Sýnir færslur með efnisorðinu ferðalög/skemmtanir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ferðalög/skemmtanir. Sýna allar færslur

14 ágúst, 2011

Hlutlaus frásögn af flugferð

Það er miðvikudagsmorgunn, 3. ágúst 2011. Klukkan er rétt rúmlega átta að morgni í rananum á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þarna ganga þau fD og hP með handfarangur sinn sem leið liggur út að hliði 15 þar sem þeirra bíður flugvél á vegum IE, sem er 'on time' eins og það heitir á flugmáli, og sem á að hefja sig á loft kl. 08:40 frá Keflavík og lenda í Kaupmannahöfn kl. 13:40 að staðartíma. Þau fD og hP eiga síðan tengiflug með Norwegian flugfélaginu sem fer frá Kaupmannahöfn kl 15:25 að staðartíma, til Álaborgar. Þarna er sem sagt klukkutími og fjörutíu og fimm mínútur milli þess sem vél IE á að lenda  og vél Norwegian á að taka á loft. Þá ber þess að geta að þar sem um innanlandsflug er að ræða, er frestur til innritunar þar til hálftíma fyrir flug.

Þetta eru aðstæðurnar miðað við að allt sé samkvæmt áætlunum.

Kl. 0825 - Farþegum er hleypt úr biðsal niður í annan biðsal. Fyrir utan stendur farkosturinn.
Kl. 0835 - Farþegar fá að ganga út í vélina (5 mín í áætlaðan brottfarartíma).
Kl. 0850 - Farþegar í stórum dráttum komnir í vélina - (fD og hP sitja þannig að þau heyra vel orðaskipti flugþjóna sín í milli.) Enn vantar 2-10 farþega - talningarmanneskjan var ekki viss, svo talning var framkvæmd aftur.
Kl. 0905 - Vel slompaður eldri karlmaður kemur í vélina. Annað gerist ekki.
Kl. 0925 - Flugstjóri tilkynnir að beðið sé eftir pappír vegna hleðslu vélarinnar og segir að þegar hann er kominn, sé ekkert að vanbúnaði að leggja í hann.
Kl. 0945 - Flugstjórinn tilkynnir að nú sé pappírinn að koma og það sé ekkert annað en skella sér í loftið. Maður kemur inn í vélina með pappír í hönd og fer fram í flugstjórnarklefann, síða út aftur. Vélinni er lokað. Ekkert frekar gerist.
Kl. 0955 - vélinni er ýtt frá flugstöðinni og er síðan ekið alllanga leið þar til tekið er á loft um kl 10:00. Í flugtaki tekur að leka vatn yfir hP þar sem hann situr og veltir fyrir sér hvernig bregðast skuli við þessari stöðu sem upp er komin. Bráðfyndinn flugþjónn segir að sturtan sé bara bónus.

Þetta ferli hafði það óhjákvæmilega í för mér sér að ekki er flogið frá Kaupmannahöfn kl 15:25, enda voru þau fD og hP þá að bíða eftir töskum á færibandi.
Álaborgarbúandi Kvisthyltingurinn fór í að breyta flugmiðum. Breytingin kostaði DKK1240, sem var þá  beint fjárhagslegt tap vegna seinkunar á brottför IE frá Keflavík.

Hér er auðvitað hægt að upphefja hávaða, en tilgangur með slíku væri fyrst og fremst að losa sig við einhverjar frústrasjónir - annað hefði það ekki í för með sér.
Það virðist ljóst að farþegar hjá IE eru búnir að aðlaga sig því að vélar þess fari bara einhverntíma af stað, sem er auðvitað erfitt fyrir þá sem kjósa að halda sig við þær tímasetningar sem farið er af stað með.

Flugið með Norwegian til og frá Álaborg var eins og best verður á kosið - tímasetningar stóðust og vélarnar voru nýjar og gott fótapláss. Ég get mælt með því flugfélagi.

19 júní, 2011

"Ðer is nó kar for jú" (3)

Þarna stóð ég og upplifði það versta sem hefði getað gerst, með þrjá tilvonandi og grunlausa farþegana í hægindum fyrir framan. Afgreiðslumaðurinn gerði sig ekki líklegan til að segja neitt frekar um málið, hvað þá reyna að gera eitthvað í því.

Þá hófust EN-in hjá mér:
En ég er með blað sem sýnir að ég sé búinn að taka frá bíl.
En það stóð að bíllinn biði mín.
En ég pantaði bílinn fyrir 6 vikum.
En mér var sagt að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa þó ég fengi ekki staðfestingu frá ykkur.
Hér laumaði ég inn þeirri staðreynd að einn helsti leigutaki bíla frá SIXT í Þýskalandi væri sonur minn, og að hann hefði ekkert nema gott eitt um þjónustuna að segja. Þá greindi ég lítilsháttar sprungu í þvergirðing þessa hjálpsemislausa afgreiðslumanns. Hann tók til við að segja mér hversvegna ég fengi ekki bíl, en fyrir því voru tvær ástæður:

1. Mér var sendur tölvupóstur þann 25. maí (daginn sem við fórum frá Íslandi) þess efnis að ég mundi ekki geta fengið bíl.

Non availability of rental car
Sehr geehrter Herr SKULASON,
anbei erhalten Sie das bei Ihrer Sixt Autovermietungangeforderte Dokument.Weiterhin Gute Fahrt wünscht Ihnen

Unfortunately we are unable to confirm  the request at the required time.


Ihr Sixt-Team.

2. Ég hefði átt að mæta í síðasta lagi kl 11 á þessum degi (ef ég hefði á annað borð fengið bíl), þar sem ég hafði sagst ætla að ná í hann kl. 10, en þegar hér var komið var klukkan um þrjú. Þetta átti ég að hafa getað lesið einhvers staðar, en sú hafði ekki verið raunin.

Þarna var s.s. nokkuð þrátefli komið upp. Ég hafði auðvitað ekki grun um hvað til bragðs skyldi taka, en þar sem það var komin sprunga í þvergirðinginn, fór ég að reyna að meitla í hana: höfða til göfugra tilfinninga og freista þess að fá mannræksnið í það minnsta til að sýna lítilsháttar skilning á stöðunni. Það lengsta sem ég komst með hann í þeim efnum var, að hann sagði að það væri fjarlægur möguleiki að ég gæti fengið bíl eftir kl. 5, tveim tímum seinna. Að öðru leyti var hann bara farinn að dunda sér í tölvunni. Þá, allt í einu, upp úr þurru gerðist lítið kraftaverk:

"Jú kom from Æsland?"

Þessu játti ég auðvitað. Þessi staðreynd dugði til að breyta durtinum í dánumann.

Þarna kom sem sagt fram, að hann var innan örfárra daga að skella sér í siglingu um N-Atlantshafið og einn viðkomustaðurinn var Ísland. Þessi tenging varð til þess að hann sagði mér, þessum nýja, besta vini sínum, að hann væri með bíl fyrir utan, en það væri ekki búið að þrífa hann.
Finnst einhverjum líklegt að ég hafi farið að setja það fyrir mig?!?

Þarna var um að ræða splunkunýjan VW Passat, sem ég gat ekki séð að væri eitthvað óþrifalegur.


Þegar hér var komið fór ég að freista þess að leysa hitt vandamálið með vini mínum: GPS-tækið sem fann ekki gervihnött. Ég reyndi í miðbænum í Amberg og aftur þarna í bílahúsinu hans Péturs, en án árangurs.
Vinur minn gat sagt mér, að það væri bara eðlilegt: strax og ég kæmi út fyrir húsið, myndi tækið ná sambandi. Sú varð auðvitað raunin.

Allt leystist þetta farsællega, og ég átti vona að vini mínum frá Amberg í kaffi þann 8. júní, en þá ætlaði hann að vera á Íslandi og koma í hemsókn (Æ hef jor adress) , sem ég af örlæti mínu, tók undir af heilum hug, enda var þessi bíll 30 evrum ódýrari en sá sem ég hafði pantað.

Ég skellti mér í sturtu bak við glerið þegar komið var á hótelið - ekki veitti víst af.

Vinur minn kom ekki í kaffi. Landið hefur kannski reynst vera stærra en hann hafði ímyndað sér.


17 júní, 2011

"Ðer is nó kar for jú" (2)

Einn þeirra sem nærri mér standa hefur þá kenningu, að maður eigi alltaf að búast við hinu versta til að koma í veg fyrir vonbrigði. Ég neita því ekki, að frá því ég pantaði bílaleigubílinn blundaði sú hugsun í kollinum á mér að þegar ég kæmi til að nálgast bílinn, sæti þar manneskja sem segði:
"Ðer is nó kar for jú"
Ég var búinn að fara í gegnum allskyns möguleg viðbrögð mín við aðstæðum af þessu tagi. Í þessum vangaveltum mínum varð niðurstaðan ávallt sú, að bíllinn biði mín, eins og sagði í  SIXT Online-Check-In: Rapid pickup:


Sixt Online-Check-In: Rapid pickup

Sixt Online-Check-In: Pick up your hire car in no time!
  • Collection at the dedicated Online-Check-In desk *
  • No queues and no paperwork
  • Your hire car will be waiting for you













"Your car will be waiting for you" sögðu þeir. Hversvegna átti ég svo sem að draga það í efa?

Svona var hugsanagangur minn þar sem við fjögur (ég, fD, fG og hH) sátum í leigubíl sem flutti okkur til Autohaus Peter, An den Franzosenaeckern 1, í Amberg.


Þegar þangað var komið gerðum við upp leigubílinn og ég tók forystuna þegar hópurinn gekk inn um dyrnar á bílahúsinu hans Péturs.


Þarna voru bílar af ýmsum gerðum, nýir og notaðir. Ég var búinn að kynna mér, að Pétur var þarna með sölu á nýjum og notuðum bílum, svo þetta kom ekki á óvart.

Ég skimaði um salinn í leit að merki bílaleigunnar, en fann til lítilsháttar óöryggis þegar það blasti hvergi við. Afgreiðslumann fann ég, sem gat vísað mér að bílaleiguna. Fullir trausts á mér, fengu farþegarnir sér sæti í hægindum bílahússins, en ég gekk eins ákveðið og mér var unnt, í átt til afgreiðslu bílaleigunnar. Það stóð heima, þarna var hún, inni í miðju bílahússins.

Fyrir innan afgreiðsluborðið sat maður á fimmtugsaldri, fyrir framan tölvu (hvar annarsstaðar?), líklegast í tölvuleik, því það var enginn annar kúnni á staðnum. Við skiptumst á kveðjum og ég bar upp erindið og framvísaði þeim gögnum sem ég hafði prentað eftir að hafa bókað bílinn (tekið hann frá) á sínum tíma.
Maðurinn virtist harla fjarri því að vera ánægður með að sjá mig, kúnnann, og sagði helst ekkert. Hann tóka blöðin mín og slö tölur inn í tölvuna. Ég vonaði, heitt og innilega, að fyrsta setningin sem hann segði eftir innsláttinn yrði ekki:  "Ðer is nó kar for jú".


Mér varð að ósk minni.

Þegar maðurinn hafði, þegjandi í talsverðan tíma, kynnt sér hvað tölvan hafði fram að færa, kvað hann upp úrskurðinn:

"Zehrrs nó kar for jú".
- með öðrum orðum:
"Kompjúter ses nó"

Framundan voru mínútur sem ekki verður lýst hér og nú - heldur síðar.

13 júní, 2011

"Ðer is nó kar for jú" (1)

Ég er nú þeirrar gerðar, að mér er fremur illa við óvissu og því var það, að 5-6 vikum áður en við héldum í Evrópuferð vorsins skellti ég mér í að panta bílaleigubíl vegna seinni hluta ferðarinnar. Þá lá fyrir, að á síðasta degi starfsmannaferðarinnar, (sem hófst þann 24. maí), þann 30. maí, myndi verða farið til Amberg, sem er 45000 manna bær í tæpra 20 km fjarlægð frá Sulzbach-Rosenberg. Það lá hinsvegar ekki fyrir hvenær dags það yrði.

Nú, þarna fann ég bílaleigu með útibú í Amberg sem ber nafnið SIXT og þar fann ég viðeigandi bifreið og festi mér hana, eftir því sem ég taldi og gerði ráð fyrir að ná í hana kl 10 að morgni. Það eina sem olli mér lítilsháttar áhyggjum í þessu sambandi var, að ég fékk engin viðbrögð eða staðfestingu frá bílaleigunni um að þetta yrði allt í lagi, en þær hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar reyndur maður í viðskiptum við þessa bílaleigu, fullvissaði mig um að ég fengi bílinn; það væri engin spurning.

Svo rann dagurinn upp. Hópurinn fór til Amberg eins og ferðaskipulagið gerði ráð fyrir og sinnti því sem þar þurfti að sinna. Eins og flesta daga ferðarinnar var þarna glampandi sólskin og molluhiti (28-30°C). Eftir skipulagða viðburði dagsins vorum við stödd í miðbæ Amberg og mér datt í huga að taka fram GPS tækið góða sem skyldi leiða okkur um þjóðvegakerfi Þýskalands. Þegar ég kveikti á því tilkynnti það mér, að Evrópukortið væri úrelt og ég þyrfti að uppfæra það, og síðan birtist tilkynning um að það fyndi ekki gervihnött. 

Ekki leist mér á blikuna þegar hér var komið. Hætti að njóta þess að vera þarna í þessari ágætu borg og hugsaði fátt annað en hvernig við færum að, ef tækið fengist ekki til að virka. Taldi þó að það myndi allt reddast þegar ég fengi SIXT menn með mér í að leysa úr því - þeir hlytu að vita allt um GPS tæki.

Þegar hér var komið var klukkan orðin um 14.30 og fátt sem ég hafði hug á að sinna frekar í miðborg Amberg, ekki síst í ljósi áhyggna minna af virkni GPS tækisins. Ég komst einnig að því, að fD var orðin tilbúin til að fara að sinna bílamálinu, enda búin að fara í C&A. Þá var staðan einnig orðin sú að hún var búin að nefna það við núverandi og verðandi ellilífeyrisþega, þau hH og fG, hvort þau vildu bara ekki koma með okkur í bílaleigubílnum til S-R, í staðinn fyrir að taka leigubíl þangað. Þarna bar ég, sem sagt, orðið ábyrgð á því að koma mér og þrem farþegum frá Amberg til S-R í bílaleigubíl sem ég var ekki viss um hvort ég fengi með GPS tæki sem ekki virkaði.

Væntanlegur farþegahópur hélt gangandi úr miðbæ Amberg á járnbrautarsöðina þar sem síðan var tekinn leigubíll að útibúi SIXT í úthverfi bæjarins.

Það sem þar gerðist bíður um stund.

12 júní, 2011

Fyrir innan glerið

Á innlits-útlits tímanum voru gerðar ýmsar lúxustilraunir að því er varðaði híbýli manna eins og flestir vita. Það voru gerðar tilraunir með ný efni í innréttingum og nýja stíla (eðlilega, með hratt vaxandi stétt stílista). Ein þessara tilrauna fólst í því að sameina hjónaherbergi og baðherbergi í eitt alrými með því að setja upp glervegg milli þessara tveggja rýma og þar með tryggja það að ekkert sem fram fór í öðru rýminu fór framhjá þeim sem voru staddir í hinu.

Einhverjum kann að finnast að ég sé nú bara gamaldags, að skilja ekki mikilvægi þess að tveir aðilar sem deila sama herbergi, eigi ekki að þurfa að framkvæma hluti sem þeir vilja helst gera einir með sjálfum sér. Þá er ég bara gamaldags.

Þetta herbergi með glerveggnum inn á salernið rifjaðist upp fyrir mér, þegar við fD gengum inn á herbergið okkar á hótelinu í Sulzbach-Rosenberg. Byggingin sjálf er frá árinu 1791, en hefur gengið í gegnum mikla endurnýjun innanstokks. Ein slík virðist hafa átt sér stað á einhverjum herbergjanna fyrir örfáum árum, á blómatíma stílistanna. Þannig var það með herbergið sem við fengum og við fréttum af nokkrum öðrum, slíkum. Í þeim voru, í sumum tilvikum óskyldir/ótengdir aðilar, sama kyns.

Myndin er ekki frá Sperber
Ég ætla ekki að fara út í neinar nákvæmar lýsingar á því sem þarna var um að ræða, né þær vangaveltur og hugsanir sem bærðu á sér við þessar aðstæður, en læt huga hvers og eins lesanda um að fara á það flug.










Hótelið var, á heildina litið, mjög snyrtilegt og hlýlegt; nokkurs konar sambland af hóteli og brugghúsi. Á góðu kvöldi fengum við leiðsögn um brugghúshluta hússins, og auðvitað var enginn annar bjór drukkinn, enda hreint ágætur.

11 júní, 2011

Fjör og massar

Langt er nú síðan ég hef látið til mín taka á þessum vettvangi, en það á sér gildar skýringar. Mér er það auðvitað fullljóst að þeir eru margir sem af þessum sökum hafa ekki getað sótt sér andlega næringu sem skyldi á þessum tíma og ég biðst auðvitað velvirðingar á því.

Ráðhúsið í Sulzbach-Rosenberg
Þegar búið var að afgreiða það sem afgreiða þurfti að því er varðaði vinnuna, skelltum við fD okkur í hópi 32 manna samstarfsmanna í ógurlega skemmtilega náms- og kynnisferð til smábæjar í S-Þýskalandi sem Sulzbach-Rosenberg kallast. Til nánari útlistunar á hvar bær þessi er þá er þess að geta að hann er um 50 km suðaustur af Nurnberg.




Þetta var löng skrúðganga með
amk 2 lúðrasveitum
Íslenskir þátttakendur í skrúðgöngu

Það er skemmst frá því að segja að þarna fengum við aldeilis ágætar móttökur og fengum stöðu heiðursgesta í bænum um stund. Daginn eftir komu okkar í bæinn skartaði bæjarblaðið risastórri mynd af hópnum ásamt umfjöllun um heimsóknina. Hámarki náði meðferðin á okkur þegar bæjarstjórinn margítrekaði tilveru okkar í opnunarræðu sinni á vorhátíð bæjarins. Þar skipaði hann okkur á stað í skrúðgöngu næst á eftir lúðrasveitinni. Göngufólk var að öðru leyti heimamenn sem skörtuðu ótrúlega litríkum þjóðbúningum (eða þorpsbúningum) - Ég rétt sé fyrir mér samskonar hátíð í Bláskógabyggð þar sem Þingvellingar, Laugdælingar og Tungnamenn kæmu saman til skrúðgöngu. Hvar eru okkar búningar?

Massar, massar, massar
Skrúðgöngunni lauk á hátíðarsvæði bæjarins, í risastóru tjaldi, þar sem okkur var auðvitað vísað til sætis og í okkur borinn bjórinn í líterskrúsum (mass). Það fór ekki hjá því að margur í hópnum yrði afar kátur við þessar aðstæður.

Á hátíðarsvæðinu var heilmikið Tívolí þar sem mest bar á feiknastóru Parísarhjóli, sem fD var ófáanleg til að reyna, en sem ég gerði hinsvegar auðvitað, enda mikill ævintýramaður.




Það var ekkert mjög leiðinlegt þarna.
Þarna var mössum stútað fram eftir kvöldi. Þeir sem eldri eru og virðulegri í hópnum, kunnu sér hóf og héldu til hvílu á skikkanlegum tíma á meðan þeir sem ekki hafa enn fengið fylli sína af gleðskaparlátum lentu á flandri fram eftir nóttu og áttu loks í nokkru braski með að koma sér til hvílu, en um það er ekki rétt að fjölyrða hér.





Það kann að vera, að ég varpi upp fleiri myndum úr ferð þessari síðar, en hún myndaði fyrrihluta Evrópuferðar okkar fD, því þegar flestir samstarfsmannanna héldu heim á leið, brunuðum við í bílaleigubíl 400 km í norðaustur átt til Görlitz þar sem við nutum lífsins hjá tenórnum okkar og fjölskyldu hans.

13 nóvember, 2010

Frá eyju til eyjar


Allt var fólkið hjálpsamt og vingjarnlegt, veðurfarið ljúft, aðstæður allar hinar þægilegustu, meira að segja á mælikvarða ofdekraðra Vesturlandabúa. Það fór hinsvegar ekki fram hjá manni, að það kraumar undir; það er ýmislegt óuppgert: frá því Tyrkir gerðu innrás 1974 virðist ekki hafa gróið um heilt og ekki varð vart við að reynt væri að dylja andúðina, jafnvel hatrið, á hernáminu.  Skólabörnin tóku meira að segja þátt í að tjá þessi viðhorf. Ef maður horfir á landfræðilega staðsetningu virðist ekkert eðlilegra en að Tyrkir fari með yfirráðin, enda örstutt þangað. Þarna er hinsvegar á bak við saga sem ég treysti mér ekki til að fjalla um. Veit það, að vegna legunnar er ekki við öðru að búast en að ýmsar valdamiklar þjóðir hafi haft áhuga á að ráða þarna ríkjum. 
Eftir frelsisbaráttu kom að því, að yfirráðum Breta lauk, og lýst var yfir sjálfstæði. Það er samt enn ekið á vinstri vegarhelmingi. Það var ekki að sjá á landslaginu að mikið væri ræktað. Aðal atvinnuvegurinn er ferðaþjónusta og mest er flutt inn af þeim vörum sem þarf. Þarna búa um 860000 manns. Mikill fjöldi innflytjenda, að stórum hluta frá fyrrverandi Sovétríkjunum fluttist þangað á ákveðnu tímabili. einhver sagði þá vera um 15% þjóðarinnar.
Það eru ekki nema 240 km loftlína til höfuðborgar Líbanon, sem eitt og sér gefur til kynna, að þarna er heitt í fleiri en einum skilningi.
---------------------------------                                                       

---------------------------------
Ástæða ferðar til Kýpur, er ákvörðun sem við Laugvetningar tókum fyrir tveim árum: að sækja ráðstefnu ESHA (Evrópusamtök skólastjórnenda) í Limassol á Kýpur í nóvember 2010. Þarna fórum við fD áramt 26 skólastjórnendum og mökum í 6 daga ferð til þessarar mögnuðu Miðjarðarhafseyju. Það var flogið héðan til Manchester á Englandi og þaðan var 4 tíma flug til Larnaca flugvallar (með millilendingu, sem ekki var í upphaflegri ferðaáætlun) þar sem beið ríflega 50 km akstur til áfangastaðarins. Þá tók við ráðstefna hjá mér í tvo og hálfan dag þar sem áhersla var á að fjalla um húmaníska nálgun að skólastarfi, en fD gat flatmagað á meðan í blíðunni. Kl 2 að nóttu var síðan lagt af stað til Íslands aftur, með millilendingu og bið á Heathrow í London. Það er aðallega þetta flugstand allt saman sem ég hef að athuga við svona ferðalag - endalaus biða og biðraðir - annað eins gott og á verður kosið.

Undir stjörnuhimni, með tærnar upp í loft.

Á undanförnum mánuðum hef ég heyrt talsvert um það að sjósund séu allra meina bót og hef nú litið að það sem einhverskonar karlagrobb (já, ég sagði það). Það síðasta sem ég heyrði af þessum vettvandi var yfirlýsing þess efnið að það væri ólýsanleg dásemd að liggja á bakinu í 2,4° heitum sjó og horfa á stjörnurnar.
Ástæða þess, hver vel upplýstur ég er um sjósundsiðkun, er fyrst og fremst óskiljanlega ástríðuþrungnar frásagnir frænku minnar, einnar, af þessu fyrirbæri. Það kann að vera, að það hafa hvarflað að mér, við og við, að það gæti nú verið viturlegt af afgreiða fyrirbærið ekki alveg si svona. Það gæti líka verið að ég hafi bara prófað þetta sjálfur: að liggja í sjónum í nóvember og láta öldurnar gæla við kinn.
Já, það skyldi þó aldrei vera..........

28 ágúst, 2010

Háloftasvíinn

Nú, þegar ágústmánuði er að ljúka, tel ég við hæfi að fara að ljúka hugarmyndasýningu minni frá Evrópuferð okkar fD, sem lauk um síðustu mánaðamót. Allt fór í þessari ferð eins og lagt var upp með við áætlanagerð. Það vil ég nú þakka ýmsum, ekki síst sjálfum mér, sem las fyrirugaða ferð sérlega vel og skipulagði í framhaldi af því, auk þess sem ég ögraði sjálfum mér talsvert (og fD líka) með því að takast á við nýjar áskoranir. Aðrir þeir sem gerðu sitt til að allt færi vel og að við nytum alls sem fyrir augu og eyru bar, fá hér enn þakkir fyrir höfðingsskap og elskusemi.
-----------------------------
Það er hreint ekki svo að ég ætli mér að enda þessa mánaðarlöngu syrpu á neitt jákvæðum nótum, þvert á móti tileinka ég hana íslenskum manni um þrítugt sem hér eftir verður kallaður "Svíinn" og sem við vorum svo óheppin að vera samferða í flugvél sem flutti okkur til baka eftir Evrópuævintýrið.
Fljótlega eftir að við vorum sest í flugvélinni kom Svíinn inn ásamt, líklega 7 ára dóttur sinni, að því er ætla mátti. Þau settust í sæti sín, tveim sætaröðum fyrir framan okkur og við urðum fljótt vör við að hann talaði afskaplega mikið við dótturina, sagði henni allt sem nöfnum tjáir að nefna í sambandi við flugvélina, áhöfnina, reglur sem flugfarþegar eiga að fylgja o.s.frv. Það var ekki laust við að ég dáðist að því hve góður faðir var hér á ferð, hugulsamur og fræðandi. En hann talaði stanslaust, og var ekki beint að hvísla, en það var svo sem ekkert til ama.

Hvað um það, flugvélin tók á loft og þá þurftu allir farþegar að vera bundnir eins og reglur gera ráð fyrir, og sem Svíinn gerði dótturinni ítarlega grein fyrir. Í sætaröðinni fyrir framan okkur var kona með tvö börn á svipuðum aldri og dóttirin. Í sætaröðinni fyrir framan Svíann og dótturina var síðan enn eitt ca 7 ára barnið. Sem sagt þarna voru á svæðinu  fjögur ca 7 ára börn.
Öryggisbeltaljósið var ekki fyrr slokknað en Svíinn stóð á fætur og kom sér fyrir á ganginum. Hann reyndist vera með bjórdós í hönd og þá skýrðist nokkuð það sem á undan var gengið. Það reyndust verða þó nokkrar bjórdósir sem hann tæmdi áður en þessari ferð lauk. 
Þar sem hann stóð á ganginum og skannaði umhhverfið í átt til okkar, kom hann auga á börnin í sætaröðinni fyrir framan okkur. Það skipti engum togum, að hann fór að ræða við börnin um allt milli himins og jarðar, meðal annars um ástæður þess að hann var þarna staddur, en hann hafði farið til Svíþjóðar fyrir sex mánuðum til að vinna að einverju mikilvægu verkefni og var nú á leið heim í heimsókn. Hann tók til við að kenna börnunum fjórum sænsku, en þau stóðu smám saman einnig upp og hjálpuðu honum að teppa ganginn. Þau fóru fljótlega að taka meiri og meiri þátt í samkomunni. Ef þetta hefði staðið yfir í 20 mínútur til hálftíma, hefði ég ekki farið að eyða andans orku minni í að reyna að orða það sem þarna fór fram, en það var ekki fyrr en um klukkutími var eftir af fluginu, sem flugþjónum tókst loks að fá Svíann til að skilja að það voru ekki allir jafnhrifnir og börnin fjögur, af frægðarsögum hans. Þetta þýddi að hann hélt miðhluta flugvélarinnir í heljargreipum í tvo klukkutíma með ótrúlegu bulli sem valt út úr talfærum hans. Þeir sem gátu fluttu sig í laus sæti aftast, en þangað komust nú bara tiltölulega fáir.  Það keyrði um þverbak, þegar eitt barnanna í aðdáendahópnum fann sænskan peyja á sama aldri aftar í vélinni. Þá skipti auðvitað engum togum, að Svíinn stormaði þangað með skarann á eftir sér. Við önduðum léttar - nú væri komið að öðrum að þurfa að þola þetta. Það leið þó ekki á löngu áður en vinurinn kom til baka með allan skarann og þann sænska líka. Svíinn sveiflaði um sig með sænskunni sinni, sem var aldeilis ekkert mjög lík sænsku - blanda af íslensku, dönsku og ensku, með íblönduðum sænskri framburði inn á milli. Þarna margfaldaðist samtalið með því að Svíinn varð túlkur milli barnanna auk þess sem hann kom sjálfum sér skilmerkilega á framfæri.

Það varð fljótt ljóst, að flugþjónarnir höfðu nokkurn ama af Svíanum og hirð hans, enda tepptu þau ganginn og farþegar voru farnir að kvarta yfir kjaftæðinu. Þeir voru margbúnir að biðja manninn að setjast, en hann taldi samneytið við börnin vera það heilagt að ekki væri ástæða til að sinna slíku. Það var ekki fyrr en einn þeirra tók á sig rögg og sagði hátt og skýrt, svo foreldrar barnanna heyrðu, að hann yrði að hætta því það væri þarna fólk sem væri að reyna að hvílast, að börnin voru kölluð í sæti sín og maðurinn stóð einn eftir, ekki kominn á það stig enn að halda bara áfram og tala við sjálfan sig. Hann kom sér þar með í sæti sitt og sat þar síðasta klukkutíma ferðarinnar, þegjandi. Flugferðin eftir það var hin ánægjulegasta.
-------------------------------
Nú þegar ég er búinn að koma þessu frá, get ég með góðri samvisku hent þessari leiðinda reynslu aftur fyrir mig og haldið áfram með lífið. 

Hér með lýkur þessari, að hluta til, geðvonskulegu færslu, og þar með umfjöllun um ævintýri sumarsins.


25 ágúst, 2010

Fodboldgolf

Á ferð okkar um Middelfart og nágrenni bar það við, að ekið var framhjá því, sem heimamenn kölluðu 'FODBOLDGOLF' - sem væntanlega myndi verða þýtt sem KNATTSPYRNUGOLF (ég veit ekki hvort búið er að þýða GOLF á gott, íslenskt mál - kannski holuleikur). Þessa tegund íþrótta hef ég ekki orðið var við hér á landi, en þarna er, eins og allir geta séð, um að ræða sambland af knattspyrnu og golfi. Með öðrum orðum, þá á leikurinn sér stað á velli sem er nokkuð svipaður golfvelli: það er teigur, þaðan sem knettinum er spyrnt, síðan tekur við braut, sem oft felur í sér hindranir af einhverju tagi og loks er flötin, þar sem er að finna holu sem er sem næst 60 cm í þvermál og upp úr henni stendur fáni með númeri holunnar. Leikurinn felst síðan í að nota sem fæstar spyrnur frá teig í holu.

Heimamenn, Kvistholtstengdir, ákváðu í samráði við okkur fD, að skella sér einn hring á þessum sérstaka velli. Það var mín ákvörðun að sjá um ljósmyndun af helstu afrekum, en fD fékk það öfundsverða hlutverk að hafa ofan af fyrir ungum sveini.

Ég velti fyrir mér hvort fyrirkomulagið sem notað er við að selja inn, myndi ganga upp á föðurlandinu, en það var bara þannig að menn fylltu ú blað með fjölda þátttakenda og settu það síðan, ásamt tilgreindri upphæð, í umslag, sem síðan var sett ofan í rammgerðan kassa. Ég dáðist talsvert að þessu trausti sem Danir sýndu hver öðrum með þessu, og það var ekki fyrr en við vorum að yfirgefa völlinn að leik loknum, að ég áttaði mig á eftirlitsmyndavélinni sem fylgdist náið með öllu sem fram fór.

Hvor leikmaður fékk sér tvo knetti, og vagn, þar sem þeir voru geymdir milli spyrna. Síðan hófst leikurinn.
Mér varð það fljótt ljóst, að ef ég hefði verið þátttakandi í leiknum, hefði ég borið höfuð og herðar yfir leikmennina sem þarna léku. Mér er líklega dálítið svipað farið og gamla unglingnum; mér finnst ég enn ráða fyllilega við þær aðstæður sem ég réði eitt sinn auðveldlega við.

Leikurinn hafði sinn gang. Leikmennirnir náðu misgóðum árangri í leik sínum, en þó mátti sjá þolanleg tilþrif.  Mér fannst þó að betur hefði mátt gera.

Ég mundaði EOSinn minn nýja og smellti af í gríð og erg, enda vissi ég og veit, að myndir segja meira en þúsund orð.

Það hvarflaði að mér að það gæti verið gaman að setja svona völl upp í Laugarási, enda um að ræða íþrótt fyrir fólk á öllum aldri.


Hér var 'holan' mark með múrvegg fyrir framan
'Íþróttastilling' EOS - frysti knöttinn
2 sekúndum síðar lá knötturinn í miðri tjörn
Stefnan gæti verið betri
Neðst til hægri er árangur annars leikmannsins

Þarf vart að taka það fram, að sé smellt á myndir þá stækka þær talsvert.

22 ágúst, 2010

Leitin að Sandhóla-Pétri

Einhvernveginn svona
eiga sandhólar að líta út
Það er tvennt sem varð til þess að móta hugmyndir mínar um vesturströnd Jótlands: svarthvít mynd, sem mig minnir að hafi verið að finna í Kennslubók í dönsku, eftir Ágúst Sigurðsson (pabba Helgu), af sandhólunum á fremur hrjóstrugri og vindbarðri ströndinni og hinsvegar bók sem ég las á unglingsárum: Sandhóla-Pétur, eftir Anders Christian Westergaard.
Mér varð það á, í heimsókn okkar í fjónska bænum við Litlabelti, að minnast á Sandhóla-Pétur. Eftir það kom ekkert annað til greina en að skjótast yfir á vesturströndina í leit að sandhólum. Það var einmitt á leiðinni þangað, sem komið var við á Engilshólmi. Þaðan leiddi GPS græja okkur í átt til hraðbrautarinnar sem leiðir vegfarendur til Esbjerg, en þar töldum við líklegt að rekast á, þó ekki væri nema einn sandhól.

Þetta var það næsta sem við
komumst þvíað greina sandhóla
Þegar nær dró vesturstrandarborginni þurfti að finna einhvern stað til að láta tækið vísa okkur á og varð FANØ fyrir valinu. Við hefðum nú getað sagt okkur það sjálf, að hér var um að ræða eyju, og reyndar gerðum við það, en töldum að sá möguleiki væri fyrir hendi að þangað lægi brú, eða eiði af einhverju tagi. Það kom svo sem ekkert á óvart, að þessi eyja er ótengt landi og þangað gengur ferja. Um ferjuferð gat ekki orðið að ræða og því varð úr að finna stað þar sem hægt væri að fá sér í svanginn. Til þessa var auðvitað notað galdratækið GPS. Þarna sannfærðist ég endanlega um það að framleiðendur forrita fyrir GPS tæki geri kostunarsamninga við tiltekna ameríska skyndibitakeðju; engir aðrir veitingastaðir birtust. Því var ekki um annað að ræða en snæða enn og aftur á slíkum stað. 
Í framhaldi af því hélt leitin að sandhólunum áfram, a sjálfsögðu með aðstoð GPS. 
Sandhóla-Pétur
nútímans?
"Þeir eru örugglega þarna
fyrir norðan"
Óumræðilegur áhugi

















Leitað var að götum með nafnið: Strandvejen. Þegar tækið vísaði okkur beint í austurátt, inn í land, varð leitað áfram, aftur og aftur að ýmsum útgáfum strandlægra gatna. Fyrir tilviljun fann ég götu sem heitir Sædding Strandvej, sem tækið kvað vera í vesturátt, í átt til hafs. Þarna fundum við sannkallaða sandhólagötu, þó svo hólarnir væru mikið til horfnir undir mannvirki. Við ákváðum að láta þessa sandhóla duga - sandurinn var allavega sandhólalegur.
Við höfðum reyndar komist að því, við fyrirspurn í ferjuhöfninni til Fáneyjar, að til að kynnast sandhólunum af einhverri alvöru, þyrftum við að aka til Blávatns, en tíminn leyfði ekki frekar leit.

Ég hef verið að kynna mér lítillega upplýsingar um Sandhóla-Pétur (Klit-Per)  frá því heim kom og kemur á óvart hve fátt er um þessa ágætu bók að finna. Hún lýtur að hafa verið alveg ágæt, úr því hún er mér enn í minni. Ég hef komist að því að  að það var gerð kvikmynd eftir sögunni sem heitir Vesterhavsdrenge. Hún var síðan bútuð niður í 10 mín þætti sem voru sýndir í sjónvarpi. Þá gerði Walt Disney mynd sem byggir á því sama. 
Loks fann ég upplýsingar um að bókin er til í Sunnlenska bókakaffinu:




Höfundur A. Chr. Westergaard.Útgáfuár 1964






Notuð bók
Hilla R4 
Verð kr. 500,-






Kannski er þetta Sandhóla-Pétur í dag.









20 ágúst, 2010

Engilshólmshöll

Eftir Þýskalandsdvölina tóku Kvistholtstengdir Danir við okkur í Flensburg og báru síðan hitann og þungann af dvöl okkar í Danaveldi í vikutíma, eða svo. Margt tóku menn sér fyrir hendur, og ekki verða því öllu gerð skil hér, heldur birtar nokkrar minnismyndir.
Ef grannt er skoðað má sjá, að þumalfingur vinstri handar
bendir upp á við í stórum dráttum.
Í baksýn er Engilshólmshöll

Engilshólmshöll (Engelsholm Slot) stendur því sem næst á miðju Jótlandi og hefur tengst Kvisthyltingum um nokkurt skeið sökum þess, að þar er starfræktur skóli fyrir fólk sem leggur fyrir sig að koma frá sér, með einhverjum hætti, hugarstarfi sínu, eða hugarórum, í einhverju formi, hvort sem um er að ræða léreft, pappír, gler, járn, stein, eða ennað efnislegt eða efnislaust.
Þarna sést til þeirra bygginga (sem sjálfsagt hafa gegnt
hlutverkigripahúsa áður fyrr) sem hýsa listsmiðjur.
Í tilefni af stórafmæli fD varð það úr, að hennar næsta fólk sameinaðist um að stuðla að því að þangað færi hún til að efla sig í myndrænni tjáningu. Í kjölfar þess kom það sem allir þekkja: hrunadans íslensks þjóðfélags, sem enn er dansaður af fullum krafti. Því varð ekkert úr að fyrirhugaður afmælisglaðningur næði að fullkomnast og leiða til aukins listræns þroska og færni gjafarþegans.
Það þótti ekki vitlaus hugmynd, þrátt fyrir máttlítil mótmæli fD, að leggja lítilsháttar lykkju á leið um hinar jósku heiðar, að freista þess að renna í hlað að Engilshólmi og kanna þar með hvort þar væri um það að ræða sem hugmyndir höfðu lotið að.
Hér var málað af miklum móð.
Það varð ljóst þegar nálgaðist höllina, að hún er sérlega falleg í dáindisgæsilegu umhverfi. Ekki varð annað fundið en fyrrverandi afmælisbarni litist sérlega vel á allt sem þarna bar fyrir augu, enda fengum við að leiðsögn um höllina sjálfa og máttum síðan fara hreint um allt til að kynnast enn betur því starfi sem þarna er unnið. Í málningarhúsinu varð á vegi okkar Íslendingur, sem þarna var öðru sinni á námskeiði, sem dásamaði hóflítið staðinn og námið. Sérstakleg held ég að það hafi verið frásögnin af rauðvínslistakvöldunum, sem varð til þess að fD heillaðist endanlega.
Nú er framundan tímu umþenkingar og skipulagningar, sem væntanlega lýkur með því að Kvisthyltingurinn fer til einhverra vikna dvalar á þessum dýrðarstað.
Ég get nú sjálfur alveg hugsað mér að eyða þarna einhverjum tíma við listsköpun, svona þegar sá tími rennur upp, sem nálgast óðum, að formlegu ævistarfi ljúki. Hver veit.
Feðgarnir komust í snertingu við náttúruna á hlaðinu við höllina.

16 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (3)


..framhald


Þó svo ég hafi, þegar hér var komið, verið orðinn talsvert öruggur með sjálfan mig þegar um var að ræða akstur erlendis, vantaði enn nokkuð upp á að ég væri tilbúinn að keyra bara si svona inni í einhverri borg sem ég hafði aldrei komið til áður. Það gæti alltaf komið upp sú staða sem GPS græjan gæti ekki bjargað mér út úr. Þessu stóð til að breyta áður en leigutími BMW-sins væri úti.
Næsta skref tók ég fljótlega, þegar ferð okkar og Görlitzanna lá til Dresden, í um 100 km fjarlægð. GPS-inn var bara stilltur á sænsku húsbúnaðarverslunina í þeirri borg og síðan var keyrt af stað. Auðvitað lauk ferðinni á áfangastað, nákvæmlega eins og til stóð. Mér leið eins og ég væri orðinn ósigrandi í borgarakstri erlendis, en það dugði þó ekki til þess að ég tæki að mér að aka niður í glæsilega miðborg (gömlu borgina (reyndar endurbyggða, enda vita flestir að Dresden var lögð gjörsamlega í rúst í lok seinni heimsstyrjaldar)). Ég afréð hinsvegar að sjá um aksturinn til baka, auðvitað eins og ég hefði aldrei gert neitt annað - enn orðinn öflugri bak við stýrið.

Nú var svo komið, að ég nánast hlakkaði til 700 kílómetra akstursins sem framundan var, en hann var þannig til kominn, að um var að ræða ódýrustu aðferðina til að komast til ríkis Danadrottningar. Upprunalega var áætlunin sú, að skila bílnum í Berlín, sem var, svona eftir á að hyggja, harla vanhugsað. Því var skilastaðnum breytt yfir í Flensburg, rétt fyrir sunnan landamærin að áðurnefndu konungsríki.

Dagurinn kom, þegar Görlitz og Kvistholtstengdir íbúar hennar/þess voru kvaddir og við fD héldum í norðausturátt, á BMW jeppatryllitækinu. Hvað sem upp á kynni að koma yrðum við að leysa sjálf. Allt traust var sett á GPS-inn og BMW-inn og - auðvitað mig (og auðvitað fD). Stysta leiðin sem staðsetningartækið fann hljóðaði upp á 682 km. Mér var svo sem ekkert ljóst hver þessi leið var, utan það að hún hófst á því að keyra til baka sömu leið og við höfðum komið frá Berlín.

Fyrsti hluti ferðarinnar, sveitavegurinn út á hraðbrautina, fól í sér sömu flækju og áður og lausnin fólst enn í því að ögra GPS-num með því að keyra bara eitthvert út í buskann. Eftir það bar fátt til tíðinda fyrr en GPS-inn tilkynnti að innan einhverra kílómetra væri mér ætlað að skipta um hraðbraut. Allt í lagi með það. Það fór hinsvegar aðeins um mig þegar mér varð ljóst að þessi nýja braut beindi okkur beint í norðaustur með skilti sem vísuðu á Frankfurt and der Oder - sem er við landamærin að Póllandi. Hér var um að ræða svakalega fína, þriggja akreina braut. Mér til léttis leið ekki á mjög löngu áður en brautin tók að sveigjast meira til norðurs, síðan norðvesturs og loks alveg í vestur. Þegar síðan birtust skilti sem bentu til að Berlín væri ekki allfjarri, til suðurs, var orðið ljóst að GPS-inn var bara að fara með okkur framhjá umferðartöfum í kringum Berlín.  Meðan á þessum óvissutíma stóð hafði ég haldið nokkuð aftur af mér, að því er varðaði aksturshraða, en í fullvissu þess, að nú værum við örugglega á réttri leið, leyfði ég bensínfætinum að nálgast gólfið æ meir.
"Þú ert kominn á 142 kílómetra hraða!"
Fram til þessa hafði fD ekki fjallað mikið um hraðamálin, enda hafði hún smám saman vanist því að bílar væru frekar að fara fram úr BMW-inum en öfugt. Ég skynjaði að það var ekkert sérlega mikil skelfing sem fólst í þessari yfirlýsingu, þannig að ég hélt uppteknum hætti hvar sem hægt var. Það var bara á einhverjum illþolandi tengivegum (eins og þjóðvegur 1) sem ég neyddist til að slá af ferðinni. 

Ég ætla ekki að skafa utan af því, en þarna fæddist ég sem fullþroskaður hraðbrautaökumaður og fann ótvírætt fyrir því hvernig aðrir ökumenn á brautinni fylltust lotningu þegar ég nálgaðist í baksýnisspeglum þeirra, og viku umsvifalaust til að hleypa mér fram úr. Ef þeir hefðu nú bara vitað að þarna var á ferð miðaldra íslenskur sveitamaður!?

Það þarf ekki að fjölyrða um framhaldið, allt gekk eins og í sögu, utan það að mér var ætlað að skila BMW-inum með fullan tank af eldsneyti. Þarna vorum við að renna inn í Flensburg, sem við höfðum aldrei heimsótt áður, og þurftum að finna bensínstöð áður en GPS-inn leiddi okkur upp að dyrum hjá bílaleigunni SIXT. Auðvitað mundi ég þá eftir fídusnum á GPS-græjunni sem hjálpar manni að leita að ýmsu í nánasta umhverfi sínu. Viti menn, hann fann bensínstöð í 700 m fjarlægð (tók reyndar 1,5 km að keyra þangað). 
Með fullan tank renndum við inn á bílaleiguna og það var með blendnum tilfinningum að ég setti lyklana í næturhólfið. Þær breyttust þó fljótt, því þarna á hlaðinu biðu Danirnir okkar þrír og þeir brunuðu með okkur norður á bóginn til heimabæjar síns við Litlabelti.

Ég tel víst að það verði ekki löng bið eftir því að þessi Kvisthyltingur bruni um evrópskar hraðbrautir á ný.


Myndirnar á þessari síðu eru frá Dresden, en vegna spenningsins í tengslum við aksturinn sem framundan ver, gleymdist EOS-inn heima. Þess í stað notaði ég bara Nokiuna. 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...