Mikið hafði ég hugsað mér að taka góða tíma til að slaka á eftir utanlandsför. Sú hugsun var enn ofarlega í huga mér þegar ég tók upp tólið að morgni, daginn eftir heimkomu, og hringdi í byggingavöruverslun til að panta þó nokkurn slatta af 100mm PVC rörum. Sendinguna átti ég síðan von á að fá kannski undir helgi. Allt í góðu.
Ástæða símtalsins átti uppruna í þeirri miður skemmtilegu staðreynd, að frárennsli frá rotþró var stíflað, og var búið að vera svo um nokkra hríð. Það var með vondri samvisku sem Kvisthyltingar sinntu ýmsu því sem kallar á vatnsnotkun og frestur löngu útrunninn til að koma þessu í lag. (þið takið eftir, að ég minnist ekki á fD í því sambandi).
Nú fór ég í að tryggja mér einhvern þann sem gæti framkvæmt það lítilræði, sem þetta átti að kosta í vinnu. Ég hringdi í þrjá aðila - endaði, eftir ábendingar á Spóastaðabóndanum Þórarni, eftir að hafa tryggt aðgang að smágröfu Guðmundar á Iðu.
Þórarinn tók erindinu ljúflega, kvað hér vera um að ræða forgangsmál sem drífa þyrfti í - hann myndi koma seinnipartinn. Mér, sem hafði hlakkað verulega til að slaka á seinnipartinn, féll nánast allur ketill í eld, en lét á engu bera og fagnaði þessu, en grét innra með mér.
Ég kom heim úr vinnunni og skömmu síðar birtist Þórarinn með smágröfuna á kerru. Hann var ekki fyrr stiginn úr bíl sínum og búinn að taka gröfuna af kerrunni, en það varð sameiginleg niðurstaða okkar að hér væri um meira verk en svo að vitlegt væri að vinna það með svo veigalitlu tæki.
Það varð því úr að sótt var risabeltagrafa að Spóastöðum. Það var einmitt þá sem flutningbíllinn birtist, með 100mm PVC rörin sem ég hafði pantað um morguninn og ég sá sæng mína út breidda. Þórarinn vildi bara klára málið, grafan væri upptekin næstu daga í öðru. Eftir tölluverða leit fannst gamla lögnin og viðkomandi endar, í hverja ný lögnin skyldi tengjast. Flaumur mikill braust fram þegar koma að þeim stað þar sem stíflan ljóta var.
Nýju rörin voru síðan tengd við báða enda - varanleg lögn var komin - grafið yfir - búið.
Allt þetta ferli var með ólíkindum snaggaralegt hjá öllum viðkomandi. Pjúúúh.
Ég get ekki neitað því að eftir að allt var búið var mér létt. Nú gat ég farið að njóta þess að slaka á um stund, en það var nú ekki reyndin.......................
Miklar framkvæmdir. Beið satt að segja eftir að sjá mynd af Kvisthöfðingjanum við gröfustjórn ;)
SvaraEyða