19 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu

Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til Dúbæ.  
Síðasti dagurinn, miðvikudagurinn 30. október var skipulagður sem rólegheitadagur; dagur til að íhuga og melta það sem á undan var gengið. Það var þó ljóst að lengri tíma þyrfti til að móta þetta allt í höfðinu og koma þar fyrir á viðeigandi stöðum. Þrátt fyrir það, að ég væri aðeins orðinn rólegri, sem farþegi í bíl í dúbæskri umferð, sá ég ekki fyrir mér, að á þessum slóðum myndi ég geta fest rætur. Þetta umhverfi er bara einfaldlega alltof manngert og hiti og glampandi sól alla daga yrði þar að auki of uppáþrengjandi fyrir minn norræna smekk.  
Hinsvegar, var það óhemju gaman og upplýsandi að koma þarna við í tæpa 10 daga og njóta þess að búa eins og á hóteli, án þess að búa á hóteli, fá að sjá allflest það helsta, án þess að vera á vegum ferðaskrifstofu, að þurfa nánast bara að smella fingrum til að bílstjóri og bíll yrði til reiðu til að flytja mann hvert sem hugurinn girntist. Í þessum þáttum komu Dúbæingarnir sterkir inn og einnig heimilishjálpin þeirra hún Bernadetta frá Filippseyjum sem var vakin og sofin yfir velferð okkar. 

Þorvaldsdætur


Fyrirfram hafði ég nú ekki reiknað með stórkostlegri ævintýramennsku af hendi systranna þriggja, sem  þarna voru í aðalhlutverki, en þær komu mér talsvert á óvart á ýmsum sviðum og voru í einstaka tilvikum tilbúnar að fara alveg út á brún þægindarammans. Vissulega fengust þær ekki til að stökkva í loft upp í myndatöku í eyðimörkinni, né heldur að stinga sér til sunds í bátsferðinni, en þær klæddust slæðubúnaðinum svikalaust. 
Ég var sá eini í þessari ferð sem ekki var blóðtengdur við Dúbæinginn hana frú Áslaugu, en það var hreint ekki látið bitna á mér, nema síður væri.

Flug til Kaupinhafnar

Við rifum okkur upp um miðja nótt til að vera klár í flug eldsnemma að morgni 31. október og það gekk allt eftir, hnökralaust. Mér láðist alveg að fylgjast með flugleiðinni, en veit þó að leiðin lá yfir Svartahaf, sem þýðir að þarna var flogið á milli átakasvæða við botn Miðjarðarhafs og í Úkraínu.

Eðlilega var flugtíminn aðeins lengri en síðast, sem hlýtur að skýrast af því, að við þurftum að keppa við jörðina, sem flutti náttúrulega Kaupinhöfn stöðugt lengra í vestur - æ hættu þessu bulli!

Það var uppgefið fólk sem renndi sér niður á Kastrup flugvöllinn upp úr hádegi, en það þurfti samt að fara í búð, til að birgja sig upp af nauðsynjum, en daginn eftir, 1. nóvember lá svo leiðin heim til eyjarinnar við ysta haf. Allt fór það vel.

Og svo að lokum

Takk fyrir mig, Dúbæingar, fyrir afburða gestrisni og stuðning í þessari fínu ferð.  Takk, samferðafólk, fyrir að vera til friðs og ávallt tilbúið að takast á við nýjar áskoranir. 

كانت هذه رحلة لطيفة للغاية.



Sæludagar í sandkassanum (11)

Framhald af þessu 

Að þessu hafði verið stefnt, leynt og ljóst lengur en elstu menn muna. Stóra moskan í Abu Dhabi var síðasta stóra verkefnið í þessari miklu ferð og með heimsókn í hana tókst að heimsækja þriðja furstadæmið í ferðinni og það langstærsta, Abu Dhabi.  Höfuðborg AbuDhabi er jafnframt höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Þessi moska er í 23. sæti yfir stærstu moskur múslíma og sú stærsta í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en þar eiga að komast 41.000 manns saman til bænahalds í einu. Stærsta moska í heimi er hinsvegar sú, sem er að finna í Mekka, Masjid al-Haram, en þar geta 4.000.000 manna komið saman í einu.
Þessi moska var byggð fyrir tæpum tveim áratugum og hana munu Sunni múslimar sækja. 

Upphaf ferðar


Það var lagt í hann um miðjajn morgun úr Sjálfbæru borginni, eftir að slæður höfðu verið teknar til og kjólum klæðst. Ég held ég hafi ekki þurft langan tíma til að sannfæra sjálfan mig um að láta vaða í að mæta í nýkeyptum gallanum mínum, smeygði honum yfir mig og annar klæðnaður var í algeru lágmarki. Þetta er afar þægileg flík að klæðast í því loftslagi sem þarna er.

Það var fÁ sem tók sér það hlutverk að flytja okkur fimmmenningana til Abu Dhabi og öfugt við það sem maður hefði búist við, var talsvert hávaxinn trjágróður meðfram veginum alla leið. Þegar styttist í höfuðborg furstadæmanna  fóru að sjást skilti við veginn sem vísuðu á moskuna, sem stendur nokkuð sér og fór aldeilis ekki framhjá manni þegar nær dró. Auðvitað hafði GPS-ið verið stillt á bílastæði í bílakjallara og þangað var rennt, en rétt eins og aðrir bílakjallarar á þessum slóðum, var þar allt tandurhreint og karlar á hverju strái sem unnu við að sópa og pússa. 
Leiðin í bílakjallarann

Í moskunni

Þegar við stigum úr bílnum í bílakjallaranum, skellti ég á mig rauðflekkóttu slæðunni/klútnum og svörtu hringjunum og var þar með klár í slaginn. Slæðum kvenfólksins í ferðinni var komið fyrir, þær stilltar af og þar með var ekkert því til fyrirstöðu að hefja gönguna inn í þennan helga stað múslína. 

Úr bílakjallarunum komum við inn í heilmikla verslunarmiðstöð, þar sem menn seldu meðal annars ilmvötn (nema hvað). Það er alveg hugmynd fyrir staðarhaldara í Skálholti að koma málum þannig fyrir, að til þess að komast í kirkjuna, þurfi gestir að ganga gegnum verslunarmiðstöð, allavega framhjá einni eða tveim búðum, en hvað um það. 

Ekki stöldruðum við nú við í þessu kaupmannamusteri, heldur héldum sem leið liggur eftir löngum göngum neðanjarðar að mestu, framhjá klæðnaðareftirlitsmönnum, þar til við komum á stað þar sem gerð var krafa um að við værum búin að skrá okkur til heimsóknarinnar í gegnum eitthvert app.

 

Það varð auðvitað hlutverk fÁ að finna út úr því og með aðstoð starfsmanns hellti hún sér ofan í símann sinn til að skrá þennan einstaka/sérstaka/frækna hóp til inngöngu. Þetta tókst allt og þar með var haldið áfram, neðanjarðar í átt að moskunni. Þessari gönguför lauk með því að rúllustigi flutti hópinn upp á yfirborðið og við blasti hið glæsilega  mannvirki og fátt annað í stöðunni en að festa hópinn á myndflögu með  réttum bakgrunni.  Hluti myndanna ratar svo bara hingað:







Eftir að ekki þótti efni til frekari myndatöku héldum við inn í hið mikla mannvirki, sem hefur víst aðallega það hlutverk, að vera bænastaður sunni múslíma. Það er einhvernveginn svo með okkur mennina, að við höldum að glæsilegar byggingar (glæsilegur klæðnaður, eða innanstokksmunir) höfði eitthvað sérstaklega til guðs okkar, en um það hef ég nú reyndar talsverðar efasemdir. Trú snýst um allt annað. 

Þarna var auðvitað margt fólk auk okkar, og í sömu erindagerðum. Þetta ferðalag var svona dálítið eins og þegar sauðfé er rekið í rétt. Það gafst ekki mikið færi á að staldra við og njóta fagurrar byggingalistar, eða glæsilegra listaverka og ljósabúnaðar.  Það voru allstaðar menn sem sáu til þess að hópurinn hélt áfram tiltekinni leið í gegnum súlnagöng og hvelfingar.  Það sem fyrir augu bar, var bara fagurt og magnað á margan hátt.  Mér finnst rétt að geta þess að mér til nokkurs léttis var talsvert um að aðrir karlar klæddust eins og ég. Þar með hurfu efasemdir mínar um að hafa kannski tekið einhverja áhættu með klæðaburðinum. 
Ég er nokkuð viss um að það sé tilgangslítið að eyða tíma í að skrifa hér langan texta til að reyna að lýsa því sem þarna bar fyrir augu. Ég á ekki von á því að það nútímafólk sem ratar hingað inn, sé mikið að bögglast í gegnum þannig texta.
Þessvegna læt ég  bara duga að láta hér fylgja nokkrar myndir, sem lýsa nokkurnveginn því sem ég hefði annars eytt orðum á.





Í aðal salnum var á gólfinu stærsta handofna teppi veraldar, 
en það eru um 6000 ferm. Það var unnið af íranskri vefstofu. 

Það var aðdáunarvert hvað þessi leikskólabörn virtust vel upp alin.



Eins og búast mátti við, kom að lokum göngu okkar um hina miklu sali og súlnagöng moskunnar sem kennd er við Sjeikh Zayed.  Margt var hugsað og ýmsu gat maður velt fyrir sér. Mér finnst eftir þetta, sem fyrr, reyndar, að það sé sama hver trúarbrögðin eru, þeirra megin hlutverk er að stjórna mannshuganum. Á sama tíma og trúarsetningar, af öllu tagi, halda á lofti mikilvægi þess að trúa á algóðan guð og prediki um hið góða í heiminum sem við byggjum, þá eru þær jafnframt kjarninn í sem verst er í veröldinni: styrjöldum, kúgun og þjóðarmorðum. Þeim tekst einhvern veginn að kalla fram í manninum einhverja illsku í búningi manngæskunnar. Ótrúleg blanda það.  Það væri kannski vert að velta því öllu fyrir sér.
 


Eftir  heimsóknina í þessa miklu mosku  var komið við í verslunarmiðstöðinni þar sem fD keypti tvær slæður af sérstöku tilefni. Önnur var svartköflótt og hin rauðköflótt, eins og mín. Þarna útskýrði afgreiðslumaður muninn á þessum slæðum þannig, að hvítar væru algengastar í Dúbæ, rauðköflóttar í Saudi Arabíu og svartköflóttar í Palestínu. Þar með vissum við það og jafnframt meira en daginn áður.


Loks fengum við okkur ískaffi og smá meðlæti, áður en haldið var til baka í Sjálfbæru borgina í Dúbæ.

--------------------------

Nú er þar komið sögu, að hún er að verða búin. Ætli ég láti ekki verða af því að hnýta síðasta hnútinn í þessari miklu frásögn að ferð eldri borgara til Dúbæ í október, árið 2024 .............. næst.
   


17 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (10)

Framhald af þessu

Mánudagurinn 28. október átti nú ekki að vera neitt strembinn, en reyndist samt nokkuð umfangsmikill. Eyðimerkurævintýrið var að baki og framundan stóð til að fimmmenningarnir kynntu sér souk/souq - í elsta hluta Dúbæ. Souk þýðir markaður. Það var talið geta orðið heilmikið ferðalag, sem og varð. 

Klíníkin

Dagurinn hófst þó með því að það varð að ráði að ég færi til skoðunar á heilsugæslustöð, vegna þess sem heimafólk hafði greint sem "mygga", en reyndist vera aðeins meira, þegar alvöru egypskur læknir hafði greint stöðuna. Ég læt liggja milli hluta það sem þarna reyndist um að ræða, enda ástæða þess, að ég nefni þessa heilsugæsluferð sú, að þar var þjónustan ansi ólík því sem maður á að venjast hérlendis. Þarna fór ég á bráðamóttöku þar sem hjúkrunarfræðingur sagði mér að blóðþrýsingurinn væri ansi hár (varla við öðru að búast í aðstæðunum). Svo hringdi hann eitt símtal og sagði mér eftir það að fara upp á næstu hæð, þar sem læknir nánast beið eftir mér og átti við mig 5 mínútna viðtal. Skráði eitthvað í tölvuna og beindi mér síðan í apótek við hliðina, þar sem 5 mínútna bið skilaði lyfjum við kvillanum. Kviss ... pang.  Vissulega ber að geta þess, að þarna var um að ræða einkarekna klínik. Mér reiknast svo til að klukkutíminn hjá lækni þar kosti um það bil 140.000 krónur.
Ég sleppi því að ræða ástand opinbera heilbrigðiskerfisins hér á landi í þessu sambandi að öðru leyti en því að mér blöskrar hvernig búið er að fara með það, beinlínis til að gera það ófært um að sinna sjúklingum og opna þannig fyrir einkarekstur. Nei, ég skal reyna að halda aftur af mér .....  

Souk


Eftir þeta ævintýri mitt var lagt í hann í elsta hlut Dúbæ, þar sem markaður var starfræktur, en þrátt fyrir að ágangur sölumanna á svona mörkuðum teldist illþolandi, þótti heimsókn þangað mikilvægur þáttur í ferðinni.  Það var var ekki svalanum fyrir að fara í gönguferðinni í gegnum markaðinn. Þetta var svona markaður þar sem fólk gekk í gegn og sölumenn keppust við að ota að vegfarendum ilmvatnsprufum og það var nánast eins gott að staldra hvergi við. Það var allavega sú lína sem tekin var að mestu. Ég læt bara nokkrar myndir um að segja þessa sögu.








Kötturinn var ekki með rauð augu. 

Burj Al-Arab

Þegar heim var komið frá markaðnum lá fyrir að skella sér í kvöldverð í grend við eitt helsta kannileiti Dúbæ, Arabaturninn, eða seglið. Þetta er mikilfengleg bygging og að sögn eina 7 stjörnu hótelið í heimi.  Eftir ágæta máltíð  stóð til að komast nær þessari miklu byggingu, en það mun vera hægara sagt en gert, ef þú hefur ekki bókaða gistingu þar.  Við komumst þó svo nærri, að hótelið sást á myndum, baðað ljósi í ýmsum litbrigðum. Enn nokkrar myndir.

Eldflaugaárás? Nei, Photoshop.



Svo var bara enn einn sæludagurinn í sandkassanum kominn á það stig að nóttin tók við, þar sem safnað var kröftum fyrir síðasta þátt ferðarinnar: moskuna miklu í Abu Dhabi. Það var eins gott að vera klár í réttan útbúnað fyrir það ævintýri.







16 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (9)

Framhald af þessu

Svo var það eftir hádegið á sunnudeginum 27. október, að LandCruiser renndi í hlað í Sjálfbæru borginni. Dúbæingarnir höfðu pantað hann, eins og flest annað í þessari ferð. Þarna var kominn maður frá fyrirtæki sem heitir Arabian Nights Tours
þess albúinn að flytja okkur fimmmenningana: Þorvaldsdæturnar þrjár og tvö viðhengi þeirra, í ævintýraferð út í eyðimörkina.  Bílstjórinn var þrautreyndur í bransanum; hafði ekið ferðafólki í ferðir af þessu tagi síðan 1998. Hann var ekkert margorður, blessaður, en meira en til í að segja frá ef hann var spurður.  
Eins og allt á þessum slóðum, þá var áfangastaðurinn langt í burtu. Það var ekið í norður frá Dúbæ inn í annað furstadæmi sem heitir Sharjah. 

Kampurinn fyrri

Á leiðinni var komið við í því sem kallað var Camp, þar sem hægt var að leigja sér fjórhjól til að bruna um sandöldurnar. Útsýnið þaðan var yfir risastóra sandöldu, sem var morandi í  fjórhjólum og LandCruiserum með fólki sem var að skemmta sér við að aka í sandi, upp og niður eða til hliðar.  Á þessum stað var ýmislegt til sölu, því allir þurfa að lifa á einhverju.
Þarna var meðal annars maður, sem gekk um með fálka sem hann reyndi á láta ferðalanga fá  til að halda á og sitja á  öxlum sér. Ég veit um einn sem leyfði því að gerast, en sá svo eftir öllu saman, þegar í ljós kom, að upplifunin kostaði stórfé, sem kom ekki í ljós fyrr en eftir á.   


Þarna var hægt að komast á snyrtingu, fyrir utan það að fá að losa sig við pening, áður en sest var aftur upp í Cruiserinn og haldið á vit aðal ævintýranna, sem hófust þegar bílstjórinn sá til þess að farþegarnir væru allir kyrfilega festir í öryggisbelti og hann sjálfur losaði sitt belti af sér. Því næst setti hann í fjórhjóladrif og ökuferðin um sandöldurnar hófst. Hann sagði mér að venjulegur þrýstingur í dekkjum væri 35psi en við þessar aðstæður væri hann settur í 15psi.
Til að orðlengja það ekki hófst þarna talsverð rússíbanareið um sandöldurnar og flestir farþegarnir reyndust vera tiltölulega hljóðir, þó fyrir kæmi, þegar ekki var útséð um að allt færi vel, að það heyrðist nokkuð kröftugt ÚÚ.......HHH!!! úr aftasta hluta bifreiðarinnar. Aðrir farþegar gáfu spennu sinni orð til að breiða yfir mögulega skelfingu. Kannski er það bara ekki við hæfi að öldungar gefi frá sér of unggæðisleg hljóð.  
Hér koma nokkrar myndir af umhverfinu.







Eftir akstur um þetta nýstárlega landssvæði, jafnvel lengur en ónefndur farþegi taldi við hæfi, stöðvaði bílstjórinn bílinn á sagði "take photos". Þar með hófst tilraun til að festa minninguna um eyðimerkurförina á myndflögu. Ég hafði gert mér vonir um að hópurinn myndi nú leyfa sér að sleppa aðeins fram af sér beislinu, svona eins og ætti kannski að gerast við magnaðar æðstæður eins og þær sem þarna voru. Það gerðist hinsvegar ekki. Fólk á þessum aldri er búið að læra það, að halda aftur af sér í gleðilátum; komið á lygnan sjó.  Látum svo vera.

Samanburður á tveim kynslóðum

Þrátt fyrir að tilraunir til að fá hópinn til að stökkva í loft upp þarna á sandöldunni, tækjust ekki, náðist, á endanum, með þrautsegjunni, viðunandi árangur,  meðan bílstjórinn smellti af í gríð og erg. 

Það náðist árangur 😃


Eftir að akstrinum um þetta magnaða svæði lauk, var haldið aftur áleiðis til Dúbæ og sólin bjó sig undir að kveðja, þennan daginn. Það átti hinsvegar ekki við um bílstjórann. Nú lá leiðin í annan Kamp, þar sem kvöldfagnaður ferðarinnar skyldi fara fram.


 Kampurinn síðari

Þessi kvölfagnaðarkampur var innan girðingar og þar var að finna verslanir og veitingar. Fyrir utan lágu tveir úlfaldar og biðu þess að við klifruðum á bak fyrir myndatöku. Ég reiknaði með, að það yrði síðar um kvöldið, sem svo varð aldrei. Strax og við komum inn tók á móti okkur ilmvatnssölumaður.  Ætli það hafi ekki verið einmitt hann, sem kom í veg fyrir að úlfaldarnir fengju að njóta þyngdar okkar, nú eða myrkrið sem skall á fljótlega eftir að við komum á staðinn, eða bara tilgangsleysi þess að láta þessi stóru dýr rísa á fætur með okkur á bakinu, bara til þess að leggjast aftur. Ég veit ekki hvað varð til þess að þetta fórst fyrir. Mögulega aldur okkar.

Eftir að okkur hafði verið vísað til sætis við eitt fjölmargra borða umhverfis teppaklæddan pall, kom ilmvatnssölumaðurinn aftur og vildi gjarnan selja okkur armbönd með nöfnum okkar, eins og þau líta út með arabísku letri og það endaði með því að 4/5 hópsins festu sér slíka græju, sem skyldi afhent strax þegar vinnslu lyki.  

Þarna var ýmislegt að sjá innan girðingar, meðal annra fatnaðar- og minjagripaverslanir og vatnspípureykingasalur. Þá var þarna einnig mátunarklefi fyrir gesti sem langaði að prófa hvernig þeim færi að klæðast arabafatnaði af ýmsu tagi. Ég hafði fullan hug á að prófa, svo úr varð, að við svilarnir lýstum áhuga okkar við fatakaupmanninn, sem þegar hafði komið fram sem ilmvatns- og armbandasölumaður.

Hann var allt í öllu og framkoma hans fór vel í konurnar í hópnum. Kurteis og brosmildur í einbeittri sölumennsku sinni. Hvað um það, við hA nálguðumst hann í fatnðarversluninni og tjáðum áhuga okkar. Hann taldi enga meinbugi vera á því að leyfa okkur að prófa, vatt sér að næstu hillu og tók fram kassa með splunkunýjum hvítum kirtlum. Við höfðum nú reyndar reiknað með að fá bara að máta einhverja notaða og snjáða, sem fólki væri almennt boðið að prófa. 
Ég fékk nú lítilsháttar samviskubit yfir því að klæðast þarna splunkunýjum kirtli, bara til þess að fara úr honum aftur. Þannig gerðist það, að ég eignaðist, ekki bara kirtil, heldur einnig höfuðklút og svarta hringi til að setja ofán á.  Það sem meira var, ég prúttaði í fyrsta skipti. Hann vildi selja mér þennan búnað á  150 dirhams, eða um 5600 krónur. Ég sagðist bjóða 120 ( eða ISK4500). Nokkuð stoltur, bara, eftir það. Fatnaðarkaupmaðurinn sló til og tilkynnti mér jafnframt, að magadansmærin sem væntanleg væri í komandi skemmtidagskrá, myndi veita mér sérstaka athygli (sem svo varð auðvitað ekki).
Ég var svo bara í þessum galla, það sem eftir lifði kvölds, án þess að verða fyrir nokkru áreiti. Hinsvegar velti ég fyrir mér, hvernig ég gæti mögulega notað þennan útbúnað í framtíðinni. Vissulega myndi ég geta klæðst þessu í fyrirhugaðri moskuheimsókn, en hvað svo?  Ég sá fyrir mér og geri enn, að freistist ég til þess að skella mér í þetta á mannamótum á okkar fagra landi, verði ég óðara sakaður um menningarnám (cultural appropriation). 

Hvað sem því líður fylgdi þessi búningur mér hér norðureftir og notkun hans verður að liggja milli hluta í bili.
Eftir fatakaupin hófst skemmtidagskrá, þar sem eldlistamaður og magadansmær sáu um að gleðja okkur með listum sínum. Einnig fengum við fylli okkar af ágætum mat af arabískum toga. 
Ilmvatnssölumaðurinn kom aftur með armböndin og tókst í leiðinni að selja eins og eitt ilmvatnsglas.  Þegar upp var staðið held ég að fullyrða megi, að ilmvatns- fatnaðar- armabandasölumaðurinn hafi farið alveg sæmilega út úr viðskiptum við okkur þetta kvöld.

Svo var bílstjórinn okkar kominn á Cruisernum og úfaldarnir farnir að sofa einhversstaðar þarna úti í myrkrinu og því ekkert eftir af ágætum degi annað en njóta ferðarinnar alveg heim að dyrum í Sjálfbæru borginni, drífa sig úr gallanum, fá sér én øl og svífa síðan inn í draumaheima eyðurmerkursanda.





 

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...