08 janúar, 2026

Costa Rica (15) Fen á fjöru

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

--------------------------------------
Fyrri heili dagurinn okkar í Tamarindo var ekkert skipulagður, þannig að við höfðum alveg frjálsar hendur með hvað við tækjum okkur fyrir hendur og sáum svo sem ekki fram á annað en rölta um ströndina, eða bæinn til að leyfa tímanum að líða. Guðni (fararstjóri) hafði hinsvegar nefnt sem möguleika, að skella sér í siglingu inn í fenjasvæðið. Ég átti nú ekki auðvelt með að sjá fyrir mér fenjasvæði þarna í nágrenninu, en þegar við ókum inn í bæðinn daginn áður, hafði glitt í einhverja báta gegnum trjágróðurinn. 
Vissulega leit ég á þetta sem möguleika, en þar sem ég er nú ekkert fyrir að braska meira í hlutum en ég þarf, reiknaði ég ekki með  að það yri eitthvað úr svona leiðangri.  Það var þá, þennan morgun, að við hittum tvo ágæta ferðafélaga okkar, sem við höfðum haft meiri samskipti við í ferðinni en marga aðra. Þetta eru þau Arnborg og Þorgeir og við nefndum þennan möguleika við þau, svona í framhjáhlaupi. Þeim leist harla vel á og við nánast ákváðum þá að leggja í að kanna málið, í það minnsta. 
(Stækka til að sjá betur)
Þau hittu síðan Sólrúnu og Jón, sem líka voru áhugasöm og þannig varð bara úr að við sexmenningarnir, hófum göngu út í óvissuna til að athuga hvort við fyndum kannski einhvern bátsmann sem væri til í að sigla með okkur um fenjasvæðið. 
Þetta var nú ekki löng ganga sem við tókumst þarna á hendur, en ágætis hreyfing eftir aðalgötunni í bænum. Þegar við síðan komum að líklegum stað til að stefna niður að sjónum, gerðum við nákvæmlega það. Þar var, við fyrstu sýn, harla lítið um að vera. Þarna var háfjara og  þetta leit ekkert sérstaklega vel út . En svo rákumst við á náunga sem var á göngu í fjörunni og þá kom í ljós að hann var eitthvað viðloðandi bátasiglingar um fenjasvæðið. Sagði hann að bróður sinn örugglega vera tilbúinn að skjótast með okkur og gerði okkur tilboð sem við gátum ekki hafnað, $35 á mann, eða um 4500 krónur. Hann fór þá með okkur að bát sem þarna var á floti og frá trjágróðrinum aðeins innar á ströndinni kom bróðirinn. Svo var gengið frá greiðslu, okkur sexmenningunum komið þannig fyrir, að þunginn dreifðist rétt, og þá var bara stefnan tekinn inn í ósa árinnar sem aðskilur tvær strendur: Playa Grande og Playa Tamarindo.
Sexmenningarnir í góðum gír.
Báturinn var í líkingu við þennan, hér hægra megin: (því miður láðist mér að mynda bátinn, skipstjórann og sölumanninn):

Sem fyrr segir  var háfjara þegar við ákváðum að takast siglinguna á hendur og það hafði í för með sér, að skipstjórinn þurfti stöðugt að leita leiða framhjá grynningum, eða beita skipstjórnarlegum aðferðum við að losa fleyið af strandstað. Við þokuðumst samt áfram þarna upp árósinn og inn í fenjasvæði og það fór ekkert milli mála hver sjávarstaðan var á flóði.


Við vorum ekki komin langt upp ána, þegar dýralífið fór að láta á sér kræla og fyrst voru það aðallega hegrar af ýmsu tagi. 
Ég freistaði þess að leita uppi nöfn á þeim dýrum sem urðu á siglingaleið okkar. Ég treysti mér ekki til að fullyrða um að allt sé rétt greint og ef svo reynist ekki vera, bið ég um að verða látinn vita, svo ég geti bætt úr. Þá bendi ég aftur á, að til að sjá stærri útgáfu myndanna þarf bara að smella á þær.






Látum duga með hegrana. Þeir voru augljóslega vanir mannaferðum á svæðinu og gerðu lítið annað en gjóa á okkur augum við og við þegar við renndum upp að þeim eða í nágrenni við þá. Það var eins með skipstjórann (bróðurinn) okkar og Alejandro (leiðsögumanninn ír ferðinni); hann bjó yfir þessu læsi á dýralífið, sem við erum augljóslega síðri í. Hann sveigði þarna þvers og kruss, ekki bara til að forðast grynningar, heldur ekki síður vegna þess að hann hafði séð eitthvert dýr við bakka árinnar. Það kom ekkert að sök þó það hafi komið til tals að það væri dálítil "kaupstaðarlykt" af honum. Þarna fann hann hvert dýrið á fætur öðru og sagði heilmikið frá því, án þess að ég, í það minnsta, væri miklu nær. Ætli hafi ekki komið tvennt til: enska var ekki móðurmál hans og svo hafði mótorhljóðið truflandi áhrif. Hvað sem þessu líður, þá var þarna vanur maður á ferð, sem kunni sitt fag.

Og svo birtust fleiri dýr, enda leikurinn til þess gerður:







Eðlurnar lokkaði skipstjórinn til okkar með því að fleygja til þeirra ananasbitum. Fyrst var bara ein eða tvær þarna á bakkanum, en þær þustu margar í viðbót fram úr skógarþykkninu þegar þær uppgötvuðu þetta góðgæti og voru fljótar að gera því góð skil.






 Einn ungan krókódíl sáum við þegar skipperinn stefndi allt í einu að landi. Það kom mér einna helst á óvart, að hann var tiltölulega smár miðað við þær hugmyndir sem ég hafði nú gert mér um þessi dýr.  Þó hann væri smár, þarna grafkyrr á bakkanum, vorum við eindregið hvött til að fara nú ekki að freistast til að setja fót úr fyrir borðstokkinn. Við hlýddum því, að sjálfsögðu.
Svo sáum við fleiri  svona kappa, aðallega á sundi, tilbúna að gæða sér á okkur ef færi gæfist.






Mér varð á að leita aðeins upplýsinga um þetta svæði, þegar heim var komið og rakst þá á eftirfarandi:

Það var hluti af þessari siglingu okkar þarna um fenjasvæðið, að kíkja inn á stað þar sem apar munu vera allfjölmennir, en þar lenti báturinn á grynningum, sem ekki varð komist yfir, svo ekki var um að ræða en snúa við.
Þar með var haldið aftur í átt til sjávar og við fullsátt við siglinguna. 


Allt gekk vel þarna niðurúr og hinn bróðirinn kom að okkur þar sem við stigum frá borði og bauðst meðal annars til að fara með okkur á einhvern stað í nágrenninu þar sem skjaldbökur verpa í sandinn. Það var reyndar mjög áhugavert, en nú var farið að síga heldur betur á seinni hluta dvalarinnar á Costa Rica, svo við urðum að afþakka. Svo gengum við sem leið lá eftir ströndinni heim á hótelið.

Svo kom kvöldið með sínu og þá nóttin, alveg eins og venja er til. Framundan síðasti dagurinn í þessu ævintýralega landi.

----------------------------
Nú fer að styttast í þessu, en það er ekki búið.


07 janúar, 2026

Costa Rica (14) Kyrrahafsströndin

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

--------------------------------------
Eins og maður gerir á ferðalögum, renndum við í hlað á 4 stjörnu glæsihóteli í Tamarindo, sem ber nafnið Tamarindo Diria Beach Resort  Maður eru vanur því að  taka farangurinn úr farartækinu, ganga inn og fá úthlutað herbergi og fara þangað með farangurinn. Vissulega tókum við við farangrinum úr rútunni, fengum lykil að herberginu, ekki inni reyndar, heldur nánast utandyra, þar sem engir veggir voru á anddyrinu. Síðan tók enn annar háttur við. Að streymdu starfsmenn hótelsins og báðu okkur að bera kennsl á farangurinn og númerið á herberginu. Töskurnar voru merktar herbergisnúmerinu og síðan hlóðu þeir þeim á vagna og hurfu á braut. Við fórum að horfa á sólarlagið, en síðan röltum við, eins og fínt fólk, að leita að herberginu, sem reyndist vera á annarri hæð, af þrem. Þegar inn í það var komið, biðu töskurnar okkar fyrir innan dyrnar. Þvílíkt!
Til glöggvunar á því sem síðar kemur, læt ég hér fylgja kort af staðnum sem við vorum þarna komin á.
Diria hótelið og örvar sem benda á helstu hluta þess.

Úr herberginu blasti Kyrrahafið við í ljósaskiptunum.
Það er, alla jafna ekki frá mörgu að segja frá hóteldvöl einhversstaðar. Þarna bar aðeins nýrra við, sem kryddaði tilveruna umfram þá stöðu, að úr herbergi okkar fD blasti Kyrrahafið við okkur, fyrsta sinni. Auðvitað reyndist það bara vera svona haf eins höf eru, en samt var tilfinningin önnur. Það má kannski líkja þessu við áramót, þar sem ári lýkur og nýtt tekur við. Það gerist í rauninni ekkert, en samt er það eins og nýtt upphaf.

Ég sagði að þarna hafi borið nýrra við og þar kom aðallega tvennt til. 
Fyrsta morguninn fórum við í morgunverð á veitingasvæðinu (sjá loftmynd) og þar var að finna svo óendanlegt úrval að maður bölvaði því að hafa ekki stærri maga. Eftir að röltum við aðeins um svæðið svona til að kynna okkur staðhætti og loks aftur í herbergið.
Þá bar svo við, að á dyrahúninn var búið að hengja skilti þar sem óskað var eftir að herbergið yrði ekki þrifið. Ekki ætla ég að fara nánar út í það sem fylgdi, en set þetta hér bara til minnis, með tilvísun í myndina hér til hægri, ef einhver nennir að velta fyrir sér aðstæðum sem þarna komu upp.

Annað, heldur áhugaverðara, gerðist í þessu herbergi okkar, eða réttara sagt fyrir utan það. Við verðum að hafa í huga, að þarna vorum við í umhverfi sem við þekktum ekki mikið til, og því meira á tánum gagnvart umhverfinu en á Austurveginum. Fyrsta morguninn var ég innan dyra, eitthvað að dunda mér við að fletta í gegnum fréttamðla á Íslandi, en fD sat við svipaða iðju, líklega, á svölunum. Ég vissi ekki fyrr til en hún stökk inn um svaladyrnar og lokaði þeim snöfurlega á eftir sér. Svo sagði hún farir sínar ekki sléttar. Hún hafði heyrt hrollvekjandi villidýrsöskur skammt frá svölunum og, skiljanlega, átt von á hinu versta. Ég kíkti út og sá engin villidýr, en við áttum sannarlega eftir að komast að hinu sanna í málinu. 
Eins og sjá má á loftmyndinni hér ofar, er sérstök ör sem bendir á þakið fyrir framan svalirnar hjá okkur. Eftir þessu þaki, milli trjáþyrpinganna við báða enda þess, gengu með reglubundnum hætti, tveir apakettir, karl og kerling. Rannsóknir leiddu í ljós, að þarna voru á ferð öskurapar. 





Hjúin áttu þarna reglulega leið um þann tíma sem við vorum þarna og annan morguninn þegar við komum út á svalir sátu þau í rólegheitum rétt fyrir utan svalahandriðið. Það sem mér fannst erfiðast að kyngja við þetta apamál var, að þau voru alltaf á ferð þegar ég var ekki tilbúinn með myndavél og rétta linsu. Myndirnar hér fyrir ofan eru þær einu sem mér tókst að ná af þeim. 
Þessi apategund kallast sem sagt öskurapi eða Howler monkey (Mantled howler, Alouatta palliata). 
Hér má heyra hvernig hljóð öskurapans er:


Það er karlinn sem öskrar og maður getur velt fyrir sér hvernig svona tiltölulega lítið dýr getur gefið frá sér svona hljóð. Karlinn er um 15 kg. meðan kerlingin er rúm 7 kg. 
Hvað sem þessu öllu líður þá voru þetta skemmtilegir gestir á þakinu. Þeir gerðu okkur þó ljóst, að við gátum átt von á villtum dýrum í þessu umhverfi, þó inni í miðjum ferðamannabæ væri. Þarna voru íkornar skoppandi og klifrandi í trjám, páfagaukar og ýmis önnur dýr.



Svo birtist kattardýr á þakinu eitt síðdegið. Það var bröndótt á lit og fetaði sig í nágrenni við svalirnar. Traust fD á dýrum á svæðinu var í lægri kantinum, þannig að hún fór umsvifalasut inn fyrir og lokaði. Dýrið lét staðar numið fyrr framan svalirnar og ég gerði svona "kis-kis" hljóð, til að athuga hvernig það brygðist við. Það brást við með því að stökkva inn á svalirnar og alveg til mín, fór að nudda sér upp við mig, en ég heyrði það þó ekki mala. Svo lagðist það við stólinn minn um stund og sá tími kom, að mér fannst að það ætti nú að halda áfram för sinni eftir þakinu. Það var þó ekki fyrr en það gekk að svaladyrunum og settist, væntanlega í von um bita, að ég taldi aðgerða þörf, tók það og skutlaði út á þakið (svona rúman metra) og með því lauk þessari heimsókn.

Ströndin fyrir framan hótelið er gríðarstór og þar dundar fólk sér við að vaða, synda, sigla, eða reyna sig á sjóbrettum. Það er heilmikill munur flóðs og fjöru, eða um 2-3 metrar. Við áttum eftir að reyna það síðar.

 Svo kemur kannski framhald...



05 janúar, 2026

Costa Rica (13) - Leiðin til Tamarindo

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

Á þessum degi, sem var föstudagurinn 21. nóvember, vorum við að gera okkur klár, þegar það bárust af því fregnir, að rútan væri biluð og við skyldum bara koma okkur vel fyrir og halda ró okkar. Nú, það var einmitt það sem við gerðum. Rútan komst í lag, en hvað var að henni, eða hvernig tókst að laga það, er ekki á mínu færi að segja frá.  Svo var bara lagt í hann. Hér fyrir neðan er leiðin sem ekin var þennan dag, um 210 kílómetrar. 



Fyrri hluti hennar lá eftir harla krókóttum vegi meðfram Arenal vatninu (Lago Arenal), sem er stærsta stöðuvatnið á Costa Rica, 85 km² að stærð, örlítið stærra en Þingvallavatn, sem mun vera 83,7 km². Dýpt þessa stöðuvatns er á bilinu 30-60 metrar.
Arenal vatnið var upphaflega lítið, náttúrulegt stöðuvatn, en með stíflu sem var lokið 1979, við Presa Sangregado (þar ókum við einmitt yfir þegar við skelltum okkur á hengibrýrnar í frumskóginum) fór allt land undir 550 m yfir sjávarmál undir vatn, en ríkið tók þetta land eignarnámi. Tveir bæir við vatnið, Arenal og Tronadora hurfu undir vatn og íbúunum komið  fyrir í nýjum bæjum í nágrenninu.
Vatnsaflsstöðvarnar sem urðu til við þetta framleiddu upphaflega 70% af orkuþörf landsins, en nú um 17%. Það má segja að orkuframleiðslan þarna sé drifkrafturinn í grænorkustefnu landins.

Eftir að hafa ekið hlykkjóttan veginn norðaustan vatnsins lá leiðin til vesturs og síðan í suður, þar sem áð var um stund, með útsýni yfir vatnið og eldri herramaður gerði sitt besta til að leiðbeina ökumönnum um hvar og hvernig þeir gætu lagt bifreiðum sínum.



Áfram var svo haldið í vesturátt, enn eftir fremur krókóttum vegi, allt þar til við komum í bæinn Cañas, en þar eru íbúar ríflega 30.000. Þar neytti hópurinn ágæts hádegisverðar á litlu veitingahúsi, áður en haldið var úr á hraðbrautina, Ctra. Interamericana N (Inter Amercan Highway) - sem liggur nánast eftir endilangri Ameríku, en hún sker þennan bæ í sundur. 
Ekki vorum við búin að aka lengi þegar komið var að aðaláningarstaðnum þennan daginn, en það var Centro de Rescate Las Pumas. Þarna er um að ræða einskonar björgunarmiðstöð og athvarf fyrir villt dýr. Þess ber að geta, að dýragarðar, eins og við skiljum það orð, eru bannaðir í Costa Rica. 



Svissnesk hjón, Werner Hagnauer og Lily Bodmer, fluttu til Costa Rica árið 1959 til að starfa hjá Hacienda La Pacífica í Cañas. Mér skilst að það hafi verið einhverskonar athvarf fyrir fugla.
1971 keyptu þau síðan  búgarð til að stunda sjálfbæra ræktun.
Þarna hóf Lily að taka á móti villtum dýrum sem voru í vanda af ýmsu tagi, sem of langt mál væri að fara yfir hér. 
1985 ákváðu hjónin að selja búgarðinn, en héldu eftir um 85 ha og stofnuðu það sem er í dag er þessi miðstöð sem við heimsóttum þarna. 
Verkefni miðstöðvarinnar er að bjarga, endurhæfa og sleppa villtum dýrum, eftir því sem hægt er.
Nú er það Hagnauer stofnunin sem heldur utan um þetta starf og það er fjármagnað með frjálsum framlögum og aðgangseyri gesta sem heimsækja stofnunina og njóta þess að sjá dýrin sem þar er að finna og lesa sögu þeirra, en við hvert risastórra búra sem dýrirn eru í, er að finna spjöld með nöfnum þeirra (já þau fá nöfn) og sögu, sem er sögð í fyrstu perónu. Ég leyfi mér að setja hér örfá dæmi:

MALEKU
JAGUAR (Panthera onca): Felidae

"Ég kom hingað í október, 2021. Maður kom með mig til dýralæknisins í kassa og það var talið að ég væri 2-3 mánaða gamall. Það er ekkert vitað um uppruna eða örlög móður minnar."






PEPE
SPIDER MONKEY (Ateles geoffroyi)
"Ég var gerður upptækur árið 2020 í Santa Cruz. Kona hafði drepið móður mína til að éta hana - meðan ég var enn ófæddur. Eftir að ég fæddist, héldu þau mér föngnum (bundnum) (sem er óleyfilegt)." 


LAMBI
WHITE-TAILED DEER (Odocoileus virginianus): Cervidae
"Ég kom hingað 2018 frá bagaces, þegar ég var tveggja mánaða. Fjölskylda hafði fundið, yfirgefinn, sennilega vegna þess að veiðimenn höfðu drepið mömmu. Aðlögun mín/endurhæfing hjá fjölskyldunni gekk ekki sem skyldi vegna þess að ég myndaði of mikil tengsl við mannfólkið og þess vegna var ekki hægt að sleppa mér út í náttúruna aftur."


ANASTACIA
SCARLET MACAW (Ara macao): Psitacidae
"Mér var haldið ólöglega í húsi í Cañas. Nágranni stökk yfir girðingu bakatil og tók mig og fófór með mig heim, en þá var ég bara með eina stélfjöður, engar aðrar fjaðrir á líkamanum. Hinir ararnir (macaw) hérna eru líka komnir úr svipuðum aðstæðum.


Vegna þess að dýrin voru flest inni í stórum búrum, tók ég harla fáar myndir þarna, en hér eru nokkrar.





Þetta var ansi áhrifamikil heimsókn og fróðleg, en áfram var haldið, eftir hraðbrautinni til vesturs í átt til Liberia (þar sem við lentum þegar við komum til landsins). 
Það átti ekki af Carlosi rútubílstjóra að ganga, en skömmu eftir að við lögðum upp í þennan legg, heyrðist einhver skellur þannig að hann stöðvaði farartækið úti í kanti til að athuga hverju sætti. Þá kom í ljós að einhver hlíf, fremst á rútunni, hafð dottið af og hún fannst ekki, og því var bara haldið áfram.
Við Liberia var svo haldið til suðurs í átt til Tamarindo. Mesta spennan snérist um það, hvort okkur tækist að sjá sólarlagið. Það tókst, eins og hér má sjá:


Svo bæti ég kannsi einhverju við um þriggja nátta dvölina á þessum stærsta ferðamannastað í ferðinni. Hún var nú ekkert slor.

Costa Rica (15) Fen á fjöru

Frásögnin hefst  hér FRAMHALD AF  ÞESSU -------------------------------------- Fyrri heili dagurinn okkar í Tamarindo var ekkert skipulagður...