30 september, 2011

Gyllinæðarkremið

Það breytir engu í því samhengi sem hér er um að ræða, en ég verð samt að nefna það, þar sem það skýrir það sem skýra þarf. 
Þannig er mál með vexti, að hásin hefur verið að plaga mig um alllangt skeið. Þetta er auðvitað afskaplega hvimleitt og mér hefur verið talsvert í mun að leita leiða til að óþægindin sem þessu fylgja, hverfi.

Það var svo í heimsókn okkar fD til Álaborgarfjölskyldunnar í byrjun ágúst að ég bar mig upp undan þessu við Kvisthyltinginn sem allt á að vita um svona hluti, að mínu mati. Hann greindi mér þá frá því, að þegar hann dvaldi í Ástralíu um eins árs skeið fyrir nokkrum árum, hafi hann einmitt lent í því að fá eymsl í hásin. Að fyrirmælum læknis hafi hann, fimm nætur í röð, borið blöndu af Voltaren geli og gyllinæðarkremi á hásinina og síðan vafið filmuplasti yfir allt saman. Hann kvað þetta hafa virkað vel.

Með þessa vitneskju yfirgaf ég Álaborg og gisti landið bláa á ný með minn hásinarvanda.

Þar kom að ég hélt á fund læknis til að freista þess að fá hann til að skrifa út lyfseðil á Voltaren og gyllinæðarkrem. Hann þráaðist nú við, glotti og kvaðst aldrei hafa heyrt um svona lækningaaðferðir, en var á endanum til að gefa mér færi á að prófa. Ef árangurinn yrði jákvæður gæti þetta haft áhrif á framþróun læknavísina á Íslandi.

Fram til þessa hafði umræðan um gyllinæðarkremið ávallt farið fram í samhengi við hásinarbólgu og því aldrei reynt á hin óorðanlegu viðhorf og hugrenningatengsl sem fara af stað þegar þetta samhengi er ekki fyrir hendi.

Með útskrift lyfseðilsins hvarf þetta samhengi og framundan var að fara í apótekið og leysa út kremin tvö. Þar sem ég bý í fámennu samfélagi, til þess að gera, þekki ég auðvitað apótekarann, úr barnaskóla, kórstörfum og hinu og þessu gegnum áratugina. Án þess að ég vildi fór ég að velta fyrir  mér hvaða hugsanir færu í gegnum höfuð hans þegar hann fengi gyllinæðarkremslyfseðilinn í hendur.
"Jæja, er karlinn bara kominn með gyllinæð, he he. Ræfils tuskan."

Ég var staðfastur í, að þrátt fyrir að möguleikinn á ofangreinri hugsun apótekarans væri fyrir hendi, skyldi ég með engu móti láta sjá það með svipbrigðum mínum, látbragði, eða orðum að þarna væri á ferðinni eitthvað annað en hið eðlilegasta mál - sem það var auðvitað, nú fyrir utan það, vissulega, að þarna var verið að prófa ástralska lækningaaðferð í fyrsta skipti á Íslandi - en ég minntist ekki á það, enda myndi það bara hljóma sem afsökun til útskýringar á gyllinæðarkreminu. 

Ég stóðst með prýði kremkaupin, og apótekarinn auðvitað líka  -  bara spjallað um daginn og veginn meðan verið var að prenta notkunarleiðbeiningar á miðann. Borgað, burt.

Þegar heim var komið skellti ég kremunum bara á eldhúsborðið. Það var allt í lagi þar sem ekki var nú um að ræða aðra í húsinu en mig og fD, sem var vel heima í hásinarumræðunni og því með rétt stillt viðhorf til málsins.

Þá kom fólk í heimsókn - svona vel rúmlega miðaldra hjón sem hafa ýmsa fjöruna sopið. 
Þau settust við eldhúsborðið áður en mér tókst að skanna það fyrir hlutum og/eða efnum sem þar hefðu ef til vill ekki átt að vera. Á borðinu var gyllinæðarkremið og reyndar líka Voltaren gelið, en nákvæmlega það bjargaði því að ég þyrfti að fara í einhverja sérstaka vörn. Konan er ekki þekkt af því að spyrja ekki, ef hana vantar svör. Þessvegna:
"Hvaða krem er þetta?  Doloproct rektal creme??"  
Þarna skellti ég nú bara fram, blátt áfram, eins og ekkert væri eðlilegra, forsögunni, algerlega vandræðalaust, með þessum viðbrögðum:
"Já, gyllinæðarkrem. Maður þekkir það nú vel."
Þar með var það bara afgreitt.

Um kvöldið tók ég mig til og blandaði í einhverjum hlutföllum, kremunum tveim, bar þau í talsvert þykku lagi á hásinina endilanga og vafði síðan filmuplasti rækilega yfir allt saman. Fór svo bara að sofa og vaknaði aftur morguninn eftir eins og hlýtur að vera, því annars væri ég ekki að skrifa þetta.

Breytingin var nú ekki mikil, nema sú, að mér fannst að þessi kröftugu bólgueyðandi krem hefðu fjarlægt allar bólgur svo rækilega, að hælbeinsliðurinn skrölti svona eins og þegar bremsur eru járn í járn. Það lagaðist þó, og ég hélt áfram að bera þessi krem samviskusamlega í 5 nætur, án þess að þau sönnuðu sig sem tímamótaframfarir í læknavísindum á Íslandi.

Hvort sem lesendur trúa því eða ekki þá hef ég,  í gegnum þetta gyllinæðarkrem, fyrsta sinni aflað mér upplýsinga um hvaða fyrirbæri þessi gyllinæð er, og þar komst ég meðal annars að því, að nafnið er ekki gegnsætt, en lýsir sakleysislegasta fyrirbæri, ef grannt er skoðað.

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...