17 mars, 2012

Þröngur dráttur

Ég þarf, eins og tugir þúsunda annarra í þessu landi, að koma mér til vinnu á hverjum morgni vinnudags. Það er nú allavega hvernig þessir morgnar eru, en meðal þess sem ég get átt von á, er að það hafi fryst um nóttina, eftir rigninguna daginn áður. Hafi fryst, þá stend ég frammi fyrir þeim vanda, að lásinn bílstjóramegin í xtreilinum mínum frýs, þannig, að það er hægt að opna, en ekki hægt að skella í lás fyrr er miðstöðin hefur náð að hita loftið í bílnum talsvert upp fyrir frostmark. Þetta þýðir, eins og hver maður getur séð, að ég þarf að halda hurðinni lokaðri upp undir 10 km vegalengd, þegar þessi staða er uppi. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að þetta er hvimleitt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, og ég er tilbúinn að leggja talsvert á mig til að komast hjá þessum aðstæðum.
Það er einnig rétt að halda því til haga, í samhengi við það sem hér er skráð, að vaxtarlag mitt ber ekki með sér að ég sé fastagestur á líkamsræktarstöðvum og aldur minn nálgast óðum að fylla það sem menn kölluðu "three score years" á tíma Abrahams Líncons.
Dagarnir í síðustu viku voru með nokkuð reglubundnum hætti þannig, að það hlýnaði eftir því sem á leið morguninn og var jafnvel talsverð væta þegar á leið daginn. Það frysti hinsvegar á nóttunni, og á þeim morgni sem um ræðir hér, var rétt rúmlega 5°C frost þegar haldið var af stað til vinnu.
Ég vissi hvert stefndi og ákvað í ljósi þess, að fara farþegamegin inn í bílinn - hef gert það áður með eftirtektarverðum árangri. Byrjaði á að opna dyrnar, tók þar fram sköfurnar og tókst að opna hæfilegt gat á framrúðuna til að ég myndi sjá hvar ég væri hverju sinni og tækist að forðast að aka útaf, eða á það sem fyrir kynni að vera.
Þegar þessu var lokið hófst innför mín, farþegamegin yfir í bílstjórasætið. Auðvitað gekk ágætlega að hálfsetjast í farþegasætið og sveifla vinstra fæti yfir stokkinn milli sætanna og yfir á gólfið  bílstjóramegin. Síðan mjakaði ég meginhluta mínum yfir stokkinn og gírstöngina, yfir í bílstjórasætið. Þá var þetta næstum komið, utan það að hægri fótur var enn farþegamegin. Verkefnið var að koma honum sömu leið og megin hlutinn var kominn. Til þess að svo mætti verða þurfti ég að beita handtaki fyrir neðan hné, og vippa fætinum yfir stokkinn og troða honum framhjá stýrinu og niður á gólf, bílstjóramegin. Þegar hér var komið sögu var fD tilbúin til brottfarar, en við erum samferða til vinnu á þessum morgni vikunnar.

Í þann mund er ég beygði mig fram til að grípa fótinn, og í framhaldi af því vippa honum honum yfir, gerðist það sem enginn myndi vilja reyna við þessar aðstæður. Ég fann hvernig hann* lagði undir sig hægra lærið, nístandi sársaukinn, sem hefði framkallað háværa .........skræki ef ég hefði ekki tekið karlmennskuna á þetta, og látið frá mér tiltölulega hófstillt: AHHHH, AHHHH, eða AAAAAH.
Ég reyndi að finna betri stöðu, sem linaði þjáninguna, en hana var ekki að finna, þar sem ég sat þarna nánast á sjálfheldu. Sársaukinn gerði ekkert nema versna, þannig ég sá ekki aðra leið, til þess í rauninni að bjarga mér frá þessum skelfilegu kvölum, en að henda efri hluta mínum fram á við, ná í dyrakarminn og vippa mér útfyrir, næstum í einum rykk, þannig að ég felldi fD næstum, þar sem hún stóð, tilbúin að setjast inn.

Það tók mig nokkra stunda að safna sjálfum mér saman, þannig að jafnvægi væri náð. Gekk þá að dyrunum bílstjóramegin, rykkti þeim upp, settist inn, setti í gang, greip með hægri hönd um húninn á bílstjórahurðinni, ók af stað og hélt, þögull og æðrulaus, 12 km. leið, þar til frostið loks sleppti tökunum á hurðarlásnum.


*hér er um að ræða svokallaðan sinadrátt, fyrir þá sem ekki hafa áttað sig strax.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...