12 mars, 2011

Sköpunarskrall

Ekki ætla ég mér að fara að kvarta yfir sólskininu sem lætur það eftir sér að lauga storð skjannabirtu á frostköldum laugardegi á góu. Meðan hörmungar ganga yfir réttláta jafnt sem rangláta einhversstaðar í fjarskanum, heldur maður áfram að líða í gegnum nútíðina eitthvert inn í framtíðina, ekki bölvandi neinu nema flestu því sem manni er í nöp við. Það að vera í nöp við eitthvað gerir manni nú ekkert gott, svona á heildina litið. Ég fæ til dæmis ekki mikla útrás fyrir nöp mína við það að lýsa hneykslan minni á illa kveðinni vísu - geri það nú samt - engum til framdráttar eða gleði.
Ég get tekið mig til, svona til tilbreytingar, og leitt hugann frekar að því, sem hefur birtist manni í dagsins önn með von um að veröldin er nú ekki öll að fara til fjandans.

Ég hef látið mig hafa það að tjá mig um málefni sem tengjast börnum og unglingum, ekki síst þar sem vinnan mín tengist fólki sem er að baksa við að verða fullorðið. Ég hef haldið því fram að við séum ekki að skapa þessu fólki besta mögulegt uppeldisumhverfi, og fer svo sem ekkert ofan af því. Þrátt fyrir uppeldislegt umhverfi er þarna á ferð hópur sem á það til að koma manni talsvert á óvart, og dæmi um slíkt átti sér einmitt stað í gær.

Þannig er, að á mínum vinnustað er það fastur liður í starfi vetrarins, að starfsmenn allir taka sig til og gera sér dagamun með því að varpa af sér hversdeginum með annarskonar starfi. Eitt af því sem þar gerist er liðakeppni, þar sem þeim sem yngri eru keppa sín á milli í ýmsum greinum. Þeir eldri setjast í dómarasæti og stig eru reiknuð þannig að sigurvegari kemur í ljós. Sama fyrirkomulag hefur verið á þessum keppnum í allmörg ár og ákveðin þreyta farin að gera vart við sig. 
Það kom fram sú hugmynd (meðal hinna eldri) að gera nú tilraun til breytingar á þessari keppni. Í stað þess að þátttakendur hlypu tímamældir um víðan völl og leystu þrautir var ákveðið að þessu sinni skyldi áherslan vera á skapandi keppni; nú skyldu liðin keppa að stærstum hluta í skapandi greinum.

Til að ekki veldust einhverjar, mögulegar klíkur í lið, tóku þeir eldri sig til og skikkuðu unglingana holt og bolt í lið með einhverjum félögum sínum. Liðunum var síðan ætlað að velja sér foringja, sem síðan sæi til þess að valdir yrðu fulltrúar til að leysa þær þrautir sem þeir eldri höfðu útbúið af kostgæfni. Til þess að leysa þrautirnar höfðu liðin síðan að hámarki einn og hálfan klukkutíma.  Þrautirnar sem um var að ræða voru:
Leiklist (skrifa og flytja leikverk, þar sem uppfylla varð tiltekin skilyrði)
Tónlist (semja lag og texta um tiltekið efni og flytja)
Skapandi skrif (skrifa texta um tiltekið efni)
Myndlist (teikna og mála myndir út frá tilteknum forsendum)
Síðan voru einnig þrautir fyrir þá sem  það hentaði betur:
Útivist (leysa verkefni með GPS tæki)
Raungreinar (ýmis verkefni leyst)
Hreysti (keppni í þrautabraut)

Það varð mitt hlutskipti að gerast dómari í tónlistarkeppninni. Ekki átti ég nú von á stórkostlegum afrekum á því sviði á svo stuttum tíma sem var til umráða. Þarna sátum við tvö og hlustuðum á sjö frumsamin lög og texta. 
Ég væri ekki að skrifa þetta nema fyrir það, að ég reyndist verða hálf gapandi yfir því sem út úr þessu kom. Sumt alveg einstaklega gott, bæði lag, texti og flutningur - auk sjálfsagðrar kurteisi, að sjálfsögðu, en einn þeirra þátta sem metinn var, var framkoma við dómara.

Tónlistarflutningurinn og leikverkin voru öll tekin upp á EOS550D í HD og verða flutt einhversstaðar þegar ég er búinn að læra að klippa myndupptökur af þessu tagi - nú er komið tilefni til.

Þetta var ekki leiðinleg keppni, reyndar bara harla skemmtileg, ekki síst fyrir það, að þarna voru nánast allir þátttakendur virkir í keppnisgreinum, bæði hlaupagikkirnir og þeir sem ekki hafa fengið að blómstra í fyrri keppnum af þessu tagi.


3 ummæli:

  1. nú hefði verið gott að taka upp hljóð á sér græju þar sem hljóðið í Canon DSLR vélunum er ekki það besta sem fyrir finnst í "bransanum" í dag.
    Nú er það bara að setja upp Adobe Premiere Pro CS5 í einhverja öfluga tölvu og svo að byrja að klippa ;)

    SvaraEyða
  2. ...eða skella þessu á einhvern sem hefur fagþekkinguna :)

    SvaraEyða
  3. Nemendur njóta í strimla
    að vera ekki á bak við rimla
    það heppnaðist vel
    heldur betur,að ég tel
    að brjóta upp skóladaginn.


    Hugnæm er vísan sú.
    Undirdánugast,
    Hirðkveðill

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...