28 október, 2008

Langþreyttur á lygimálum

Hver lýgur best?
Er það útrásavíkingurinn, sem lýsir sig ábyrgðarlausan?
Er það Seðlabankastjórinn, sem lýsir sig og bankann (af því að þeir eru einn) ábyrgðarlausa?
Er það forsætisráðherrann, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Er það utanríkisráðherrann, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlaus?
Er það viðskiptaráðherra, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Er það fjármálaráðherrann, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Er það framsóknarformaðurinn, sem lýsir sig og flokkinn sinn ábyrgðarlausa?
Eru það hinir flokksformennirnir, sem lýsa sig og flokkana sína ábyrgðarlausa?
Eru það þingmenn úr öllum flokkum, sem lýsa sig og flokkana sína ábyrgðarlausa?

Er það kannski bara ég sem er ábyrgur? 
Ég keypti EOS og meira að segja linsu. Ég keypti PS-P640 og ég keypti Xtrail.

Vissulega er mikilvægt að fylgjast með fréttum og ég get varla sagt að ég missi af einu einasta orði. Ég er hinsvegar kominn að þeirri niðurstöðu eftir allan lygavaðalinn sem okkur, borgurum þessa lands er boðið upp á dag eftir dag  - og nótt líka, að ég trúi engum.  Ef ég trúi engu sem ér sagt, þá er ég væntanlega bara í vondum málum.

Við Íslendingar erum saklausir ljúflingar. Það vefst ekki fyrir aðalleikurum í því sjónarspili sem nú gengur yfir (með saklausari andlit en nýfætt barn), að sannfæra okkur um að þeir beri ekki ábyrgð á því hvernig komið er. 
Þegar þá þrýtur rök fyrir máli sín nota þeir þekkta aðferð: það var eitthvað miklu stærra sem olli þessu. 

Ætli ég láti þetta ekki duga eftir lygaþvæluna (að mínu mati) sem veltist yfir landslýð í fréttatímum á þessu kvöldi.

Stöndum saman - hættum að trúa.

Ljúfsár er lygatrúin.

26 október, 2008

Bögglast með fésbók

Ég held að það sé að verða ár síðan  að Berlínarmaðurinn hvatt til þess að menn stofnuðu aðsestur á fyrirbærinu 'FACEBOOK'. Ég er að mörgu leyti forvitinn maður og tel mig þar að auki ekki fordómafullan og meira að segja all nýungagjarnan. Þessvegna var að að eg fór að þessum ráðum og síðan hef ég birst þarna í öllu mínu veldi, safnandi 'vinum' héðan og þaðan. Það er nefnilega þannig að ég hef fengið tölvupósta frá fólki (að langmestum hluta fyrrverandi nemendum) sem vill vera 'vinir' mínir. Ég hef einnig fengið skeyti frá núverandi 'vinum' mínum þar sem mér er bent á að óska eftir 'vináttu' við tiltekna einstaklinga - en þar dreg ég mörkin. Ég get með engu móti farið út á þá braut að senda fólki beiðni um að fá þá í 'vinahóp' minn. Mér finnst það hreinlega úr karakter.
Já og svo hvað?

Ég verð að viðurkenna, að fyrir mann á mínum aldri, og í minni stöðu, þá örlar sem sagt nokkuð á vandræðagangi í kringum þetta allt saman. Ég hef lítillega verið að spyrjst fyrir um það, hjá áhugasömum fésbókurum, hver tilgangurinn er með þessu, en hef ekki fengið viðhlítandi svör. 

Svo gerðist það í morgun, að einir tíu nýir aðilar (meðal annars 2 nýir fésbókarar í Danaveldi, á mínum aldri) bönkuðu á dyrnar og vildu vera 'vinir' mínir, og að sjálfsögðu varð ég við þeirri ósk umyrðalaust, enda allt fólk sem ég þekki af góðu. 
Eftir situr hinsvegar spurningin áleitna: 'Til hvers?"

Fés er fyndin bók


25 október, 2008

Starfið sem er inni


Í dag birtist í raðir þeirra sem stunda eitt göfugasta starfið, nýr liðsmaður. 
Hann er boðinn velkominn og óskað farsældar í störfum á komandi árum. 
Er ekki komið að yfirstjórnarbreytingum á núverandi vinnustað?

24 október, 2008

Yngri er ég aftur á ný

Ég er búinn að vera að endurlifa fortíðina í dag og mér finnst það bara hreint ekkert verra.
Eins og undanfarna daga og vikur er ég að hverfa (allavega í andanum) fjölmörg ár aftur í tímann - til svona kannski áranna 1975-1979, í þrennu tilliti. Þið þekkið það væntanlega öll, að það þarf oft lítið til að vekja upp minningar af löngu liðnum tíma. 
Ég þori nú varla að nefna dæmið sem kemur fyrst upp í huga minn, en ætla auðvitað samt að gera það. Þannig var, að að lokinni útskrift á Laugarvatni, 1974, hélt ég, ásamt samstúdentum mínum til Mallorca - ég í mína fyrstu utanlandsferð. Þegar við höfðum hent farteski okkar inn á hótelherbergi var næst á dagskrá að verða sér úti um ..... já þið vitið hvað það er, flest, að ég tel. Ef ekki, þá getið þið bara slegið á þráðinn. Ekki er það svo að ég telji líklegt að það gerist. Jæja. Það var keypt sem var keypt, í búð sem er ekki til á Íslandi og ekki það sama af sama toga og fram að því hafði verið keypt í sérstakri búð á Íslandi. Síðan hófust rólegheitin með því að smakka það sem keypt hafði verið. Síðan þá, þegar ég bragða það sem þarna var um að ræða, þá er ég umsvifalaust kominn. tvítugur maðurinn, til Mallorka. 

Ég er ekki búinn að missa þráðinn, er það nokkuð?

ÞAÐ FYRSTA
Það fyrsta sem ég nefni, og sem hefur verið að gerast undanfarnar vikur, og er enn í gangi , og verður væntanlega (og jafnvel vonandi, að mörgu leyti) ofarlega á baugi á næstunni, er pólitísk umræða þar sem mér sýnist að þjóðfélag óbundinnar markaðshyggju og arðráns, sé að víkja fyrir meiri skynsemi.

ÞAÐ ANNAÐ
Það sem ég ætla að nefna númer tvö hefur með að gera veðurfarið á landinu bláa. Þannig var, að í morgun hélt ég til fyrirlestrar í höfuðborginni, eins og ég á vanda til þessar vikurnar, á þessum degi. Það gekk mikill stormur yfir suðvestur hluta landsins s.l. nótt, en ég taldi nú að hann hlyti að vera genginn yfir og lagði því eldhress af stað fyrir allar aldir, á Xtrail, að sjálfsögðu. Það fóru að renna á mig nokkrar grímur undir Ingólfsfjalli og það hvarflaði vissulega að mér að hér væri frekar um að ræða kapp en forsjá, og jafnvel skaut sú hugsun upp kollinum að rétt væri að snúa við í öryggið í vinnunni á Laugarvatni. Þessu var auðvitað strax bægt frá (vegna þess hve hið nýja pólitíska landslag hefur yngt mig upp) og áfram var haldið. Þegar ég kom í Hveragerði blöstu við blá blikkljós, sem gáfu það skýrt til kynna að ekki væri um að ræða að velja Hellisheiði, á leið til borgarinnar við sundin. Aftur skaut upp í hugann spurningunni um hvort skynsamlegt væri að láta vaða í Þrengslin, sem sögð voru opin. Auðveldast hefði að sjálfsögu verið, að taka bara hringtorgið í heilan hring, hjá Hveragerði og halda rakleiðis til baka, en af því varð ekki. Ég skrifa það hiklaust á hina æskuþrungnu ævintýragirni sem þarna var að láta á sér kræla. (Ég reikna með að ef tilteknir aðilar hefðu verið með í för, hefði ákvörðunin hugsanlega orðið nokkuð önnur). Þarna fór ég sem sagt ekki nema þrjá fjórðu af hringtorginu og tók stefnuna, einbeittur, á Þrengslin. Það lágu vissulega fyrir upplýsingar að þau væru opin, en þar væri hvasst og hálka. Kva...það gat nú ekki verið mikið mál. Eftir klukkutíma ferðalag um Þrengslin, í iðulausri stórhríð og fljúgandi hálku, náði ég til höfuðstaðarins. Svona ferðalag fleytti mér aftur um einhverja áratugi, en munurinn var sá, að í fjórhjóladrifnum Xtrail sat ég í hlýjunni, eins og Bubbi í auglýsingunni, á meðan úti geisaði illviðrið.  Bifreiðaeignin fyrir 25-30 árum var hinsvegar með þeim hætti, að engan veginn var hægt að treysta því, að farartækið bleytti sig ekki (það kannast væntanlega ekki margir af þeim, sem yngri eru, við það fyrirbæri) við svona aðstæður, auk þess sem það var bara drif að aftan og að skafrenningurinn inni var litlu minni en sá sem úti hamaðist.

ÞAÐ ÞRIÐJA
Þegar til borgarinnar var komið og á fyrirlestrarstað, blasti við tilkynning um að tíminn félli niður vegna veikinda. Ég dáðist nú lítillega að sjálfum mér fyrir þá yfirvegun og æðruleysi sem ég sýndi við þessar aðstæður. Ég settist inn í Xtrailinn og hugsaði málið litla stund áður en ég ákvað að byrja á að fara í Hámu og fá mér kaffisopa. Síðan leiddi eitt af öðru og áður en varði var ég sestur  við borð, búinn að taka upp Dellinn og farinn að vinna að verkefni sem fyrir liggur. Allt um kring ungt fólk að efla þekkingu og færni. Áður en varði varð mér ljóst að það var enginn munur á mér og þeim - það var ekki einusinni spegill á svæðinu til að rugla mig í ríminu. Þarna vann ég af krafti, alveg eins og fyrir næstum þrem áratugum, meðal samnemenda.  Eini munurinn auðvitað sá að allir lömdu á lyklaborð, mismikla speki, í stað þess að skrifa í stílabók. 
Ástæða þess að ég sneri ekki umsvifalaust aftur austur fyrir fjall var sú, að í framhaldi af fyrirlestrinum sem átti að vera, var verkefnahópur sem ég tilheyri búinn að mæla sér mót. Fundurinn sá gekk ágætlega fyrir sig, með ríflega tvítugum skólafélögum, enda var ég var bara þannig líka, eða þannig.

Niðurstaðan er, eins ég hef svo sem alltaf vitað: þú ert í rauninni ekkert, nema vegna þess sem þú varst.

Ungur ég var
og er.
Þá var ég þar,
nú hér.

20 október, 2008

Ég er ósammála

Ég er nú ekki beint vanur því að nota þetta svæði til að vera ósammála einhverri þjóðfélagsumræðu, en ég ætla að vera það núna. Eins og stundum áður fylgdist ég með Kastljósinu í kvöld Horfa í sérglugga (Valur Gunnarsson og Guðmundur Oddur Magnússon).
Þar var meðal annars efnis fjallað nokkuð um fyrirbærið "krúttkynslóð". Sá skilningur sem þar kom fram, er að mínu áliti fjarri lagi, þó ekki sé nema vegna þess, að sú lýsing á kröftugri og djúpt þenkjandi kynslóð, sem þar kom fram, er með engu móti hægt að tengja við það heiti sem þessi kynslóð hefur fengið.

Hér er mín skilgreining:
Þeir sem ég vil flokka til krúttkynslóðarinnar er fólk sem er á aldrinum 15-25/7 ára. Þetta er fólk sem varð ekki lögráða fyrr en 18 ára og þekkir ekkert annað en botnlausan uppgang í efnahagslífinu. Þetta er sú kynslóð sem er hvað límdust við tækin sín hvort sem það eru tölvur eða farsímar og lífir að stórum hluta á yfirborði lífsins; hefur ekki þurft að takast á við erfiðleika á ævinni. Þessi kynslóð er af ofangreindum ástæðum fremur saklaus og að mestu leyti kurteis, enda kann hún vel á yfirborðslega hegðun. 
Þessi kynslóð hefur lifað lífi þar sem nánast allt hefur verið hægt; hún hefur fylgst með því hvernig foreldrarnir hafa efnast og fylgst með því hvernig áberandi landar þeirra hafa safnað brjálæðislegum auði. Aðrar fyrirmyndir þessarar kynslóðar eru  frægt fólk, hvort sem það eru leikarar, íþróttahetjur eða tónlistarmenn. 
Allt um kring allsnægtir - kvöl og dauði einhversstaðar birtist í fréttum sem þessi kynslóð horfir ekki á.
Þetta er kynslóðin sem telur að allt sé hægt (síðari viðbót til nánari útskýringar) án þess að hafa þurfi fyrir því.
Þetta er kynslóðin sem er ekki tilbúin að taka ábyrgð á sjálfri sér.
Þetta er ljúft fólk - alveg hreint ágætt fólk, sem telur að þetta komi allt af sjálfu sér.

Hvernig má líka annað vera eins fyrirmyndir og við þessi eldri höfum verið?

Krúttin eru að kalla,
komið er að því.


19 október, 2008

Gott sem kemur að utan

Einhverjir muna kannski eftir því, að upp úr miðju sumri varð það að ráði, að ráðast í skógarhögg. Það var viðjan með heimreiðinni sem varð fyrir valinu og til verksins voru fengnir skógarhöggsmenn af meginlandi Evrópu; frá Tékklandi og Póllandi, sem hér höfðu sumardvöl í atvinnuskyni. Viðjan var höggvin og stofnar og greinar lagðar meðfram heimreiðinni og hafa verið þar síðan.
Það muna menn örugglega líka að á ýmsum vígstöðvum féll skógarhöggið í fremur grýttan jarðveg, og er ég þá ekki að taka mikið upp í mig í atvikalýsingum. Þegar ég var hinsvegar búinn að úða tilteknu efni á sprotana, sem fljótlega fóru að spretta út úr stofnunum sem eftir voru, og þannig drepa bévítans ranabjöllur sem voru farnar að valda skaða, þá hófst nýtt líf viðjunnar og var hún næstum orðin falleg þegar haustið fór að banka á dyrnar. Næsta sumar má búast við að fegurðin ein ríki meðfram heimreiðinni vegna fyrrnefnds skógarhöggs.

Tilefni þessara skrifa er, að greina frá því, að greinarnar og stofnarnir eru nú horfin úr heimreiðarkantinum. Til þeirrar aðgerðar réð ég enn einn Evrópumeginlandsbúann, Pólverja, sem hefur vetursetu í Laugarási í atvinnuskyni. Það var nefnilega orðið útséð með að ég tæki til hendinni við þá framkvæmd. Þá kom það sér ekki illa, að vinnuveitandi piltsins hefur tiltölulega nýlega bætt mikilli dráttarvél við tækjaflotann, auk þess sem hann er nýbúinn að gera upp mikinn sturtuvagn sem hann átti fyrir. Þegar þetta kom allt saman, Pólverjinn (sem fúlsar ekki við aukavinnu), dráttarvélin og sturtuvagninn, voru orðnar til aðstæður sem kölluðu á brottflutning stofan og greina. 
Með því að þessi aðgerð er nú frá, hvílir einu verkefni færra á mér - og það er bara gott.

Haustverkin eru heldur góð
harla glaður því ég er,
sem betur fer.


Kreppusnilld

Það verður víst allt að heita kreppu- eitthvað þessar vikurnar þó svo á þessum bæ verðum við harla lítið vör við þetta margrædda fyrirbæri, enn sem komið er, nema að því leyti að það telst þörf á því að framkvæma ýmislegt sem lengi hefur beðið framkvæmdar, áður en verðið á því sem festa þarf kaup á, hamlar.
Þetta er svona eins og þegar mýsnar safna að sér forða fyrir veturinn, nema hér er ekki um neitt að ræða sem maður leggur sér til munns.
Það varð sem sagt úr að haldið var í kaupstað og fest kaup á svokallaðri innréttingu í eitt lítið sérhæft herbergi hússins. (það stóra bíður enn eftir því að iðnaðarmaður mæti á svæðið til að undirbyggja flísalagningu baðherbergisins sem ekki hefur verið snert við frá því flutt var í þetta hús fyrir 24 árum).
Þegar heim var komið með innréttinguna var komið að mér að sannfæra mig og aðra (menn verða að giska á hverjir það voru) um að þetta væri verk sem ég gat framkvæmt skammlaust.
Það kom auðvitað í ljós, að það sem keypt hafði verið, féll ekki fullkomlega að því rými (innlit/útlit) sem var fyrir hendi, bæði að því er varðar hæð fótanna undir því og einnig dýpt, sem reyndist vera heldur mikil, með þeim afleiðingum að minna pláss er til að athafna sig í rýminu eftir en áður.
Ég gæti farið yfir þann verkferil sem ég hef fylgt þessa helgina, auk þess að skjótast í hnit með tilheyrandi mjamaverkjum, en ég tel að þá myndu all miklu færri lesendur hafa í sér nennu til að lesa það í gegn. Í sem stystu mál tókst mér með brilljant stíliseringu á rýmislausnum og með geðveikri áherslu á díteilana (innlit/útlit) að skapa afar glæsilega umgjörð um grunnþarfir.
Ég er ekki að íkja þegar ég lýsi því yfir, að í þessu, eins og reyndar flestu því sem ég á endanum tek mér fyrir hendur, er ég nokkuð mikill snillingur. (Þetta segi ég nú bara af lítillæti mínu.)

Verkinu er reyndar ekki alveg lokið, en ég veit að framhald þess verður í fullu samræmi við það sem á undan er gengið.

Þar skápum ég skellti og vaski
og skeytti hreint engu um það
að bót verður nokkur af braski
því brátt get ég farið í bað.  (veit af ofstuðlun)

15 október, 2008

Hvaða kór?

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum sem hafa litið við hérna, að fyrirbærið Skálholtskórinn, í þeirri mynd sem var, er ekki lengur til. Það þýðir auðvitað ekki að fólkið, sem hefur komið að starfi þessa kórs, sé ekki lengur til. Þvert á móti, þá eru þar flestir sprellifandi (flestir, vegna þess að sumir eru ekki sprell heldur bara lifandi).
Nú er framundan að ræða - og þá væntanlega komast að niðurstöðum um hvort þetta fólk vill halda áfram með einhverskonar kór. Mér finnst það nokkuð æskilegt, að mörgu leyti, að kjarninn úr gamla Skálholtskórnum haldi áfram með lítinn og svalan kór, enda einhver peningur til í sjóði, sem ekki er ástæða til að láta brenna upp. Gamli kórinn safnaði þessu fé og ekki nema eðlilegt að þeir sem stóðu að þeirri söfnun umfram aðra, geti notið þess afraksturs með einhverjum hætti, t.d. í samræmi við þá tillögu sem fyrir liggur um að heimsækja höfuðborg í Evrópu á komandi vori.

Það er eðli kórastarfs, eins og svo margs annars sem fólk gerir í sjálfboðavinnu, að þegar eitthvað skemmtilegt er framundan (sem ber þá að líta á laun fyrir alla vinnuna) þá fjölgar, en þegar það er búið þá fækkar aftur. Það er sjálfsagt fátt við þessu að gera, en ég vil allavega láta í ljós skoðun mína á því.

En fyrst er nú að komast að niðurstöðu um hvað verður.....

Látum það vera þó ég láti það flakka

13 október, 2008

Einhverskonar logn

Það var nokkuð merkilegt að sækja höfuðborgina heim á þessum degi. Það varð strax ljóst á leið yfir Hellisheiði, að þar værum við ekki í lífshættu eins og oftast nær. Bílar á ferð nánast teljandi á fingrum annarrar handar.
Götur höfuðborgarinnar tóku okkur fagnandi af gæsku sinni og buðu upp á greiðar og umferðarlitlar eða jafnvel umferðarlausar leiðir hvert sem hugurinn vildi bera okkur.
Risastórmarkaðirnir opnuðust okkur greiðlega - afgreiðslufólk á hverjum fingri við að hækka verðið. "Sjitt"hann varð á undan mér, gaurinn með hækkunarmiðann fyrir sturtuhasuinn fína sem ég ætlaði að fara að kaupa!"
Um allar kringlurnar mátti sjá brosandi fólk að gera góð kaup; fólk sem talaði ekkert nema útlensku. Þar var nú varla annað fólk að sjá - nema okkur, sveitavarginn, sem átti engin erlend myntkörfulán að ráði, og engin hlutabréf að ráði - ekkert nema traustar inneignir í veröld á hverfanda hveli.

Logn - á undan.....
Logn - á eftir........
Látum það liggja milli hluta,
við vitum ekkert hvað kemur á undan
og hvað á eftir.

12 október, 2008

Lítil svör við 2 stórum spurningum

Ekki er það svo að ég þykist vita svör við vandamálum heimsins þó ég vilji hafa skoðun á þeim. Meðal athugasemda við síðustu færslu var varpað fram 2 spurningum:

..........unga fólkið sem á erfitt með að taka ábyrgð á sjálfu sér. Það er alvarleg þróun sem gæti orðið andsk.. erfiðara að snúa við. Hvað telur þú vera til ráða?
Foreldrar, margir hverjir, vita hreint ekki hvað felst í því að eignast barn og ala það upp (nema þá helst líffræðilega). Það er ekki þeim kenna. Barnauppeldi er ekki meðfætt fyrirbæri. Gegum árin og aldirnar lærði fólk þetta af foreldrum sínum, öfum og ömmum. Uppeldi nútímaunglings er fjarri því að vera einfalt mál, en kjarninn í því hlýtur alltaf að vera, að mínu áliti, að búa til tiltekinn ramma utan um fjölskylduna þar sem samræmi er í því sem gert er og sagt. Fyrirmyndirnar inni í rammanum verða að vera foreldrarnir/foreldrið. Ef þeir valda ekki því hlutverki þá leitar barnið annað að fyrirmyndum. Það er of seint að ætla að fara að vera fyrirmynd þegar barn kemst á unglingsár.
Mér finnst að núna sé tækifæri til að ná til unglinganna með því að hjálpa þeim að gera sér ljóst, að lífið er kannski ekki eins og þeir héldu að það væri, heldur miklu dýpra og merkilegra. Sannfæra þau um, að yfirborðið, sem hægt er að kaupa með peningum sé kannski ekki endilega það sem gerir mann ánægðan, heldur allt önnur gildi; gildi sem snúast um hvað það þýðir að vera hluti af fjölskyldu, eða einhverjum öðrum hópi, eða bara þjóð.
Ég reikna með því að hér þurfi skólar þurfi að taka til hendinni, því foreldrar landsins munu eiga nóg með að vinda ofan af þeim vanda sem við blasir, bæði vegna eigin óráðsíu og annarra. 

 Heldurðu að það dygði að færa sjálfræðisaldurinn aftur niður í 16 ár?
Þessi blessuð hækkun lögræðis/sjálfræðisaldurs var mistök. Þarna var um að ræða, fyrst og fremst, að búa til aðferð til að auðveldara væri að taka á, eða aðstoða unglinga sem lentu af einhverjum ástæðum í vandamálum af einhverju tagi. Það þótti of erfitt að svipta unglinga sjálfræði þegar það þótti eiga við. Yfirgnæfandi meirihluti unglinga nær að komast í gegnum þessi snúnu ár frá 16-18 ára án þess að nokkuð bjáti á.
Ég er ekki enn búinn að sætta mig við það að standa frammi fyrir 17 ára nagla, sem má keyra bíl og fer út að skemmta sér, jafnvel dettur í það vikulega (með samþykki foreldranna, væntanlega) og kalla hann barn. 

Ef traust ríkir milli foreldra og barna er engin ástæða til að óttast.

Ég vil að sjálfræðisaldur verði lækkaður aftur í 16 ár, en ég held að það muni enginn taka verulega mikið undir það úr því sem komið er.
Það væri hinsvegar hægt að gera það einfaldara, í þessi 2 ár, að taka sjálfræðið af unglingum, sem eiga við vanda að etja. Mér finnst það sárgrætilegt að upplifa krakka, sem ekkert bjátar á hjá, varpa af sér ábyrgð á eigin gjörðum - og jafnframt þurfa að sitja undir því að vera kallaðir börn.

Þessi umfjöllun er tiltölulega flókin og margt sem þarf að taka með í reikninginn - ég nenni ekki að standa í frekari, eða flóknari útfærslu nema einhver greiði mér vel fyrir. :)

Það bjátar á hjá börnunum
þau bílinn missa.
Ekk' er ég hissa.


09 október, 2008

Snúum nú bökum saman

Hægjum ferðina lítillega. 
Hvað liggur okkur svo sem  Frestum til dæmis markaðsdrifinni breytingu á lögum um framhaldsskóla og endurhugsum forsendurnar. Hver er tilgangurinn með því að flækja enn veröld blessaðra barnanna með því að ætla hverjum skóla fyrir sig að finna út úr því hvernig þeir setja saman námskrá? Ég er kannski orðinn svo hundgamall að hafa ekki vit á því. En ég tel mig hafa það samt!

Breytum útrásinni í innrás. Horfum inn á við. 
a. Tökum til í fjölmiðlaflórunni. 
Hendum þaðan út ómálga þáttastjórnendum og viðmælendum ásamt markaðsdrifnu auglýsingaskrumi (dæmi: Innlit/útlit). 
Hendum einnig út amerískum raunveruleikaþáttum sem endurspegla engan raunveruleika. Við skulum ekki síður henda út íslenskum afskræmingum á þessu sjónvarpsefni (dæmi: Singing Bee) Mér finnst þetta vera móðgun við heilbrigða skynsemi.

b. Kaupum íslenskar vörur (við fáum varla nokkrar aðrar á næstunni - kannski bara ágætt). 
Vissulega er það svo, að það hefur verið hart sótt að íslenskri framleiðslu undanfarin ár af stjórnlausum gróðapungum. Við skulum vona að þeir sem eftir standa séu ekki komnir í svo slæma stöðu að þeir ráði ekki við verkefnið. Vandinn er auðvitað sá, að stór hluti þessara atvinnugreina treystir á innflutt vinnuafl, sem mun sem óðast vera að hverfa heim á leið.

c. Endurheimtum íslenska menningu. 
Það er engin þjóð þjóð nema hún eigi sér sameiginlega sögu. Amerísk lágmenning er ekki það sem við þurfum sem þjóð. Mörgum okkar er orðið "fokking" sama um eitthvert hallærislegt rugl sem er ekki "in". Ég lít svo á, að á undanförnum árum hafi átt sér stað mikill skaði á sambandinu milli yngri kynslóða og þeirra eldri. Ég er 55 ára að verða, og ég er að vakna upp við það að nemendur mínir eiga æ erfiðara með að skilja þegar ég tala við þá. Ég hafna því að ég þurfi að sníða málfar mitt að æpandi orðafátækt innlits/útlits kynslóðarinnar. Er það svo, að fullorðið fólk sé æ meir að missa börnin sín í kjaftinn á einhverri andlausri og innihaldslausri menningarleysu?

Öllum upp ábyrg börn
Það er talað um ungu kynslóðina sem "krútt" kynslóðina. Þetta er yndislegt fólk, kurteist og saklaust. Það er bara ekki tilbúið til að taka ábyrgð á sjálfu sér. Það tel ég vera vegna þess, að sjálfræðisaldur var hækkaður í 18 ár. Foreldrarnir (sem tilheyra leikskólakynslóðinni) eru fullir af sektarkennd vegna þess að vinnubrjálæðið tekur allan þeirra tíma. Þeir telja að þeir þurfi stöðugt að vera á verðbergi gagnvart þeim stofnunum sem þó reyna að gera sitt til að ala börnin upp og setja þeim ramma. Börnin finna þetta og líta á sjálf sig sem ábrgðarlausa einstaklinga fram eftir öllum aldri.

Þetta er nægur blástur í bili. ég vona sannarlega að það sem nú er að gerast efli þessa þjóð. Undanfarin ár hafa verið að veikja hana, ekki fjárhagslega kannski (fyrr en núna), heldur í því sem fylgir því að vera þjóð.

Snúum bökum saman - það er líklega best.

Þetta var svo alvarleg pæling að ég kýs að setja ekki mína venjubundnu lokaspeki aftan við.

06 október, 2008

Næst er það bara Rotterdam

Ég hef fengið ákúrur fyrir að geta ekki um það í tengslum við helgarafrekin, að á meðan fD ásamt 4 öðrum á svipuðu reki, voru að mála miðbæ Reykjavíkur rauðan, með þeim afleiðingum, m.a., að þeim var hent út af veitingahúsi (jæja - allavega einni þeirra), þá skelltum við líffræðingurinn okkur á málningarboltakeppni áður en haldið var í kvikmyndahús til að njóta nýjustu afurðar íslenskrar kvikmyndaframleiðslu, Reykjavík-Rotterdam
Hér er um að ræða glettilega vel gerða mynd um efni sem vel hæfir þeim tímum sem við lifum nú. Þegar fólk stendur frammi fyrir aðstæðum af þessu tagi er allt eins líklegt að það freisti þess að bjarga sér og sínum með því að skreppa til Rotterdam. 

Verum nú samt bjartsýn. 
Okkur er lofað uppgjöri 
- en það er nú svo sem búið að lofa okkur svo miklu svo lengi................

Er' í Rotterdam ráðin sem að duga?
Er Reykjavík nú fyrir bí?
Mun kapítal kannski þig buga?
Ég kann ekki' að svara því.  

05 október, 2008

Ég - Pollýanna?

Þessa dagana erum við, þessir venjulegu landsmenn, hvattir til samstöðu um að bjarga efnahagslífinu. Við erum hvött til bjartsýni. Við erum hvött til að sýna biðlund. 

Á sama tíma ganga sögurnar, ekki bara í gegnum fjölmiðla, heldur einnig manna á milli um að næsti banki sé að fara yfir um, að framundan sé matar- og olíuskortur, að það sé engin leið út úr ógöngunum nema reka Seðlabankastjórnina og ef ekki hana þá þurfi að losna við ríkisstjórnina.

Þessi þjóð er látin hanga í óvissu, en ekki meiri óvissu en svo að allt bendir til að við þurfum að taka á okkur skellinn af óendanlegri lántöku útrásarhetjanna. Er það svo, að í stað þess að þær selji nú eignirnar sínar í útlöndum (fá þar með að eiga þær áfram) þá eigi lífeyrissjóðir okkar að koma til að skera þær úr snörunni?

Ég á, af einhverjum ástæðum, erfitt með að sýna samstöðu með neinum nema þeim sem eru í sömu sporum og ég. Hetjurnar verða svo bara að sýna hver annarri samstöðu.  Ég er svo vondur maður núna, að ég tel að þeir sem bera ábyrgðina, axli nú samfélagslega ábyrgð og selji eignirnar sínar í útlöndum og komi með peninginn heim. 

Hagfræðingur nefndi það í Silfri Egils í dag, að niðurstaða Norðmanna fyrir einhverjum árum, við svipaðar aðstæður, hafi verið að sækja menn til saka og dæma þá í fangelsi. Það reyndist eina leiðin til að sætta þjóðina.

Það verður gaman að sjá hve sáttfús íslenska þjóðin reynist. Ég er ekki sérlega sáttfús þessa dagana.

Jæja, svo er nú það.


Haustlitir, gellur og málningarkúlur



Ég gæti hér, í löngu máli, fjallað um atburði þeirrar helgar sem nú er að líða hjá. 

Í umfjöllun um haustlitaferð og kjötsúpudásemdir starfsmannafélags ML s.l. föstudag, gæti ég sagt frá því sem gerðist bak við hól. Það ætla ég ekki að gera

Í umfjöllun um gullaldargelluferðina til höfuðborgarinnar í gær gæti ég fjallað um þátt 5 miðaldra kvenna í óeirðum í miðbænum í gærkvöld. Það ætla ég ekki að gera.

Í umfjöllun um þátttöku mína í málningarkúluslag í höfuðborginni í gær gæti ég fjallað um það þegar maður drap mann, en kúlan sprakk ekki og maðurinn drapst eða drapst ekki. Það ætla ég ekki að gera.

Mig hálf klæjar í fingurna að skrá þessar frásagnir með mínum hætti, en  í ásláttarnámskeiðinu mínu bíður verkefni, sem ég er að verða alltof seinn með. Þar fyrir utan sýður á mér vegna þess fáránleika sem yfir þjóðina gengur þessa dagana. Ég vísa á umfjöllun mína um blessaðan kapítalismann fyrir nokkru.

Ég vona að rætist úr þessu öllu, bráðlega.

Með bjartsýni berjumst við áfram
og bráðum skín sólin á ný.

04 október, 2008

Hvenær gýs?


Frægasta eldfjall landsins að baki einum merkasta sögustaðnum. Hvort gýs fyrr?

Öfl munu berjast og úr djúpinu rísa,
eða eflist vor dáð?

01 október, 2008

90/II



Benedikt hafði fengið það hlutverk að tryggja sómasamlega afmælismáltíð. Því var haldið að Geysi í framhaldi af Laugarásferðinni. Þarna var nú bara um börn og tengdabörn að ræða ásamt gamla unglingnum, alls 11 manns. Það varð niðurstaða, að gera þetta ekki umfangsmeira þessu sinni. Ræðum það nánar á aldarafmælinu.
Eftir kampavínsbragð og misvelheppnaðan afmælissöng (uss, uss) og æfingu í að mæla á erlendum tungum, hósfst þriggja rétta glæsimáltíð, þó ekki fyrr en ég og Benedikt höfðum komist að þeirri niðurstöðu að hann skyldi vera veislustjóri, sem búast mátti við að væri hreint ekki einfalt mál.
Þá kom það auðvitað í ljós að ekki var um vana menn í veisluhöldum að ræða, með því að okkur láðist að panta viðeigandi vínföng með veislunni. Það fór þó allt vel að lokum.
Undir borðum voru auðvitað fluttar merkar, tímamótaræður afmælisbarninu til heiðurs, en það svaraði síðan fyrir sig, fullum hálsi.
Allt fór þetta hið besta fram, enda mikið sómafólk á ferð.


Það var bæði jákvætt og neikvætt að við skyldum hafa hótelið algerlega fyrir okkur þetta kvöld. Jákvætt vegna þess að við gátum haft eins hátt og við vildum og haldið eins margar og merkar ræður og við vildum, án þess að trufla aðra gesti. Þar að auki var ávallt þjónn til reiðu þegar einhvers var óskað.
Neikvætt vegna þess að við höfðum það lítið eitt á tilfinningunni, með réttu eða röngu, að þjónarnir tveir og kokkurinn biðu eftir því að við lykjum okkur af svo þeir kæmust heim í háttinn. Réttirnir þrír voru bornir í okkur, ótt og títt, en ávallt að mikilli kurteisi, en á erlendum tungum.

Ágætt kvöld í alla staði.

Að Geysi var gengið að borði


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...