Sýnir færslur með efnisorðinu myndir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu myndir. Sýna allar færslur

17 apríl, 2010

Til viðbótar við milljónir

Ekki get ég látið mitt eftir liggja þegar um er að ræða að mynda gos í Eyjafjallajökli.
Hér eru nokkur dæmi af gosmekki í kvöldsól. Hér eru síðan fleiri og stærri. Myndirnar eru teknar milli Iðu og Helgastaða og frá Laugarási.






04 apríl, 2010

Páskasól


Það er ekki laust við að maður sé skominn á það stig að óska þess að gula augað á himni taki sér hvíld um stund og víki þannig fyrir hlýjum sunnanvindum sem ná að vekja líf af vetrardvala. Mér liggur við að segja að það sé sólin sjálf sem er birtingarmynd páskahretsins hér sunnanlands. Vissulega má láta sig hafa það að fara út fyrir hússins dyr um hádaginn án þess að vera kappklæddur, en þar fyrir utan nær hitinn varla að skríða yfir úr frosti. Sem sagt, þessu má alveg fara að linna.


Ef manni tekst að líta framhjá því, að með sól á þessum árstíma fylgir oftast fremur svöl norðanátt, þá er sú gula hreint ekki alslæm. Hún hamast við að lofa því að vetrardrunginn hverfi brátt. Það er reyndar ekki hægt að segja að það hafa svo sem verið vetur yfirleitt.


Í tilefni af því að fD er nú farin til messu, sannarlega í trúarlegum tilgangi, sendi ég hér kveðju til lesenda, nær og fjær, til sjávar og sveita; kveðju sem flytur ósk þeim til handa um gleði og bjartsýni, sól í sinni og sumarsýn.


14 febrúar, 2010

Þorvaldsdætur og Skímó

Það er ekki hversdagslegur viðburður þegar Þorvaldsdætur koma saman allar á einum stað. Eitt slíkt tilvik átti sér þó stað fyrir skemmstu þegar sú útlenska skellti sér á klakann til að létta nokkuð á erlendum gjaldeyri í sinni eigu.

Það var í því samhengi sem hún skellti sér austur fyrir fjall með fulltingi og aðstoð þeirra tveggja sem höfuðborgarsvæðið gista.

Hér þótti mér komið tilvalið tækifæri til að festa þessar kjarnmiklu kvenskörunga á mynd(ir). Fyrirfram ákvað ég að freista þess, að láta þær fara að tilmælum mínum um tilteknar uppstillingar, án þess þó að eiga von á því að þær færu að tilmælum mínum. Mér til ómældrar undrunar gekk allt eftir sem upp var lagt með og úr þessu varð hin skemmtilegasta myndataka.

Hluta af henni má sjá hér.






Hér var reyndar allt komið í vitleysu, og fD farin að gera athugasemdir.


12 febrúar, 2010

'Here may you see the tyrant.'







*merking þessa orðs felur í sér alla þá sem urðu til þess, með saknæmum hætti, að hér féll allt saman.



Þetta er óhemju frjálsleg þýðing á þessum orðum Macduffs, þar sem hann er að gefa Macbeth færi á að gefast upp, fremur en verða drepinn. Skömmu síðar drap Macduff harðstjórann.

-------------------------------------

Þegar ég hef átt leið á höfuðborgarsvæðið undanfarna mánuði, hefur alltaf blasað við mér glæsileg bygging fyrir ofan veginn í áttina að Mosfellsbæ. Byggingin er rækilega merkt einhverju þýsku byggingarfyrirtæki sem ætlaði að ganga í hóp þeirra fyrirtækja annarra sem stóðu í því að selja okkur, þessum hálf vitfirrtu Íslendingum, allt mögulegt og ómögulegt. Þetta fyrirtæki var seinheppið því samfélag okkar hrundi saman í þann mund er allt var klárt til að byrja að græða.


Það hefur mjög verið í umræðunni undanfarna mánuði, hve mikill skortur er á fangelsisplássi á landinu, og ég ekki síður en aðrir, reiðir landar, hef verulegar áhyggjur af þessu, þar sem ég sé fram á það að það verði ekki hægt að dæma afglapana sem komu okkur á kné, í fangelsi þannig, að þeir afpláni einhverntíma. Þar að auki tel ég að það geti ekki náðst um það nein sátt að dómarnir hljóði upp á dvöl á Kvíabryggju, með réttindum til að fara að leggja stund á höggmyndalist.

Lausnin á þessum málum blasir við þarna á holtinu við veginn upp í Mosfellsbæ.

Fyrir utan að þetta er stór bygging, þá sé ég fyrir mér að þarna fáum við gott tækifæri til að virða fyrir okkur kvalara okkar. Í því sambandi legg ég til, að milli klukkan 12 á hádegi og 4 í eftirmiðdaginn, verði hinum dæmdu einstaklingum gert að standa eða sitja fyrir innan glervegginn sem sjá má hér fyrir ofan. Þangað getur fólk farið og barið þá augum og fengið þannig útrás fyrir angur sitt frústrasjónir. Ég sé meira að segja fyrir mér að þarna megi setja upp sölubása með egg og málningu á boðstólnum.






Ég veit auðvitað að ef til vill er það ekki við hæfi að virðulegur maður láti annað eins út úr sér, en þetta er nú afleiðing þess, að ekkert lát er á frásögnum af svívirðilegum athöfnum íslenskra viðskipta-, embættis- og stjórnmálamanna. Maður fær hreint ekkert færi á að setjast niður og reyna að jafna sig og leita skilnings og fyrirgefningar með sjálfum sér.


Þjóðin verður að upplifa það, sem hún telur vera makleg málagjöld þessum einstaklingum til handa. Fyrr verður enginn friður og sátt.


27 desember, 2009

Jóla-Laugarás í HDR

Þegar enginn er snjórinn til að skapa jólastemningu, sem er þess virði að festa á mynd, verður að grípa til annarra ráða. Það gerði ég í það minnsta.
Það er alllangt síðan Berlínarmaðurinn náði sér varla fyrir spenningi sem tengdist uppgötvun hans á fyrirbærinu HDR, sem er tiltekin tegund ljósmyndunar. Hana er hægt að framkvæma með ýmsum hætti, mis einföldum í framkvæmd. Ég er inn þeirra sem bý svo vel að eiga Canon 400D, mikinn öndvegis grip, sem getur framkvæmt þetta í einni aðgerð. Það gerist þannig, að vélin er stillt með viðeigandi hætti og síðan komið fyrir á þrífæti. Þá er smellt og vélin tekur þrjár myndir í röð með mismunandi lýsingu: fyrsta myndin eðlileg, næsta undirlýst og sú þriðja yfirlýst. Myndirnar eru síðan settar saman í eina með viðeigandi forriti í tölvu.
Ég fór í lítinn göngutúr um Laugarás og tók myndir með þessari aðferð, jólamyndir.

Hér eru tvö dæmi:


20 desember, 2009

Tvær sortir (2)

Það kom mér talsvert á óvart, að við það að bæta 'þurrefnunum' í blönduna var hún ekki algerlega þurr, heldur bara nánast. Hún var það meðfærileg enn, að mér tókst að blanda saman við hana súkkulaðibitum í stórum stíl, ásamt muldum hnetum. Þar með var þetta klárt til að skella á plötuna með teskeið og hæfilegu millibili. Eðlilega gerði ég ráð fyrir tilteknu bili á milli kakanna svo þeim gæfist færi á því, við bökunina, að dreifa lítillega úr sér. Þessi aðgerð gekk sérlega vel, eins og við mátti búast. Þegar ég mat það svo að hæfilegur fjöldi af deigkúlum væri kominn á plötuna - eins og sjá má á seinni myndinni frá síðustu færslu - skellti ég plötunni í ofninn, sem ég hafði þá þegar stillt á viðeigandi hitastig. Síðan fylgdist ég náið með því þegar deigkúlutopparnir lækkuðu hratt og dreifðu úr sér. Þessari lækkun lauk ekki fyrr en það var sem ein kaka væri á plötunni og því ljóst, að á næstu plötu yrði ég að stækka svæðið sem hver kaka hefði til útbreiðslu.


Þar kom, ég ég taldi kökurnar (eða kökuna) tilbúnar og tók úr ofninum, skar með hníf á milli þeirra, þar sem ég taldi að samskeytin hefðu verið og leyfði þessu síðan að kólna meðan ég undirbjó næstu plötu til innsetningar - nú með tvöföldu bili á milli deigkúlnanna (svona fer maður að því að læra af reynslunni).
Þó svo kökurnar væru nokkuð óhefðbundnar í útliti, brögðuðust þær með ólíkindum vel. Þvílíkt hnossgæti!


Skammtur nr. 2 í ofninum gaf af sér eðlilegri afurð, en engu síðri á bragðið.
----------------------
Seinni uppskriftin sem varð fyrir valinu bar hið virðulega nafn: Kókostoppar, of var miklu einfaldari í framkvæmd. Enn þurfti á ákvarða hvenær hræriblandan væri 'létt og ljós', en þessu sinni reyndist það talsvert einfaldara.
Þegar þurrefnum hafði verið blandað í, kom í ljós, að blandan var það þunnfljótandi, að ekki virtust líkur á að úr því gætu orðið toppar. Eftir samráð við sérfræðinga, varð úr, að lítilsháttar viðbótarþurrefni var sett í, sem ekki hafði verið getið um í uppskriftinni. Þetta reyndist breyta öllu, og þar með ljóst að hér yrði allt í lagi.


Afraksturinn var náttúrulega ekki amalegur - út úr ofninum komu dýrindis toppar.

Eftir aðgerð þá sem hér um ræðir tel ég mig færan í flestan sjó í þessum efnum, en hef þar að auki sett ákveðið fordæmi fyrir aðra svipaðarar gerðar.

Á aðventunni ákvað ég að baka
eðalkökur.
Útlitið mér ekki þótti saka
ekkert kjökur.
:)


19 desember, 2009

Tvær sortir (1)

Það ætti þeim að vera orðið ljóst sem lesa þessi skrif mín að einhverju marki, að mér er margt til lista lagt. Það er fátt sem leikur ekki í höndum mér.
Í morgun ákvað ég að það væri kominn tími til að ég bakaði smákökur.
Mig grunar nú að ég hafi einhverntíma komið að slíku hér á árum áður, en hreint ekki síðustu ár, og örugglega aldrei án meiriháttar aðkomu fD.

Hvað ætlarðu að baka?
Tvær sortir.
Hvað tegundir?
Ég finn eitthvað.

Með þetta í huga gúglaði ég smákökuuppskriftir og það vantaði nú ekkert á úrvalið sem birtist. Á endanum flutti ég heim einar sex til sjö líklegar og prentaði út, áður en haldið skyldi í Bjarnabúð til að redda því sem á vantaði. Það gekk allt eins og upp var lagt með - heim komið aftur og ekkert annað framundan en að hefjast handa.

Fram kom, að líklegast hefði ég keypt of mikið af hnetum og súkkulaði, en ég lét mér þær athugasemdir í léttu rúmi liggja; taldi að ég myndi þá bara nota meira en uppskriftin gaf til kynna, með enn betri árangri.
Ekki neita ég því að oft hef ég verið öruggari með sjálfan mig, svona hið innra, en við þær aðstæður sem nú voru uppi. Ákvörðun mín snérist um, að aðgerðina skyldi ég framkvæma upp á eigin spýtur frá A-Ö. fD fór að sinna öðrum málum og eftir stóð ég einn í eldhúsinu og bjóst til að hefjast handa.
Ég hafði heyrt að smjörlíki ætti á láta linast við stofuhita áður en það er sett í hrærivél. Ég valdi því líklega uppskrift og skar síðan viðeigandi stóran bita af smjörlíkinu og setti á borðið, svona áður en lengra yrði haldið.
Hér tók við töluvert langur tími þar sem ég velti fyrir mér hverjar tvær uppskriftanna ég ætti að nota, en það kom að því, að ég skellti mér á eina, sem leit mjög vel út og bar nafnið 'Súkkulaðibitakökur'. Það átti hinsvegar að vera aðeins meira smjörlíki í henni en þeirri sem ég hafði skorið smjörlíkið út frá og því fór ég í ísskápinn og skar hæfilega sneið til viðbótar, sem hafði síðan í för með sér, að ég þurfti að bíða nokkuð enn, áður áður en ég gæti farið að blanda.
Meðan smjórlíkið linaðist í stofuhitanum, vigtaði ég og setti í viðeigandi ílát, það annað sem uppskriftin sagði að notað skyldi í kökurnar. Sumt fór í sér skál, þar sem það skyldi hrært saman við á eftir, en annað beint í hrærivélarskálina.

Þegar stofuhitalinað smjörlíkið var tilbúið setti ég það í hrærivélarskálina með því sem fyrir var. Þetta var sérstök tilfinning, sem fól í sér að mér fannst eins og ég væri að leggaj af stað í ferð, þar sem engin leið var til baka. Þegar maður var kominn af stað, þá varð ekki aftur snúið.
'Komi það sem koma vill'.
Það stóð í uppskriftinni, að það ætti að hræra þar til blandið væri það sem kallað var 'ljóst og létt'. Þetta átti, sem sagt að vera endapunkturinn áður en svokölluðum 'þurrefnum' skyldi bætt út í. Það var við þessar aðstæður sem ég braut lítillega odd af oflæti mínu og spurði fD um merkingu hugtaksins 'ljóst og létt'. Þetta vafðist fyrir mér, ekki síst vegna þess, að í uppskriftinni er talsvert mikill púðursykur sem olli því, að blandan var nokkuð dökk og vandséð hvernig hún ætti að geta orðið ljós.

Ég læri hvenær eitthvað telst vera 'ljóst og létt'

Ég lærði það í dag, að 'ljóst og létt' í einni uppskrift er ekki það sama og 'ljóst og létt' í annarri.
Þetta snýst um tilfinningu. Það var hér sem hæfileikar mínir byrjuðu verulega að njóta sín. Þó svo blandan yrði aldrei ljós og aldrei létt, þá varð hún á ákveðnum tímapunkti ljós og létt - þegar manni fannst að hún hlyti að vera orðin það.
Þegar þetta lá fyrir skellti ég þurrefnunum saman við og leist svo á að það gæti orðið strembin blanda, þar sem það sem fyrir var í hrærivélarskálinni (ljóst og létt) var nokkuð þurrt. Hvað myndi gerast þegar ég bætti meira af þurru saman við?

Það mun ég fjalla um innan skamms.

30 nóvember, 2009

Allt um Alt



Nei, það var aldrei ætlun mín, enda hreint hvorki ástæða né tilefni til að fara að gera sér frekari mat úr því sem áður hefur verið afrekað í þeim efnum. Altinn stendur altaf (ekki stafsetningarvilla) fyrir sínu.

Ég neita því ekki að ég varð dálítið undrandi þegar ég rakst á mynd þar sem kvenfélagskonur út Biskupstungum, þar með voru auðvitað altar, eins og áður hefur komið fram, voru að undirbúa myndatökur vegna árlegs dagatals, að undir myndina hafði aðdáandi skrifað eftirfarandi: "Túttur!!! Mega sega Tungna-túttur". Viðbrögð við þessari athugasemd voru sérlega og, að mínu mati, undarlega jákvæð. Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi hvernig viðbrögðin hefðu orðið, hefði ég látið þessa athugasemd falla, svona orðaða. Ég hugsa þá hugsun ekki til enda -ég hefði frekar orðað athugasemd mína sem svo: "Hér eru á ferð afar myndarlegar konur", eða eitthvað í þá veruna.
------------------------------------
Nú hugsa ég miklu frekar um sérlega veglega aðventutónleika sem framundan eru í Landakotskirkju á komandi sunnudegi. Tungnamenn, og þá meina ég auðvitað einnig þá sem telja sig ekki Tungnamenn nema í hjarta, létu sig hafa það að berjast í talsverðu og óvenjulegu vetrarveðri yfir Heiðina (fyrir utan þá sem skelltu sér yfir eftir öðrum leiðum). Eftir það, sem kórstjórinn kallar nú 'túrbó' æfingu í safnaðarheimili kirkjunnar, fengu kórfélagar að kynna sér aðstæður í kirkjunni sjálfri. Þar varð fljótt ljóst að hljómburður er einstaklega góður og gefur að mínu mati, ekkert eftir þeim sem við eigum að venjast hér austanfjalls.
Þarna er hinsvegar um að ræða ákveðinn hönnunargalla. Orgelið er í öðrum enda kirkjunnar, en kórsöngurinn á að eiga sér stað í hinum. Eins og við mátti búast fór ekki allt eins og ætlast var til, ekki síst vegna þess að hljóðið berst hægar en ljósið. Mér skilst að því verði kippt í liðinn með því að notast við 'SKYPE' - auðvitað hlakka ég (og nokkrir fleiri sjálfsagt) ákaflega til að sjá hvernig það á eftir að ganga fyrir sig.

Þessi fína mynd er eftir Ingu Helgadóttur (IngaHel), en þetta er slóðin að myndum hennar. Ef hún skyldi rekast á mynd sína hér, biðst ég afsökunar á að hafa tekið hana ófrjálsri hendi, en hún var bara of góð til að velja hana ekki.

Komandi helgi verður væntanlega nokkuð ásetin vegna umstangs í kringum tónleikana, en ekki efa ég að hún verður eftirminnilega skemmtileg.

13 október, 2009

Laugarás í dag


Það liggur við að Laugarásbúar þurfi að efna til fagnaðar í tilefni af atburðum dagsins. Lengi hefur verið beðið eftir göngustíg meðfram aðalgötunni. Í dag lauk þeirri bið í drynjandi vélagný. Meira að segja rjúpan spígsporaði sallaróleg um svæðið og samfagnaði okkur þessum meinlausu þorpurum.
Næst á dagskrá er væntanlega að skella mold milli vegar og göngustígs og einnig í vegkantinn á
móti, koma af stað grassprettu og slá síðan á tveggja vikna fresti allt sumarið.

Ég fagna þessu verki. Það ber að þakka það sem vel er gert.

Það kom mér nokkuð á óvart, að ekki skyldi vera drifið í því að lagfæra Skúlagötu, eins og ég hef áður nefnt. Á staðinn var kominn mikill vélafloti sem hefði lokið því verki snarlega, með viðunandi undirbúningi.

-<- span="">

Að öðru leyti setja öryggisráðstafanir mikinn svip á saklaust sveitaþorp þessa dagana. Maður þorir sig varla að hræra vegna myndavéla sem skrá hverja hreyfingu.

Verklegir lásar loka nýppsettum, öflugum hliðum.

Þjófavarnakerfi væla þegar smáfuglarnir koma of nálægt.

Skyldi sá tími koma, að efnt verði til þjálfunar í notkun skotvopna?


11 október, 2009

Raunveruleikatenging

Hér hefur bláminn verið allsráðandi að undanförnu.
Moggaumboðsmaðurinn í Laugarási birtist hjá gamla unglingnum þegar ég var þar staddur, og var að koma færandi hendi með nýjasta moggann til aflestrar. Eitthvað hef ég verið búinn að senda skýr skilboð um þau mál, því viðkomandi flýtti sér að fela moggann bak við sig - um stund.

Blátunnur hafa kallað á mikla athygli undanfarna daga. Það hefur frést af þeim á flugi um Bláskógabyggð og Grímsnes. Nú eru þær flestar komnar heim og standa stilltar á sínum stað, í það minnsta fram að næsta hvelli.
________________________________

Ég hef verið að dunda mér við að fara í gegnum gamlar myndir þessa helgina, en fátt er betur til þess fallið að opna manni sýn inn í þann raunveruleika að árin líða.
Ég læt hér fylgja dæmi um það. (liggur við að þessari uppgötvun fylgi lítilsháttar blámi hugans).

Svona var Kvistholt vorið 1984.

Svona var staðan sumarið 2008


07 september, 2009

Góðgæti eða eitur



Það er oft sem þekkingarskorturinn er manni fjötur um fót. Mig grunar að það geti átt við í því tilviki sem hér um ræðir. Þessi hefði dugað í heila máltíð fyrir tvo, ef áhættan hefði verið tekin. Ég ætla ekki að nefna á hvað þessi myndarlegi sveppur minnti fD.

06 september, 2009

Piltur í Laubach


Artikel vom 04.09.2009 - 23.00 Uhr






Souverän ersetzten die beiden Korrepetitoren Sarolta Turkovic und - versierter noch - Christian Schulte am Flügel ein Orchester. Überzeugend verkörperte Tenor Egill Árni Pálsson zu Beginn in der Arie des Herzogs »Questa o quella« aus Giuseppe Verdis Oper »Rigoletto« den lüsternen Lebemenschen. Er sang mit strahlkräftiger, im Timbre nicht zu harter Stimme und facettenreichem Vibrato. Sopranistin Izabela Matula beeindruckte in der Arie der Mimi »Donde lieta usci« aus Giacomo Puccinis Oper »La Bohème« durch subtile, nuancierte und gefühlvolle Gesangsweise. Recht weich wirkten die Ton-Ansätze, auch dynamisch zurückgenommene Passagen gerieten ausdrucksvoll

28 ágúst, 2009

Busabusabus



Þetta gerist á hverju ári og að stærstum hluta fremur óyndislegt, að mínu mati. Það eina sem eftir er af upprunalegu seremóníunni í kringum inntöku nýrra nemenda í samfélag nemenda í ML, er skírnin sjálf í vatninu, en meira að segja hún hefur farið í gegnum umtalsverða breytingu. Þessi breyting felst aðallega í tvennu: Í fyrsta lagi nenna eldri nemendur ekki lengur að elta busana uppi til að koma þeim út í vatn. Í staðinn reka þeir þá þangað og busar, sem ekki vita betur, hlaupa allt hvað af tekur beint út í vatn. Í annan stað grunar mig sterklega að lítið fari fyrir hinum latneska yfirlestri sem á að eiga sér stað um leið og vatni er ausið yfir skírnarþega úr skólabjöllu, áður en þeir eru látnir falla í vatnið.

Í minu minni var þessi þula svohljóðandi: IN AQUA SANITAS, IN VINO VERITAS, IN XXXXX CARITAS.Annað það sem þessir dagar fela í sér og sem kallað hefur veið busavika er aðallega fengið að láni frá uppáfinningasömum nemendum annarra skóla, en nú umgengist eins og áratuga hefð.
Mínar skoðanir á busastandinu hafa nú ekki náð miklum hljómgrunni hingað til og ég á ekkert von á að það gerist úr þessu.

07 ágúst, 2009

Það hafði rignt um morguninn.....

.... en síðan létti til undir hádegið og skall á með úrvalsveðri til að heimsækja Akershus virkið (Akershus festning), sem stendur á hernaðarlega mikilvægum stað við höfnina í Osló. Þarna munu konungar Noregs hafa búið, líkega fram á 17. öld.


Það vildi svo vel til að þegar við stigum fæti inn í virkið voru að hefjast vaktaskipti varðmannanna sem gæta þessa merka staðar eins og sjáaldra augna sinna. Það varð fljótt ljóst, að ekki voru hér á ferð hermenn sem höfðu hlotið eldskírn sína í stríði, heldur virtust þetta allt vera svona rétt rúmlega grunnskólanemar.
Hér er hluti þeirra varðmanna sem mér virtist að biðu þess að vera leystir af.


Það fékk ég staðfest þegar annar hópur varðmanna kom marsérandi og stefndi átt til félaga sinna.


Það þarf varla að taka það fram, en búningar þessa unga fólks voru afar glæsilegir, örugglega nýkomnir úr hreinsun og pressun og skórnir sannkallaðir blankskór, nýpússaðir svo sólageislarnir endurspegluðust í augu talsverðs hóps viðstaddra, en ferðamönnum þykir alltaf gaman að fylgjast með vaktaskiptum varðamanna við konugshallir.

Loks stóðu hóparnir tveir andspænis hvorum öðrum og liðþjálfi steig fram og öskraði, eins og liðþjálfar eiga að gera, (ein, tveir og smella hælum!!! - eða eitthvað þvíumlíkt) skipanir um að nema staðar.


Þegar liðþjálfi segir hermanni að nema staðar, þá nemur hann staðar, hvar sem hann er staddur. Þegar hann segir hermanni að smella hælum, þá smellir hann hælum (stappar fast í jörðina). Örlög eins varðamannanna voru síður en svo eftirsóknarverð við þessar aðstæður. Þegar honum var skipað að stansa þá stóð hann ofan í polli og gat sig þaðan hvergi hrært. Þegar honum var síðan skipað að smella hælum, þá stappaði hann í miðjan pollinn og gusurnar gengu yfir gljáandi skóna og stífpressaðar buxurnar, ekki bara hans heldur einnig félaga hans. Þegar hér var komið áttu einhverjir hinna ungu varðmanna nokkuð erfitt með að halda alvöruþrungnum svip og áhorfendur skemmtu sér konunglega. Varðmaðurinn ungi laumaðist til þess, smátt og smátt og færa fótinn upp úr pollinum, eins og hér má sjá:



Þegar hér var komið varð nokkur bið á framhaldinu. Einhverjir varðmannanna marséruðu burtu en hinir stóðu áfram hreyfingarlausir um alllanga hríð. Eins og sjá má á Íslendingunum sem þarna voru viðstaddir, var þessi bið orðin nokkuð erfið. Þeir skimuðu í kringum sig eftir einhverjum vísbendingum í umhverfinu um framhald málsins.



Þar kom loks, að 4 varðmenn komu marsérandi til hinna sem fyrir voru.




Enn hóf liðþjálfi að öskra skipanir um að gera hin og þessi trix með byssunum, m.a. að setja á þær byssustingi (sem einn reyndar klúðraði nokkuð vel) - og að smella hælum (stappa niður fæti). Það var nákvæmlega það sem fremur illa þenkjandi áhorfendur höfðu beðið eftir.



|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
\/






Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...