05 febrúar, 2011

Trúarleg afskipti (3)

Skálholtskórinn í júlí 2007
Það yrði ansi mikil langloka ef ég færi út í að segja þá 16 ára sögu (eða svo), sem hófst þegar Hilmar Örn Agnarsson gerðist stjórnandi Skálholtskórsins. Það á reyndar að nægja að segja það, svona þegar litið er til baka, að þessi kórtími minn var sérlega ánægjulegur fyrir margra hluta sakir. Maður fann það fljótt, að þarna var kominn maður með metnað. Hann virkaði á mann sem óskipulagður á ýmsum sviðum, en þegar um var að ræða tónlistina, var hann ávallt með hlutina á hreinu, vissi hvað hann vildi og tókst að fá kórinn með sér í ótrúlegustu flugferðir í þeim efnum. 
Smám saman byggðist upp kjarni af tiltölulega ungu fólki, sem margt var ómótað í kórstarfi - feiknalega góður efniviður fyrir kórstjóra til að setja sitt mark á, sem hann sannarlega gerði.

Auðvitað verð ég að halda þvi til haga hér, sem annarsstaðar áður, að röddin eina, í þessum kór var auðvitað ekkert slor, til í allt, umbar allt. Mér þótti heiður að því að fá að vera hluti af henni. Ekki var hún fjölmenn á öllum tímum, en öflug var hún, svo mjög að stjórnandinn þurfti ítrekað að halda aftur af henni svo aðrar raddir heyrðust yfirleitt. Og fögur var hún, um það er ekki hægt að deila, bæði að því er varðaði söngfærni, raddfegurð, stundvísi, jákvæðni, lítillæti, andlegt atgervi og líkamlegt. Allt var rétt. Ég  er viss um að aðrir stjórnendur hafa litið stjórnanda Skálholtskórsins öfundaraugum vegna silkimjúkra tenóranna.

Aðrar raddir voru svo sem einnig ágætar. 

Sópran var þarna með þeim hætti, að engu var líkara en að þar væru á ferð stúlkur um tvítugt. Sannkallaðar englaraddir - enginn var þarna, að jafnaði sópraninn sem skar sig út úr öðrum sökum hás aldurs, eða vegna óperutilburða - mjúk og létt var röddin þó vissulega hefði hún mátt láta meira til sín taka á stundum í öðru en hléspjalli. Þetta lagðist þó eftir því sem árin liðu.

Altinn var, þegar best lét, afburða þéttur og fær í sínum þætti. Auðvitað átti hann misauðveldlega heimangengt á æfingar, en þegar allur altinn var á staðnum munaði sannarlega um hann, bæði þegar hann fékk í einstaka tilvikum  línur sem skáru sig einhvern veginn úr og þegar stjórnandanum tókst að fá aðrar raddir til að leggja við hlustir og hugsa um altinn. Það fjölgaði í altinum eftir því sem á leið.

Bassar voru reyndar ekki nægilega margir að öllu jöfnu, til að viðvera þeirra virtist breyta einhverju. Einhvernveginn reyndist kjarninn sem þeir mynduðu á þessum árum ekki ná að verða jafn öflugur botn og hann hefði getað verið. Þeir sem þarna voru á hverjum tíma gerðu þó sannarlega sitt til að mála    flutninginn sínum dökku tónum. Oft voru kallaðir til aukabassar þegar mikið stóð til, sem betur hefðu verið stöðugri. Það sem stendur upp úr í minningunni um bassana er tvennt: opnunartími kauphallarinnar í Tókýó, og neftóbak. Bössum fjölgaði aldrei til langframa.

Þetta var efniviðurinn sem stjórnandi Skálholtskórsins hafði úr að moða: mikið efni til að móta úr glæsilegt menningarlegt fyrirbæri. Það gerði hann.

Það eru margar hliðar sem hægt er að fjalla um í sambandi við þann eina og hálfa áratug sem ég kom þarna að starfi Skálholtskórsins. Hérna hef ég litið á hraðferð efniviðinn. Ég get einnig skoðað áhrif þess á samfélagið að Hilmar Örn og fjölskylda hans fluttu í sveitina, aðbúnað kórsins á Skálholtsstað, veraldlegan hluta starfseminnar og kirkjulegan einnig, ferðirnar sem alltaf voru hluti þeirra markmiða sem sett voru, að ógleymdum starfslokum kórstjórans. Allir þessir þætti verðskulda mikla umfjöllun hver og einn. Ég mun á einhverjum punkti sinna þeirri umfjöllun frá mínu sjónarhorni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...