02 október, 2011

Ólátabelgurinn Eggert

Þegar maður tekur á móti nýjum hópi nemenda að hausti, þá tekur við sú skylda manns að læra nöfn þeirra. Sum nöfnin lærir maður fljótt, önnur reynast ekki eins auðveld og það hefur komið fyrir mig  að ruglast á nöfnum nemenda jafnvel fram á þriðja ár.

Nöfnin sem ég læri fyrst tilheyra þeim sem standa með einhverjum hætti út úr hópnum, því miður oftast vegna einhverrar neikvæðrar hegðunar. Það er fjallað um þessi nöfn á kennarastofunni og í nemendahópnum.

Nöfn þeirra sem eru þarna í hópnum og sem sinna því sem þeim er ætlað, eru kurteisir, koma og fara, og mynda þennan þögla meirihluta, eru erfiðari viðureignar.

Þetta vitum við öll.
Mörg okkar beinlínis nýta þessa þekkingu.
Við vitum að til þess að verða eitthvað, verðum við að vekja athygli. Athygli er helst að ná í gegnum fjölmiðla, sem stöðugt leitast við að slá aðra fjölmiðla út með uppsláttarfréttum.
Uppsláttarfréttir felast í langflestum tilvikum í einhverju neikvæðu, t.d. einhverjum slysum eða hörmungum, og einnig neikvæðum ummælum fólks í garð hvers annars.

Til að ná athygli fjölmiðla þarf að hrópa (helst öskra) - nú eða kasta eggjum, tómötum eða skyri.

Hvers á hinn þögli fjöldi að gjalda?

Það var nefndur einhver fjöldi fólks sem var viðstaddur gönguferð þingmanna úr þinghúsi í kirkju og til baka. Fjölmiðlar hefðu orðið súrir ef enginn hefði kastað eggjum, og enginn þingmaður hefði vankast nú eða ef enginn viðstaddra hefði verið tilbúinn að hrópa svívirðingar í hljóðnema.

Hinn þögli fjöldi var þarna líka.
Er hann sáttur við þá fulltrúa sína sem þarna náðu svo glæsilega, athygli fjölmiðlanna?
Er hann sáttur við aðra þá sem slá um sig með stórkarlalegum yfirlýsingum og sleggjudómum og segjast vera að tala í nafni þjóðarinnar (hins þögla fjölda, sem á ekki rödd)?

3 ummæli:

  1. Ég held að hin þögli hluti hafi innra með sér fagnað því að einhver tók af skarið og lét fólk finna fyrir þvi. Það er nú einusinni þannig að þögult hitt og þetta er einmitt bara það, og það er það sem þeir sem eru að mótmæla treysta á. Ef það er þögult, þá þarf ekkert að bregðast við, því hvað verður svosem úr því þegar er búið að þegja það í kaf?

    SvaraEyða
  2. Djúpt :) - ef ég skil þetta eins og það er meint.

    SvaraEyða
  3. reyndar er ein setningin ekki alveg eins og hún átti að vera :)
    "og það er það sem þeir sem eru að mótmæla treysta á", þetta á að sjálfsögðu að vera "og það er það sem þeir sem mótmælin beinast gegn treysta á" að öðru leiti ekki svo djúpt.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...