15 maí, 2011

Af kjaftshöggum, fáránleika og fasistabeljum

Ég tek stundum afgerandi afstöðu til málefna, manna, stjórnmálaflokka og annarra hópa. Þegar það kemur fyrir þá freista ég þess, allavega þar sem einhver getur vísað til þess síðar, að það sé þannig úr garði gert, að ég hafi undankomuleið frá einhverjum sleggjudómum sem ég kann að hafa sett fram. Þetta geri ég vegna þess að ég tel mig ekki óskeikulan.


Ég er tilbúinn til þess, komi í ljós að skoðanir mínar stangast á við það sem ég tel rétt þegar betur er að gáð, að skipta um skoðun.
Þetta kann ýmsum þeim sem mig þekkja að þykja undarleg yfirlýsing, en þannig er þetta nú bara.
Ég er t.d. ekki í hópi þeirra sem ákveða að kvikmynd hljóti að vera leiðinleg, bara vegna þess að hún er framleidd á Spáni, eða að kvikmynd frá Bandaríkjunum hljóti að vera góð. Ég gef þessum kvikmyndum séns; geng með opnum hug inn í þá veröld sem mér er boðin. Þegar þangað er komið er ég fyrst fær um að taka afstöðu á einhverjum röklegum grundvelli, njóta þess sem þarna er að finna, eða slökkva á sjónvarpinu og fara að gera eitthvað annað.

Það getur vel verið að einhverjum finnist, í ljósi þess sem stendur hér fyrir ofan, að mér sé eins farið og faríseanum, sem þakkaði Guði fyrir að vera ekki eins og aðrir menn. Það er bara í fínu lagi.

--------------------------

Þessi árin er þessi sundraða þjóð að bjástra við að finna leiðir út úr óskaplegum ógöngum. Það virðist ekki ganga neitt sérstaklega vel, því á þeirri vegferð er hver höndin upp á móti annarri, og það ber ekki mikið á málefnalegri umræðu, en því meira á upphrópunum og sleggjudómum.  Í þessum fréttatíma kemur fram, að það sé að birta til, og aðgerðir kynntar til að rétta samfélagið af og manni finnst maður eygja von um betri tíma. Í næsta fréttatíma kom síðan einhverjir andstæðingar sem tala um fáránleika, rothögg, kjaftshögg, endemis vitleysu, þetta verði aldrei, og svo framvegis. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig frá því tiltekin stjórnmálaöfl og hagsmunaaðilar tóku landann með sniðglímu á lofti.

Ég á mitt ekki undir því að þurfa að ganga í augun á kjósendum og þessvegna leyfi ég mér að fara fremur lítilsvirðandi orðum um alltof stóran hluta þess fólks sem byggir þetta land. Við vöndumst á mikla sjálfshyggju á síðustu 20 árum fyrir það sem gerðist. Frelsi einstaklingsins til athafna og orða var sett ofar heildarhyggju. Þetta minnti mig dálítið á ungmennafélögin, sem voru stofnuð og rekin af fólki sem vildi gera eitthvað fyrir samfélagið, en voru ekki að hugsa fyrst og fremst um eigin hag. Á þessu ofangreinda tímabil varð stöðugt erfiðara að virkja fólk til að leggja sitt af mörkum nema til kæmi einhverskonar ytri umbun. Það sama má segja um skólanema sem vilja fá einingar fyrir að taka sér eitthvað fyrir hendur: spila körfubolta, syngja í kór, taka þátt í uppsetningu á leikriti. Ánægjan af því að leggja eitthvað af mörkum þarf með einhverjum hætti að verða til vegna ytri umbunar af einhverju tagi. Hugsunin er: Það má ekki gerast að einhverjir aðrir njóti góðs af því sem við tökum okkur fyrir hendur - við gerum það sem við gerum í okkar þágu og ekki annarra.

Með viðhorfum af því tagi sem hér hefur verið lýst, er erfitt að byggja þjóðfélag þar sem allir fá svipuð tækifæri - þeir sterku aðstoði heildina. Það eru alltaf einhverjir hagsmunir að baki afstöðu fólks til manna, málefna, stjórnmálaflokka eða hópa. Oftast eru það ekki hagsmunir heildarinnar, heldur afmarkaðir hagsmunir, jafnvel bara einkahagsmunir. Þetta er sú aðferð sem fólk beitir við að taka afstöðu, sem ég hef kallað "Ég-Núna" afstaðan. Stundarhagsmunir til skemmri tíma í stað hagsmuna heildarinnar til lengri tíma.
-------------------------------
Það er afskaplega auðveld pólitík þessi árin, að hafa það að megin markmiði að vera á móti. Það er auðvelt að afgreiða það sem gert er, með stóryrðum eða með því að gera málefni eða persónur tortryggileg. Hér er á ferðinni sálfræðilega sterkt pólitískt vopn, meðal þjóðar sem er í hálfgerðri upplausn. Við þekkjum það öll, að á einhverjum tíma höfum við þekkt fólk sem okkur líkaði vel við, en sem við síðan sáum í öðru ljósi þegar einhver laumaði einhverju því að okkur um þetta fólk, sem það átti að hafa gert af sér.
Þessi pólitík er gagnleg, þegar mikið liggur við að beina athyglinni frá sjálfum sér, eigin, vondri sögu, að því vonda hjá öðrum. Gagnleg, já, en vandræðalega lítils virði ef grannt er skoðað.
-----------------------------
Við fengum að kjósa um hvort við ættum að taka að okkur að borga einhverjum útlendingum. Átti einhver von á því að við samþykktum það sí svona, í ljósi þess hvernig allt er hér? Þar greiddu menn ekki atkvæði að athuguðu máli. Þar voru aðrir hagsmunir á ferðinni, t.d. skoðanir á öðrum málum, eða fólki, nú, eða bara einhverjir frasar sem klifaða var á, sbr. þetta með skuldir óreiðumanna.  Þar fyrir utan eru harla litlar líkur á því að einhver myndi samþykkja það með atkvæði sínu, si svona, að greiða hærri skatta.
-----------------------------
Allt þetta er nú til komið af því tilefni, að nú gefst manni kostur á því á fésbók (nýjasta fésbókaræðið), að taka afstöðu til ýmissa mála sem eru ofarlega á baugi. Það er auðvelt að taka afstöðu til margs af því sem þar er á ferðinni, t.d. hvort maður vill heldur, bjór eða léttvín. Þarna eru hinsvegar einnig spurningar sem eru talsvert flóknari. Þar finnst mér þessi standa upp úr: Á Ísland að ganga í Evrópusambandið?  Ég spyr sjálfan mig að því hvað veldur afstöðu þeirra sem þarna leggja nöfn sín við annaðhvort 'já' eða 'nei'. Ég er nú þeirrar skoðunar að þeir sam þarna taka afstöðu eigi einnig að þurfa að svara öllum spurningunum sem verða til í framhaldinu. Þær eru t.d. "Hversvegna telur þú að  Íslendingar eigi að/ekki að ganga í Evrópusambandið?"
Mér finnst ég stundum vera ansi fákunnandi í hópi allra þessara spekinga, vegna þess að mér finnst ég hreinlega ekki vita nægilega mikið um kosti og galla Evrópusambandsaðildar til að geta svarað með einföldu já-i eða nei-i.
Mér finnst að mér beri skylda til að vita nákvæmlega hvað að baki þessum smáorðum stendur og lái mér hver sem vill.

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...