Sýnir færslur með efnisorðinu Fjölskylda. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Fjölskylda. Sýna allar færslur

29 febrúar, 2012

Að klikka á stærsta hlutverkinu



Það er ansi athyglisvert að heyra að í fréttunum um að háskólakennarar á Íslandi kvarti yfir að nemendur nenni ekki að læra. Spurning hvaðan það kemur. Hérna í DK fara nemendur í grunnskólum aldrei í próf enda orkar það tvímælis að auka andlegt álag á börnin með slíkum óþarfa. Slíkt er heldur ekki í anda “janteloven” þar sem tryggja þarf að enginn skari fram úr heldur eiga allir að vera jafnir. Þetta er allt mjög göfugt einhverntíma kemur að því að svona hugsunargangur virkar ekki. Vinnumarkaðurinn vill væntanlega fá þá sem eru “bestir”, hvernig það svo sem er metið, fyrir utan að  allir lenda í því óréttlæti að þurfa gangast undir próf á seinni skólastigum. Þetta hefur maður orðið var við og þá sérstaklega Ásta, enda er hún í skóla með þessu liði. Það líður varla sá dagur að einhver fari ekki að grenja ( í alvörunni að grenja meina ég ) af því að eitthvað er ósanngjarnt í skólanum (t.d. eins og að þurfa hugsanlega að svara spurningu fyrir framan bekkinn). Þetta er fullorðið fólk…..hefði maður haldið. Virðist vera afurð kerfis sem virkar ekki. Útskýrir kannski hvers vegna u.þ.b þriðjungur aðspurðra meðal fólks sem er nýkomið út á vinnumarkaðinn hér er að kikna undan stressi sem getur varla talist skrýtið þegar þetta er í fyrsta skipti sem einhvers er krafist af viðkomandi. (Þorvaldur Skúli Pálsson), 

Það skiptir nú kannski ekki máli hver skrifar það sem stendur hér fyrir ofan, en ég nefni það samt að hann er talsvert skyldur mér.

Ég verð auðvitað að viðurkenna að við svona lestur hellist yfir mann eitthvert vonleysi um það sem framtíðin ber í skauti sér fyrir ofverndaða Vesturlandabúa. Sú þróun sem þarna er lýst er sannarlega á hraðferð um íslenskt samfélag, ef það er þá ekki komið jafn langt og þarna er lýst.

Ég viðurkenni líka, að ég nálgast hratt þann tíma þegar ég geng út úr ævistarfinu inn í, væntanlega friðsæl, elliárin. Í því ljósi get ég með talsverðum rétti sagt: "Til hvers að vera að ergja sig á þessu? Það hlustar enginn, hvert sem er. Fólk er að hugsa um aðra hluti, sem eru miklu mikilvægari; rétti einstaklingsins til umönnunar samfélagsins, þegar foreldrarnir geta ekki meir."

Ég er samt, í litlu, að klóra í bakkann, þó ekki nema til að ögra sjálfum mér og lesendunum mínum fáu. Í þau fáu skipti sem ég hef tekið mig til og ýjað að allri þessari aumingjavæðingu sem blasir við hvert sem litið er, hvernig foreldrar eru er bregðast í því stærsta hlutverki sem þeim er falið á lífsleiðinni, svona maður á mann, snýst umræðan óðar upp í stórfeminískar yfirlýsingar um að ég sé karlrembusvín (þó það sé auðvitað ekki sagt berum orðum).

Já, þetta er svo skemmtilegt - í einhverjum afbrigðilegum skilningi.

Skyldi ég fara á listann?


25 febrúar, 2012

Að spara skósólana


Eitt af því sem lífið getur haft í för með sér, ef maður er heppinn, eru afkvæmi sem stuðla með einhverjum hætti að því að vekja með manni stolt, ekki síst af manni sjálfum, auðvitað fyrir vel unnið verk, en einnig af því hvernig börnin eru að  vinna úr lífi sínu.
Ég hef haft umtalsverða ánægju af því að undanförnu (þessvegna lítið um skriftir hér) að taka þátt með beinum og óbeinum hætti í afskaplega ánægjulegum atburðum í lífi elstu sonanna. Því hef ég gert nokkra grein fyrir hér.
Þá höfum við fD fengið að njóta samvista við Görlitzbúana okkar og það hefur okkur sannarlega ekki leiðst. Milli þess sem við spillum litlum stúlkum, njótum við þess að velta okkur í öllum hamingjuóskunum, sem stráð er yfir okkur hvaðanæva.
Þakklæti okkar til þeirra sem hafa heiðrað okkur Kvisthyltinga með margvíslegum hætti að undanförnu, er ómælt.

Við stefnum áfram á sömu braut, ekki síst þar sem við eigum tvö í viðbót, yngri, sem ætla sér líka að ná glæstum árangri á sínum sviðum.

Allt er þetta nú ágætt og frestar þörf á skókaupum um einhverjar vikur.

13 febrúar, 2012

Fréttatilkynning hin síðari



Ideale – tónleikar í Aratungu
Egill Árni Pálsson, tenór, heldur tónleika í Aratungu á laugardaginn kemur, þann  18. febrúar og hefjast þeir kl. 17:00. Tónleikana nefnir Egill Árni  ‘Ideale - tónaperlur frá Þýskalandi, Ítalíu og Íslandi.’

Egill Árni hefur verið búsettur í Þýskalandi frá árinu 2008 og haft í ýmsu að snúast. Þar er kannski helst að nefna þátttöku í vinsælum tónleikum í Berlín sem nefnist “Classic Open Air” og eru haldnir  á hverju ári á Gendarmenmarkt torginu.  Þá söng hann á síðasta ári “Das Lied von der Erde” eftir Mahler, við afar góðar undirtektir. Hann söng hlutverk Caramello í “Eine Nacht in Venedig”, en hann hafði sungið hitt aðalhlutverkið úr sömu óperettu í Óperustúdíói Íslensku Óperunnar, og þá má einnig nefna Gouvenour og Vanderdendur í “Candide” eftir Leonard Bernstein. 
Ýmislegt er í farvatninu á söngsviðinu og þar má helst nefna ýmsar tónlistarhátíðir, eins og Elblandfestspiele og hugsanlega aftur “Classic Open Air”.

Tónleikarnir í Aratungu eru aðrir tónleikarnir sem Egill Árni heldur þar, en fyrir fimm árum hélt hann þar tónleika í tilefni af þrítugsafmæli sínu.

Það er Kristinn Örn Kristinsson sem leikur á píanó og gestasöngvari á tónleikunum verður Henríetta Ósk Gunnarsdóttir.
Bláskógabyggð og Söngskólinn í Reykjavík styrkja tónleikana. Það verður ekki selt inn, frjáls framlög eru þó vel þegin.

Egill Árni er frá Kvistholti í Laugarási. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Eftir það lá leiðin æ meir á vit söngsins, en síðustu 4 ár hefur hann búið í Þýskalandi þar sem hann hefur lagt stund á sönginn, fyrst við nám, en seinni tvö árin hefur hann verið fastráðinn við óperuna í Görlitz.
Egill er kvæntur Soffíu Jónsdóttur og þau eiga tvær ungar dætur.


10 febrúar, 2012

Milli prinsins og ráðherrans

F.v. Prins Joachim Holger Valdemar Christian,
Þorvaldur Skúli Pálsson, 
Morten Østergaard, ráðherra rannsókna,
nýsköpunar og æðri menntunar.

Ég er harla ánægður með hve strategísk uppstilling sonarins hefur verið við myndatökuna.

Hópurinn sem hlaut EliteForsk Rejsestipendium í Ny Carlsberg Glyptotek í gær.

09 febrúar, 2012

Með ráðherranum :) í Ny Carlsberg Glyptotek

Morten Østergård, ráðherra rannsókna,
nýsköpunar og æðri menntunar í Danmörku,
Þorvaldi á hægri hönd.

Ég reikna með að ég sé að ganga fram af einhverjum með þessu, en ég tal það skyldu mína að veita viðeigandi upplýsingar. Ég ákveð sjálfur hvað eru viðeigandi upplýsingar.

Fréttatilkynning hin fyrri




Í dag, 9. febrúar, veitir Þorvaldur Skúli Pálsson, frá Laugarási í Bláskógabyggð, viðtöku styrk að upphæð DKK300.000 (ISK6550000), sem Morten Østergård, ráðherra rannsókna, nýsköpunar og æðri menntunar í Danmörku, og Jóakim Danaprins afhenda. Athöfnin fer fram í Ny Carlsberg Glyptotek í Kaupmannahöfn, að viðstöddu fjölmenni.

Styrkurinn sem um er að ræða kallast EliteForsk rejsestipendium og það er ráðuneyti rannsókna, nýsköpunar og æðri menntunar sem veitir hann. Þessi styrkur var fyrst veittur árið 2007, en hann hljóta ”mjög hæfileikaríkir doktorsnemar, sem skulu nýta hann til lengri námsdvalar við bestu rannsóknaraðstæður sem völ er á.”

Styrkþegar eru valdir úr hópi allra doktorsnema í Danmörku og eru á þessu ári 17 að tölu.

Þorvaldur Skúli er fyrsti Íslendingurinn til að hljóta þennan styrk.

Verkefnið sem Þorvaldur Skúli vinnur að, ber heitið ”Pelvic Girdle Pain – Sensory and Motor Aspects.” Þar rannsakar hann nokkra þætti sem hugsanlega liggja til grundvallar verkjum frá mjaðmagrind.

Fyrri rannsóknir benda til að það sé talsverð skörun milli mjóbaksverkja og verkja frá mjaðmagrind, en í hvorugu tilvikinu vita menn hvers vegna sumir þróa með sér langvinna verki sem ekki lagast við meðferð. Besta dæmið um verki af þessu tagi eru mjaðmagrindarverkir á meðgöngu, en þá verða allar konur fyrir margskonar líkamlegum breytingum og finna til verkja af ýmsu tagi, sem telst fullkomlega eðlilegt. Það er hinsvegar ekki ljóst, hvers vegna líkamleg einkenni hverfa ekki þegar allar líkamlegar breytingar sem tengjast meðgöngu eru gengnar til baka. Vonir standa til að niðurstöðurnar veiti vísbendingar um hvernig haga beri meðferð við verkjum af þessu tagi, þannig að árangur verði betri en hingað til.

Styrkinn hyggst Þorvaldur Skúli nota til að standa undir kostnaði við rannsókn sem verður framkvæmd við Curtin University of Technology í Perth í Ástralíu, í samvinnu við rannsóknahóp sem hefur talsverða reynslu af rannsóknum á mjóbaks- og mjaðmagrindarverkjum.

Þorvaldur Skúli lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni, BS-prófi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands og meistaraprófi frá Curtin tækniháskólanum Perth. Hann leggur nú stund á doktorsnám við Álaborgarháskóla.

Þorvaldur Skúli er kvæntur Ástu Huldu Guðmundsdóttur og þau eiga tveggja ára son.

08 febrúar, 2012

Fyrsti Íslendingurinn er Kvisthyltingur

Þessir styrkir verða afhentir í Ny Carlsberg Glyptotek í Kaupmannahöfn á morgun.
Úr því þetta er orðið opinbert með þessum hætti, á síðu EliteForsk, finnst mér í lagi að skella þessu hér inn.  Nú er að fletta niður listann. Nánari útlistum kemur á morgun.


Modtagere af uddannelsesmini­ste­rens Eliteforskrejsesti­­pendier

Morten Lundh

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand. scient. i molekylær biomedicin, 27 år

Tomas Laursen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.scient. i bioteknologi, 28 år

Johanne Mørch Jensen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.polyt. i bioteknologi, 26 år

Ana Nordberg

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.jur., LL.M., 39 år

Ian Zerny

23.01.2012
Ph.d.-studerende, 28 år

Peter Arendorf Bache

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.oecon. (IMSQE), 24 år

Søren Dinesen Østergaard

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand. med., læge, 31 år

Anders Grøntved

23.01.2012
Ph.d. studerende, cand.scient., Master of Public Health, 31 år

Sarah Bro Pedersen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.mag., 28 år

Karsten Fyhn

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.polyt. i kommunikationsnetværk, 27 år

Thorvaldur Skuli Palsson

23.01.2012
Ph.d.-studerende, M.Sc. i muskuloskeletal fysioterapi, 32 år

Jacob Heide Jørgensen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.polyt. i matematisk modellering og computing, 27 år

Rasmus Lykke Marvig

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.polyt. i bioteknologi, HD 1. del, 26 år

Trine Julie Abrahamsen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.polyt. i matematisk modellering og computing, B.Sc. i medicin og teknologi, 29 år

Lasse Folke Henriksen

23.01.2012
Phd-studerende, cand.scient.soc., 29 år

Oana Brindusa Albu

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.merc. i marketing, kommunikation og globalisering, 28 år

Per Meyer Jepsen

23.01.2012
Ph.d.-studerende, cand.scient., 32 år

02 janúar, 2012

Önd á eftir Capsicums

Áfram streymir, endalaust, nú árið er liðið, engu er við að bæta, en ég geri það samt þó ekki sé um að ræða nein tímamótaskrif.
Capsicums forrétturinn sem ég fjallaði um hér, reyndist vera hreint sælgæti, og það var reyndar engin furða þar sem það var ég sem lagði hjarta og sál í undirbúninginn.

Annað verð ég að segja um öndina sem var ætlað að skipa aðalréttinn. Þrátt fyrir mikla yfirlegu, dögum saman, þar sem margtryggt var, að enginn misskilningur væri varðandi uppskriftina. Allt var eins og það átti að vera. Þessi fína fylling fór inn í kvikindið og inn í ofninn fór það. Ég gerði ráð fyrir ríflegum tíma í ofninum, en uppskriftin sagði 90 mínútur á 160°C - sem mér fannst ótrúlega stutt, en sættist á það þar sem öndin virkaði ekki sérlega vöðvamikil. Inni í ofninum var hún í 115 mínútur - það blæddi úr henni þegar hún var tekin út!!!  Mikil er ábyrgð þess sem uppskriftina gerði. Þarna voru góð ráð dýr. Vöðvafjallið, hátíðarkjúklingurinn, sem var öndinni að hluta til samferða í gegnum steikinguna, reyndist rétt tímasettur, fD til umtalsverðrar ánægju. Andartryppinu var skellt aftur í ofninn og nú með kjöthitamæli í vöðva og hita á 200°C. 
Hátíðarkvöldverðurinn hófst með formlegum hætti um það bil klukkustund síðar en áætlun gerði ráð fyrir, á dýrlegum Capsicums forréttinum.

Það er með ólíkindum hvað er lítið kjöt á önd. 





------------

Ég ætla ekki að taka þátt í umræðu um skaupið, utan það að ákveðnir þættir þess voru stórgóðir.
Ég ætla ekki, að svo stöddu, að taka þátt í umræðu um meinta yfirlýsingu þjóðhöfðingjans.
Það er nóg af sjálfskipuðum spekingum að viðra skoðanir sínar á þessum helstu fréttaviðburðum áramótanna.

Mig langar að taka hatt minn ofan fyrir Margréti Tryggvadóttur, eftir framgöngu hennar í svokallaðri Kryddsíld á gamlársdag. 

29 desember, 2011

Capsicums

Tilbúið: char grilled capsicums au pms

Ég þekki ýmis nöfn á þessu fyrirbæri, en paprika er það sem notast er við hérlendis. Tegundarheitið á þessari venjulegu papriku mun vera Capsicum Annuum, en það munu vera til ríflega 30 afbrigði til innan þessarar ættar. Ég hafði, þar til í fyrradag, aldrei heyrt eða sé þetta nafn notað um papriku. Það er þessvegna sem ég fer aðeins yfir þetta.

Þetta átti nú ekki að vera neitt fræðilegt hjá mér, en er til komið vegna þess að ég hef tekið að mér að sjá um forrétt í hátíðarkvöldverði á gamlárskvöld - og raunar einnig stóran hluta aðalréttar einnig. Það er sem sagt mikið sem srtendur til hjá þessum manni.

Forrétturinn sem varð fyrir valinu er þessi: (fékk gagnrýni fyrir að birta ekki uppskriftina að Sörunum, svo ég klikka ekki á uppskriftaleysi aftur)
Ristaðar paprikur, ólífur og Mozzarella í kryddlegi
2 krukkur Char-Grilled Capsicums
60 gr. svartar ólífur
1 stk. (125 gr.) Mozzarella, skorin í teninga
1/4 bolli ólífuolía
1/4 bolli sítrónusafi
2 msk. fersk steinselja
1 tsk. ferskt oregano (eða 1/4 tsk. þurrkað)
1 tsk. ferskt basil (eða 1/4 tsk. þurrkað)
1/2 tsk. fersk salvía (eða 1/8 tsk. þurrkuð)
1/2 tsk. salt
1/8 tsk. pipar
2 hvítlauksrif, fínt söxuð
Setjið paprikurnar, ólífurnar og ostinn í skál. Setjið afganginn af innihaldinu í ílát með loki og hristið vel. Hellið innihaldinu síðan yfir paprikublönduna. Lokið skálinni og geymið í ísskáp í amk. 4 klst.; hrærið nokkrum sinnum í.
Ég fjölyrði ekki um það, en auðvitað fékkst ekki allt sem þarna er nefnt, í höfuðstað Suðurlands, nefnilega aðalatriðið: ristaðar paprikur (char grilled capsicums).
Ég var búinn að ákveða að hafa þennan forrétt og ég breyti ákvörðunum mínum ekki auðveldlega. Því var það að ég gúglaði char grilled capsicums og fann leiðbeiningar um hvernig maður útbýr slíkt. Að upplýsingum fengnum framkvæmdi ég þetta verk í dag. Í grunninn er hér um að ræða að skera papriku í hæfilega bita og skella undir grillið í eldavélinni. Þar er það látið vera uppundir 10 mínútur, eða þar til hýðið er farið að kolast. Allt gekk þetta vel, enda ekki von á öðru þar sem þarna var ég sjálfur á ferð. Reyndar var ekki til rauðvínsedik og ekki heldur venjulegt edik, en það var til rauðvín og það var til balsamik edik. Ég þoli afar illa að eiga ekki nákvæmlega það sem sagt er að eigi að vera í viðkomandi rétti og því var það ekki af fullkomlega fölskvalausri gleði sem ég lauk framkvæmdinni. Ég hef þó fulla trú á að hér sé á ferð forréttur eins og forréttir gerast bestir.

24 desember, 2011

Jólakveðja úr skugga skötupotts.


Nú á aðfangadagsmorgni er lokasprettur, en þó enginn lokasprettur þar sem ég, í það minnsta, tek aðdragandann að jólum með mínum hætti að mestu. Hendi í Sörur, jú, og dreifi gleði til þeirra sem tekst að píra í gegnum skóginn á dýrðina sem stafar frá ljósakeðjunum gömlu og nýju.  Hefði sjálfsagt getað verið kappsamari við ýmislegt annað, en það er eins og það er, ennþá.
Þá er lokið Þorláksmessu
það eru að koma jól.
Siggi' er ekki' að sinna þessu
Solla á bláum kjól. 
Í gær var Þorláksmessa, eins og flestum ætti að vera kunnugt og þá er tekist á við margrædda Þorláksmessuhefð, en ég er, eins og einhverjum er kunnugt, ekki skötufíkill og hef lönngum haldið því fram að hér væri á ferð skemmd fæðutegund og að át á henni gæfi til kynna einhverja misskilda karlmennskustæla. Ég fékk talsvert góða staðfestingu á þessari skoðun minni, með því að í einum margra útvarpsþátta um skötu greindi viðælandi frá tilurð þessa siðar. Það var beinlínis markmimð fólks að leggja sér til munns skemmdan mat af einhverju tagi daginn fyrir veisluhöld jólanna, til að finna betur muninn á því sem ætt er og óætt. Vestfirðíngar höfðu skötuna, og Austfirðingar einhvern skemmdan fisk eða hákarlsúrgang, sem ekki hefur festst (jú það er hægt að skrifa þetta svona) jafn rækilega í þjóðarsálinni. Það góða við skötuna er, að það er auðvelt að tjá sig um hana.
Á Þorláksmessu þykist ég
þekkjast við barbarana
Skatan hún er skelfileg
skömm er að éta hana
 Nei, ekki vil ég berjast gegn hefðum þjóðarinnar, þessi hefðarmaður sem ég er.  Ég styð fD í því að fá sér skötubarð fyrir/á Þoddlák. Skatan var meira að segja lengi vel tilreidd hér innanhúss, með afleiðingum sem allir geta ímyndað sér. Nú síðustu allmörg ár hefur gamli unglingurinn tekið þátt í skötudýrðinni og jafnframt hefur suðan færst út fyrir hús, öllum hlutaðeigandi til gleði, þó misjafnlega hátt sé haft um það.
Á Þorláksmessu  þrái ég
að þefa af skötupotti.
"Skatan hún er skemmtileg,
skal ei höfð að spotti."
segi ég og glotti.
-----

Nú, meðan vindstyrkur eykst víða um land og fréttir berast að óendanlega forsjálum ökumönnum, sem sitja í bílum sínum á heiðum landsins, nálgast jólahátið.  Hana vér allir prýðum. Ljósin eru komin upp, búið að græja jólatréð: "Fella gervijólatré líka barrið?" var spurt þegar hafist var handa á þessum bæ í gærkvöld.

Allt að verða klárt. 

Ykkur, óþekktu einstaklingar, sem lesið skrif mín hér að jafnaði, og fjölskyldum ykkar, flyt ég hér með von mína um að við öll fáum að njóta gleði, góðs matar, friðar og kannski messu, einhverjir, næstu daga.

Talsverður hluti Kvisthyltinga dvelur erlendis um þessi jól. Til þessa hóps við ég telja 7 fullburða einstaklinga. Sannarlega söknum við fjögur, sem hér dveljum, samvistanna við þau, en með samskiptatækni nútimans verður þetta talsvert auðveldara en það hefði verið fyrir einhverjum áratugum.

Hjónunum í Görlitz og dætrum þeirra tveim og nýju hjónunum í Álaborg og syni þeirra flytur þessi síða bestu kveðjur úr þorpinu í skóginum.

(ef höfundar er ekki getið að meintum kveðskap, þá er hann frumortur og því við mig að sakast að því er varðar bragfeila og mér að hrósa ef tær snilldin lætur á sér kræla)

11 desember, 2011

Flatkökusörudagur

Ég ákvað fyrir nokkru, eftir að samstarfsmenn mínir, hins kynsins, sem gamli unglingurinn myndi kalla  "húslegar og gott að hafa bardúsandi í eldhúsinu" (sem ég myndi aldrei láta mig dreyma um að gera lífs míns og stöðu vegna), komu með kökur á kennarastofuna, svona í tilefni aðventunnar. Mér fannst þessar Sörur bara góðar og sannfærði sjálfan mig um, að þannig bakstur hlyti ég að ráða við, engu síður en þær sem þarna var um að ræða, Jónur, án þess þó að reykja jónur.  Þegar ég ákveð svona þá er allt eins líklegt að ég framkvæmi það og í dag var dagur framkvæmda, eftir kaupstaðarferð með lista yfir það sem til þurfti.

Ég er búinn að komast að því að Söruuppskriftir eru margar til, en aðal munurinn liggur þó í kreminu, eftir því sem ég hef komist næst.  Botninn, eða það eina sem er bakað, er yfirleitt eins, hver sem uppskriftin er.

Ég valdi eina þessara uppskrifta, sem innihaldslega séð gaf loforð um ljúfar Sörur.

Ég undirbjó og framkvæmdi þetta Sörumál, með sérlega fagmannlegum hætti að mínu mati. Í fyrra þurfti ég oftar að spyrja fD um hefðir og venjur í kökubakstri. Núna var þetta svona rétt til að tékka á hvort ég væri ekki örugglega á réttri leið.

Hér gefur að líta nokkrar myndir af Sörubakstrinum. Fegurstu Sörur, en enginn gat svo sem átt von á öðru.

Gullnir Sörubotnar

Lungamjúk fyllingin

Markmiðið var að búa til frjálslegar Sörur - og það tókst fullkomlega.


Úr því ég var byrjaður tók ég aðra tegund líka, með lítilsháttar aðstoð (muscle).

Add caption
Svo lauk þessu á samvinnuverkefninu "Flatkökur á pallinum".



Sunnudagur á aðventu.

04 desember, 2011

"Þau eru nú ekki að gera sig hjá þér, þessi jólaljós!"

Þessi árstími kallar fram afskaplega misvísandi tilfinningar. Jú, jú, jólafríið framundan (ein þriggja meginástæðna þess að maður sækir í svona starf eins og mitt, að sögn þeirra sem þar eru ekki innvígðir), en jafnframt þarf að gera ýmislegt, og þeir sem hér hafa fylgst með, vita að mér finnst betra að una við aðstæður þar sem ekki þarf að vera að gera eitthvað, sérstaklega ef það er eitthvað sem ég vildi gjarnan vera án.


Undanfarin ár hef ég smám sanan verið að eflast í kaupum á og uppsetningu á jólaseríum utan dyra. Þessu sinni byrjaði ég óvenju senmma, á laugardeginum fyrir fyrsta sunnudag í aðventu, sem þykir eðlilegur tími á Laugarvatni, en út í hött í mínu umhverfi.  Ég fékk fljótlega smáskilaboð, þar sem látin var í ljós undrun vegna þessa tiltækis míns. Í þessari fyrstu atrennu skellti ég nú bara upp tveim yfirlætislausum jólaseríum - varla að þetta sæist. Ég hef hinsvegar verið að huga að aukningu bæði  á seríufjölda og fjölbreytni í ljósavali og því var það nú, að ég bætti við tveim talsvert öflugum seríum, sem ég síðan er nú nýbúinn að skella upp, af einstakri natni og metnaði. Ég lagði það á mig að fara úr í norðan garrann og gaddinn til að undirbúa með þeim hætti hátíð ljóss, árs og friðar. Þrátt fyrir að við lægi kali, lét ég það ekki á mig fá - barðist áfram, staðfastur og einbeittur í því sem gera þurfti og ég vildi gera.

Síðan fórum við, heimaverandi Kvisthyltingar í gönguferð. Þegar heim var komið sagði hinn þau orð sem mynda fyrirsögnina þessu sinni. Viðbrögð mín voru engin í fyrstu, en þarna var um að ræða, að mínu mati, ótrúlega lítilsvirðingu við allt það sem ég hafði lagt á mig, bæði að því er varðar fjárútlát og vinnu. Það leið nú svo sem ekki á löngu áður en fD lauk við athugasemd sína, sennilega vegna viðbragðaleysis míns. Hún hafði, sem sé, tekið eftir því (ég reyndar líka) að jólaljósin sjást hreint ekki frá þjóðveginum, vegna trjágróðurs í vetrardvala. 

Nú má spyrja: 
- Er ég að standa í þessu fyrir einhverja sem aka framhjá, segja kannski: "Jaaáááúú, ok", áður en þeir bruna áfram inn í nóttina?
- Er ég að þessu fyrir Laugarásbúa, sem rölta framhjá við og við í heilsbótargöngu? 
- Er ég að þessu fyrir mig og mína (bara tvö, enn sem komið er, en það stendur til bóta), til að varpa ljósi á myrkrið þannig að birtan ein ríki í hjörtunum?

Auðvitað er gaman þegar einhverjir utanaðkomandi tjá aðdáun sína á einhverju sem maður gerir, það vita nú allir, en ég held að það sem ræður mestu, þegar ég tek mig til í seríumálum, er þetta síðastnefnda. Auðvitað verð ég að viðurkenna, að jólaseríurnar mínar sjást ekki innan úr húsinu, en ég veit að þær eru þarna - sé þær þegar ég fer í vinnu að morgni og síðan aftur þegar þegar ég kem
heim að kvöldi. Þannig er tilganginum náð.

22 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101 þar sem Harpa er


Þá er best að ljúka þessum greinaflokki með því að gera lítillega upp einn megintilgang ferðar okkar fD til höfuðborgarinnar um síðustu helgi.

Tónlistarhúsið Harpa er margrætt á ýmsum vettvangi. Við komum inn í það hús, enda nauðsynlegt þar sem þar er sýnd þessa dagana Töfraflautan eftir hann Mozart. Við fyrstu sýn virkar þessi bygging ágætlega á mig, að innanverðu þó mér finnist rýmið fyrir utan salina vera ógnarstórt og undirlagt tröppum sem síðan reynast varla duga til að flytja fólksfjöldann sem er að koma af sýningu. Það var allavega talsverður tappi þegar leið lá niður af þriðju hæð.
Eldborgarsalurinn er ógurlega fínn og öll var þessi óperureynsla ágæt. 
Tenórar sýningarinnar áttu þó aldrei séns. Það vissi ég nú fyrirfram. Hér á bæ er bara um að ræða einn tenór sem telst sæmilega boðlegur. Ég reyndi að vísu að taka framlagi tenóranna opnum huga, en þeir náðu ekki því flugi sem ég hefði viljað sjá. 
Aría næturdrottningarinnar var afar glæsileg hjá Diddú. 
Bassinn, Sarastro,  fannst mér eiga í nokkru braski með dýpstu tónana - kannski voru þeir fyrir neðan það tíðnisvið sem heyrn mín ræður orðið við. 
Papageno var nokkurn veginn eins og hann á að vera - hæfilega kómískur. 
Þóra Einarsdóttir hefur afskaplega fallega rödd, en hún var Pamina. 
Sviðsetningin var mjög skemmtilega útfærð. 

Ég er með þessum skrifum ekki að þykjast vera einhver gagnrýnandi - það er nóg af þeim. Ég er bara svona að dufla við að vera gagnrýnandi.

16 október, 2011

Út: hellur og túba - inn: keramik og led (2)


Hún var nú búin að þjóna okkur vel og dyggilega svo lengi sem ég treysti mér til að muna, líklega í ein 20 ár í það minnsta. Það voru á henni 4 hellur, en tvær þeirra virkuðu eiginlega aldrei. Það var komin sprunga í þá þriðju, sem þó virkaði enn. Það var með öðrum orðum eftir ein hella sem var sæmilega nothæf, að því er talið var. Það varð ekki undan því vikist að gera eitthvað í málinu.

Til að eitthvað gerist þarf eitthvert afl að koma til, sem hreyfir við því með einhverjum hætti. Sú var raunin hér. Mér hefur alltaf þótt tilhugsunin um að flytja stóra og þunga hluti þess eðlis, að rétt sé að fresta og sjá til. Það kunna að koma upp þær aðstæður sem leysa þannig flutninga með einhverjum öðrum hætti en beinni aðkomu minni. Það var hinsvegar orðið ljóst þegar hér var komið að beinnar aðkomu minnar væri þörf.

Það þarf ekkert að fjölyrða um kaupin sem slík - lokapunktur þeirra átti sér stað í vel földu vöruhóteli við Sundahöfn. Þarna kom í ljós að nútíma eldunartæki eru talsvert léttari en þau sem eldri eru. Svo létt var þessi nýja, að það vafðist ekki fyrir okkur fD að vippa henni upp þröngan stiga þegar heim var komið. En til þess að hún hæmist á sinn stað þurfti að fjarlægja þá gömlu.

Hún tilheyrði þeim hópi eldavéla sem taldar voru afar vandaðar, og það endurspeglaðist í því að hún bjó yfir tilteknum massa. Ég minnist þess frá árum áður, að tæki sem voru þung í sér, voru í mínum huga traust tæki. Segulbandstæki sem voru þung, miðað við stærð, voru bara einfaldlega góð, meðan aftur á móti létta draslið fól í sér gæðaleysið. Það þurfti ekki að skoða frekar.

Nú eru aðrir tímar, að því er virðist. Létt er gott - sama hvaða þá er verið að fjalla um.  
Mér tókst að koma gömlu eldavélinni út úr innréttingunni og okkur tókst að drösla henni út úr eldhúsinu, en ekki mikið lengra.  Sú nýja og fína, small á sinn stað, tengingar græjaðar á afar fagmannlegan hátt. Stungið í samband. Á endanum kom ljós sem gaf til kynna að nú streymdi orkan um alla þræði. 
Auðvitað á eftir að læra á ýmsa nýja fídusa, en það er ekki viðfangsefnið hér að fjalla um hvernig það hefur gengið.
Það er hinsvegar viðfangsefnið hér að fjalla í örfáum orðum um það hvað tók við. Það beið gamall túbusjónvarpshlunkur eftir að leggjast til hinstu hvílu og nú hafði bæst við áratuga gömul eldavélin, sem var komin á stað sem nauðsynlega þurfti að nota til annars.

Við þessar aðstæður fór ég að segja, hátt og í hljóði, setningarnar sem 1. hluti byrjar á. Enn ætla ég að halda fram miklvægi þess að hugsa öll skref áður en verk er hafið. Vegna þess að ég hafði tekið mér tíma til að hugsa út hvert einasta skref, gekk flutningurinn á Sony og Siemens eins og í lygasögu. Þau hvíla nú á biðstað við hæfi - bíða þess að verða flutt á einhvern stað þar sem þau munu verða leyst  eða brotin í sundur; hætta að vera til.  
Þau þjónuðu vel og eru vel að þeim örlögum komin sem bíða þeirra.

15 október, 2011

Út: hellur og túba - inn: keramik og led (1)

"Það þarf að fara að koma þessu á gámastöðina".
"Það þarf að fá lánaða kerru."
"Það þarf að fá trillu til að koma þessu út".

Nú er líklegt að það fyrsta sem þeir sem til þekkja, og hafa kíkt að síðurnar hjá mér undan farin ár, hugsi með sér sem svo: "Jæja, er fD nú farin að ýta við kallinum enn eina ferðina?"

Ekki þykir mér slæmt að lýsa því yfir, að ofangreindar setningar hef ég sjálfur haft yfir, bæði hátt og í hljóði, að undanförnu. Ástæðan? Í rauninni einföld, en samt með vott af  (dass af) tilfinningu fyrir því að  setningarnar sem tilgreindar eru hér efst, geti verið væntanlegar þá og þegar hvort sem er og þá í flutningi fD. Hafi svo verið, nú þá var ég bara á undan þessu sinni að segja það sem segja þurfti.

Sem svar við því hvert tilefni ofangreindra setninga er, er hægt að færa fram stutt svar eða langt svar. Gallinn við stutta svarið er, að með því gætu lesendur farið að fá í höfuð sín hugmyndir um okkur Kvisthyltinga, sem eru ekki réttar. Því ætla ég að láta langa svarið duga.

Litasjónvarpstæki tóku við af þeim svart/hvítu fyrir afskaplega löngu síðan. Heimildir mínar segja, að sjónvarpsútsendingar í lit hafi hafist árið 1975. Í allmörg ár eftir það  létum við okkar svart/hvíta tæki duga, enda hvorki peningar til, til uppfærslu, né heldur börn sem þóttust hafa vit á því hvort væri betra svart/hvítt eða litur. 
Ég giska á að fyrsta litatækið hafi komið á bæinn kannski tveim árum eftir að ég var farinn að vinna. Það átti sinn tíma eins og svona dót, en nýtt var ekki keypt fyrr en það gamla dó. 
Það var líklega um það leyti, sem ég las um það einhversstaðar, að framtíðin fælist í sjónvarpstækjum sem hægt væri að hengja á vegg eins og myndir. Í því sambandi ákvað ég að næsta sjónvarp sem ég myndi kaupa yrði veggsjónvarp. Þau voru reyndar ekki komin enn þegar að næstu endurnýjun kom. 

Tækjaminni mitt er afskaplega vont og mér þykir það hreint ekki slæmt. Ég man, s.s. ekki hvort síðasta túbutækið (sem gaf ekki upp öndina og var í fínu standi, fyrir utan það að maður gat ekki orðið fylgst með markatölunni í handboltaleikjum) var það sem tók við þarna, eða hvort annað kom í millitíðinni. Það skiptir í raun engu máli. Það sem skipti máli á þeim tímapunkti sem um ræðir, og átti sér stað í aðdraganda síðustu jóla var, að ég taldi einfaldlega að sú stund væri upprunnin þegar ég uppfyllti um það bil 25 ára gamalt fyrirheitið um veggsjónvarp (og hana nú - ég sagði það). Annar rökstuðningur fyrir þessum kaupum vafðist ekkert fyrir mér.  Nefni hér bara þrjár góðar og gildar ástæður:
a.  LED tæki, eins og hér er um að ræða, ku næstum framleiða orku. 
b. Gamalt túbutæki gæti sprungið þá og þegar og brennt húsið til kaldra kola.
c. Kaup af þessu tagi stuðla að auknum hagvexti og manni er sagt að hann sé grundvöllur alls hins góða sem hægt er að ætlast til af lífiinu.

Gamla túbutækið var sett til hliðar. Þar sem það var í rauninni í fínu standi, enda gott merki, þá ól ég þá von í brjósti, að einhver myndi vilja taka það af höndum mér. Gallinn við þá pælingu var augljóslega sá, annarsvegar, að við auglýstum gripinn með engum hætti og hinsvegar, að líklega eru þeir Íslendingar teljandi á fingrum annarrar handar, sem myndu láta sér nægja túbusjónvarp og 10-15 ára gamalt þar að auki. 

Tækið var sett til hliðar um síðustu jól, og kom ekki við sögu Kvisthyltinga eftir það, nema þá þannig, að ef til vill varð ég var við lítilsháttar sting við og við þegar ég átti leið um kjallarann, vegna þess óleysta sjónvarpsmáls, eða þá í óorðuðum skilaboðum frá fD um að það væri nú kannski skynsamlegt að fara að koma tækinu á einhvern þann stað sem það endaði tilveru sína sem sæmilegum sóma.

Það sem síðan gerði eiginlega útslagið, átti sér síðan stað fyrir nokkrum dögum, en frásögn af því bíður þar til næst.,

30 september, 2011

Gyllinæðarkremið

Það breytir engu í því samhengi sem hér er um að ræða, en ég verð samt að nefna það, þar sem það skýrir það sem skýra þarf. 
Þannig er mál með vexti, að hásin hefur verið að plaga mig um alllangt skeið. Þetta er auðvitað afskaplega hvimleitt og mér hefur verið talsvert í mun að leita leiða til að óþægindin sem þessu fylgja, hverfi.

Það var svo í heimsókn okkar fD til Álaborgarfjölskyldunnar í byrjun ágúst að ég bar mig upp undan þessu við Kvisthyltinginn sem allt á að vita um svona hluti, að mínu mati. Hann greindi mér þá frá því, að þegar hann dvaldi í Ástralíu um eins árs skeið fyrir nokkrum árum, hafi hann einmitt lent í því að fá eymsl í hásin. Að fyrirmælum læknis hafi hann, fimm nætur í röð, borið blöndu af Voltaren geli og gyllinæðarkremi á hásinina og síðan vafið filmuplasti yfir allt saman. Hann kvað þetta hafa virkað vel.

Með þessa vitneskju yfirgaf ég Álaborg og gisti landið bláa á ný með minn hásinarvanda.

Þar kom að ég hélt á fund læknis til að freista þess að fá hann til að skrifa út lyfseðil á Voltaren og gyllinæðarkrem. Hann þráaðist nú við, glotti og kvaðst aldrei hafa heyrt um svona lækningaaðferðir, en var á endanum til að gefa mér færi á að prófa. Ef árangurinn yrði jákvæður gæti þetta haft áhrif á framþróun læknavísina á Íslandi.

Fram til þessa hafði umræðan um gyllinæðarkremið ávallt farið fram í samhengi við hásinarbólgu og því aldrei reynt á hin óorðanlegu viðhorf og hugrenningatengsl sem fara af stað þegar þetta samhengi er ekki fyrir hendi.

Með útskrift lyfseðilsins hvarf þetta samhengi og framundan var að fara í apótekið og leysa út kremin tvö. Þar sem ég bý í fámennu samfélagi, til þess að gera, þekki ég auðvitað apótekarann, úr barnaskóla, kórstörfum og hinu og þessu gegnum áratugina. Án þess að ég vildi fór ég að velta fyrir  mér hvaða hugsanir færu í gegnum höfuð hans þegar hann fengi gyllinæðarkremslyfseðilinn í hendur.
"Jæja, er karlinn bara kominn með gyllinæð, he he. Ræfils tuskan."

Ég var staðfastur í, að þrátt fyrir að möguleikinn á ofangreinri hugsun apótekarans væri fyrir hendi, skyldi ég með engu móti láta sjá það með svipbrigðum mínum, látbragði, eða orðum að þarna væri á ferðinni eitthvað annað en hið eðlilegasta mál - sem það var auðvitað, nú fyrir utan það, vissulega, að þarna var verið að prófa ástralska lækningaaðferð í fyrsta skipti á Íslandi - en ég minntist ekki á það, enda myndi það bara hljóma sem afsökun til útskýringar á gyllinæðarkreminu. 

Ég stóðst með prýði kremkaupin, og apótekarinn auðvitað líka  -  bara spjallað um daginn og veginn meðan verið var að prenta notkunarleiðbeiningar á miðann. Borgað, burt.

Þegar heim var komið skellti ég kremunum bara á eldhúsborðið. Það var allt í lagi þar sem ekki var nú um að ræða aðra í húsinu en mig og fD, sem var vel heima í hásinarumræðunni og því með rétt stillt viðhorf til málsins.

Þá kom fólk í heimsókn - svona vel rúmlega miðaldra hjón sem hafa ýmsa fjöruna sopið. 
Þau settust við eldhúsborðið áður en mér tókst að skanna það fyrir hlutum og/eða efnum sem þar hefðu ef til vill ekki átt að vera. Á borðinu var gyllinæðarkremið og reyndar líka Voltaren gelið, en nákvæmlega það bjargaði því að ég þyrfti að fara í einhverja sérstaka vörn. Konan er ekki þekkt af því að spyrja ekki, ef hana vantar svör. Þessvegna:
"Hvaða krem er þetta?  Doloproct rektal creme??"  
Þarna skellti ég nú bara fram, blátt áfram, eins og ekkert væri eðlilegra, forsögunni, algerlega vandræðalaust, með þessum viðbrögðum:
"Já, gyllinæðarkrem. Maður þekkir það nú vel."
Þar með var það bara afgreitt.

Um kvöldið tók ég mig til og blandaði í einhverjum hlutföllum, kremunum tveim, bar þau í talsvert þykku lagi á hásinina endilanga og vafði síðan filmuplasti rækilega yfir allt saman. Fór svo bara að sofa og vaknaði aftur morguninn eftir eins og hlýtur að vera, því annars væri ég ekki að skrifa þetta.

Breytingin var nú ekki mikil, nema sú, að mér fannst að þessi kröftugu bólgueyðandi krem hefðu fjarlægt allar bólgur svo rækilega, að hælbeinsliðurinn skrölti svona eins og þegar bremsur eru járn í járn. Það lagaðist þó, og ég hélt áfram að bera þessi krem samviskusamlega í 5 nætur, án þess að þau sönnuðu sig sem tímamótaframfarir í læknavísindum á Íslandi.

Hvort sem lesendur trúa því eða ekki þá hef ég,  í gegnum þetta gyllinæðarkrem, fyrsta sinni aflað mér upplýsinga um hvaða fyrirbæri þessi gyllinæð er, og þar komst ég meðal annars að því, að nafnið er ekki gegnsætt, en lýsir sakleysislegasta fyrirbæri, ef grannt er skoðað.

24 september, 2011

IE: Allt önnur hlið

Ég og fD áttum leið til Kaupmannahafnar með Iceland Express í byrjun ágúst s.l. og sú reynsla varð til þess að ég sá mig knúinn til að lýsa henni hér. Þetta var ekki fögur lýsing, en rétt, á þeim tímapunkti.

Ég og fD áttum leið til Berlínar með Iceland Express þann 19. september með heimkomu þann 23. Þetta flugfélag var ekki valið vegna góðrar reynslu úr fyrri ferðum - sannarlega ekki.

Reynslan þessu sinni svo aldeilis allt önnur en í hið fyrra sinnið og ástæðurnar eru þessar:

1. Við fengum miða á afskaplega góðu verði, sem auðvitað segir ekkert um gæði þjónustunnar, en er nefnt til samanburðar við verð á flugi til Álaborgar í ágúst s.l., sem ekki var farið vegna ótrúlegs verðlags.

2. Flugið frá Keflavík átti að hefjast kl 08:55. Það var tekið á loft kl. 08:55. Fagmennska áhafnarinnar var með miklum ágætum og við lentum einum 20 mínútum á undan áætlun í Berlín.

3. Flugið frá Berlín kom okkur enn meira í opna skjöldu, en 40 mínútum  fyrir áætlaða brottför lentum við fD í því að verða síðust farþega um borð í vélina, sem síðan varð að bíða á vellinum vegna reglna flugvallarins um brottfarir fyrir áætlaðan tíma.  Starf áhafnar var manneskujulegt og fagmannlegt og gerði ekkert nema bæta reynsluna. Flugfreyja sem hefur öðlast einhvern innri ljóma hins reynda einstaklings, stóð sig af stakri prýði í okkar hluta vélarinnar. Æskan er ágæt að mörgu leyti, en hana vantar bara svo margt.

Þarna umpólaðist ég í afstöðu minni til Iceland Express. Ef þetta flugfélag heldur svona áfram á það fullt erindi í samkeppni um flug yfir hafið. Stóri bróðir má vara sig.

Þetta segi ég, en er ekki þar með að lýsa því að eignarhald félagsins sé mér að skapi.

04 september, 2011

Val og ekkival

"Veldu bara einhverjar," segir fD, eftir að hafa skrollað yfir upplýsingar um leiksýningar vetrarins í stærstu leikhúsunum tveim.

Menningarleysi, eða kannski skortur á athafnasemi þegar menningarneysla er annarsvegar, hefur verið eitt af áhyggjuefnunum á þessum bæ undanfarin ár. Því hefur sú hugmynd skotið upp höfðinu á hverju hausti, að fjárfesta í áskriftarkortum leikhúsanna. Aldrei hefur umræðan um slíka fjárfestingu komist lengra en á þessum morgni í upphafi september. Ég var nú áðan kominn inn á svæði þar sem lítið var annað að gera en smella á leikverk sem ég kysi að sjá. Ég gerði það ekki.

Það er sannarlega góð hugmynd (í ljósi þess hvernig ég er innréttaður) að fara að stunda menningarviðburði vegna þess að ég er búinn að borga fyrir. Auðvitað er það vitlaus forsenda fyrir slíku, en gæti orðið til þess að efla þennan tvímælaust mikilvæga þátt mennskunnar.

Hversvegna smellti ég ekki á leikverkin áðan?
Jú, fyrir því eru nokkrar ástæður, sem ég er staðráðinn í að líta framhjá þegar ég læta vaða í málið á eftir:
a. Hvort á ég að velja Borgarleikhúsið eða Þjóðleikhúsið? Hvaða fyrirframhugmyndir hef ég um þessar stofnanir? Finnst mér að Þjóðleikhúsið sé meira svona "mitt" leikhús, sem landsbyggðarmanns? Finns mér Borgarleikúsið kannski hafa fram að færa áhugaverðari sýninga svona heilt yfir? Er ég hreinlega fordómafulllur í garð annars hússins?

b. Það þarf að kaupa tvö kort og alltaf á sömu sýningarnar (ég sé okkur fD ekki fara að kaupa áskriftarkort á mismunandi sýningar). Í sambandi við það heyrði ég setninguna sem er hér efst. Ég veit nú alveg hvernig það verður - eða þykist vita það.
Ég smelli á einhverjar sýningar.
"Nú, valdirðu þessa? Mig langar nú eiginlega ekkert að sjá hana."
Kannski er ég að mála skrattann á vegginn, en maður þarf að hugsa hlutina til enda, þegar kemur að því að festa fé sitt í einhverju.

c. Reglurnar um kaup á þessum leikhúskortum hljóða upp á að maður þurfi að velja 4 sýningar af tilteknum lista. Þetta kallar auðvitað á rannsóknarvinnu af minni hálfu. Sum verkin er verið að sýna áfram frá fyrra leikári, önnur eru splunkuný. Það er komin tiltekin reynsla á þau fyrrnefndu - þau eru sýnd áfram vegna þess að þau voru sótt á síðasta vetri, hljóta þar með að vera nokkur góð. Þau síðarnefndu eru ný og ég hef ekkert nema það sem sagt er um þau í kynningarritum, en þar er eðlilega ekkert verið að draga úr hástemmdum lýsingarorðum um ágæti þessara verka. Kannski maður endi á einhverri blöndu, t.d. 2 ný og 2 sem eru í framhaldssýningu.

d. Það er þetta með sýningardaga. Við kaup á kortinu þarf ég að velja sýningarnúmer. Val af þessu tagi hlýtur nú að verða harla handahófskennt, enda liggja sýningardagar ekki fyrir og maður verður að fylgjast með hvenær viðkomandi sýningarnúmer verður á dagskrá og raða síðan lífi sínu umhverfis það. Vissulega er hægt, ef þannig stendur á, að finna nýjan dag með aðstoð miðasölunnar.

Það er að mörgu að hyggja ef maður ætlar í vegferð af þessu tagi.
Megi leikhúsárið verða gefandi og vel skipulagt.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...