09 nóvember, 2008

Þjóð með gullfiskaminni og grautarheila?


Því miður verður það að viðurkennast að það liggur við að ég trúi því að þjóðin mín sé frekar grunnhyggin, að mörgu leyti. Áður fyrr skildi ég aldrei hvernig verkafólk gat fengið af sér að kjósa íhaldið, svo augljóst sem það nú var, og hefur alltaf verið, að það var ekki markhópurinn sem sá ágæti flokkur var fyrst og fremst að vinna fyrir. 

Þessi tilhneiging hefur síðan bara haldið áfram fram á daginn í dag. 
Á deginum í dag virðist fólk (fólkið sem hefur kosið íhaldið undanfarin 20 ár) vera að átta sig á því, að það hefur verið leitt á asnaeyrunum í einkavæðingarbrjálæðinu. Nú eru flestir á móti íhaldinu. Ég get hinsvegar nánast fullyrt, að um næstu kosningar verður allt við sama. Svona erum við nú bara.

Það er meira að segja svo að við (einhver okkar) geta fundið til með, og skilið þá sem birtast okkur dag eftir dag og tala um að það sé auðvelt að vera vitur eftir á. 

Það er að mörgu leyti undarlegt hvernig við nálgumst umræðu um stjórnmál (sum okkar)(of mörg okkar). 

Þessi við, sem ég set í sviga, virðast telja að:
a. með því að greiða ekki atkvæði séum við að hafa einhver áhrif á landstjórnina.
b. að eini stjórnmálaflokkurinn sem hægt er að trúa fyrir fjármálastjórn í landinu sé Sjálfstæðisflokkurinn.
c. að það fari eftir útliti og framkomu stjórnmálamanna hvursu vel kunna að stjórna landinu.
d. að flottustu auglýsingarnar og barmmerkin gefi til kynna að viðkomandi stjórnmálaflokki sé treystandi fyrir fjöreggi þjóðarinnar.
e. að kosningar breyti engu til eða frá - þetta sé allt jafn rotið.
f. að stuðningur við stjórnmálaflokka sé ættgengur.

Mig grunar að afstaða ansi margra kjósenda á þessu bláa landi mótist, því miður, af stundarhagsmunum og misskilningi á því hvað þetta snýst allt um. (Auðvitað er ég þar með að segja að ég hafi þetta allt á hreinu).

Hvernig væri nú til dæmis að velta fyrir sér þessum spurningum?:

     1. aðhyllist ég óskoraðan rétt einstaklingsins til orða og athafna?
2. vil ég jafnan rétt allra til samfélagslegrar þjónustu (skólar, heilsugæsla o.s.frv.)?
3. vil ég að ríkið dragi sig út úr öllu því sem einkaframtakið getur séð um (í 'bullandi samkeppni'??
4. hvernig samfélagi vil ég að börnin mín taki við?
5. vil ég að ráðamenn í stjórnmálum og í viðskiptum séu 'raunverulega ábyrgir'?
6. vil ég frekar að ráðamenn framkvæmi það sem þeir tala um, eða er bara nóg að þeir tali um það, til að láta mér líða vel?
7. er ég tilbúin(n) að fyrirgefa þeim sem taka á sig (mikla) ábyrgð, en standa síðan ekki undir henni?
8. tel ég nauðsynlegt að það séu starfandi 4 sjónvarpsstöðvar? (íbúafjöldi 300.000)
9. er nauðsynlegt að flytja inn tollfrjálsar landbúnaðarafurðir?
10. á að afnema launaleynd?
11. hvort vil ég borga hærri eða lægri skatta?
12 vil ég hafa öryggisnet sem er tilbúið að koma mér og mínum til bjargar ef/þegar eitthvað bjátar á?
13. vil ég ganga í Evrópusambandið?
14. vil ég taka upp Evru?
Það er líka hægt að hafa spurninguna bara eina: 
Hvaða lífsskoðun hef ég?

Auðvitað get ég haldið endalalust áfram að varpa fram svona spurningum, en ég tel rétt að spyrja sjálfan mig svona spurninga fyrst, og ákveða síðan hvernig ég greiði atkvæði. Ég reikna með að þannig sé hinn lýðræðislegi réttur minn grundvallaður. 

Rétturinn til að greiða atkvæði, er nánast helgur réttur sem fólk barðist fyrir og sem ekki má umgangast af léttúð.  
Léttúð í þessu samhengi vil ég kalla það þegar fólk greiðir atkvæði í samræmi við stundarhagsmuni, hvort sem það er vegna þess að einhver stjórnmálaflokkurinn vill bora jarðgöng í gegnum Vörðufell, eða þá að forystumaður er sérlega glæsilegur eða vel máli farinn, eða öfugt. 
Þá tel ég það vera mikla léttúð að nota ekki þennan mikilvæga rétt með því að sitja heima á kjördag.

Miklar sveiflur í skoðanakönnunum finnst mér að megi rekja til ansi mikillar léttúðar og daðurs við stundarhagsmuni. Á slíku er ekkert mark takandi.

Þetta var reiðilosunaraðferð þessa dags. Það má svo sem segja að hún feli ekki í sér trú á íslenskri þjóð. Það er hinsvegar alrangt. Vandinn er, að þetta er þjóð sem fyrirgefur of fljótt, og er of samúðarfull.  Við megum ekki gleyma og við megum ekki vorkenna þeim sem lítilsvirða þá ábyrgð sem við felum þeim.


Ég vil losna við léttúð
og lukkuriddara.



3 ummæli:

  1. Stundarhasmunir er bara eitthvað sem allir aðhyllast. Þannig er bara mannskepnan.

    Mér sýnist að þrátt fyrir guðlegan rétt okkar til að velja skítinn sem yfir okkur veltur, þá séum við eiginlega aldrei í góðri stöðu.

    Ég hef margsinnis kastað atkvæði mínu í það rúm að greiða ekki atkvæði. Sumir halda að það sé hræðilegt og gáfumenn þjóðarinnar halda því fram að það sé betra að skila auðu! Mér finnst hinsvegar ekki dýrmætum tíma mínum vel varið í að velja á milli þess að láta nauðga sér eða láta nauðga sér. Ég spara mér því bara það að velja og lendi í sama skítnum hvort sem er :) Þannig er ísland í dag. Ef það kæmi eitthvað sem væri þess virði að kjósa það, myndi ég gera það. Sbr kosninga þáttaka í USA. Það segir meira en að skila auðu. Fagrar hugnyndir eru ekki það sama og raunveruleikinn og breyskleiki mannsins.

    Þetta voru mín 5 cent, veit ekki hvað það er í Evrum líklega ekkert, en svona er það nú bara.

    SvaraEyða
  2. Já Páll minn Magnús.

    Við erum Þorskar á Þurru landi. Með graut fyrir heila og Ginnungargap til gleypa alla lygi hráa.

    Það er einfaldlega þannig að hvernig sem við veltum þessum hamförum fyrir okkur þá endum við á spurningunni:

    Hvaða siðferði viljum við í samfélagi siðaðra manna?

    Viljum við vekja upp texta Biblíunnar með orðunum:

    "Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra."

    Það kemur kannski úr verstu átt að vitna í Guðs orð en þetta er þó kjarninn í siðferði samfélagsins. Við eigum að geta krafist þess að menn axli ábyrgð á gjörðum sínum og komi fram með jöfnuði að leiðarljósi en ekki:

    Hér er Ég og Ég á bæði Völdin og Peningana.

    Þetta eru mínir aumu gjaldföllnu 5 aurar.

    SvaraEyða
  3. Nú, nú kæri Páll, - þetta er nú nokkuð langt -
    enn og aftur verð ég að þakka þér fyrir að skrifa greinar fyrir mig!!! - Örfáar athugasemdir:
    1. þjóðin er ekki grunnhyggin heldur andlega löt; skoðar ekki heildir né dýptir.
    2.Verkafólkið og íhaldið? Hef ekki heldur okkurn tíma haft grænan Guðmund um það dulræna samband!Held kannski að þar komi til hin undarlega hugsun:
    "peningaeign=fínn maður"? Fólk hafi bara ekki vitað að fínheitin eru innan í fólki. Veit ekki.
    3. Man frá því ég var lítil að allir sem átu peninga, voru heildsalar, bankastjórar, forstjórar o.sv.frv. voru Sjálfstæðismenn. Það lá ljóst fyrir.
    Auðvöldin í ástúðlegum faðmlögum persónlegrar fyrirgreiðslu - innan síns ramma.
    4.Já útlitið? Sko það er allt í lagi, að það sé í lagi. EN innlitið má ekki gleymast. Mönnum getur jafnvel fyrirgefist að vera glæsilegir heimsmenn ef innrætið byggir á "Gullnu reglunni" hans Jesúsar. Í raun er það eina reglan sem við mennirnir þörfnumst. (Ja, ekki hefur mér enn tekist að upphugsa aðstæður þar, sem hún væri ekki besta lausnin að mínu viti. Hef margoft iðkað þessa hugarleikfimi!)
    5.Jú rétt er það, sá sem nokkuð virðir æru sína hlýtur að kjósa... og það eftir hjarta sínu; þar eru svörin, ef fólk vildi bara hlusta! (hér verður bara að koma) Og Hananú!
    6. Aðeins eitt atriði, sem ég held að sé misskilningur hjá þér, þú ágæti söngvinur: þessi þjóð er EKKI full FYRIRGEFNINGAR heldur nennir hún lítt að hafa fyrir því að hugsa í ábyrgum, röksemdabrautum og markmiðum f.h. heildarinnar.
    Hér lýkur mínum æsingi út af þínum æsingi!
    ----------------------------------
    Brot úr lífi hirðkveðilsins.

    hirðkv: hvernig stendur á að fólk kýs þennan mann á þing?
    viðm: það er nú ALLTAF SVO GAMAN að honum.
    hirðkv: en hann hefur ekkert að segja... bara svolítill belgingur og drama.
    viðm: voða mörgum finnst hann nú samt skemmtilegur. Sjáðu bara, hann er alltaf kosinn!
    -----------
    Hirðkveðill hugsar:- yfirlit- síðustu fjögurra -og meira til - áratuga: hvernig dettur svona mörgum á Alþingi í hug að þjóðin sé alfarið samsett af idjótum og undirlægjum?
    ---------------
    Lagboði: Gölli Valdason og/eða Í leikskóla er gaman


    Söngur íslenska ráðamannsins

    Mér víst finnst voða gaman
    að við erum hér saman
    og ráðum yfir öllu
    og enginn segir neitt.
    Samt er nú eitthvað skrítið
    að obbo-pínulítið
    er "eikkvað" fólk svo pirrað
    en ekki gerð' ég neitt.

    Bloggskapur um greindarstig og ábyrgðarkennd - sumra

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...