Sýnir færslur með efnisorðinu Pabbi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Pabbi. Sýna allar færslur

10 júlí, 2010

"Þú segir það, Jón litli, að Guð hafi skapað þig"

Því ber að fagna þegar eitthvað gott gerist. Það geri ég hér með. Ástæðan? Her sláttumanna fór um Laugarás í gær og breytti ásýnd þorpsins í skóginum eins og hendi væri veifað. Bara að þetta gerðist nú oftar. Síðan þetta gerðist hefur ringt látlítið, svo aðstæður hafa skapast fyrir hraðari og öflugri vöxt gróðursins.
Af tilefninu má láta sér detta í hug að gera margt skemmtilegt, eins og t.d. 
- að flytja inn erlenda ferðamenn til að grilla saman í rígningunni
- að flytja loksins myndbandið sem tekið var á Laugaráshátíðinni í fyrra, inn í tölvu og síðan þaðan inn á hátíðarsíðuna.
- að skella sér á tónleika í höfuðborg þess lands er Þjóðverjar byggja.
- að baka heilan helling af kökum.
- að fyllast gleði yfir því að eiga ekki kött.
- að fylgjast með óttalausum maríuerluhjónunum segja ungviðinu til á pallinum. (verst hvað hann er hvítdoppóttur á eftir)
- að fylgjast með lokaleikjum heimsmeistarakeppni (þegar fréttirnar á hinni stöðinni eru búnar að seðja fréttaþyrsta frú)

Það má endalaust tína til aðferðir við að fagna. 

----------------------------

Sumarleyfi felur það oftar en ekki í sér að fólk skiptir um gír og það er nákvæmlega það sem til stendur að gera núna. Næstu vikurnar hef ég hugsað mér að taka mér sumarleyfi frá skrifum á síðu þessa. Auðvitað þykist ég þess fullviss að margir reki upp ramakvein, en það verður svo að vera.  Hvert framhald verður á eftir að leyfinu líkur, verður að ráðast af  ýmsum þáttum, sem skipta mismiklu máli.

ps Fyrirsögnina hef ég eftir gamla unglingnum, sem hefur hana einhversstaðar frá, og beitir alloft. Þegar ég freistaði þess að finna henni stað í veröldinni, komst ég að því að hún kemur einungis fyrir einu sinni á internetinu, en það er í minningargrein, sem var skrifuð 1998, um aldraðan mann. Hinn endanlegi uppruni er þar með óþekktur, enn sem komið er. 
Hver var hann, þessi Jón litli? 
Trúði sá sem þetta sagði ekki á sköpunarkenninguna? 
Var Jón ungur, eða bara smávaxinn? 
Já, hún vekur fleiri spurningar en hún svarar, þessi yfirlætislausa setning.

Lesendum óska ég ánægjulegs sumars án andlegrar upplyftingar frá mér.

17 júní, 2010

"Það er smátt sem hundstungan finnur ekki"

Það er líklega nokkuð almennt viðhorf elstu kynslóðarinnar, að hún vill ekki skulda neinum neitt, vill standa sína pligt í hvívetna og getur ekki hugsað sér að taka áhættu eins og þá að mæta með bílinn sinn í skoðun eftir að frestur til þess er liðinn. Þegar bílnúmerið endar á 6 þá skal fara með bílinn í skoðun ekki seinna en í júní, helst fyrr. Í framhaldinu velta menn fyrir sér hvort hugsanlega getur verið eitthvað að bifreiðinni, því það er engan veginn ásættanlegt að eitthvað sé ekki í lagi, jafnvel þótt fararskjótinn geri lítið annað en standa inni í bílskúr. Það verður að huga að öllu því, eins og fyrirsögnin segir: "Það er smátt sem hundstungan finnur ekki."
Þetta orðtak hef ég aldrei heyrt fyrr og finnst það harla skondið, ekki síst í þessu samhengi.

Það liggur fyrir að bifreiðin verður færð til skoðunar í fyrramálið. Vonandi verða hundarnir búnir að sleikja svo mikið að tungan leiti ekki allt uppi.

13 júní, 2010

Oft er það gott sem gamlir kveða

Gestir gamla unglingsins hafa sumir tekið upp á því að skrá niður vísur sem hann dælir upp úr sér við aðskiljanlegustu tækifæri. Hann kveðst hafa lært flestar vísnanna hjá manni sem hét Einar Long, sem var honum samtíða á Hallormsstað, væntanlega á 3ja og/eða 4ða áratug síðustu aldar. Sá maður hafði þann starfa m.a. að spinna ull á stóra spunavél og þá fór hann gjarnan með allskyns vísur eftir sig og aðra, sem sá gamlli telur hafa síast inn í sig smám saman.
Hann fer með þessar vísur við ýmis tækifæri sem gefast, t.d. þegar hann hefur fengið mig til að segja að ég hafi enga samvisku af því þegar hysknir nemendur falla á prófum, þá kemur jafnan þessi fyrripartur:


Samviskuna get ég grætt
og gefið henni sitthvað inn
 - botninn er svona:
en aldrei getur ástin hætt
og af henni stafar kvensemin.
                          Páll Ólafsson


Oftar en ekki þá verður stutt hlé á samræðum og þá skellir hann þessu oftar en ekki fram:


Svona' er það við sjóinn víða
sama gerist upp til hlíða
  -  svona er framhaldið:
sveinn og meyja saman skríða
segjast elskast jafnt og þétt
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi' að lifa´og líða
uns lausakaupamet er sett.
      - ég hef ekki komist að því eftir hvern þetta er, né heldur hvað 'lausakaupamet' er.


Þessi vísa Bólu-Hjálmars heyrist alloft:
Oft hefur heimsins gálaust glys
gert mér ama úr kæti.
Hæg er leið til helvítis,
hallar undan fæti.
Sagt er að Bjarni amtmaður hafi upphaflega ort fyrri hluta vísunnar en þá var hann svona:
Margur heimsins girnist glys
og gálaust eftirlæti

...en Hjálmar botnað. Sagt er að Hjálmar hafi síðan ort þennan þegar hann datt á leið úr búð í Grafarósi. Sbr. uppl. úr Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.


Þessa fer sá gamli stundum með:
Latur maður lá í skut,
latur var 'ann þegar hann sat.
Latur oft fær lítinn hlut.
Latur þetta kveðið gat.


Ekki hef ég fundið þessa vísu svona, heldur:
Latur maður lá í skut.
Latur var hann þegar hann sat.
Latur fékk oft lítinn hlut.
En latur gat þó étið mat.



Þessa segir hann vera eftir Guðjón snikkara (Guðjón Jónsson frá Freyshólum, bróðir Magnúsar Jónssonar, afa míns, föður gamla unglingsins), sem skellti henni fram þegar hann var búinn að ljúka skipalæginu á Reyðarfirði:
Loks er bryggjan búin,
bæði skökk og snúin,
dvergasmíði dánumanns.
Þar voru stólpar steyptir
og stöplar niður greyptir,
alla leið til andskotans.

Þessi mun vera eftir Káinn:
Lesið hef ég þitt lærdómsstef þótt ljót sé skriftin
og síst ég efa sannkleikskraftinn
að sælla er að gefa en þiggja - á kjaftinn

Ekki fann ég neitt um þessa, sem oft er farið með, en hlýtur að hafa orðið til á bannárunum:
Andinn er oft í vanda,
yndis er stopull vindur.
Brandur, hvað ertu að blanda?
bindindis jarma kindur.

Ekkert veit ég heldur um þessa:
Það endar verst sem byrjar best
og byggt  á mestum vonum.
Svo er með prest og svikinn hest
og sannast á flestum konum.

Fljótsdalurinn fær heldur á baukinn í þessari, sem ég veit heldur ekki hver orti:
Í Fljótsdalnum er fegurst byggð
á foldar engi,
en enginn maður iðkar dyggð
sem er þar lengi.


Þessar heyrast oft við borðstofuborðið, en upplýsingar um þær fann ég hér:
Einu sinni var bóndi austur á Héraði og var honum illa við prestinn. Hann orti um klerk þessa vísu:

Mikið er hvað margir lof´ann
menn sem aldrei hafa séð´ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.
Skollabuxur er húðin frá mitti og niður úr, en klæði menn sig í slíkar buxur skortir þá ekki fé í þessum heimi – en brenna munu þeir að eilífu í víti annars heims. En nú er frá því að segja að í sveitinni var annar bóndi og líkaði illa við prestinn. Hann heyrði þessa vísu og var tæp þrjú ár að læra hana og fór með hana svona:
 Mikið er hvað margir lof ´ann
 að ofan
 menn sem aldrei hafa séð´ann
 að neðan.

Læt ég þessu kveðskaparbloggi lokið, en lesendur mega gjarnan leggja til sögur bakvið vísurnar, þekki þeir þær, svo og, auðvitað höfunda.

Góðar stundir.

04 janúar, 2010

Ég kalla sko allt ömmu mína!


(þetta er ekki persóna sem tengist mér - bara einhver internet amma :))


Það kannast væntanlega flestir (þó líklega ekki allir skjólstæðingar mínir) við hvað það þýðir þegar sagt er um einhvern: "Hann kallar sko ekki allt ömmu sína, þessi!" - merkingin þá að viðkomandi láti sér ekki allt fyrir brjósti brenna (sem örugglega ekki allir skilja) - merking þess er, eins og einhverjir vita, að viðkomandi er enginn aumingi (allir vita hvað það er).

Þetta ömmu tal er hér til komið þar sem það kom upp í samtali við gamla unglinginn nú síðdegis. Til umræðu var sú kuldatíð sem nú gengur yfir og fólkið sem kvartar yfir hvað það er "svakalega kalt"(Ég tek það fram hér, til að það liggi fyrir, að ég var ekki að kvarta um kulda).
"Já, þetta fólk kallar allt ömmu sína" sagði hann og fór síðan að fjalla um hvernig húsakynni voru áður fyrr, þegar eina upphitunin var í eldhúsinu við ylinn frá eldavélinni þar sem brennt var taði eða mó. Þá var oft um það að ræða að fjósið væri undir baðstofunni og fólki tókst að ylja sér við þær lífrænu, upphitandi, jórturvélar sem þar var að finna.
"Það fólk kallaði sko ekki allt ömmu sína."

Moralen er (flottara á dönsku): Því betri sem lífsskilyrði okkar eru, því meiri aumingjar verðum við. Því meira vorkennum við sjálfum okkur allt það sem við túlkum sem erfitt. Við köllum það ömmu okkar.

Hvers eiga blessaðar ömmurnar að gjalda, að vera notaðar um aumingjaskap?
Það væri gaman að fá upplysingar um hvar þessi ömmutenging varð til. Við höfðum það ekki á hraðbergi, við gamli.

23 desember, 2009

Þoddlákur



Allt árið er undirlagt allskyns sérstökum viðburðum, sem hver landshluti, hver fjölskylda eða jafnvel hver einstaklingur framkvæmir eða upplifir með sínum hætti. Það er til dæmis þetta fyrirbæri sem heitir Þorláksmessuskata sem fólk virðist stöðugt vera að missa sig í og sem ég á harla erfitt með að kyngja si svona.
Þannig er, að fD mun hafa langa sögu af aðkomu að skötuneyslu, og þá einvörðungu á þessum eina degi ársins (sennilega vegna þess, að í rauninni er þetta fjarri því að vera eitthvað eftirsóknarvert). Það eru allmörg ár síðan hún og gamli unglingurinn náðu sman með þennan skötuáhuga sinn og síðan það gerðist hefur það verið hlutskipti mitt að taka þátt í dýrkun þessarar undarlegu fisktegundar (ég veit ekki enn, eftir þessa reynslu, hver munurinn er á tindabykkju og skötu og ekki heldur skötuáhugafólkið).
Ég hef fagnað því innra með mér þegar það hefur verið ákveðið að skötusuðan skuli eiga sér stað á heimili þess gamla, frekar en þessu, þar sem ilmurinn (stækjan) hefur verið viðvarandi fram undir áramót.
Mér til ánægju neitaði Hveratúnsmaðurinn að koma í Kvistholt þessu sinni. Böggull fylgdi þó skammrifi: ilmurinn þótti einhverjum ekki með besta móti á hinum staðnum heldur, þegar síðast var soðið þar. Af þeim sökum var stefnt á að sjóða skötufj. utandyra. Flatkökuhellan í Hveratúni fannst og mér var falið að athuga hvort hún virkaði, sem hún og gerði.


Nú, þetta gekk allt eins og að var stefnt og raunar fátt annað um það að segja. Ég og aðrir andskötungar borðuðum saltfisk og dýrindis síld meðan skötufíklar svældu í sig einhverjum ókræsilegasta mat sem um getur. Allir ánægðir.


Til að enginn misskilningur sé um forsendur þess að ég borða ekki skötukvikindið, þá finnst mér rétt að taka það fram, að ég gerði fyrir allmörgum árum, tilraun til að skella þessu í mig, þó ekki væri nema til þess að sanna fyrir mér og þá sérstaklega öðrum, að í mínum huga væri hér hreint ekki um æti að ræða.

Gamli unglingurinn viðurkenndi reyndar fyrir mér, í dag, að honum þætti frekar lítið til um skötu, en setti þetta í sig þar sem það teldist þjóðlegt, sem ég var og er honum algerlega ósammála um. Það er ekkert þjóðlegt við þessa athöfn - eins og ég sé hana. Ég lít á þetta sem einhverja þörf einstaklinga til að vera dálítið karlmannlegir í umhverfi sínu. Ég skil engan veginn hvernig fólk getur t.d. fengið af sér að telja niður í skötuna (bara 3 tímar og 45 mínútur í skötuna!!!). Ég held, að ef þetta er í raum svo óskaplegt lostæti þá eigi að vera hægur vandi að borða þetta á nánast hverjum degi ársins. Hversvegna er það ekki gert?

08 október, 2009

Moggamengunamartöð

"Ég fékk mér heilsubótargöngu í morgun til þess að vígja nýju blátunnuna"
Það er gamli unglingurinn sem hefur orðið. Hann hafði komist að því við lestur bæklingsins um blátunnuna, að í hana skyldi mogginn fara að loknum lestri. Hann tók sig, sem sagt, til og bar í tunnuna stærðar haug af mogganum, sem hafði safnast umm hjá honum undanfarnar vikur.

Hann er í þeirri aðstöðu að fá moggann hvort sem hann vill eða ekki. Það er hinsvegar augljóst, að hann vill hann þó svo Tíminn hefði verið hið eina sanna dagblað.
Aðspurður um hvort hann óttaðist ekki að smitast af boðskap moggans svaraði hann því til, að svo væri ekki því það sæti ansi lítið eftir að lestri loknum.

Hvað um það, hann flutti moggastaflann í blátunnuna nýju, sem stendur enn þar sem starfsmenn sorpfyrirtækisins höfðu skellt henni niður - á hálfgerðum berangri - þó slíkt fyrirbæri sé nú ekki til í Laugarási.

Sá gamli hafði síðan heyrt það að spáð er víðáttubrjáluðu veðri í nótt og á morgun og velti því fyrir sér hvort ekki séu líkur á að tunnan fjúki af stað og mogginn með og síðan úr tunnunni og út um allt.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig staðan í trjágróðrinum í Laugarási verður í fyrramálið. Ætli maður sitji uppi með moggann fyrir augunum eftir allt?
Ja, hann Davíð!

19 september, 2009

B Ú Ð A R F E R Ð I N - 3. hluti

Þá er komið að síðasta hluta dæmisögunnar um búðarferðina. Áður en lengra er haldið verð ég að taka það fram, að þó svo við Kvisthyltingarnir og gamli unglingurinn séum þarna sögupersónur, er það engan veginn svo, að líta skuli svo á að nákvæmlega svona hafi reynsla okkar af búðarferðinni verið, þó svo með réttu megi til sanns vegar færa að svona hafi reynsla okkar verið.

---------------------------
Svona lauk 2. hluta:
Nú var röðin komin að þeim; þau hófu að tæma körfuna á færibandið sem síðan færði varninginn í hendur kassamannsins.

Það er þannig, að maður fylgist oft með því sem þeir sem á undan eru, hafa sett í körfuna sína, og svo var einnig nú. Það yrði of löng upptalning að ætla sér að gera grein fyrir öllum þeim ókjörum af dýrindis mat-, hreinlætis- og snyrtivörum sem færðist nær kassamanninum með kippum. Hann tók við hverjum hlutnum eða stykkinu á fætur öðru og færði fyrir framan skannan sem jafnóðum birti verðið á skjánum sem við blasti. Þetta var augljóslega afar auðugt fólk sem var hér á ferð.
Þar kom að kassamaðurinn var búinn að renna öllum vörunum fyrir skannann. Glæsihjónin höfðu á sama tíma tínt vörurnar beint í innkaupakerruna aftur og luku því um leið að síðasti hluturinn hafði sent verðupplýsingar inn í tölvuna. Það var þá sem maðurinn lyfti upp hægri hönd og smellti fingrum (þumalfingri og löngutöng).
"Þetta eru þá 376,846", sagði kassamaðurinn til staðfestingar á upphæðinni, sem birtist á skjánum. Um leið birtust tveir þrekvaxnir menn, sem augljóslega höfðu beðið eftir merki. Þeir tóku sitt hvora innkaupakerruna og trilluðu þeim á undan sér í átt að útganginum.
"Já - ég ætla ekki að greiða það", sagði maðurinn rólega um leið og hann tók undir hönd konunnar og gekk á eftir kerrumönnunum. Fyrir utan verslunina var nú kominn langur, svartur fólksbíll, svona eins og stundum er kallaður límósína. Skottið var opið og nú mátti sjá þrekvöxnu kerrumennina lyfta kerrunum upp og sturta úr þeim í skottið, sem síðan var lokað. Maðurinn og konan settust inn í bílinn, skottinu var skellt, kerrurnar voru skildar eftir á miðju bílastæðinu og bíllinn helt af stað út í umferðina.
Viðbrögð kassamannsins við öllu þessu voru harla undarleg. Þau voru nákvæmlega engin. Hann fylgdist með atburðarásinni rétt eins og við, nema ekki í forundran og vantrú. Þegar bíllinn var farinn snéri hann sér aftur að færibandinu og hóf að skanna inn vörur gamla unglingsins. Það tók ekki langa stund. Ég setti vörurnar í þennan eina poka sem til þurfti fyrir þetta allt saman.
Kassamaðurinn sló inn samtöluna.
"Þetta verða þá 381,352", sagði hann, án þess að blikna.
"Fyrirgefðu, hvað sagðirðu?", sagði gamli unglingurinn, en heyrinin er ekki eins og hún var.
"381,352", endurtók kassamaðurinn og snéri skjánum með upphæðinni á gamla unglingnum, um leið og hann benti á skjáinn þar sem umrædd upphæð blasti við.
Gamli unglingurinn er af þeirri kynslóð sem borgar alltaf reikningana sína, helst löngu fyrir gjalddaga, en nú varð honum greinilega ekki rótt.
"Kostar þetta sem er þarna í pokanum svona mikið?" spurði hann um leið og hann benti á pokann sem ég hélt á.
"Já, þetta og síðan það sem hjónin keyptu áðan", svaraði kassamaðurinn snúðugt.
"Á ég að borga það sem þau fóru með líka?"
"Já, það eru reglurnar."
"Það gengur ekki." Nú var farið að síga í þann gamla.
Kassamaðurinn hikaði stundarkorn.
"Kassinn verður að stemma. Það verður alltaf einhver að borga."
Ég sá að hægri hönd hans hvarf undir borðið.
"Þetta á ég ekki að borga og þetta ætla ég ekki að borga. Hvað kostaði það sem ég keypti?"
"Þú átt að borga alla upphæðina", sagði kassamaðurinn, um leið og rauð ljós fóru að blikka yfir kassasvæðinu og skerandi væl fyllti búðina. Allir viðskiptavinirnir og afgreiðslufólkið snéri sér að okkur og horfðu á okkur í forundran.
"Nei - kemur ekki til greina. Ég krefst þess að fá að borga það sem ég keypti - annað ekki!"
"Jæja, við sjáum til". Kassamaðurinn var grunsamlega öruggur með sjálfan sig og ekki leið á löfngu áður en skýringin kom á þvi. Í fjarska bættust sírenuhljóð við vælið í búðinni. Skömmu síðar renndu tveir lögreglubílar í hlað með blikkandi ljósum. Út úr þeim stigu 4 lögregluþjónar, sem hröðuðu sér inn í verslunina og að kassanum þar sem við stóðum, hálf dofin yfir þeim ósköpum sem þarna höfðu átt sér stað.
"Ætlar þú ekki að greiða fyrir vörurnar?" spurði ábúðarmikill lögregluþjónn, sem virtist fara fyrir hinum.
Gamli unglingurinn endurtók það sem hann hafði áður sagt. Hann var tilbúinn að greiða fyrir slattann í pokanum.
"Hvert er þá vandamálið?"
"Samkvæmt reglum ber honum líka að greiða fyrir glæsifólkið sem fór áðan án þess að borga," sagði kassamaðurinn, viss í sinni sök.
"Já, það mun rétt vera," sagði lögreglumaðurinn. "Reglurnar kveða á um það. Ætlarðu að greiða þetta?"
"Nei, fjarri því. Kemur ekki til greina!"
"Þá eigum við ekki annars úrkosti en að handtaka þig og færa fyrir dómara."

Þetta reyndist gamla unglingnum um megn. Hann tók upp kortið sitt og afhenti kassamanninum, sem renndi því í gegnum lesraufina á tölvunni. Út prentaðist miði, sá gamli skrifaði undir, rauð ljósin slokknuðu, vælið hætti og lögregluþjónarnir hurfu á brott.

Kassamaðurinn renndi nú vörum okkar Kvisthyltinga framhjá skannanum. Þær komust í tvo poka og fyrir greiddum við það sem kalla má viðunandi verð. Því næst yfirgáfum við verslunina.

Síðast þegar ég vissi var gamli unglingurinn að borða 50000 króna grjónagrautinn sinn og burstaði síðan tennurnar með 37000 króna tannkreminu.

Þannig eru reglurnar.

B Ú Ð A R F E R Ð I N - 2. hluti

Svona rétt til að skerpa á lesendum vil ég bæta lítilsháttar upplýsingum við Laugarásbúann sem spurt var um. Þessi átti heima á öðrum stað í Tungunum áður en hann flutti í Laugarás með fjölskyldu sinni, þar sem þau höfðu byggt sér íverustað og í framhaldi af því atvinnuhúsnæði.
--------------------
Jæja það er þá væntanlega komið að sögunni um Búðarferðina. Búðar ferðir eru svo sem nánast vikulegur viðburður á þessum bæ. Oftast er gamli unglingurinn með í för og tekur kerruaksturinn föstum tökum.
Í því tilviki sem hér um ræðir var föstudagssíðdegi og umferð því allmikil þegar við komum í kaupstaðinn. Eins og venjulega þurfti að taka á ákveðinni klípu þegar val á verslun var annarsvegar, en loks varð önnur þeirra fyrir valinu.
Eftir að búið var að nálgast kerruna undir varninginn, hófst leiðangurinn um heim allsnægtanna, þar sem hægt er að fylla margar kerrur af varningi á augabragði, ef pyngjan og þarfirnar standa til slíks.
Hjá okkur Kvisthyltingum átti ferðin að vera fremur lágstemmd, að vanda - bara svona þessar vikulegu nauðsynjar. Tveir miðar fD lögðu grunninn að því sem fara skyldi í kerruna; annar fyrir gamla unglinginn og hinn fyrir okkur.
Fljótlega eftir að við vorum komin af stað - byrjuð að tína íslenskt grænmeti í körfuna - tók ég eftir afar glæsilega klæddum hjónum sem þarna voru í sömu erindagerðum og við. Þau voru ekki með neinn tossamiða, auðsjáanlega, því hiklaust tíndu þau til varninginn án þess að hugsa sig um. Yfirleitt tóku þau það sem var dýrast - og þá væntanlega best líka. Það er einhvernveginn þannig í svona búðum að fólk fylgist að í gegnum herlegheitin - ekki viljandi, heldur vegna þess að í grunninn erum við öll frekar svipuð þegar kemur að innkaupum. Það var einnig svo með okkur og glæsihjónin.
Ég er nú ekki vanur að einbeita mér að því að fylgjast með saminnkaupafólki við þessr aðstæður, en einhvernveginn var háttalag þessara þess eðlis að þau drógu að sér athyglina þar sem þau hiklaust og hikstalaust söfnuðu vörunum í körfuna. Afköst okkar við sama verk voru nánast til skammar, ef þannig er mælt.
Þegar við vorum búin að fara í gegnum frystana (þau fengu sér rándýrar nautalundir frá Nýja Sjálandi) og kælana (þau litu ekki við tilboðskjötinu) og gosdrykkina (þau völdu CC) og þurrvöruna (þau tóku hitt og þetta) og nýlenduvöruna (þau tóku þetta og hitt) og hreinlætisvöruna (þau tóku hitt og hitt m.a. dýrasta tannkremið úr 25 tegunda úrvalinu) og snyrtivöruna (þau tóku þetta og þetta) og bökunarvöruna (þau tóku dýrasta brauðið og flottustu kökurnar) og hvað þetta heitir allt. Karfan þeirra var orðin sneisafull, svo full að það flóði út úr og datt á gólfið, en þau létu það sér í léttu rúmi liggja - létu það bara liggja sem datt á gólfið og héldu áfram að tína í körfuna. Okkar karfa var tvískipt: í fremri endann fóru nauðsynjavörur gamla unglingsins og í þann aftari nauðsynjavörur okkar - allt fyrirfram ákveðið. Við tókum aðallega tilboðsvörur, ef þær voru einhverjar og létum okkur nægja ódýrasta tannkremið af tegundunum 25 (varla myndi það beinlínis valda tannskemmdum).
Eftir um það bil hálftíma samferð í gegnum búðina kom loks að því að ýta körfunni að búðarkassa. Það vildi svo til, að samferðafólk okkar í gegnum verslunarferðina var næst á undan okkur í röðinni. Við hefðum gjarna viljað fara í aðra röð, en þær voru bara allar lengri. fD ákvað að það væri fljótlegra að fara í stuttu röðina, þó svo karfa félaga okkar væri algerlega útúrtröðin af varningi.
Nú var röðin komin að þeim; þau hófu að tæma körfuna á færibandið sem síðan færði varninginn í hendur kassamannsins..........

Framundan er ótrúleg atburðarás, sem greint verður frá í næsta hluta, sem væntanlega verður sá síðasti.

18 september, 2009

B Ú Ð A R F E R Ð I N - 1. hluti

Ég hef áður sett dæmisögu inn á þessa ágætu síðu mína, en varð ekki var við að neinn skildi hvað ég var að fara. Í það minnsta fékk ég ekkert að vita af því þegar útúrspenntir lesendur áttuðu sig á hvað ég var að fara og fundu sig knúna. í sæluvímunni sem því fylgdi, að láta vita af uppgötvun sinni.

Ég ætla núna að skrá hér aðra dæmisögu, í þeirri von að bara það að vita að um er að ræða dæmisögu, verði til þess að fólk velti málunum fyrir sér um leið og það les.
---------------------------------------------

Hér er sagan um búðarferðina

Óvænt uppákoma veldur því að framhaldið birtist á morgun.

(bendi þeim sem spenntastir eru, á að endurskoða fyrri dæmisögu á meðan)

Þá bendi ég einnig á, að enginn hefur treyst sér í að finna út úr Laugarásbúanum.

08 júlí, 2009

Annar blær (2)

Með því að setja 2 í sviga er ég að vísa til færslu með sama nafni frá 20. apríl á síðasta ári. Þessa færslu skildu lesendur ekki, eins og sjá má af þeim athugasemdum sem skráðar voru. Of djúpt, enda ætlaðist ég til þess að það þyrfti töluvert innsæi til að skilja hvað um var að ræða.

Ástæða þess að ég vísa til þessarar færslu, sem er ríflega ársgömul er, að nú mun vera samskonar staða uppi og þá var. Munurinn er sá að nú hafa birst á opinberum vettvangi upplýsingar um hver staðan er, en það var ekki þá og því þörf á að vera dulúðugur í orðavali.

Nú eins og þá hefjast vangaveltur um hvernig þetta fari nú allt saman þó svo mestar líkur séu á að allt fari eins og best verður á kosið. Áhyggjurnar beinast væntanlega fyrst og fremst að gerendunum, sem nú sjá fram á að lífið breytist umtalsvert, sbr. 'It's the end of the world as we know it...'.

Jamm - lífið breytist í grundvallaratriðum, dýptin eykst og litunum fjölgar. Það gefst færi á að gleðjast yfir öðrum hlutum með allt öðrum hætti. Það þarf að fórna, en fórnirnar þær gefa margfaldan arð. Það þarf að forgangsraða með öðrum hætti, en samt er í rauninni rúm fyrir allt.

Þetta er það sem allt snýst í rauninni um, er það ekki?

--------------------------
--------------------------

Heimsókn til gamla unglingsins í dag fór í að ræða kveðskap. Ég þóttist þekkja stuðla, höfuðstafi og rím, ásamt hákveðum og lágkveðum og öllu þessu sem til heyrir. Jafnframt gat ég þess, að ég treysti mér vel til að sjá hvaða vísa væri rétt kveðin. Hinsvegar sagði ég sem satt er (eins og segja má um Jóhönnu og Steingrím þessa mánuðina): Það er auðveldara um að tala en í að komast.
Hvað um það. Ég er nokkuð lélegur til gangs þessa mánuðina og er yfirleitt hálf haltrandi þegar ég kem í heimsóknirnar. Þessari lauk þannig að sá gamli sagði mér að klára þessa fyrstu línu fyrir morgundaginn:

Illt er að ganga' á einni löpp..................

Eins og vant er, kostaði þessi áskorun mikil heilabrot og þótti mér það ekki góð tilhugsun, að standast hana ekki.
Ég endaði á þessu og er ekki fyllilega ánægður:

Illt er að ganga' á einni löpp,
allt er skakkt og bogið.
Verkir hrjá mig, von er slöpp,
ég vildi' ég gæti flogið.

07 júlí, 2009

Eftir heimsókn til gamla unglingsins

Rætt var hvað einkennir íbúa hinna ýmsu landshluta, svona eins og gengur. Í tengslum við þetta stóð eftirfarandi upp úr þeim gamla:

Sunnlendingar segja mest
og svíkja flest.
Vestfirðingar vita mest
og vilja verst.
Norðlendingar ríða mest
og raupa flest.
Austfirðingar eiga mest
og una verst.

(veit einhver eftir hvern þetta er?)

Umræðan snérist einnig, eins og svo oft áður, um stöðu mála á okkar góða landi og ekki var það allt á bjartsýnustu nótunum.
Sá gamli á fyrstu línuna:

Allt fer nú til andskotans
engu' er hægt að bjarga.
Hrollvekjandi Hrunadans
hræðir bankavarga.



06 apríl, 2009

Allt í volli.....sumu reddað

Þetta er búinn að vera dagur hinna ýmsu átaksmála sem öll miða að því að gera lífið eða tilveruna betri en er(u). Allt þetta kostaði umtalsverða skipulagningu þar sem við sögu kom mannfólk, fugl og farartæki. 

Upphaflegt tilefni höfuðborgarferðar var framhald augasteinsútskiptingar gamla unglingsins, en honum var nauðsynlegt að kíkja til augnlæknis þar er sjónin hafði eðlilega breyst. Þessi liður ferðarinnar var löngu skipulagður og til hans voru væntingar þó nokkrar og líklega nokkru meiri en niðurstaðan síðan leiddi í ljós. Það mál á eftir að kosta nokkra umræðu. 

Til að nýta ferðina var tekin sú ákvörðun, af gamla unglingnum að mestu, en að nokkru fyrir áeggjan fD, að sinna eðlilegu smurviðhaldi bifreiðar þess fyrrnefnda, sem er af gerðinni Subaru. Pantaður hafði verið tími á viðeigandi smurstofnun fyrir allnokkru síðan. Þegar það var gert lá fyrir, að verðandi stúdent á heimilinu var kominn fram yfir á tanngarðaeftirliti. Það þótt því upplagt að koma málum þannig fyrir að ferðin nýttist honum til tannsaferðar jafnfram því sem hún nýttist til þess að koma ofangreindri bifreið til smurs.

Það gerðist síðan í gær að höfuðborgarangi fjölskyldunnar essemmessaði áhyggjur sínar af heilsufari fóstursonarins, Tuma Egilssonar. Hún hafði þá þegar orðið sér úti um það álit kunnáttumanns, að hann ætti hugsanlega ekki langt eftir.  Það varð úr að ferðin skyldi nýtt til þess að flytja viðkomandi til þar til hæfs læknis, sem var ekki síður flókið þar sem uG þurfti að sinna vinnu í dag.
Skemmst er frá því að segja, að allt skipulag dagsins gekk fullkomlega eftir, enda enginn viðvaningur í skipulagsmálum á ferð.
Það eina sem ekki var leitað leiða til að laga, og sem ekki er í viðunandi lagi, var bak þess sem þetta ritar og þrálátt ólag á heilsu fósturmóðurinnar. Þrálátur verkurinn lét engan bilbug á sér finna og gerir ekki enn og það sama má segja um ástand uG.

Niðurstaða dagsins var þessi:
Augnamál gamla unglingsins eru í lítilsháttar biðstöðu. Fyrir liggur að taka ákvörðun um hvort og þá hve mörg gleraugu verða keypt.
Subaru fékk sína yfirhalningu og telst nú í góðu standi.
Fuglinn Tumi fór til læknis þar sem hann fékk ekki þann dóm að öllu væri lokið. Etv getur breytt mataræði og einhverjir mér ókunnugir dropar vegna ónæmiskerfis snúið heilsufarinu á réttar brautir.
HB fékk tannayfirferð og var útskrifaður með láði.
Þessi hérna er áfram með leiðinda bakverkinn.
UG berst enn við pestina.

Tvö mál af sex afgreidd með vel fullnægjandi hætti
Tvö mál af sex eru í nokkurri biðstöðu.
Tvö mál af sex hafa ekki hlotið neina athygli eða meðferð.


Það verð ég að segja' eins og er,
að allmjög var dagurinn snúinn.
En hinsvegar reyndist hann mér
hreint ekki frekar þungbúinn.


03 mars, 2009

Betur sér auga en auga

Eftir því sem árin færast yfir fólk, verður það að reikna með að ýmislegt fari að gefa sig, svona eins og gengur. Heyrnin verður ekki lengur samkeppnisfær við það sem hún var á þrítugsaldrinum og sjónin á það til daprast nokkuð, af ýmsum ástæðum.
Við þessu er að búast og við því er væntanlega fátt að gera - þetta er hluti af því sem lífsskeið mannsins felur í sér.

Eða er það kannski ekki svo?

Ég er ekki með þessum inngangi að undirbúa pistil um sjálfan mig, ef einhverjir skyldu láta sér detta annað eins í hug! Til ítrekunar tek ég það fram, að að mér amar ekkert sérstakt svo ég viti þangað til annað kemur í ljós og þá mun ég væntanlega ekki fjalla um það hér.

Tilefni pistilsins er auga, eða kannski jafnvel augu, sem voru farin að daprast allnokkuð og sem tilheyra einstaklingi sem tengist mér verulega og sem hefur nokkuð oft komið við sögu í þessum pistlum.
Fyrir nokkrum árum, eftir heimsókn hjá augnlækni, var honum bent á, að það mætti líklega lagfæra sjónina töluvert með því að láta skipta um augasteina, en þeir sem fyrir voru, voru orðnir töluvert skýjaðir. Þá var sjónin orðin talsvert daprari á öðru auganu en hinu, af öðrum orsökum, sem ekki mun vera unnt að bæta úr.
Það varð úr, eftir talsverðar vangaveltur, að láta framkvæma þess aðgerð á lélegra auganu. það gekk eftir, en ekki reyndist verða um þá bót að ræða sem vonast var eftir. Þessi aðgerð var sem sagt ekki beinlínis hvati til þes að ráðast til atlögu við betra augað líka, en þó var möguleikanum var samt haldið opnum, en ekkert frekara frumkvæði var af hendu augnaeigandans í málinu.

Það var síðan í byrjun þessa árs, að hringt var frá augnstöðinni og eigandi augnanna boðaður í viðtal vegna möguleika á að ráðast til atlögu við hitt augað - það betra. Allt í lagi með það - farið var í skoðunina og þar var rætt fram og aftur um hvað hugsanlega þessi aðgerð gæti haft í för með sér. Ekki reyndist læknirinn tilbúinn að segja eigandanum að hann ætti að fara í aðgerðina, þó ítrekað væri eftir því leitað, heldur benti hann á mögulega kosti við aðgerðina, en vildi ekki lofa því með afgerandi hætti, að bót væri algerlega örugg af þessu.

Þegar heim var komið og eigandinn hafði verið töluvert hljóður á leiðinni, kvað hann upp úr um að ekkert skyldi verða af aðgerð þessari. Betra væri að hafa þá sjón sem hann þó hefði, en að taka áhættu á að missa betra augað.
Nú fór í hönd tími umræðna og vangaveltna sem lauk í stuttu máli á þann veg að ákveðið var að taka áhættuna, sem átti helst að felast í mögulegri ígerð í kjölfarið.

Aðgerðin var síðan framkvæmd í gær og gekk vel. Eigandinn bara hress, en kvaðst sjá allt í móðu og bara útlínur á fólki. Það hefur verið tryggt með góðu fólki að engin áhætta skuli tekin á sýkingu og síðan er framundan skoðun hjá lækninum á fimmtudag.

Ég heimsótti eiganda augnanna áðan. Þá var hann búinn að taka upp þann nýja sið, að setja gleraugun upp á enni og kvaðst sjá fólk í alveg nýju ljósi - lék við hvurn sinn fingur, eins og sagt er.

Ánægjulegt.

Af augum er allt gott að frétta
og engu er við það að bæta.
Valdi hann veginn þann, rétta,
við blasir dásemdar glæta.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...