25 desember, 2025

Costa Rica (10) Fáninn, torgið og jólaskrautið

FRAMHALD AF ÞESSU

Áður en ég fer að fást við hengibrýr síðdegisins, læt ég viðfangsefnið snúast um jólatorgið í La Fortuna, en þar hófst miðvikudagurinn 19. nóvember.  Hópnum var sleppt lausum á torginu og naut þess að vera frjáls  í nokkurn tíma. Vð nýttum hann meðal annars til að rölta umhverfis jólaskreytingarnar, sem þarna var að finna og fannst þær nokkur ýktar, sumar hverjar, en þær voru líklega ágætar fyrir sinn hatt, þó fremur óíslenskar væru þær, ef maður leit þannig á.

Hér er umrætt torg:

Stærsta byggingin sem þarna er að finna er kirkja, Iglesia de La Fortuna de San Carlos, heilmikil bygging og þegar maður stendur fyrir framan hana blasir eldfjallið Arenal við í bakgrunnni, þ.e. þegar það sést í það á annað borð. Við fD eyddum tímanum sem þarna var til reiðu til að rölta þarna allt um kring, skoða jólaskreytingarnar, verslanirnar, veitingahúsin og krikjuna. 

Mér kom í hug, þar sem fáni landsins var talsvert áberandi þarna, að ég þyrfti að kynna mér eitthvað meira um hann, hann er talsvert yngri en íslenski fáninn, eða frá 1948. Landið varð lýðveldi árið 1949, eftir stutt borgarastríð. Áður var það hluti af Mið-ameríska sambandslýðveldinu, sem þá var hætt að virka sem slíkt. Hvað um það, fáninn ber sömu liti og sá íslenski og fleiri fánar, blár, hvítur og rauður.  
Fáni sambandslýðveldisins hafði verið blár-hvítur-blár, en þegar lýðveldið var stofnað á Costa Rica var rauða fletinum bætt við og átti hann að tákna siðmenningu aldarinnar og fyrstu geisla sólarinnar yfir nýfengið sjálfstæði, hlýju íbúanna og örlæti, ást þeirra á lífinu og blóð þeirra sem létust í baráttu fyrir frelsi þjóðarinnar.
Blái liturinn táknar himininn, tækifærin sem blasa við, vitsmuni, þrautseigju, óendanleikann, eilífðina og fleira.  Hvíti liturinn á að tákna skýra hugsun, hamingju, visku, kraft og fegurð himinsins og frumkvæði í vitleitninni til að leita nýrra leiða og frið í landinu.
Ég verð nú að segja, að mér finnst þetta nú vera dálítið flókið táknkerfi og datt strax í hug að blái liturinn hlyti að tákna höfin sitthvorumegin við landið, sá hvíti merkti hreinleikann og mögulega strandirnar, sá rauði eldfjöllin sem er að finna eftir því endilöngu. En ég er nú bara ég. 

Þarna vorum við sem sagt á skreyttu torginu og virtum fyrir okkur jólaskreytingarnar, gengum einn góðan hring og skoðuðum það sem fyrir augu bar, meðal annars kirkjuna.





Útsýni til Arenal frá veitingastað við torgið.

Ég vil halda því fram, að hér sé um að ræða
þjóðartré Costa Rica: Guanecaste tréð.

Sé inn eftir kirkjunni í La Fortuna.
Þegar við svorum svo búin að kynnast torginu og næsta nágrenni, var kominn tími til að hefja stærsta verkefni dagsins, sem fólst í því að renna með rútunni um það bil hálftíma akstur að miklu regnskógarsvæði sem kallast Mistico Park - dularfullt svæði og fólkið mishikandi við að takast á við það sem þar myndi bíða þess.



Af því ferðalagi segir næst.



21 desember, 2025

Costa Rica (9) - Auðsæld, vötn og eldfjall

FRAMHALD AF ÞESSU

Enn verð ég að játa skort minn á umhverfislæsi. Vissulega var mér ljóst, að leið okkar, eftir að hafa komið við hjá friðartrénu (Arbol del Paz), myndi liggja í suðurátt, en einhvern veginn greyptist það í huga minn, að leiðin lægi fyrir vestan  flekaskilin, eða fjallgarðinn, eða hvað svo sem hálendið, sem liggur eftir endilangri Mið-Ameríku kallast. Ég var svo viss í minni sök, að mér meira að segja blöskraði þegar Alejandro og Guðni átu það hvor upp eftir öðrum að það hefði orðið eldgos í vesturhlíðum Arenal, eldfjallsins, en ekki austurhlíðum! "Þekkja þessir menn ekki muninn á austri og vestri?" hvíslaði púkinn á vinstri öxlinni á mér. Ég var á þessum tímapunkti alveg viss um, að við værum á leið til staðar, sem er við rætur Arenal, vestan megin.  Ég var eiginlega ekki í rónni fyrr en ég var búinn að komast að því, á korti af svæðinu, að bærinn La Fortuna (Auðsældin t.d.) er austan fjallsins og þar með í skjóli frá eldgosahrinu í Arenal, sem hófst 1968 og stóð með hléum til 2010, með smá gusti 2013. 
Hér fyrir neðan má sjá, á korti, ranghugmyndir mínar um leiðina. Rauða línan sýnir leiðina, svona nokkurnveginn, sem ég taldi okkur vera að fara, en sú gula, raunverulega leið. Sannarlega hefði átt að átta mig strax á þessari vitleysu, en ég bara gerði það ekki. Þannig vissi ég það vel, að leiðin lá upp undir landamæri Nicaragua.  Ætli sé ekki best að ég segi bara ekki meira um þetta mál.


Ekki mynd úr ferðinni.

La Fortuna, Los Lagos, Arenal

Segir ekki af ferð okkar fyrr en við komum í bæinn La Fortuna. Yfir honum gnæfir eldfjallið, Arenal, 1,633 metra hátt, keilulaga og á toppi þess er gígur sem er 140 m. í þvermál. Arenal telst til ungra eldfjalla, minna en 7500 ára gamalt.


Við áttum ekki viðdvöl í La Fortuna í þetta skiptið, heldur héldum áfram sem leið lá, til ferðamannasvæðis (resort) rétt hjá, sem heitir Los Lagos (Vötnin).  Það var nú nokkuð undarlegur staður, svo undarlegur að ég nánast gleymdi bara að taka myndir þar.  Þetta er sem sagt sannkallað "svæði"  og ég held að kort af því lýsi því bara best. 

Los Lagos Resort
Neðst vistra megin er aðkoman að svæðinu og móttaka. Þarna fengum við lykil að herberginu okkar, án þess að hafa hugmynd um hvað biði okkar í þeim efnum. Því næst fluttum við farangur úr rútunni yfir í smárútu á vegum hótelsins. Því næst stigum við upp í aðra smárútu, sem ók með okkur á áfangastað, upp talsverða brekku í átt að eldfjallinu og þar biðu töskurnar okkar fyrir utan einskonar þríbýli (guli hringurinn á kortinu.  Við komumst að því, þegar við gengum þessa leið einu sinni (niður á við), að hún er um 800 metrar.
Herbergið (mynd af Tripadvisor)
Þegar inn var komið vorum við stödd í risastóru herbergi, með tveim tvöföldum rekkjum, eins og á Blue River.  Þetta var einkar glæsileg aðstaða, umlukin ótrúlegasta gróðri, eins og nærri má geta. 

Þarna hlaut að vera í gangi eitthvert skipulag við að flytja gesti þessa "hótels" milli staða. Varla var til þess ætlast að við bara værum þarna allan tímann í glæsilegu raðhúsinu. Auðvitað ekki. Ef við ætluðum að hreyfa okkur, t.d. fara í mat, þá bara hringdum við, og áður en við var litið, var komin smárúta til að keyra okkur hvert sem við vildum, innan svæðisins. Reyndar höfðum við, þann tíma sem við dvöldum á þessum dásamlega stað, samvisku af því að láta aumingja bílstjórana vera stöðugt að eltast við einhverja dynti í okkur, svo oftast reyndum við og nágrannarnir, að samaeina okkur í bíl. 



Við vorum varla búin að leggja niður töskurnar, þegar annar nágranninn kallaði og benti okkur á að koma út, bakdyramegin (já, það voru bæði fram- og bakdyr á herberginu). Þar blasti við undarlegur fugl í berjarunna og týndi í sig berin. Atarna var skrítið fyrirbæri, einna líkastur hænu, en miklu stærri, prílandi þarna efst í berjarunnanum, alls óhræddur við mig þar sem ég athafnaði mig með myndavélina. 
 
Cauca Guan (Penelope perspicax) - eftir því sem ég kemst næst.
Þessi fugl er um 85 cm langur og vegur um 1.6 kg.
 

   

Það leið ekki á löngu áður en annað dýr birtist okkur, þessu sinni þar sem við sátum og virtum fyrir okkur Arenal eldfjallið fyrir ofan okkur.  Þetta dýr var greinilega af ætt þvottabjarna (racoon) og við nánari skoðum þóttumst við komast að því að um væri að ræða svokallaðan nefbjörn (Nasua Nasua). Þetta dýr kom alloft fyrir augu okkar og einu sinni, meðan við dvöldum í Los Lagos birtist heil fjölskylda í brekkunni fyrir utan raðhúsið okkar.  Svo merkilegt sem það nú er, þá náði ég aldrei mynd af þessu dýri, þar sem svo vildi til að vélin var aldrei við höndina þegar því brá fyrir. Því miður verð ég að láta mynd af Wikipedia duga.  Fyrsti gestur okkar af þessari tegund birtist rétt fyrir utan herbergið okkar og ég kallaði á hann, með mínum hætti, hann leit upp og rölti síðan í átt til mín (líklegaga í von um bita), en þar sem ég hafði þá ekki upplýsingar um hvort þarna væri á ferðinni varasamt dýr, afturkallaði ég kallið, og nefbjörninn hélt leiðar sinnar, að næstu ruslafötu, fann ekkert þar og hvarf á braut.


Ekki leið á löngu áður en þriðja dýrið gladdi okkur með návist sinni. Að þessu sinni var það fremur smávaxin eðla af óskilgreindri tegund.


Svo söfnuðum við nágrannarnir í hópferð á veitingastaðinn, hringdum og bíllinn kom strax, ágætri máltíð voru gerð góð skil og svo tók nóttin við, og framundan ævintýri komandi dags.

FRAMHALD SÍÐAR




19 desember, 2025

Costa Rica (8) Himinblá á og tré

FRAMHALD AF ÞESSU

Ég hef áður minnst á það, að ég vissi í rauninni ekkert hvernig leið okkar lá um Costa Rica, utan, auðvitað, að kort af leiðinni fylgdi ferðagögnum. Ég var bara ekkert með ferðagögnin á mér og beindi athyglinna að einhverju öðru í staðinn. Það skipti svo sem ekki miklu hvert leiðin lá hverju sinni, heldur snérist þetta um að njóta þess sem bar fyrir augu.
Carlos bílstjóri og Guðni farastjóri
vinna að því að koma fólkinu í rútuna.
Það var í rauninni ekki fyrr en ég ákvað að setjast niður og taka saman yfirlit um ferðalagið, sem ég áttaði mig á mikilvægi þess, að hafa nokkuð á hreinu hvernig þeir vegir sem ekið var um lágu og hvar þeir staðir sem komið var við á, voru. Viti menn, mér tókst með aðstoð símans míns að finna út úr þessu, ekki síst vegna þess að allar myndir sem ég tók á hann, eru nákvæmlega merktar inn á kort. Þetta var mikilvæg uppgötvun fyrir framhaldið.

Þegar hér var komið var kominn þriðjudagurinn 18. nóvember og framundan lengsti akstur í þessari ferð, um 170 kílómetrar, sem google segir að taka tæpa 4 klst. ef hvergi væri áð, en það lá fyrir, að áningarstaðir yrðu í það minnsta þrír.
Hér fyrir neðan er kort af leiðinni sem ekin var þennan dag, frá bækistöðinni við Blue River (Río Azul/Bláá) til Los Lagos (Vatnanna/Stöðuvatnanna), en þar beið okkar gisting næstu þrjár nætur.

Ég tók nokkrar myndir á simann út um rútuglugga á leiðinni,
en þær eru númeraðar, eftir því sem ferðinni vatt fram.

Það voru símamyndirnar sem sýndu mér fram á það, að ferðin þennan dag hófst með því að ekið var í norður, í átt að Nicaragua. Þegar komið var að bæ eða þorpi sem ber nafnið Brasilia, var svo beygt til hægri.

Í grennd við Brasilia. Börn að leik fyrir utan heimili sitt,
og hestur á beit hálfur ofan í læk.


Eftir það bar svo sem fátt til tíðinda, en ég tók myndir við og við til að halda til haga umhverfinu sem við ókum um.


Það verður ekki sagt að í norðurhluta Costa Rica búi fólk við ríkidæmi á vestrænan mælikvarða, en ekki virtust börnin sem urðu á vegi okkar, vera neitt illa haldin, eða óhamingjusöm. Ríkidæmi felst nefnilega ekki bara í flottum húsum, glæsikerrum, eða feitum bankareikningum.

Segir nú fátt af ferð okkar fyrr en við komum til Upala, sem er um 15.000 manna bær og þar er tækniskóli á miðstigi að minnsta kosti, flugvöllur og spítali. Ekki áttum við neina viðdvöl þar, heldur var tekin beygja til hægri og haldið í suðurátt, allt þar til er við komum  til Bijaga de Upala sem er í Alaujela héraðinu.  Þar réttum við úr fótunum og okkar beið ágætur hádegisverður, á veggjalausum veitingastað. Þar valdi maður bara grunn (hrísgrjón af ýmsu tagi, baunir, grænmeti, ávexti) og síðan kjöttegund með. 
Eftir hádegisverðinn lá leiðin inn á einskonar þverveg í austurátt og ætlunin að kíkja aðeins á tvö áhugaverð náttúrufyrirbæri.

Þrír ferningar, f.v. hádegisverðarstaðurinn, Río Celeste (Himinbláa áin), Arbol de la Paz (Friðartréð)

Río Celeste

Við renndum yfir brú á Río Celeste, en handan hennar stöðvaði Juan Carlos, bílstjóri, og við fengum aðeins að kynna okkur þessa ágætu á, sem er himinblá á litinn, vegna allrei steinefnanna sem hún er mettuð af, enda er hún upprunnin á eldfjallasvæði. Þessi staður virðist hafa talsvert aðdráttarafl og þarna kom fólk bæði til að skoða og stunda böð. Við vorum nú bara á leið framhjá og því var ekki stansað lengi, en nóg til þess þó, rölta niður að ánni og taka myndir. Enginn úr hópnum lét vaða út í, enda kunnum við ekki á þær siðareglur sem gilda varðandi sundspretti á þessum stað. Sáum þó nokkra stunda einhverskonar böð.





Annar fararstjórnanna, hann Carlos átti afmæli flesta daga þessarar ferðar og því við hæfi að taka af honum eins og eina mynd á þessum stað, ásamt "unglingnum" honum Sighvati.

Arbol de la Paz

Áfram var svo haldið til austur um stund, en þá komum við á stað sem ekki lætur mikið yfir sér. Það er staðurinn þar sem friðartréð mikla er að finna.
Ekki neita ég því, að þessi risi er ansi áhrifamikill í látleysi sínu og risastærð. Þetta er ekki trjátegund sem hægt væri að rækta á Íslandi. Heiti þess mun vera Kapok/Ceiba (Ceiba pentandra), en mér hefur ekki tekist að finna íslenskt heiti á því. Mælingar á því, sem ég fann hér, greina frá því að við mælingu á því árið 2021 haf komið í ljós, að í 1.30 m hæð var ummál þess 22,55m og hæðin tæpir 50 metrar. Talið er að því hafi verið plantað þarna, eða sáð í kringum 1650 AD ± 200 ár, sem þýðir að það er 375 ± 200 ára gamalt. 
Á skilti sem er að finna við tréð stendur: 

Arbol de la Paz
Comite de recursos naturales XL semana de concervacion
4-10 Junio 1989
Friðartré
Náttúruauðlindanefnd XL Náttúruverndarvika
4-10 júní 1989

Ég vísa þessu máli til þeirra sem vita meira um þetta tré og sögu þess. Hér eru myndir af því:





Eftir sæmilegan tíma í undrun og aðdáun, stigum við ferðafélagarnir aftur um borð í rútuna, héldum svo áfram til austurs um stund, en þá lá leiðin til suðurs, til móts við eldfjallið Arenal, sem rís til himins fyrir ofan dvalarstað okkar næstu þrjár nætur: Los Lagos.


Ef einhver skyldi ekki átta sig á því, þá má fá stærri útgáfu af myndum með því að smella á þær. 😜  Þá ítreka ég, að tölustafir á myndum vísa til kortsins efst. 




17 desember, 2025

Costa Rica (7) Matur

FRAM HALD AF ÞESSU

Eftir að ljóst var að farið var að fjara undan morgunfjöri fuglanna í Blue River, tók við morgunverður og fljótlega eftir það beið hópsins næsta atriði á dagskránni. 
Þarna skammt frá er fjölskylda sem ástundar það, að taka við ferðahópum til að kynna þeim matargerð heimamanna. Þessi starfsemi þeirra ber heitið La Cocina de Mayrita. Þetta reyndist talsvert áhugaverð heimsókn.
Aftur kom  sami bíll og hafði flutt okkur í gönguna daginn áður og flutti hópinn í tveim ferðum svona tíu mínútna akstursleið. Sem fyrr gerði ég mér enga grein fyrir áttum, en með því að leita að svona "cocinu" í grennd við bækistöðvar okkar, rakst ég á  facebook síðu og bar kennsl á fjölskylduna sem þarna tók á móti okkur. Þarna er um að ræða hjón, ásamt þrem stálpuðum börnum sínum og konu sem sá um uppvask. Húsfreyjan stýrði þessu öllu og börnin héldu hvert um sig utan um ákveðna þætti eldamennskunnar.  


Það sem einna fyrst vakti athygli, þegar við komum inn í allstóran sal (veggjalausan, að sjálfsögðu) var kyrkislanga, sem hafði komið sér fyrir inni í einum veggnum. Hún var afar digur um miðjuna og þar með í miðjum klíðum að melta einhverja bráð og ekki líkleg til stórræða. Samt stafaði af henni ákveðinni sálrænni ógn og þar sem hún færði sig smám saman til inni í rimlaútveggnum, færði fólk sem sat við borð í nágrenninu sig aðeins í burtu, hægt og hljótt. Heimamenn létu sér fátt um finnast, enda slangan ekki af þeirri stærð sem myndi ráða við að kyrkja fólk. Þar kom, að vanir menn tóku sig til og handsömuðu gripinn. Þeir stóðu afskaplega varlega að því verki, af einhverjum ástæðum. Þannig þurfti að grípa slönguna, rétt fyrir aftan hausinn svo ekki yrði vessen, væntanlega. Hvað varð svo um hana eftir það, veit ég bara ekki. Sennilegast var farið með hana eitthvert út í skóg.



Að slöngunni slepptri, fólst heimsóknin aðallega í tvennu:
1. Hópurinn fékk kennslu í að fletja út deig þannig, að úr yrðu kringlóttar hveitikökur. Börnin gengu á milli og leiðbeindu og gerðu athugasemdir. Að því búnu fór hver með sína köku og brá henni á steikarplötu (einnig með leiðbeiningum). Á meðan gekk húsfreyjan á milli og sýndi hvernig ostur var búinn til úr mjólk, svo eftir varð mysa, sem kálfinum á bænum var síðan gefin úr pela.  Ostinn fengum við síðan á kökuna okkar, ásamt sýrðum rjóma (held ég) og svo Lizano Salsa sósu. 
Þetta varð forrétturinn okkar. 


2. Aðalrétturinn var svo unninn í sameiningu og fékk fólk þar að snerta á og taka þátt í ýmsum þáttum matreiðslunnar frá grunni. Þar var sko handagangur í öskjunni. Ég hygg að mitt stærsta hlutverk við matseldina hafi verið að djúpsteikja banana. Þarna er ekki um að ræða banana eins og við erum vön hér, heldur einhverskonar matarbanana. Eftir að búið var að steikja þá voru þeir einna líkastir frönskum kartöflum og gegndu einhverju slíku hlutverki með matnum.



Allt að verða klárt og fólk bíður matarins.

Á þessari græju var eldað.

Fjölskyldan sem stýrði matarupplifuninni

Þarna var eldað af kappi og að því kom, að allt var klárt og við gengum að hlaðborði og fylltum á diskana okkar.
Svona leit minn réttur út og þarna má meðal annars sjá steiktu banana. Þetta bragðaðist aldeilis ágætlega, eins og reyndar allur maturinn í þessari ferð. 


Eftir matinn hellti húsfreyjan upp á ágætt kaffi, meðan slangan hélt áfram að fikra sig eftir rimlaútveggnum, en hætti sér aldrei inn fyrir.


Þarna í kring voru, á meðan á matarstandinu stóð, allskyns dýrategundir, t.d. þrír hundar, kálfur, gæs, hegrar, kettir, endur og fleira. Þá var þarna fyrir utan maður með langa stöng sem hann notaði til að ná í kókoshnetur, sem hann hjó síðan eftir kúnstarinnar reglum.  






Þetta var ágætis heimsókn bara og nú var framundan slökun á Blue River og frekari könnun á staðháttum.  Það var þennan dag, eins og nokkra aðra í ferðinni, að maður gat ekki sé fyrir hvenær himnarnir helltu úr sér og oft gerðist það án nokkurs fyrirvara, til dæmis eftir að við vorum komin aftur til Blue River úr  matarferðinni. Þarna fékk maður smjörþefina af því hvað raunveruleg rigningardemba er.


Framundan var síðasta nóttin á þessu skemmtilega svæði, morguninn eftir var haldið í talsvert langa keyrslu til næsta áfangastaðar, sem var La Fortuna, en meira það síðar.

Costa Rica (10) Fáninn, torgið og jólaskrautið

FRAMHALD AF ÞESSU Áður en ég fer að fást við hengibrýr síðdegisins, læt ég viðfangsefnið snúast um jólatorgið í La Fortuna, en þar hófst mið...