16 janúar, 2026

Costa Rica (17) Norður í svalann - lok

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

--------------------------------------
Að morgni mánudagsins 24. nóvember lá fyrir, eins og alltaf var reyndar ljóst, að ævintýrinu á Costa Rica væri að ljúka. Það tókust á ýmsar tilfinningar, eins og gengur og gerist. Mér sýndist, á ferðafélögunum, þar sem við sátum í móttöku Tamarindo Diria hótelsins á þessum morgni, að hugurinn væri aðeins farinn að undirbúa sig fyrir ferðalagið sem framundan var og heimkomuna. Mér sýndist hann líka dvelja við minningar í mótun, um einstaka ferð um framandi slóðir. Mér sýndist að fólkið væri sátt.
Móttakan á Diria hótelinu við brottför. Útveggir ónauðsynlegir.

Carlos kom með rútuna sína, töskum var komið um borð og síðan hófst síðasti leggurinn á Costa Rica, norður til bæjarins Liberia, þar sem flugvöllurinn er. Þetta yrði í þriðja skipti sem við ættum leið um þennan bæ. Við lentum þar, ókum í gegn á leiðinni frá La Fortuna til Tamarindo og nú ætluðum við að hefja okkur til flugs þaðan.  

Hvað skyldu ferðamennirnir sem koma til Íslands flytja mikið af landinu með sér á ári hverju? Þessi spurning kom í hugann, eftir að brýnt hafði verið fyrir hópnum að það væri stranglega bannað, að viðlagðri refsingu, að reyna að flytja einhverjar náttúrulegar minjar með sér frá landinu. Þetta væri skoðað (eða gæti verið skoðað) við brottför á flugvellinum. Þetta varð til að að einhverjir úr hópnum urðu nokkuð stressaðir, trúi ég, þar sem þeir höfðu laumað einhverju smáræði í töskurnar sínar. Mér sýndist að það hafi allt sloppið til.
Á Liberia flugvelli við brottför


Það er ekki margt að segja um þennan flugvöll, frekar en aðra. Þetta var bara flugvöllur. Þarna fer um stór hluti ferðamanna frá stóra landinu í norðri og þar sem við vorum þarna á ferð þegar mikil fríhelgi stóð þar yfir, var reiknað með ógurlegri ös, sem svo reyndist ekki vera.

Svo var bara beðið eftir að flugvélin yrði klár, því næst gengið um borð og flogið sömu leið til baka, þvert yfir undarlega landið, sem enn telur bara 50 ríki. 
Flugferð þessari lauk með lendingu á Pearson flugvelli við Toronto, og þar tók við gisting eina nótt.

Síðasti dagurinn á erlendri grund - þessu sinni.
Hér fyrir neðan er hópurinn sem skellti sér til Niagara.
 


Hluti hópsins tók þátt í ferð að Niagara fossum, sem við fD höfðum reyndar augum litið fyrir einum sjö árum, en þá við aðrar aðstæður en nú. Það sem var eins, voru fossarnir, umhverfið og hringmáfurinn á staurnum. 

 Það sem var með öðrum hætti núna fólst í ýmsu:

Rainbow Bridge
- við vorum í öruggum höndum Guðna í skipulagðri ferð sem gekk auðvitað öll eins og upp var lagt með.

-Það var lítil sem engin umferð yfir Regnbogabrúna, sem tengir Kanada við ríkið fyrir sunnan. Þar var mikil umferð þegar við komum þarna síðast. Nú hefur tiltekinn vanviti orsakað það, að þá, sem búa fyrir norðan ána, langar hreint ekki suðuryfir og þeir sem búa fyrir sunnan treysta sér ekki norður yfir, af ótta við að verða fyrir aðkasti.  
Áhrif hálfvita heimsins á líf fólks á þessari jörð, eru með ólíkindum.

-  Það var farið í ansi blauta, en skemmtilega siglingu að fossunum.

- Það var kíkt á hlynsýrópsgerð - Maple Syrup Place, þar sem við kynntumst mismunandi tegundum  sýróps og fengum að vita, að stór hluti þess "hlynsýróps" sem okkur stendur til boða í verslunum, er bara plat.

- Leið lá í bæ í nágrenninu, Niagara-on-the-Lake og þar röltum um skreytta verslunargötu í harla blautu veðri, en þetta var vinalegt umhverfi. Engir steypukassar með flöt þök þar.


Jólaverslunin var allt umlykjandi og ótrúleg jólaskreytingabúð vakti sérstaka athygli.




Það voru keyptir skór og það var keypt skyrta og allir sáttir.



Þessari dagsferð lauk svo á Pearson flugvelli og þaðan var flogið um kvöldið, lent í Keflavík með allan svefn í rugli, fyrir kl 7 um morguninn, ekið á Austurveginn og þar með var ævintýrinu lokið og framundan að tína til það sem átti að fara með á jólamarkaðinn í Aratungu.

-----------------------------------------------------------------
Að lokum.
Við fD ítrekum auðvitað þakkir okkar til ferðafélaganna, sem reyndust hið ágætasta fólk. Sérstakar þakkir til Guðna og Carlosar fyrir einstaka skipulagningu og óbilandi ljúfmennsku allan tímann. Þá má ekki gleyma ljúfmennunum, þeim Alejandro sem var óþreytandi við að fræða okkur um landið sitt og bílstjórann okkar, hann Carlos, sem flutti okkur af miklu öryggi um vegakerfið.


Að endingu 
Þakkir til þeirra ykkar sem hefur tekist að komast í gegnum 17. kafla af þessum myndum og skrifum. Þið eruð hetjur. 😉

14 janúar, 2026

Costa Rica (16) Á kafi í kyrru hafi

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

--------------------------------------

Nú rann upp sunnudagurinn, 23. nóvember, síðasti heili dagurinn á Costa Rica. Æ. æ, var þatta nú að verða búið?

Flugeldasýningar enda yfirleitt með stærstu og mikilfenglegastu bombunum og þær eru þá jafnframt fyrirboði þess, að nú sé eiginlega bara allt búið og tími 
kominn til að halda heim á leið. 
Fyrri hluta dagsins, eftir öflugan morgunverð, notuðum mest í göngu á ströndinni, en upp úr hádegi var lagt af stað í rútunni og ferðinni heitið í norðurátt til einnar af fjölmörgum ströndum (playas), sem eru þarna við Kyrrahafið. Ég taldi einar 16 á korti af þessu svæði. Leið okkar lá frá Tamarindo til Flamingo, eins og sjá má á kortinu hér til hliðar. 
Þarna í Flamingo er smábátahöfn og þar stigum við frá borði og svo um borð, því framundan var sigling um Kyrrahafið.
Í ferðalýsingunni segir svo: 
Sigling á Kyrrahafinu í snekkju með ferðafélögum þínum. Keyrum í um einn tíma í átt að ströndinni Playa Flamingo þar sem báturinn okkar bíður eftir okkur. 
Hægt að snorkla og fara í sjóinn. Innifalið í siglingunni eru drykkir og smáréttir. 
Um kl 16:00 borðum við síðbúinn hádegisverð því er mikilvægt að borða á hótelinu áður en við förum af stað. 
 Mjög mikilvægt að vera með sólarvörn. Hægt að stinga sér til sunds og snorkla í kristaltæru Kyrrahafinu.
Hvernig var hægt að búast við öðru og yndislegu síðdegi á stærsta úthafi jarðarkringlunnar? 
Það var spenntur hópur sem steig um borð í  Panache sem er tvíbytna (catamaran). Til að lesendur fái nú betri hugmynd um þessa lúxus fleyti, er hér hlekkur á myndir af og úr henni. Mögulega er fólkið á myndunum öðruvísi glæsilegt, en það sem hér var á ferð, en eina ástæða þess er þá sú, að þannig glæsilegt fólk er talið geta selt varninginn betur. 





Hópurinn, bara talsvert glæsilegur, steig um borð, eftir að hafa farið úr skófatnaði og skilið eftir á tilteknum stað. Svo kom það sér fyrir, að mestu leyti fyrir fremst á skútunni. Svo var bara siglt út í buskann. 
Ekki hafði verið siglt lengi, þegar boðið var upp á drykki og til að gera langa sögu stutta, þá var ekki um það að ræða að hömlur væru settar á það magn drykkja sem okkur stóð þarna til boða, en að sjálfsögðu voru farþegarnir fólk, sem kunni að finna æskilegt jafnvægi þar á, enda mikil neysla á göróttum drykkjum til þess fallin að deyfa svo stórskemmtilega upplifun sem stóð okkur þarna til boða.

Eftir talsverða siglingu fór að styttast í áfangastað, skammt frá strönd og lítilli klettaeyju.
Þegar þangað var komið, var akkeri varpað og siglingarfólkinu boðið að kynnast Kyrrahafinu aðeins nánar. Þarna var hægt að snorkla, róa á kajak, liggja á flotdýnu, eða bara busla með eða án flotstangar.
Minnugur fyrra ævintýris míns í Atlantshafinu fyrir átta árum, var ég staðráðinn í að fara að öllu með gát, en ekki var, í mínum huga, um það að ræða að sleppa þessu bara öllu og þannig varð það úr, að ég ákvað að velja snorklið, en það hafði ég aldrei prófað áður. Ætlunin var að við syntum í hóp í átt að ströndinni, umvafin neðansjávardýrum í öllum regnbogans litm. Eins og segir í ferðalýsingunni: "Hægt að stinga sér til sunds og snorkla í kristaltæru Kyrrahafinu." 
Þannig atvikaðist það, að ég setti upp snorklgræjur, og skellti mér til sunds í Kyrrahafinu, en á meðan vopnaðist fD símanum sínum og ætlaði hreint ekki að missa af myndrænni útgáfu þessa ævintýris eins og þess síðasta. 


Ég verð að viðurkenna, að ég treysti hreint ekki þessum græjum sem ég setti þarna á mig. Hvað ef ég færi nú það djúpt, að þessi stutti stútur (öndunarpípan)  sem stóð upp úr, lenti undir yfirborðinu, eða vatn frá ölduganginum gusaðist inn í hann?  Að vísu fékk ég upplýsingar um að hættan á slíku væri ekki mikil og það útskýrt með einhverjum hætti, sem ég lagði ekkert sérstaklega á minnið. Ég yrði bara að passa mig að pípan stæði ávallt upp úr sjónum.
Svo klifraði ég niður úr skútunni og ylvolgur útsærinn tók við mér og næst á dagskrá að hverfa undir yhfirborðið og njóta dýrðarinnar sem við myndi blasa í "kristaltæru Kyrrahafinu". Ég komst að því að það er með kristaltært Kyrrahafið, eins og norðurljósin: stundum eru engin norðurljós á Íslandi og stundum er ekkert útsýni í Kyrrahafinu.
Útsýnið í Kyrrahafinu var um það bil svona (tekið úr mynd af netinu)
Ég undi mér í skamma stund þarna neðansjávar, enda fátt við að vera þar, nema reyna að komast hjá því að fá vatn í öndunarpípuna. Varð mér úti um flotstöng og buslaði þarna við skútuna hríð. Svo tók ég eftir að hún var farin að fjarlægjast mig óeðlilega mikið, og fékk óþægilega á tilfinninguna að þarna stefndi í óefni. Þar með hóf ég tiltölulega ákaft sund í átt að henni, en miðaði lítið áfram, en þó nóg til þess að ég mat sundárangurinn það góðan að mér tækist að bjargast úr þessum aðstæðum. Það reyndist lítið mál að komast upp í skútuna, enda búnaður við hæfi fólks af ýmsu tagi, ekka bara ætlaður unglingum, sem sagt.
Þegar fólk steig um borð eftir að hafa notið sín í sjónum, var það smúlað hátt með ferskvatni, sem var ágætis ráðstöfun.

Þegar allir höfðu þarna notið í botn við sjódýfur og sundiðkanir eins og hverjum þótti við hæfi, komnir um borð, búnir að þurrka sér, biðu kræsingar í "lúkarnum" (nota þetta nefn því ég veit ekkert betra), en það var eins konar setustofa, þarn sem útbúið hafði verið hlaðborð allskyns rétta sem reyndust afar bragðgóðir. Svo gat sjófólkið auðvitað skolað saltvatnið úr hálsinum og rennt niður matnum með miklu úrvali drykkja. 

Þegar borðhaldinu var lokið var augljóst, að sólin var farin að nálgast sjóndeildarhringinn og þar með, að sólsetur væri ekki ýkja langt undan.  Þá var akkerum létt og við tók siglingin til baka til Flamingo, en það gerðist meðan eldhnötturinn, forsenda lífs á litlu plánetunni okkar, seig æ neðar, þar til hann hvarf smátt og smátt undir yfirborð úthafsins. Um borð sat fólkið dolfallið yfir fegurðinni - nú eða smellandi af myndum á símana sína, eða önnur tæki. Sighvatur fékk að taka í stýrið um stund, en ég veit ekki hvort þeir settu á sjálfstýringu á meðan, allavega virtist hann beita valdi sínu af mildi.








Ekki þarf að fjölyrða um siglinguna til baka, fólkið ánægt með daginn, satt og sælt. Allri fengu skóna sína þegar gengið var frá borði og svo tók við rútuferðin til baka til Tamarindo, þar sem fólk kom saman á mathúsi og fór yfir daginn, áður en nóttin tók við - nóttin fyrir brottfarardaginn. 



Ætli ég skoði hann ekki bráðlega, og mögulega það sem á eftir fylgdi, því ferðinni, sem slíkri, lauk ekki þar.

08 janúar, 2026

Costa Rica (15) Fen á fjöru

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

--------------------------------------
Fyrri heili dagurinn okkar í Tamarindo var ekkert skipulagður, þannig að við höfðum alveg frjálsar hendur með hvað við tækjum okkur fyrir hendur og sáum svo sem ekki fram á annað en rölta um ströndina, eða bæinn til að leyfa tímanum að líða. Guðni (fararstjóri) hafði hinsvegar nefnt sem möguleika, að skella sér í siglingu inn í fenjasvæðið. Ég átti nú ekki auðvelt með að sjá fyrir mér fenjasvæði þarna í nágrenninu, en þegar við ókum inn í bæðinn daginn áður, hafði glitt í einhverja báta gegnum trjágróðurinn. 
Vissulega leit ég á þetta sem möguleika, en þar sem ég er nú ekkert fyrir að braska meira í hlutum en ég þarf, reiknaði ég ekki með  að það yri eitthvað úr svona leiðangri.  Það var þá, þennan morgun, að við hittum tvo ágæta ferðafélaga okkar, sem við höfðum haft meiri samskipti við í ferðinni en marga aðra. Þetta eru þau Arnborg og Þorgeir og við nefndum þennan möguleika við þau, svona í framhjáhlaupi. Þeim leist harla vel á og við nánast ákváðum þá að leggja í að kanna málið, í það minnsta. 
(Stækka til að sjá betur)
Þau hittu síðan Sólrúnu og Jón, sem líka voru áhugasöm og þannig varð bara úr að við sexmenningarnir, hófum göngu út í óvissuna til að athuga hvort við fyndum kannski einhvern bátsmann sem væri til í að sigla með okkur um fenjasvæðið. 
Þetta var nú ekki löng ganga sem við tókumst þarna á hendur, en ágætis hreyfing eftir aðalgötunni í bænum. Þegar við síðan komum að líklegum stað til að stefna niður að sjónum, gerðum við nákvæmlega það. Þar var, við fyrstu sýn, harla lítið um að vera. Þarna var háfjara og  þetta leit ekkert sérstaklega vel út . En svo rákumst við á náunga sem var á göngu í fjörunni og þá kom í ljós að hann var eitthvað viðloðandi bátasiglingar um fenjasvæðið. Sagði hann að bróður sinn örugglega vera tilbúinn að skjótast með okkur og gerði okkur tilboð sem við gátum ekki hafnað, $35 á mann, eða um 4500 krónur. Hann fór þá með okkur að bát sem þarna var á floti og frá trjágróðrinum aðeins innar á ströndinni kom bróðirinn. Svo var gengið frá greiðslu, okkur sexmenningunum komið þannig fyrir, að þunginn dreifðist rétt, og þá var bara stefnan tekinn inn í ósa árinnar sem aðskilur tvær strendur: Playa Grande og Playa Tamarindo.
Sexmenningarnir í góðum gír.
Báturinn var í líkingu við þennan, hér hægra megin: (því miður láðist mér að mynda bátinn, skipstjórann og sölumanninn):

Sem fyrr segir  var háfjara þegar við ákváðum að takast siglinguna á hendur og það hafði í för með sér, að skipstjórinn þurfti stöðugt að leita leiða framhjá grynningum, eða beita skipstjórnarlegum aðferðum við að losa fleyið af strandstað. Við þokuðumst samt áfram þarna upp árósinn og inn í fenjasvæði og það fór ekkert milli mála hver sjávarstaðan var á flóði.


Við vorum ekki komin langt upp ána, þegar dýralífið fór að láta á sér kræla og fyrst voru það aðallega hegrar af ýmsu tagi. 
Ég freistaði þess að leita uppi nöfn á þeim dýrum sem urðu á siglingaleið okkar. Ég treysti mér ekki til að fullyrða um að allt sé rétt greint og ef svo reynist ekki vera, bið ég um að verða látinn vita, svo ég geti bætt úr. Þá bendi ég aftur á, að til að sjá stærri útgáfu myndanna þarf bara að smella á þær.






Látum duga með hegrana. Þeir voru augljóslega vanir mannaferðum á svæðinu og gerðu lítið annað en gjóa á okkur augum við og við þegar við renndum upp að þeim eða í nágrenni við þá. Það var eins með skipstjórann (bróðurinn) okkar og Alejandro (leiðsögumanninn ír ferðinni); hann bjó yfir þessu læsi á dýralífið, sem við erum augljóslega síðri í. Hann sveigði þarna þvers og kruss, ekki bara til að forðast grynningar, heldur ekki síður vegna þess að hann hafði séð eitthvert dýr við bakka árinnar. Það kom ekkert að sök þó það hafi komið til tals að það væri dálítil "kaupstaðarlykt" af honum. Þarna fann hann hvert dýrið á fætur öðru og sagði heilmikið frá því, án þess að ég, í það minnsta, væri miklu nær. Ætli hafi ekki komið tvennt til: enska var ekki móðurmál hans og svo hafði mótorhljóðið truflandi áhrif. Hvað sem þessu líður, þá var þarna vanur maður á ferð, sem kunni sitt fag.

Og svo birtust fleiri dýr, enda leikurinn til þess gerður:







Eðlurnar lokkaði skipstjórinn til okkar með því að fleygja til þeirra ananasbitum. Fyrst var bara ein eða tvær þarna á bakkanum, en þær þustu margar í viðbót fram úr skógarþykkninu þegar þær uppgötvuðu þetta góðgæti og voru fljótar að gera því góð skil.






 Einn ungan krókódíl sáum við þegar skipperinn stefndi allt í einu að landi. Það kom mér einna helst á óvart, að hann var tiltölulega smár miðað við þær hugmyndir sem ég hafði nú gert mér um þessi dýr.  Þó hann væri smár, þarna grafkyrr á bakkanum, vorum við eindregið hvött til að fara nú ekki að freistast til að setja fót úr fyrir borðstokkinn. Við hlýddum því, að sjálfsögðu.
Svo sáum við fleiri  svona kappa, aðallega á sundi, tilbúna að gæða sér á okkur ef færi gæfist.









Mér varð á að leita aðeins upplýsinga um þetta svæði, þegar heim var komið og rakst þá á eftirfarandi:

Það var hluti af þessari siglingu okkar þarna um fenjasvæðið, að kíkja inn á stað þar sem apar munu vera allfjölmennir, en þar lenti báturinn á grynningum, sem ekki varð komist yfir, svo ekki var um að ræða en snúa við.
Þar með var haldið aftur í átt til sjávar og við fullsátt við siglinguna. 


Allt gekk vel þarna niðurúr og hinn bróðirinn kom að okkur þar sem við stigum frá borði og bauðst meðal annars til að fara með okkur á einhvern stað í nágrenninu þar sem skjaldbökur verpa í sandinn. Það var reyndar mjög áhugavert, en nú var farið að síga heldur betur á seinni hluta dvalarinnar á Costa Rica, svo við urðum að afþakka. Svo gengum við sem leið lá eftir ströndinni heim á hótelið.

Svo kom kvöldið með sínu og þá nóttin, alveg eins og venja er til. Framundan síðasti dagurinn í þessu ævintýralega landi.

----------------------------
Nú fer að styttast í þessu, en það er ekki búið.


Costa Rica (17) Norður í svalann - lok

Frásögnin hefst  hér FRAMHALD AF  ÞESSU -------------------------------------- Að morgni mánudagsins 24. nóvember lá fyrir, eins og alltaf v...