Ég tók mig, sem sagt til, og sendi tölvupóst á alþingismenn, alla með tölu. Þeir urðu fyrir barðinu á mér, vegna þess, að ég tel þá afskaplega mikilvæga í viðgangi tungunnar. Ekki bara vegna þess að þeir geta samþykkt lög og reglugerðir, eða skipað í nefndir til hins og þessa, heldur vegna þess að málfar þeirra smitar út í samfélagið. Áður en við er litið, festast einhverjar rökleysur í málfarinu, vegna þess að þingmenn hafa komið þeim á í hugsunarleysi.
Já, ég sendi á þá tölvupóst, sem varðar tvær klárar vitleysur sem nú eru óðum að breytast í venjulegt mál.
Svona er þessi tölvupóstur:
28. mars, 2025
Ágæti þingmaður
Ég ætti ef til vill að byrja á því að biðjast velvirðingar á að trufla störf þín í þágu lands og þjóðar en þar sem erindið er í þágu lands og þjóðar, læt ég það vera.
Málið varðar íslenska tungu, bæði þróun hennar og hlutverk og einnig ábyrgð alþingismanna í því sambandi.
Þegar fólk er kjörið til ábyrgðarstarfa, eins og seta á Alþingi felur í sér, hlýtur það að hafa í huga, að í framhaldinu er gerðar meiri kröfur til þess, að ýmsu leyti. Þetta vitum við öll. Ábyrgð þingmanna felst, meðal annars, í því að þeir verða að fyrirmyndir þjóðarinnar. Einn þáttur þessarar ábyrgðar felst í notkun tungunnar; málfarinu.
Þá kem ég að erindinu, en það einskorðast við tvennt (margt fleira kæmi til greina):
1. Í viðtölum við þingmenn, sem eru daglegt brauð (ráðherrar koma þar oftar við sögu en aðrir, reyndar), tjá þeir skoðanir sínar og freista þess að færa rök fyrir máli sínu. Þeim finnst oftar en ekki nauðsynlegt að tilgreina fleiri en eina ástæðu fyrir skoðun sinni á einhverju tilteknu málefni. Þeir segja, til dæmis: „Það er bæði vegna þess að ...., en líka vegna þess að ...“
Í þessu samhengi langar mig að vísa á þetta, sem er að finna í íslenskri nútímamálsorðabók:
Þarna kemur skýrt fram, að ef maður er að tala um eitthvað tvennt, skal notast við OG, en ekki EN LÍKA. Hverjum dytti í hug að segja, t.d. „Þarna voru bæði Jón, en líka Gunna“.
Ef fólki finnst OG ekki nógu öflugt eða flott, til að koma máli sínu til skila, er ekkert auðveldara en sleppa bara BÆÐI úr röksemdum símum, t.d. “Þarna var Jón, vissulega, en líka Gunna“
2. Eignarfallsflótti verður stöðugt algengari í máli þingmanna. Þar á ég t.d. við setningar eins og: „Vegna byggingu hússins þurfti að hagræða.“
Eins og okkur öllum er ljóst, þegar grannt er skoðað, ætti þarna að segja: „Vegna byggingar hússins þurfti að hagræða.“ Okkur dytti aldrei í hug að segja sem svo: „Ég kom bara vegna hana / henni“.
Aftur vísa ég í orðabókina:
Það er reyndar ekki svo, að ég láti mig dreyma um að þessi póstur minn breyti einhverju, en ég er allavega búinn að reyna.------------------------------------------
Ég er kennari/aðstoðarskólameistari á eftirlaunum* og áhugamaður um verndun íslenskrar tungu. Mér finnst hún vera smám saman að gliðna í sundur fyrir augum mér. Ég veit að málfar ykkar þingmanna hefur áhrif á það hvernig tungan þróast og beini því orðum mínum til ykkar þessu sinni. Það er hreint ekki sama hvernig málinu er beitt.
* Aukageta: Þegar fólk er búið að greiða í eftirlaunasjóð alla sína starfsævi, bíður þess, að verða ellilífeyrisþegar, eins og það kallast í lögum. Þetta orð hljómar eins og maður sé að þiggja eitthvað, sem er nánast ölmusa og þar með hrein vanvirðing við fólk sem er að fá greitt úr sjóðum sem það lagði í vegna efri ára. Það á, að mínu mati, að hætta að nota hugtakið ELLILÍFEYRIR og taka þess í stað upp heitið EFTIRLAUN í þessu sambandi.
Njóttu dagsins, alþingismaður góður
Páll M. Skúlason