30 janúar, 2010

Enn fallast mér hendur

Eins og aðrir Íslendingar átti ég þess kost að ganga í gegnum íslenska skólakerfið, fékk meira að segja að byrja í undirbúningsskóla hjá Sigurbjörgu, konunni hans Braga dýralæknis, ásamt nokkrum félögum í Laugarási, árið áður en haldið var til náms í barnaskólanum í Reykholti.

Þegar ég hafði lokið námi til fyrsta háskólaprófs varð það úr, að ég hóf störf við Reykholtsskóla haustið 1979, hvar ég síðan starfaði til 1986.

Stjórnmálaskoðanir þorra Biskupstungnamanna voru þá, eins og líklega núna og væntanlega eins og í flestum dreifbýlissveitarfélögum landsins, þannig, að fólk var annaðhvort sjálfstæðis- eða framsóknarmenn.

___________________________________

Þetta er einkennilegur formáli að umfjöllunarefninu, en helgast eingöngu af því að ég er ekki viss um hvort það sem ég vísa til gerðist þegar ég var nemandi í Reykholtsskóla (til 1966, líklega), eða á fyrstu árum mínum sem kennari þar.

Þarna var, sem sagt um að ræða tvo kennara. Annar þeirra var eitilharður sjálfstæðismaður, og þess vegna virtur þegn í samfélaginu, en hinn, einn af þessu fólki sem taldist af flestum samfélagslega varasamt, og gat því varla orðið annað en töskumanneskja í sveitinni.

Sjálfstæðismaðurinn var duglegur að halda fram þeim gildum sem sá flokkur stóð fyrir og hinn reyndi það líka, að sínu leyti. Þetta varð til þess að sá síðarnefndi þurfti að sæta því að vera sakaður um pólitískan áróður og fá sérstakt tiltal fyrir. Sá fyrrnefndi hafði "réttar" skoðanir, en sá síðarnefndi "rangar".

________________________________________

Þetta kom upp í huga minn í gærkvöld, þegar okkur, þessum RUV-eingöngu þegnum þessa lands var boðið upp á bandaríska kvíkmynd frá 1986, sem bar íslenska heitið: "Stúlkan sem kunni að stafa".
Af sjálfspíningarhvöt einni saman, lét ég mig hafa það að sitja undir þessum ósköpum.
Ég hef nú fengið að sitja undir mörkum vestanhafskvikmyndum gegnum árin, en fáar hafa jafnast á við þessa í grímulausum áróðri fyrir þeim gildum sem þar var (og er) haldið á lofti.
Þarna vantaði enga af þeim klisjum sem á okkur hafa dunið síðustu áratugina, aðallega í gegnum kvikmyndir, sem eiga að sýna risaveldið sem sæluríki.

Ég get ekki haldið öðru fram, en að þessi boðskapur hafi komist vel til skila til íslensku þjóðarinnar. Það er ekki að ástæðulausu sem við höfum verið kölluð litla Ameríka.

Ef hér hefði verið um að ræða sovéska mynd frá Stalínstímanum, um fyrirmyndarríki kommúnísmans þar eystra, ef slíkt ríki væri enn til, ér ég hræddur um að á þessum degi hefðu margir þörf fyrir að tjá sig.

_______________________________

Við erum nú í tiltekinni stöðu sem þjóð. Ég leyfi mér að halda því fram, að umtalsverður hluti af ástæðunni fyrir því, sé ótæpilegur skammtur að vestan af áróðri fyrir yfirborðsmennsku ásamt yfirgengilegri þjóðernisrembu sem er íklædd velgjuvaldandi væmni.

Erum við farin að leggja hönd á hjartastað þegar þjóðsöngurinn er sunginn?


28 janúar, 2010

Flytoget (2)

Eins og kom fram í 1. hluta keypti ég miða með Flytoget í greiðsluvél á Oslo S - TVO miða. Þessa miða setti ég í brjóstvasann, þar sem Óslóarmaðurinn sagði mér að það þyrfti ekki að nota þá fyrr en komið væri á flugvöllinn. Þar væru hlið sem væru þannig útbúin, að til þess að komast í gegnum þau þyrfti maður að renna miðanum í gegnum þar til gerða rauf. Ekki taldi ég að þarna gæti orðið eitthvert vandamál á ferðinni.

Nú vorum við komin út úr Flytoget á Gardemoen flugvelli - vorum reyndar með seinni skipunum út úr lestinni vegna áðurnefndrar smáskilaboðasendingar. Því var það, að flestir þeirra fáu farþega sem þarna yfirgáfu lestina, voru þegar horfnir af brautarpallinum. Þarna fyrir utan beið okkar töskukerra, sem við auðvitað skelltum farangrinum á. Það kom, af einhverjum ástæðum, í hlut fD að aka kerrunni, á meðan ég tók forystuna í átt að hliðunum sem þarna blöstu við.

Ég gerði ráð fyrir að fD fylgdi mér eftir, sem síðar reyndist raunin. Þarna kom ég að einu hliðinu, tók upp miðana úr brjórstvasanum, fann raufina og renndi miðanum í gegn. Viti menn, hliðið opnaðist og ég gekk snarlega í gegn.

Það gerðist í sama mund og ég var að fara að snúa mér við, til að rétta fD hinn miðann, yfir hliðið, svo hún gæti rennt honum í raufina líka, að kerran rakst í hæla mér og fD sagði: "Svona, áfram með þig!" Í sömu mund var hliðið að lokast, en fD hélt sínu striki, hiklaust, með hliðið klemmt um fótleggina. Vegna ákveðni hennar gaf hliðið sig og við komumst í gegn á einum miða.
Þarna stóðum við nú, komin í gegn og ég velti fyrir mér hvernig ég ætti nú að fara að því að renna hinum miðanum í gegn, enda ekki um það að ræða að ná til raufarinnar.
Það var þarna, sem ég áttaði mig á því að ef til vill hefði ég átt að láta fD vita af því að miðarnir væru tveir og að ef til vill hefði ég átt að láta hana hafa sinn miða áður en eg fór í gegnum hliðið.

Þegar hér var komið tók við augnablik þar sem ég velti fyrir mér hvað þetta glappaskot gæti haft í för með sér. Við svona aðstæður verður manni oft fyrir að líta í kringum sig til að athuga hvort einhver hefði orðið vitni að ósköpunum. Auðvitað var það svo. Í um 30 metra fjarlægt greindi ég hvar ábúðarfull, einkennisklædd Noregsmær kom út úr varðskýli á brautarpallinum. Það hefur sjálfsagt blikkað viðvörunarljós í varðskýlinu.
Þarna hugsaði ég hratt, ekki síst þar sem Óslómaðurinn hafði fjallað um það í mín eyru, hve sektaglaðir Norðmenn væru fyrir minnstu yfirsjónir. Ég tók á það ráð að fara að veifa höndunum í ímynduðum samræðum við fD - svona eins og þegar maður er að fara í gegnum tollinn í Keflavík með vonda samvisku. Í beinu framhaldi af því hóf ég að leika einhverja persónu sem ekkert veit þegar lestasamgöngur eru annars vegar. Ég gekk því rösklega á móti fraukunni, sýnandi þar með, að eitthvað hefði klikkað hjá mér. Þegar ég nálgaðist hana setti ég síðan upp það sakleysislegasta sveitamannabros sem ég átti til fórum mínum, sveiflandi framan í hana tveim miðum.

Þessi ágæta kona tók við miðunum tveim og grandskoðaði þá, grunsamlega lengi, en rétti mér þá síðan aftur. "Det er OK"
Síðan leiðbeindi hún þessum vanvitum að lyftunni upp í brottfararsalinn, með vorkunnarsvip, geri ég ráð fyrir.

26 janúar, 2010

Flytoget (1)

Til að tryggja örugga og tímanlega heimför frá hinni norsku höfuðborg varð um það niðurstaða, að skella sér á ferðalag með FLYTOGET til Gardemoen flugvallar. Vissulega var hægt að taka sér far með NSB á miklu lægra verði (NOK102 á mann), en talsvert óöruggara var með, hve oft slík lest stöðvaði á leið til flugvallarins.
Leigubíll á Osló S (stendur fyrir SENTRUM, sem mun merkja að þar sé aðaljárnbrautarstöð borgarinnar. Oslómaðurinn með í för, hinu miðaldra sveitafólki til halds og tausts, ef ekki skyldi allt ganga upp.
Á Oslo S þurfti að kaupa miða í Flytoget, en það var gert í sjálfsala, þar sem ég komst að því að kortið mitt var enn nothæft. Út úr söluvélinni komu tveir miðar eins og pantaðir höfðu verið.

Fyrir utan beið Flytoget og þess beið að renna úr hlaði eftir 4 mínútur. Þá lá það einnig fyrir að lestin myndi koma við í Lilleström á leið sinni til flugvallarins.
Tímaáætlun stóðst - lagt var af stað frá Oslo S, í vellystingum: þægileg sæti og skjár þar sem hægt var að lesa heltu fréttir heimsmiðlanna. Skömmu eftir brottför heyrðist engilblíð konurödd sem greindi frá ferðaáætlun; ferðin á flugvöllinn átti að taka nákvæmlega 19 mínútur.

Allt pottþétt fyrstu 13 mínúturnar; lestin leið hljóðlaust áfram að miklum hraða.
Þá heyrðist hanagal frá tösku fD (hanagal er sms hljóðmerkið í símanum hennar). Það tók nokkra stund að nálgast símann, opna hann, ná í gleraugun og fletta upp á skilaboðunum. Þessu næst tók við tímabil skeytaskriftar og að því búnu var ýtt á SENDA. Stutt stund leið.
"Ég geti ekki svarað"
Skeytið sem móttekið hafði verið, fól í beiðni um kaup á einhverju í fríhöfninni á heimleið.
"Þú verður að svara"
Þar sem ég er snillingur, að sumu leyti í að senda svona smáskilaboð, tóka ég fram fína símann minn.
"Hvað er númerið?"
Ég fékk númerið uppgefið og skráði það inn með 00354 fyrir framan.
"Skrifaðu bara: Já geri það"
Ég hóf skriftirnar. Eins og allir sjá er broddstafur í þessu svari og það kallar á vanda í mínum huga. Það sem síðan bættist við, var að nú fór Flytoget að hægja á sér. Ég var búinn að skrifa J.
"Er þetta stöðin á flugvellinum?"
Tíminn mælti með að þetta væri hún, en sú staðreynd að Flytoget hafði ekki áð í Lilleström, mælti gegn því - og ég í miðjum klíðum að skrifa JÁ!
Flytoget var greinilega að renna inn á lestarstöð og ekki ljóst hvaða stöð það var. Það var skyndiákvörðun hjá mér að breyta fyrirskipuðum skilaboðum fD úr "JÁ GERI ÞAÐ" Í EINFALT "JAMM" - í rauninni alveg jafn tjáningarríkt. Þar með ýtti ég á SENDA í þann mund er lestin stöðvaðist og við gátum lesið á skilti fyrir utan, að hér var um að ræða flugvallarstöðina. Taskan rifin ofan úr rekkanum og við héldum út í andrúmsloft flugvallarins í Gardemoen.

Það var þarna úti á brautarpallinum sem fjör færðist í leikinn, en það bíður næstu færslu.

25 janúar, 2010

Norskfæddur ný-Kvisthyltingur

Nú er afstaðin sérstök ferð heimaverandi Kvisthyltinga til höfuðborgar Noregs (hvers handknattleikslið verður væntanlega lagt að velli n.k. fimmtudag). Tilefnin ferðarinnar var auðvitað að kynna sér stöðu mála þar eftir að í heiminn var borið barnabarn númer 2.

Sérlega var þetta skemmtileg ferð sem fær sína umfjöllun nánar síðar, þar sem megináherslan verður lögð á þau ævintýri sem þarna helltust yfir okkur.

Nú er það bar lítilsháttar af barnabarninu, sem auðvitað stendur fyllilega undir því að teljast til afkomendahóps okkar. Þetta lítilræði er, þegar hér er komið, í formi lítilsháttar myndakynningar á pilti. Foreldrarnir sjá væntanlega, bráðlega um frekari kynningu í því formi



17 janúar, 2010

Janúarkrísa (4)

"Já, það flæðir upp úr rótþrónni!"
Þessi yfirlýsing hB olli titringi á hljóðhimnum og barst þaðan inn í heila sem vildi ekki heyra.
Þegar ég síðan gekk aftur út á hlað, blasti við raunveruleikinn, sem oftast er sá sem hann er, en ekki eitthvað annað: það vall upp úr rotþrónni (bara vatn, reyndar, NB).
Ekki bætti það stöðuna, að ekki varð betur greint, en að hB væri hreint ekki viss um hvað hér var á seyði, eða hvað var til ráða.
"Það verður bara að grafa þetta upp", sagði hann og ég gat ekki annað en samsinnt því.
Þar með hófst lokaþáttur þessa óláns sunnudagssíðdegis. Það var farið að rökkva.
"Ég næ í gröfuna. Veistu hvar lögnin er?"
"Ég held það" - Ég var ekkert sérlega öruggur á svarinu, eftir að ég hafði klikkað illilega á að vita hvar frárennsli rotþróarinnar var þegar skipt var um lögnina s.l. sumar.
"Hún kemur hérna út", sagði ég nokkuð hiklaust.
Með þetta fór hB og kom til baka nokkrum mínútum síðar á JCB gröfunni sinni (mér fannst framendinn á henni öðruvísi en þegar ég sá hana síðast, en var ekkert að tefja tímann með því að spyrja út í það).
Grafan var stillt af og gröfturinn hófst.
Það var frost í jörðu eftir mánaðar frostakafla, þar sem enginn snjór var til staðar til að tefja frystingu jarðvegs. Af þessum sökum gekk seinlega að losa efsta lag jarðvegsins, en það tókst. Það var mér mikill léttir, þegar ég sá glitta i frárennslið, nákvæmlega á þeim stað sem ég hafði sagt fyrir um. Ég bjó enn yfir nokkru frárennslaminni eftir allt saman!
Það olli nokkrum áhyggjum, að frostið náði alveg niður að lögninni, sem benti til þess, að það gæti átt þátt í stíflunni.
"Það er best að koma á þetta heitu vatni. Getum við komist í slöngukrana einhversstaðar?"
"Nei, bara með köldu vatni."
"Þá bara skellum við upp heitum krana."
Þar með var haldið í véla- tækja- og búnaðarsafn hB og þar var auðvitað til krani. Honum skellt upp, slanga tengd við og hafist handa við að bera heitt vatn á lögnina þar sem líklegast þótti að stíflan héldi sig.
Þetta bar ekki árangur.
"Þá verðum við bara að taka þetta í sundur."
Þar með var grafið meira; nægilega mikið til að hægt væri að ná lögninni í sundur við hné. Það gekk eftir.
Svo var byrjað að pota, bæði í átt að rotþrónni og framhjáhlaupinu (þar sem afrennslið frá eldhúsvask og þvottavélum kemur inn í frárennsli þróarinnar).
Þegar hér var komið var Berlínarmaðurinn orðinn virkur þátttakandi í aðgerðinni, milli þess sem hann myndaði í gríð og erg). Honum tókst að koma heitu vatni í stútinn í kjallaranum, eftir að hafa beitt "hívert" aðferðinni við að tæma úr lögninni vatnið sem fyrir var.
Það var potað og potað, en ekkert gerðist.
"Það er frosið í rotþrónni" - kvað hB upp úr um þar sem hann potaði með "þröskuldspriki" (ekki útskýrt nánar hér) í átt að henni.
Eftir mikið pot fór loks að birta. Kögglar tóku að berast frá rotþrónni, fyrst fáir og smáir, en síðan stærri. Loks virtist orðið ljóst, að stíflan var laus úr þrónni. Þá tók við að ná tappanum úr eldhúsvasks/þvottavélafrárennslislögninni. Þar eð beygja var á lögninni uppi í þessa lögn varð "þröskuldsprikinu" ekki komið við þar. Reynt var með plastslöngu, en það bar ekki árangur. Því var tekið á það ráð að beita sérstökum gormi í eigu hB. Hann stýrði og framkvæmdi þá aðgerð sjálfur meðan ég stóð og fylgdist spenntur með, með hendur á mjöðm. Eftir mikið hark fór eitthvað að gerast. Fyrst komu litllir fitukögglar, síðan stærri og stærri. Berlínarmaðurinn stýrði stanslaust heitu vatni inn í lögnina frá stútnum í kjallaranum.
Þá gerðist það.

Stærðar köggull veltist út úr lögninni og í kjölfarið fossaði út sjóðandi heitt vatnið.
Sigur var unninn. Sigri fagnaði ég mest innan í mér.

Lögnum var smellt saman.
JCB nýttur af kunnáttu við að moka yfir og jafna.
Tæki og tól tínd saman.
Málin afgreidd.
Allt komið í lag.
FD tók að sér að lagfæra og þrífa upp það sem aðgerðin skildi eftir sig innan dyra.

Enn eitt afrek unnið í Kvistholti.

16 janúar, 2010

Janúarkrísa (3)

Það rann, sem sagt, smám saman upp fyrir mér ljós, eins og sagt er.
Það rifjaðist þarna upp fyrir mér, að þegar húsið var byggt, um miðjan níunda áratuginn, var það trú einhverra spekinga (við vitum nú allt um svoleiðis fólk núna - með alla kreppuspekingana okkar), að það mætti alls ekki veita afrennsli úr eldhúsvöskum eða þvottavélum í rótró, þar sem það dræpi niður gerjunina. Þar sem ég var þá vanur að treysta því sem spakir menn sögðu, hafði ég farið þá leið, að aðskilja þessar lagnir þannig, að allt sem kæmi úr þvottavélum eða eldhúsvöskum færi framhjá rotþrónni og sameinaðist síðan frárennslinu frá henni. Þarna var, sem sagt, komin skýringin á því, að það voru tengsl milli stútsins í kjallaranum og afrennsi frá þvottavél á efri hæðinni.
Þar með varð mér einnig ljóst, að það hlyti að vera stífla einhversstaðar milli stútsins í kjallaranum og sameiningarpunkts lagnarinnar við frárennslið frá rotþrónni.

Hér er teiknuð lýsing fyrir þá sem nenna að setja sig inn í hin fínu blæbrigði aðgerðarinnar sem lýst er:


Hér tók við að hugsa út næstu aðgerð - hvort sem mér líkaði betur eða verr, þá varð hún ekki umflúin.

Fyrir 20 árum keypti ég háþrýstidælu af sölumanni sem fór hér um sveitir. Hún bar nafnið KEW Hobby. Þetta ágæta tæki reyndist vel þann tíma sem ég þurfti á háþrýstiþvo góðurhús. Með þessari öndvegisvél keypti ég, á sínum tíma, langa háþrýstislöngu, sem einmitt hefði komið sér vel við þær aðstæður sem hér vou uppi. Mér varð það hinsvegar á, eftir að ræktunarkafla lífsins lauk, að setja hana til geymslu í óupphituðum pökkunarskúr. Þar af leiðir, svona eftir á að hyggja, að þetta fína dæla reyndist hafa frostsprungið þegar til átti að taka þennan sunnudag. Þar með var hún úr sögunni.

Þegar hér var komið hringdi ég í hB, en þangað hringir maður yfirleitt þegar eitthvað bjátar á í svona málum. Hann átti ekki háþrýstidælu, en einhverskonar gorm átti hann, sem ætlaður var til svona hluta, en skv lýsingu mynd hann líklegast reynast f stuttur, svo átti hann líka langa slöngu sem hugsanlegat væri að nota. Niðurstaða varð um að leita enn um sinn að háþrýstibúnaði.

Ég fregnaði af því að háþrýstidæla væri til á næsta bæ (fD aflaði sér upplýsinga um það), sem gæti verið KEW Hobby og þar með passandi fyrir háþrýstislönguna, en svo reyndist ekki vera. Þar var mér hinsvegar bent á að hafa sambandi við Gaua gas, sem væri meira en líklegur til að eiga góða háþrýstidælu, en svo reyndist ekki vera.

Svona var staðan þegar hB ók í hlað til að kynna sér málavexti frekar.
"Það er örugglega stífluð hjá þér rotþróin líka. Sturtaðu niður."
Þetta hljómaði nánast eins og Dómsdagur væri runninn upp.

Ég sturtaði niður.....

15 janúar, 2010

Janúarkrísa (2)

Áður en lengra er haldið, er kannski rétt að geta þess, að þar sem ég er frekar fyrir pappírshluta framkvæmda, en framkvæmdirnar sjálfar, var ég búinn að grafa upp, þegar hér var komið, teikningar af frárennslislögn hússins (ekki mikill gröftur þar sem ég er alræmdur fyrir skipulagsáráttu mína). Þetta gerði ég til að gera mér betur grein fyrir hvert vatnið úr eldhúsvaskinum og þvottavélinni ætti að fara. Það kemur afar skýrt fram á þessum teikningum, að allt afrennsli (og þá meina ég ALLT) af efri hæðinni sameinaðist og rann þannig út í rotþró, sem er í 25 m fjarlægð frá húsinu og einnig það, með sama hætti, að allt afrennsli af neðri hæðinni sameinaðist ekki afrennslinu af efri hæðinni fyrr en við ofangreinda rotþró. Þetta var afar skýrt teiknað og engum vafa undirorpið.

Þegar þessi skýring lá fyrir, olli það, sem við mér blasti í ferð minni niður í kjallara vegna vatnshljóðs, óleysanlegri gátu í mínum huga.
Þannig er, að út úr vegg í kjallaranum stendur stútur sem upphaflega var ætlaður fyrir afrennsli af eldhúsvaski þar, ef einhverntíma yrði þörf á slíku. Þessi stútur er í 60 cm hæð frá gólfi. Samkvæmt teikningunni, sameinast lögnin frá þessum stút, lögn frá niðurfallli í gólfi kjallarans ásamt öllu því öðru, sem vatn þarf að renna frá, í kjallaranum. Stúturinn var, sem sagt 60 cm ofar en niðurfallið!! Út úr þessum stút flæddi nú vatn í gríð og erg (væntanlega frá þvottavélinni á efri hæðinni, sem hamaðist við að dæla af sér skolvatninu).
Spurningarnar sem ég stóð nú frammi fyrir því að svara voru þessar:

1. Hvernig stóð á því að vatn frá þvottavél á efri hæð gat runnið út um stút sem ekki tengist lögninni frá hæðinni með neinum hætti?
2. Hvernig stendur á því, að þegar stútur, sem er í 60 cm hæð frá gólfi, og sem er tengdur sömu lögn og niðurfall úr gólfi, að það rennur vatn úr stútnum, niður í niðurfallið?

Ég tel mig nú ekki vera óskýrari í kollinum en margir aðrir, en hér var svo komið að mér vafðist ennisblað um litlaheila.
Það var enn svo, eftir að ég var búinn að leggja leið mína niður í pökkunarskúr til að leita einhvers, sem ég gæti troðið ofan í veggstútinn.
Staðan var óbreytt þegar ég hafði troðið slöngubút, sem ég fann þar, í stútinn þar til hann komst ekki lengra vegna einhverrar fyrirstöðu.
Ekkert var breytt í höfðinu þegar ég reyndi árangurslaust að ná ristinni úr niðurfallinu til að athuga hvort það væri kannski stíflað hinumegin frá.

Það eina sem hafði breyst við þessar aðgerðir mínar var, að hlutastífla í frárennslinu hafði breyst í alstíflu - vatnið seig ekki lengur um millimetra í stútnum! Ég hafði greinilega þjappað stíflunni rækilega saman með slöngunni.

Við þessar aðstæður sýndist mér orðið ljóst, að "gulur kóði" hafði breyst í "rauðan kóða"; Það fór ekki dropi frá eldhúsvaski eða þvottavélum lengur, þá leið sem frárennsli frá húsi á að fara. Það sem verst var, var það, að ég skildi ekki hvernig eðlifræðilögmál höfðu þarna verið brotin.

Það hefur stundum hjálpað mér við svipaðar aðstæður, að setjast niður í rólegheitunum, og velta fyrir mér, fram og til baka hvernig þetta mátti vera.

Ég hugsaði, og hugsaði. Ég velti fyrir mér.

Þá fór loks að birta....smám saman.

14 janúar, 2010

Janúarkrísa (1)

"Af hverju rennur ekki úr vaskinum?"
Það var fD sem þarna hafði orðið og sem ábyrgum manni og 'altmuligmand', bar mér auðvitað skylda til að bregðast við með einhverjum hætti.
"Það er ekki gott að segja", sagði ég eftir að ég var kominn inn í eldhúsið og leit þar augum hálffullan vaskinn. Ekki reyndist vera tappi í vaskinum, svo ekki var það ástæðan. FD hóf þarna tilraunir til að fá vaskinn til að tæma sig, með því að nota einhverjar lofttæmingaraðferðir, sem sjálfsagt má líkja við það þegar drullusokkur er notaður, en þessar aðgerðir báru ekki árangur. Eins og mín var von og vísa, lagði ég til við við skyldum bíða og sjá til hvort vaskurinn tæmdist ekki af sjálfu sér. Með það yfirgáfum við eldhúsið (ætli það hafi ekki verðið komnar fréttir). Það leið ekki mjög langur tími þar til það heyrðist eitthvert 'glugg glugg' hljóð úr eldhusinu og við nánari athugum kom í ljós, að vaskurinn var tómur, en hljóðið heyrðist áfram þó nokkra stund. Ég neita því ekki, að mér var létt, en ég neita því ekki heldur, að einhversstaðar innra með mér gat ég greint vott af grun um að þarna væri þessu máli ekki lokið.

Það sem hér hefur verið lýst, gerðist milli jóla og nýárs. Í framhaldinu gerðist það, við og við, að það gluggaði í vaskinum, en alltaf tæmdist hann. Jóla- og gamlársdagsmatarleirtauið var þvegið í uppþvottavélinni og þvottar voru þvegnir eins og vera bar. Alltaf fór vatnið eitthvert. Ég gerði mér vonir um að hér væri aðeins um að ræða eðlilega framvindu meðan kerfið ynni sjálft að því að laga sig.
"Það kemur vatn upp úr niðurfallinu", hljómaði dag einn, rétt fyrir áramótin, neðan úr kjallara.
"Upp úr niðurfallinu? Það getur ekki verið", en þrátt fyrir svarið ákvað ég að skoða málið, með þá óþægilegu hugsun bak við eyrað, að nú færi stundin að nálgast; stundin, þegar ég þyrfti að fara að gera eitthvað í málinu.
Það sem blasti við mér, þegar niður kom, var einhverskonar salli á kjallaragólfinu í kringum niðurfallið. Það var hinsvegar enga bleytu að sjá. Mér þótti ljóst, að vatn hefði runnið að niðurfallinu, en ekki úr því. Leit á bakvið ísskápinn og frystikistuna, en fann engan mögulegan uppruna vatns þar. Þar með ákvað ég að aðhafast ekkert frekar - þetta hlyti að hafa verið eitthvað tilvilljanakennt. Með það fór ég aftur upp til að sinna einhverju sem mér hugnaðist betur, en einhver óútskýranlegur óþægindahnútur gerði aftur vart við sig, ekki þó þannig að hann truflaði mig verulega. Ég greindi það, hinsvegar, að fD var ekki rótt.

Það var síðan síðla dags á sunnudegi, þegar húsið var að fyllast af gestum, þegar þvottavélin var á fullu, þegar ég var að njóta helgarfrísins, þegar framundan var krefjandi vinnudagur, að mér heyrðist ég heyra vatnshljóð neðan úr kjallara. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti nokkuð að sinna þessu, það gætti átt sér eðlilegar skýringar. Það varð þó úr, að gegn vilja mínum fór ég niður stigann og inn í geymslu. Það sem við mér blasti sendi vægan kuldahroll niður hrygginn.

Framhald þessa máls er líklegt.


12 janúar, 2010

Rússíbanajanúar


Eitt það versta sem komið getur fyrir á einu heimili gerðist auðvitað þegar verst stóð á og ég síst tilbúinn til að fara að velta lausn þess fyrir mér. Ég má hinsvegar ekkert vera að gera því skil nú, en mun sannarlega gera það með tilþrifum áður en langt um líður.

Það hefur áður komið fram, að nýr Kvisthyltingur bættist í hópinn í gærkvöld, en þar fyrir utan hefur lífði snúist um að reyna að vinna sem minnst, þar sem þessa dagana njótum við samvista við annan Kvisthylting, Júlíu Freydísi, Berlínarsnót, ásamt foreldrum sínum. Hér er á ferðinni kraftmikil kona, sem er farin að gera sig gildandi - verulega skemmtileg lítil manneskja.



Það er algengara en ekki að þessi mánuður líði hægar en aðrir mánuðir, en svo er hreint ekki nú - þvert á móti.

Annar hluti þess sem lítið er og stórt

Síminn hringdi og Óslóarangi Kvisthyltinga kynnti til sögunnar glænýjan mann, sem beðið hefur verið um nokkra hríð, með tilhlökkun hjá þeim sem enga, eða takmarkaða ábyrgð bera, og tilhlökkunarblandinni áhyggjukvíðaröskun hjá þeim sem þarna voru að eignast sitt fyrsta barn. Þau vita það sannarlega að framundan eru spennandi tímar minnkandi persónufrelsis, en ætli maður verði ekki að reikna með að þau séu fyllilega búin til slíks. Þau vita það væntanlega einnig, að jafnframt því sem þau missa eitthvað við svona nokkuð, þá birtist eitthvað annað í staðinn, margfalt stærra og verðmætara.

Hér eru ítrekaðar kveðjur okkar til nýbakaðra foreldra.



... og einnig til litla pjakksins.



04 janúar, 2010

Ég kalla sko allt ömmu mína!


(þetta er ekki persóna sem tengist mér - bara einhver internet amma :))


Það kannast væntanlega flestir (þó líklega ekki allir skjólstæðingar mínir) við hvað það þýðir þegar sagt er um einhvern: "Hann kallar sko ekki allt ömmu sína, þessi!" - merkingin þá að viðkomandi láti sér ekki allt fyrir brjósti brenna (sem örugglega ekki allir skilja) - merking þess er, eins og einhverjir vita, að viðkomandi er enginn aumingi (allir vita hvað það er).

Þetta ömmu tal er hér til komið þar sem það kom upp í samtali við gamla unglinginn nú síðdegis. Til umræðu var sú kuldatíð sem nú gengur yfir og fólkið sem kvartar yfir hvað það er "svakalega kalt"(Ég tek það fram hér, til að það liggi fyrir, að ég var ekki að kvarta um kulda).
"Já, þetta fólk kallar allt ömmu sína" sagði hann og fór síðan að fjalla um hvernig húsakynni voru áður fyrr, þegar eina upphitunin var í eldhúsinu við ylinn frá eldavélinni þar sem brennt var taði eða mó. Þá var oft um það að ræða að fjósið væri undir baðstofunni og fólki tókst að ylja sér við þær lífrænu, upphitandi, jórturvélar sem þar var að finna.
"Það fólk kallaði sko ekki allt ömmu sína."

Moralen er (flottara á dönsku): Því betri sem lífsskilyrði okkar eru, því meiri aumingjar verðum við. Því meira vorkennum við sjálfum okkur allt það sem við túlkum sem erfitt. Við köllum það ömmu okkar.

Hvers eiga blessaðar ömmurnar að gjalda, að vera notaðar um aumingjaskap?
Það væri gaman að fá upplysingar um hvar þessi ömmutenging varð til. Við höfðum það ekki á hraðbergi, við gamli.

03 janúar, 2010

Það kemur alltaf að því...

...að það komi að einhverjum endapunkti. Nú er komið að enn einum hér á bæ. Morgundagurinn felur í sér að ég tek til við vinnuna mína þar sem frá var horfið. Því fylgja eðlilega blendnar tilfinningar.
Það er að mörgu leyti ágætt að hafa eitthvað ákveðið fyrir stafni og alltaf sú von undirliggjandi, að maður sé að gera eitthvert gagn í starfi sínu.
Á móti kemur, að starfið fellur í sér talverð samskipti við fólk sem skilur stöðugt minna af því sem ég segi við það. Málfar sem er mér tamt er hratt að breytast í "gamalmennamál". Hvað sem tautar og raular mun ég viðhalda mínu gamalmennamáli fram í rauðan dauðann. Þetta var nú út fyrir efnið, en engu að síður verðugt umfjöllunarefni.

Nei, sennilega lít ég bara svo á, að nú sé jólahaldinu lokið og framundan sé hversdagsleikinn, nákvæmlega eins og eðlilegt er. Það væri nú lítið gaman að þessu ef alltaf væru jólin.

------------------------

Nú er blessuð þjóðin enn einu sinni að verða vitlaus í bið sinni eftir og yfirlýsingum sínum um undirskrift eða ekki undirskrift forseta. Ég held, svei mér þó, að okkur sé varla við bjargandi. Auðvitað er það svo, að það er nánast sama hvað blessaður maðurinn gerir, hann verður ausinn auri með hinum skrautlega orðaforða sem við erum orðin svo þjálfuð í að nota. Þegar afgreiðsla hans liggur fyrir, þá verða fjölmiðlarnir undirlagðir því í 2-3 daga. Þá getum við snúið okkur að því að brjálast yfir því sem þá tekur við.

HVERNIG MÁ ÞAÐ VERA, AÐ ÁKVEÐINN HÓPUR MANNA (sjálfsagt margir skynsamir og velmeinandi) TELUR AÐ ÁBYRGÐIN SEM VIÐ ERUM AÐ TAKA Á OKKUR MUNI REYNAST OKKUR OFVIÐA OG KEYRA ÞJÓÐFÉLAGIÐ Í ÞROT, Á MEÐAN ANNAR HÓPUR (sjálfsagt margir skynsamir og velmeinandi) TELUR AÐ EF VIÐ ÁBYRGJUMST EKKI ÞÁ MUNI AFLEIÐINGARNAR VERÐA ÞÆR AÐ ÞJÓÐFÉLAGIÐ FARI Á HÖFUÐIÐ?

Hvernig má það vera?

Það er ljóst, að annar hópurinn hefur, að öllum líkindum, rangt fyrir sér.
Hvernig eigum við, kjósendurnir, að vera í aðstöðu til að kjósa, með upplýstum hætti, um þetta mál? Hvað eru það margir kosningabærir einstaklingar í þessu landi, sem geta fært fullnægjandi rök fyrir afleiðingunum á annan hvorn veginn? Er það ekki mikill ábyrgðarhluti að velta þessu stóra máli yfir á herðar þjóðar, sem sveiflast eins og strá í vindi milli stjórnmálastefna? Þjóðar, sem fyrir rúmu ári vildi ganga í ESB er er nú aldeilis hætt við það. Þjóðar sem fyrir nokkrum mánuðum ákvað í kosningum að refsa stjórnmálaflokki fyrir þátt í hruninu, en hefur nú tekið hann í sátt aftur.

Ef við viljum að afstaðan til ísþrælsmálsins verði tekin á tilfinningalegum grundvelli þá skulum við endilega leyfa þjóðinni að kjósa. Þá verða málsaðilar bara að skella sér í öskurkeppni síðustu dagana fyrir kosningarnar og freista þess þannig að ná sínu fram. Vitræn verður sú umræða ekki, því miður.

Jamm - það kemur alltaf að því.





01 janúar, 2010

Nú er uppi nýársdagur




Það fór aldrei svo, að gamla árið næði ekki að kveðja. Stormasamt var það vissulega, en því lauk einstaklega ljúflega. Það var með eindæmum stillt hér sem víðast annarsstaðar, stjörnubjart og fullt tungl, það sem mun vera kallað blátt tungl (blue moon), af þeim sem til þekkja. Þó frostið nálgaðist 10° varð maður ekki mikið var við neinn bítandi kulda - hverju sem því er nú að þakka eða kenna. Í venjubundinni, hófstilltri skothríð hér á bæ og í nágrenninu kom auðvitað í ljós að nágrenninu var rústað.

Ekki virðist mér nýja árið byrja amalega heldur.


BRENNUSTJÓRINN, BENEDIKT

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...