19 febrúar, 2011

Varnarleysi

Ég er í þeirri aðstöðu, að ef ég hefði svo kosið, hefði mér verið í lófa lagið að skella inn, án minnstu fyrirhafnar 40-50 nöfnum raunverulegra einstaklinga sem þá hefðu farið á lista einstaklinga sem nú er búið að afhenda forseta vegna máls sem ég nenni ekki að nefna lengur. Ég hef aðgang að fjöldamörgum tölvum sem ég hefði getað notað til að skrá þessi nöfn.
Auðvitað gerði ég þetta ekki, enda vandari að virðingu minni en svo og auðvitað má segja það sama um flesta: rétt skal vera rétt. Það eru margir í sömu aðstöðu og ég til að beita bellibrögðum. Ef við gefum okkur að 100 manns á þessu landi hefðu getað, með ofangreindum hætti skráð upp undir 50 einstaklinga þarna inn, hver, þá væru þar með komnar 5000 undirskriftir.

Nú ætla ég ekki að þykjast vita að þetta hafi verið gert, en mér finnst það næg ástæða til að draga mjög í efa gildi þessa undirskriftalista, að þetta skuli vera möguleiki. Það sem mér finnst allra verst er, að vita ekki hvort mitt nafn liggur nú á borði forsetans, hrópandi á hann kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu í máli, þar sem stærstur hluti fólks (já, ég fullyrði það) hefur harla litla hugmynd um, um hvað málið snýst, eða hverjir valkostirnir eru.

Það hlálega eða grátlega í þessu er, svona gagnvart sjálfum mér er, að til þess að komst að því hvort nafn mitt er þarna, þarf ég nú að skanna inn persónuskilríki mín og senda út í bæ. Meðan listinn var enn í gangi gat ég komist að því hvort mitt nafn hafði verið skráð með því að skrá mig á listann. 

Ég á erfitt með að botna í þessum fáránleika, sem ég er nánast varnarlaus gagnvart. Fyrst ekki er hægt að tryggja það þannig, að enginn vafi geti verið á misnotkun, þá verður stofnunin sem hafnar því að myndir séu birtar af afbrotmönnum við iðju sína, að grípa þarna í taumana. 

2 ummæli:

Gudny Rut sagði...

Þetta er einmitt það sem ég er búin að vera að pirrast út í! Kannski ekki heldur til að auðvelda ákvörðun forsetans, að þurfa að taka tillit til þess að örugglega fullt af fólki þarna inni hefur ekki skrifað nafnið sitt inn. Þeir hringdu svo bara í 100 manns til að kanna hversu margir könnuðust við að hafa skráð sig þarna inn þar sem aðeins 93% þeirra sem svöruðu könnuðust við að hafa skráð sig þarna inn..hvað með öll hin þúsundin sem voru á þessum lista.

Nafnlaus sagði...

Til margs konar manna þekki
margir þeir trú' ég blekki.
en kemst ég að því
sem kvelur mig sí:
kaus ég? - nú eður þá ekki?

Hirðkveðill er löngu hættur að vita hvað snýr upp og niður...

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...