Sýnir færslur með efnisorðinu ferðalög/skemmtanir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ferðalög/skemmtanir. Sýna allar færslur

22 nóvember, 2015

Skálholtskórinn til Þýskalands og Frakklands 1998 (1)


Það sem hér birtist í tveim hlutum er ferðsaga sem ég færði í letur í nóvember 1998 og hún birtist síðan í Litla Bergþór, (19. árg. 3. tbl, desember 1998).
Ferðasöguna birti ég einnig á vefsíðu sem ég var þá að reyna að koma mér upp, en umsýsla með henni fjaraði út, þó enn hangi hún þarna eftir um 20 ár. Internetið gleymir engu.

Ég fór að leita að myndum úr þessari ferð,af tilteknu tilefni, eitt leiddi af öðru og ég ákvað að setja þessa ferðasögu hér inn og tengja hana við myndirnar sem voru teknar á myndavél í minni eigu í ferðinni. Þetta geri ég nú bara til að halda þessu til haga - geri ekki ráð fyrir að fólk fari að leggja í lestur, enda margt þarna sem aðeins þeir sem í ferðinni voru munu mögulega skilja.

Textann hef ég óbreyttan og óaðlagaðan. Slóðin á myndirnar

Ferð Skálholtskórsins, maka og áhangenda til Þýskalands og Frakklands 1.- 8. október 1998 

1. hluti

tímalaust

tilurðin, ábyrgðin, frásögnin

Sú frásögn sem hér fer á eftir er ekki opinber ferðasaga Skálholtskórsins þó svo hún greini nokkurn veginn í réttri tímaröð frá því sem gerðist í ferðinni. Ýmsir atburðir eru færðir í stílinn til að fullnægja kröfum um óábyrga frásögn. Ég valdi þá leið að fjalla ekki um fólk undir nafni nema í undantekningartilfellum. Ástæða þess er aðallega sú, að með því að fjalla um nafngreint fólk er höfundur að taka á sig meiri ábyrgð en ég er tilbúinn til á þessu stigi. Ef þið lesendur góðir teljið ykkur þurfa nánari útskýringar á því sem ýjað er að í frásögninni þá skuluð þið bara hafa samband við einhvern þeirra sem í ferðina fóru. Meðfylgjandi er listi yfir þá. Ég fékk í hendur punkta frá Perlu, formanni og hef nýtt þá mikið, bæði beint og óbeint, þannig að hennar hlutur í frásögninni er umtalsverður. Hinsvegar verð ég einn að teljast ábyrgur (svo fremi að hægt sé að tala um ábyrgð í því sambandi, því ég hef þegar vísað frá mér ábyrgðinni og gert grein fyrir því) fyrir skrifunum en tek það strax fram, að öllum hugsanlegum ákúrum fyrir óvönduð eða ófagleg vinnubrögð við skriftirnar vísa ég til föðurhúsanna fyrirfram.

miðvikudagurinn, 30. september 

eftirvæntingin, lýsingin, flugstöðin 

Það er nú varla hægt að segja annað en að hópur sá, sem tók sig upp frá landinu elds og ísa að morgni hins 1. október, hafi fundið til eftirvæntingar og spennu. Eftirvænting og spenna eru hér notuð einvörðungu í þeim tilgangi að nota einhver lýsingarorð um allar þær kenndir sem ég tel að hafi bærst í hugum og hjörtum ferðalanganna úr hinni íslensku sveit þennan dag. Reyndar var það nú svo, að til að taka örlítið forskot á dýrðina dvaldi stór hluti hópsins, sem utan fór, á Hótel Keflavík nóttina fyrir brottför. Því var ég fegnastur þar, að hafa ekki kvartað undan því við hótelstjórann, að rafmagni á herberginu okkar hjóna hlyti að hafa slegið út. Hefði ég gert það hefði komist upp þvílíkur sveitamaður var hér á ferð. Það var nefnilega svo á þessu hóteli, að til þess að "ræsa" lýsinguna í herberginu þurfti að beita lykilígildinu á þar til gerðan útbúnað.

fimmtudagurinn, 1. október 

morgunverðurinn, fríhöfnin 

Klukkan 4.30 var risið úr rekkju, snæddur indæll morgunverður og því næst haldið í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Einhvern veginn hefur það þróast þannig að Fríhöfnin er nauðsynlegur þáttur í utanferð hvers Íslendings; táknmynd fyrir hinn framandi heim sem ekki allir fá að upplifa og njóta. Þeir sem komast í þá aðstöðu þurfa að sjálfsögðu að fá tækifæri til að eyða þar drjúgum tíma áður en þeir setjast upp í Flugleiðavélina og ferðin yfir Atlantshafið hefst. Þetta allt gerðist þarna.

2. hluti - Þýskaland

Erst Deutschland 

rútan, Bæjarajakkinn, afþrýstibúnaðurinn 

Ferðin yfir hafið hafði sinn endapunkt í Luxembourg í hlýju veðri, og gaf það góð fyrirheit um framhaldið. Rútubílstjórinn sem þar tók þar á móti okkur og seldi okkur gosdrykki, meðal annars, alla ferðina á 2 mörk, er íslenskur og við það létti sumum ferðalanganna töluvert, hann myndi skilja hið sérstaka íslenska hegðunarmynstur sem yrði áberandi í rútuferðum og annars staðar næstu 8 daga.

Ferðin frá flugvellinum til næsta áfangastaðar tók nokkra stund og reyndi leiðsögumaðurinn að fræða landann um sögu svæðisins. Athyglin var upp og ofan hjá farþegum.

Til hinnar sögufrægu borgar Trier kom hópurinn. Gengu menn þarna frá borði rétt við hið forna borgarhlið, Porta Nigra (Svarta hliðið) . Út frá hliðinu var síðan aðal verslunargatan í bænum. Voru menn fljótir að finna helstu stórmarkaðina á svæðinu: Kaufhof og Karstadt (undirritaður reyndist hafa klætt sig á ófullnægjandi hátt fyrir þann lofthita sem var á staðnum, svo hann varð sér þarna úti um jakka einn ágætan, sem kórstjórinn síðar tjáði honum að kallaðist "Bæjarajakki" og að ekkert vantaði á hann nema merki þýskra þjóðernissósíalista.) Þarna dvöldum við um stund svona aðallega til að fá tilfinningu fyrir hinu erlenda andrúmslofti, svona eins og þegar kafarar eru settir í afþrýstibúnað. Fyrir utan að kynna sér verslunarhætti þýskra, setjast á útikaffihús og virða fyrir sér fornar byggingar, kynntust nokkrir úr hópnum lífi innfæddra næstum því náið, að því er sagt er.

Á tilsettum tíma hittist svo hópurinn á tilsettum stað og hafði ferðalöngunum flestum tekist ná aftur yfirvegun hugans. Þótti þá einhverjum við hæfi að hefja umræðu um íslensk sveitastjórnarmál, og segir ekki fleira af þeirri umræðu.

Síðasti áfanginn þennan daginn var stuttur spölur til smábæjarins Leiwen í

Móseldalnum, en þar var síðan samastaður okkar næstu fjóra daga.

vínræktin, hjónarúmið

Beggja vegna árinnar Mósel eru hlíðar dalsins þaktar vínviði. Þar er nú aldeilis ekki eyðilegt um að litast. Viði vaxið milli fjalls og fjöru. Þorpið Leiwen er fremur ríkmannlegt, enda býr þar vínræktarbóndi í nánast hverju húsi (Weingut), auk þess sem stór hluti íbúanna hefur atvinnu af ferðaþjónustu.

Þegar inn í þorpið var komið tók Ásborg þeirra Leiwenmanna, Frau Spieles-Fuchs, á móti okkur og vísaði okkur til dvalarstaða, en hópurinn dvaldi þarna í nokkurs konar bændagistingu vítt og breitt um þorpið á einum átta stöðum segja þeir sem töldu.

Það verð ég að segja, fyrir okkur hjónin í það minnsta, að á betra varð ekki kosið í aðbúnaði öllum á þessum stað. Í okkar hlut kom íbúð með baðherbergi, eldhúsi og risastóru hjónarúmi. Það sama held ég sé hægt að segja um flesta aðra.

kvöldverðurinn, aðlögunin

Það var hjá stórhöfðingjanum Jóhanni Lex sem allir komu saman eftir að hafa tekið upp út töskunum. Lexarnir reka nefnilega all umfangsmikla ferðaþjónustu auk vínræktarinnar og fóru því létt með að taka við ríflega 40 manns í kvöldmat. Þarna var borið fram hið indælasta "schweinerschnitzel" að hætti þeirra Leiwen manna (í 98% tilvika gerði svínakjöt ferðalöngunum gott, þannig að á annað verður ekki minnst.) Eftir matinn skemmti hópurinn sér hið besta við söng og grín fram eftir kvöldi, eins og sagt er.

Það var feikilega dimmt í Leiwen á þeim tíma sólarhrings sem hér um ræðir og því ekki að undra, og reyndar vel skiljanlegt, að ferðalöngunum hafi gengið misvel að finna sinn næturstað þessa nótt. Ýmsar sögur gengu svo sem meðal fólks um óvænta gesti, en skýringarinnar er fyrst og fremst að leita í því að þetta var dimmt, framandi umhverfi og kennileiti fá, í það minnsta verður sú skýring að duga.

Til þess var sömuleiðis tekið um tíma, hve utan við sig faglegur stjórnandi hópsins er sagður hafa verið. Það verður í því sambandi að taka mið af því hvílíkt álag var á stjórnandanum við þessar aðstæður. Hann var þarna mættur með heilan kór á erlenda grund til að syngja í stærstu kirkjum fyrir háa sem lága, hátt og lágt, sterkt og veikt. Eðlilega var hann með hugann við það vandasama verkefni sem framundan var, en ekki húsdyralykil. Lyklinum hélt hann auðvitað á í hendinni allan tímann sem leit stóð yfir að honum. Ég veit ekki einu sinni til hvers ég er yfirleitt að minnast á þennan lykil!

Það annað sem nefna má, og sem fylgdi þessu kvöldi (þegar ég segi "kvöldi" er það auðvitað ekki mjög afmarkað hugtak) var auðvitað að sá kvittur heyrðist morguninn eftir, að líkur væru á að heimilisfólki á nokkrum bæjum í íslenskri sveit fjölgaði. Staðfestingar er enn beðið á því hvort nokkur fótur er fyrir þessu.

föstudagurinn, 2. október

klettasyllan, kastalinn, Jungfrauin, söngurinn, iðnaðarmennirnir, þrautagangan, útsýnið

Undir hádegið var lagt í hann til Bernkastel, og voru allir endurnærðir eftir góðan nætursvefn (svona er þetta orðað í ferðasögum).

Á leiðinni um Móseldalinn var mest áberandi, auk árinnar Mósel, vínviðurinn. Hver einasti skiki lands, í bókstaflegri merkingu, er þarna nýttur til ræktunar vínviðar. Ef einhvers staðar var smá klettasylla þá hafði þar verið plantað 5-6 vínviðartrjám. Í fljótu bragði verða vinnuaðstæður þarna í hlíðunum að verða að teljast illa viðunandi, á íslenskan mælikvarða.

Borgin Bernkastel-Kues á sér langa sögu og merkilega, sem ég treysti mér ekki til að rekja hér, enda alger óþarfi þegar hafður er í huga tilgangurinn með þessum skrifum. Það verð ég hinsvegar að segja að sagan helltist yfir okkur þarna í formi þess andrúmslofts sem við upplifðum á þessum stað. Þröngar göturnar, bindiverkshúsin og kastalarústirnar. Þetta var eins og að ganga inn í gamalt ævintýri.

Iðnaðarmennirnir í hópnum urðu fyrir vægri heilabilun…jæja, allavega smávægilegu menningarlegu áfalli, þegar þeir litu þá byggingarlist sem þarna hafði tíðkast. Ég fullyrði hér með að, þarna hafi þeir áttað sig á því að það er hægt að reisa falleg hús án þess að vinklar, tommustokkar eða hallamál komi mikið við sögu. Ég tel að þeir komi miklu frjálslyndari að þessu leyti til baka og þess muni sjást merki í húsagerð í uppsveitunum á næstu árum.

Á litlu torgi, sem iðaði af mannlífi og sögu, tróðum við upp fyrsta sinni í ferðinni og það með glæsibrag. Þarna var gefinn tónninn fyrir framhaldið.

Í fjarska glitti í kastalarústir. Þangað lögðu flestir leið sína. Og leiðin var löng og ströng: í það minnsta 2 km. og öll upp á við. Það verður að segjast eins og er, að í það minnsta ég var þeirrar skoðunar á tímabili, og reyndar heyrði ég aðra einnig hafa á því más á leiðinni upp að kastalanum, að þarna hefði ef til vill verið færst of mikið í fang. Hreppsnefndin í Bernkastel-Kues þyrfti að huga að því að koma þarna upp svona nokkurs konar togvíralyftu eins og tíðkast í Ölpunum til að ekki verði gert upp á milli ferðalanga eftir því hvort þeir stunda keppnisíþróttir að staðaldri eða ekki.

Hún gleymdist fljótt, þrautagangan þegar upp var komið. Köstulum var valinn staður með tilliti til þess hve víðsýnt var (þetta er nú speki sem varla er þörf á að hafa mörg orð um). Þessi kastali er engin undantekning. Ef ekki hefði komið til nagandi samviskubit vegna aumingja þjónustustúlkunnar, "Die Bernkastler Jungfrau", sem stóð og reytti hár sitt yfir þessu vandræðafólki sem þarna helltist yfir hana óundirbúna og krafðist þess að fá að borða, meira að segja úti, þá finnst mér að kastalagangan hafi verið einn af hápunktunum í þessari ferð.

Sökum þess hve tímafrek máltíðin í kastalaveitingahúsinu varð, gafst minni tími til að rölta um hjarta bæjarins og njóta andblæs liðinna alda í bland við höfgan ilminn af Kebab og Bratwurst. Þetta gerði samt hver sem betur gat, þó mest þau þrjú sem ekki lögðu í brattann.

snitzelin, salatbarinn, knattspyrnuleikurinn

Þetta kvöld fór hópurinn á veitingahús að borða. Borðhaldið hófst með salathlaðborði. Það hvarf snarlega í maga, og það þrátt fyrir að einhver teldi sig hafa orðið vara við líf í því. Þá gat fólk valið um 3 tegundir af svínakjöts Schnitzel í aðalrétt: Wienerschnitzel, Jägerschnitzel og einhverja þriðju tegund af Schnitzel. Megin munurinn á þessum þrem tegundum var sósurnar. Um 2% hópsins fengu nautasteik.

Þarna var sem sagt borðað og sungið í kapp við knattspyrnuleik í sjónvarpinu. Segir ekki meira af þessu kvöldi, enda flestir tilbúnir að hvílast eftir fjallgönguna.

laugardagurinn, 3. október

stundvísin, kirkjurnar, baðhúsin

Það var nú bara haldið snemma af stað þennan daginn, því margt var á dagskránni – eins og reyndar allan tímann. Íslendingar hafa það orð á sér að sveigja fyrirmæli og reglur án þess að hafa svo sem stórar áhyggjur af því. Það bar eðlilega á þessum eðlisþætti í þessari ferð. Þetta gerir þá bara auknar kröfur á útsjónarsemi fararstjórans og sveigjanleika ferðaáætlunarinnar. Það getur þó komið fyrir að seinkun í ferðaáætlun geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar, eins og varð þennan dag. Þarna varð alvarlegur árekstur milli hins mikla heraga og reglufestu sem Þjóðverjar hafa tamið sér, en ekki Íslendingar. Kem ég að því hér nokkru síðar á þessum degi.

Hópurinn hélt nú aftur til Trier, hinnar fornu borgar Rómaveldis. Þar hittum við annan tveggja kórstjóra sem tóku á móti okkur í tónlistarlegum skilningi, í ferðinni. Þetta var hann Heiko. Þarna fengum við hina bestu leiðsögn um borgina; kynntumst glæsilegum dómkirkjum og rómverskum baðhúsum.

Meginmarkmið okkar sumra var náttúrulega að leyfa þeim sem kost áttu á, að njóta þeirrar fegurðar sem sönglist okkar hafði upp á að bjóða. Af þessum sökum tók Skálholtskórinn lagið hvar og hvenær sem unnt var eða leyft, alla ferðina. Þess vegna fer ég ekkert að tilgreina hvert einstakt tilvik þar sem kórinn hóf upp raust sína. Þarna í Trier fórum við í þrjár risakirkjur: dómkirkjuna, Maríukirkjuna, sem var næstum sambyggð dómkirkjunni og var í laginu eins og rós, sem mun vera tákn hinnar helgu meyjar, og síðan í feikilega stóra mótmælendakirkju, sem átti sér sögu frá tímum Rómaveldis og hafði gengt ýmsum hlutverkum á þeim tíma sem liðinn er síðan þá.

elliheimilið, áheyrendurnir

Eftir kirkjuskoðunarferðina var komið að hádegisverði sem beið okkar á elliheimili í göngufæri frá miðborg Trier. Eftir á að hyggja var sú leið sem fara þurfti nú ekki ýkja flókin, en reyndist þó flóknari en svo að öllum tækist að rata, meira að segja þó allir væru í einum hóp með Heiko í fararbroddi.

Maturinn á elliheimilinu tókst hið besta og þetta var sérlega snyrtileg og hlýleg stofnun. Næstum því örugglega einkarekin og fyrst og fremst á færi ákveðins þjóðfélagshóps að eyða þar síðustu árunum.

Þá kem ég að frásögninni af árekstrinum milli íslenskrar og þýskrar menningar. Okkur þykir ekki tiltökumál þótt eitthvað dragist fram yfir tilsettan tíma að mæta á samkomur eða fundi, en það finnst Þjóðverjum hinsvegar. Skálholtskórinn og föruneyti kom til hádegisverðarins svona hálftíma - klukktíma of seint miðað við þá áætlun sem gerð hafði verið. Þannig er það með eldra fólk, eins og ungabörn, að það þarf á meiri hvíld að halda en gengur og gerist um þá sem eru á besta aldri, eins og sagt er. Í stuttu mál gerðist það þarna, að þegar Skálholtskórinn og föruneyti hafði lokið við að snæða hádegisverð og hugðist taka til við að syngja nokkur lög fyrir íbúana, eins og um hafði verið samið þá var, samkvæmt klukkunni, kominn hvíldartími eldri borgaranna. Og þegar sá tími var kominn þá hvíldu eldri borgararnir sig, hvað sem tautaði og raulaði. Allir utan tveir. Í samkomusalnum sátu tvær gamlar konur (sem eiga alveg örugglega ættir sínar að rekja til föðurlands vors). Það skipti engum togum að Skálholtskórinn upphóf þarna raust sína fyrir þessar gömlu konur og það reyndist alveg þess virði. Það sannaðist þarna eins og svo oft áður, að það er ekki magnið sem skiptir máli, heldur gæðin. Þessir áheyrendur fóru glaðari af fundi okkar. Hinir sváfu svefni hinna réttlátu eins og reglur gerðu ráð fyrir. Heiko sannaði þarna snilli sína sem hljóðfæraleikari þar sem hann var undirleikari okkar við Húmljóð Lofts S. Loftssonar. Hann spilaði þarna óaðfinnalega verk sem hann var að sjá í fyrsta sinn.

baðhúsin, garðurinn, kommúnísminn

Eftir viðkomuna á elliheimilinu var haldið áfram um stund skoðunarferðinni um Trier. Við komum þarna við í rústum rómverskra baðhúsa og garði keisarahallar og var hvort tveggja eftirminnilegt. Ég hafði fyrir tilviljun rekist á að einhvers staðar í Trier hafði Karl Marx fyrst séð ljós þessa heims. Mig langaði töluvert að sjá staðinn þar sem það gerðist. Á leið okkar um borgina heyrðist mér ég einu sinni heyra fararstjórann okkar spyrja fólk hvort það langaði að heimsækja staðinn þar sem þessi áhrifamikli einstaklingur fæddist, en viðbrögð hópsins, allavega þeirra sem hæst létu, voru á þann veg að ég treysti mér ekki til að hvetja til heimsóknarinnar. Þar fór það. Öreigar allra landa, sameinist!

messan, kaþólikkarnir, kuldinn, trúarbragðastyrjöldin

Það sem næst var á dagskrá ferðarinnar var söngur við messu í bæ sem heitir Fell. Þessi messa var kl. 18.00 og því lá á að drífa sig heim til Leiwen og skella sér í kórgallann: svörtu buxurnar, hvítu skyrtuna, græna vestið, SVARTA BINDIÐ og viðeigandi búnað annan.

Með Skálholtskórnum sungu við þessa messu tveir kórar, annar var kirkjukórinn á staðnum undir stjórn Heikos og ekki veit ég hvaðan hinn var, en stjórnandinn var yngri bróðir Heikos sem heitir Ralf. Þannig var, að þessi messa var sú fyrsta í kirkjunni um all langan tíma þar sem umfangsmikil viðgerð hafði staðið yfir á henni. Þarna var kirkjusókn góð og söngurinn ekki síðri. Í messunni las séra Egill ritningarorð.

Með einhverju móti hafði sú hugmynd skotið upp kollinum, allavega í huga prestsins á staðnum, að Skálholtskórinn væri kór kaþólska safnaðarins á Íslandi. Þetta held ég að ekki hafi tekist að leiðrétta, allavega ekki formlega, enda breytir það sjálfsagt ekki neinu. Trúarbragðastyrjaldir heyra sögunni til, og þó…….

Ég hef fengið ábendingu um að geta þess sérstaklega að eitthvað skorti á að hitakerfið í kirkjunni virkaði sem skyldi og að innfæddir hljóta að hafa haft af því pata. Þeir komu til messu dúðaðir í hlý föt, meðan Frónbúar gerðu enn ráð fyrir því, á þriðja degi ferðarinnar, að það væri hlýtt í Þýskalandi á þessum árstíma. Eftir messuna heyrðust heitingar um að kvarta aldrei aftur yfir kulda í Skálholtskirkju.

móttakan, lopapeysurnar, veiðimaðurinn

Að lokinni messunni buðu kórarnir okkur til móttöku í safnaðarheimili sínu. Nóg var þar af hvítvíni, pylsum, kjötbollum, osti og brauði. Þarna undum við okkur hið besta um stund hjá sérlega gestrisnu og alúðlegu fólki. Það var þarna sem þeim Heiko og Ralf voru afhentar lopapeysurnar sem Helga María prjónaði (fallegar peysur að sjálfsögðu). Það mun hafa verið kórstjórinn Hilmar sem hafði gefið upp málin á þeim bræðrum, sem peysurnar voru síðan prjónaðar eftir. Vandinn var bara sá, að þegar hann sá þá bræður síðast var Heiko frekar lágvaxinn og grannur, en núna bara lágvaxinn, og Ralf hafði einnig verið lágvaxinn og grannur, en núna hvorki lágvaxinn né grannur. Þetta kom þó ekki að sök, því hefðbundnar íslenskar lopapeysur eru yfirleitt víðar. Nú vill hinsvegar svo til, að tískan hefur ákveðið að þær skuli vera þröngar. Þær voru sem sagt bara alveg eins og til stóð þegar upp var staðið. Helsta áhyggjuefni Hilmars, fyrir utan það að eiga að halda utan um stjórnina á kórnum, hafði þar með verið rutt úr vegi.

Einn makinn hvarf þarna út í nóttina með skuggalegum, þýðverskum veiðimanni og skildi eiginkonuna eftir á nálum. Myndi hún nokkurntíma sjá elskuna sína aftur? Ó, já - makinn kom aftur, hlaðinn gjöf. Ekki skal fullyrt neitt um það hvort þetta voru heimagerð ilmkerti, en svo mikið er víst að plastpokinn utan um gjöfina ilmaði heil ósköp.

Hugmyndin, sem upp hafði komið um að kíkja á hátíð í nágrenninu þetta kvöld, reyndist sjálfdauð þar sem það var orðið áliðið þegar heimsókninni til Fell lauk. Þessi laugardagur var nefnilega þjóðhátíðardagur í Þýskalandi; dagurinn þegar þýsku ríkin voru sameinuð.

Í stað hátíðarinnar héldum við heim til Leiwen.

sunnudagurinn, 4. október

samhljómurinn, heimsklassinn, toppurinn

Þegar svona hópur fær tækifæri til að eyða nánast öllum sólarhringnum saman (sumir kannski mis ánægðir með það) við söng, borðhald og ekki síst allt það nýja sem mætir honum nánast í hverju skrefi, verður vart hjá því komist að það myndist einhver óútskýranlegur samhljómur í honum. Sama reynsla, sama hugsun eykur líkurnar á að það finnist hinn eini sanni hljómur.

Þetta er allavega sú skýring sem ég hef á því sem gerðist þennan dag á tónleikum Skálholtskórsins með kirkjukórnum og karlakórnum í Leiwen, sem voru haldnir í kirkjunni þeirra Leiwenbúa. Ég ætla hér að gefa Perlu, formanni orðið: "Þetta voru skilyrðislaust bestu tónleikar sem haldnir hafa verið hjá okkur. Það var eins og fólkið hafi lent í einhvers konar leiðslu, ekki bara einn eða tveir, heldur allir" Ég held að ég geti bara tekið undir þetta. "Weltklasse!"

skugginn, slysið, drykkirnir, þvotturinn,

Allt annað, sem gerðist á þessum síðasta degi í Þýskalandi, féll í skuggann. Meira að segja ímynduð stórslys sem áttu að hafa átt sér stað þegar hundtryggir eiginmenn mættu ekki á "treffpunkt" á réttum tíma, eða þegar ákveðinn fjöldi kóladrykkja var pantaður með matnum um kvöldið, eða þegar verið var að gera upp við Frau Spieles-Fuchs á heimili hennar, eða þegar gerð var tilraun til að þvo óhrein föt á ónefndum stað og tíma og allt hitt. Svona er nú lífið.


framhald..........

16 september, 2015

Tenór á ný

Ítalía 2007: Með Bubbu (Rannveigu Pálsdóttur) og
Kristni (Kristmundssyni) á Caprí.
Ég vildi gjarnan geta sagt að ástæða þess að ég ákvað að endurnýja samband mitt við Skálholtskórinn eftir nokkurra ára hlé, væri sú að ég teldi ótækt lengur að í kórinn vantaði sárlega þann fagra tenórhljóm sem lifnar í raddböndum mínum.
Ég get svo sem alveg sagt það og ég get vissulega trúað því, svona eins og sannir tenórar eiga að gera, en ég kýs að gera það ekki á þessum vettvangi. Það getur vel verið að ég velti mér upp úr aðdáun minni á silfurtærri fegurð raddar minnar í einrúmi heima og hver veit svo sem nema ég deili aðdáun minni á þeirri guðsgjöf sem ég bý yfir með fD? En það verður ósagt hér, enda lítillæti mitt of mikið til að fjölyrða um þessi mál.

Ef til vill er ástæðan fyrir skyndilegri endurkomu minni eitthvað tengd hækkandi aldri. Það kann að vera að mér hafi fundist að það væri nú farið að styttast í þeim tíma sem mér er gefinn á þessari jörð sem tenór og því siðferðisleg skylda mína að leyfa öðrum kórfélögum og tónleikagestum að njóta meðan notið verður. Það gæti mögulega verið að mér hafi fundist að þau gersemi sem raddbönd mín eru, yrðu að fá að njóta sín í eðlilegri tónhæð, annars væri það bara bassinn.
Mér líður seint úr minn þegar ónefndur (nú þarf ég að passa mig), eigum við að segja, aðili, sagði við ónefndan tenór, að rödd hans væri farin að dýpka eða dökkna og líklega réttast að hann færði sig í bassann. Eins og nærri má geta féllu þau orð í grýttan jarðveg og höfðu áralangar afleiðingar.  Ég skil viðbrögð tenórsins vel.

Berlín 2008: Einbeittir tenórar takast á við
Gunnar Þórðarson og Arvo Part
Það kann að vera, eftir allt sem á undan er gengið í aðkomu minni að kórmálum í fleiri áratugi en ég kæri mig um að fjalla um, reynist mér erfitt að slíta tengslin við það undursamlega samfélag sem kór er, ekki síst ef það reynir dálítið á, maður sér árangur og nýtur uppskerunnar þegar vel gengur. Á þessum vettvangi hef ég nokkuð oft fjallað um kórmál og ekki alltaf leiftrandi af jákvæðni, enda í þeim tilvikum, ástæða til, að mínu mati. Það breytir því ekki, að þegar kór er samstiga í því að gera vel, þá er gaman að þessu.

Ég hef upplifað margt á kórævi minni og þar standa upp úr ótrúlega skemmtilegar ferðir á erlenda grund.  Líklega voru þær alltaf  gulrótin sem hélt öllu saman - sameiginlegt markmið sem glæddi áhuga umfram þann sem verður til af söngnum einum saman.

Berlín 2008: Á tónleikastað.

Ég kom á fyrstu kóræfingu í gærkvöld. Við fD mættum reyndar bæði og hún hyggst takast á við allra hæstu sóprantóna að fítonskrafti.
Í tenórstólana voru mættir tveir tenórar á besta aldri. Meðalaldur tenóra við upphaf þessa söngárs er 64,6 ár. Þar eru menn vel hærðir með grásprengt upp í hvítt hár.  Það var rætt um að mögulega bætist einn tenór í hópinn, sem lílega verður til þess að meðalaldurinn nær 65+. Allt hið besta mál og allar kenningar um að með aldrinum lækki rödd tenóra þannig að þeir verði að leita í bassann, eru húmbúkk eitt. Þarna virtist einmitt hið gagnstæða vera raunin og vel gæti verið að kliðmjúkur altinn fái frekar notið fyrrum tenóra þegar tímar líða.

Megi þetta allt fara vel.

31 ágúst, 2015

Í lífshættu á Kili

Ég þakka fyrir að sitja hér fyrir framan tölvuskjáinn í góðu yfirlæti í stað þess að öðruvísi sé komið fyrir mér. Reynsla gærdagsins hefur kennt mér (reyndar er ég alltaf að læra það sama í þessum efnum) að það sé mikilvægt að hugsa hvert skref áður en það er tekið. Ég hef reyndar haft þetta að leiðarljósi í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Oft hef ég hinsvegar staðið frammi fyrir aðstæðum sem verða til þess að ég gleymi einu og einu skrefi og það var það sem gerðist í gær.

Við fD skelltum okkur í Kerlingarfjöll. Ég, með alla myndatökuútgerðina mína og hún með litlu spjaldtölvuna sína. Ég, til að taka myndir til að dunda mér síðan við í myndvinnsluforritum. Hún til að taka myndir á spjaldtölvuna sína til að finna flott form og liti til að mála eftir á dimmum vetrardögum sem framundan eru. Í sambandi  við spjaldtölvuna stóð ein spurning fD uppúr: "Af hverju sé ég bara sjálfa mig?" Ég læt lesendur um að finna út tilefni spurningarinnar.

Hér ætla ég ekki að fjalla um þær dásemdir sem í Kerlingarfjöllum er að finna, nema með nokkrum myndum, heldur það sem gerðist þegar myndatökum var lokið og haldið var í áttina heim aftur.

Við vissum að ferðin þarna uppeftir gæti tekið einhvern tíma þannig að það var ákveðið að taka með nesti, útileguborðið, útilegustólana og gastæki til að hita vatn í kaffi. Eftir Kerlingarfjöll þurftum við síðan að finna góðan og ofurrómantískan grasbala til að koma græjunum fyrir, hita vatnið og snæða í guðsgrænni náttúrunni á fjöllum. Þennan stað fundum við við Gýgjarfoss í Jökulfalli við veginn upp í Kerlingarfjöll. Hreint indæll staður og það sem meira var, þarna gat ég æft mig í að taka myndir af fossinum meðan vatnið hitnaði. Í sem stystu máli, settum við allt upp. Kúturinn var settur í gastækið, potturinn á og vatn í hann, skrúfað frá gasinu og kveikt á. Að því búnu kom ég þrífætinum fyrir á góðum stað og tók að mynda í gríð og erg. Ég prófaði mismunandi stillingar á filternum, mismunandi ljósop, mismunandi hraða og mismunandi hitt og þetta.
"Á að rjúka svona úr gastækinu?" spurði fD þar sem hún stóð allt í einu fyrir aftan mig, en myndatakan fór fram í um 20 m fjarlægð frá eldunarstaðnum.  Mér varð litið við og sá hvar blásvartur reykur liðaðist upp af tækinu, augljóslega ekki úr pottinum. Það fór um mig við þessa sjón, eins og vænta mátti. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Annaðhvort var tækið bilað, eða ég hafði gert einhver mistök við tengingar.

"Nei, það á ekki að rjúka svona úr tækinu" varð mér á orði í huganum þar sem ég skildi myndatökutækin eftir á bersvæði við beljandi Jökulfallið á sama tíma og túristarúta nam staðar skammt frá, og hraðaði mér í átt að eldunarstaðnum. Þarna var augljóslega eitthvað mikið að, en eins og vænta mátti sýndi ég fumlaus viðbrögð þótt inni í mér ólgaði óvissan um hvað þarna gæti gerst í þann mund er ég nálgaðist tækið til að slökkva á því.  Ég byrjaði á að loka snöfurmannlega fyrir gasstreymið og átti  von á því að þá og þegar spryngi gaskúturinn í andlitið á mér.  Tækið allt var orðið glóandi heitt, en gaskútnum er komið fyrir inni í því, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Eftir nokkra stund hvarf ég aftur að tækinu þó svo hættan á sprengingu væri enn ekki liðin hjá og tók pottinn af hellunni, en hún er laus. Þá blasti við mér miði á hellunni sem greindi frá því, svo ekki varð um villst, að hluti af því að græja tækið til notkunar væri að snúa hellunni við. Þá rifjaðist það upp fyrir mér og þannig hafði ég gert þetta áður. Þarna hafði ég haft hugann meira við myndatökur en eldamennsku og því fór sem fór.

Mér tókst að snúa hellunni rétt og þegar tækið hafði kólnað nokkuð kveikti ég aftur á því og nú var allt með eðlilegum hætti, vatnið hitnaði, brauðið var smurt og álegg skorið. Það var etið og drukkið í guðsgrænni náttúrunni  og einu áhyggjurnar sneru að því hvort við vektum meiri athygli túristanna sem framhjá fóru, en vegurinn framundan, með þeim mögulegu afleiðingum, að þeir ækju á Qashqai þar sem hann stóð í vegarkantinum.

Svo var fram haldið ferðinni heim á leið.


24 júní, 2015

Sundbuxnakaupin

Það er svo komið að 10 ára gamlar sundbuxur mínar eru komnar úr tísku og ekki bara það, því þær hafa einnig orðið fyrir útlitsáverkum vegna þess að þær hafa verið notaðar til ýmissa annarra athafna sen sunds gegnum árin.  Niðurstaða mín varð sú, í tilefni af fyrirhugaðri ferð, þar sem gert er ráð fyrir að fólk sé frekar í sundbuxum en þessum venjulegu, svörtu vinnubuxum, að ég yrði að endurnýja sundbuxurnar.
Þetta tilkynnti ég fD og hún gerði ekki athugasemdir við þessar niðurstöðu mína.
Auðvitað vissi ég að val á sundbuxum gæti orðið  allt annað en einfalt því þar koma að ótal breytur sem get haft áhrif á valið.  Það hvarflaði að mér að  mér að það væri nú gott ef kæmi nú svona spurningaleikur á Fb: What kind of swimsuit suits you best? Take the test. Þá þyrfti ég bara að svara svona 10 spurningum og fengi niðurstöðuna svart á hvítu. Það er enginn svona spurningaleikur í gangi.
Svo hófst ferðin til höfuðstaðar Suðurlands, en þar þurfti að sinna ýmsum erindum, meðal annars að athuga hvort þar fengjust viðeigandi sundbuxur. Þó margt annað sem gerðist í þessari kaupstaðarferð hafi verið óendanlega skemmtilegt og fróðlegt, þá einbeiti ég mér bara að þessu sundbuxnamáli hér og nú.
A
Það var auðvitað fD sem stakk upp á líkegustu versluninni og ég átti allt eins von á að hún héldi áfram að stinga upp á, alveg þar til búið væri að greiða fyrir mögulegar buxur.
Þar sem enginn var Fb leikurinn til að hjálpa mér við val á svona flík, þá varð ég sjálfur að búa mér til spurningar með helstu breytum, því auðgljóslega yrði um margt að velja og mikilvægt að ég setti fram sjálfstæða skoðun þegar kæmi að sundbuxnavalinu.
Hér eru áhugaverðar spurningar sem sundbuxnakaupandi gæti þurft að svara til að taka upplýsta ákvörðun:
1. Hvað ertu gamall?
   Valkostirnir væru einhver aldursbil
2. Hvernig ertu í vexti?
   Valkostirnir væru á bilinu frá vaxtarræktarmaður upp í "Hvað áttu við?"
B
3. Hjúskaparstaða?
    Valkostir frá því að vera á lausu og upp í "harðgiftur í 40 ár"
4. Stundarðu sund?
    Valkostir frá aldrei og upp í daglega.
5. Hefurðu þörf fyrir að vera áberandi.
    Valkostir frá því að vera "nei engan veginn" og upp í "nú, auðvitað".
6. Hverjar eru stjórnmálaskoðanir þínar?
    Valkostir eru þetta venjulega frá vinstri til hægri.
C
7. Hver er uppáhaldsliturinn þinn?
    Valkostir óræðir, en eitthvað sem tengist litum. 
8. Til hvers ætlar þú að nota sundbuxurnar?
     Valkostir tengjast óhjákvæmilega svarinu við spurningu 4.
9. Hefur þú frelsi til að kaupa þær sundbuxur sem þig langar í?
   Valkostir á bilinu "Nei, alls ekki" og upp í "Já, auðvitað! Þó það nú væri!"
10. Vantar þig raunverulega sundbuxur?
    Vakostir frá "Neeeei, ætli það" og upp í "Auðvitað! Hverskonar hálfvitaspurning er þetta?"

Ég var örugglega búinn að fara í gegnum allar þessar spurningar í
huganum þegar við fundumm sundbuxnarekkann í búðinn sem fD hafði bent mér á.
D
Afgreiðslumaðurinn var unglingspiltur og fór yfir helstu þætti í úrvali sundbuxna verslunarinnar. Af einhverjum ástæðum benti hann mér ekki að þær sundbuxur sem maður kallaði alltaf "sundskýlu" áður fyrr. Síðan benti hann á flokk sundbuxna sem hann sagði að fylgdi ákveðið vandamál með stærðir - það þyrfti að gefa upp mittismál. "Þá verður bara að mæla", varð mér á orði og sú umfjöllun varð ekki lengri og ungi maðurinn hvarf á braut eftir að hafa bent mér á að það væri sjálfsagt að ég fengi að máta, ef ég vildi! Þrátt fyrir að mátun á sundbuxnum væri möguleg, hélt ég áfram að skoða.


E
Þarna var ákveðinn flokkur sundbuxna þar sem stærðirnar voru gefnar upp sem S, M, L, XL og XXL.
"Þú þarft ekki stærra en XL(?/!)" - ég set þarna tvo möguleika um greinamerki þar sem mér var ekki fullljóst hvernig skilja bæri það sem fD sagði.
Þessar sundbuxur voru til í þrem litum, og þá má sjá á meðfylgjandi myndum. Þegar stærðin var klár í huga mér stóð ekkert annað út af en liturinn.
"Það sér minnst á svörtu" - heyrðist í sjálfskipuðum ráðunaut mínum.

Ég fór úr þessari búð með sundbuxur í poka, en hvaða lit of lögun skyldi ég hafa valið?  A, B, C, D eða E?
 

01 apríl, 2015

Iðuferja á ný

Ég á stundum leið niður að Hvítárbrú eða Iðubrú, eins og við köllum hana venjulega. Þar er alltaf eitthvað nýtt að sjá.
Í morgun, þegar ég ætlaði að athuga hvort einhverjir fuglar væru sjáanlegir til að ég gæti æft mig við myndatökur, blasti við mér heldur óvenjuleg sjón. Sjón sem ég hef ekki séð á þessum stað í ein 50 ár.  Úti á miðri ánni var sérkennilegur bátur. Ég varð auðvitað agndofa, en tókst þó að smella einni mynd, en að öðru leyti velti ég fyrir mér hvað væri í gangi.  Þar sem báturinn var á leið að bakkanum austan megin fékk ég fljótlega þær upplýsingar sem ég þurfti.
Nýtt fyrirtæki sem hefur hlotið nafnið Áriða ehf. ætlar að gera tilraun með að sigla með ferðamenn upp og niður Hvítá á komandi sumri. Þessar ferðir verða bæði útsýnisferðir og svokallaðar partíferðir þar sem litlir hópar geta leigt bátinn með manni og mús, hvort sem er um helgi eða bara eina kvöldstund.
Þau sem standa að Áriðu eru hjónin Elsa Dagbjartsdóttir og Hallsteinn Sigurgeirsson, en þau hafa undanfarin 15 ár búið í Thailandi. Þau ákvaðu í fyrra að flytja heim til Íslands og jafnframt að flytja heim með sér bátinn, sem þau höfðu haft atvinnu af í litlum bæ, Laem Chabang, sem er skammt frá Bangkok. Þar stunduðu þau siglingar með ferðamenn í allmörg ár og eru því þaulvön.
Ég fékk að prófa að sigla um ána í morgun og það var einstaklega gaman að sjá Laugarás og Iðubrúna frá alveg nýju sjónarhorni.
Í dag ætla þau Elsa og Hallsteinn að bjóða gestum í stutta prufusiglingu.

25 janúar, 2015

Þorrablót 2015

Hvítá að morgni annars dags þorra. 
Ég gat horfið stoltur af þorrablóti Skálholtssóknar á bóndadagskvöldi og átti svo sem ekki von á öðru. Hafði heyrt af undirbúningnum mánuðum saman, ritun kvikmyndahandrita, kvikmyndatökum vítt og breitt, jafnvel við erfiðustu aðstæður, klippivinnu, þar sem krafa var gerð um niðurskurð sem var varla framkvæmanlegur, ritun handrita að lifandi atriðum og æfingar fyrir þau. Það er feikileg vinna sem er að baki svo metnaðarfullri dagskrá sem þorrablótsgestum var boðið upp á, meiri en margir geta ímyndað sér.
Fyrir mína hönd þakka ég öllum sem þarna komu að kærlega fyrir það sem fram var borið og ekki var annað að heyra en áhorfendur deili þessum þökkum með mér.
Þó bræður mínir hafi ítrekað látið í ljósi svo ég heyrði, málamyndakvartanir yfir hvað þetta væri mikil vinna, fór blikið í augunum ekki framhjá mér. Þeir nutu "stritsins" í botn. Það sama held ég að megi fullyrða um aðra þátttakendur einnig.

Allt þetta breytir þó ekki þeirri skoðun minni (sem er auðvitað til komin vegna persónueiginleika minna, aldurs og sjálfsagt annarra þátta) að félagsheimilið Aratunga er ekki nægilega stórt til að hýsa viðburð af þessu tagi. Þar sem ég sat við langborð í miðjum sal og var gert að rísa á fætur til að taka þátt í fjöldasöng, vafðist það fyrir mér, eins og flestum öðrum. Til þess að uppstandið tækist þurftu að eiga sér stað samningaviðræður við þann sem sat við næsta borð, til dæmis þannig að hann myndi fyrst færa sinn stól aftur svo langt sem unnt væri. Smeygja sér síðan upp af stólnum til hægri eða vinstri og ná þannig að rísa upp. Renna því næst stólnum sínum undir borð og opna þannig færi á að ég gæti rennt mínum sól aftur með sama hætti. Þessi aðgerð öll, kallaði einnig á samningaviðræður við þá sem sátu til beggja handa. Eftir þetta uppstand var síðan hægt að syngja af list áður en framkvæma þurfti sömu aðgerð í öfugri röð til að geta sest aftur.
Þrátt fyrir þessa vankanta var ég alveg sáttur og við fD hurfum á braut áður en við tók borðaflutningur af gólfinu upp á svið til að rýma fyrir dansandi gestunum.
Ekki neita ég því að það er ákveðinn "sjarmi" yfir þrengslunum og borðaflutningnum; kann að þjappa fólki saman og ýta undir samskipti, sem æ meir skortir á.

Miðasala á skemmtunina var auglýst svo sem hefðin segir til um. Miðarnir seldust upp á örskotsstund, sem varð tilefni til stöðufærslna á blótssíðunni. Þar leyfði ég mér að taka lítillega þátt og sendi frá mér eftirfarandi texta, sem ég læt fylgja hér með aðallega til að geyma hann á vísum stað. Í honum eru tilvísanir í það sem einhverjir aðrir settu þarna inn og því kunna einstaka setningar að virðast úr samhengi.

Forsíðumynd Þorrablótssíðunnar eftir fyrri miðasöludaginn.

Þorrablót er einn þessarar viðburða sem eru fastur punktur í tilveru margra Tungnamanna og tækifæri til að koma saman og skemmta sér kvöldstund fram á nótt. Ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér.
Það sem hinsvegar hefur gert mig fremur afhuga þessum skemmtunum (fyrir utan það að vera að eldast og róast) eru nokkur atriði:
1. Miðaskömmtun eða takmarkaður miðafjöldi, af augljósum ástæðum sem allir þekkja.
2. Borðadráttur, sem er auðvitað alger veisla fyrir spennufíkla, en heldur síðra fyrirkomulag fyrir þá sem vilja bara sæmilega góðan stað til að sitja á.
3. Þrengsli, en það segir sig sjálft, að með hámarksfjölda í húsinu þurfa sáttir að sitja þröngt, og líka ósáttir.
Svo vil ég bæta við fjórða þættinum, sem tengist þessu, en það er sú staða sem fólkið sem í undirbúningsnefnd/framkvæmdanefnd lendir í, algerlega án þess að hafa til þess unnið. Það selur miðana á blótið svo lengi sem þeir eru til, eftir einhverjum reglum sem ég veit ekki einu sinni hvort eru skýrar, og þegar miðarnir eru búnir situr það ef til vill undir einhverjum meiningum um að það misfari með eitthvert vald. 
Í aðdraganda að þorrablóti Tungnamanna er réttlæti fyrir alla vandséð.
Auðvitað má spyrja sig hvort það sem ég nefndi sé nauðsynlegur hluti af þorrablótum Tungnamanna: það þurfi að vera spenna, það þurfi að vera hasar, það þurfi að vera þröngt.  Sé svo, þá er þetta bara þannig samkoma og ekkert meira um það að segja.
Sé vilji til að setja þessa ágætu skemmtun upp með öðrum hætti, er það örugglega ekkert stórmál.
Ein(n) þeirra sem hér settu inn færslu að ofan töldu mig vera kjarkaðan að nefna hlaðborð og jafnframt að ég gæti átt von á krossfestingu ;). Ég get fullyrt að frá minni hendi snýst það ekki um neinn kjark, enda finnst mér það afar skemmtilegur siður að hver komi með sinn mat til þorrablóts.  Það er hinsvegar ekkert sem bannar það, mér vitanlega, að þegar ásókn í þessa skemmtun er orðin svo mikil sem raun ber vitna, að allir geti átt kost á þorrablótsfyrirkomulagi við sitt hæfi.
Annar sem hér tjáði sig hér fyrir ofan sagði: „krossarnir eru tilbúnir“. Mig langar nú eiginlega dálítið að sjá þá krossa. J
Ég hef ekki reynslu af því að ætla að fá miða á knattspyrnuleik og ekki fengið. Reikna reyndar ekki með að verða nokkurn tíma þeirri reynslu ríkari. Ég er hinsvegar viss um það, að ef KSÍ hefði mögulega átt kost á því að flytja leikinn sem hér hefur komið til tals, á annan völl sem tæki kannski 15000 manns í stað 10000 þá hefði það verið gert.

16 desember, 2014

Fjögur sýnishorn frá Aðventutónleikum í Skálholti

Þar sem ég lagði í það verkefni að taka lifandi myndir af hluta tónleikanna tél ég rétt að setja afraksturinn hér inn til að hafa hann aðgengilegan á einum stað.

Á þessum tónleikum sungu þrír einsöngvarar, þau Þóra Gylfadóttir, sópran, Egill Árni Pálsson, tenór og Ásgeir Páll Ágústsson, baritón og þrír kórar sem einn: Söngkór Miðdalskirkju, Skálholtskórinn og Kirkjukór Ólafsvalla- og Stóra-Núpskirkju undir stjórn þeirra Jóns Bjarnasonar og Þorbjargar Jóhannsdóttur.
Jón Bjarnason lék á orgel og Smári Þorsteinsson kitlaði slagverk í nokkrum lögum.

Gesu bambino

Gaudete

Ó, helga nótt

Enn á ný við eigum jól

01 nóvember, 2014

Ég sá líf mitt ekki þjóta hjá.

"This is your captain speaking. I'm afraid I haven't got very good news for you." Framhald ávarps flugstjórans í flugi OU419 frá Frankfurt til Dubrovnik í Króatíu þann 25. október hef ég á íslensku: "Í gærkvöld tókst okkur að lenda á flugvellinum í 25 hnúta vindi, en í kvöld er vindhraðinn 30 hnútar úr norðri. Við vonum að þetta fari allt vel."
Þegar þarna var komið var leiðin um það bil hálfnuð og við nýbúin að sporðrenna samloku sem flugþjónarnir höfðu fært okkur. Ferðin fram til þessa hafið gengið afar vel.
"30 hnútar. Það er nú varla umtalsvert - 15 metrar á sekúndu." Það var talnaspekingurinn í hópi samferðamannanna sem var fljótur að slá alvarleika yfirlýsingar flugstjórans út af borðinu. Hann vissi hinsvegar ekki, að í Dubrovnik er ein flugbraut með stefnuna um það bil austsuðaustur/vestnorðvestur og að skammt norðan þessarar flugbrautar er fjallgarður.

Það er af fD að segja, að hún var að halla sér þegar flugstjórinn greindi frá stöðu mála og ég var nú ekkert sérstaklega að upplýsa hana í smáatriðum þegar hún losaði blundinn. Það voru hinsvegar nokkur ónot í mér því ég hafði ekki ástæðu til að efast um að þegar flugstjóri segist ekki hafa góðar fréttir þá meini hann það. Flugstjórar mega ekki valda óþarfa ótta hjá farþegum með kæruleysislegri kaldhæðni.

Til að gera nánari grein fyrir flugvellinum í Dubrovnik hef ég sett hér inn yfirlitsmynd af honum lesendum til glöggvunar. Flugbrautin er sú lengsta í Króatíu, 3300 metrar, en aðeins ein. Í um það bil tveggja kílómetra fjarlægð NNA af vellinum rís nokkuð voldugur fjallgarður. Vindáttin var, þegar það sem greinir hér að neðan átti sér stað, norðlæg 30 hnútar eða 15 m/sek. Það þarf ekki fræðimenn til að ímynda sér að aðstæður á vellinum myndu vera nokkuð óstöðugar. Slíkar veðuraðstæður kallar fD "hringrok", en einnig er vísað til þeirra sem sviptivinda.

"Við erum nú að hefja aðflug að flugvellinum og ég bið farþega að festa sætisbeltin," sagði flugstjórinn og það var það síðasta sem heyrðist frá honum í ferðinni. Við fundum hvernig véln lækkaði flugið smám saman og til að byrja með var þar allt með eðlilegum hætti: lítilsháttar hreyfing til hliðanna og upp og niður. Í stað þess að þessi hreyfing minnkaði þegar komið er undir skýjahæð, fór hún vaxandi eftir því sem neðar dró. Öll ljós í vélinni voru slökkt þegar hér var komið.
Ekki ætla ég að greina nákvæmlega hvað fram fór í sætinu við hliðina á mér, en læt nægja að greina frá því, að sessunautnum varð því órórra sem nær dró jörðu.

Ljósin á flugvellinum birtust smám saman og í stað þess að vera kyrr á sínum stað voru þau á stöðugri hreyfingu upp og niður og til hliðanna. Ég stóð mig að því að vera farinn að halda mér nokkuð fast í sætisarmana, en lét ekki eftir mér að láta á neinu bera að öðru leyti: starði út um gluggana, fylgdist með hreyfingum Airbus 319 vélarinnar, sem fylgdu engu mynstri. Það má segja að ástand mitt hafi verið svipað og Grettis í þessum ljóðlínum Matthíasar Jochumssonar: 
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,

heldur í feldinn, horfir í eldinn

og hrærist ei.

Það birtir, það syrtir

því máninn veður og marvaðann treður
um skýja sæinn.
Hver ber utan bæinn?
Það sem myndi gerast næst, gæti allt eins verið það síðasta sem gerðist, án þess að ég gæti rönd við reist með nokkrum hætti. Ekki voga ég mér að neita því, að þarna flaug sá möguleiki um huga minn, að úr þessari flugferð ætti ég mögulega ekki afturkvæmt.

Ljósin á jörðinni fóru smám saman að nálgast það að vera í láréttri sjónlínu, sem þýddi að vélin nálgaðist jörðu æ meir. Stundum lyftist hún skyndilega, svo maginn sökk niður, stundum pompaði hún niður svo maginn fór upp í háls og þess á milli þeyttist hún til hliðanna með tilheyrandi afleiðingum.
Jörðin og vélin voru við það að kyssast og eitt augnablik virtist sem kyrrð væri að færast yfir, en þá sviptist vélin skyndilega til hægri, ljósin úti vinstra megin hurfu alveg sjónum og þar með virtist ljóst að þessu væri bara að ljúka. Í sama mund og slíkar hugsanir bærðu á sér, var gefið inn með sama afli og tíðkast í flugtaki, og haldið til himins á ný.

"Hann er hættur við að lenda" var sagt með orðum víða um vélina, þó öllum gæti verið það ljóst, án þess að orð kæmu til. Það var síðar haft eftir farþega sem sat hægra megin í vélinni, að ef henni hefði verið lent við þær aðstæður sem þarna voru, hefði hægri vængurinn orðið fyrsti hluti vélarinnar til að snerta flugbrautina.

"Hann ætlar örugglega að reyna að lenda á annarri braut", sögðu þeir sem vissu ekki að það var ekki önnur braut. "Ætli hann ætli að lenda á öðrum flugvelli? Hvaða flugvöllur skyldi það vera? Hvenær ætli við verðum þá komin á hótelið?"  Margar spurningar fóru um huga farþeganna. Þeim var að hluta svarað innan nokkurra mínútna, þegar sami ferillinn hófst aftur: vélin lækkaði flugið og stefndi til jarðar.  Neðar, mjakaðist hún, neðar og neðar. Aftur dansaði hún og aftur dönsuðu ljósin fyrir utan. Aftur mátti lesa áhyggjur, nokkurn ótta, skelfingu og jafnvel hrylling úr augum farþeganna, sem þurftu að ganga í gegnum samskonar aðflug aftur. Hreyfingar vélarinnar voru jafn ófyrirsjáanlegar og fyrr; allt gat gerst. Það var ekki fyrr en augnabliki áður en lendingarhjólin snertu malbikið á flugbrautinna og kyrrð komst á vélina.
Sennilega hefur þessi atburðarrás litið svona út utanfrá:

"Hún er lent! Hún er lent!" var sett í orð um alla vél, þó öllum mætti ljóst vera, að Airbus 319 vél Croatia Airlines var lent, heilu og höldnu á einu flugbrautinni á flugvellinum í Dubrovnik í 30 hnúta hliðarvindi.
Það var klappað og fagnað um alla vél, en hendur  héldu áfram að skjálfa fram eftir kvöldi. Heitingar voru uppi um að aldrei framar skyldi stigið upp í flugvél. Heim skyldi farið með lest og skipi.
Fimm dögum síðar var flogið frá Dubrovnik til Zagreb og þaðan til Amsterdam áður en lokaleggurinn til Íslands var floginn.
.......................................................
Myndirnar sem fylgja úr ferðinni tengjast ekki reynslunni í flugvélinni, eins og nærri má geta, enda var ég ekki með hugan við ljósmyndun meðan á henni stóð. Þær eru hinsvegar lítið sýnishorn frá dvölinni í Dubrovnik þar sem við sóttum ESHA-ráðstefnuna svokallaða í nokkra daga.  Það kann að vera að ég greini frá einhverju öðru sem þar gerðist og sérstakt má teljast, áður en langt um líður.

Dubrovnik er falleg borg og aðbúnaður var þar með miklum ágætum.



11 september, 2014

Ekki sáttur

Ég er maður sem fylgist með stefnum og straumum, enda löngu búinn að átta mig á því að þeir sem gleyma sér smá stund í tíma sem löngu er liðinn (eða ekki svo löngu) eru óðar orðnir á eftir að flestu leyti, ekki aðeins tæknilega heldur einnig í hugsun, málbeitingu og flestu því öðru sem því fylgir að lifa og starfa í nútímanum. Lengi gæti ég nú fjallað um þetta eins og margt annað, en það bíður eftirlaunaáranna. Nú er það hraðinn sem gildir; snaptsjattshraðinn.

Fyrir skömmu átti ég leið um Egilsstaði og Hallormsstað ásamt fleira fólki. Þar sem það fólk kemur við sögu hér síðar þá er bara best að geta þeirra: Hveratúnsbændurnir Sigurlaug og Magnús, tenórinn Egill Árni og píanóleikarinn Hrönn. Þarna vorum við á ferð í ágætum bíl Einbúablárhjónanna Sæbjörns (Mannsa) og Arndísar (Dínu) og þar sem veðrið var með slíkum eindæmum að annað eins höfðum við ekki upplifað sunnanlands misserum saman, varð úr að við renndum í Atlavík.
Sá staður, við þessar aðstæður, var eiginlega draumkenndur, ekki aðeins fyrir fegurðar sakir og veðurs, heldur einnig vegna blámóðu loftsins og drapplits Lagarfljótsins.

Við svona aðstæður er fyrsta hugsun nútímamannsins að taka af sér sjálfsmynd til dreifingar, svo aðrir geti notið hennar með honum. Þarna voru nútímamenn á ferð og viðþolslitlir drifu ferðalangarnir sig úr bifreiðinni og niður á vatnsbakkann og hófu að taka sjálfsmyndir. Og þeir tóku sjálfsmyndir, og þeir tóku sjálfsmyndir og síðan tók við tími sem fór í að séra þessum myndum, öðrum til ánægju.

Um þessa mynd er lítillega fjallað í textanum.
Ég er auðvitað nútímamaður og sem slíkur var ekki um annað að ræða hjá mér en að taka sjálfsmynd(ir), sem ég  gerði auðvitað, þó svo þetta sé einn þeirra þátta í fari nútímamannsins sem ég hef enn einna minnsta skilninginn á.

Ég, ólíkt sumum hinna, séraði myndunum ekki og hafði það svo sem ekki einusinni í hyggju, taldi myndefnið ekki vera þess eðlis að það ætti erindi í almenna dreifingu.
Það var, sem sagt, sérað og síðan fóru sérarnir að keppast um hver fengi flest lækin, svona rétt eins og gengur og gerist.  Og ekki meira af því, utan eftir á að hyggja þá velti ég fyrir mér, hvort það var náttúrufegurðin eða sjálfsmyndirnar, sérin og lækin, sem héldu athygli ferðamannanna mest.

Það var haldið heim á leið og daginn eftir varð mér litið í símann minn (já, ég á snjallsíma með myndavél). Þá blasti þar við mér einstaklega vel heppnuð sjálfsmynd og þar með varð ekki aftur snúið.
Ég séraði sjálfsmyndinni með þessum hætti:

Það var eins og við manninn mælt, miðillinn logaði fram eftir kvöldi og næsta dag, bæði af lækum og kommentum. Annað eins hef ég ekki reynt á þessum vettvangi og neita því auðvitað ekki, þó svo sjálfsmyndinni hafi verið sérað í hálfkæringi, að viðbrögðin kitluðu og eftir þau er ég líklega orðinn meiri nútímamaður. Uppskeran varð 113 læk og 16 komment. Kommentin voru sum þess eðlis að ég roðnaði með sjálfum mér og lyftist allur að innan, en hvorki lét né læt á neinu bera hið ytra.

Sagan er hinsvegar ekki öll.

Skömmu eftir þetta átti Hveratúnsbóndinn afmæli. Hann er reyndar bróðir minn, fyrir þá sem ekki vita. Eins og vera bar streymdu inn að prófílinn hans hlýjar afmæliskveðjur. Allt í lagi með það.
Sjálfsmynd Hveratúnsbóndans, sem vikið er að í textanum.
Eins og vera ber þakkaði maðurinn svo fyrir allar kveðjurnar daginn eftir og lét þar fylgja með sjálfsmynd sem hafði verið tekin við áðurnefnt tilvik í Atlavík. Þessi sjálfsmynd komst auðvitað ekki í hálfkvisti við mína fínu mynd, Bæði var, að uppbygging myndarinnar fullnægði ekki stöðlum góðrar sjálfsmyndar og myndefnið skorti einfaldlega hinn rétta tón.
En viti menn.
Lækin og kommentin streymdu að og nú er þarna að finna 119 læk og 17 komment!

Ég hef velt talsvert fyrir mér ástæðum þessa sigurs bróður míns, en ekki fundið neina haldbæra, utan þá að þarna bættust við nokkrir sem höfðu gleymt að óska honum til hamingju með afmælið og reyndu þarna að bæta úr, eftir því sem kostur var, með þessum hætti.

-------------------------------------------------

Varnagli: Ég vona að lesendur átti sig á raunverulegum tilgangi mínum með þessum skrifum. Áður en þeir túlka þennan tilgang  með neikvæðum hætti, þætti mér vænt um að fá að heyra frá þeim.

21 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101 pöbbana

Það er ekki svo sjaldan sem maður heyrir fólk tala um að það hafi farið á pöbbarölt og þá yfirleitt sem eitthvað jákvætt að mikilvægt þegar fólk heimsækir 101 um helgar.
Það var eitt markmið heimsóknar okkar fD að fara á svokallað pöbbrölt, allavega eins og okkar skilningur var á því orði: rölta á milli pöbba, kíkja inn hér og þar, renna úr bjór og halda síðan áfram. Þetta hljómar afskaplega skemmtilega eitthvað.

Þegar Töfraflautunni var lokið hafði veður breyst þó nokkuð: það var komið hvassviðri og rigningarhraglandi. Þar með var hugmyndin um rölt fyrir bí, nú snérist þetta meira um að drífa sig á milli pöbba (PÖBBADRÍF), eða réttara sagt, að drífa sig á milli pöbba sem fD tók í mál að fara á. T.d. vildi hún ekkert með Monte Carlo, taldi sig hafa heyrt eitthvað misjafnt um þann stað. 
Hún vildi ekki heldur fara inn á einhvern stað sem er á efstu hæð strætóhússins fyrrverandi á Lækjartorgi, hún vildi heldur sem minnst vita af því sem kynni að vera að finna í nýuppgerðum brunarústunum á sama torgi.
  Það var hún sem hafði frumkvæði að því að fyrsti pöbbinn sem ráðist var inn í ber nafnið B5 (frumlegt nokk) sem er á Bankastræti 5. Staður þessi var ekki fjölsóttur. Þarna inni, í frekur kuldalegum húsakynnum, þar sem var óþægilega hátt til lofts, innréttingarnar voru óaðlaðandi og engin tónlist, var eitthvað sem virtist vera samstarfsmannahópur ca. 8 manns, 8 StarWarsnördalegir karlmenn um þrítugt, og síðan einhver 3-4 pör fákunnandi útlendinga. Í stórmennsku minni bauð ég fD  upp á bjór, sem var þegið, ég pantaði, fékk og greiddi - hálfur lítri á mann. Þarna varð strax ljóst að úr þessu yrði ekki um að ræða neitt sem héti pöbbarölt - eða pöbbadríf - kannski pöbbaslag eða pöbbaskríð (æ, þetta er nú bull). Það tók langan tíma að ljúka þessu bjórglasi, ekki síst þar sem ég get ekki drukkið þennan vökva svo vel sé. Það er með engu móti hægt að halda því fram að þessi staður hafi hentað okkar aldri - hefðum getað verið foreldrar allra sem þarna voru.  Sá tími sem við eyddum þarna inni var ekki nýttur í neitt annað en að ljúka við bévítans bjórinn, sem tók nú tímann sinn. Tókst þó og ég uppþembdur.

Ekki taldist rétt að drífa sig á næsta pöbb fyrr en að lokinni hvíld í lúxusíbúðinni. Hvíldin gekk vel. Aftur héldum við fD út á lífið. Nú lá leiðin á pöbb sem kallast Ölstofa Kormáks og Skjaldar. Á þessari ölstofu eru ekki gluggar þannig að ekki vissum við hvað tæki við þegar inn var komið. Ég gekk ákveðnum skrefuð að útdyrunum og opnaði. Þarna var ekkert anddyri, maður var umsvifalaust kominn inn þar sem all var sem var. Þarna var mikll fólksfjöldi miðað við stærð húsnæðisins, sem er þannig hannað að á miðju gólfi er bar, sem er ótrúlega stór í hlutfalli við annað. Við veggina voru síaðn stólar og einhverjar borðnefnur og stólar. Milli útveggja og bars eru svona um það bil 1,5 metrar. Það getur verið að þarna sé eitthvað meir, en við fD gengum þarna einn hring í kringum barinn í gegnum kraðak fólks sem, enn og aftur hefði getað verið börnin okkar. Þarna eyddum við um það bil 5 mínútum. Þarna lauk pöbbaröltinu/drífinu.

Niðurstaða mín þessi eftir þessa reynslu:
Pöbbarölt er ofmetið - í það minnsta fyrir það fólk og aðstæður allar, sem hér var um að ræða.

20 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101

Á meðan helbláir fréttamenn lögðu útvarp allra landsmanna undir frásagnir af hverju einasta prumpi skoðanabræðra og systra sinna í Laugardalshöllinni, héldum við fD í höfuðborgina í þeim tilgangi að slá fimm flugur í einu höggi:
1. Dvelja á hóteli eina nótt.
2. Finna góðan veitingastað og snæða þar.
3. Fara á pöbbarölt
4. Líta augum innviði nýja tónlistarhússins okkar.
5. Sjá "Töfraflautuna"
Hver og einn þeirra þátta sem þarna er nefndur verðskuldar sannarlega, a.m.k. eins og eina færslu á þessu svæði, en ég reikna ekki með að ég nenni að standa í því. Þar fyrir utan var sumt það sem þarna gerðist ekki þess eðlis að það eigi erindi inn á svo víðlesið svæði og hér er um að ræða.

Ætli sé ekki svona rúm vika síðan ég fann íbúðahótel í miðborginni sem borgaði nánast með sér. Mér fannst að það hlyti að vera maðkur í mysunni. Um leið og ég var búinn að bóka og borga fór ég að ímynda mér allskyns hrylling um þetta hótel, sem ber nafnið "Room with a view". Bara það, að hótel skuli ekki bera íslenskt nafn, er í sjálfu sér ávísun á að eitthvað spúkí sé í gangi. Var kannski ekkert salerni í íbúðunum? Snéru herbergisgluggarnir út að aðaldyrum skemmtistaðar? Ætli vantaði kannski dýnur í rúmið?
Ég lét auðvitað ekkert á neinum svona pælingum bera við fD. Hún  vissi bara um glæsilegt íbúðahótel í sama húsi og Mál og Menning í hjarta höfuðborgarinnar, neðarlega á Laugavegi, í göngufæri frá Hörpunni.
Í gær var síðan brunað í bæinn. Niður Laugaveginn var ekið á eins til tveggja kílómetra hraða á klukkustund og þegar við loks komumst á hornið hjá M&M, þar sem átti að beygja upp til vinstri upp Vegamótastíg, þá ætlaði það nú varla að ganga vegna fólksfjöldans  Ég þarf nú ekki að taka það fram að það var ekkert um að ræða, að leggja bíl við Laugaveginn. Hótelið lofaði hinsvegar á síðunni sinni, að íbúð fylgdi frítt bílastæði. Bakvið hús M&M fann ég bílastæði hótelsins, sem gaf nú ekki beinlínis fyrirheit um glæsileika. Þetta var svona svæði á bakvið, eins og slík svæði eru. Þarna voru ruslatunnur, moldarhrúgur, hellubrot, stillansar, veggjakrot og fleira óaðlaðandi og pláss fyrir 5-6 bíla, eftir því hvernig lagt var. Og, viti menn, þarna var laust stæði, sem ég renndi inn í. Þarna bakvið húsið voru engin önnur merki um íbúðahótelið en lítið skilti þar sem þess var getið að þetta væri bílastæði þess. Því hófst  leit að "Room with a view". Við fD gengum niður á Laugaveg og inn í verslun M&M til að spyrjast fyrir um hvar væri helst að leita að dyrum. Búðin var, eins og aðrir hlutar Laugavegs, í kreppunni, full af fólki að skoða og kaupa bækur. Allir starfsmenn uppteknir og ég vildi ekki vera að ryðjast inn í spekingslegar umræðurnar með spurningu hvernig ég gæti fundið hótel sem var í þessu sama húsi.
Þar kom þó að mér tókst að ná sambandi við starfsmann á milli kúnna. Hann sagði að þegar við kæmum úr færum við til hægri þar til við kæmum að dyrum sem væru merktar hótelinu. Fyrir innan þær væri hægt að sjá möttökuna, en það þyrfti kóða til að komast inn. 
KÓÐA til að komast inn á hótel!!?? Mér var nú að verða hætt að lítast á blikuna.


Út fórum við og til hægri. Sviplaus framhlið húsanna þarna gaf lítið til kynna um að þarna væri hótelinngangur. Við nánari athugun gat ég greint nafn hótelsins í glerinu á dyrum þess. Þegar við rýndum í gegnum glervegginn mátti sjá möttökuna, langt inni í iðrum hússins. Við hliðina á dyrunum var síðan takkaborð, væntanlega til að slá inn áðurnefndan kóða. Þar mátt ennfremur sjá spjald þar sem bent var á að það þyrfti að slá inn töluna 11 til að ná sambandi við móttökuna. Það gerði ég og umsvifalaust opnuðust rennidyrnar og við gengum inn í 2007-lega móttökuna, sem reyndist svo forsmekkurinn að því sem beið okkar í íbúð 512. (slatti af myndum úr henni) 


Það reyndust ekki vera neitt afskaplega miklar ýkjur  sem segir á vefsíðunni:

Luxury Apartment Hotel in Reykjavik city center


Íbúðin reyndist hin flottasta og þegar við bætist síðan verðið sem við greiddum fyrir herlegheitin var þetta bara nánast stórfenglegt. Gluggar snéru frá Laugavegi, þannig að ekki urðum við vör að hliðarverkanir skemmtanalífsins. Við blöstu bæði Hallgríms- og Landakotskirkja auk ýmissa minnismerkja um bóluna.
Nú ættu þeir hjá "Room with a view" að huga að nafnbreytingu. Mér finnst t.d. nafnið. 
"Íbúð með útsýni" 
koma vel til greina. 

24 september, 2011

IE: Allt önnur hlið

Ég og fD áttum leið til Kaupmannahafnar með Iceland Express í byrjun ágúst s.l. og sú reynsla varð til þess að ég sá mig knúinn til að lýsa henni hér. Þetta var ekki fögur lýsing, en rétt, á þeim tímapunkti.

Ég og fD áttum leið til Berlínar með Iceland Express þann 19. september með heimkomu þann 23. Þetta flugfélag var ekki valið vegna góðrar reynslu úr fyrri ferðum - sannarlega ekki.

Reynslan þessu sinni svo aldeilis allt önnur en í hið fyrra sinnið og ástæðurnar eru þessar:

1. Við fengum miða á afskaplega góðu verði, sem auðvitað segir ekkert um gæði þjónustunnar, en er nefnt til samanburðar við verð á flugi til Álaborgar í ágúst s.l., sem ekki var farið vegna ótrúlegs verðlags.

2. Flugið frá Keflavík átti að hefjast kl 08:55. Það var tekið á loft kl. 08:55. Fagmennska áhafnarinnar var með miklum ágætum og við lentum einum 20 mínútum á undan áætlun í Berlín.

3. Flugið frá Berlín kom okkur enn meira í opna skjöldu, en 40 mínútum  fyrir áætlaða brottför lentum við fD í því að verða síðust farþega um borð í vélina, sem síðan varð að bíða á vellinum vegna reglna flugvallarins um brottfarir fyrir áætlaðan tíma.  Starf áhafnar var manneskujulegt og fagmannlegt og gerði ekkert nema bæta reynsluna. Flugfreyja sem hefur öðlast einhvern innri ljóma hins reynda einstaklings, stóð sig af stakri prýði í okkar hluta vélarinnar. Æskan er ágæt að mörgu leyti, en hana vantar bara svo margt.

Þarna umpólaðist ég í afstöðu minni til Iceland Express. Ef þetta flugfélag heldur svona áfram á það fullt erindi í samkeppni um flug yfir hafið. Stóri bróðir má vara sig.

Þetta segi ég, en er ekki þar með að lýsa því að eignarhald félagsins sé mér að skapi.

04 september, 2011

Val og ekkival

"Veldu bara einhverjar," segir fD, eftir að hafa skrollað yfir upplýsingar um leiksýningar vetrarins í stærstu leikhúsunum tveim.

Menningarleysi, eða kannski skortur á athafnasemi þegar menningarneysla er annarsvegar, hefur verið eitt af áhyggjuefnunum á þessum bæ undanfarin ár. Því hefur sú hugmynd skotið upp höfðinu á hverju hausti, að fjárfesta í áskriftarkortum leikhúsanna. Aldrei hefur umræðan um slíka fjárfestingu komist lengra en á þessum morgni í upphafi september. Ég var nú áðan kominn inn á svæði þar sem lítið var annað að gera en smella á leikverk sem ég kysi að sjá. Ég gerði það ekki.

Það er sannarlega góð hugmynd (í ljósi þess hvernig ég er innréttaður) að fara að stunda menningarviðburði vegna þess að ég er búinn að borga fyrir. Auðvitað er það vitlaus forsenda fyrir slíku, en gæti orðið til þess að efla þennan tvímælaust mikilvæga þátt mennskunnar.

Hversvegna smellti ég ekki á leikverkin áðan?
Jú, fyrir því eru nokkrar ástæður, sem ég er staðráðinn í að líta framhjá þegar ég læta vaða í málið á eftir:
a. Hvort á ég að velja Borgarleikhúsið eða Þjóðleikhúsið? Hvaða fyrirframhugmyndir hef ég um þessar stofnanir? Finnst mér að Þjóðleikhúsið sé meira svona "mitt" leikhús, sem landsbyggðarmanns? Finns mér Borgarleikúsið kannski hafa fram að færa áhugaverðari sýninga svona heilt yfir? Er ég hreinlega fordómafulllur í garð annars hússins?

b. Það þarf að kaupa tvö kort og alltaf á sömu sýningarnar (ég sé okkur fD ekki fara að kaupa áskriftarkort á mismunandi sýningar). Í sambandi við það heyrði ég setninguna sem er hér efst. Ég veit nú alveg hvernig það verður - eða þykist vita það.
Ég smelli á einhverjar sýningar.
"Nú, valdirðu þessa? Mig langar nú eiginlega ekkert að sjá hana."
Kannski er ég að mála skrattann á vegginn, en maður þarf að hugsa hlutina til enda, þegar kemur að því að festa fé sitt í einhverju.

c. Reglurnar um kaup á þessum leikhúskortum hljóða upp á að maður þurfi að velja 4 sýningar af tilteknum lista. Þetta kallar auðvitað á rannsóknarvinnu af minni hálfu. Sum verkin er verið að sýna áfram frá fyrra leikári, önnur eru splunkuný. Það er komin tiltekin reynsla á þau fyrrnefndu - þau eru sýnd áfram vegna þess að þau voru sótt á síðasta vetri, hljóta þar með að vera nokkur góð. Þau síðarnefndu eru ný og ég hef ekkert nema það sem sagt er um þau í kynningarritum, en þar er eðlilega ekkert verið að draga úr hástemmdum lýsingarorðum um ágæti þessara verka. Kannski maður endi á einhverri blöndu, t.d. 2 ný og 2 sem eru í framhaldssýningu.

d. Það er þetta með sýningardaga. Við kaup á kortinu þarf ég að velja sýningarnúmer. Val af þessu tagi hlýtur nú að verða harla handahófskennt, enda liggja sýningardagar ekki fyrir og maður verður að fylgjast með hvenær viðkomandi sýningarnúmer verður á dagskrá og raða síðan lífi sínu umhverfis það. Vissulega er hægt, ef þannig stendur á, að finna nýjan dag með aðstoð miðasölunnar.

Það er að mörgu að hyggja ef maður ætlar í vegferð af þessu tagi.
Megi leikhúsárið verða gefandi og vel skipulagt.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...