19 febrúar, 2011

Þrír vitrir apar

Í gær var ég í aðstæðum sem á einhvern undarlegan hátt ollu því að mér varð hugsað til hinna þriggja vitru apa og einnig til spakmælisins: Það sem þú þekkir ekki getur ekki skaðað þig.  Ég held að svona sé þetta í mörgu með okkur mennina: sumt viljum við ekki vita: viljum ekki heyra af því, viljum ekki sjá það og viljum ekki tala um það, því þar með erum við búnir að opna á hluti sem betur hefðu verið látnir eiga sig.

Fyrir 15-20 árum gegndi ég starfi námsráðgjafa við stofnunina sem ég eytt unganum úr ævinni í. Ég er þannig innréttaður, að ef ég tek eitthvað að mér vil ég helst vita hvað ég er að gera. Því var það, að þegar mér var boðið á námskeið fyrir námsráðgjafa, sem fjalla skyldi um sjálfsvíg ungmenna, sló ég til. Það væri nú ekki verra fyrir mig að vera vel upplýstur um þessi mál í þeirri stöðu sem ég var. Samt var eitthvað sem sagði mér að um þetta vildi ég helst ekkert vita; það væri of alvarlegt til að ég vildi þurfa eitthvað að gefa mig út fyrir að þekkja til þess. 
Námskeiðið var afskaplega áhugavert og fræðandi. Þarna fjölluðu færir sálfræðingar um þetta fyrirbæri, sögðu reynslusögur og kenndu þátttakendum hver væru helstu merkin sem gæfu til kynna hvort einstaklingur væri í sjálfsvígshættu og fóru yfir hvernig unnt væri að bregðast við í slíkum tilvikum. 
Þátttakan í þessu námskeiði gerði líf mitt ekkert einfaldara, þvert á móti. Mánuðum saman á eftir var ég afar upptekinn af að leita að merkjum hjá unglingum sem komu í viðtal hjá mér vegna einhverra persónulegra vandamála. Oftar en ekki fannst mér að um gæti verið að ræða einstakling í sjálfsvígshættu. Þetta gekk meira að segja svo langt, í undantekningartilvikum, að ég var farinn að velta fyrir mér hvort skólinn þyrfti ekki að koma sér upp vinnuferli til að takast á við áföll af þessu tagi, en slíku var ekki til að dreifa þá. 
Það verð ég að viðurkenna, að oft fannst mér að ég hefði ekki átt að fara á þetta námskeið - það hefði verið betra að þekkja bara hreint ekki of mikið til þessara mála (What you don't know can't hurt you).

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar blásið var til námskeiðs í skyndihjálp fyrir starfsmenn þessarar sömu stofnunar. Vissulega var þarna um að ræða frekar hraðsoðið námskeið þar sem farið var í öll helstu áföll sem við getum lent í að takast á við einhverntíma. Nafnið á þessu fyrirbæri er afar lýsandi fyrir það sem um er að ræða: eitthvað alvarlegt kemur fyrir einhvern í umhverfi okkar og þá getur það oft skipt sköpum að viðbrögð séu rétt og fumlaus. 
Þarna var á ferð fær sérfræðingur í skyndihjálp sem fór á líflegan og skemmtilegan hátt í gegnum afskaplega alvarlegt efni. Þarna þurfti enginn á skyndihjálp að halda (þrjú persónulíki á mismunandi aldursskeiðum voru notuð til sýnikennslu), en það var ekki laust við að ég velti fyrir mér hvernig ég myndi bregðast við ef ég stæði frammi fyrir aðstæðum af því tagi sem þarna var lýst. Ég held nú reyndar að adrenalínflæði yrði til þess að ég velti stöðunni ekki fyrir mér með sama hætti og við þessar námskeiðaðstæður. Ég myndi væntanlega reyna að vera gerandi í aðstæðunum. Hinsvegar held ég að ég þyrfti talsvert ýtarlegra og nákvæmara námskeið til að nálgast stórslasaðan einstakling af einhverju öryggi.

Eftir námskeiðið ók ég heim á leið og mætti bílum á leið minni. Undarlegt er frá því að segja, en ég velti fyrir hvernig ég myndi bregðast við ef einn þessara bíla æki út af veginum rétt áður en ég mætti honum, og ylti einhverjar veltur fyrir augum mér. 

Ég er viss um að þetta bráir af mér innan skamms, vona auðvitað að aldrei þurfi ég að nota hraðsoðna skyndihjálparþekkingu mína.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...