Sýnir færslur með efnisorðinu Snilld mín. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Snilld mín. Sýna allar færslur

12 maí, 2012

Snillingur sem fyrr

Það er ekki ástæða til að draga úr því þegar maður finnur til snilldarinnar í sjálfum sér - sem gerist furðu oft í mínu tilviki - eins og margir vita.

Nú undir kvöld varð ég vitni að enn einu augnabliki snilldar þegar ég tók heimalagaðan hamborgarann úr ofnimum, þar sem Camembert osturinn hafði fengið að leika um yfirborð hans.

Það þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð  - myndin sér um að sannfæra efasemdarfólkið.



17 mars, 2012

Þröngur dráttur

Ég þarf, eins og tugir þúsunda annarra í þessu landi, að koma mér til vinnu á hverjum morgni vinnudags. Það er nú allavega hvernig þessir morgnar eru, en meðal þess sem ég get átt von á, er að það hafi fryst um nóttina, eftir rigninguna daginn áður. Hafi fryst, þá stend ég frammi fyrir þeim vanda, að lásinn bílstjóramegin í xtreilinum mínum frýs, þannig, að það er hægt að opna, en ekki hægt að skella í lás fyrr er miðstöðin hefur náð að hita loftið í bílnum talsvert upp fyrir frostmark. Þetta þýðir, eins og hver maður getur séð, að ég þarf að halda hurðinni lokaðri upp undir 10 km vegalengd, þegar þessi staða er uppi. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að þetta er hvimleitt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, og ég er tilbúinn að leggja talsvert á mig til að komast hjá þessum aðstæðum.
Það er einnig rétt að halda því til haga, í samhengi við það sem hér er skráð, að vaxtarlag mitt ber ekki með sér að ég sé fastagestur á líkamsræktarstöðvum og aldur minn nálgast óðum að fylla það sem menn kölluðu "three score years" á tíma Abrahams Líncons.
Dagarnir í síðustu viku voru með nokkuð reglubundnum hætti þannig, að það hlýnaði eftir því sem á leið morguninn og var jafnvel talsverð væta þegar á leið daginn. Það frysti hinsvegar á nóttunni, og á þeim morgni sem um ræðir hér, var rétt rúmlega 5°C frost þegar haldið var af stað til vinnu.
Ég vissi hvert stefndi og ákvað í ljósi þess, að fara farþegamegin inn í bílinn - hef gert það áður með eftirtektarverðum árangri. Byrjaði á að opna dyrnar, tók þar fram sköfurnar og tókst að opna hæfilegt gat á framrúðuna til að ég myndi sjá hvar ég væri hverju sinni og tækist að forðast að aka útaf, eða á það sem fyrir kynni að vera.
Þegar þessu var lokið hófst innför mín, farþegamegin yfir í bílstjórasætið. Auðvitað gekk ágætlega að hálfsetjast í farþegasætið og sveifla vinstra fæti yfir stokkinn milli sætanna og yfir á gólfið  bílstjóramegin. Síðan mjakaði ég meginhluta mínum yfir stokkinn og gírstöngina, yfir í bílstjórasætið. Þá var þetta næstum komið, utan það að hægri fótur var enn farþegamegin. Verkefnið var að koma honum sömu leið og megin hlutinn var kominn. Til þess að svo mætti verða þurfti ég að beita handtaki fyrir neðan hné, og vippa fætinum yfir stokkinn og troða honum framhjá stýrinu og niður á gólf, bílstjóramegin. Þegar hér var komið sögu var fD tilbúin til brottfarar, en við erum samferða til vinnu á þessum morgni vikunnar.

Í þann mund er ég beygði mig fram til að grípa fótinn, og í framhaldi af því vippa honum honum yfir, gerðist það sem enginn myndi vilja reyna við þessar aðstæður. Ég fann hvernig hann* lagði undir sig hægra lærið, nístandi sársaukinn, sem hefði framkallað háværa .........skræki ef ég hefði ekki tekið karlmennskuna á þetta, og látið frá mér tiltölulega hófstillt: AHHHH, AHHHH, eða AAAAAH.
Ég reyndi að finna betri stöðu, sem linaði þjáninguna, en hana var ekki að finna, þar sem ég sat þarna nánast á sjálfheldu. Sársaukinn gerði ekkert nema versna, þannig ég sá ekki aðra leið, til þess í rauninni að bjarga mér frá þessum skelfilegu kvölum, en að henda efri hluta mínum fram á við, ná í dyrakarminn og vippa mér útfyrir, næstum í einum rykk, þannig að ég felldi fD næstum, þar sem hún stóð, tilbúin að setjast inn.

Það tók mig nokkra stunda að safna sjálfum mér saman, þannig að jafnvægi væri náð. Gekk þá að dyrunum bílstjóramegin, rykkti þeim upp, settist inn, setti í gang, greip með hægri hönd um húninn á bílstjórahurðinni, ók af stað og hélt, þögull og æðrulaus, 12 km. leið, þar til frostið loks sleppti tökunum á hurðarlásnum.


*hér er um að ræða svokallaðan sinadrátt, fyrir þá sem ekki hafa áttað sig strax.




04 mars, 2012

Það kólnaði þegar á leið daginn

"Ég ætla að skjótast í myndaleiðangur eftir hádegið" tilkynnti ég í morgun, enda veðrið eins og best verður á kosið á þessum árstíma. Það var blankalogn í Laugarási, sem er nú svo sem ekkert nýtt, sólin glampaði á bláum himni, hitinn reyndi að ákveða hvorum megin frostmarks hann ætti helst að halda sig. Upp úr hádeginu lét hann verða af því að skjótast aðeins uppfyrir núllið.


Ég ákvað að leita að nýju sjónarhorni á mitt klassíska myndefni - nenni nú ekkert að vera að keyra langar leiðir fyrr en ég met það svo að ég hafi endanlega tæmt þann fjársjóð sem nánasta umhverfi mitt er. Við fD héldum sem leið lá út yfir á, að vegi sem lliggur í sumarbústaðaþyrpinguna sem þarna er. Það var hlið með lás fyrir sem sá til þess að úr þessu varð ágæt hreyfing, en leiðin lá smám saman hærra í hálendið umhverfis Iðu, svo hátt að Laugarás blastir talsvert vel við linsunni. Þegar hér var komið var orðið nokkuð skýjað, en þó skaut sól geislum niður hér og þar.

Ég smellti og smellti og smellti... blés og blés og blés (það þurfti að ganga upp í móti).

Að lokinni myndatöku héldum við heim á leið og ég settist við að koma myndunum í gegnum Photomatix, sem ég nota við að búa til HDR. Þarna var klukkan að verða þrjú. Þá, eins og hendi væri veifað, fór að snjóa og hvasst hringrokið skall á glugga, nánast eins og gjörningaveður. Myndirnar, hver annarri fegurri hurfu inn í möppu og ég ákvað af rælni að kíkja á vefmiðlana.........."Ólafur ætlar........" Nei, nei, nei! - o, sei sei - jæja, ætlar hann að gera það, karlinn?

Þetta hefur verið svona venjulegur, íslenskur dagur: það virðist vera að að birta og vorið handan við hornið þegar náhvít hönd vetrarins leggur vonina í fjötra.

Myndirnar er að finna hér.


28 janúar, 2012

Ég er 9gagger

Eftir því sem árunum, sem ég hef lagt að baki fjölgar, hefur jafnframt fjölgað þeim þáttum í lífinu og umhverfinu, sem ég velti fyrir mér hvort við hæfi sé að ég taki þátt í, tjái mig um, eða almennt sinni. 
Ég geri nú samt ýmislegt, sem ég get ekki ímyndað mér að fólk almennt, á mínum aldri taki sér fyrir hendur. 

Þegar ég ákveð með sjálfum mér hvað sé við hæfi við þessar aðstæðurnar eða hinar, hef ég oftar en ekki hliðsjón að einhverjum samferðamönnum, aðallega úr fortíðinni. Hvernig hefðu þeir farið í þetta mál? Ég neita því auðvitað ekki að það gerist ansi oft að ég hætti við eitthvað vegna þess að mér finnst það ekki við hæfi í ljósi aldurs míns og stöðu. 

Stundum læt ég vaða, en sjálfsagt ekki næstum nógu oft.

Ég viðurkenni auðveldlega að kynslóðirnar lifa að talsverðurm hluta, hver í sínum heimi. Sumt af því sem fer fram innan þessara heima er nokkurskonar einkaeign viðkomandi kynslóðar. Þar má til dæmis taka ýmsa menningarlega þætti, eins og klæðnað, skemmtanir, og dægradvöl af ýmsu tagi. 

Ég get séð fyrir mér, að í stórum dráttum megi skipta samfélagi eins og okkar í 5 mennigarheima af þessu tagi:
a. Bernskan - frá leikskólabyrjun til um það bil 12 ára.
b. Unglingsárin (með því að fólk er börn lengur en var, myndi ég setja efri mörkin hér við tvítugt)
c. Árin frá tvítugu til 35-40 (námi lýkur, fjölskylda verður til)
d. Árin þegar börnin fara að fljúga úr hreiðrinu og lífið byrjar að hægja á sér.
e. Starfslok - og smám saman í framhaldi af því, ellin.

Það eru mikil skörun á milli þessara heima, ekki síst þeirra sem liggja hver að öðrum. Það eru síður snertifletir milli heima eins og t.d. b og d. 

Ég mundi falla undir heim d, samkvæmt skilgreiningu, en ég umgengst fólk í heimum b og c daglega og hlýt því að draga dám af því sem þar fer fram. Tel það reyndar forréttindi að tilheyra þannig samfélagi fólks.  Ég spyr mig hinsvegar oft hvar mörkin á því eru, sem er við hæfi að ég taki mér fyrir hendur. Ég er sjálfsagt fullur af fordómum sjálfur gagnvart fólki sem rýfur mörkin milli þessara heima, hví skyldi það sama ekki gilda þegar ég er annars vegar.

-------------------------

Atvik hafa hagað því svo undanfarna daga, að ég hef sogast inn í atburðarás, sem á endanum leiddi til þess, að einn fyrrverandi nemandi minn skrifaði þetta á fasbókarsíðu félaga síns:
Mér finnst það skemmtilegt að Palli Skúla sé 9gagger
Hvernig á ég að taka svona athugasemd? 
1. Á ég að líta svo á að innrás mín í heim sem ekki er ætlaður fólki á mínum aldri, teljist fremur jákvæð? 
2. Á ég að taka þessu þannig, að nú sé ástæða til að brosa út í annað að gamla kallinum sem er að fara inn á svið sem hann ber ekki skynbragð á?

Ég held að það sé nr. 1.

Það sem ég er að vísa til varðandi heimsókn mína í annan heim er að finna hér og hér:

Ég bendi jafnöldrum mínum á að smella á seinni hlekkinn. Það er ekkert hættulegt.

02 janúar, 2012

Önd á eftir Capsicums

Áfram streymir, endalaust, nú árið er liðið, engu er við að bæta, en ég geri það samt þó ekki sé um að ræða nein tímamótaskrif.
Capsicums forrétturinn sem ég fjallaði um hér, reyndist vera hreint sælgæti, og það var reyndar engin furða þar sem það var ég sem lagði hjarta og sál í undirbúninginn.

Annað verð ég að segja um öndina sem var ætlað að skipa aðalréttinn. Þrátt fyrir mikla yfirlegu, dögum saman, þar sem margtryggt var, að enginn misskilningur væri varðandi uppskriftina. Allt var eins og það átti að vera. Þessi fína fylling fór inn í kvikindið og inn í ofninn fór það. Ég gerði ráð fyrir ríflegum tíma í ofninum, en uppskriftin sagði 90 mínútur á 160°C - sem mér fannst ótrúlega stutt, en sættist á það þar sem öndin virkaði ekki sérlega vöðvamikil. Inni í ofninum var hún í 115 mínútur - það blæddi úr henni þegar hún var tekin út!!!  Mikil er ábyrgð þess sem uppskriftina gerði. Þarna voru góð ráð dýr. Vöðvafjallið, hátíðarkjúklingurinn, sem var öndinni að hluta til samferða í gegnum steikinguna, reyndist rétt tímasettur, fD til umtalsverðrar ánægju. Andartryppinu var skellt aftur í ofninn og nú með kjöthitamæli í vöðva og hita á 200°C. 
Hátíðarkvöldverðurinn hófst með formlegum hætti um það bil klukkustund síðar en áætlun gerði ráð fyrir, á dýrlegum Capsicums forréttinum.

Það er með ólíkindum hvað er lítið kjöt á önd. 





------------

Ég ætla ekki að taka þátt í umræðu um skaupið, utan það að ákveðnir þættir þess voru stórgóðir.
Ég ætla ekki, að svo stöddu, að taka þátt í umræðu um meinta yfirlýsingu þjóðhöfðingjans.
Það er nóg af sjálfskipuðum spekingum að viðra skoðanir sínar á þessum helstu fréttaviðburðum áramótanna.

Mig langar að taka hatt minn ofan fyrir Margréti Tryggvadóttur, eftir framgöngu hennar í svokallaðri Kryddsíld á gamlársdag. 

29 desember, 2011

Capsicums

Tilbúið: char grilled capsicums au pms

Ég þekki ýmis nöfn á þessu fyrirbæri, en paprika er það sem notast er við hérlendis. Tegundarheitið á þessari venjulegu papriku mun vera Capsicum Annuum, en það munu vera til ríflega 30 afbrigði til innan þessarar ættar. Ég hafði, þar til í fyrradag, aldrei heyrt eða sé þetta nafn notað um papriku. Það er þessvegna sem ég fer aðeins yfir þetta.

Þetta átti nú ekki að vera neitt fræðilegt hjá mér, en er til komið vegna þess að ég hef tekið að mér að sjá um forrétt í hátíðarkvöldverði á gamlárskvöld - og raunar einnig stóran hluta aðalréttar einnig. Það er sem sagt mikið sem srtendur til hjá þessum manni.

Forrétturinn sem varð fyrir valinu er þessi: (fékk gagnrýni fyrir að birta ekki uppskriftina að Sörunum, svo ég klikka ekki á uppskriftaleysi aftur)
Ristaðar paprikur, ólífur og Mozzarella í kryddlegi
2 krukkur Char-Grilled Capsicums
60 gr. svartar ólífur
1 stk. (125 gr.) Mozzarella, skorin í teninga
1/4 bolli ólífuolía
1/4 bolli sítrónusafi
2 msk. fersk steinselja
1 tsk. ferskt oregano (eða 1/4 tsk. þurrkað)
1 tsk. ferskt basil (eða 1/4 tsk. þurrkað)
1/2 tsk. fersk salvía (eða 1/8 tsk. þurrkuð)
1/2 tsk. salt
1/8 tsk. pipar
2 hvítlauksrif, fínt söxuð
Setjið paprikurnar, ólífurnar og ostinn í skál. Setjið afganginn af innihaldinu í ílát með loki og hristið vel. Hellið innihaldinu síðan yfir paprikublönduna. Lokið skálinni og geymið í ísskáp í amk. 4 klst.; hrærið nokkrum sinnum í.
Ég fjölyrði ekki um það, en auðvitað fékkst ekki allt sem þarna er nefnt, í höfuðstað Suðurlands, nefnilega aðalatriðið: ristaðar paprikur (char grilled capsicums).
Ég var búinn að ákveða að hafa þennan forrétt og ég breyti ákvörðunum mínum ekki auðveldlega. Því var það að ég gúglaði char grilled capsicums og fann leiðbeiningar um hvernig maður útbýr slíkt. Að upplýsingum fengnum framkvæmdi ég þetta verk í dag. Í grunninn er hér um að ræða að skera papriku í hæfilega bita og skella undir grillið í eldavélinni. Þar er það látið vera uppundir 10 mínútur, eða þar til hýðið er farið að kolast. Allt gekk þetta vel, enda ekki von á öðru þar sem þarna var ég sjálfur á ferð. Reyndar var ekki til rauðvínsedik og ekki heldur venjulegt edik, en það var til rauðvín og það var til balsamik edik. Ég þoli afar illa að eiga ekki nákvæmlega það sem sagt er að eigi að vera í viðkomandi rétti og því var það ekki af fullkomlega fölskvalausri gleði sem ég lauk framkvæmdinni. Ég hef þó fulla trú á að hér sé á ferð forréttur eins og forréttir gerast bestir.

27 desember, 2011

Ég hef heyrt fólk efast

Í gær sáust skilaboð á samskiptasíðum frá fólki sem sat fast hér og þar. Þarna voru t.d. ein  frá manni sem tilkynnti að hann væri fenntur inni á Laugarvatni og öðrum sem var í sömu stöðu undir Eyjafjöllum.

Á sama tíma svifu glitrandi snjókornin úr loftinu yfir Laugarási og bættust við dúnmjóka mjöllina sem fyrir var. Hér er enginn  fenntur inni því hér ríkir lognkyrrðin ein.

Fleiri myndir

Bestu jólakveðjur til ykkar allra sem dveljið á lognminni stöðum. 

Að þessu búnu biðst ég afsökunar á svo ögrandi sendingu. :)

24 desember, 2011

Jólakveðja úr skugga skötupotts.


Nú á aðfangadagsmorgni er lokasprettur, en þó enginn lokasprettur þar sem ég, í það minnsta, tek aðdragandann að jólum með mínum hætti að mestu. Hendi í Sörur, jú, og dreifi gleði til þeirra sem tekst að píra í gegnum skóginn á dýrðina sem stafar frá ljósakeðjunum gömlu og nýju.  Hefði sjálfsagt getað verið kappsamari við ýmislegt annað, en það er eins og það er, ennþá.
Þá er lokið Þorláksmessu
það eru að koma jól.
Siggi' er ekki' að sinna þessu
Solla á bláum kjól. 
Í gær var Þorláksmessa, eins og flestum ætti að vera kunnugt og þá er tekist á við margrædda Þorláksmessuhefð, en ég er, eins og einhverjum er kunnugt, ekki skötufíkill og hef lönngum haldið því fram að hér væri á ferð skemmd fæðutegund og að át á henni gæfi til kynna einhverja misskilda karlmennskustæla. Ég fékk talsvert góða staðfestingu á þessari skoðun minni, með því að í einum margra útvarpsþátta um skötu greindi viðælandi frá tilurð þessa siðar. Það var beinlínis markmimð fólks að leggja sér til munns skemmdan mat af einhverju tagi daginn fyrir veisluhöld jólanna, til að finna betur muninn á því sem ætt er og óætt. Vestfirðíngar höfðu skötuna, og Austfirðingar einhvern skemmdan fisk eða hákarlsúrgang, sem ekki hefur festst (jú það er hægt að skrifa þetta svona) jafn rækilega í þjóðarsálinni. Það góða við skötuna er, að það er auðvelt að tjá sig um hana.
Á Þorláksmessu þykist ég
þekkjast við barbarana
Skatan hún er skelfileg
skömm er að éta hana
 Nei, ekki vil ég berjast gegn hefðum þjóðarinnar, þessi hefðarmaður sem ég er.  Ég styð fD í því að fá sér skötubarð fyrir/á Þoddlák. Skatan var meira að segja lengi vel tilreidd hér innanhúss, með afleiðingum sem allir geta ímyndað sér. Nú síðustu allmörg ár hefur gamli unglingurinn tekið þátt í skötudýrðinni og jafnframt hefur suðan færst út fyrir hús, öllum hlutaðeigandi til gleði, þó misjafnlega hátt sé haft um það.
Á Þorláksmessu  þrái ég
að þefa af skötupotti.
"Skatan hún er skemmtileg,
skal ei höfð að spotti."
segi ég og glotti.
-----

Nú, meðan vindstyrkur eykst víða um land og fréttir berast að óendanlega forsjálum ökumönnum, sem sitja í bílum sínum á heiðum landsins, nálgast jólahátið.  Hana vér allir prýðum. Ljósin eru komin upp, búið að græja jólatréð: "Fella gervijólatré líka barrið?" var spurt þegar hafist var handa á þessum bæ í gærkvöld.

Allt að verða klárt. 

Ykkur, óþekktu einstaklingar, sem lesið skrif mín hér að jafnaði, og fjölskyldum ykkar, flyt ég hér með von mína um að við öll fáum að njóta gleði, góðs matar, friðar og kannski messu, einhverjir, næstu daga.

Talsverður hluti Kvisthyltinga dvelur erlendis um þessi jól. Til þessa hóps við ég telja 7 fullburða einstaklinga. Sannarlega söknum við fjögur, sem hér dveljum, samvistanna við þau, en með samskiptatækni nútimans verður þetta talsvert auðveldara en það hefði verið fyrir einhverjum áratugum.

Hjónunum í Görlitz og dætrum þeirra tveim og nýju hjónunum í Álaborg og syni þeirra flytur þessi síða bestu kveðjur úr þorpinu í skóginum.

(ef höfundar er ekki getið að meintum kveðskap, þá er hann frumortur og því við mig að sakast að því er varðar bragfeila og mér að hrósa ef tær snilldin lætur á sér kræla)

11 desember, 2011

Flatkökusörudagur

Ég ákvað fyrir nokkru, eftir að samstarfsmenn mínir, hins kynsins, sem gamli unglingurinn myndi kalla  "húslegar og gott að hafa bardúsandi í eldhúsinu" (sem ég myndi aldrei láta mig dreyma um að gera lífs míns og stöðu vegna), komu með kökur á kennarastofuna, svona í tilefni aðventunnar. Mér fannst þessar Sörur bara góðar og sannfærði sjálfan mig um, að þannig bakstur hlyti ég að ráða við, engu síður en þær sem þarna var um að ræða, Jónur, án þess þó að reykja jónur.  Þegar ég ákveð svona þá er allt eins líklegt að ég framkvæmi það og í dag var dagur framkvæmda, eftir kaupstaðarferð með lista yfir það sem til þurfti.

Ég er búinn að komast að því að Söruuppskriftir eru margar til, en aðal munurinn liggur þó í kreminu, eftir því sem ég hef komist næst.  Botninn, eða það eina sem er bakað, er yfirleitt eins, hver sem uppskriftin er.

Ég valdi eina þessara uppskrifta, sem innihaldslega séð gaf loforð um ljúfar Sörur.

Ég undirbjó og framkvæmdi þetta Sörumál, með sérlega fagmannlegum hætti að mínu mati. Í fyrra þurfti ég oftar að spyrja fD um hefðir og venjur í kökubakstri. Núna var þetta svona rétt til að tékka á hvort ég væri ekki örugglega á réttri leið.

Hér gefur að líta nokkrar myndir af Sörubakstrinum. Fegurstu Sörur, en enginn gat svo sem átt von á öðru.

Gullnir Sörubotnar

Lungamjúk fyllingin

Markmiðið var að búa til frjálslegar Sörur - og það tókst fullkomlega.


Úr því ég var byrjaður tók ég aðra tegund líka, með lítilsháttar aðstoð (muscle).

Add caption
Svo lauk þessu á samvinnuverkefninu "Flatkökur á pallinum".



Sunnudagur á aðventu.

12 nóvember, 2011

Vor í nóvember


Í dag lagði ég leið mína út fyrir Laugarás með myndagræjurnar mínar, sem kann kannski að þykja undarleg ráðstöfun, enda fátt utan þess eðalþorps sem kallar á mig til myndatöku.

Ég fór á þrjá staði í dag: upp á Reykholt fyrir ofan gamla barnaskólann, á brekkubrúnina hjá Vegatungu og loks efst á Torfastaða- eða Reykjaheiði.

Að vissu leyti klúðraði ég þessu, enda er alveg ósköp sem þarf að muna að stilla rétt. 

Myndirnar eru hér.

11 nóvember, 2011

Vísast bara vitleysisgangur

Æ, maður verrður að geta leyft sér smávegis frávik frá því að vera stöðugt upptekinn af því að vera vandur að virðingu sinni.


Ég er nú samt með lítilsháttar bakþanka - látum svo vera.

26 október, 2011

Setið yfir í stærðfræðiprófi

Hver veit nema innan fárra ári verið glæpasagan mín - sálfræðitryllirinn á allra vörum.  Það kemur fyrir einstaka sinnum að ég tek að mér að sitja yfir hinum og þessum prófum - í morgun var það stærðfræði, sem er nú ekki beinlínis það sem ég er að velta fyrir mér dags daglega.
Ég hef það þannig við aðstæður sem þessar, að ég er með blað og skriffæri  og sé til hvað gerist.

Þetta var útkoman í morgun:

Eftir því sem tímar liðu varð erfiðara fyrir hann að takast á við illskuna sem kraumaði djúpt í sálarfylgsnunum. Hvert árið sem leið færði hann nær  þeirri óumflýjanlegu stund þegar hann gæti ekki lengur ..... haldið henni í skefjum. Hún vissi að hverju stefndi og bjó sig undir það, samviskulaus, hiklaus, þolinmóð, einbeitt ... að losna. Því lengri tími sem leið, því öflugri varð hún.
Hann óskaði þess með sjálfum sér, að hann hefði hleypt henni út strax og hann varð var við hana fyrst. Nú var það of seint. Með hverjum mánuðinum jókst þrýstingurinn.

Þetta er nú aldeilis skemmtileg byrjun á 600 síðna stórvirki.
Það virðist stefna í einstakalega frumleg efnistök.
Nú er bara að bíða eftir að komast á eftirlaun, væntanlega.

05 október, 2011

Töfraveröld Laugaráss og nágrennis

Ég leyfði mér að fara enn eina ferðina um Laugarás og nágrenni í gær. Myndefnið sveik ekki frekar en fyrri daginn, og ekki EOSinn, PROlinsan og BILORA þrífóturinn.
Sannarlega förlaðist myndasmiðnum ekki heldur.
Nefni svo ekki forritið sem notað var við að koma myndunum í það form sem þær eru í hér.
Það er slatti í viðbót, sem jafnvel slá þessum við, HÉR.


30 september, 2011

Gyllinæðarkremið

Það breytir engu í því samhengi sem hér er um að ræða, en ég verð samt að nefna það, þar sem það skýrir það sem skýra þarf. 
Þannig er mál með vexti, að hásin hefur verið að plaga mig um alllangt skeið. Þetta er auðvitað afskaplega hvimleitt og mér hefur verið talsvert í mun að leita leiða til að óþægindin sem þessu fylgja, hverfi.

Það var svo í heimsókn okkar fD til Álaborgarfjölskyldunnar í byrjun ágúst að ég bar mig upp undan þessu við Kvisthyltinginn sem allt á að vita um svona hluti, að mínu mati. Hann greindi mér þá frá því, að þegar hann dvaldi í Ástralíu um eins árs skeið fyrir nokkrum árum, hafi hann einmitt lent í því að fá eymsl í hásin. Að fyrirmælum læknis hafi hann, fimm nætur í röð, borið blöndu af Voltaren geli og gyllinæðarkremi á hásinina og síðan vafið filmuplasti yfir allt saman. Hann kvað þetta hafa virkað vel.

Með þessa vitneskju yfirgaf ég Álaborg og gisti landið bláa á ný með minn hásinarvanda.

Þar kom að ég hélt á fund læknis til að freista þess að fá hann til að skrifa út lyfseðil á Voltaren og gyllinæðarkrem. Hann þráaðist nú við, glotti og kvaðst aldrei hafa heyrt um svona lækningaaðferðir, en var á endanum til að gefa mér færi á að prófa. Ef árangurinn yrði jákvæður gæti þetta haft áhrif á framþróun læknavísina á Íslandi.

Fram til þessa hafði umræðan um gyllinæðarkremið ávallt farið fram í samhengi við hásinarbólgu og því aldrei reynt á hin óorðanlegu viðhorf og hugrenningatengsl sem fara af stað þegar þetta samhengi er ekki fyrir hendi.

Með útskrift lyfseðilsins hvarf þetta samhengi og framundan var að fara í apótekið og leysa út kremin tvö. Þar sem ég bý í fámennu samfélagi, til þess að gera, þekki ég auðvitað apótekarann, úr barnaskóla, kórstörfum og hinu og þessu gegnum áratugina. Án þess að ég vildi fór ég að velta fyrir  mér hvaða hugsanir færu í gegnum höfuð hans þegar hann fengi gyllinæðarkremslyfseðilinn í hendur.
"Jæja, er karlinn bara kominn með gyllinæð, he he. Ræfils tuskan."

Ég var staðfastur í, að þrátt fyrir að möguleikinn á ofangreinri hugsun apótekarans væri fyrir hendi, skyldi ég með engu móti láta sjá það með svipbrigðum mínum, látbragði, eða orðum að þarna væri á ferðinni eitthvað annað en hið eðlilegasta mál - sem það var auðvitað, nú fyrir utan það, vissulega, að þarna var verið að prófa ástralska lækningaaðferð í fyrsta skipti á Íslandi - en ég minntist ekki á það, enda myndi það bara hljóma sem afsökun til útskýringar á gyllinæðarkreminu. 

Ég stóðst með prýði kremkaupin, og apótekarinn auðvitað líka  -  bara spjallað um daginn og veginn meðan verið var að prenta notkunarleiðbeiningar á miðann. Borgað, burt.

Þegar heim var komið skellti ég kremunum bara á eldhúsborðið. Það var allt í lagi þar sem ekki var nú um að ræða aðra í húsinu en mig og fD, sem var vel heima í hásinarumræðunni og því með rétt stillt viðhorf til málsins.

Þá kom fólk í heimsókn - svona vel rúmlega miðaldra hjón sem hafa ýmsa fjöruna sopið. 
Þau settust við eldhúsborðið áður en mér tókst að skanna það fyrir hlutum og/eða efnum sem þar hefðu ef til vill ekki átt að vera. Á borðinu var gyllinæðarkremið og reyndar líka Voltaren gelið, en nákvæmlega það bjargaði því að ég þyrfti að fara í einhverja sérstaka vörn. Konan er ekki þekkt af því að spyrja ekki, ef hana vantar svör. Þessvegna:
"Hvaða krem er þetta?  Doloproct rektal creme??"  
Þarna skellti ég nú bara fram, blátt áfram, eins og ekkert væri eðlilegra, forsögunni, algerlega vandræðalaust, með þessum viðbrögðum:
"Já, gyllinæðarkrem. Maður þekkir það nú vel."
Þar með var það bara afgreitt.

Um kvöldið tók ég mig til og blandaði í einhverjum hlutföllum, kremunum tveim, bar þau í talsvert þykku lagi á hásinina endilanga og vafði síðan filmuplasti rækilega yfir allt saman. Fór svo bara að sofa og vaknaði aftur morguninn eftir eins og hlýtur að vera, því annars væri ég ekki að skrifa þetta.

Breytingin var nú ekki mikil, nema sú, að mér fannst að þessi kröftugu bólgueyðandi krem hefðu fjarlægt allar bólgur svo rækilega, að hælbeinsliðurinn skrölti svona eins og þegar bremsur eru járn í járn. Það lagaðist þó, og ég hélt áfram að bera þessi krem samviskusamlega í 5 nætur, án þess að þau sönnuðu sig sem tímamótaframfarir í læknavísindum á Íslandi.

Hvort sem lesendur trúa því eða ekki þá hef ég,  í gegnum þetta gyllinæðarkrem, fyrsta sinni aflað mér upplýsinga um hvaða fyrirbæri þessi gyllinæð er, og þar komst ég meðal annars að því, að nafnið er ekki gegnsætt, en lýsir sakleysislegasta fyrirbæri, ef grannt er skoðað.

21 ágúst, 2011

Þar sem skil verða í framrás tímans

Mín eigin krækiber
Það er haustáferð á þessum sólríka sunnudegi.
Svöl lognkyrrðin ilmar af fullþroskuðum afurðum sumarsins.
Ég fylgdi fD í berjamó í gær, ekki til að fara að handtína bláber eins og hún, heldur til að tínutína krækiber með það að markmiði að borða þau bara algerlega óunnin.
Ber ku vera holl.
Ég er í hollustunni núna.
Reykurinn liðast ekki lengur upp af pallinum með reglulegu millibili.
Kröftugar gönguferðir eða golfæfingar orðnar dagleg iðja.
Brjáluðum lyfjakúr er nýlokið.

Það urðu nokkur tímamót í vor þegar mér settur stóll fyrir dyr í vissum skilningi.
Nei, ég var ekkert á útleið - fjarri því. Það þurfti bara að tryggja enn betur, nauðsynlegt langlífi mitt.
Því skellti ég mér í hollustuna.
Mér hefur nú alltaf fundist hún fremur óáhugaverð; ekkert nema einhver sjálfspynding.
Ekki það að mér hafi ekki fundist fólkið í hollustunni líta vel út - þvert á móti. Mér hefur bara fundist hún snúast of oft um einhvers konar trúaratriði. Ofsatrúað fólk hugnast mér ekki. Mér finnst meðalhófið vera best þegar upp er staðið.
Hvaða gagn og gaman er í lífi sem gengur út á það að neita sér um allt sem hugurinn girnist og gott þykir?
Mannskepnan dvelur örskotsstund úr eilífðinni sem ógnarsmátt sandkorn á þessu leiksviði sem jarðvistin er.
Argast þarna og þvargast eins og hún skipti einhverju máli.
Hverfur síðan.

Það er rétt, að með hollum lífsháttum líður manni betur, en það má samt ekki líta framhjá því að ýmislegt það sem óhollt er, kryddar lífið og gerir það í mörgum tilvikum, þess virði að standa í að lifa því.

Hóf er best í öllu.

Það eru nokkur tímamót núna - um tíma í það minnsta.
Í fyrsta sinn frá því ég hóf ævistarfið af fullum þunga árið 1979 (hafði reyndar þar áður sinnt slíku starfi veturinn 1974-75) mun ég ekki leiðsegja æskufólki um dýrðarveröld enskrar tungu á komandi vetri. Þessi tímamót kalla fram blendnar pælingar, allt frá hugsuninni: "Jæja, er þetta þá bara búið?" - upp í : "Úff hvað ég er feginn. Þau skilja mig ekki lengur hvort sem er - og ég ekki þau."  Formlega er framhald þessa máls í vinnslu og aðeins um að ræða hlé á þessum hluta starfsins.
Nokkur tilhlökkun gerir vart við sig. Hvernig verður lífið án þessa vettvangs til að láta ljós sitt skína?

Fínt er.

24 apríl, 2011

Afleiðingar þess að taka frumkvæði

"Ef þú ætlar að gera þetta þá þarftu að fara að taka brauðið úr kistunni" sagði fD upp úr hádeginu.

Undanfari þessara orða er orðinn talsvert langur.

Mér hafa gegnum tíðina þótt brauðtertur nokkuð góðar við hátíðleg tækifæri. Ég hefði þó vilja sjá meiri þróun á þessu sviði í veislum, en svo lengi sem ég man eftir mér hafa bara verið á borðum tvær tegundir: þessi með rækjunum og þessi með skinkunni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það hlyti að vera hægt að búa til góðar brauðtertur sem væru uppbyggðar með einhverjum öðrum hætti, en ég hef nú ekki aðhafst neitt það sem yki líkur á að ég fengi að bragða eitthvert slíkt góðgæti - fyrr en í páskainnkaupaferðinni.

Þarna vorum við á ferð um stórlágvöruverðsverslunina. Skyndilega bar fyrir augu mér nýbakað brauðtertubrauð og eftir að hafa borið kaup á því lítillega undir fD með ekkert sérlega neikvæðum viðbrögðum, ákvað ég að skella einu í körfuna. Ég vissi það, reyndur maðurinn, að með þeirri aðgerð var verðandi brauðterta alfarið á mína ábyrgð. Því var það að ég hélt áfram brauðtertuhugsuninni:


"Ég er að spá í að hafa eitthvað óvenjulegt í henni."
"Já, þú ræður því bara." (enda er þetta þín brauðterta)

Með þetta í farteskinu fór ég að skoða mig um í versluninni í leit að óvenjulegum brauðtertugrunnefnum: Þarna fann ég rauðrófur, radísur, sveppi, papriku og til að hafa kjötmeti með, valdi ég skinku, sem er reyndar dálítið stílbrot miðað við þá stefnu sem ég lagði upp með. Ég reiknaði með, að að öðru leyti myndi ég finna annað sem til þyrfti þegar þar að kæmi.

Já, við áminninguna sem sjá má efst skellti ég mér auðvitað strax í að ná í brauðið í frystinn, bjó helminginn undir þiðnun, en pakkaði hinum hlutanum aftur í frostið. Svo þiðnaði brauðið á meðan ég tók mig til við að undirbúa hráefnið. Ég átti auðvitað aldrei von á öðru en að það yrði kökusneið (piece of cake) að sneiða efnið niður í litla teninga svo auðvelt yrði að skera kökuna. Allt gekk það eftir. Það var bara til öryggis, að ég spurði:


"Kva, blandar maður þessu svo bara saman við mæjónesið áður en það er sett á brauðið?"
"Já, það er auðveldara að dreifa því þannig." hljóðaði svarið.

Þetta var eina spurningin sem ég varpaði fram í öllu ferlinu.


Ég hrærði öllum teningunum saman við olíusósuna og bætti lítilsháttar mjólk út í, annarsvegar til að taka mestu skerpuna út því og hinsvegar til að blandan yrði auðvinnanlegri. Vegna rauðrófunnar varð úr þessu sérlega fögur, bleik blanda, sem ég smurði á neðsta brauðlagið, setta því næst næsta brauðlagið ofan á og dreifði síðan afgangi blöndunnar þar á, og setti loks þriðja brauðlagið efst. Þessu næst smurði ég brauðtertuna með léttmæjónesi og skreytti eftir kúnstarinnar reglum, "rustic style".

Ég þarf auðvitað ekki að segja frá því, en ég veit, áður en ég smakka þessi nýju brauðtertutegund, að hér er á ferðinni nýjung, sem ég er sannfærður um að mun ná fótfestu í veislum framtíðar.

عيد الفصح Велигден อีสเตอร์ יסטער

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...