Árið 1940 var nánast engin byggð í Laugarási, utan læknishúsið sem var byggt 1936 og gripahús sem tilheyrðu því, enda voru Laugaráslæknar jafnframt með einhvern búskap þar til Helgi Indriðason og Guðný Guðmundsdóttir komu til skjalanna um 1947.
Um 1940 fór eitthvað að gerast því þá voru einhverjir farnir að átta sig á að hverinir gætu nýst til gróðurhúsaræktunar.
Ekki ætla ég að fjölyrða um það hér, enda ekki meginviðfangsefni þessa pistils. Það er hinsvegar myndi sem hér fylgir, Hún er tekin frá læknishúsinu sem stendur efsta á Laugarásnum, á að giska 1946-7. Foreldrar mínir keyptu þá Lemmingsland og gáfu því nafnið Hveratún. Þetta var á fyrri hluta ár 1946. Ég geri fastlega ráð fyrir að móðir mín hafi tekið sig til og rölt með myndavél upp á hæð og tekið myndina, svo senda mætti mynd af slotinu til fjarstaddra ættingja. Það hefur líklega verið myndavél svipuð annarri hvorri þeirra sem hér má sjá til hliðar því ég man eftir svona forngripum í uppvextinum.
Ég þykist meira að segja muna eftir að önnur hvor þeirra hafi verið notuð enn.
Ég ætla hér að freista þess að gera grein fyrir því helsta sem sjá má á þessari mynd, en vil halda því til haga (til að verja sjálfan mig) að það voru enn 6-7 ár í fæðingu mína þegar myndin var tekin.
Hér er ég búinn að merkja inn á myndina tölur frá 1-17 og svo er bara að sjá hvernig til tekst.
1.
Gamli bærinn í Hveratúni - um 60m². Þegar foreldrar míni mættu á svæðið var ekkert eldhús í húsinu. Það var sambyggð við gróðurhús og allur aðbúnaður fremur sérstakur. Meðan verið var að koma íbúðarhúsinu í þolanlegt ástand fengu hjónakornin inni í íbúðarhúsinu í Grósku, sem síðar varð Sólveigarstaðir. Þar voru þau, í það minnsta til húsa þegar þau eignuðust sitt fyrsta barn.
2.
Kusuhús, minnir mig að þetta gróðurhús hafi verið kallað. Í öðrum endanum á þessu húsi tel ég að heimiliskýrin Kusa hafi átt samastað. Í mínum huga var hún mannýg. Ekki man ég eða veit hvort folinn Jarpur hafi nokkurtíma átt þarna afdrep, en hann var ofdekraður og gekk svo langt að leggja leið sína einhverntíma inn í bæ, alla leið inn í búr, til að ná sér í bita.
3. Við hliðina á Kusuhúsi var annað gróðurhús, sem ég man ekki hvað var kallað. kannski bara
Sigrúnarhús? (leiðr. mun hafa kallast
Miðhús)
4.
Pallahús. Það fór ekki svo að maður fengi ekki gróðurhús skírt eftir sér. Ég átt mig ekki alveg á hvernig því var öllu háttað, en svo lengi sem ég man eftir mér var hænsnakofi milli íbúðarhússins og þessa gróðurhúss (nr.7).
5. Þarna var byggt gróðurhús sem mig minnir að hafi verið kallað
Ástuhús (leiðr.
Nýjahús), við hliðina á Pallahúsi.
6. Þar við hliðina, nokkru frá Ástuhúsi reis svo
Bennahús, sem var langstærst, sennilega einir 320m². Ég gæti trúað að það hafi verið byggt um eða upp úr 1960, því ég man óljóst eftir byggingaframkvæmdum.
7.
Hænsnakofinn sem mér finnst hafa verið þarna frá því ég man fyrst eftir. Ég gegndi hlutverki yfirhænsnahirðis afar lengi.
8.
Dælukofi sem ég man óljóst eftir og þá í tengslum við einhver prakkarastrik.
9.
Pökkurnarskúr/áburðargeymsla og fleira. Stóð á hverabakkanum milli Ástuhúss og lítils gróðurhúss sem var fyrir neðan þar sem Bennahús kom síðar. Ég minnist þessarar byggingar aðallega fyrir tvennt: Þegar maður var að burðast með tómataföturnar inn í pökkkunarhlutann, sem var sunnan megin og þegar maður tók þátt í að steypa moldarpotta, sem fór fram hinumegin.
10.
Lítið gróðurhús, sem mér finnst móðir mín aðallega hafa verið eitthvað að rækta í. Líklega var þar vínberjaplanta og síðan eitthvert blómadót. (leiðr. viðbót: Þarna mun önnur systirin, í það minnsta, stundað ræktun á t.d nellikum, rósum og asparagus).
11. Hér var
Þróin steypt á einhverjum tíma, sennilega á fyrir eða um 1960. Hún var nokkuð vinsæl til sundiðkana. Það var skemmtilegast að fara í Þróna þega var nýbúið að hreinsa hana, sem þurfti að gera reglulega þar sem slýmyndum var heilmikil. Hreinsunarstarfið þótti mér afar óskemmtilegt.
12. Ég tel að á þeim tíma sem myndin var tekin, hafi Ólafur Einarsson læknir stundað þarna
útirækt, en síðar ræktuðu Hveratúns menn þarna alllengi. Það varð stöðugt erfiðara þar sem húsapuntur gerið æ ágengari.
13.
Gróðurhús á vegum Ólafs Einarssonar. Þau voru horfin um 1950 og grunnar þeirra einir eftir.
14.
Ólafshús eða Einarshús (man ekki hvort). Ág man eftir að í þessu húsi ræktaði Hjalti Jakobsson eftir að fjölskyldan flutti úr Reykholti í Laugarás. Á einhverjum tíma, líklega eftir að Laugargerði spratt fram, leigðu Hveratúnsmenn húsið og braggann við norðurenda þess. Uppruna braggans veit ég ekki um, en reikna með að hann hafi gegnt hernaðarlegu hlutverki á stríðsárunum.
15. Þarna var bullandi hver (Draugahver?) og ofan í honum voru ofnar. Þeir hljóta að hafa verið notaðir til að hita kalt vatn til einhverra nota. Kalla eftir upplýsingum um það.
16 (rautt). Hveralækur sem rann frá hverunum tveim sem voru nyst á hverasvæðinu,
Draugahver og
Hildarhver. Lækurinn rann rétt fyrir neðan Þróna og pökkunarskúrinn. Það var mjótt sund milli pókkunarskúrsins (9) og litla gróðurhússint (10). Um þetta sunda var gengið að þrónni og einnig yfir hveralækinn á brú til að komast yfir á ræktunarsvæðið (12). Þarna dansaði maður yfir þessa ræfilslegu brú ansi oft, en þetta var ein af þeim hættum sem maður lærði fljótt að umgangast af virðingu.
16. (gult) (sá þessa talnavillu of seint og nennti ekki að breyta :)).
Skálholtsvegur.
17.
Skúlagata.
Afskaplega væri gaman ef einhverjir þeir sem þetta sjá og vita betur en hér hefur verið frá greint, komi þeim upplýsingum til mín. Ekki síst á ég við þær nafngiftir sem fram koma, t.d. á gróðurhúsum og hverum.