygg ég hafi létt áðeins á þrýstingnum, en þó greinilega ekki nægilega mikið, eins og síðar kom í ljós.

Eftir bátsferðina var laugardagurinn 26. október og fyrirfram ákveðinn hvíldardagur. Það varð því í að ferðalangarnir fimm hvíldu sig, fóru í sund og sólbað og svona.  Þegar fór að líða á daginn ákvað fÁ, Dúbæingur og sérlegur ráðgjafi að því er varðaði fataburð kvenna á þessum slóðum, að sspyrja hvort það væri kannski ráð, að máta slæðurnar þar sem það færi nú að styttast í moskuferðina. 
Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Þær systur voru nú aldeilis til í það og þar með hófst mátunin, með tilheyrandi spenningi, athugasemdum og jafnvel einstaka skríkjum.  Ég held ég láti bara nokkrar myndir lýsa andrúmsloftinu. 







Þá var það frá og svo var haldið áfram að hvíla sig bara, enda strembinn dagur framundan.




Sæludagar í sandkassanum (7)

Framhald af þessu.

Það var kominn föstudagurinn 25. október.  Dúbæingarnir höfðu tekið sig til og pantað snekkju til þriggja tíma siglingar sem hefjast skyldi kl. 16 og standa yfir meðan ljósaskiptin (twilight) stóðu yfir. Á þessum slóðum pantar maður bara snekkju, en til að halda niðri kostnaði safnar fólk saman í hóp, í þessu tilviki rúmlega 20 manns og heldur þannig kostnaði niðri.  Svo er bara haldið Pálínupartí, sem, eins og flestum ætti að vera kunnugt, felst í því að gestirnir koma sjálfir með mat og drykk. Við fimmmenningarnir lögðum ekkert á borð með okkur en Dúbæingarnir voru því betur búnir vistum af ýmsu tagi.

Af stað

Við lögðum upp í þessa ferð, á heimilisbílunum tveim, fljótlega upp úr hádegi, enda mátti reikna með að umferðin yrði eins og hún svo varð. Á þessum tímapunkti var ég nú aðeins farinn að venjast aksturslaginu á þessum slóðum, svo svigið milli akgreina var bara farið að verða vinalegt.  
Eftir viðkomu í einu af þessum hverfum þar sem varðmenn gæta íbúanna, lá svo leiðin í átt á Dubai Marina (smábátahöfn) og plássið sem hægt vara troða bílum um, vegna annarrar umferðar, þrengdist stöðugt og á endanum var bifreiðin stöðvuð nánast úti á miðri götu þar sem bannað var að stöðva eða leggja bílum. Einkennisbúinn umferðarsjóri gaf ótvíræðar bendingar um að þarna mættum við sko ekki vera, en Dúbæingarnir létu það sem vind um eyru þjóta og þarna yfirgáfum við, fimmmenningarnir, bílana, hlaðin vistum. Svo miklar voru þær, að ekki var um að ræða að bera þær, heldur þurfti að notast við trillu, eins og þær sem notaðar eru til húsgagnaflutninga. Hvað varð um bílana, vissum við hinsvegar ekki.

Við fengum þarna leiðbeiningar um hvert við ættum að leggja leið gangandi með farangurinn og það var nokkur óvissuferð. Við áttum að koma okkur þangað sem var brú, koma okkur undir hana og bíða þar. Merkilegt nokk, þá fundum við brúna og komum okkur þar fyrir með varninginn.  Svo fóru fleiri þátttakendur að tínast á staðinn, allir með allskyns kælibox, kassa og poka. Brúin lá yfir smábátahöfnina og þarna voru auðvitað bátar af ýmsum gerðum, og yfir gnæfðu skýjakljúfar hvert sem litið var.

Um borð

Þarna biðum við þar til merki var gefið um að haldið skyldi um borð. Farangrinum trillað meðfram höfninni, í gegnum varðhlið og út á bryggju, eina af mörgum sem þarna voru. Þar beið væntanleg partísnekkja.


Í áhöfninni virtust mér vera tveir piltar sem gátu rakið uppruna sinn til Indlandsskaga, eftir því sem ég best fékk séð. Eftir að greiðsla fyrir siglinguna hafði verið reidd af hendi, var haldið út úr smábátahöfninni, til hafs. 
Hér fyrir neðan læt ég fylgja leiðina sem farin var, en giska á þann hluta leiðarinnar sem sigld var eftir að myrkur lagðist yfir.


Á sjó

Þarna var um að ræða siglingu inn í Palm Jumeirah, sem var úrbúinn fyrir svona 20 árum og mun hafa verið fjármagnaður með olíufé. Ekki varð það svo, að á þessari siglingu gæti maður séð að þarna væri um svona pálma að ræða. Það sést ekki nema bara úr lofti.
Það var siglt og það það voru tekin fram drykkjarföng og matvæli eftir því sem siglingunni vatt fram. Ég einbeitti mér þó talsvert að umhverfinu, sem mér fannst með nokkrum ólíkindum. Ef það voru ekki skýjakljúfa, þá voru það skýjakljúfar í byggingu. Allt þetta umhverfi er manngert og ekki get ég sagt að það hafi fallið mér neitt sérstaklega í geð. Það hentaði þó vel til myndatöku og ætli ég hafi bara ekki verið hálf ofandottinn yfir þessu sem við blasti af bátsfjöl og hvernig umhverfið breyttist smám saman, eftir því sem sólin seig í rólegheitum nær sjóndeildarhringnum.


Áning

Eftir nokkra siglingu lá leiðin inn í einskonar vík, manngerða og þar var akkerum varpað (sjá rauða punktinn á myndinni ofar). Þar var tekið til við að reiða fram veitingar af ýmsu tagi og þeim gerð góð skil. Einnig skellti hluti hópsins sér í sjóinn, svamlaði þar og naut sín vel. Ég hefði alveg getað séð fyrir mér að Þorvaldsdætur hefðu nú tekið sundprett þarna, en hugmyndum í slíkt var tekið nokkuð fjarri. Eftir reynslu mína sem tengist bananabát á Atlantshafi fyrir nokkrum árum, ákvað ég að sleppa sundferð þessu sinni.


Stemmningin í hópnum var góð og fór stöðugt vaxandi eftir því sem á leið, við undirleik  tónlistar sem glumdi úr hljóðkerfi snekkjunnar. Ég skildi enn á ný hversvegna foreldrar mínir gerðu þá kröfu til systra minna, að þær lækkuðu í bítlagarginu fyrir slatta af ártugum síðan. Hljóðstyrkurinn var heldur mikill fyrir minn smekk, en ég lét það ekki á mig fá.  Þarna dró sjóferðarfólkið fram ágætis veitingar í mat og drykk og þessu voru gerð góð skil. Það var meira að segja dansað til að fagna lífinu og tilverunni.

Eftir sólarlag

Svo var bara akkerum létt, enda orðið ansi dimmt og siglt lengra inn í pálmann, ásamt fjölda annarra báta sem þarna voru einnig á ferð. Stöðugt birtust manni nýir ljósgjafar, þannig að ljósakeðja í útistofunni við Austurveg bliknar og vafasamt hvort tekur því að fara að hengja hana upp, eftir það sem þarna bar fyrir augu.  
Það leið að lokum ferðarinnar og því siglt til hafnar á ný. 
Í ljósi þess að þol Dúbæskra laga fyrir prómillum í blóði er nákvæmlega ekkert, fór ekki hjá því að ég velti fyrir mér, hvernig Dúbæingarnir hefðu skipulagt heimferðina frá smábátahöfninni. Viti menn, enn kom í ljós lausn sem ekki hafði hvarflað að mér. Það höfðu bara verið pantaðir tveir bílstjórar til að aka okkur á bílunum tveim. Þeir voru svo klárir þegar við mættum í bílana og brunuðu með okkur áfallalaust beint í sjálfbæru borgina. Á eftir kom svo þriðji bíllinn, sem sá um að flytja bílstjórana  til baka. Þetta mun vera ódýrara en að taka venjlegan leigubíl. Ja, svei mér þá.


Fólkið sem þarna var í för var einhverju yngra en við fimmmenningarnir, þannig að þegar það safnaðist, að hluta til,  á heimili Dúbæinganna, eftir að heim var komið, hafði ég ekki þrek til frekari gleðskapar og leyfði mér að setja stefnuna á draumaheima, eftir fínasta dag. 

13 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (6)

Framhald af þessu

Þennan þátt tileinka ég því sem flokkast undir ýmis skringilegheit í Dúbæ, sem þýðir, að þar er um að ræða eitthvað sem ég hef ekki átt að venjast gegnum lífsgönguna, en þykir þarna sjálfsagðir hlutir, ekki síst fyrir fólk sem hefur eitthvað á milli handanna. Mikið af þessu helgast af því að á þessum slóðum sýndist mér að stéttaskipting væri ansi mikil og þannig væri það bara.

En áður en ég kem að skringilegheitunum, finnst mér nauðsynlegt að eyða nokkrum orðum á umferð og umferðarmenningu í þessari arabísku borg, sem er í rauninni hreint ekki arabísk, allavega ekki arabísk í þeim skilningi sem ég legg í þá menningu.

Umferðarmenningin

Þegar Dúbæingarnir tóku á móti okkur á flugvellinum voru þeir á tveim bílum, eins og áður er getið. Við þurftum að skipt  okkur á bíla og fÁ ráðlagði mér og tveim öðrum að fá far með hS, vegna þess að hann væri "sunnudagsbílstjóri".  Það var ekki fyrr en nokkru seinna, sem ég áttaði mig á því að þarna í Dúbæ hefur þetta hugtak alveg öfuga merkingu  við það sem ég hef átt að venjast. Á þetta reyndi ekki fyrr en ekið var um svæðið að degi til. 
Til að útskýra þetta aðeins, þá hafði ég, áður en ferðin hófst, látið mér detta í huga að taka bíl á leigu svo við gætum farið í bíltúra þarna austurfrá; kíkt á eyðimörkina og svona.  Hefði ég gert þetta, væri  ég sennilega enn staddur, kolfastur í einhverju umferðarmannvirki, ef ég hefði þá komist út frá bílaleigunni yfirleitt.  Umferðin um þessa borg er gífurleg og vegirnir margar akreinar og akstur milli tveggja staða felst í því, að sveigja milli akreina, þar sem þéttar raðir bíla eru fyrir. Þetta felst í því að beygja bara, í þeirri von að bílstjórinn við hliðina gefi sig.  Þetta snýst um að láta vaða og það virðist einhvernveginn vera sameiginlegur skilningur bílstjóra, að svona sé þetta. Það kom alloft fyrir, að mér leist ekki alveg á blikuna og "sunnudagsbílstjórinn" tjáði sig nokkuð líflega um ökumenn sem á vegi hans urðu. Ég hefði ímyndað mér að við svona aðstæður væru sírenuhljóð helstu umhverfishljóðin, en svo var reyndar ekki. 

Sendlarnir

Hluti af ómanneskjulegri umferðinni eru skellinöðrur. Stundum náðu þær að verða nánast helmingur þeirra sem brunuðu í stórsvigi milli akreina. Þetta voru allt sendlar. með stóra kassa fyrir aftan sig á nöðrum sínum. Þeir voru að flytja mat frá veitingastöðum, eða varning úr búðum. Í kringum matmálstíma voru þessi farartæki óhemju mörg á ferðinni, en þegar við ókum á flugvöllinn um miðja nótt á leið heim, þá voru þar sendlar á ferð. Mér varð hugsað til þeirra kjara sem þessir sendlar búa við. Ef þeir ná ekki að komast á leiðarenda innan tiltekins tímafrests, fá þeir ekkert í sinn hlut, sem er ávísun á óvarkárni. Það sem ég sá jákvætt við þessa sendlaþjónustu var aðallega, að með tilveru sendlanna, dregur úr umferð stærri farartækja. Nema auðvitað fólk færi að elda mat hema hjá sér í meiri mæli. Ætli næsta skref verið ekki að taka upp matarsendingar með drónum, sem myndi þá líklega kalla á einhverskonar flugumferðarstjórn.

Skattamál

mynd af vef
Fólk greiðir ekki tekjuskatt í Dúbæ. Á móti skildist mér, að ýmisskonar óbeinir skattar stuðli að því að kroppa aura af fólkinu. Mér var til dæmis spurn, hvernig fjármögnun á feikilegum umferðarmannvirkjunum færi fram, en tókst aldrei að skilja hvernig henni er háttað. 
Mér sagt, að innfæddir íbúar Dúbæ nytu sérstakrar velvildar stjórnvalda og það væri séð til þess að þeir hefðu nóg fyrir sig. 
Ég ætla ekki að þykjast vita neitt um hvernig innviðir í þessu samfélagi eru fjármagnaðir. og segi ekki margt um það. Ég veit hinsvegar, að ég þurfti að kíkja til læknis, sem var á einkarekinni læknastofu (clinic). Biðin eftir að komast að var um það 15 mínútur. Viðtalið tók svona 4 mínútur og kostaði ISK 23.000 og pilluskammtur og krem kostaði einnig kr 23.000. Kannski eru það bara fyrirtækin sem standa undir þeim útgjöldum sem til falla í svona samfélagi.

Þjónusta

Mynd af vef

Ef þig vantar eldsneyti á bílinn þá geturðu bensínafgreiðslumenn heim. 
Ef þig vantar þrif á bílnum (það liggur sekt við því að aka um á skítugum bíl) þá geturðu fengið bílaþvottamenn heim til þess arna. Ég skil það vel, að svona þjónusta skuli vera svo aðgengileg sem raun ber vitni, því það er bara heilmikið mál, að leggja út í umferðina, þar sem heilmikill tími fer í að bíða á ljósum, eða stunda svig milli akreina í miklu bílakraðaki.


Stéttaskipting

Stór hluti íbúa í Dúbæ starfar fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki og nýtur afar góðra kjara, bæði í launum og fríðindum af ýmsu tagi. Þetta eru mikið Vesturlandabúar. Stór hluti íbúanna sinnir ýmisskonar þjónustustörfum og þá á eigin ábyrgð. Þetta fólk virtist mér að væri aðallega upprunnið enn austar, til dæmis frá Indlandi, Pakistan eða Filippseyjum.  Hlutskipti Araba sjálfra veit ég svo sem ekki um, þeir voru þarna á stangli og sjálfsagt í ýmsum hlutverkum.

Þessar byggingar!


Það virðist vera eitthvert markmið þarna austurfrá, að byggja upp í loftið og hver sem litið var, voru háhýsi í byggingu. Verktakarnir virðast mjög stolti af byggingum sínum, því afar oft merkja þeir sér þær. Ég sá alveg fyrir mér samskonar merkingu hérna við Austurveginn.

Þrifnaður

Mynd af vef
Það var allt svo hreint og fínt þarna. Götur, bílastæðakjallarar, verslanir, hvergi var að sjö örðu af óþrifnaði, sem er svo sem ekkert skrítið. Allstaðar rakst maður á fólk sem var að þrífa. Sérstaklega var minnisstæður einn, sem var að pússa polla fyrir framan dyr upp úr einum bílakjallaranum. Þetta er glansveröld. Það var svo hálfgert áfall að aka inni í bílakjallarann við Bilka í Ishöj. Þar hefði sannarlega þurft að taka til hendinni til að ná, þó væri ekki nema í skottið að dúbæskum bílakjöllurum.




Skólinn

Við fengum að koma í skólann sem börn Dúbæinganna ganga í. Við skólalóðina voru öryggisverðir sem hleyptu engum inn nema fólki sem hafði til þess leyfi. Börnin voru í skólabúningum og anddyrið minnti einna helst á móttöku í 4 stjörnu hóteli.

Í skólanum eru um 3300 nemendur og þetta er auðvitað einkaskóli, sem er hluti af starfskjörum útlendinga og þar fer kennsla fram á ensku. Kurteisi til orðs og æðis er þarna höfð í hávegum og kennararnir ávarpaðir  sem Miss/Mrs og Sir/Mr.  Mér varð hugsað til landisn í norðrinu, ég neita því ekki. Við sáum börnin koma úr skólanum eftir skóladag og það var  ekki sjáanlegt á þeim að þau þyrftu að þola kúgun af einhverju tagi, brosmild og afslöppuð.

Svona gæti ég haldið lengi áfram, en ætli þetta sé bara ekki orðið gott.

12 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (5)

Beðið eftir lyftunni.
Framhald af þessu.

Þar sem við fimmmenningarnir, héldum sem leið lá, að lyftunum upp í turninn mikla, hæstu byggingu heims, Burj Khalifa, bar aðallega tvennt til tíðinda, fyrir utan það, að við vorum hreint ekki ein á ferð. Hið fyrra gerðist þegar við vorum búinn að ganga stillt og prúð í röð eftir gangi sem bar okkur áleiðis. Þá kom maður hlaupandi á eftir okkur og veifaði úri. Hann var að leita að eigandanum og eigandinn reyndist vera ég. Úrið hafði orðið eftir í bakka í öryggisleitinni. Ég var sannarlega þakklátur fyrir að öryggisvörðurinn hafi ákveðið að elta uppi úreiganda meðal mannfjöldans sem þarna fór í gegn.

Hitt sem gerðist á leið okkar varð þegar við nálguðumst lyfturnar. Þá stóð þar maður og bað fólk að sýna aðgöngumiða. Við sáum auðvitað fram á að þarna lyki ævintýrinu, þar sem fÁ var með alla miðana í símanum sínum og hún var hreint ekki með í för! Góð ráð voru dýr og þegar ég kom að þessum öryggisverði brá ég á það ráð að brosa blíðlega og útskýra í örfáum, vel völdum orðum, stöðu mála frá okkar hlið. Þetta virkaði án nokkurra vandræða.

Á leiðinni að lyftunum, sem var ansi löng, hafði verið komið fyrir sýningu á myndum, teikningum og líkönum, sem sýndu turninn á ýmsum byggingarstigum. Við vorum hinsvegar að drífa okkur og litum varla við öllum þeim fróðleik sem þarna var í boði. Svo komum við að lyftunum, en þær voru tvær og á stöðugri ferð upp og niður með ferðafólk. Þeir sem biðu niðri gátu varla leynt spenningi sínum, en þeir sem komu út úr lyftunni sem var að koma niður, sýndu engin merki þess að þeir hefðu upplifað eitthvert stórkostlegt ævintýri. 
Þarna var okkur raðað fyrir framan lyfturnar og þar stóðum við eins og prúðum túristum sæmdi, þar til önnur lyftan var komin niður frá 124. hæð. Við þyrptumst inn í hana og spennan var áþreifanleg á leiðinni upp meðan arabískur sheik fjallaði um eitthvað tengt þessu mikla mannvirki.
Lyftan ferðast allra lyfta lengst, fer hraðar en nokkur önnur lyfta (36 km/klst). Það tók um 1 mínútu að komast upp þessar 124 hæðir.

Þarna upp tók svo við mikill fjöldi fólks í sömu erindagerðum og við. Það var varla hægt að finna lausan glugga til að taka myndir út um. Svo var allstór minjagripaverslun á þessari útsýnishæð.  Sem sagt, þetta var all öðruvísi en ég hafði séð fyrir mér.
Það sem mér kom svo einna helst á óvart var, að við fystu sýn virtist eins og það væru bara varla nokkrar byggingar í kringum turninn; bara nokkrir turnar á stangli.  Við nánari athugun kom auðvitað í ljós að ansi verklegar byggingar þarna niðri virtust varla rísa upp fyrir jafnsléttu. Þetta má sjá á myndunum sem hér fylgja, en þar er ég búinn að setja bláan ramma utan um hluta efri myndarinnar og stækka svo það sem er í bláa rammanum í þeirri neðri: 



Þarna undum við okkur við að drekka í okkur útsýnið og ég var sérlega duglegur að bæta myndum inn á myndflöguna.  Rykmistrið sá til þess, að sjáanlegur fjarski var ekkert svo fjarri. Það grillti í 7 stjörnu lúxushótelið Burj Al Arab, en ekki tókst mér að sjá til Palm Jumeirah.  Að því búnu lá leiðin niður aftur, en ég læt hér fylgja nokkrar myndir úr þessum stóra turni.  (Svo kemur aðeins meira fyrir neðan)








fA, fD og fS í Burj Khalifa


Lyftubiðröð beið okkar þar sem við reyndum að komast niður og meintur áhrifavaldur, truflaði nokkuð ánægjuna af því að standa í biðröðinni. Það fór þó allt vel, þótt tvísýnt væri á tímabili og ég tók meira að segja áhrifavaldalega mynd til að krydda þetta aðeins.


Niður aftur
Fyrir framan turninn fundum við vökvunarstað og undum þar við umtalsverða gleði þar til okkar beið bókað borð á líbönskum veitingastað rétt hjá, með útsýni að turninum og tjörninni fyrir framan hann. Þar fór svo fram þekkt sýning með samspili vatns, ljóss og tónlistar, undir kvöldverðinum.
Einn þessara daga sem seint gleymist víst.



11 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (4)

Þetta er framhald af þessu.

Kalífaturninn í arabíska furstadæminu Dubai er 829,9 metra hár. Hæðirnar eru 163 og spíran eft á honum er 12 metrar í þvermál. Þetta er hæsta mannvirki í heimi og hlaut þann heiður við opnun árið 2010. Næst hæsta byggingin í dag er Merdeka í Kuala Lumpur, sem var tekin í notkun 2023. Hún er ekki nema 679 metrar og hæðirnar 118. 
Turninn sérstaklega byggður til að vera hærri en fyrrverandi hæstu turnar heims: Petronas tvíburaturnarnir í Malasíu. Þetta er, með öðrum orðum, algjör montturn. (fararheill.is)


Það má teljast rétt vera að um sé að ræða "montturn", en ekki ætla ég að blanda mér í þá umræðu. Hinsvegar munu hafa borist að því fregnir fyrir nokkru, að Kínverjar hygðust byggja hærra en Dúbæjar og það mun ekki verða látið óátalið, því teikningar liggja fyrir á turni sem gæti orðið 1.3 km á hæð.  Nenni ekki að pæla meira í því.

Burj Khalifa er alveg sæmileg bygging og fyrir sérstakt áhugafólk. set ég hér hæðina á honum inn á tvö kort, annað af Selfossi, en þar myndi turninn ná frá Bónustorginu að Pálmatréblokkunum.  Hitt er kort af Laugarási en þar myndi turninn ná frá Skúlagötu, eftir Skógargötu og Höfðavegi, langleiðina að Brennuhól.  

 

Turninn sigraður

Eftir hvíldardaginn var lagt af stað um hádegisbil sem leið lá að Dubai verslunarmiðstöðinni, sem er sannarlega risastór, ef ekki stærst í heimi, en hún er einmitt sambyggð Burj Khalifa. Það var fÁ sem flutti hópinn þangað í bílaumferð sem jaðrar við geðveiki, en ég mun koma nánar að henni síðar. Smátt og smátt fór að sjást meira til turnsins í mistrinu og ég tók fleiri myndir en ég hefði þurft, þar sem turninn breyttist lítið sem ekkert milli mynda. Þessar fjórar myndir hér fyrir neðan sýna fram á þetta.


Til að vera nú ekki að lengja þetta úr hófi, þá endaði þessi ferð í bílakjallara, skínandi hreinum og fínum, og þaðan lá leiðin upp í verslunarmiðstöðina, Dubai Mall. Auðvitað var þetta bara háborg kapítalismans í sinni tærustu mynd, en þar var einnig ógnarstórt fiskabúr, sem tekur 10 milljón lítra af vatni og stærðin er lengd: 51 m, breidd:20 m. og hæð:11 m. Í búrinu eru 140 tegundir sjávardýra, þar af einir 300 hákarlar.

 

Glerið í búrinu er 75 cm á þykkt og auðvitað það stærsta glerplata (panel) í heimi.

Í Dubai Mall
Það er líka foss í þessari miklu byggingu, en þrátt fyrir að við röltum vítt og breytt munum við ekki hafa náð að komast í nema í mesta lagi 10% af henni.
 Tilgangur okkar var sannarlega fyrst og fremst að renna upp turninn mikla, en til þess að komast þangað þurftum við að fara um þá glyshöll sem þessi verslunarmiðstöð er. Það var auðvitað búið að ganga frá miðakaupum fyrir okkur og því allt klárt.

Gangan í turninn hefst
Miðatékkun nálgast.
Ég hafði, meðan ég var enn hér á Fróni, verið að velta aðeins fyrir mér heimsókninni í turninn, reiknað með, að þetta yrði svona nánast einkaheimsókn okkar öldunganna þarna upp, en því reyndist aldeilis ekki að heilsa.
Þarna, rétt eins í á annatíma á Keflavíkurflugvelli, voru uppi mannfjöldastjórnunarbönd, sem sáu til þess að leiðin að turninum færi nú eftir settum reglum. Við vorum þarna eins og leikskólabörn með fÁ í hlutverki fóstrunnar (eldra og betra nafn en leikskólakennari). Hún hafði nefnilega keypt miða fyrir okkur á netinu og var því með miðana okkar í símanum sínum. Þar sem miðar voru tékkaðir af, þurfti hún að gera grein fyrir okkur og framvísa gögnum þar að lútandi, áður en hún sneri frá, enda hafði hún áður upplifað leyndardóma turnsins. 
Eftir að við vorum komin gegnum miðahliðið, tók við sprengjuleit, þar sem við þurftum að renna öllu okkar gegnum skanna eins og gerist á flugvöllum. Þar með vorum við komin inn og bara framundan að koma sér að lyftunum sem myndu flytja ökkur til himna og niður aftur, en frá því ferðalagi greini ég næst.

FRAMHALD síðar.

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...