17 mars, 2014

Saga úr Laugarási: Lífsháski á vörubílspalli

Hjalti og Fríður bjuggu í Einarshúsi fram undir 1965. Ég efast um að þetta hús hafi borið þetta nafn þá. Mér hefur verið sagt að systir Sigurlaugar Einarsdóttur, konu Óafs Einarssonar, Hólmfríður, hafi byggt þetta hús. Siðar komst það í eigu sonar Ölafs Einarssonar, Einars.  Þetta hús stendur enn á sínum stað, vinstra megin þegar Skúlagata er ekin í átt að Hverabrekku og kallast nú Lauftún.
Á þeim tíma sem um ræðir, líklga 1963-4, stóð vörubíll vinstra megin við heimreiðina að húsinu og ég reikna með að Hjalti hafi átt hann. Hann var ónothæfur sem vörubíll sökum elli og hrumleika en gerði því meira gagn sem barnaleikvöllur. Það var nokkuð gaman að setjast við stýrið og puðra, fara í ímyndaða bíltúra með barnaskarann sem farþega, annaðhvort inni í stýrishúsinu eða aftan á pallinum. Þarna var hægt að dunda sér heilmikið.

Það er líklega í eðli okkar mannanna, ekki síst þegar við erum börn, að finna hvar einhver mörk eru og þannig var það líka með þennan vörubíl. Það þurfti smám saman að kanna fleiri möguleika til leikja í tengslum við hann; að kíkja undir hann, pæla í mælunum í mælaborðinu og opna vélarhlífina þar sem við blasti ógnarstór vélin með ótal spennandi athugunarefnum. Sumir voru talsvert áhugasamari að þessu leyti en aðrir; drukku í sig leyndardóma þessa tryllitækis í því skyni að auka við þekkingu sína til síðari nota.
Umræddur vörubíll - fyrir eða eftir.
Þarna eru í eftir röð f.v.Hafsteinn Hjaltason, Benedikt Skúlason 
og Erlingur Hjaltason, í miðið  Magnús Skúlason, 
Jakob  Narfi Hjaltason og Guðný Jónsdóttir Vídalín.
(myndin er ekki tekin þegar umrætt atvik átti sér stað)
mynd frá PH.
Undir pallinum, rétt fyrir aftan stýrishúsið var eldsneytistankurinn, svona eins og er á vörubílum. Það var ekkert lok á honum en það breytti litlu um áhugann á að komast að því hvort eitthvað væri í honum. Til þess myndi þurfa ljósgjafa, enda dimmt ofan í svona eldsneytistönkum. Ódrepandi forvitnin um leyndardóma tanksins varð til þess að ungur maður í hópnum, sem síðar reyndist afar áhugasamur um vélar og tæki, varð sér úti um eldspýtustokk með einhverju móti og þar sem hópur barna á aldrinum 5-10 ára var að leika sér í og við vörubílinn, kveikti hann á eldspýtu og bar að stútnum á tankinum.
Þarna lærðist það, að maður á ekki að nota logandi eldspýtur til að athuga hvort það er bensín á tönkum. Það varð heilmikil sprenging og feður og mæður komu hlaupandi hvaðanæva að og áttu allt eins von á að einhver lægi í valnum, sem ekki reyndist vera.  Þegar tankurinn sprakk voru börn inni í stýrishúsinu og uppi á pallinum, auk þeirra sem voru með ævintýramanninum í að kíkja eftir innihaldi tanksins.

Vörubíllinn missti talsvert af leikþokka sínum við brunann sem þarna varð og ég veit ekki hvað síðar varð af honum.

(með fyrirvara um að minnið hafi ekki brugðist)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...