17 janúar, 2010

Janúarkrísa (4)

"Já, það flæðir upp úr rótþrónni!"
Þessi yfirlýsing hB olli titringi á hljóðhimnum og barst þaðan inn í heila sem vildi ekki heyra.
Þegar ég síðan gekk aftur út á hlað, blasti við raunveruleikinn, sem oftast er sá sem hann er, en ekki eitthvað annað: það vall upp úr rotþrónni (bara vatn, reyndar, NB).
Ekki bætti það stöðuna, að ekki varð betur greint, en að hB væri hreint ekki viss um hvað hér var á seyði, eða hvað var til ráða.
"Það verður bara að grafa þetta upp", sagði hann og ég gat ekki annað en samsinnt því.
Þar með hófst lokaþáttur þessa óláns sunnudagssíðdegis. Það var farið að rökkva.
"Ég næ í gröfuna. Veistu hvar lögnin er?"
"Ég held það" - Ég var ekkert sérlega öruggur á svarinu, eftir að ég hafði klikkað illilega á að vita hvar frárennsli rotþróarinnar var þegar skipt var um lögnina s.l. sumar.
"Hún kemur hérna út", sagði ég nokkuð hiklaust.
Með þetta fór hB og kom til baka nokkrum mínútum síðar á JCB gröfunni sinni (mér fannst framendinn á henni öðruvísi en þegar ég sá hana síðast, en var ekkert að tefja tímann með því að spyrja út í það).
Grafan var stillt af og gröfturinn hófst.
Það var frost í jörðu eftir mánaðar frostakafla, þar sem enginn snjór var til staðar til að tefja frystingu jarðvegs. Af þessum sökum gekk seinlega að losa efsta lag jarðvegsins, en það tókst. Það var mér mikill léttir, þegar ég sá glitta i frárennslið, nákvæmlega á þeim stað sem ég hafði sagt fyrir um. Ég bjó enn yfir nokkru frárennslaminni eftir allt saman!
Það olli nokkrum áhyggjum, að frostið náði alveg niður að lögninni, sem benti til þess, að það gæti átt þátt í stíflunni.
"Það er best að koma á þetta heitu vatni. Getum við komist í slöngukrana einhversstaðar?"
"Nei, bara með köldu vatni."
"Þá bara skellum við upp heitum krana."
Þar með var haldið í véla- tækja- og búnaðarsafn hB og þar var auðvitað til krani. Honum skellt upp, slanga tengd við og hafist handa við að bera heitt vatn á lögnina þar sem líklegast þótti að stíflan héldi sig.
Þetta bar ekki árangur.
"Þá verðum við bara að taka þetta í sundur."
Þar með var grafið meira; nægilega mikið til að hægt væri að ná lögninni í sundur við hné. Það gekk eftir.
Svo var byrjað að pota, bæði í átt að rotþrónni og framhjáhlaupinu (þar sem afrennslið frá eldhúsvask og þvottavélum kemur inn í frárennsli þróarinnar).
Þegar hér var komið var Berlínarmaðurinn orðinn virkur þátttakandi í aðgerðinni, milli þess sem hann myndaði í gríð og erg). Honum tókst að koma heitu vatni í stútinn í kjallaranum, eftir að hafa beitt "hívert" aðferðinni við að tæma úr lögninni vatnið sem fyrir var.
Það var potað og potað, en ekkert gerðist.
"Það er frosið í rotþrónni" - kvað hB upp úr um þar sem hann potaði með "þröskuldspriki" (ekki útskýrt nánar hér) í átt að henni.
Eftir mikið pot fór loks að birta. Kögglar tóku að berast frá rotþrónni, fyrst fáir og smáir, en síðan stærri. Loks virtist orðið ljóst, að stíflan var laus úr þrónni. Þá tók við að ná tappanum úr eldhúsvasks/þvottavélafrárennslislögninni. Þar eð beygja var á lögninni uppi í þessa lögn varð "þröskuldsprikinu" ekki komið við þar. Reynt var með plastslöngu, en það bar ekki árangur. Því var tekið á það ráð að beita sérstökum gormi í eigu hB. Hann stýrði og framkvæmdi þá aðgerð sjálfur meðan ég stóð og fylgdist spenntur með, með hendur á mjöðm. Eftir mikið hark fór eitthvað að gerast. Fyrst komu litllir fitukögglar, síðan stærri og stærri. Berlínarmaðurinn stýrði stanslaust heitu vatni inn í lögnina frá stútnum í kjallaranum.
Þá gerðist það.

Stærðar köggull veltist út úr lögninni og í kjölfarið fossaði út sjóðandi heitt vatnið.
Sigur var unninn. Sigri fagnaði ég mest innan í mér.

Lögnum var smellt saman.
JCB nýttur af kunnáttu við að moka yfir og jafna.
Tæki og tól tínd saman.
Málin afgreidd.
Allt komið í lag.
FD tók að sér að lagfæra og þrífa upp það sem aðgerðin skildi eftir sig innan dyra.

Enn eitt afrek unnið í Kvistholti.

1 ummæli:

  1. Þetta kallar maður ekki Janúarkrísu heldur Janúarsigur.
    Sigrast á aumum s****kögglum.

    Til hamingju með áfangann hPM

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...