Framhald af þessu
Að þessu hafði verið stefnt, leynt og ljóst lengur en elstu menn muna. Stóra moskan í Abu Dhabi var síðasta stóra verkefnið í þessari miklu ferð og með heimsókn í hana tókst að heimsækja þriðja furstadæmið í ferðinni og það langstærsta, Abu Dhabi. Höfuðborg AbuDhabi er jafnframt höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Þessi moska er í 23. sæti yfir stærstu moskur múslíma og sú stærsta í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en þar eiga að komast 41.000 manns saman til bænahalds í einu. Stærsta moska í heimi er hinsvegar sú, sem er að finna í Mekka,
Masjid al-Haram, en þar geta 4.000.000 manna komið saman í einu.
Þessi moska var byggð fyrir tæpum tveim áratugum og hana munu Sunni múslimar sækja.
Upphaf ferðar
Það var lagt í hann um miðjajn morgun úr Sjálfbæru borginni, eftir að slæður höfðu verið teknar til og kjólum klæðst. Ég held ég hafi ekki þurft langan tíma til að sannfæra sjálfan mig um að láta vaða í að mæta í nýkeyptum gallanum mínum, smeygði honum yfir mig og annar klæðnaður var í algeru lágmarki. Þetta er afar þægileg flík að klæðast í því loftslagi sem þarna er.
Það var fÁ sem tók sér það hlutverk að flytja okkur fimmmenningana til Abu Dhabi og öfugt við það sem maður hefði búist við, var talsvert hávaxinn trjágróður meðfram veginum alla leið. Þegar styttist í höfuðborg furstadæmanna fóru að sjást skilti við veginn sem vísuðu á moskuna, sem stendur nokkuð sér og fór aldeilis ekki framhjá manni þegar nær dró. Auðvitað hafði GPS-ið verið stillt á bílastæði í bílakjallara og þangað var rennt, en rétt eins og aðrir bílakjallarar á þessum slóðum, var þar allt tandurhreint og karlar á hverju strái sem unnu við að sópa og pússa.
|
Leiðin í bílakjallarann |
Í moskunni
Þegar við stigum úr bílnum í bílakjallaranum, skellti ég á mig rauðflekkóttu slæðunni/klútnum og svörtu hringjunum og var þar með klár í slaginn. Slæðum kvenfólksins í ferðinni var komið fyrir, þær stilltar af og þar með var ekkert því til fyrirstöðu að hefja gönguna inn í þennan helga stað múslína.
Úr bílakjallarunum komum við inn í heilmikla verslunarmiðstöð, þar sem menn seldu meðal annars ilmvötn (nema hvað). Það er alveg hugmynd fyrir staðarhaldara í Skálholti að koma málum þannig fyrir, að til þess að komast í kirkjuna, þurfi gestir að ganga gegnum verslunarmiðstöð, allavega framhjá einni eða tveim búðum, en hvað um það.
Ekki stöldruðum við nú við í þessu kaupmannamusteri, heldur héldum sem leið liggur eftir löngum göngum neðanjarðar að mestu, framhjá klæðnaðareftirlitsmönnum, þar til við komum á stað þar sem gerð var krafa um að við værum búin að skrá okkur til heimsóknarinnar í gegnum eitthvert app.
Það varð auðvitað hlutverk fÁ að finna út úr því og með aðstoð starfsmanns hellti hún sér ofan í símann sinn til að skrá þennan einstaka/sérstaka/frækna hóp til inngöngu. Þetta tókst allt og þar með var haldið áfram, neðanjarðar í átt að moskunni. Þessari gönguför lauk með því að rúllustigi flutti hópinn upp á yfirborðið og við blasti hið glæsilega mannvirki og fátt annað í stöðunni en að festa hópinn á myndflögu með réttum bakgrunni. Hluti myndanna ratar svo bara hingað:
Eftir að ekki þótti efni til frekari myndatöku héldum við inn í hið mikla mannvirki, sem hefur víst aðallega það hlutverk, að vera bænastaður sunni múslíma. Það er einhvernveginn svo með okkur mennina, að við höldum að glæsilegar byggingar (glæsilegur klæðnaður, eða innanstokksmunir) höfði eitthvað sérstaklega til guðs okkar, en um það hef ég nú reyndar talsverðar efasemdir. Trú snýst um allt annað.
Þarna var auðvitað margt fólk auk okkar, og í sömu erindagerðum. Þetta ferðalag var svona dálítið eins og þegar sauðfé er rekið í rétt. Það gafst ekki mikið færi á að staldra við og njóta fagurrar byggingalistar, eða glæsilegra listaverka og ljósabúnaðar. Það voru allstaðar menn sem sáu til þess að hópurinn hélt áfram tiltekinni leið í gegnum súlnagöng og hvelfingar. Það sem fyrir augu bar, var bara fagurt og magnað á margan hátt. Mér finnst rétt að geta þess að mér til nokkurs léttis var talsvert um að aðrir karlar klæddust eins og ég. Þar með hurfu efasemdir mínar um að hafa kannski tekið einhverja áhættu með klæðaburðinum.
Ég er nokkuð viss um að það sé tilgangslítið að eyða tíma í að skrifa hér langan texta til að reyna að lýsa því sem þarna bar fyrir augu. Ég á ekki von á því að það nútímafólk sem ratar hingað inn, sé mikið að bögglast í gegnum þannig texta.
Þessvegna læt ég bara duga að láta hér fylgja nokkrar myndir, sem lýsa nokkurnveginn því sem ég hefði annars eytt orðum á.
|
Það var aðdáunarvert hvað þessi leikskólabörn virtust vel upp alin. |
Eins og búast mátti við, kom að lokum göngu okkar um hina miklu sali og súlnagöng moskunnar sem kennd er við Sjeikh Zayed. Margt var hugsað og ýmsu gat maður velt fyrir sér. Mér finnst eftir þetta, sem fyrr, reyndar, að það sé sama hver trúarbrögðin eru, þeirra megin hlutverk er að stjórna mannshuganum. Á sama tíma og trúarsetningar, af öllu tagi, halda á lofti mikilvægi þess að trúa á algóðan guð og prediki um hið góða í heiminum sem við byggjum, þá eru þær jafnframt kjarninn í sem verst er í veröldinni: styrjöldum, kúgun og þjóðarmorðum. Þeim tekst einhvern veginn að kalla fram í manninum einhverja illsku í búningi manngæskunnar. Ótrúleg blanda það. Það væri kannski vert að velta því öllu fyrir sér.
Eftir heimsóknina í þessa miklu mosku var komið við í verslunarmiðstöðinni þar sem fD keypti tvær slæður af sérstöku tilefni. Önnur var svartköflótt og hin rauðköflótt, eins og mín. Þarna útskýrði afgreiðslumaður muninn á þessum slæðum þannig, að hvítar væru algengastar í Dúbæ, rauðköflóttar í Saudi Arabíu og svartköflóttar í Palestínu. Þar með vissum við það og jafnframt meira en daginn áður.
Loks fengum við okkur ískaffi og smá meðlæti, áður en haldið var til baka í Sjálfbæru borgina í Dúbæ.
--------------------------
Nú er þar komið sögu, að hún er að verða búin. Ætli ég láti ekki verða af því að hnýta síðasta hnútinn í þessari miklu frásögn að ferð eldri borgara til Dúbæ í október, árið 2024 .............. næst.