26 ágúst, 2025

Suðurnes: sjötti hluti: Brimketill og búið


framhald af þessu 

Það var vissulega heilmargt áhugavert þarna á svæðinu í kringum Reykjanesvita, en að því kom að ferðinn var framhaldið og nú í austurátt, upp hælinn og að hásininni. Ekki hafði fundist neitt sérstakt á leiðinni milli Reykjanesvita og Grindavíkur, nema fyrirbæri sem kallast Brimketill. Þangað lá leiðin, eins og við mátti búast. Heppni okkar með veðrið þennan dag mátti einnig kalla hina mestu óheppni, því hafið lék ekki beinlínis listir sínar fyrir okkur.  

Brimketill er sérkennileg laug í hrauninu í Staðarbergi, milli Grindavíkur og Reykjanesvita. Gerður hefur verið stígur yfir hraunið ásamt útsýnispalli þar sem laugin blasir við. 
Magnús Hlynur (MHH) gerði frétt um feðga sem lögðust til sunds í Brimkatli árið 2020. Ég reikna með, að þar með vitið þið sem þetta lesið, allt um þennan skemmtilega ketil, sem sýndi okkur svo sem ekkert sérstakt.  það var nú samt gaman að koma þarna og virða klettótta ströndina fyrir okkur. Enn blasti Eldey við í fjarska.

Brimketill

Vestan við Brimketil



Austan við Brimketil

Ströndin austur af Brimkatli.

Eldey blasir við hvar sem maður fer um Reykjanesið.

Franskur ferðamaður stillir sér upp til myndatöku í svörtum klettum.

Til gamans - og helstu staðir sem við komum á, í þessari
ferð um vestasta hluta Reykjaness.

ENDIR

25 ágúst, 2025

Suðurnes: fimmti hluti: Reykjanesvirkjun og viti.

Framhald af þessu

Reykjanesvirkjun, Reykjanesviti og Gunnuhver eru skammt frá "Brúnni milli heimsálfa", aftast á hæl nessins og því lá beint við að kynna sér þá þekktu staði næst.  Kannski er rétt að afgreiða Reykjanesvirkjun fyrst, en þar hófst orkuvinnsla árið 2006, ári áður en Davíð og Halldór klipptu á brúarborðann (tenging? - líklega).
Ekki var um það að ræða að valsa um virkjunina, enda er þar heitt og hættulegt - þar getur maður brennt sig ef óvarlega er farið.
Þar með brunuðum við að Reykjanesvita, sem stendur uppi á háum hól, skammt frá virkjuninni. Það var sérstök ákvörðun að klífa upp að vitanum þótt ekki virtist brekkan upp að honum sérstaklega árennileg. 
Þetta er að finna um vitann á Wikipedia:
Reykjanesviti er elsti viti á Íslandi. Fyrsti Reykjanesvitinn var reistur árið 1878 og kveikt á honum 1. desember sama ár. Átta árum síðar reið jarðskjálfti yfir Reykjanesið og fyrsti vitinn laskaðist og hrundi úr honum. Sá viti sem nú stendur var reistur árið 1907, en kveikt á honum 20. mars árið 1908. Vitinn skemmdist töluvert í jarðskjálftanum árið 1926. 
Vitinn er 31 metra hár (22 metrar upp á pall), og stendur á útsuðurstá Reykjanestangans á Bæjarfelli, nokkuð upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.

Þarna ók ég að vitanum og eftir því sem nær dró virkaði hóllinn undir honum óárennilegri og upp og niður hann var stöðugur straumur "allra þjóða kvikinda" að upplifa ævintýri lífa sinna. 

Bílastæðið við Reykjanesvita.
Áður en reyndi á fjallgöngugetu mína, þarna á bílastæðinu, rak ég augun í skilti sem benti mér á að fyrir það þyrfti ég sko að greiða. Auðvitað var ég með viðeigandi app, lífsreyndur maðurinn og greiddi ISK1000 fyrir að fá að leggja á "glæsilegu" stæðinu við vitann.  Það voru reyndar uppi þær skoðanir í bifreiðinni, að gjald af þessu tagi skyldi sko ekki greitt, en niðurstaðan varð samt sú, frekar en leggja í kílómetra fjarlægð, bara til að ganga síðan á staðinn aftur, til þess að geta loksins klifið vitahólinn.

Upp frá húsunum liggur umræddur stígur
Svo var bara að klifra upp að vitanum. Daglegar göngur á jafnsléttu reyndust lítið hafa gert til að undirbúa mig fyrir þá aðgerð. Örmjór, snarbrattur, þrepum lagður stígurinn var lagður að velli meira af sjálfsaga en mætti. Ég lét auðvitað sem ekkert væri og hélt jöfnum hraða alla leið upp, til að tefja ekki Japanann sem fylgdi. Nístandi sviðinn í fótavöðvum var ansi lengi að hverfa eftir að upp var komið og ég held að tilraunir mínar til að halda dúndrandi hjartslættinum og mæðinni frá andlitinu, hafi jafnvel dugað til að blekkja samklifurfólk mitt.


Af hólnum mátti sjá víða yfir svæðið: Reykjanesvirkjun, Gunnuhver  og Valahnjúk, svo eitthvað sé nefnt.

 Varla vorum við komin þarna upp, þegar við blasti aflíðandi stígur upp að vitanum, bakatil. Við völdum af ganga hann niður.

Næst lá fyrir að kíkja á Gunnuhver. Hver var þessi Gunna og sagan á bakvið nafngiftina? Svarið er að finna hér. Þetta er heilmikil og dapurleg saga af örlögum Guðrúnar Önundardóttur.

Eftir að hafa kynnt okkur svæðið við Gunnuhver nokkuð, var ferðinni haldið áfram á næsta áfangastað, Brimketil.

Reykjanesvirkjum, séð frá vitanum.

Karlinn


Hluti Valahnúks

Vitinn, séður frá Gunnuhver.

Reykjanesvirkjun

Giska á að þetta sé hinn eiginlegi Gunnuhver, en allt svæðið þarna í kring ber samt þetta nafn.

Gunnuhver

Stöðug flugumferð yfir þetta svæði, eins og búast má við.


Þetta var nú ekki alveg svona, reyndar.

FRAMHALD





24 ágúst, 2025

Suðurnes: fjórði hluti: Hafnir, erfðabreytingar og brú


Eftir að hafa kynnt okkur lítillega leifarnar af ratsjárstöðinni á Stafnesi og aftökustaðinn í Gálgum og horft á starfsemina sem sjáanleg var sunnan Keflavíkurflugvallar, ókum við fyrir Ósinn og renndum í gegnum þorpið sem heitir Hafnir.
Hafnir (mynd af Wikipedia)

Þar lýstu ferðafélagarnir harla mismunandi skoðunum sínum á því hvernig myndi vera að búa þar. Annar hvað af og frá að þar væri hugsanlegt að setjast að: stöðugt rok og berangur. Hinum fannst að um væri að ræða kjörinn stað til búsetu, því þar væri enginn ys og læti og ekki nema um 15 km. á flugvöllinn.  Það var ákveðið að vera bara ósammála um þetta.    

Næst var á vegi okkar, eiginlega að óvörum, heilmikið af byggingum, sem við nánari skoðun reyndist vera starfsstöð Benchmark Genetics, sem ég minnist  ekki að hafa heyrt nefnt. Hélt þá að ef til vill færi þarna fram einhver leynistarfsemi, ekki síst vegna þess að þarna var allt rækilega girt af og umgangur óviðkomandi stranglega bannaður. Þegar heim kom leitaði ég uppi nafn þessa fyrirtækis. Það virðist sinna rannsóknum í erfðatækni af einhverju tagi, t.d. á laxi og rækju

Þarna vorum við farin að sjá til gufubólstranna frá Reykjanesvirkjun, en rétt áður en að henni kom, létum við okkur hafa það að skoða túristagildruna sem "Brúin milli heimsálfa" er. 
Frá vígslu brúarinnar 2002
(úr mynd Árna Sæberg)

Um hana sagði í frétt mbl um vígslu hennar árið 2002:
Hún er sérstök að því leyti að hún brúar bilið milli Evrópu og Ameríku. Á Reykjanesi eru margar sprungur sem tengjast flekamótum jarðarinnar, mótum Evrópu og Ameríku. Ísland stendur á þessum mótum, og þess vegna höfum við heitt vatn, eldgos og jarðskjálfta. Brúin er táknræn tenging milli Evrópu og Ameríku, og vígðu þrír ráðherrar gripinn með viðhöfn. 
Ekki langar mig nú að vera neikvæður og læt það því ekki eftir mér.
Við gengum fram og til baka yfir þessa brú, milli Evrasíu flekans og Ameríkuflekans og vorum nú ekkert miklu nær, svo sem. En látum vera.

Fyrir utan blasti Eldey við og framundan Reykjanesvirkun og Reykjanesviti.


Reykjanesvirkjun og Reykjanesviti, séð frá "Brúnni milli heimsálfa".

"Brúin milli heimsálfa"






23 ágúst, 2025

Suðurnes: þriðji hluti: Hernaðarmannvirki og hengingar

Framhald af þessu

Eftir að haf rennt niður súpunni í Hvalnesi/Hvalsnesi (hvort er rétt?), lá leið okkar niður í ristarboga þessa fótar sem Reykjanesið er.  Í fjarska blasti Eldey við, en brátt lá vegurinn framhjá tveim skiltum, milli Básenda og Ósa. Þar vísaði annað á fyrirbæri sem kallast Gálgar, en hitt vísaði á leifar af hernaðarmannvirkjum. Að sjálfsögðu var þetta kannað nánar, enda báðir staðirnir þétt við veginn, skammt frá Djúpuvík á Stafnesi. Hernaðarmannvirkjaleifarnar voru dálítið sérstakar útlits, einskonar steypukassar sem raðað var í boga í einum 4 klösum. Þetta vakti forvitni mína og þegar heim var komið fór ég að reyna að komast að því hvaða mannvirki höfðu staðið þarna, en hef bara fundið loftmyndir sem benda til þess að bygging þeirra hafi hafist um 1970. Ég giska á að þetta hafi verið einhverskonar ratsjársöð. Það væri nú fróðlegt að fá að vita hvaða "varnarvirki" voru á þessum stað. 
(Ég þykist reyndar vera búinn að komast að því að þarna hafi verið um að ræða ratsjárstöðina á Stafnesi - og það var Þjóðviljinn sem upplýsti mig um það 🙂 )



Hinumegin við veginn voru tveir klettar sem sagt er að hafi verið aftökustaður. Þessi staður nefnist Gálgar.  
Eftir að hafa staldrað þarna við lá leiðin áfram inn í ristarbogann, sem er vík eða flói sem kallast Ósar.
Þá bar svo við, að í augnablik áttaði ég mig ekki á mannvirkum sem tóku að birtast upp úr engu, en að sjálfsögðu rann upp ljós þegar við blasti flugturn og endanleg staðfesting kom svo, þegar farþegaflugvélar tóku að renna sér inn til lendingar, rétt fyrir framan bílinn. Við vorum, sem sagt, komin suður fyrir Keflavíkurflugvöll.  Þegar það lá fyrir, velti ég fyrir mér hvaða hlutverki eigi að gena, þær stórbyggingar sem eru í smíðum í grennd við flugvöllinn og komst auðvitað að þeirri niðurstöðu, að þær hlytu að tengjast aukinni uppbyggingu hernaðarinnviða á landinu bláa. Ætli við vitum ekki minnst um allt það sem er að gerast undir nefinu á okkur, á þessum viðsjárverðu tímum.

Eldey


Rústir hernaðarmannvirkja

Kort frá LMÍ 



Annar klettanna í Gálgum

Er verið að styrkja hernarðarinnviði hjá okkur?




22 ágúst, 2025

Suðurnes - annar hluti: Hvalnes/Hvalsnes

Framhald af þessu.
Leið okkar lá frá Garðinum í gegnum Sandgerði og framundan kirkjan í Hvalnesi. Þar var Hallgrímur Pétursson prestur um 7 ára skeið um miðja 17. öld. Þarna eignuðust hann og Guðríður Símonardóttir (Tyrkja-Gudda) dótturina Steinunni (1645-1649). Þegar hún lést, á fjórða ári  reisti Hallgrímur bautastein og lagði á leiði hennar. Hann er nú að finna í kirkjunni, en auðvitað var hún lokuð og læst. (Ferlir) Hallgrímur orti sálm til minningar um dóttur sína 

Við komum sem sagt í Hvalnes og gengum þar aðeins um, áður en við gæddum okkur á súpu  í kaffihúsinu Kaffi Golu sem þarna er. 



Séð frá Hvalnesi yfir að Sandgerði.

Kaffi Gola er í brúna húsinu.


FRAMHALD

 

Suðurnes, fyrsti hluti: Garðskagi (táin)

Í gær (20. ágúst) lá leiðin á tána, ilina og hælinn á Reykjanesskaga í mikilli blíðu. Formlega hófst ferðin ekki fyrr en við síðasta hringtorgið á Reykjanesbraut, torgið þar sem maður velur venjulega þriðja legginn, en við tókum þann sem var númer tvö og brunuðum inn í Sandgerði og þaðan í Garð, þar sem táin er. Þar urðu á vegi okkar tveir vitar og byggðasafn. Handan Faxaflóa blasti Snæfellsjökull við og í hlaðinu var að finna Byggðasafnið á Garðskaga. Þar hafði fD orð á því að um væri að ræða skemmtilegt safn, engir kambar, strokkar, askar eða þvíumlíkt. Ég gat svo sem tekið undir með frúnni að þessu leyti. Þarna var að finna ýmislegt frá æskuárum okkar og þannig gátum við tengt við safnmunina, betur en í flestum öðrum byggðasöfnum (auðvitað var þarna líka um að ræða áminningu um að árin líða).Það yrði langt mál að telja hér upp allt það sem athyglisvert þótti, en ég verð að nefna safnvörðinn, Þórarin Magnússon. Pilturinn fylgdi okkur eftir um safnið að sagði frá og sýndi margt af því sem það geymir. Ég hef ekki áður komið í byggðasafn sem veitir svo öfluga þjónustu – og svo var enginn aðgangseyrir, en safnbúð fyrir þá sem versla vildu og styrkja þannig þessa skemmtilegu og lifandi starfsemi.
Ferðalagið byrjaði vel.

Snæfellsjökull






14 apríl, 2025

It's only words ...

Við erum mörg reið og það hvílir á okkur einhver óviðráðanlegur þungi. Við upplifum vonleysi og varnarleysi. Við reynum að skilja hvernig heimurinn virkar, en þrátt fyrir að við teljum okkur vita það svona í stórum dráttum, erum við engu nær. Hvernig heldur valdið og fjármagnið óréttlætinu gangandi. Við horfum á það sem gerist í Palestínu, á Gaza og á Vesturbakkanum og okkur líður eins og við séum föst á brúninni – hrópandi inn í tómið. 

Hvernig getur þjóð, með stuðningi öflugustu ríkja heims, komist upp með að myrða tugi þúsunda saklausra? Hvernig getur samfélag þjóða – Sameinuðu þjóðirnar – verið svo valdalaust, svo tannlaust, þegar eitt ríki getur alltaf beitt neitunarvaldi á vettvangi þeirra?

Við höfum aðeins orð. Ekki vopn, ekki vald, ekki áhrif – bara orð. En þau brenna í okkur. Þau neita að þegja.

Auðvitað á að leggja af hernaðarstuðning við Ísrael. Mannréttindi eiga að vera í forgrunni, en ekki hagsmunir. Það á ekki að vera hægt að réttlæta morð á saklausu fólki með þeim afburða lélegu rökum, að um sé að ræða „sjálfsvörn“ á sama tíma og börn eru grafin úr rústum. Það á að hætta að líta á líf sumra mikilvægara en annarra. 

En hvað gerum við þegar það sem við viljum virðist ómögulegt?

Við skrifum. Við hrópum gegnum stafina. Við neitum að kalla þetta ástand „flókið“ þegar það er í grunninn einfalt: fólki er rænt lífi, frelsi og framtíð – og heimurinn horfir á.

Kannski breyta orðin ekki heiminum í dag. En þau lifa. Þau geta snert. Þau geta vakið aðra, ef máttur þeirra verður þá ekki of seint á ferðinni.

Já, kannski erum við reið. Kannski líður okkur eins og vonin sé að dofna. En við erum ekki ein.  Jafnvel þegar við eigum bara orð – þá skiptir það máli hvernig við notum þau.

Það er víðar, en bara í Palestínu, sem orðum okkar þurfa að fylgja aðgerðir.  Okkur finnst kannski eins og heimsmyndin sé að gliðna fyrir augum okkar. Þá höfum við bara orð.

Vonleysið blasir við hvert sem litið er: íslenskir ráðamenn fordæma dráp á saklausu fólki. Hverju breytir það? Stríðsglæpadómstóllinn dæmir níðingana, en hverju breytir það? Friðarpostulinn fyrir vestan ætlar bara að hrista friðinn fram úr erminni, en hvað breytist við það?

Er eitthvað það tæki til, sem þessi manngrúi sem jörðina byggir, getur beitt til að hér megi ríkja friður? 

Ætli það - nema ef vera skyldu orð. Skrifuð orð. Töluð orð. Hrópuð orð ....


Suðurnes: sjötti hluti: Brimketill og búið

framhald af þessu  Það var vissulega heilmargt áhugavert þarna á svæðinu í kringum Reykjanesvita , en að því kom að ferðinn var framhaldið o...