17 desember, 2025

Costa Rica (7) Matur

FRAM HALD AF ÞESSU

Eftir að ljóst var að farið var að fjara undan morgunfjöri fuglanna í Blue River, tók við morgunverður og fljótlega eftir það beið hópsins næsta atriði á dagskránni. 
Þarna skammt frá er fjölskylda sem ástundar það, að taka við ferðahópum til að kynna þeim matargerð heimamanna. Þessi starfsemi þeirra ber heitið La Cocina de Mayrita. Þetta reyndist talsvert áhugaverð heimsókn.
Aftur kom  sami bíll og hafði flutt okkur í gönguna daginn áður og flutti hópinn í tveim ferðum svona tíu mínútna akstursleið. Sem fyrr gerði ég mér enga grein fyrir áttum, en með því að leita að svona "cocinu" í grennd við bækistöðvar okkar, rakst ég á  facebook síðu og bar kennsl á fjölskylduna sem þarna tók á móti okkur. Þarna er um að ræða hjón, ásamt þrem stálpuðum börnum sínum og konu sem sá um uppvask. Húsfreyjan stýrði þessu öllu og börnin héldu hvert um sig utan um ákveðna þætti eldamennskunnar.  


Það sem einna fyrst vakti athygli, þegar við komum inn í allstóran sal (veggjalausan, að sjálfsögðu) var kyrkislanga, sem hafði komið sér fyrir inni í einum veggnum. Hún var afar digur um miðjuna og þar með í miðjum klíðum að melta einhverja bráð og ekki líkleg til stórræða. Samt stafaði af henni ákveðinni sálrænni ógn og þar sem hún færði sig smám saman til inni í rimlaútveggnum, færði fólk sem sat við borð í nágrenninu sig aðeins í burtu, hægt og hljótt. Heimamenn létu sér fátt um finnast, enda slangan ekki af þeirri stærð sem myndi ráða við að kyrkja fólk. Þar kom, að vanir menn tóku sig til og handsömuðu gripinn. Þeir stóðu afskaplega varlega að því verki, af einhverjum ástæðum. Þannig þurfti að grípa slönguna, rétt fyrir aftan hausinn svo ekki yrði vessen, væntanlega. Hvað varð svo um hana eftir það, veit ég bara ekki. Sennilegast var farið með hana eitthvert út í skóg.



Að slöngunni slepptri, fólst heimsóknin aðallega í tvennu:
1. Hópurinn fékk kennslu í að fletja út deig þannig, að úr yrðu kringlóttar hveitikökur. Börnin gengu á milli og leiðbeindu og gerðu athugasemdir. Að því búnu fór hver með sína köku og brá henni á steikarplötu (einnig með leiðbeiningum). Á meðan gekk húsfreyjan á milli og sýndi hvernig ostur var búinn til úr mjólk, svo eftir varð mysa, sem kálfinum á bænum var síðan gefin úr pela.  Ostinn fengum við síðan á kökuna okkar, ásamt sýrðum rjóma (held ég) og svo Lizano Salsa sósu. 
Þetta varð forrétturinn okkar. 


2. Aðalrétturinn var svo unninn í sameiningu og fékk fólk þar að snerta á og taka þátt í ýmsum þáttum matreiðslunnar frá grunni. Þar var sko handagangur í öskjunni. Ég hygg að mitt stærsta hlutverk við matseldina hafi verið að djúpsteikja banana. Þarna er ekki um að ræða banana eins og við erum vön hér, heldur einhverskonar matarbanana. Eftir að búið var að steikja þá voru þeir einna líkastir frönskum kartöflum og gegndu einhverju slíku hlutverki með matnum.



Allt að verða klárt og fólk bíður matarins.

Á þessari græju var eldað.

Fjölskyldan sem stýrði matarupplifuninni

Þarna var eldað af kappi og að því kom, að allt var klárt og við gengum að hlaðborði og fylltum á diskana okkar.
Svona leit minn réttur út og þarna má meðal annars sjá steiktu banana. Þetta bragðaðist aldeilis ágætlega, eins og reyndar allur maturinn í þessari ferð. 


Eftir matinn hellti húsfreyjan upp á ágætt kaffi, meðan slangan hélt áfram að fikra sig eftir rimlaútveggnum, en hætti sér aldrei inn fyrir.


Þarna í kring voru, á meðan á matarstandinu stóð, allskyns dýrategundir, t.d. þrír hundar, kálfur, gæs, hegrar, kettir, endur og fleira. Þá var þarna fyrir utan maður með langa stöng sem hann notaði til að ná í kókoshnetur, sem hann hjó síðan eftir kúnstarinnar reglum.  






Þetta var ágætis heimsókn bara og nú var framundan slökun á Blue River og frekari könnun á staðháttum.  Það var þennan dag, eins og nokkra aðra í ferðinni, að maður gat ekki sé fyrir hvenær himnarnir helltu úr sér og oft gerðist það án nokkurs fyrirvara, til dæmis eftir að við vorum komin aftur til Blue River úr  matarferðinni. Þarna fékk maður smjörþefina af því hvað raunveruleg rigningardemba er.


Framundan var síðasta nóttin á þessu skemmtilega svæði, morguninn eftir var haldið í talsvert langa keyrslu til næsta áfangastaðar, sem var La Fortuna, en meira það síðar.

FRAMHALD SÍÐAR

16 desember, 2025

Costa Rica (6) Fuglar

FRAMHALD AF ÞESSU

Mánudagurinn 17. nóvember rann upp í kringum fótaferðartíma okkar fD um miðja nótt. Á endanum fór að birta og framundan fuglaskoðun með Alejandro, en hún skyldi hefjast um kl. 6. Nokkru áður var orðið nógu bjart til að kíkja út, í þeirri von að einhverjir fuglar væru snemma á fótum. Þar með hélt ég út fyrir hússins dyr með myndavélina og áfesta stóru lisnuna mína. Nú skyldi hún fá að njóta sýn. Ekki var ég lengi búinn að bíða á pallinunm fyrir framan húsið, áður en hreyfinga varð vart í trjágróðrinum fyrir framan.


Meðal fiðurfjárins sem þarna nuddaði stírurnar úr augunum var íðilfagur TOUKAN:




Reyndar á ég haug af myndum í viðbótar af þessum gesti, en það verður að draga línu í sandinn. 

Nú var klukkan að verða sex og þá safnaðist hópurinn, sem ekki hafði ákveðið að koma ekki í þessa fuglaskoðun, eða þá svaf yfir sig, saman á tilteknum stað þar sem Alejandro var fyrir með kíkinn sinn á þrífæti. Í gegnum hann fékk fólk síðan að skoða fuglalífið sem við blasti, en ég lét mér nægja stóru linsuna mína. 

Hér fyrir neðan er hluti afrakstursins af þessum morgni.  Ég get þess, að ég freistaði þess að leita uppi heiti fuglanna, en tek ekki ábyrgð á því hvort ég hef fundið rétta greiningu. Það væri gaman að fá skilaboð um það frá þeim sem vita betur og ekki myndi ég afþakka íslensk nöfn þeirra, eftir því sem til eru.












... væntanlega bætast fleiri undradýr við, þótt síðar verði.
Þetta læt ég duga af fuglaskoðun við Bláá.

Costa Rica (5) Meira nágrenni

FRAMHALD AF ÞESSU
 Það bar eðlilega margt nýstárlegt fyrir augu á göngunni að fossinum, sem tæpt var á í síðasta kafla, og þar á meðal voru bleikir bananar, en fleira bar fyrir augu eftir að aftur var komið í bækistöðina á Blue River.

Eins og áður er nefnt notuðum við síðdegið til að kanna aðeins nánar aðstæður á staðnum. Þar voru allskyns stígar, þvers og kruss og alls ekki auðratað fyrir fólk af okkar tagi, enda fór svo að við villtumst af réttri leið, en fundum hana svo á ný. Þetta er stórt svæði og margt hægt að gera. Þarna voru leirböð og náttúrugufubað, krókódílatjörn, fiðrildahús, og spa, svo eitthvað sé nefnt. Við fundum heita potta, sundlaugar, leirböðin og gufubaðið, fóðurstöð fyrir kólibrífugla, grasagarðinn og fleira, en ýmislegt fundum við aldrei, enda ekki tími til mikillar leitar. 
Skoðunarferðin hófst með því við skelltum okkur í ágætan heitan pott:

Mynd af vef.


Leirböðin. Þar makaði maður sig í leir úr leirpotti. Svo var bara farið í útisturtu á eftir. Hvað leirinn átti að gera manni, veit ég ekki, þó ég hafi nú aðeins makað á mig.

Leirpotturinn

Þarna fjærst er gufubaðið, sem er ansi magnað þegar inn er komið, en ekki fann ég leið til að mynda þar innan dyra - vegna gufu.
Allmargir kólibrífugla voru að sveimi í kringum fóðurstöðvar sem hafði verið komið fyrir.

Það næsta sem við sáum svo af kólibrí var, þegar Carlos hafði bjargað einum úr sjálfheldu, þannig að við gátum virt hann fyrir okkur í návígi. 

Alejandro sat ekki heldur auðum höndum og áður en við var litið var hann búinn að koma auga á letidýr í trjátoppi. Ég held að mér hafi tekist að koma auga á það, en er ekki viss. Alejandro var búinn að stilla upp sjónaukanum sínum, á þrífæti og þar í gegn gátum við virt letingjann fyrir okkur. Svo tók A.  þessa mynd á símann minn í gegnum sjónaukann.


Þetta mun hafa verið ungt dýr og mig  minnir að sérfræðingurinn okkar hafi sagt að um kvendýr væri að ræða. Það fylgdi sögunni, að letidýr héldi sig að mestu í trjákrónum, en um það bil vikulega klifraði það til jarðar til að sinna frumþörfum.
Þarna var ég bara með litlu, biluðu linsuna á myndavélinni og lét því þessa duga, en verð að viðurkenna að hún er bara ansi góð og fæ ekki betur séð en dýrið hugsi sem svo, með nokkrum þóttasvip: "Reyniði bara að ná mér, manndýrin ykkar!"

Þetta er orðið frá þessum sunnudegi, 16. nóvember. Framundan var að búa sig undir að vakna fyrir allar aldir daginn eftir til að fara í fuglaskoðun með stóru linsuna klukkan 6. Eitt augnablik hvarflaði að mér, hvort ég ekki kannski að láta símann vekja mig. Það var áður en það rann upp fyrir mér, að þá yrði klukkan 12 á hádegi á Íslandi, svo ég hætti snarlega við. Enda kom í ljós, að við vorum bæði sprottin á fætur um 3.30 og trúðum því að aðlögun okkar að tímamuninum væri komin vel á veg.




14 desember, 2025

Costa Rica (4) - Nágrennið

FRAMHALD AF ÞESSU
Þegar til átti að taka morguninn eftir pg umhverfið blasti við í dagsbirtu, að ég uppgötvaði, mér til allmikillar hrellingar, að venjulega myndavélarlinsan mín (EFS 17-85mm) var biluð - föst í upphafsstillingu. Þetta setti ýmislegt úr skorðum. Ég hafði tekið með mér báðar linsurnar mínar í handfarangri og varla sleppt af þeim  augunum yfir höf og lönd. Sem betur fer reyndist hin linsan (EF 100-400mm USM) virka eins og skyldi.  Það þýddi ekkert að æðrast yfir þessari stöðu, stóra linsan fengi þá bara víðtækara hlutverk.

Morgunverðurinn

Þessi 3ji dagur ferðarinnar, sunnudagurinn 16. nóvember, hófst með morgunverði á veitingastaðnum. Honum var þannig háttað, að ákveðin tegund morgunverðar var innifalinn í dvölinni og ef þú vildir eitthvað umfram það, var hægt að panta það og greiða fyrir.  
Grunnmorgunverðurinn fólst í tveim tegundum af brauðsneiðum (sem hægt var að rista) með smjöri og hlaupsultu, einum þrem tegundum af ávöxtum og tveim til þrem tegundum af sætum kökum af einhverju tagi. Svo var ávaxtasafi og kaffi einnig á boðstólnum. Ég lét mér þetta bara vel líka, enda laus við valkvíða gagnvart stórum morgunverðarhlaðborðum. Það átti ekki við um alla og einhverjir keyptu sér líklega annarskonar morgunverð.  Þetta mál þróaðist þannig, að fararstjórarnir okkar, áhyggjufullir yfir mögulegum próteinskorti ferðalanganna, komu því svo fyrir að við gátum pantað okkur, úr þeirra vasa, eggjahræru (scrambled eggs) til viðbótar við grunnmorgunverðinn. Ekki varð ég var við að morgunverðurinn þennan fyrsta morgun, kæmi niður að getu hópsins í átökunum sem framundan voru þennan daginn.

Gangan að fossinum

Megin viðfangsefni þessa dags var gönguferð. Vandi minn og mögulega annarra í hópnum var, að ég áttaði mig engan veginn í hvaða átt var haldið frá  bækistöðinni. Bæði vegna þess, að við vorum á kafi í skógi og þar með engin sjáanleg kennileiti og svo var sólin, þegar hún birtist milli skýjanna, það hátt á lofti að hún hjálpaði lítið. 
Hvað um það, við mættum til brottfarar fljótlega eftir morgunverðinn og hafði verið bent á að búnaður okkar skyldi taka mið af því að við gætum skellt okkur í sund undir fossi. Við fD ákváðum að láta mögulegar sundferðir eiga sig að þessu sinni. Ég hugðist bara einbeita  mér að myndatökum.
Svo kom þarna 12 manna sendibíll og flutti helming hópsins á tiltekinn stað. Sá helmingur beið svo þar með Alejandro, þar til bíllinn kæmi aftur með hinn hluta hópsins. Við fD vorum í fyrri hlutanum sem beið.  Alejandro beið þarna með okkur og sá allskyns dýr og benti okkur á. 
Ég varð oft undrandi á því í ferðinni yfir því hvernig honum tókst að greina fugla, eða önnur dýr, hvort sem var í trjátoppum eða á jörðu niðri. Það má kannski skoða það sem ástæðu, að þú lærir á minnstu smáatriði í umhverfinu sem þú býrð alla jafna við. Þarna var ég stöðugt að rýna í trjáþykknið, en sá sjaldnast nokkuð, jafnvel ekki þó Alejandro reyndi að benda á það.  
Dæmi um hvað hann var naskur á umhverfið átti sér stað meðan mið biðum þarna eftir seinni hópnum. Þá benti hann okkur allt í einu á maur á trjástofni, sem ég átti fullt í fangi þeð að sjá í fyrstu, eiginlega ekki fyrr en maðurinn benti á hann með greinarstúf. 


Hér fyrir neðan er svo stækkuð mynd af maurnum. Því miður var ég bara með biluðu linsuna og varð því að fara eins nærri maurnum og ég þorði:


Alejandro tjáði okkur að þessi maur væri varasamur. Hann kallðist "Bullet-ant"- um 3 cm langur (held að það sé rétt munað hjá mér). Stunga hans er eins og maður fái í sig skot úr byssu, sem sagt frekar sársaukafullt líklega. Bólga í stungusárinu og sársauki getur varið í meira en einn dag. Það var, sem sagt ástæða fyrir því að ég hætti mér ekki nær til myndatöku.

Fyrri hluti hópsins bíður eftir þeim seinni og hlustar andaktugur á Alejandro.

Þegar seinni hluti hópsins  kom var haldið af stað í göngu upp með á sem ég reyni að vera viss um að heiti Río Azul, eða Bláá. Nafnið er augljóslega til komið vegna bláma vatnsins í henni, en það á rætur að rekja til eldfjallasvæðisins sem hún kemur frá, full af steinefnum, sem sagt.
Myndir segja meira um gönguna upp með ánni, svo ég læt þær duga fyrst um sinn. (bara smella á þær til að fá stærri útgáfu (þetta vita nú allir)









Þetta var ævintýralegt umhverfi og fagurt. Þar kom að hópurinn kom að fossi, sem ég hygg að sé kallaður Las Choreras vef Kúbuferða. Þennan foss hef ég ekki fundið á Google maps og þar með varð erfiðara hjá mér að átta mig á áttum á þessu svæði, ekki það að það hafi neitt breytt upplifuninni.
Þarna var kominn fossinn þar sem fólki gafst færi á að fækka fötum og skella sér ofan í tjörn undir fossinum og það gerðu flestir.





Ég var bara eitthvað að dunda mér með myndavélina með biluðu linsunni. Og rakst þá meðan annars á leðurblökur í skýli sem þarna var. 

Fossbaðinu lauk og 12 manna bíllinn flutti okkur aftur í bækistöðvarnar, þar sem við nýttum það sem eftir lifði dags við að kanna umhverfið aðeins betur og fara í heita pottinn.





Costa Rica (7) Matur

FRAM HALD AF ÞESSU Eftir að ljóst var að farið var að fjara undan morgunfjöri fuglanna í Blue River, tók við morgunverður og fljótlega eftir...