Ideale
– tónleikar í Aratungu
Egill Árni Pálsson, tenór, heldur tónleika í Aratungu
á laugardaginn kemur, þann 18.
febrúar og hefjast þeir kl. 17:00. Tónleikana nefnir Egill Árni ‘Ideale - tónaperlur frá Þýskalandi, Ítalíu og
Íslandi.’
Egill Árni
hefur verið búsettur í Þýskalandi frá árinu 2008 og haft í ýmsu að
snúast. Þar er kannski helst að nefna þátttöku í vinsælum tónleikum í
Berlín sem nefnist “Classic Open Air” og eru haldnir á hverju ári á
Gendarmenmarkt torginu. Þá söng hann á síðasta ári “Das Lied von der
Erde” eftir Mahler, við afar góðar undirtektir. Hann söng hlutverk Caramello í
“Eine Nacht in Venedig”, en hann hafði sungið hitt aðalhlutverkið úr sömu
óperettu í Óperustúdíói Íslensku Óperunnar, og þá má einnig nefna Gouvenour og
Vanderdendur í “Candide” eftir Leonard Bernstein.
Ýmislegt er í
farvatninu á söngsviðinu og þar má helst nefna ýmsar tónlistarhátíðir, eins og
Elblandfestspiele og hugsanlega aftur “Classic Open Air”.
Tónleikarnir í
Aratungu eru aðrir tónleikarnir sem Egill Árni heldur þar, en fyrir fimm árum
hélt hann þar tónleika í tilefni af þrítugsafmæli sínu.
Það er Kristinn
Örn Kristinsson sem leikur á píanó og gestasöngvari á tónleikunum verður
Henríetta Ósk Gunnarsdóttir.
Bláskógabyggð
og Söngskólinn í Reykjavík styrkja tónleikana. Það verður ekki selt inn, frjáls
framlög eru þó vel þegin.
Egill Árni er frá Kvistholti í Laugarási. Hann lauk stúdentsprófi frá
Menntaskólanum að Laugarvatni. Eftir það lá leiðin æ meir á vit söngsins, en
síðustu 4 ár hefur hann búið í Þýskalandi þar sem hann hefur lagt stund á
sönginn, fyrst við nám, en seinni tvö árin hefur hann verið fastráðinn við
óperuna í Görlitz.
Egill er kvæntur Soffíu Jónsdóttur og þau eiga tvær ungar dætur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli