Sýnir færslur með efnisorðinu Laugarás. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Laugarás. Sýna allar færslur

01 júlí, 2016

Þorpið teiknað

"Um holt og hól" Dröfn Þorvaldsdóttir 2016
Það vita það ef til vill sumir, að undanfarin ár hef ég dundað mér við það í verkföllum og frístundum, að safna saman efni um Laugarás. Það bætist stöðugt við, en þó hægar en skyldi, ef til vill.
Eitt af því sem ég lít á sem hluta af þessu verkefni, er að teikna upp kort af  þorpinu. Það verk er nú hafið og nánast hver stund milli knattspyrnuleikja og heilsubótargöngutúra, hefur farið í þetta að undanförnu.  Við verkið notast ég við AI (Adobe Illustrator), mikið töfratæki, ekki síst þegar ég verð búinn að ná almennilegum tökum á því. Þarna er hægt að setja upp teikningu sem er lagskipt, þannig á á einu laginu eru bara vegir, á öðru íbúðarhús, þriðja gróðurhús, fjórða eitthvað sem er horfið, og svo framvegis. Svo get ég slökkt á þessum lögum eftir því sem hentar. Þetta er skemmtileg iðja.

Hér fyrir neðan má sjá stöðu þessa máls nú.
Ég notaðist við:
- loftmynd frá Loftmyndum ehf.,
- kortið sem Bjarni Harðarson birti hér fyrir nokkru og sem Atli Harðarson teiknaði,
- loftmynd af Laugarási (okt. 1966)
- skipulagstillögu vegna sláturhússlóðarinnar

Ég er ekki að birta þetta hér bara að gamni mínu, heldur þætti mér vænt um að fá ábendingar og það sem réttara má teljast og tillögur að nýjum lögum sem skella má inn á kortið.

Ég tek það fram, að lóðamörk eru ekki nákvæm þar sem mér finnst þáu ekki vera aðalatriði í þessu samhengi. Það væri þó gaman að geeta haft þau sem réttust og ég treysti því að kunnugir bendi mér á  það sem rétt telst vera.


Hér fyrir neðan er svo, til gamans, hluti úr kortinu, þar sem ég er búinn að setja inn tillögu um skipulag sláturhúslóðarinnar.


Veit einhver hvort lóðin var seld núverandi eigendum ásamt reitnum sem er austan vegarins?


14 maí, 2016

Síðasta áminning Töru

Fyrir nokkrum árum.
Tara var í miklu uppáhaldi hjá systrunum
Júlíu Freydísi og Emilíu Ísold Egilsdætrum.
Tíkin Tara (Rexdóttir frá Hveratúni?) frá Sólveigarstöðum sá til þess að húsmóðir hennar fékk nauðsynlega hreyfingu í, á annan áratug. Hún hafði einnig góða nærveru, var afar skynug og fljót að læra bestu aðferðina við að fá fólk til að gefa sér að éta.  Þegar maður spurði: "Viltu mat?" Svaraði hún umsvifalaust með gelti sem mátti vel túlka sem "Já, já, já".
Tara hefur nú yfirgefið jarðlífið, sannarlega orðin vel við aldur og hefði þess vegna svo sem alveg getað kvatt á friðsælan hátt fljótlega. Það átti hinsvegar ekki fyrir henni að liggja og dauði hennar og aðdragandi hans, reyndu á alla þá sem að komu.

Síðla kvölds þann 19. apríl s.l. birtist eftirfarandi á samfélagsmiðli:
Fann þessa í skurði hjá mér. Er einhver sem veit hvar hún eða hann býr? Hún er líklega eitthvað brennd þar sem ég fann að skurðurinn er mjög heitur þegar ég dró hana upp.
 Með fylgdi mynd og í framhaldinu fór fram umræða sem lauk með því kennsl voru borin á Töru. Eigandinn nálgaðist hana og við tók erfið nótt sem lyktaði með þessum hætti:
Dýralæknir svæfði Töru vegna mikilla brunasára. Þessir skurðir í Laugarási eru hættulegir. Ekki bara fyrir dýr.
Þarna er eiginlega komið að kjarna málsins.

Stærstur hluti Laugaráss er byggður á mýri, sem er nánast botnlaus. Þegar nýtt land var tekið í notkun þurfti að byrja á að grafa skurði í kringum það og ræsa  fram, yfirleitt, held ég, með kílplógi aftan í jarðýtu. Ég hygg, án þess að vita það með vissu, að það hafi verið verkefni landeigandans að sjá til þess að landið sem hann leigði væri framræst og hæft til ræktunar.
Í Kvistholti voru  grafnir skurðir með nokkurra metra millibili og í þá sett drenlögn úr plasti. Úr þessum lögnum átti drenið síðan greiða leið út í skurðinn milli Kvistholts og Lyngáss. Sá skurður þróaðist með sama hætti og aðrir skurðir: greri smám saman upp og fylltist af leðju.
Mér fannst eðlilegt, að ætla landeigandanum að sjá til þess að skurðirnir á lóðamörkum væru í lagi, en fékk skýr skilaboð um það, að svo væri hreint ekki.  Við Hörður í Lyngási tókum okkur til og gengum þannig frá skurðinum að hann hefur verið þurr og til friðs síðan. Þetta var einfaldlega þannig gert, að leðjan var fjarlægð, rauðamöl sett í botninn, síðan 100 mm drenlögn og loks rauðamöl ofan á. Í þessa drenlögn var síðan leitt affall frá gróðurhúsunum auk þess sem hún hefur annað vel öllu vatni úr ræsunum sem enda í þessum skurði.

Ég tel enn, að það sé verkefni sveitarfélagsins í umboði landeigandans, Laugaráslæknishéraðs. Héraðið á allt land í Laugarási nema það sem Sláturfélag Suðurlands eignaðist á sínum tíma og seldi síðan hótelmanninum sem síðar kom til sögunnar.
 Mér finnst ekki óeðlilegt að reikna með að ábyrgð sveitarfélagsins sé með svipuðum hætti og þar sem íbúð er leigð. Þetta veit ég þó ekki, og væri fróðlegt að fá á hreint.

Skurðirnir í Laugarási eru margir hættulegir, ef maður á annað borð fer að velta því fyrir sér. Hættan er ekki einvörðungu til komin vegna vatnsins og leðjunnar sem safnast fyrir í þeim, heldur einnig, eins og raunin var í tilfelli Töru, vegna þess að í þessa skurði rennur affall frá gróðurhúsum, oft talsvert heitt.

Ég vil nú ekki fara að dramatisera þetta of mikið, ekki síst eftir að ég lét mig hafa það í gamla daga að skrifa í Litla Bergþór, að Gamli skólinn væri dauðagildra, sem hann auðvitað var, með þeim afleiðingum að honum var lokað meðan verið var að setja flóttaleið af efri hæðinni.
Ég held að þessi skurðamál séu eitt þeirra verkefna sem við blasa. Hvort það er sveitarfélagið, leigjendur eða báðir þessir aðilar sem myndu standa straum af því, þá tel ég að það þurfi að gera raunhæfa áætlun um að setja dren í alla skurði, sem, ekki síst tæki við heitu afrennslisvatni úr gróðurhúsum.

Myndirnar af skurðunum tók ég í stuttri gönguferð í morgun. Þessir eru bara lítið sýnishorn og ekki endilega bestu dæmin.


28 mars, 2016

Í villum á páskadagsmorgni

Ég veit ekki hvað varð til þess að ég villtist í skóginum í gær. Ég hélt að það gæti ekki gerst og er ekki enn sannfærður um að það hafi gerst. Það gerðist samt mögulega. Hvernig gat það gerst? Er ég líklega farinn að missa eitthvað? Veit ekki.
Á páskadagsmorgni varð haldið í heilsubótargöngu eins og kveðið er á um.
"Ég er að fara út að viðra mig. Ætlar þú?" Þetta er nokkuð algengur aðdragandi að því að við fD höldum af stað í kraftgöngu út í ægifagurt umhverfi Þorpsins í skóginum. Í þetta sinn tók dóttirin á bænum þátt í göngunni, en að öðru leyti stefndi í ósköp hefðbundinn lið í heilsueflingunni. Ég tók reyndar með mér EOS-inn ef vera skyldi að ég fyndi færi á því, eina ferðina enn að festa á minniskort hans þá endalausu fegurð sem við blasir hvert sem litið er.
Þessu sinni lá leið í átt að brúnni, en þegar við komum að götunni sem liggur inn í Vesturbyggð (Skyrklettagata eða Ásmýri) gaf fD skýrt til kynna að hún hefði ákveðið að ganga þá leið, og gaf okkur hinum kost á að fara hana líka, en því réðum við að sjálfsögðu. Við fylgdum henni.  Leiðin lá framhjá Slakka og síðan upp götuna sem kallast Ásmýri á Google maps en Holtsgata á ja.is (svona er það með margar götur í Laugarási).

Þegar við vorum komin upp á brún brekkunnar í Holtsgötu ákvað fD að snúa við og ganga niður að á og þar einhverjar krókaleiði heim á leið. Ég ákvað hinsvegar að fara aðra leið, enda með EOS-inn með mér og 70-300 linsuna. Þarna skildi leiðir.  Ég og uG héldum þarna áfram, yfir brú á skurði og inn á Krosslandið (þar sem barnaheimili RKÍ var áður). Þaðan er einstakt útsýni yfir Hvítá og Vörðufell og ég skellti í panorama-mynd.

Síðan gengum við niður í kvosina þar sem barnaheimilið stóð, en minjar um það eru nánast engar, utan það sem ég tel hafa verið rotþró og sem sjá má á meðfylgjandi mynd.  Í framhaldi af rotþrórskoðuninni héldum við upp brekkuna í átt að Kirkjuholti, en þar uppi á brekkubrúninni má sjá fyrrum hliðstaur, veglegan, steyptan, sem markaði innkeyrsluna að Krossinum.


Það var eftir þetta, sem svo virðist sem ég hafi tapað áttum. Við ákváðum að ganga frá hliðstaurnum, og niður holtið, heim. Gekk vel til að byrja með. Á ákveðnum tímapunkti skildi þó leiðir, ég ákvað að fara aðeins sunnar og koma niður að Kvistholti þeim megin.  Áður en ég vissi af var ég kominn inn í skóginn og við mér blöstu feikna mikil grenitré og mörg þeirra  voru brotin eftir vetrarstorma, Eitt leiddi af öðru, ég sá sífellt fleiri brotin tré, hugsaði mér mér að það þyrfti nú að fara þarna upp með keðjusög og taka til. Það undarlega var, að þó svo mér fyndist þetta óvenju stór tré miðað við að ég væri í landi Kvistholts, kom það ekki upp í huga mér að ég væri bara hreint ekki þar.
Það var ekki fyrr en ég var kominn enn sunnar, að það blöstu skyndilega við mér byggingar, sem við nánair skoðun reyndust vera í Laugargerði. Þarna var eins og ég vaknaði upp úr einhverri leiðslu og snéri við á punktinum og hélt til baka í gegnum skóginn, sá glytta í íbúðarhúsið í Lyngási, en Lyngási tilheyra öll þessi brotnu tré. Enn hélt ég áfram og kom út á autt svæði. Það var eiginlega ekki fyrr en þá, að ég kveikti á því sem aldrei hefði átt að slokkna á: Það eru nánast engin tré efst í landi Kvistholts. En þarna var ég kominn heim og engin leið að villast eftir það.



Hér má sjá leiðina sem farin var í þessum villum:
Leiðin. Upphafspunkturinn er rotþróin sem um er rætt.

12 mars, 2016

Bönnum það bara

Í sannleika sagt veit ég ekki alveg hvernig réttast væri að bregðast við fregnum af því, að einhver, að öllum líkindum fulltrúi sveitarstjórnar Blaskógabyggðar, eftir að ákvörðun hafði verið tekin þar, er búinn að koma fyrir skilti í brennustæði við Brennuhól, þar sem Laugarásbúar hafa í fjölmörg ár hist á gamlárskvöld, til að njóta ylsins frá veglegum bálkestinum sem safnað hafði verið í allt árið. Þarna hafa Laugarásbúar einnig fengið að njóta skottertu í boði björgunarsveitarinnar og flugeldasýningarinnar í Reykholti í fjarskanum.

Það sem mér finnst mæla með því að banna losun við Brennuhól er aðallega sú misnotkun á staðnum sem erfitt hefur verið að sporna við.
Það er til fólk sem lifir fyrir sig í núinu. Þetta fólk skortir sýn á að verk þess kunna að hafa áhrif á líf/lífsgæði annarra, eða lætur sig það bara engu skipta. Það hefur brenglaða siðferðiskennd og ætti bara að skammast sín. Þetta er fólkið sem fór með ruslið sitt í brennustæðið við Brennuhól; gömul sófasett, eða eldhúsinnréttingar og jafnvel bara úrgang.
Mig grunar að þessi staða sé uppi nú vegna þessa fólks.

Ég tel hinsvegar, að það hefði átt að láta reyna á aðrar leiðir áður en gripið var til þess ráðs að setja þarna upp skilti sem bannar losun af af hvaða tagi sem er,  t.d. sakleysislegt skiltið sem búið var að koma þarna fyrir og sem flutti þessi skilaboð: Hér má einungis henda timbri, engu öðru, annars missum við brennuleyfið.

Það sem nú blasir við, ef við Laugarásbúar, svo hlýðnir og lítillátir sem við erum nú, þurfum að flytja allt timbur sem fellur til hjá okkur, aðallega vegna grisjunar, upp í Reykholt, en það er 12 km. spotti. Þar með þurfum við að eiga bíl með dráttarkúlu og viðeigandi kerru. Síðan þurfum við að fá eins og einn gám af timbri sendan úr Reykholti þegar áramót nálgast, ef við stöndum þá bara nokkuð í þessari áramótavitleysu á annað borð.

Það sem er kannski erfiðast að kyngja í þessu máli er samráðsleysið. Við vitum ekki einusinni hver setti þetta skilti þarna upp þó svo leiða megi líkur að því.

Það er líklega kominn tími til að við stofnum þorpsráð og kjósum okkur þorpshöfðingja til að sinna samskiptum við utanaðkomandi vald.  Ég er viss um að í skóginum leynist fólk sem er tilbúið að tala máli okkar út á við.


Til að fyrirbyggja misskilning, þá var það SA-hvassviðri á þessum degi, sem getur orðið vart við Brennuhól (þó ekki verði þess vart í þorpinu sjálfu), sem felldi bannskiltið. Ég viðurkenni hinsvegar, að ég reisti það ekki upp.

10 mars, 2016

Ég stend mig að því að......

Í Njáluferð í 1. bekk. Þarna fylgist ég með, auðvitað 
áhugasamur, fróðleik úr munni dr. Haralds Matthíassonar. 
Hvítu prjónahúfuna og lopapeysuna á ég móður minni
að þakka.
Þegar maður uppgötvar eitthvað í fari sínu sem var ekki talið eiga þar stað, bregst maður við með því að þegja um það, eða þá að maður lætur eðlið hafa sinn gang og tekur því jafnvel bara fagnandi.   
Fyrir nokkrum árum skaut því óvænt upp í huga mér, að það gæti verið gaman að taka saman upplýsingar um húsin og íbúana í Laugarási. Þarna var varla um meira en 70 ára sögu að ræða svo það ætti nú að vera hægt að ná utan um það.
Söfnun á þessum upplýsingum hefur staðið yfir síðan, svona í hjáverkum og mörgu er þar ólokið.

Önnur saga hefur orðið mér hugleikin með árunum, en hún tengist vinnustað mínum til næstum 30 ára. Þar hafa lengi verið til gamlar ljósmyndir af ýmsu tagi og einnig fullur kassi af skyggnum (slædsmyndum /"slides" - en aðeins þeir sem  eru orðnir fullorðnir vita hvað það er).
Njáluferð 1971: Kristinn Kristmundsson sinnir fróðleiksþorsta
tveggja bekkjarfélaga minna, Eiríks Jónssonar frá Vorsabæ 
og Magnúsar Guðnasonar.
Við uppgötvun þessa vaknaði hjá mér áhugi á að koma þessum myndum í rafrænt form, og vista þær síðan þar sem ML-ingar á öllum tímum gætu notið þeirra og yljað sér við minningar frá löngu liðnum tíma.  
Skólinn og júbílantar hafa lagt fram fé til tækjakaupa vegna þessa og ég hef, þegar eyður myndast í daglegu amstri, lokað mig af í þar til ætluðu herbergi og skannað eða myndað myndirnar sem um er að ræða.  Þetta hefur gengið ágætlega og nú eru komnar um 800 myndir, flokkaðar og fínar að sérstakt vefsæði sem stofnað var til af þessu tilefni. Heilmikið bíður skönnunar og þá aðallega myndir sem Rannveig Pálsdóttir/Bubba tók stóran hluta þess tíma sem þau Kristinn Kristmundsson gistu Laugarvatn.
Njáluferð 1971: Þarna má sjá, auk vormanna Íslands,
dr. Harald og Björn Inga Finsen, enskukennara.
Það er ætlunin að þróa þessa hugmynd lengra og nú liggur fyrir að leita til júbílanta næstu 5 ára, biðja þá að kíkja í gömlu albúmin sín, velja skemmtilegar myndir frá Laugarvatnsárunum, merkja þær og gefa skólanum til vistunar á vefnum. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.

Áhugi minn á þessari myndvinnslu efldist til muna þegar ég fann nokkrar myndir frá mínum árum í ML frá 1970-74. Megi þær verða fleiri.

04 febrúar, 2016

Ég á bara ekki heima þar!

 Ætli ég sé ekki þessi maður sem er alltaf að láta smáatriðin fara í taugarnar á sér, með þeim afleiðingum að aukaatriðin verða að aðalatriðum.  Það koma þeir tímar, að ég verð að blása, oftast inn á einhverjum samfélagssíðum eins og þessari.  Með því er ég yfrleitt búinn að koma viðkomandi málefni frá og fer að hugsa um eitthvað annað.

Nú þarf ég að koma þessu frá.

Ég bý í Laugarási, og lagði meira að segja í það að stofna sérstaka síðu helgaða þessu heimaþorpi mínu á snjáldru/Fb/Facebook. Þangað fer ég stundum til að skoða eða til að bæta einhverju inn sem mér finnst í lagi að setja þangað.  Ég lít á mig sem tandurhreinan Laugarásbúa, ómengaðan af nágrannasvæðum, þó ég eigi kannski sögu hér og þar. 
Þarna inni á þessari sérstöku síðu Þorpsins í skóginum birtist mynd mín og nafn, en jafnframt er þess sérstaklega getið að ég sé frá Hruna. Hér með hafna ég því að ég sé frá Hruna. Ég hef reynt ýmislegt til þess að bera þessi heimkynni af mér, án árangurs.

Nú hef ég ekkert nema gott um Hruna að segja, merkur sögustaður þar sem dansaður var frægur dans með óvæntum endalokum. Það hefur margt góðra karla og kvenna átt heima gegnum aldirnar og þar ráða nú húsum indælis prestur  og prestsfrú (hér þurfti ég á ákveða hvort óhætt væri að kalla konu prests prestsfrú. Ég skýli mér á bakvið það að ég ólst upp við þá venju, og ætla ekkert að fara að breyta út af henni. Velti því hinsvegar fyrir mér hvernig ég hefði farið að ef konan hefði verið presturinn. Hefði ég sagt prestur og prestsherra? Læt það liggja millli hluta). Í sveitinni í kring, Hrunamannahreppi, býr margt ágætisfólk í þéttbýli og dreifbýli. Allt þetta breytir því ekki að ég er afar andvígur því að  vera sagður eiga heima í Hruna. 

Viti einhver gott ráð til að breyta þessari óvelkomnu heimilisfesti, bið ég þann hinn sama að benda mér á ráð sem dugir.


Sr Óskar Hafsteinn Óskarsson í Hruna


23 janúar, 2016

Janúar blús - þreyjum þorrann

Ætli mér sé ekki óhætt að fullyrða, að ástæðu þagnar minnar á þessum síðum undanfarið megi rekja til árstímans. Fyrstu tveir mánuðirnir hafa aldrei talist með þeim vinsælustu í huga mér og mér liggur við að segja að séu þeir nánast hundleiðinlegir, í það minnsta svona í stórum dráttum. Ég veit að þetta er ekki fallega sagt og sjálfsagt ekki á bætandi mögulegan miðsvetrarblúsinn í hugum ykkar sem þetta lesið.

Grámi þessa dags í síðari hluta janúarmánaðar kallar ekki fram neinn sæluhroll. Það er kalsarigning og hvasst í nágrenni Laugaráss.  Landsliðið, sem oft hefur nú lýst um þennan dimmasta tíma ársins, er úr leik og maður verður að halda með Degi eða Guðmundi. Þorrablót Tungnamanna var í gærkvöld, en þangað fór ég ekki. Laugarásbúar halda sig heima við og það er hálka á vel ruddum gangstígum. Framundan eru síðustu dagar janúarmánaðar og þá tekur febrúar við, og svipað ástand.

Ég er nú bara að grínast með þetta allt saman, verður það ekki að teljast líklegt? Í allri þeirri sút sem við kunnum að upplifa á þessum árstíma, þurfum við ekki annað en beina athyglinni að því hve heppin við erum í þessu landi allsnægtanna og undrafegurðarinnar.
Líf flestra okkar er harla öruggt og við njótum þess, að lúta forystu á stjórnmálasviðinu sem slær hvert heimsmetið á fætur öðru á hinum aðskiljanlegustu sviðum. Við höfum í rauninni óbilandi trú á þeirri braut sem leiðtogar okkar ryðja fyrir okkur. Við erum þess fullviss að forysta þeirra muni færa okkur alla þá brauðmola sem við eigum skilda. Við megum ekki vera vanþakklát því óendanleg viska landsforeldranna, þó stundum skorti okkur vit eða sýn til að skilja hvert þeir eru að leiða okkur, mun á endanum leiða okkur inn í fyrirmyndarríkið þar sem hver fær það sem hann á skilið, hvorki meira né minna.

Sannarlega er ástæða til að gleðjast, til að fagna ljósinu, ekki aðeins ljósi eldhnattarins sem dag frá degi hækkar á himinhvolfinu, heldur ekki síður viskunni, réttsýninni, mannskilningnum, kossunum og faðmlögunum sem leiðtogar okkar eru svo ósinkir á og sem veita okkur innblástur til afreka sem við höfum ekki getað ímyndað okkur að væru á okkar færi.

Ég er viss um að ég gæti orðið öflugur áróðursmeistari  tiltekinna stjórnvalda austast í Asíu, ef dæma má af því sem ég hef lamið inn hér fyrir ofan. Mér virðist reynst auðvelt að breyta svörtu í hvítt og öfugt, í samræmi við það hvernig vindar blása hverju sinni. Slíka andagift get ég fyrst og fremst þakkað undursamlegri leiðsögn minna ástkæru leiðtoga.

Þessi skrif eru innblásin af starfi íslenskra stjórnvalda, segja jafn mikið og jafn lítið. Þau eru af ásettu ráði eins og þau eru, hvork of né van. Allt eins og því er ætlað að vera.

Megi fínu jólapeysurnar okkar gleðja ykkur, kalla fram
lítil bros, auka bjartsýni og efla trú á íslenska þjóð.





30 desember, 2015

Þorpið í skóginum á nýju ári: Ofar og hærra

Það sem hér fylgir hentar örugglega ekki öllum jafn vel, mér hentar það ágætlega. Ég freista þess að það beina spjótum mínum ekkert sértaklega  mikið að neinum, vonandi ekkert, en kannski eitthvað. Ég veit það ekki fyrr en ég verð kominn lengra.
Árið sem er að líða hefur falið í sér merki um að jákvæðra breytinga sé að vænta í Laugarási.

Ferðaþjónusta

Ég hef þegar fjallað um eitt slíkt merki þess sem framundan er hér. Síðan það var ritað hef ég fengið frekari staðfestingu á að þarna er alvara á ferðinni. Áætlanir gera ráð fyrir að haustið 2017 taki 72 herbergja lúxushótel til starfa þar sem sláturhúsið stendur nú, á einstaklega fögrum stað, þar sem Hvítá, Hvítárbrúin og Vörðufell sameinast um að móta sérlega fagurt umhverfi. Þetta hótel á að rísa þar sem ég var búinn að leggja til að við uppsveitamenn myndum sameinast um að byggja veglegt hjúkrunarheimili nánast á hlaðinu við heilsugæslustöðina.

"Þar er ekki neitt".

Ég hef fjallað nokkuð ítarlega um þá skoðun mína, að betri staður fyrir aldraða í uppsveituim á ævikvöldi, sé vandfundinn. Það gerði ég í þessum pistlum:
Einskis manns eða allra
Sólsetur í uppsveitum (1)
Sólsetur í uppsveitum (2)
Sólsetur í uppsveitum (3)
Ég stend að sjálfsögðu við allt sem þar kemur fram og er enn þeirrar skoðunar, að Laugarás sé afar hentugur staður fyrir hjúkrunarheimili. Einnig fyrir dvalarheimili fyrir aldraða eða þjónustuíbúðir fyrir aldraða.  Ég veit það hinsvegar, eftir að hafa heyrt það í umhverfi mínu, að svona hugmyndir falla í afar grýttan jarðveg í uppsveitum. Einu rökin sem ég hef heyrt gegn þessum skoðunum mínum hljóða upp á, að í Laugarási "sé ekki neitt", sem ég get auðvitað ekki tekið sem sterk, vel ígrunduð rök. Ég nenni hinsvegar ekki að fara að fjargviðrast frekar um þetta mál, enda veit ég að ástæður fólks fyrir andstöðu við uppbyggingu af þessu tagi eða öðru í Laugarási, eru aðrar og, mér liggur við að segja "heimóttarlegri", en það vil ég ekki segja.
Vonbrigði mín í þessu máli snúa auðvitað fyrst og fremst að því, að sveitastjórnum á svæðinu skuli ekki takast að sjá mikilvægi samstöðunnar í þessu máli.
Mér sýnist að Selfoss verði valinn sem staður fyrir hjúkrunarheimili til að þjóna öldruðum í uppsveitunum.

Fólksfjölgun

Ég neita því ekki, að ég var farinn að gerast nokkuð svartsýnn á framtíð Laugaráss á tímabili. Íbúarnir gerðu ekkert nema eldast og hverfa lengra inn í skóginn. Það var svo komið að framundan blasti við að skólabílaakstur myndi leggjast af.
Svo frétti ég af því, að ungt par með barn væru flutt á staðinn. Nokkru síðar bættist annað par við, með tvö börn. Nú veit ég af tveim  pörum til viðbótar  sem koma eftir áramótin eða á fyrri hluta árs með hóp af börnum. Fregnir af þessu tagi eru ótrúlega jákvæðar og bætast við fréttirnar af hótelbyggingunni.

Einkaframtak

Ég hef aldrei verið einhver sérstakur talsmaður einkaframtaks á þeim sviðum sem lúta að grunnþjónustu við íbúa þessa lands. Ég fagna hinsvegar einkaframtaki þar sem það á við og samgleðst þeim sem vel gengur á þeim vettvangi.  Í þeirri stöðu sem Laugarás er í, í uppsveitasamfélaginu, verður það einkaframtakið sem eitt getur framkallað breytingar. Það er ekki mengað af hrepparíg, þarf ekki að hafa neitt í huga við val á stað fyrir starfsemi sína annað en, að þar muni það mögulega fá viðunandi arð af starfseminni.  Sú starfsemi sem þannig verður til, elur síðan af sér aðra starfsemi, og skýtur þannig stoðum undir frekari þróun byggðarinnar.


Það var síðast í gær að ég fregnaði að á nýju ári verði stigið annað mikið skref sem mun efla byggðina í Laugarási, en ég tel mig ekki geta farið nánar út í það á þessu stigi.

Með því að atvinnutækifærum fjölgar í Laugarási, og þar með íbúunum blasa við fleiri jákvæðar breytingar eins og hver maður getur ímyndað sér. 


--------------------------------------------------



Ég leyfi mér að halda því fram að árið 2016 verði árið þegar ný bylgja uppbyggingar í Laugarási hefst. Jafnvel gæti hún orðið stærri en sú sem var á síðari hluta sjöunda áratugs síðustu aldar.

Það er nóg af fallegum stöðum fyrir aldraða í Laugarási þó svo sláturhúslóðin verði nýtt fyrir hótel og það má alltaf vona, að viðhorfsbreyting  eigi sér stað.

Loks þakka ég lesendum þessara pistla minna kærlega fyrir lesturinn á árinu og óska þeim alls hins besta á nýju ári.


23 nóvember, 2015

Mun rísa hótel í Laugarási?

Fyrir nokkrum dögum kom fram myndband sem hafði verið sett á youtube og sem hægt er að skoða ef smellt er hér. Þar gefur að líta tölvuteikningu af hóteli í Laugarási, sem er kallað Hótel Frostrós. Ég fékk fyrirspurn frá fréttamanni um málið, og varð auðvitað talsvert upp með mér, en þótti jafnframt ekki nógu gott að geta ekki svarað honum neinu, einfaldlega vegna þess að ég vissi hreint ekkert umfram það sem þetta meira og minna ómerkta myndskeið sýnir.

Ég varð hinsvegar all forvitinn og nú hefur mér tekist að komast yfir upplýsingar sem varpa nokkru ljósi á málið.


Þeir aðilar sem keyptu af sláturhúslóðina af Byggðastofnun stefna að því að byggja hótel þar sem leifarnar af sláturhúsinu standa nú. Þeir munu hafa á bak við sig bandaríska fjárfesta. Hér munu vera á ferð sömu aðilar og reka Alda Hótel í Reykjavík.

Ætlunin mun vera að byggja 80 herbergja hótel í svipuðum gæðastaðli og Hótel Rangá, með áherslu á heilsurækt og að gestir dvelji á hótelinu í nokkra daga í senn og njóti þess sem svæðið og umhverfið hefur upp á að bjóða.


Vonir þeirra sem þarna er um að ræða, standa til þess, að rífa sláturhúsið alveg á næstunni, og ekki eru þeir margir sem munu sakna þess.


Ef af þessu verður mun heldur betur glæðast líf í Laugarási, því hótel kallar að ýmislegt annað.




16 maí, 2015

Lék við hvurn sinn fingur

"Ég er nú enginn fýlupúki!" sagði afmælisbarnið þegar ég hafði orð á því hve hress og kátur hann var á 100 ára afmælinu sínu og á heimleiðinni valt upp úr mér að vera kynni að fæðingardagurinn gæti hafa misreiknast um 10 ár.
Guðmundur Indriðason bauð sem sagt til veislu á afmælisdaginn, ásamt fjölskyldu sinni í Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu. Þar hafa þau Jóna nú alið manninn að undanförnu og ekki annað að sjá en vel fari um þau.
Afkomendurnir sungu.
Fyrir utan börnin fjögur, maka og afkomendur var þarna margt fólk sem Laugarás og nágrenni gisti á uppvaxtarárum mínum og gistir enn, sumir auðvitað orðnir talsvert þroskaðri, en báru samt með sér að hafa andað að sér heilnæmu og langlífishvetjandi loftinu í Laugarási.
Það er nú ekki stirt
á milli hjónakornanna
Það var vel veitt og glatt á hjalla á Lundi í gær, kveðskapur fluttur og kveðjur, söngvar sungnir og leikið á hljóðfæri meðan veisluföng voru innbyrt og skálað fyrir afmæliskarlinum.

Börn Jónu og Guðmundar eru:
Grímur, Katrín Gróa, Jón Pétur og Indriði.
Hér í aldursröð frá hægri. 

Fleiri myndir frá afmælishófinu.





09 maí, 2015

Hún bjó hinumegin við ána

Guðný Pálsdóttir, Hveratúni, Jónína Jónsdóttir Lindarbrekku,
Guðný Guðmundsdóttir Laugarási (Helgahúsi),
María Eiríksdóttir Skálholti, Margrét Guðmundsdóttir Iðu.
Ævin lengist eins og við er að búast. Það er bara eðlilegt í því samhengi að fólk af minni kynslóð sé að verða búið að kveðja flesta sem á undan hafa farið. Það er víst gangurinn.
Fyrir nokkru bættist í hóp þessa fólks hún Magga á Iðu á 95 aldursári. Hún er jarðsungin í dag.
Magga á Iðu (Margrét Guðmundsdóttir) fyllti þann hóp fólks hér í neðsta hluta Biskupstungna sem hefur verið fastur punktur í tilveru okkar sem hér fæddumst ólumst upp síðustu síðustu 70 árin eða svo.
Magga og Ingólfur hófu búskap sinn á Iðu um svipað leyti og foreldrar mínir hófu ævistarf sitt í Laugarási og voru á svipuðum aldri, mamma og Magga á Iðu (mér finnst hún aldrei hafa verið kölluð Magga, bara Magga á Iðu) voru jafnaldrar og pabbi einu ári eldri en Ingólfur. Aldrei varð ég var við að skugga bæri á í samskiptum þeirra og ég minnist þess ekki nokkurntíma að eitthvað kæmi þar upp á. Það sama má reyndar segja um flest það fólk sem átti samleið hér í neðri hluta sveitarinnar, frá Spóastöðum niður að Helgastöðum og Eiríksbakka.
Magga og Ingólfur voru búin að búa á Iðu í ein 12 ár þegar brúin á Hvítá varð til þess að breyta ýmsu og auðvelda  samskipti. En þar sem Ingólfur telst vera síðasti ferjumaðurinn á Iðuhamri, hafa þau Magga nú ekki verið í vandræðum með að skjótast í heimsóknir eða á samkomur þegar svo bar undir þó engin væri brúin.

Ég ætla nú ekki að þykjast hafa þekkt Möggu á Iðu neitt sérlega vel. Líklega voru kynnin bara svipuð því sem gerist milli barna og vinafólks foreldra þeirra. Þegar mér verður hugsað til hennar, Ingibjargar á Spóastöðum, Mæju í Skálholti, frú Önnu í Skálholti, Gauju (Laugarási/Helgahúsi), Jónu á Lindarbrekku, Fríðar (í Laugargerði) og Gerðu (kona Gríms læknis), detta mér í hug saumaklúbbar, kvenfélagið, spilakvöld og einhverskonar leikstarfsemi.  Þetta voru konurnar sem, auk mömmu, auðvitað, tilheyrðu umhverfi mínu meðan ég sleit barnsskónum, og ég get ómögulega fundið neitt annað en ágætar minningar af návist þeirra.
Af þeim konum sem hér voru taldar eru þær nú þrjár sem dansa um jarðlífið og megi þær gera það sem lengst. Hinar dansa nú annarsstaðar, í það minnsta í hugum okkar sem kynntumst þeim.

23 apríl, 2015

Ólygnir sögðu mér

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem lesið hafa þessi skrif mín, að ég hef haft nokkurn áhuga á þróun mála sem tengjast fyrrum sláturhúsi SS hér í Laugarási. Eftir að slátrun lagðist af 1989 var húsið að mestu í reiðileysi þar til það var selt, ásamt landinu 1998, en þar skyldi hafinn veitinga- og hótelrekstur. Í sem stystu mál gekk það upp og ofan og á endanum gekk það ekki og Byggðastofnun eignaðist heila klabbið. Undanfarin sumur hefur einhver hreyfing verið þarna á köflum, fremur fálmkennd, án þess ég viti svosem mikið um það, frekar en það sem hér fer á eftir:

Allir þeir punktar sem hér eru nefndir eru óstaðfestir og því ber að taka þeim með fyrirvara:
Ég hef sem sagt heyrt eftirfarandi:

a. Byggðastofnun seldi húsið (og væntanlega landið) og sveitarstjórn Bláskógabyggðar fékk ekkert að vita um það.

b. Opinber starfsmaður á svæðinu varð var við að eldur logaði utandyra við sláturhúsið, fór á staðinn og benti fólki, sem þar dundaði sér við að bera það sem lauslegt var út fyrir húsið, á bálköst, á að slíkt væri bannað og til þess arna ætti að nota gáma. Hann fékk ekki jákvæð viðbrögð við tilmælum sínum um að viðkomandi létu af verknaði sínum.

c. Kaupendur væru tengdir ferðþjónustufyrirtæki, sem meðal annars væru umsvifamiklir í fólksflutningum.

d. Kaupendur tengdust BSÍ

e. Kaupendur hygðust rífa sláturhúsið og byggja þess í stað hótel.

f. Það hafi sést þrívíddarteikning (módel) af umræddu hóteli, sem flokkast geti undir glæsihótel.

g. Á þrívíddarteikningunni er hótelið bogalaga á þrem hæðum og sú hliðin sem snýr að Hvítá er úr gleri. Þakið er að hluta einnig úr gleri og á hugsunin að vera sú, að þar fyrir neðan geti gestir setið í hægindum og fylgst með norðurljósum.

h. Að kaupandinn og sá sem er í forsvari, sé fyrrverandi vert á ......(vil ekki ganga og langt).


Reynist allt þetta vera rétt og satt (ef frá eru dregnir liðir a. og b.) þá er það sannarlega fagnaðarefni.
Betri staður en Laugarás, í hjarta uppsveita Árnessýsu, með ótal möguleikum til stuttra ferða þar sem helstu djásn landsins er að finna, er vandfundinn.

Reynist þetta allt vera steypa, er það auðvitað leitt, en maður fékk þó að ylja sér við tilhugsunina litla stund :)

Ég kvika, þrátt fyrir þetta, ekki frá þeirri skoðun minni, að í Laugarási verði byggt hjúkrunarheimili í tengslum við Heilsugæslustöðina.

01 apríl, 2015

Iðuferja á ný

Ég á stundum leið niður að Hvítárbrú eða Iðubrú, eins og við köllum hana venjulega. Þar er alltaf eitthvað nýtt að sjá.
Í morgun, þegar ég ætlaði að athuga hvort einhverjir fuglar væru sjáanlegir til að ég gæti æft mig við myndatökur, blasti við mér heldur óvenjuleg sjón. Sjón sem ég hef ekki séð á þessum stað í ein 50 ár.  Úti á miðri ánni var sérkennilegur bátur. Ég varð auðvitað agndofa, en tókst þó að smella einni mynd, en að öðru leyti velti ég fyrir mér hvað væri í gangi.  Þar sem báturinn var á leið að bakkanum austan megin fékk ég fljótlega þær upplýsingar sem ég þurfti.
Nýtt fyrirtæki sem hefur hlotið nafnið Áriða ehf. ætlar að gera tilraun með að sigla með ferðamenn upp og niður Hvítá á komandi sumri. Þessar ferðir verða bæði útsýnisferðir og svokallaðar partíferðir þar sem litlir hópar geta leigt bátinn með manni og mús, hvort sem er um helgi eða bara eina kvöldstund.
Þau sem standa að Áriðu eru hjónin Elsa Dagbjartsdóttir og Hallsteinn Sigurgeirsson, en þau hafa undanfarin 15 ár búið í Thailandi. Þau ákvaðu í fyrra að flytja heim til Íslands og jafnframt að flytja heim með sér bátinn, sem þau höfðu haft atvinnu af í litlum bæ, Laem Chabang, sem er skammt frá Bangkok. Þar stunduðu þau siglingar með ferðamenn í allmörg ár og eru því þaulvön.
Ég fékk að prófa að sigla um ána í morgun og það var einstaklega gaman að sjá Laugarás og Iðubrúna frá alveg nýju sjónarhorni.
Í dag ætla þau Elsa og Hallsteinn að bjóða gestum í stutta prufusiglingu.

29 mars, 2015

Einskis manns eða allra.

Á æskuheimili mínu var þvottur upphaflega þveginn í hvernum. Síðan kom til sögunnar þvottavél í samræmi við vaxandi efni, en mesta byltingin í þvottamálum varð þegar á heimilið kom þvottavél sem bar nafnið Centrifugal Wash. Ég minnist þess að mér þótti nafnið frekar töff og hætti ekki fyrr en ég komst að því hvað það merkti. Það voru engin vandræði með WASH hlutann, sem augljóslega þýddi þvottur. Ég komst fljótt að því að CENTRIFUGAL var samsett orð  þar sem fyrri hlutinn merkti miðja og sá síðari flótti. Þar með var komin merkingin á heiti vélarinnar: MIÐJUFLÝJANDI ÞVOTTUR. Síðan rann auðvitað samhengið upp fyrir mér, eins og nærri má geta: þvottavél af þessu tagi byggði á því að nota miðflóttaaflið við vindingu á þvottinum, með því belgurinn snérist á ógnahraða og þrýsti  þvottinum eins langt frá miðju hans og mögulegt var. Vatnið í þvottinum þrýstist síðan úr þvottinum og út fyrir belginn, eftir varð þvotturinn, tilbúinn að að hengja til þerris.

Þessi inngangur á sér tiltölulega einfalda skýringu: Mér verður stundum hugsað til þessarar þvottavélar þegar ég velti fyrir mér málefnum sem tengjast uppsveitum Árnessýslu. Í því samhengi hugsa ég eins og Laugarásbúi, þar sem Laugarás er í miðju svæðisins. Síðan koma til kraftar, sem vel má kalla einhverskonar miðflóttaafl. Þessir kraftar hafa það í för með sér að flest sem gert er, eða flestar hugmyndir sem fram koma um uppbyggingu, sogast út úr þessari miðju.

Ég leyfi mér að halda áfram að hafa þann draum að uppsveitir Árnessýslu sameinist í eitt öflugt sveitarfélag og að þeir kraftar sem ákvarða staðsetningu þessa eða hins marki stefnu sem tekur mið af því að heildarhagsmunum íbúanna verði þjónað sem best.

Ég hef áður fjallað um hjúkrunarheimili í uppsveitunum. Það gerði ég hér, hér og hér. Ég vísa í þessi skrif ef einhver vill kynna sér það betur. Ég tel mig hafa sagt það sem ég hef að segja í þeim þrem færslum sem þar er um að ræða.

Árið 2010 var tekin í notkun brú yfir Hvítá sem opnaði stystu leið milli Reykholts og Flúða. Barátta fyrir brúnni hafði staðið lengi og því var haldið mjög á lofti að eini möguleikinn á að hún yrði að veruleika væri alger samstaða á svæðinu um mikilvægi hennar á þeim stað sem síðan varð. Á þeim tíma kom ég að sveitarstjórnarmálum í Biskupstungum og er minnisstætt hve mikil áhersla var lögð á þessa samstöðu. Mínar skoðanir á staðsetningu þessarar brúar voru ekki í samræmi við það sem barist var fyrir, en ég, með það að leiðarljósi að betri væri brú en engin brú, tók þátt í þeirri samstöðu sem þarna var um að ræða. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því, að þessi brú breytti engu í jákvæða átt fyrir Laugarás, enda er leiðin frá Laugarási að Flúðum nákvæmlega jafnlöng hvor leiðin sem valin er.

Árið 2010 var opnaður nýr vegur frá Laugarvatni á Þingvöll. Um þessa framkvæmd ríkti mikil samstaða hér á svæðinu og aðeins vegna hennar varð af þessari vegagerð. Vegalengdin frá Laugarási til Reykjavíkur breyttist ekkert við þessa framkvæmd. Hún er hinsvegar afar mikilvæg fyrir heildarhagsmuni íbúa í uppsveitunum.

Ýmislegt af þessu tagi kennir okkur, að ef við náum saman, þó ekki séu allir fullkomlega sáttir, þá náum við margfalt meiri árangri en með því að togast á innbyrðis.

Hjúkrunarheimilið sem rætt hefur verið í vetur er verkefni af þessu tagi. Það þarf að sækja fé í ríkissjóð til þess arna og ef við komum ekki fram sem eitt á þeim vettvangi verður þetta verkefni framkvæmt annarsstaðar.

Ég minni enn á, ef einhverjum skyldi ekki vera það ljóst, að Laugarásjörðin er í eigu allra uppsveitahreppanna. Þeir keyptu jörðina á 3. áratug síðustu aldar undir læknissetur. Þar réði framsýni för og við, sem svæðið byggjum búum við einhverja bestu læknisþjónustu sem völ er á á þessu landi.
Hér við hliðina er úrklippa úr Litla Bergþór frá 2011. Þar er um að ræða hluta úr erindi sem Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu flutti í útvarpið 1971.

25 janúar, 2015

Þorrablót 2015

Hvítá að morgni annars dags þorra. 
Ég gat horfið stoltur af þorrablóti Skálholtssóknar á bóndadagskvöldi og átti svo sem ekki von á öðru. Hafði heyrt af undirbúningnum mánuðum saman, ritun kvikmyndahandrita, kvikmyndatökum vítt og breitt, jafnvel við erfiðustu aðstæður, klippivinnu, þar sem krafa var gerð um niðurskurð sem var varla framkvæmanlegur, ritun handrita að lifandi atriðum og æfingar fyrir þau. Það er feikileg vinna sem er að baki svo metnaðarfullri dagskrá sem þorrablótsgestum var boðið upp á, meiri en margir geta ímyndað sér.
Fyrir mína hönd þakka ég öllum sem þarna komu að kærlega fyrir það sem fram var borið og ekki var annað að heyra en áhorfendur deili þessum þökkum með mér.
Þó bræður mínir hafi ítrekað látið í ljósi svo ég heyrði, málamyndakvartanir yfir hvað þetta væri mikil vinna, fór blikið í augunum ekki framhjá mér. Þeir nutu "stritsins" í botn. Það sama held ég að megi fullyrða um aðra þátttakendur einnig.

Allt þetta breytir þó ekki þeirri skoðun minni (sem er auðvitað til komin vegna persónueiginleika minna, aldurs og sjálfsagt annarra þátta) að félagsheimilið Aratunga er ekki nægilega stórt til að hýsa viðburð af þessu tagi. Þar sem ég sat við langborð í miðjum sal og var gert að rísa á fætur til að taka þátt í fjöldasöng, vafðist það fyrir mér, eins og flestum öðrum. Til þess að uppstandið tækist þurftu að eiga sér stað samningaviðræður við þann sem sat við næsta borð, til dæmis þannig að hann myndi fyrst færa sinn stól aftur svo langt sem unnt væri. Smeygja sér síðan upp af stólnum til hægri eða vinstri og ná þannig að rísa upp. Renna því næst stólnum sínum undir borð og opna þannig færi á að ég gæti rennt mínum sól aftur með sama hætti. Þessi aðgerð öll, kallaði einnig á samningaviðræður við þá sem sátu til beggja handa. Eftir þetta uppstand var síðan hægt að syngja af list áður en framkvæma þurfti sömu aðgerð í öfugri röð til að geta sest aftur.
Þrátt fyrir þessa vankanta var ég alveg sáttur og við fD hurfum á braut áður en við tók borðaflutningur af gólfinu upp á svið til að rýma fyrir dansandi gestunum.
Ekki neita ég því að það er ákveðinn "sjarmi" yfir þrengslunum og borðaflutningnum; kann að þjappa fólki saman og ýta undir samskipti, sem æ meir skortir á.

Miðasala á skemmtunina var auglýst svo sem hefðin segir til um. Miðarnir seldust upp á örskotsstund, sem varð tilefni til stöðufærslna á blótssíðunni. Þar leyfði ég mér að taka lítillega þátt og sendi frá mér eftirfarandi texta, sem ég læt fylgja hér með aðallega til að geyma hann á vísum stað. Í honum eru tilvísanir í það sem einhverjir aðrir settu þarna inn og því kunna einstaka setningar að virðast úr samhengi.

Forsíðumynd Þorrablótssíðunnar eftir fyrri miðasöludaginn.

Þorrablót er einn þessarar viðburða sem eru fastur punktur í tilveru margra Tungnamanna og tækifæri til að koma saman og skemmta sér kvöldstund fram á nótt. Ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér.
Það sem hinsvegar hefur gert mig fremur afhuga þessum skemmtunum (fyrir utan það að vera að eldast og róast) eru nokkur atriði:
1. Miðaskömmtun eða takmarkaður miðafjöldi, af augljósum ástæðum sem allir þekkja.
2. Borðadráttur, sem er auðvitað alger veisla fyrir spennufíkla, en heldur síðra fyrirkomulag fyrir þá sem vilja bara sæmilega góðan stað til að sitja á.
3. Þrengsli, en það segir sig sjálft, að með hámarksfjölda í húsinu þurfa sáttir að sitja þröngt, og líka ósáttir.
Svo vil ég bæta við fjórða þættinum, sem tengist þessu, en það er sú staða sem fólkið sem í undirbúningsnefnd/framkvæmdanefnd lendir í, algerlega án þess að hafa til þess unnið. Það selur miðana á blótið svo lengi sem þeir eru til, eftir einhverjum reglum sem ég veit ekki einu sinni hvort eru skýrar, og þegar miðarnir eru búnir situr það ef til vill undir einhverjum meiningum um að það misfari með eitthvert vald. 
Í aðdraganda að þorrablóti Tungnamanna er réttlæti fyrir alla vandséð.
Auðvitað má spyrja sig hvort það sem ég nefndi sé nauðsynlegur hluti af þorrablótum Tungnamanna: það þurfi að vera spenna, það þurfi að vera hasar, það þurfi að vera þröngt.  Sé svo, þá er þetta bara þannig samkoma og ekkert meira um það að segja.
Sé vilji til að setja þessa ágætu skemmtun upp með öðrum hætti, er það örugglega ekkert stórmál.
Ein(n) þeirra sem hér settu inn færslu að ofan töldu mig vera kjarkaðan að nefna hlaðborð og jafnframt að ég gæti átt von á krossfestingu ;). Ég get fullyrt að frá minni hendi snýst það ekki um neinn kjark, enda finnst mér það afar skemmtilegur siður að hver komi með sinn mat til þorrablóts.  Það er hinsvegar ekkert sem bannar það, mér vitanlega, að þegar ásókn í þessa skemmtun er orðin svo mikil sem raun ber vitna, að allir geti átt kost á þorrablótsfyrirkomulagi við sitt hæfi.
Annar sem hér tjáði sig hér fyrir ofan sagði: „krossarnir eru tilbúnir“. Mig langar nú eiginlega dálítið að sjá þá krossa. J
Ég hef ekki reynslu af því að ætla að fá miða á knattspyrnuleik og ekki fengið. Reikna reyndar ekki með að verða nokkurn tíma þeirri reynslu ríkari. Ég er hinsvegar viss um það, að ef KSÍ hefði mögulega átt kost á því að flytja leikinn sem hér hefur komið til tals, á annan völl sem tæki kannski 15000 manns í stað 10000 þá hefði það verið gert.

11 janúar, 2015

Mynd frá fimmta áratug síðustu aldar

 Árið 1940 var nánast engin byggð í Laugarási, utan læknishúsið sem var byggt 1936 og gripahús sem tilheyrðu því, enda voru Laugaráslæknar jafnframt með einhvern búskap þar til Helgi Indriðason og Guðný Guðmundsdóttir komu til skjalanna um 1947.
Um 1940 fór eitthvað að gerast því þá voru einhverjir farnir að átta sig á að hverinir gætu nýst til gróðurhúsaræktunar.
Ekki ætla ég að fjölyrða um það hér, enda ekki meginviðfangsefni þessa pistils. Það er hinsvegar myndi sem hér fylgir, Hún er tekin frá læknishúsinu sem stendur efsta á Laugarásnum, á að giska 1946-7. Foreldrar mínir keyptu þá Lemmingsland og gáfu því nafnið Hveratún. Þetta var á fyrri hluta ár 1946. Ég geri fastlega ráð fyrir að móðir mín hafi tekið sig til og rölt með myndavél upp á hæð og tekið myndina, svo senda mætti mynd af slotinu til fjarstaddra ættingja.  Það hefur líklega verið myndavél svipuð annarri hvorri þeirra sem hér má sjá til hliðar því ég man eftir svona forngripum í uppvextinum.
Ég þykist meira að segja muna eftir að önnur hvor þeirra hafi verið notuð enn.

Ég ætla hér að freista þess að gera grein fyrir því helsta sem sjá má á þessari mynd, en vil halda því til haga (til að verja sjálfan mig) að það voru enn 6-7 ár í fæðingu mína þegar myndin var tekin.

Hér er ég búinn að merkja inn á myndina tölur frá 1-17 og svo er bara að sjá hvernig til tekst.

1. Gamli bærinn í Hveratúni - um 60m². Þegar foreldrar míni mættu á svæðið var ekkert eldhús í húsinu. Það var sambyggð við gróðurhús og allur aðbúnaður fremur sérstakur. Meðan verið var að koma íbúðarhúsinu í þolanlegt ástand fengu hjónakornin inni í íbúðarhúsinu í Grósku, sem síðar varð Sólveigarstaðir. Þar voru þau, í það minnsta til húsa þegar þau eignuðust sitt fyrsta barn.

2. Kusuhús, minnir mig að þetta gróðurhús hafi verið kallað. Í öðrum endanum á þessu húsi tel ég að heimiliskýrin Kusa hafi átt samastað. Í mínum huga var hún mannýg. Ekki man ég eða veit hvort folinn Jarpur hafi nokkurtíma átt þarna afdrep, en hann var ofdekraður og gekk svo langt að leggja leið sína einhverntíma inn í bæ, alla leið inn í búr, til að ná sér í bita.

3. Við hliðina á Kusuhúsi var annað gróðurhús, sem ég man ekki hvað var kallað. kannski bara Sigrúnarhús? (leiðr. mun hafa kallast Miðhús)

4. Pallahús. Það fór ekki svo að maður fengi ekki gróðurhús skírt eftir sér. Ég átt mig ekki alveg á hvernig því var öllu háttað, en svo lengi sem ég man eftir mér var hænsnakofi milli íbúðarhússins og þessa gróðurhúss (nr.7).

5. Þarna var byggt gróðurhús sem mig minnir að hafi verið kallað Ástuhús (leiðr. Nýjahús), við hliðina á Pallahúsi.

6. Þar við hliðina, nokkru frá Ástuhúsi reis svo Bennahús, sem var langstærst, sennilega einir 320m². Ég gæti trúað að það hafi verið byggt um eða upp úr 1960, því ég man óljóst eftir byggingaframkvæmdum.

7. Hænsnakofinn sem mér finnst hafa verið þarna frá því ég man fyrst eftir. Ég gegndi hlutverki yfirhænsnahirðis afar lengi.

8. Dælukofi sem ég man óljóst eftir og þá í tengslum við einhver prakkarastrik.

9. Pökkurnarskúr/áburðargeymsla og fleira. Stóð á hverabakkanum milli Ástuhúss og lítils gróðurhúss sem var fyrir neðan þar sem Bennahús kom síðar. Ég minnist þessarar byggingar aðallega fyrir tvennt: Þegar maður var að burðast með tómataföturnar inn í pökkkunarhlutann, sem var sunnan megin og þegar maður tók þátt í að steypa moldarpotta, sem fór fram hinumegin.

10. Lítið gróðurhús, sem mér finnst móðir mín aðallega hafa verið eitthvað að rækta í. Líklega var þar vínberjaplanta og síðan eitthvert blómadót. (leiðr. viðbót: Þarna mun önnur systirin, í það minnsta, stundað ræktun á t.d nellikum, rósum og asparagus).

11. Hér var Þróin steypt á einhverjum tíma, sennilega á fyrir eða um 1960. Hún var nokkuð vinsæl til sundiðkana. Það var skemmtilegast að fara í Þróna þega var nýbúið að hreinsa hana, sem þurfti að gera reglulega þar sem slýmyndum var heilmikil. Hreinsunarstarfið þótti mér afar óskemmtilegt.

12. Ég tel að á þeim tíma sem myndin var tekin, hafi Ólafur Einarsson læknir stundað þarna útirækt, en síðar ræktuðu Hveratúns menn þarna alllengi. Það varð stöðugt erfiðara þar sem húsapuntur gerið æ ágengari.

13. Gróðurhús á vegum Ólafs Einarssonar. Þau voru horfin um 1950 og grunnar þeirra einir eftir.

14. Ólafshús eða Einarshús (man ekki hvort). Ág man eftir að í þessu húsi ræktaði Hjalti Jakobsson eftir að fjölskyldan flutti úr Reykholti í Laugarás. Á einhverjum tíma, líklega eftir að Laugargerði spratt fram, leigðu Hveratúnsmenn húsið og braggann við norðurenda þess. Uppruna braggans veit ég ekki um, en reikna með að hann hafi gegnt hernaðarlegu hlutverki á stríðsárunum.

15. Þarna var bullandi hver (Draugahver?) og ofan í honum voru ofnar. Þeir hljóta að hafa verið notaðir til að hita kalt vatn til einhverra nota. Kalla eftir upplýsingum um það.

16 (rautt). Hveralækur sem rann frá hverunum tveim sem voru nyst á hverasvæðinu, Draugahver og Hildarhver. Lækurinn rann rétt fyrir neðan Þróna og pökkunarskúrinn. Það var mjótt sund milli pókkunarskúrsins (9) og litla gróðurhússint (10). Um þetta sunda var gengið að þrónni og einnig yfir hveralækinn á brú til að komast yfir á ræktunarsvæðið (12). Þarna dansaði maður yfir þessa ræfilslegu brú ansi oft, en þetta var ein af þeim hættum sem maður lærði fljótt að umgangast af virðingu.

16. (gult) (sá þessa talnavillu of seint og nennti ekki að breyta :)).  Skálholtsvegur.

17. Skúlagata.

Afskaplega væri gaman ef einhverjir þeir sem þetta sjá og vita betur en hér hefur verið frá greint, komi þeim upplýsingum til mín. Ekki síst á ég við þær nafngiftir sem fram koma, t.d. á gróðurhúsum og hverum.

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...