31 mars, 2025

Bæði góður, en líka leiðinlegur.

Það er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna að leggja örlítið lóð á þá vogarskál, þar sem vegast á varðveisla íslenska tungumálsins og afskiptaleysi af þróun hennar.

Ég tók mig, sem sagt til, og sendi tölvupóst á alþingismenn, alla með tölu. Þeir urðu fyrir barðinu á mér, vegna þess, að ég tel þá afskaplega mikilvæga í viðgangi tungunnar. Ekki bara vegna þess að þeir geta samþykkt lög og reglugerðir, eða skipað í nefndir til hins og þessa, heldur vegna þess að málfar þeirra smitar út í samfélagið. Áður en við er litið, festast einhverjar rökleysur í málfarinu, vegna þess að þingmenn hafa komið þeim á í hugsunarleysi.

Já, ég sendi á þá tölvupóst, sem varðar tvær klárar vitleysur sem nú eru óðum að breytast í venjulegt mál.
Svona er þessi tölvupóstur:

28. mars, 2025

 

Ágæti þingmaður

Ég ætti ef til vill að byrja á því að biðjast velvirðingar á að trufla störf þín í þágu lands og þjóðar en þar sem erindið er í þágu lands og þjóðar, læt ég það vera.

Málið varðar íslenska tungu, bæði þróun hennar og hlutverk og einnig ábyrgð alþingismanna í því sambandi.

Þegar fólk er kjörið til ábyrgðarstarfa, eins og seta á Alþingi felur í sér, hlýtur það að hafa í huga, að í framhaldinu er gerðar meiri kröfur til þess, að ýmsu leyti. Þetta vitum við öll. Ábyrgð þingmanna felst, meðal annars, í því að þeir verða að fyrirmyndir þjóðarinnar. Einn þáttur þessarar ábyrgðar felst í notkun tungunnar; málfarinu.

Þá kem ég að erindinu, en það einskorðast við tvennt (margt fleira kæmi til greina):

1. Í viðtölum við þingmenn, sem eru daglegt brauð (ráðherrar koma þar oftar við sögu en aðrir, reyndar), tjá þeir skoðanir sínar og freista þess að færa rök fyrir máli sínu. Þeim finnst oftar en ekki nauðsynlegt að tilgreina fleiri en eina ástæðu fyrir skoðun sinni á einhverju tilteknu málefni. Þeir segja, til dæmis: „Það er bæði vegna þess að ...., en líka vegna þess að ...“

Í þessu samhengi langar mig að vísa á þetta, sem er að finna í íslenskri nútímamálsorðabók:


Þarna kemur skýrt fram, að ef maður er að tala um eitthvað tvennt, skal notast við OG, en ekki EN LÍKA. Hverjum dytti í hug að segja, t.d. „Þarna voru bæði Jón, en líka Gunna“.
Ef fólki finnst OG ekki nógu öflugt eða flott, til að koma máli sínu til skila, er ekkert auðveldara en sleppa bara BÆÐI úr röksemdum símum, t.d. “Þarna var Jón, vissulega, en líka Gunna“

2. Eignarfallsflótti verður stöðugt algengari í máli þingmanna. Þar á ég t.d. við setningar eins og: „Vegna byggingu hússins þurfti að hagræða.“
Eins og okkur öllum er ljóst, þegar grannt er skoðað, ætti þarna að segja: „Vegna byggingar hússins þurfti að hagræða.“ Okkur dytti aldrei í hug að segja sem svo: „Ég kom bara vegna hana / henni“.

Aftur vísa ég í orðabókina:




Það er reyndar ekki svo, að ég láti mig dreyma um að þessi póstur minn breyti einhverju, en ég er allavega búinn að reyna.

------------------------------------------

Ég er kennari/aðstoðarskólameistari á eftirlaunum* og áhugamaður um verndun íslenskrar tungu. Mér finnst hún vera smám saman að gliðna í sundur fyrir augum mér. Ég veit að málfar ykkar þingmanna hefur áhrif á það hvernig tungan þróast og beini því orðum mínum til ykkar þessu sinni. Það er hreint ekki sama hvernig málinu er beitt.

* Aukageta: Þegar fólk er búið að greiða í eftirlaunasjóð alla sína starfsævi, bíður þess, að verða ellilífeyrisþegar, eins og það kallast í lögum. Þetta orð hljómar eins og maður sé að þiggja eitthvað, sem er nánast ölmusa og þar með hrein vanvirðing við fólk sem er að fá greitt úr sjóðum sem það lagði í vegna efri ára. Það á, að mínu mati, að hætta að nota hugtakið ELLILÍFEYRIR og taka þess í stað upp heitið EFTIRLAUN í þessu sambandi.

Njóttu dagsins, alþingismaður góður

Páll M. Skúlason


Svona var þetta nú. Nú hafa 10 þingmenn brugðist við, með því að svara þessum pósti á afar jákvæðan hátt. Alliri eru þeir, utan einn, nýir þingmenn á Alþingi. Ég mun allavega hlusta grannt eftir því hvort breyting verður á málfari þingmanna, en geri mér samt engar grillur um eitthvað umtalsvert.









13 febrúar, 2025

Hæpóst og hávörn, langskot og lágvörn

50 ára stúdentar, 2024
Maður áttar sig ekki endilega á því, meðan einhverjar aðstæður eru fyrir hendi, hvort þær hugsanlega muni skipta máli eitthvert inn í framtíðina. Þetta á aðallega við aðstæður í æsku og á unglingsárum. Hvaða varanlegu áhrif höfðu kennararnir þínir á þig?  Skiptu krakkarnir sem þú deildir kjörum með, einhverju máli?  Svörin geta aldrei orðið einhlít, en ég reikna nú með, að fólk sem komið er aðeins lengra en að teljast miðaldra, hugsi nokkuð oft til þess tíma sem var og pæli jafnvel aðeins í því hvernig skólatíminn; samnemendur og kennarar áttu þátt í að móta lífshlaupið sem síðar varð.
 
Fyrstu 15-20 ár ævinnar eru mikill mótunartími hjá okkur öllum. Einmitt þess vegna er hann svo mikilvægur og má helst ekki mistakast.
Vissulega hefur mér s tundum fundist, að hluti þessara mótunarára hafi mistekist í mínu tilfelli, en er samt hreint ekki viss. 
Mér verður stundum á að hugsa til barnaskólagöngunnar, þegar ég var á víxl hálfan mánuð heima og hálfan mánuð á heimavist. Ég á ekkert sérstaklega margar jákvæðar minningar frá þeirri upplifun, en reyni aftur á móti að trúa því að barnaskólaárin hafi mótað mig þannig, að ég varð reiðubúnari til að takast á við enn meiri fjarvistir frá foreldrahúsum, þegar við tók Héraðsskólinn á Laugarvatni. Þar var ég þrjá vetur á heimavist ásamt unglingum í svipuðum sporum. Jú, það tók oft á, en líklega hafði ég bara gott af því. Á ég ekki bara að halda því fram?

Um þessar mundir verður mér hugsað til tímans í héraðskólanum og svo menntaskólanum í framhaldinu. Samtals urðu veturnir 7, sem ég var við nám á Laugarvatni, þeim mikla skólastað. Þar mótuðu kennararnir mig heilmikið og ekki síður jafnaldrarnir.


Ólafur Þór Jóhannsson fæddist 6. apríl, 1954 og lést 2. febrúar síðastliðinn. 
Hann var einn af þessum jafnöldrum sem ég átti samleið með í héraðsskólanum og Menntaskólanum að Laugarvatni. Óli var frá Grindavík, einn af fjölmörgum Suðurnesjamönnum sem komu til náms í héraðsskólanum. Ekki veit ég nákvæmlega hversvegna sá skóli varð fyrir valinu, en allavega var Fjölbrautaskóli Suðurnesja ekki stofnaður fyrr en 1976. 
Ég hygg, að sveitamennirnir af Suðurlandi, sem þarna voru einnig komnir til náms, hafi, svona til að byrja með, litið af nokkurri lotningu til Suðurnesjakrakkanna. Við kunnum "fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn" og þar með voru þau orðin sjóbarin hörkutól. Þetta var fólk sem ólst upp með amerísku herstöðina í bakgarðinum, og bítlagæjana í Hljómum í næsta bæ.  Svo reyndust þetta nú bara svona venjulegir krakkar, sem sömu vandamál og við - kannski bara aðeins öðruvísi. 


Þessir héraðsskólavetur liðu, en það varð flljótt ljóst að Óli var mikill íþróttamaður, með körfubolta sem sinn helsta styrkleika (hvernig mátti líka annað vera: alinn upp rétt fyrir utan girðinguna hjá Kananum). Færni hans í þessum knattleik fylgdi honum svo alla tíð og við hinir reyndum að komast á svipaðan stall í þessari íþrótt, en beljurassar og tómatplöntur voru okkur mögulega fjötur um fót. Við fengum nú samt að fljóta með og urðum bara alveg sæmilegir á endanum.  Í menntaskólanum fórum við líka að æfa blak af krafti og auðvitað tókst Óla að skara fram úr þar, einnig. Hann varð síðan Íslandsmeistari með Ungmennafélaginu Hvöt vorið 1973. (Nemendafélagið Mímir var þá ekki gjaldgengt til að taka þátt í Íslandsmótinu, svo ML-ingar fengu að keppa í nafni Hvatar í Grímsnesi). 

Þetta átti nú ekki að verða nein allsherjar úttekt á íþróttalífi í ML á áttunda áratugnum, en ef Óli er umfjöllunarefnið, þá verður varla hjá því komist að tæpa á því helsta.  Ég átti því láni að fagna að vera oftast í liði með Óla, bæði í blaki og körfubolta og það var alveg ágætt. Hann var hreint enginn "lúser" á því sviði.

Ekki fylgdist ég neitt sérstaklega með námsframvindu Óla, enda hann í stærðfræðideild. Umræðuefni þeirra félaganna í þeirri deild snérust oft um kennarana þeirra og sérkenni þeirra og maður fékk oft miklar sögur af þeim. Þar með er komið að hæfni Óla til að segja sögur. Þar var hann í essinu sínu og með félaga sínum, Jason Ívarssyni, komst hann oft á flug og það var glott og það var hlegið. Framundir þennan dag gátu þeir félagarnir sagt  sögur frá liðinni tíð og þannig rifjað upp fyrir okkur hinum.




Þau eru nú orðin vel á sjötta tuginn, árin sem liðin eru síðan við hófum nám í ML. Lengi framan af vorum við fremur róleg þegar kom að því að kalla hópinn til samveru. Einhver okkar hittust þó á 5-10 ára fresti á Laugarvatni, sum oftar en önnur. Þessi duglegustu hittust þó enn oftar. Síðastliðið vor náðum við því að verða 50 ára stúdentar, hvorki meira né minna og hittumst af því tilefni við brautskráningu stúdenta á Laugarvatni.  Við vorum 24 sem lukum stúdentprófi vorið 1974 og 15 okkar komust á Laugarvatn til að fagna áfanganum. Tvær bekkjarsystur okkar, Jóhanna Ólöf Gestsdóttir  og Sigurveig Knútsdóttir létust 2015.




Það var ákveðið við þetta tækifæri að nú skyldi verða breyting á, enda hópurinn kominn á eftirlaunaldur. Það var, sem sagt, ákveðið að við skyldum hittast einu sinni í mánuði, í hádeginu, á tilteknum stað og tíma.
  

Þetta hefur gengið síðan og sami kjarninn staðið sig vel.  Ég hef ekki staðið mig vel, en stefni ótrauður að því að bæta úr.

Við höfðum nú hreint ekki reiknað með, að Óli kveddi jarðlífið svona snemma, en þetta er nú bara eitt af því sem fylgir því fá þetta líf að láni um stund. Við vitum ekki hverjum klukkan glymur eða í hvaða röð. Það er nánast skylda okkar sem eftir stöndum, að heiðra minningu bekkjarfélaga okkar og freista þess að rifja upp og viðhalda minningum okkar frá Laugarvatni.

Við söknum Óla í þessum litla hópi - þar var hann betri enginn. 
Hugur okkar allra er hjá fjölskyldu hans. 

Útför Óla er gerð frá Grindavíkurkirkju í dag.

--------------------------
Myndirnar, sem hér eru birtar frá ýmsum tímum, eru úr mínum fórum, úr lokuðum facebook hópi stúdenta frá ML 1974, eða af myndavef Nemel





19 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu

Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til Dúbæ.  
Síðasti dagurinn, miðvikudagurinn 30. október var skipulagður sem rólegheitadagur; dagur til að íhuga og melta það sem á undan var gengið. Það var þó ljóst að lengri tíma þyrfti til að móta þetta allt í höfðinu og koma þar fyrir á viðeigandi stöðum. Þrátt fyrir það, að ég væri aðeins orðinn rólegri, sem farþegi í bíl í dúbæskri umferð, sá ég ekki fyrir mér, að á þessum slóðum myndi ég geta fest rætur. Þetta umhverfi er bara einfaldlega alltof manngert og hiti og glampandi sól alla daga yrði þar að auki of uppáþrengjandi fyrir minn norræna smekk.  
Hinsvegar, var það óhemju gaman og upplýsandi að koma þarna við í tæpa 10 daga og njóta þess að búa eins og á hóteli, án þess að búa á hóteli, fá að sjá allflest það helsta, án þess að vera á vegum ferðaskrifstofu, að þurfa nánast bara að smella fingrum til að bílstjóri og bíll yrði til reiðu til að flytja mann hvert sem hugurinn girntist. Í þessum þáttum komu Dúbæingarnir sterkir inn og einnig heimilishjálpin þeirra hún Bernadetta frá Filippseyjum sem var vakin og sofin yfir velferð okkar. 

Þorvaldsdætur


Fyrirfram hafði ég nú ekki reiknað með stórkostlegri ævintýramennsku af hendi systranna þriggja, sem  þarna voru í aðalhlutverki, en þær komu mér talsvert á óvart á ýmsum sviðum og voru í einstaka tilvikum tilbúnar að fara alveg út á brún þægindarammans. Vissulega fengust þær ekki til að stökkva í loft upp í myndatöku í eyðimörkinni, né heldur að stinga sér til sunds í bátsferðinni, en þær klæddust slæðubúnaðinum svikalaust. 
Ég var sá eini í þessari ferð sem ekki var blóðtengdur við Dúbæinginn hana frú Áslaugu, en það var hreint ekki látið bitna á mér, nema síður væri.

Flug til Kaupinhafnar

Við rifum okkur upp um miðja nótt til að vera klár í flug eldsnemma að morgni 31. október og það gekk allt eftir, hnökralaust. Mér láðist alveg að fylgjast með flugleiðinni, en veit þó að leiðin lá yfir Svartahaf, sem þýðir að þarna var flogið á milli átakasvæða við botn Miðjarðarhafs og í Úkraínu.

Eðlilega var flugtíminn aðeins lengri en síðast, sem hlýtur að skýrast af því, að við þurftum að keppa við jörðina, sem flutti náttúrulega Kaupinhöfn stöðugt lengra í vestur - æ hættu þessu bulli!

Það var uppgefið fólk sem renndi sér niður á Kastrup flugvöllinn upp úr hádegi, en það þurfti samt að fara í búð, til að birgja sig upp af nauðsynjum, en daginn eftir, 1. nóvember lá svo leiðin heim til eyjarinnar við ysta haf. Allt fór það vel.

Og svo að lokum

Takk fyrir mig, Dúbæingar, fyrir afburða gestrisni og stuðning í þessari fínu ferð.  Takk, samferðafólk, fyrir að vera til friðs og ávallt tilbúið að takast á við nýjar áskoranir. 

كانت هذه رحلة لطيفة للغاية.



Sæludagar í sandkassanum (11)

Framhald af þessu 

Að þessu hafði verið stefnt, leynt og ljóst lengur en elstu menn muna. Stóra moskan í Abu Dhabi var síðasta stóra verkefnið í þessari miklu ferð og með heimsókn í hana tókst að heimsækja þriðja furstadæmið í ferðinni og það langstærsta, Abu Dhabi.  Höfuðborg AbuDhabi er jafnframt höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Þessi moska er í 23. sæti yfir stærstu moskur múslíma og sú stærsta í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en þar eiga að komast 41.000 manns saman til bænahalds í einu. Stærsta moska í heimi er hinsvegar sú, sem er að finna í Mekka, Masjid al-Haram, en þar geta 4.000.000 manna komið saman í einu.
Þessi moska var byggð fyrir tæpum tveim áratugum og hana munu Sunni múslimar sækja. 

Upphaf ferðar


Það var lagt í hann um miðjajn morgun úr Sjálfbæru borginni, eftir að slæður höfðu verið teknar til og kjólum klæðst. Ég held ég hafi ekki þurft langan tíma til að sannfæra sjálfan mig um að láta vaða í að mæta í nýkeyptum gallanum mínum, smeygði honum yfir mig og annar klæðnaður var í algeru lágmarki. Þetta er afar þægileg flík að klæðast í því loftslagi sem þarna er.

Það var fÁ sem tók sér það hlutverk að flytja okkur fimmmenningana til Abu Dhabi og öfugt við það sem maður hefði búist við, var talsvert hávaxinn trjágróður meðfram veginum alla leið. Þegar styttist í höfuðborg furstadæmanna  fóru að sjást skilti við veginn sem vísuðu á moskuna, sem stendur nokkuð sér og fór aldeilis ekki framhjá manni þegar nær dró. Auðvitað hafði GPS-ið verið stillt á bílastæði í bílakjallara og þangað var rennt, en rétt eins og aðrir bílakjallarar á þessum slóðum, var þar allt tandurhreint og karlar á hverju strái sem unnu við að sópa og pússa. 
Leiðin í bílakjallarann

Í moskunni

Þegar við stigum úr bílnum í bílakjallaranum, skellti ég á mig rauðflekkóttu slæðunni/klútnum og svörtu hringjunum og var þar með klár í slaginn. Slæðum kvenfólksins í ferðinni var komið fyrir, þær stilltar af og þar með var ekkert því til fyrirstöðu að hefja gönguna inn í þennan helga stað múslína. 

Úr bílakjallarunum komum við inn í heilmikla verslunarmiðstöð, þar sem menn seldu meðal annars ilmvötn (nema hvað). Það er alveg hugmynd fyrir staðarhaldara í Skálholti að koma málum þannig fyrir, að til þess að komast í kirkjuna, þurfi gestir að ganga gegnum verslunarmiðstöð, allavega framhjá einni eða tveim búðum, en hvað um það. 

Ekki stöldruðum við nú við í þessu kaupmannamusteri, heldur héldum sem leið liggur eftir löngum göngum neðanjarðar að mestu, framhjá klæðnaðareftirlitsmönnum, þar til við komum á stað þar sem gerð var krafa um að við værum búin að skrá okkur til heimsóknarinnar í gegnum eitthvert app.

 

Það varð auðvitað hlutverk fÁ að finna út úr því og með aðstoð starfsmanns hellti hún sér ofan í símann sinn til að skrá þennan einstaka/sérstaka/frækna hóp til inngöngu. Þetta tókst allt og þar með var haldið áfram, neðanjarðar í átt að moskunni. Þessari gönguför lauk með því að rúllustigi flutti hópinn upp á yfirborðið og við blasti hið glæsilega  mannvirki og fátt annað í stöðunni en að festa hópinn á myndflögu með  réttum bakgrunni.  Hluti myndanna ratar svo bara hingað:







Eftir að ekki þótti efni til frekari myndatöku héldum við inn í hið mikla mannvirki, sem hefur víst aðallega það hlutverk, að vera bænastaður sunni múslíma. Það er einhvernveginn svo með okkur mennina, að við höldum að glæsilegar byggingar (glæsilegur klæðnaður, eða innanstokksmunir) höfði eitthvað sérstaklega til guðs okkar, en um það hef ég nú reyndar talsverðar efasemdir. Trú snýst um allt annað. 

Þarna var auðvitað margt fólk auk okkar, og í sömu erindagerðum. Þetta ferðalag var svona dálítið eins og þegar sauðfé er rekið í rétt. Það gafst ekki mikið færi á að staldra við og njóta fagurrar byggingalistar, eða glæsilegra listaverka og ljósabúnaðar.  Það voru allstaðar menn sem sáu til þess að hópurinn hélt áfram tiltekinni leið í gegnum súlnagöng og hvelfingar.  Það sem fyrir augu bar, var bara fagurt og magnað á margan hátt.  Mér finnst rétt að geta þess að mér til nokkurs léttis var talsvert um að aðrir karlar klæddust eins og ég. Þar með hurfu efasemdir mínar um að hafa kannski tekið einhverja áhættu með klæðaburðinum. 
Ég er nokkuð viss um að það sé tilgangslítið að eyða tíma í að skrifa hér langan texta til að reyna að lýsa því sem þarna bar fyrir augu. Ég á ekki von á því að það nútímafólk sem ratar hingað inn, sé mikið að bögglast í gegnum þannig texta.
Þessvegna læt ég  bara duga að láta hér fylgja nokkrar myndir, sem lýsa nokkurnveginn því sem ég hefði annars eytt orðum á.





Í aðal salnum var á gólfinu stærsta handofna teppi veraldar, 
en það eru um 6000 ferm. Það var unnið af íranskri vefstofu. 

Það var aðdáunarvert hvað þessi leikskólabörn virtust vel upp alin.



Eins og búast mátti við, kom að lokum göngu okkar um hina miklu sali og súlnagöng moskunnar sem kennd er við Sjeikh Zayed.  Margt var hugsað og ýmsu gat maður velt fyrir sér. Mér finnst eftir þetta, sem fyrr, reyndar, að það sé sama hver trúarbrögðin eru, þeirra megin hlutverk er að stjórna mannshuganum. Á sama tíma og trúarsetningar, af öllu tagi, halda á lofti mikilvægi þess að trúa á algóðan guð og prediki um hið góða í heiminum sem við byggjum, þá eru þær jafnframt kjarninn í sem verst er í veröldinni: styrjöldum, kúgun og þjóðarmorðum. Þeim tekst einhvern veginn að kalla fram í manninum einhverja illsku í búningi manngæskunnar. Ótrúleg blanda það.  Það væri kannski vert að velta því öllu fyrir sér.
 


Eftir  heimsóknina í þessa miklu mosku  var komið við í verslunarmiðstöðinni þar sem fD keypti tvær slæður af sérstöku tilefni. Önnur var svartköflótt og hin rauðköflótt, eins og mín. Þarna útskýrði afgreiðslumaður muninn á þessum slæðum þannig, að hvítar væru algengastar í Dúbæ, rauðköflóttar í Saudi Arabíu og svartköflóttar í Palestínu. Þar með vissum við það og jafnframt meira en daginn áður.


Loks fengum við okkur ískaffi og smá meðlæti, áður en haldið var til baka í Sjálfbæru borgina í Dúbæ.

--------------------------

Nú er þar komið sögu, að hún er að verða búin. Ætli ég láti ekki verða af því að hnýta síðasta hnútinn í þessari miklu frásögn að ferð eldri borgara til Dúbæ í október, árið 2024 .............. næst.
   


17 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (10)

Framhald af þessu

Mánudagurinn 28. október átti nú ekki að vera neitt strembinn, en reyndist samt nokkuð umfangsmikill. Eyðimerkurævintýrið var að baki og framundan stóð til að fimmmenningarnir kynntu sér souk/souq - í elsta hluta Dúbæ. Souk þýðir markaður. Það var talið geta orðið heilmikið ferðalag, sem og varð. 

Klíníkin

Dagurinn hófst þó með því að það varð að ráði að ég færi til skoðunar á heilsugæslustöð, vegna þess sem heimafólk hafði greint sem "mygga", en reyndist vera aðeins meira, þegar alvöru egypskur læknir hafði greint stöðuna. Ég læt liggja milli hluta það sem þarna reyndist um að ræða, enda ástæða þess, að ég nefni þessa heilsugæsluferð sú, að þar var þjónustan ansi ólík því sem maður á að venjast hérlendis. Þarna fór ég á bráðamóttöku þar sem hjúkrunarfræðingur sagði mér að blóðþrýsingurinn væri ansi hár (varla við öðru að búast í aðstæðunum). Svo hringdi hann eitt símtal og sagði mér eftir það að fara upp á næstu hæð, þar sem læknir nánast beið eftir mér og átti við mig 5 mínútna viðtal. Skráði eitthvað í tölvuna og beindi mér síðan í apótek við hliðina, þar sem 5 mínútna bið skilaði lyfjum við kvillanum. Kviss ... pang.  Vissulega ber að geta þess, að þarna var um að ræða einkarekna klínik. Mér reiknast svo til að klukkutíminn hjá lækni þar kosti um það bil 140.000 krónur.
Ég sleppi því að ræða ástand opinbera heilbrigðiskerfisins hér á landi í þessu sambandi að öðru leyti en því að mér blöskrar hvernig búið er að fara með það, beinlínis til að gera það ófært um að sinna sjúklingum og opna þannig fyrir einkarekstur. Nei, ég skal reyna að halda aftur af mér .....  

Souk


Eftir þeta ævintýri mitt var lagt í hann í elsta hlut Dúbæ, þar sem markaður var starfræktur, en þrátt fyrir að ágangur sölumanna á svona mörkuðum teldist illþolandi, þótti heimsókn þangað mikilvægur þáttur í ferðinni.  Það var var ekki svalanum fyrir að fara í gönguferðinni í gegnum markaðinn. Þetta var svona markaður þar sem fólk gekk í gegn og sölumenn keppust við að ota að vegfarendum ilmvatnsprufum og það var nánast eins gott að staldra hvergi við. Það var allavega sú lína sem tekin var að mestu. Ég læt bara nokkrar myndir um að segja þessa sögu.








Kötturinn var ekki með rauð augu. 

Burj Al-Arab

Þegar heim var komið frá markaðnum lá fyrir að skella sér í kvöldverð í grend við eitt helsta kannileiti Dúbæ, Arabaturninn, eða seglið. Þetta er mikilfengleg bygging og að sögn eina 7 stjörnu hótelið í heimi.  Eftir ágæta máltíð  stóð til að komast nær þessari miklu byggingu, en það mun vera hægara sagt en gert, ef þú hefur ekki bókaða gistingu þar.  Við komumst þó svo nærri, að hótelið sást á myndum, baðað ljósi í ýmsum litbrigðum. Enn nokkrar myndir.

Eldflaugaárás? Nei, Photoshop.



Svo var bara enn einn sæludagurinn í sandkassanum kominn á það stig að nóttin tók við, þar sem safnað var kröftum fyrir síðasta þátt ferðarinnar: moskuna miklu í Abu Dhabi. Það var eins gott að vera klár í réttan útbúnað fyrir það ævintýri.







Bæði góður, en líka leiðinlegur.

Þ að er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna...