Sýnir færslur með efnisorðinu Sögur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Sögur. Sýna allar færslur

10 nóvember, 2013

RETARD - vel dulin örvænting (3)

Hér birtist nú þriðji hluti þeirrar frásagnar sem hafin var hér og síðan haldið áfram hér.
Ég stóð í sal, eða öllu heldur á einhverskonar gangamótum, líklega á þriðju hæð neðanjarðar, undir ánni Signu í París. Það stóð yfir leit að lest sem myndi flytja okkur sexmenningana frá lestarstöðinni sem merkt er C á meðfylgjandi korti á lestarstöðina D (Gare du Nord). Ferðinni var heitið á Charles de Gaulle flugvöllinn.

Þegar þarna var komið sögu hafði það gerst sem ótti okkar ferðafélaganna hafði beinst að í öllum lestarferðum helgarinnar: tveir ferðafélaganna, systur á sextugsaldri, höfðu orðið viðskila við hópinn í mannþrönginni sem liðaðist um þessar neðanjarðarhvelfingar. Önnur var fD og ég sá fyrir mér líðan hennar þegar hún uppgötvaði að enginn þekktur, grásprengdur kollur var í nánd. Ég ímyndaði mér ástand hennar með svipuðum hætti og það var þegar seinni jarðskjálftinn reið yfir Suðurland árið 2000, en ég mun ekki greina frá hvernig það var þá, hér, þessu sinni. Þarna áttu systurnar tvær væntanlega ekki annan kost en fylgja straumnum áfram, án þess að hafa nokkra stjórn á nokkrum hlut (sem var nánast ómöguleg aðstaða). Þarna gátu þær hafa ímyndað sér að manngrúinn myndi beygja inn í mismunandi rangala og velt fyrir sér hvað þá væri til bragðs að taka. Við hin stóðum  á gangamótum og skyggndumst áhyggjufull yfir mannhafið sem streymdi út úr göngunum í gegnum hlið með miðana sína og framhjá hliðunum án þess að þurfa að nota miðana. Það leið og beið. Klukkan tifaði. Hvað myndum við geta tekið til bragðs ef þær kæmu ekki þarna í gegn? Hvorug var með nothæfan síma, hvorug var sérstaklega tilbúin til að tjá sig mikið á frönsku, hvorug myndi auðveldlega fara að gefa það upp  við nokkurn mann að þær væru villtar. Straumurinn hélt áfram gegnum hliðið; fólk af öllum kynþáttum stærðum og gerðum, ....... en ekki systurnar.

Auðvitað komu þær í gegn að lokum - ég var bara að æfa mig í spennusagnagerð.

Með því þær sáu ástkæra eiginmenn sína standa þarna og bíða eftir þeim, örugga höfn, hefði maður, í ljósi þeirra hremminga sem þær höfðu lent í, ímyndað sér að fögnuðurinn hefði verið mikill; hefði brotist fram í brosi sem myndi ná til alls andlitsins, hefði kannski birst í því að þær hefðu þakkað almættinu fyrir að vera hólpnar og jafnvel hjúfrað sig upp að öruggri höfn sinni, í þakklæti fyrir giftusamlegan endi þessa glæfralega ferðalags um undirdjúpin.  Það sem maður hefði getað ímyndað sér, gerðist ekki, og ég verð líklega að fara varlega í að lýsa því í smáatriðum sem gerðist við endurfundina, en það snérist í stórum dráttum um það, að staðan sem þarna hafði komið upp skrifaðist á reikning þeirra sem tókst að halda hópinn, og þá sérstaklega lestaferðastjórann. Það væri með góðum vilja hægt að skilja þessi viðbrögð ef maður léti það eftir sér að ímynda sér upplifum þeirra systra af þeirri reynslu sem þær urðu fyrir. Það urðu engin handalögmál, enda ekki þörf á; orðin og látbragðið dugðu til að leysa út örvæntinguna. Ég ráðlegg næsta hóp sem fer í svona gönguferð neðanjarðar, að útbúa leiðtogann með priki með íslenska fánanum.

Það þurfti að halda áfram. Tíminn leið og lestin varð að finnast. Göngunni var haldið áfram, skilti skoðuð, gangar gengnir, rúllustigar staðnir upp og niður. Að endingu kom hópurinn á líklegan brautarpall þar sem óvenju fáir voru fyrir. Það var auðséð á stjóranum að hann var ekki alveg viss um að þetta væri rétti staðurinn. Fljótlega renndi tveggja hæða neðanjarðarlest að stöðinni, stöðvaðist og dyrnar opnuðust. Til þess að tryggja að sagan um aðskilnaðinn við hópinn endurtæki sig ekki, dreif fD sig upp í lestina um leið og hún spurði; "Eigum við ekki að fara upp í þessa?" Þá kom flautið sem gefur til kynna að dyrnar séu að fara að lokast, fD fyrir innan og hópurinn að öðru leyti fyrir utan. Í þann sama mund gaf stjórinn það til kynna með ákveðnum hætti að ekki væri þetta rétta lestin og fD slapp naumlega út áður en dyrnar lokuðust og tveggja hæða ferlíkið hvarf inn í göngin framundan; eitthvert út í niðdimma óvissuna.  Það getur hver maður ímyndað sér hvað hefði gerst ef lestin hefði farið af stað með fD, eina ferðafélaganna, innanborðs. Ég held að jarðskjálftinn árið 2000 hefði bliknað í þeim samanburði.
Þá lá það fyrir að enn þurfti að leita að lest sem myndi að öllum líkindum flytja okkur til D (Gare du Nord). Enn hófst gangan og var með sama hætti og áður, nema nú var hópurinn þéttur, nánast hékk þar hver í öðrum. Þar kom, að lestin fannst og tíminn leið. Þessi reyndist full af fólki og það var talið upp að sex.
Skömmu síðar var rennt inn í Gare du Nord, en eins og hver maður getur séð á kortinu þá mætast þar margar lestar og þá eins og auðvelt er að ímynda sér, á mörgum hæðum neðanjarðar. Það sem þarna lá fyrir var að finna aftur RER B - sem er eina lestin sem gengur út á áður nefndan flugvöll. Það var í sjálfu sér ekki flókið og fólksstraumurinn lá allur í þá átt. Það er auðveldlega hægt að ímynda sér að þegar lestar sem á örfárra mínútna fresti, eiga að flytja mikinn mannfjölda milli tveggja staða, stöðvast í langan tíma. Fólkið sem ætlaði með þeim gufar ekki bara upp. Það fær leiðbeiningar í hátalarakerfum og afskaplega stór hluti fylgir þessum leiðbeiningum og með þeim augljósu afleiðingum að úr verður mikið mannhaf. Það var þannig þarna einnig.  Þegar sexmenningarnir, við, renndum niður stútfullan rúllustigann sem bar okkur að brautarpallinum þar sem ætlunin var að taka RER B út á flugvöll, blasti við slíkt mannhaf að það virtist ljóst að 10 RER B lestar myndu varla duga til að grynnka á fjöldanum og tíminn leið, og á skiltum stóð RER B RETARD.   Ef við ætluðum að ná í flugið sem færi kl 12:15 var þarna kominn tími stórra ákvarðana.

Niðurlag frásagnarinnar mun greina frá æsilegum lokaþætti ferðarinnar út á CDG - flugvöllinn. (Fyrir þá sem ekki vita (fA) er CDG skammstöfun á Charles de Gaulle.

09 nóvember, 2013

RETARD - vel dulin örvænting (2)

Þegar frásögninni lauk síðast, var staðan sú að ferðafélagarnir sex voru komnir um borð í RER B lest á lestarstöðinni Port-Royal (merkt A á meðfylgjandi korti) sem átti að flytja þá á Charles de Gaulle flugvöllinn, en þaðan skyldi haldið með flugi langt norður á bóginn til landsins kalda og bláa kl 12:15 að staðartíma. Þetta þýddi að innritun átti að hefjast kl. 10:15. Þegar hér var komið var kl. rúmlega 9:00, þannig að það var góður tími til stefnu, lestarferðin átti ekki að taka nema 25-30 mínútur og gönguferðin frá lestinni út í Terminal 3 kannski 15 mínútur í viðbót. Allt var þetta nákvæmlega skipulagt, enda hópurinn þannig samsettur að óvissa var ekki valkostur.

Nú mátti lestin fara af stað; bruna með okkur síðasta spölinn. Hún gerði það samt ekki og við reiknuðum með því, bæði með orðum, svipbrigðum og látbragði, að þarna væru um að ræða tímajöfnun. Vissulega heyrðist glymjandi rödd í hátalara, sem ég, þó ég hafi nú vald á grunnatriðum í frönsku, skildi auðvitað hreint ekki. Það var eitthvert óvenjulegt yfirbragð yfir farþegunum í sneisafullum lestarvagninum og þar kom eftir talsverðan tíma, að lestarfararstjóri okkar innti hóp nokkuð órólegra Svía eftir því hvað væri um að vera og fékk þær upplýsingar að um væri að ræða seinkun vegna bilunar einhversstaðar og að það lægi ekki fyrir hvar sú bilun væri, hvers eðlis eða hvenær viðgerð yrði lokið. Það gætti orðið stutt í það, nú eða langt. 
Áfram leið tíminn án þess lestin héldi af stað og svo fór að Svíarnir tóku þá ákvörðun að yfirgefa hana með farangur sinn. Nokkrir fleiri gerðu það sama, en það bættust jafnmargir við, svo það virtist nú engin ástæða til að örvænta. Nokkrum mínútum eftir að Svíarnir hurfu á braut, heyrðist flautuhljóð og skömmu síðar lokuðust dyrnar á lestarvagninum og beint í kjölfarið á því lagði lestin af stað frá Port-Royal (A). Ekki neita ég því að léttirinn var talsverður, og ég neita því ekki heldur að mér varð hugsað til Svíabjánanna sem höfðu ekki þolinmæði til að bíða með okkur hinum. Ég taldi víst að nú væru þeir að rembast við að ná sér í leigubíl einhversstaðar meðan við brunuðum fyrirhafnarlaust á áfangastað (E) .
Ekki get ég nú kinnroðalaust fullyrt að ég hafi verið þess fullviss að allt væri komið í lag þegar þarna var komið, ekki síst vegna þess að lestin virtist fara óvenju hægt yfir. Maður hefði nú haldið að nú lægi á að koma farþegunum fljótt og örugglega á áfangastað, en svo virtist ekki vera.
Innan nokkurra mínútna hægði lestin á sér og stöðvaðist loks á Luxembourg stöðinni (B), en sú er í rúmlega eins kilómetra fjarlægð frá Port-Royal. Dyrnar opnuðust, fólk fór út og fólk kom inn, en svo gerðist ekkert utan það, að röddin hélt áfram að glymja í hátölurunum og fólkið hélt áfram að horfa hvert á annað og spyrja hvert annað, ef það skildi hvert annað, á annað borð. 
Við þær aðstæður sem þarna voru komnar upp var farin að renna, í það minnsta ein gríma á sexmenningana, en enginn var tilbúinn að kveða upp úr með hvað rétt væri að taka til bragðs, enda tímaþröngin ekki orðinn tilfinnanleg ennþá. Röddin talaði og á ljósaskilti fyrir utan lestina sá ég nú að stóð RER B (nafnið á lestinni) RETARD, en það kom og fór. (retard á frönsku merkir ekki að einhver sé seinþroska, heldur að um sé að ræða töf, sem á ensku myndi vera delay).  Fólkinu í lestinni fækkaði heldur meira en því fjölgaði og nú voru þeir sem rólegastir voru í okkar hópi búnir að ná sér í sæti, en hinir stóðu og störðu með óræðu augnaráði á umhverfið. Það var þó ekki erfitt að ímynda sér hvaða hugsanir það voru sem helst sóttu á huga þeirra.
Eftir 15 mínútna  kyrrstöðu á B kom flautið loks og í kjölfarið lokuðust dyrnar og lestin fór á hreyfingu. Næsta stöð var  St. Michel Notre Dame (C), en hún er nánast undir Signu, rétt hjá Vorrar frúar kirkjunni og þangað þokaðist lestin nú. Þessar lestar eru ógnar langar, líklega í það minnsta 70-100 metrar, og oftast sneisafullar af fólki. 

Svo sem við var að búast nam lestin okkar staðar á C, en þar er eitthvert fjölsóttasta ferðamannasvæði Parísar. Þar rétt hjá er áðurnefnd kirkja kroppinbaksins Quasimodo, Louvre safnið og Pompidou safnið og listamiðstöðin, svo eitthvað sé nefnt.  Dyrnar opnuðust, röddin glumdi og á skilti á vegg fyrir utan tilkynnti um RETARD. Nú fóru talsvert miklu fleiri farþegar út en komu inn. Við þessar aðstæður og þar sem það var að byrja að þrengjast um tíma virtist það vera að verða ljóst að það væri orðin þörf á aðgerðum af einhverju tagi. Ég spurði mann sem sat á móti mér, og sem greinilega skildi það sem röddin hafði yfir, aftur og aftur, hvort hann talaði ensku, sem hann kvaðst gera. Hann sagði að röddin réðlegði farþegum að fara úr lestinni og taka aðra lest (metró) sem myndi fara með farþega út á Gare du Nord (D). Viðmælandi minn sagði að röddin segði að bilunin fælist í einhverjum vanda við að stilla rauð ljós einhversstaðar og það væri einhverskonar umferðateppa lesta í neðanjarðargöngum. Það lá ekki fyrir hvenær úr þessu greiddist, en það væru meiri líkur á að komast á áfangastað með því að koma sér á lestarstöðina sem merkt er D á kortinu.

Það var svo einhverju síðar (mínútur voru að byrja að skipta máli, en óvissan um hvað bragðs skyldi taka yfirtók huga ferðalanganna og mínútutalningin lét því í minni pokann) að sú afdrifaríka ákvörðun var tekin að yfirgefa lestina með allan farangurinn og freista þess að finna lest sem færi með okkur á Gare du Nord (D). Að þessari ákvörðun tekinni, beindust sjónar ákveðið á lestafararstjóra hópsins, sem hafði pakkað lestakortinu sínu niður með öðrum farangri. Nú var ekki um annað að ræða en lesa skilti á veggjum. Og það var haldið af stað. 

Leiðin lá dýpra niður í jörðina í rúllustigum, svo upp aftur, svo niður aftur. Þar á milli voru gangar. Sexmenningarnir voru duglegir að telja, því ef einhver yrði viðskila vissi enginn hvernig það gæti endað. Fólksmergðin þéttist og allir virtust á sömu leið, niður í jörðina, upp úr henni og niður í hana aftur, enn neðar. Fremstur fór lestarfararstjórinn, sem eðlilega beindi allri sinni athygli að skiltum sem vísað gætu veginn. Hinir fylgdu á eftir og þurftu ekki að einbeita sér að neinu nema að missa ekki sjónar af leiðtoganum. Ekki leið á ofboðslega löngu áður en komið var í gang sem á var beygja og þarna rann mannmergðin eins og neðanjarðarfljót í gegnum enn eitt hliðið. Ég hafði það meginmarkmið að fylgjast með lestastjórnum og gætti þess að missa aldrei sjónar á honum. Ég hafði hinsvegar enga stjórn á því hver hratt ég færi, eða í hvað átt. Ég var hluti af fljóti sem liðaðst einhversstaðar undir stórfljótinu Signu. Á þessum tímapunkti vissi ég ekki hvar aðrir ferðafélagar en leiðtoginn voru staddir, treysti því að þeir fylgdu  okkur fast eftir. Loks komum við að áðurnefndu hliði, en þar var hægt að fara í gegn án þess að stinga miða í rauf, þó svo það væri einnig valkostur. Fyrir innan hliðið var síðan sæmilega stór salur og þar beið leiðtoginn nú eftir að við hin kæmum í gegnum hliðið. Ég kom og tveir aðrir, en þá vantaði tvær systur. Fólksstraumurinn rann í gegnum hliðið, en engar systur, það leið og beið. 
Höfðu þær tekið ranga beygju einhversstaðar?
Höfðu þær orðið viðskila hvor við aðara? 
Höfðu þær fyllst örvæntingu og hreinlega örmagnast í einhverju skoti? 
Höfðu þær kannski fundið lestina sem við leituðum að?
Þessum spurningum og fleirum verður svarað í næstu færslu.

04 nóvember, 2013

RETARD - vel dulin örvænting (1)

Það var mánudagmorgunn í París. Íbúðin okkar ferðafélaganna á Boulevard Montparnasse nr. 167 taldist vera orðin í viðunandi ástandi og allt okkar hafurtask komið í töskurnar. Það var komið að heimferð eftir afskaplega góða, en stutta og erfiða helgarferð. Framundan var að rölta 50 metrana út á lestarstöðina Port-Royal (merkt A), taka þar RER B lestina, sem síðan átti að flytja okkur út á Charles de Gaulle flugvöllinn (merkt E). Við vorum tímanlega í því, mætt á lestarstöðina kl. 8:45 til að við yrðum örugglega komin út á flugvöll þegar innritun skyldi hefjast kl. 10:15. Í þeim sex manna hópi sem þarna var um að ræða, var fólk sem á erfitt með að þola mikla óvissu, eins og margoft sýndi sig í skoðunarferðum helgarinnar, samanber það að algengasta spurningin var: "Hvað er svo planið?", jafnvel þegar það var ekkert plan. Þá var í hópnum aðeins einn sem bar skynbragð á það hvernig svona lestakerfi virka, og hafði ávallt við höndina bók með kortinu sem er hér til vinstri. Honum tókst ávallt, utan einu sinni að sjá til þess að hópurinn fyndi réttu lestina, en í þetta eina skipti var honum vorkunn, þar sem sú ferð var farin eftir langan og erfiðan dag, auk lítilsháttar smökkunar á rauðu Bordaux.  Á þessum morgni hafði hann pakkað kortabókinni niður með öðrum farangri, enda ekki um að ræða nema eina, einfalda lestarferð frá A (Port-Royal) til E (Charles de Gaulle) (bláa línan á kortinu).

Allt klárt, hópurinn kominn með miðana sína, sem voru keyptir í sjálfsalanum á Port-Royal. Þá var bara að renna miðunum í gegnum raufina á hliðinu inn í stöðina og bíða eftir lestinni. fD átti ekki í góðu sambandi við þessi hlið í ferðinni, sem orsakaðist af því, að eitt hliðið, snemma í ferðinni, hleypti henni ekki í gegn, en þá vildi svo illa til að hún var síðust til að beita miðanum og allir ferðafélagarnir komnir heilu og höldnu i gegn. Það má ímynda sér þá skelfingu að vera ein eftir á einhverri lestarstöð djúpt í iðrum Parísar. Auðvitað komst hún í gegn með hjálp góðra manna, en eftir þetta gerði hún ávallt þá skýlausu kröfu að vera meðal þeirra fyrstu úr hópnum til að fara í gegnum svona hlið, en ávallt bar allt fas hennar með sér nístandi kvíðann áður en miðinn fór í raufina og síðan ódulinn léttinn þegar hliðið hleypti henni í gegn.

Jæja, þá ætti allur bakgrunnur þess sem framundan var að vera klár. Hópurinn var klár, miðarnir keyptir, hver með sína tösku, fólkið farið að rifja upp gönguferðina sem beið, frá lestarstöðinni á flugvellinum út í Terminal 3 - það átti ekkert að geta klikka, enda hefði ástandið í hópnum verið talsvert þungbúið, ef einhverjir endar væru óhnýttir.

Miðunum var rennt í raufarnar á hliðunum í Port-Royal, og fD var meðal þeira fyrstu í gegn. Allir kátir. Fljótlega sáum við hvar lestin stóð við pallinn og því tókum við til fótanna til að missa ekki af henni. Opnar lestardyrnar buðu okkur velkomin og þear inn var komi var talið upp að sex. Allt pottþétt.

Ekki ætla ég að hafa orð á þeirri atburðarás sem fór gang í kjölfarið, fyrr en í næsta þætti þessarar frásagnar.

stey tjúnd.

26 október, 2011

Setið yfir í stærðfræðiprófi

Hver veit nema innan fárra ári verið glæpasagan mín - sálfræðitryllirinn á allra vörum.  Það kemur fyrir einstaka sinnum að ég tek að mér að sitja yfir hinum og þessum prófum - í morgun var það stærðfræði, sem er nú ekki beinlínis það sem ég er að velta fyrir mér dags daglega.
Ég hef það þannig við aðstæður sem þessar, að ég er með blað og skriffæri  og sé til hvað gerist.

Þetta var útkoman í morgun:

Eftir því sem tímar liðu varð erfiðara fyrir hann að takast á við illskuna sem kraumaði djúpt í sálarfylgsnunum. Hvert árið sem leið færði hann nær  þeirri óumflýjanlegu stund þegar hann gæti ekki lengur ..... haldið henni í skefjum. Hún vissi að hverju stefndi og bjó sig undir það, samviskulaus, hiklaus, þolinmóð, einbeitt ... að losna. Því lengri tími sem leið, því öflugri varð hún.
Hann óskaði þess með sjálfum sér, að hann hefði hleypt henni út strax og hann varð var við hana fyrst. Nú var það of seint. Með hverjum mánuðinum jókst þrýstingurinn.

Þetta er nú aldeilis skemmtileg byrjun á 600 síðna stórvirki.
Það virðist stefna í einstakalega frumleg efnistök.
Nú er bara að bíða eftir að komast á eftirlaun, væntanlega.

13 nóvember, 2010

Jólamaturinn - prósaljóð


Ég er bara að njóta dagsins með félögum mínum.
Lenti í því morgun að verða vitni að því þegar frændi minn var skotinn.
Ég held að ég hafi ekki vit til þess að vera að velta mér mikið upp úr því.
Það voru einhverjir menn að þvælast þarna uppi á Laugarvatnsfjalli, klæddir í felubúninga, væntalega til að við sæjum þá ekki.
Auðvitað reyndum við að komast í burt þegar þeir nálguðust okkur.
Það er nú bara í eðli okkar.
Við erum nefnilega ekki eins og frændfólk okkar, sem maðurinn geymir í búrum og notar eins og hverja aðra þræla.
Við erum frjáls, en mennina langar samt að ná okkur og nota.
Þeir virðast vera svolítið skrýtnir.
Þegar við fundum skotin þjóta framhjá okkur hvað eftir annað í morgun, ákváðum við bara að fara eitthvað annað.
Við vorum þarna eitthvað um 30 saman í hóp og ætli við höfum ekki verið svona 14 sem flugum af stað í austurátt, hin lágu alblóðug á jörðinni - sum ennþá með lífsmarki.

Þegar við vorum búin að  fljúga í svona 10 mínútur sáum við trjálund.
Þarna var einnig hús, ljóst á litinn með brúnu þaki.
Við renndum okkur þar niður því við sáum enga byssumenn neins staðar í nágrenninu.
Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir rétt við húsið kom reyndar bíll akandi.
Ég ákvað að vera ekkert að fljúga strax af stað, svona til að sjá hvað gerðist.
Þegar bíllinn hægði á sér, í staðinn fyrir að reyna að keyra á mig, vissi ég að þetta yrði allt í lagi.
Það fór fólk úr bílnum og inn í húsið.
Skömmu síðar kom maðurinn út aftur, með eitthvað dökkt í höndinni.
Ég sá strax að þetta var ekki byssa.
Þetta var bara myndavél.
Mér sýndist að það stæði EOS550 framan á henni.
Þetta var í lagi.
Ég ákvað að stilla mér fallega upp hjá nýju sorptunnuskýlinu.
Ég heyrði smelli, aftur og aftur.
Þetta voru góðir smellir.
Ég stóð kyrr á meðan ég heyrði smellina.
Það sama gerðu félagar mínir.
Hér vorum við örugg.
Ég veit að við förum aftur héðan innan skamms.
Upp til fjalla.
Þar sem mennirnir með byssurnar bíða okkar.
Ég veit ekki hversvegna við gerum þetta.
Það er svo sem ekki skrýtið.
Við erum nú einu sinni bara rjúpur.

25 ágúst, 2010

Fodboldgolf

Á ferð okkar um Middelfart og nágrenni bar það við, að ekið var framhjá því, sem heimamenn kölluðu 'FODBOLDGOLF' - sem væntanlega myndi verða þýtt sem KNATTSPYRNUGOLF (ég veit ekki hvort búið er að þýða GOLF á gott, íslenskt mál - kannski holuleikur). Þessa tegund íþrótta hef ég ekki orðið var við hér á landi, en þarna er, eins og allir geta séð, um að ræða sambland af knattspyrnu og golfi. Með öðrum orðum, þá á leikurinn sér stað á velli sem er nokkuð svipaður golfvelli: það er teigur, þaðan sem knettinum er spyrnt, síðan tekur við braut, sem oft felur í sér hindranir af einhverju tagi og loks er flötin, þar sem er að finna holu sem er sem næst 60 cm í þvermál og upp úr henni stendur fáni með númeri holunnar. Leikurinn felst síðan í að nota sem fæstar spyrnur frá teig í holu.

Heimamenn, Kvistholtstengdir, ákváðu í samráði við okkur fD, að skella sér einn hring á þessum sérstaka velli. Það var mín ákvörðun að sjá um ljósmyndun af helstu afrekum, en fD fékk það öfundsverða hlutverk að hafa ofan af fyrir ungum sveini.

Ég velti fyrir mér hvort fyrirkomulagið sem notað er við að selja inn, myndi ganga upp á föðurlandinu, en það var bara þannig að menn fylltu ú blað með fjölda þátttakenda og settu það síðan, ásamt tilgreindri upphæð, í umslag, sem síðan var sett ofan í rammgerðan kassa. Ég dáðist talsvert að þessu trausti sem Danir sýndu hver öðrum með þessu, og það var ekki fyrr en við vorum að yfirgefa völlinn að leik loknum, að ég áttaði mig á eftirlitsmyndavélinni sem fylgdist náið með öllu sem fram fór.

Hvor leikmaður fékk sér tvo knetti, og vagn, þar sem þeir voru geymdir milli spyrna. Síðan hófst leikurinn.
Mér varð það fljótt ljóst, að ef ég hefði verið þátttakandi í leiknum, hefði ég borið höfuð og herðar yfir leikmennina sem þarna léku. Mér er líklega dálítið svipað farið og gamla unglingnum; mér finnst ég enn ráða fyllilega við þær aðstæður sem ég réði eitt sinn auðveldlega við.

Leikurinn hafði sinn gang. Leikmennirnir náðu misgóðum árangri í leik sínum, en þó mátti sjá þolanleg tilþrif.  Mér fannst þó að betur hefði mátt gera.

Ég mundaði EOSinn minn nýja og smellti af í gríð og erg, enda vissi ég og veit, að myndir segja meira en þúsund orð.

Það hvarflaði að mér að það gæti verið gaman að setja svona völl upp í Laugarási, enda um að ræða íþrótt fyrir fólk á öllum aldri.


Hér var 'holan' mark með múrvegg fyrir framan
'Íþróttastilling' EOS - frysti knöttinn
2 sekúndum síðar lá knötturinn í miðri tjörn
Stefnan gæti verið betri
Neðst til hægri er árangur annars leikmannsins

Þarf vart að taka það fram, að sé smellt á myndir þá stækka þær talsvert.

20 ágúst, 2010

Engilshólmshöll

Eftir Þýskalandsdvölina tóku Kvistholtstengdir Danir við okkur í Flensburg og báru síðan hitann og þungann af dvöl okkar í Danaveldi í vikutíma, eða svo. Margt tóku menn sér fyrir hendur, og ekki verða því öllu gerð skil hér, heldur birtar nokkrar minnismyndir.
Ef grannt er skoðað má sjá, að þumalfingur vinstri handar
bendir upp á við í stórum dráttum.
Í baksýn er Engilshólmshöll

Engilshólmshöll (Engelsholm Slot) stendur því sem næst á miðju Jótlandi og hefur tengst Kvisthyltingum um nokkurt skeið sökum þess, að þar er starfræktur skóli fyrir fólk sem leggur fyrir sig að koma frá sér, með einhverjum hætti, hugarstarfi sínu, eða hugarórum, í einhverju formi, hvort sem um er að ræða léreft, pappír, gler, járn, stein, eða ennað efnislegt eða efnislaust.
Þarna sést til þeirra bygginga (sem sjálfsagt hafa gegnt
hlutverkigripahúsa áður fyrr) sem hýsa listsmiðjur.
Í tilefni af stórafmæli fD varð það úr, að hennar næsta fólk sameinaðist um að stuðla að því að þangað færi hún til að efla sig í myndrænni tjáningu. Í kjölfar þess kom það sem allir þekkja: hrunadans íslensks þjóðfélags, sem enn er dansaður af fullum krafti. Því varð ekkert úr að fyrirhugaður afmælisglaðningur næði að fullkomnast og leiða til aukins listræns þroska og færni gjafarþegans.
Það þótti ekki vitlaus hugmynd, þrátt fyrir máttlítil mótmæli fD, að leggja lítilsháttar lykkju á leið um hinar jósku heiðar, að freista þess að renna í hlað að Engilshólmi og kanna þar með hvort þar væri um það að ræða sem hugmyndir höfðu lotið að.
Hér var málað af miklum móð.
Það varð ljóst þegar nálgaðist höllina, að hún er sérlega falleg í dáindisgæsilegu umhverfi. Ekki varð annað fundið en fyrrverandi afmælisbarni litist sérlega vel á allt sem þarna bar fyrir augu, enda fengum við að leiðsögn um höllina sjálfa og máttum síðan fara hreint um allt til að kynnast enn betur því starfi sem þarna er unnið. Í málningarhúsinu varð á vegi okkar Íslendingur, sem þarna var öðru sinni á námskeiði, sem dásamaði hóflítið staðinn og námið. Sérstakleg held ég að það hafi verið frásögnin af rauðvínslistakvöldunum, sem varð til þess að fD heillaðist endanlega.
Nú er framundan tímu umþenkingar og skipulagningar, sem væntanlega lýkur með því að Kvisthyltingurinn fer til einhverra vikna dvalar á þessum dýrðarstað.
Ég get nú sjálfur alveg hugsað mér að eyða þarna einhverjum tíma við listsköpun, svona þegar sá tími rennur upp, sem nálgast óðum, að formlegu ævistarfi ljúki. Hver veit.
Feðgarnir komust í snertingu við náttúruna á hlaðinu við höllina.

16 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (3)


..framhald


Þó svo ég hafi, þegar hér var komið, verið orðinn talsvert öruggur með sjálfan mig þegar um var að ræða akstur erlendis, vantaði enn nokkuð upp á að ég væri tilbúinn að keyra bara si svona inni í einhverri borg sem ég hafði aldrei komið til áður. Það gæti alltaf komið upp sú staða sem GPS græjan gæti ekki bjargað mér út úr. Þessu stóð til að breyta áður en leigutími BMW-sins væri úti.
Næsta skref tók ég fljótlega, þegar ferð okkar og Görlitzanna lá til Dresden, í um 100 km fjarlægð. GPS-inn var bara stilltur á sænsku húsbúnaðarverslunina í þeirri borg og síðan var keyrt af stað. Auðvitað lauk ferðinni á áfangastað, nákvæmlega eins og til stóð. Mér leið eins og ég væri orðinn ósigrandi í borgarakstri erlendis, en það dugði þó ekki til þess að ég tæki að mér að aka niður í glæsilega miðborg (gömlu borgina (reyndar endurbyggða, enda vita flestir að Dresden var lögð gjörsamlega í rúst í lok seinni heimsstyrjaldar)). Ég afréð hinsvegar að sjá um aksturinn til baka, auðvitað eins og ég hefði aldrei gert neitt annað - enn orðinn öflugri bak við stýrið.

Nú var svo komið, að ég nánast hlakkaði til 700 kílómetra akstursins sem framundan var, en hann var þannig til kominn, að um var að ræða ódýrustu aðferðina til að komast til ríkis Danadrottningar. Upprunalega var áætlunin sú, að skila bílnum í Berlín, sem var, svona eftir á að hyggja, harla vanhugsað. Því var skilastaðnum breytt yfir í Flensburg, rétt fyrir sunnan landamærin að áðurnefndu konungsríki.

Dagurinn kom, þegar Görlitz og Kvistholtstengdir íbúar hennar/þess voru kvaddir og við fD héldum í norðausturátt, á BMW jeppatryllitækinu. Hvað sem upp á kynni að koma yrðum við að leysa sjálf. Allt traust var sett á GPS-inn og BMW-inn og - auðvitað mig (og auðvitað fD). Stysta leiðin sem staðsetningartækið fann hljóðaði upp á 682 km. Mér var svo sem ekkert ljóst hver þessi leið var, utan það að hún hófst á því að keyra til baka sömu leið og við höfðum komið frá Berlín.

Fyrsti hluti ferðarinnar, sveitavegurinn út á hraðbrautina, fól í sér sömu flækju og áður og lausnin fólst enn í því að ögra GPS-num með því að keyra bara eitthvert út í buskann. Eftir það bar fátt til tíðinda fyrr en GPS-inn tilkynnti að innan einhverra kílómetra væri mér ætlað að skipta um hraðbraut. Allt í lagi með það. Það fór hinsvegar aðeins um mig þegar mér varð ljóst að þessi nýja braut beindi okkur beint í norðaustur með skilti sem vísuðu á Frankfurt and der Oder - sem er við landamærin að Póllandi. Hér var um að ræða svakalega fína, þriggja akreina braut. Mér til léttis leið ekki á mjög löngu áður en brautin tók að sveigjast meira til norðurs, síðan norðvesturs og loks alveg í vestur. Þegar síðan birtust skilti sem bentu til að Berlín væri ekki allfjarri, til suðurs, var orðið ljóst að GPS-inn var bara að fara með okkur framhjá umferðartöfum í kringum Berlín.  Meðan á þessum óvissutíma stóð hafði ég haldið nokkuð aftur af mér, að því er varðaði aksturshraða, en í fullvissu þess, að nú værum við örugglega á réttri leið, leyfði ég bensínfætinum að nálgast gólfið æ meir.
"Þú ert kominn á 142 kílómetra hraða!"
Fram til þessa hafði fD ekki fjallað mikið um hraðamálin, enda hafði hún smám saman vanist því að bílar væru frekar að fara fram úr BMW-inum en öfugt. Ég skynjaði að það var ekkert sérlega mikil skelfing sem fólst í þessari yfirlýsingu, þannig að ég hélt uppteknum hætti hvar sem hægt var. Það var bara á einhverjum illþolandi tengivegum (eins og þjóðvegur 1) sem ég neyddist til að slá af ferðinni. 

Ég ætla ekki að skafa utan af því, en þarna fæddist ég sem fullþroskaður hraðbrautaökumaður og fann ótvírætt fyrir því hvernig aðrir ökumenn á brautinni fylltust lotningu þegar ég nálgaðist í baksýnisspeglum þeirra, og viku umsvifalaust til að hleypa mér fram úr. Ef þeir hefðu nú bara vitað að þarna var á ferð miðaldra íslenskur sveitamaður!?

Það þarf ekki að fjölyrða um framhaldið, allt gekk eins og í sögu, utan það að mér var ætlað að skila BMW-inum með fullan tank af eldsneyti. Þarna vorum við að renna inn í Flensburg, sem við höfðum aldrei heimsótt áður, og þurftum að finna bensínstöð áður en GPS-inn leiddi okkur upp að dyrum hjá bílaleigunni SIXT. Auðvitað mundi ég þá eftir fídusnum á GPS-græjunni sem hjálpar manni að leita að ýmsu í nánasta umhverfi sínu. Viti menn, hann fann bensínstöð í 700 m fjarlægð (tók reyndar 1,5 km að keyra þangað). 
Með fullan tank renndum við inn á bílaleiguna og það var með blendnum tilfinningum að ég setti lyklana í næturhólfið. Þær breyttust þó fljótt, því þarna á hlaðinu biðu Danirnir okkar þrír og þeir brunuðu með okkur norður á bóginn til heimabæjar síns við Litlabelti.

Ég tel víst að það verði ekki löng bið eftir því að þessi Kvisthyltingur bruni um evrópskar hraðbrautir á ný.


Myndirnar á þessari síðu eru frá Dresden, en vegna spenningsins í tengslum við aksturinn sem framundan ver, gleymdist EOS-inn heima. Þess í stað notaði ég bara Nokiuna. 

15 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (2)


Til þess að tryggja það, í það minnsta, að ég færi ekki að villast á vegum Evrópu, hafði ég sem sagt fest kaup á, væntanlega með ólögmætum hætti, svokallað GPS tæki. Auðvitað fór ég ekkert að kaupa neitt drasl. Fyrir valinu varð tæki með stórum skjá, því ekki var tekin áhætta af því að ég sæi ekki auðveldlega allt sem það leiðbeindi mér með. Hér má sjá græjuna (1490T):


Fyrsti akstur minn á erlendri grund gekk vel á umræddum sunnudagsmorgni, enda leiðin harla einföld, nánast bara ein beygja alla leiðina og umferðin nánast engin. Þarna ók ég á bílaleiguna og aftur til baka án þess að gera nokkur akstursleg mistök, enda umferðarreglur samsvarandi því sem gerist hérlendis.

Vaskur hópur fyllti á vöruflutningabílinn og það var haldið af stað til Görlitz. Danska fjölskyldan hélt heimleiðis eftir að snætt hafði verið á veitingastað sem ég horfi yfirleitt framhjá, en þarna var mikilvægara að aka auðveldar leiðir en að finna viðurkennda veitingastaði. Berlínarfjölskyldan mannaði vöruflutningabílinn og við fD fylgdum í humátt á eftir, margtryggð fyrir mistökum af einhverju tagi: með vanan ökumann í vöruflutningabíl á undan og glæsilegt GPS tæki sem sagði til um það með bæði myndrænt og með hljóði, hvar og hvenær hitt og þetta gerðist eða ætti að gerast. Þetta var allavega fyrirkomulagið meðan ekið var út úr Berlín.

Hraðbrautin í suð-suð-austur frá Berlín var framundan. Ekki var laust við örlítinn kvíðasting í tengslum við tilhugsunina um að hefja akstur á takmarkalausum hraða, en á hraðbrautum Þýskalands er algengara en ekki, að engin séu hraðatakmörkin. Það þarf nú ekkert að fjölyrða um það, en innkeyrslan á hraðbrautina gekk eins og í sögu: við stöðugt í humátt á eftir vöruflutningabílnum, annars vegar til að tryggja að rétt væri ekið og hinsvegar til að vera viss um að GPS tækið vísaði okkur rétta leið. Eftir aksturinn út úr Berlín þótti mér það orðið ljóst, að GPS tækið virkaði eins og til stóð og því þótti mér ekki líklegt annað, en að það myndi koma okkur hina réttu leið á áfangastað. Þá er það einnig svo, að vöruflutningabílar eru ekki hannaðir til hraðaksturs af því tagi sem þarna var. Þegar ég var búinn að aka á eftir vöruflutningabílum allgóða stund, á hægri akgrein og aldrei nema í 5 gír, fór mér smám saman að aukast þor, sem eðlilegt var, því þarna var umferðarhraðinn með talsvert öðrum hætti en maður á að venjast. Á eftir vöruflutningabílnum fór hámsrkshraðinn nánast ekki yfir 110 km/klst, en það þótti bílstjóranum í farþegasætinu heldur mikið og tjáði það svo ekki varð misskilið.
Þar kom, að ég tók þá afdrifaríku ákvörðun að skella mér fram úr vöruflutningabílnum, við misgóðar undirtektir annarra farþega. Að hluta til var ákvörðunin tekin þar sem ég er mikill ævintýramaður í eðli mínu og langaði að njóta óvissunnar sem hraðbrautin framundan bæri í skauti sér. Hinsvegar fannst mér ótækt, að athuga ekki hvernig færi ef BMW-inn væri settur í sjötta gír.
Ég sveiflaði tækinu yfir á vinstri akgrein og þá varð ekki aftur snúið. Sett í sjötta gír og hraðamælirinn sýndi stöðugt aukinn hraða. Ég lét ekki segjast þó svo setningar eins og "Ég vil benda þér á að þú ert kominn í 120" eða "Er þetta nú ekki að verða alveg nóg?" bærust mér til eyrna með reglulegu millibili.
Í stuttu máli gekk aksturinn glimrandi vel eftir hraðbrautinni, en framundan var síðan það sem þarna er kallað: sveitavegur, sem er sambærilegt við þjóðveg 1 á Íslandi. Allt gekk eftir og ekkert mál reyndist að skella sér af hraðbrautinni yfir á sveitaveginn. Þegar þarna var komið fannst okkur ekki úr vegi, að  æja á einhverjum góðum veitingastað til að skella í okkur eins og einum kaffibolla. Það gekk vel og fyrsta sinni hlýddi ég ekki fyrirmælum GPS tækisins um að aka áfram. Hvíldin var vel þegin og kaffið gott. Vöruflutningabíllinn var löngu horfinn úr baksýnisspeglinum, en þar sem við sátum í makindum við þjóðveginn, kom að því að hann ók framhjá með Berlínarfjölskylduna innanborðs.

Það sem eftir var leiðarinnar til Görlitz gekk hreint ágætlega fyrir utan tvennt:
1. Það lá tré þvert yfir veginn á einum stað. Þessu hafði GPS græjan ekki gert ráð fyrir og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá uppgefna aðra leið krafðist hún þess að tekin skyldi U-beygja svo fljótt sem auðið væri og farin sama leið.  Það var ekki fyrr en sú ævintýralega ákvörðun var tekin, að hunsa græjuna alveg og keyra bara einhvern veg, að hún leiðbeindi okkur eftir nýrri leið.
2. fD hafði misreiknað í huga sér þær vegalengdir sem um var að ræða og hafði um það orð.

Við renndum síðan í hlað á Biesnitzerstrasse númer 31, á undan vöruflutningabílnum, sem reyndist hafa þurft að taka á sig lengri krók vegna trésins á veginum.

Nú var sú staða orðin uppi að mér fannst lítið mál að aka bifreið á evrópskum vegum, og var rétt að byrja.

10 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (1)

Það lá fyrir s.l. vetur, að ekki yrði hjá því komist, miðað við tilhögun og skipulag Evrópuferðar okkar fD, að ég æki bíl á evrópskum vegum. Til þessa hef ég komið mér hjá þessu, heldur aldrei verið nauðsyn á, þar sem ferðir hafa verið skipulagðar miðað við engan akstur minn. 
Ég held að ég hafi nú samt alltaf séð fyrir mér, að að þessu hlyti að koma, enda búinn að fá mér nýtt, samevrópskt ökuskírteini fyrir nokkrum árum. Samkvæmt því er mér heimilt að aka risastórum vöruflutningabíl með tengivagn um Evrópu þvera og endilanga, ef ég svo kýs (væri nú gaman að láta á það reyna einhverntíma).
Nú var það, sem sagt uppi, að Berlínarfjölskyldan stefndi á flutning strax eftir tónleikana sem ég er búinn að fjalla um í þrem pistlum. Áfangastaðurinn var bær, austast í Þýskalandi, á landamærunum við Pólland, sem Görlitz kallast, í ríflega tveggja klukkustanda akstursfjarlægð frá Berlín. Berlínarbóndinn hugðist taka á leigu vöruflutningabíl og aka honum sjálfur með búslóðina á áfangastað. Við fD höfðum tekið að okkur að aðstoða eftir mætti við aðgerðina, en þá var strax ljóst, að það yrði ekki pláss fyrir okkur í vöruflutningabílnum, heldur yrðum við að koma okkur á öðrum bíl, með farangur, þangað austur eftir. Ekki var um það að ræða, að fD kærði sig um að sjá um aksturinn, þannig að fyrir lá, með nokkurra mánaða fyrirvara hvert stefndi með málið. Það varð úr, að ég fól Berlínarmanninum að taka á leigu bíl vegna þessa. Ákvað með sjálfum mér, að þetta færi bara einhvernveginn þegar að því kæmi.
Aðspurður hvernig bíl ég vildi leigja, taldi ég nauðsynlegt að hann væri með gott skott til flutninga, kannski jeppi bara, kannski bara Nissan Xtrail - ég hafði heyrt að nýjustu árgerðir af þeim bíl væru nokkuð rúmgóðar (ástæðan var auðvitað ekki sú, að ég ætti slíkan bíl og væri því vanur honum). Það heyrði ég á Berlínarmanninum, að ekki þótti honum valið viturlegt, taldi vélina ekki nógu öfluga fyrir þýskar hraðbrautir, þar sem enginn væri hámarkshraðinn. Hann taldi betra að taka bíl með öfluga vél, sem ætti séns, auk þess sem hann eyddi minna eldsneyti vegna minni snúningshraða vélarinnar. Hvað um það, ákveðið var að taka á leigu Nissan Xtrail.
Ekki ætla ég að fjölyrða um hugrenningar mínar síðustu mánuðina, að því er bílaleigumálið varðar. Margt hugsaði ég, eðlilega og kynnti mér þýskt vegakerfi eftir föngum.


Sá dagur kom, að við komum til Berlínar og þá kom í ljós, að ekki höfðum við fengið Xtrail, eins og óskað hafði verið eftir, heldur kolsvartan jeppa af gerðinni BMW X3 með dísilvél; 6 gíra tryllitæki. Mig grunar nú, að B-maðurinn hafi bara ákveðið að segja mér að hinn hafi ekki verið á lausu. Fyrstu dagana kom ég mér auðveldlega undan því að taka í gripinn, en stundin nálgaðist óðum. Fyrirhugað var að ná í vöruflutningabílinn á sunnudagsmorgni, inn í miðja Berlín. Þá varð þetta ekki umflúið lengur. Ég sá fyrir mér Þjóðverjana hrista höfuð sín af krafti yfir vitleysislegum akstursmáta mínum, en varð þó að viðurkenna að betri tími til að hefja borgaraksturinn væri ekki hægt að hugsa sér.

Sunnudagurinn rann upp og hópur fólks kominn til að bera búslóðina út í vöruflutningabílinn. Ég tók að mér (ekki aðrir valkostir) að aka á bílaleiguna þar sem hann skyldi sóttur.  

Ég hafði, sem forsjáll maður, gripið til ráðstafana sem myndu auðvelda nokkuð þá nýju reynslu, sem hér blasti við.

05 júní, 2010

118 klikkar

Það stóð þannig á í líðandi viku, að ég þurfti að komast milli landshluta og kaus að ferðast með flugi frekar en nýta mér þjóðvegi. Á Sauðárkrók þurfti ég að komast, en þangað flýgur flugfélag sem kallast Ernir. Ekki ætla ég að fjölyrða um kaup á farmiða, þó það sé í sjálfu sér efni í pistil, heldur bara það sem gerðist að morgni þess dags þegar flugið átt sér stað. Brottför var sett á kl. 08:00 að morgni, sem þýddi að ég þurfti að vera talsvert snemma á fótum. Hélt af stað tímanlega, enda annálaður fyrir stundvísi í hvívetna. Þar sem ég ók niður Grímsnesið, fór að allt í einu að hugsa, sem virðist gerast æ sjaldnar, að því er virðist. "at það hugsanlega átt sér stað, að Flugfélagið Ernir fljúgi frá einhverri annarri flugstöð við Reykjavíkurflugvöll, en Flugfélag Íslands? Það var eitthvað sem olli því að ég fór að hugsa eftir þessum brautum. Mér var það jafnframt ljóst, að ekki hefði ég tíma til að fara að leita að mögulega annarri flugstöð í kringum flugvöllinn. 


Við þessar aðstæður greip ég til þess ráðs að hringja í símanúmerið sem á að leysa öll okkar vandamál: 118. Þjónustunni er lýst svo á já.is:

Við veitum þjónustu allan sólahringinn í símanúmerinu 118 / 1818. Þar færð þú upplýsingar um: 

  •      • Síma-, farsíma- og faxnúmer
  •      • Nöfn og heimilisföng skráðra símnotenda
  •      • Netföng og heimasíður
  •      • Gulu síðurnar
Að auki veita þjónustufulltrúar okkar í 118 / 1818 ýmsar aðrar upplýsingar sem nýtast í dagsins önn.


"118, góðan dag."
"Já, góðan dag. Gætirðu sagt mér hvor Flugfélagið Ernir flýgur frá sömu flugstöð og Flugfélag Íslands?"
"Augnablik......... Hérna hjá mér kemur bara fram, að það sé á Reykjavíkurflugvelli."
"Þú getur sem sagt, ekki fundið út úr þessu?"
"Neiiii... augnablik........... Erna, veist þú hvort... o.s.frv.?"
"Neeeeiiiii -" heyrðist kvenmannsrödd segja í bakgrunni.
"Nei, því miður þetta get ég ekki sagt þér. Á ég ekki bara að gefa þér samband?"
"Jú, takk."
Hér átti ég nú að vera farinn að hugsa dýpra, en vegna aðstæðna minna, frekar seinn, sem sagt, datt mér ekki hið augljósa í hug: að biðja þessa góðu konu að fara á ja.is og sjá fyrir mig á korti hvar téð flugfélag væri til húsa. En hugsun mín náði ekki svona djúpt við þessar aðstæður. 
Nú, þegar klukkan var korter yfir sjö, og ég uppi á Hellisheiði, hringdi síminn sem já konan ætlaði að gefa mér samband við.
"Þetta er sjálfvirkur símsvari hjá Flugfélagi Íslands. Við getum ekki tekið símann þar sem við erum að afgreiða flugvél. Vinsamlegast hringdu í .....eitthvað annað númer" ..... sem ég síðan hringdi í og þá gerðist þetta:
"Þetta er sjálfvirkur símsvari hjá Flugfélagi Íslands. Skrifstofan er opin frá kl. 9 til 18 virka daga."

Neyðin kenndi mér við þessar aðstæður, að dýpka hugsun mína, og ég fór með þeim hætt yfir stöðu mála. Niðurstaða þeirra pælinga varð sú, að hringja aftur í 118.
"118, góðan dag."
"Gætirðu gefið mér samband við Flugfélagið Erni?"
"Augnablik..... gjörðu svo vel.."
"Flugfélagið Ernir, góðan dag....."

...og málið leystist þar með. Eins gott að ég fór ekki út að flugstöð FÍ.

Nú er spurningin sem ég hef velt fyrir mér: Hvort klikkaði, ég með því að biðja ekki strax um númerið hjá Flugfélaginu Örnum, eða 118 - konan sem gat ekki fundið staðsetninguna eins og um var beðið.

28 febrúar, 2010

Menningarhvað


Hófleg menningarneysla heldur manni við efnið, en gerir mann aldrei saddan. Það er fínt að vita af allri þeirri menningu sem, borin er á borð. Það er síðan undir manni sjálfum komið hve mikils maður vill neyta af krásunum þeim.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst menningarást ákveðinna einstaklinga ganga nokkuð úr hófi og að hún hljóti að vera farin að ganga á líf þeirra að öðru leyti.

Þegar ég er hér að tala um menningu notast ég við þá skilgreiningu á fyrirbærinu, sem snýst um það þegar einstaklingur, eða hópur einstaklinga gerir eitthvað, eða býr til eitthvað sem aðrir einstaklingar eiga síðan að njóta. Í þessum tilvikum finnst mér að gerendurnir hljóti að fá mest út úr aðgerðinni, en hinir njóti um stund, en séu síðan jafn nær nokkru síðar.

Menningu má einnig skilgreina með miklu víðari hætti en ég hef gert hér að ofanþ Þetta er auðvitað öllum ljóst. Þegar ég ákveð t.d. að aka bilaðri bifreið minni 40 km leið til að koma henni á verkstæði, þá er þar á ferðinni ákveðinn menningarkimi, eða jafnvel menningarstefna, sem jafnvel má gefa nafnið 'bílviðgerðaandúðarstefna'. Það sama má segja um flest það annað sem gert er.

Nú er fjarri því að ég vilji gera lítið úr þeirri menningu sem ætluð er til þess að aðrir geti notið hennar, heldur eingöngu að benda á það að við getum öll talist jafn 'menningarleg' þó svo við stundum ekki mikið af myndlistarsýningum, tónleikum eða leiksýningum.

Það er auðvitað ekki svo, að með ofansögðu sé ég að finna mér afsökun fyrir því hve óduglegur ég (og þá væntanlega fD líka) er við að sækja menningarlega viðburði, heldur eingöngu það, að ég vil telja mig mikinn menningarpostula jafnvel þó ég (og þá væntanlega einnig fD) ástundi ekki í ríkum mæli viðburði sem almennt teljast til menningarviðburða.

Þetta gerðist þó í gærkvöldi.

Eftir töluvert mikinn aðdraganda, sem verður að skrifa á það nútímalega einkenni fólks sem kalla má 'oranizational overload', eða 'skipulagningarofhleðslu', tókst svokölluðum 'Gullaldargellum', sem er hópur sem fD tilheyrir (samanstendur af miðaldra konum, sem eitt sinn unnu saman í leikskólanum Álfaborg), að finna tíma þar sem allar gætu farið saman í leikhús. það var auðvitað aukaatriði hvort viðhengi þeirra kæmust, en auðvitað var það svo, að þar var ekki mikið um val, eða þannig.


Leikverkið sem stefnan var sett á, var 'Undir hamrinum', sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstunga setur á svið í Aratungu um þessar mundir.
Auðvitað var búið að gera úr ferð þessari heilmikinn pakka, sem fólst í leikhúsmáltíð í Hamrinum, nei Klettinum, ásamt leiksýningunni og síðan tilteknu framhaldi.

Eins og von var á, settu náttúruöflin nokkuð breitt strik í reikninginn með því að ein 'gellan' var veðurteppt á höfuðborgarsvæðinu (reyndar viðhengi hennar einnig, þó það sé auðvitað ekki stóra málið hér), eins og virðist vera regla fremur en undartekning þegar blásið er til samverustunda þessa tiltekna hóps.

Leikhúsmáltíðin á Klettinum reyndist verða með nokkuð öðrum hætti en vonir höfðu staðið til, en þannig var, að þennan sama dag hafði Hestamannafélagið Logi blásið til skemmti- og fræðsluferðar um Biskupstungur. Þessi ferð fólst í sem stystu máli í því, að áhugamenn um hross söfnuðust saman í fólksflutningabifreið og óku sína um sveitina og heimsóttu valda hestamenn

heim.

Það fór auðvitað þannig, að ótæpilegar veitingar voru bornar á borð fyrir ferðalangana á þeim fimm bæjum sem heimsóttir voru, með þeim afleiðingum, að rólegheita, lágstemmda leikhúsmáltíðin á Klettinum, varð heldur fjörugri og hástemmdari en til stóð, en hestamannahópurinn endaði ferðina einmitt með kvöldmáltíð á umræddum veitingastað.
Ekkert er þó út á viðurgjörninginn þann sem í magann fór, að setja.

Þá var næst á dagskrá leikhúsferðin sjálf.


Leikverkið sem um ræðir, 'Undir hamrinum', reyndist vera hið kostulegasta og byggist á minnum úr sveitamenningu landans, þar sem ýmislegt viðgekkst, að því er mér skildist, sem ekki er hægt að fjalla um þegar um er að ræða að halda á lofti gildum menningarinnar sem skóp þetta land. Þarna er ótæpilega vegið að prestastéttinni og almættinu sjálfu, ásamt konum og körlum.

Ef þetta leikverk vísar að einhverju leyti í raunverulegt líf fólks á fyrri tímum, þá kemur manni fátt á óvart í nútímanum.
Það er í sjálfu sér aðdáunar- og virðingarvert hve hópurinn sem þarna flögraði um fjalirnar leggur á sig til að færa okkur skemmtan aftur og aftur. Það er samt ekkert sérstaklega undarlegt, því þeim ber engin skylda til að standa í þessu og ekki eru það hin veraldlegu laun sem þau eru að sækjast eftir. Það veit ég af eigin reynslu, að þetta er bara svo óskaplega gaman, bæði það að undirbúa svona verkefni og að fá þakkirnar fyrir.

Ekki ætla ég að fara að gera upp á milli leikaranna, en þeir komu vel til skila því sem líklegast er boðskapur þess verks. Því er þó ekki að neita, að það ríkti nokkur spenna um það, eftir upplýsingar sem fengist höfðu undir borðhaldinu fyrir sýninguna, hvort einn tiltekinn leikari yrði fyllilega með sjálfum sér. Hann reyndist hafa fulla stjórn á hlutverki sínu.

Ef ti sýninguna var aftur komið að samverustund 'Gullaldargellanna', en um hana fjölyrði ég ekkert, hún var bara ágæt og hin siðsamasta.

Kærar þakkir til leikdeildar fyrir skemmtunina.
Ég fór í menningarreisu.

23 febrúar, 2010

Verulega pirraður, en staðfastur (2)

Já, ferðin á Selfoss. 42.3 km á áfangastað. Úr því það kviknaði ekki í bílnum þegar ég kom úr vinnunni á þessu hraða sem ég nefni ekki, þá hlaut að vera í lagi að keyra á svona 60, sem ég síðan gerði, með þeim afleiðingum að eftir um 10 km akstur, fór stýrið að titra. Ég stöðvaði ökutækið til að athuga ástandið. Það reyndist eins og ég hafði keyrt á xxx km hraða síðast. ég ákvað að taka þessu bara rólega, og til að kæla bremsudiskinn, drap á bílnum og sat þarna um stund, þótti það leiðinlegt og ákveð þess í stað að lækka meðalhraðann í svona 45-50. Renndi niður glulgganum til að fylgjast betur með mögulegum óhljóðum, en þá gaus fnykurinn framan í mig. Stöðvaði aftur eftir 6 km - til kælingar, en það var ekkert orðið neitt skemmtilegra, ákvað að lækka meðalhraðann enn, niður í 40. Einhverja kílómetra ók ég þannig, en þá tók ég eftir því að hitamælirinn sem sýnir útihita, sýndi +7°C, en það var í raun um það bil -4°. Stöðvaði aftur, og ætlaði nú að láta mig hafa það að sitja bara og bíða í rólegheitum þar til bremsudiskurinn hefði kólnað. Það gekk ekki að taka áhættu á því að kviknaði í öllu saman! Þessu sinni snerti ég diskinn með fingurgómi, með þeim afleiðingum að ég skaðbrenndi mig.
Þetta hlé á akstrinum varð nú ekki mikið lengra en hin fyrri, ég komst að þeirri niðurstöðu, að það væri alveg eins gott að dóla það sem eftir var leiðarinnar á 25-30. Sem ég síðan gerði. Það breytti engu um það að itinn sem útihitamælirinn sló í +13° þegar hæst lét, án þess raunhitinn hefði breyst.

Ferðin á Selfoss tók einn og hálfan klukkutíma, þar sem ég sýndi mínar bestu hlitar sem tillitssamur bifreiðastjóri, hleypti öllum fram úr þannig að þeir yrðu fyrir sem minnstum óþægindum af aksturslagi mínu. Þar sem ég átti eftir um 15 km ók fD framúr, hnarreist á Corollunni, en hún lagði af stað niðureftir um klukkutíma á eftir mér.

Það var nokkur léttir að komast á áfangastað á óbrunninni bifreið.
Nú var ekkert annað að gera en vona að reikningurinn yrði ekki svívirðilega hár.

-------------------------------

Í dag lá síðan leið á Selfoss aftur. Eftir nokkra óvissu fregnaði ég, að það stefndi í að viðgerð lyki, og það stóðst,

Reikningurinn? Já hann er hér:


Hver er niðurstaðan? Ekki gott að segja, nema það þá helst, að viðurkenna það að þessa mánuðina hljóti það að teljast lúxus að eiga bíl.




22 febrúar, 2010

Verulega pirraður, en staðfastur (1)

Það má segja að ég lifi samkvæmt þeirri reglu (það er ekki eina reglan), að þegar um það er að ræða að fólk sé búið að mennta sig til einhvers, þá sé það rétta fólkið til að sinna ýmsu því sem fyrir mig kemur og sem ég er ekki menntaður til. Auðvitað á reglan ekki við þar sem ég get sjálfur sinnt viðkomandi máli fullkomlega sjálfur, og ég verð að viðurkenna, að slík tilvik eru mörg.

Þegar kemur að bílaviðgerðum af einhverju tagi þarf ég ekki einu sinni að hugsa mig um áður en ég panta tíma á verkstæði, og greiði gjarnan fyrir það ógrynni fjár, en ætlast þá til þess að allt sé í lagi þegar ég nálgast bifreiðina að viðgerð lokinni.

Ég neita því ekki, að í talsverðan tíma hef ég tekið eftir því að svartleitt duft hefur legið yfir annarri framfelgunni á eðalbifreið minni. Ég hef kosið að telja þetta hið eðlilegasta mál, ekki síst þar sem ég er meira og minna á bremsunni þegar ég ek í vinnuna og þaðan til baka. Því pantaði ég ekki tíma á verkstæði af þessum sökum (engin móðursýki í gangi hér!).

Það var síðan fyrir nokkrum dögum, að ég var á leið til vinnu að vanda. Óvenju kalt var í veðri (> - 10°C). Það var þá sem ég fór að heyra einhvern hvin, sem ég hafði ekki heyrt áður. Þetta taldi ég fyrst koma frá útvarpinu, en þaðan koma ansi oft ókennileg hljóð. Til að sannprófa þetta slökkti ég á útvarpinu, en það hafði engin áhrif á hvininn. Það var þá sem ég ákvað að þetta hlyti að tengjast köldu veðri, og hélt áhyggjulaus minn veg, lauk vinnudeginum og hélt heim á leið, hafandi algerlega gleymt öllu um þennan hvin. Þegar ég nálgaðist Svínavatn, sem er um miðja vegu milli vinnustaðar og heimils, fór stýrið að titra.
Þetta afgreiddi ég auðvitað snarlega sem svo, að eitt af þessum stykkjum sem þeir festa á felgurnar þegar þeir eru að jafnvægisstilla dekkin (heitir vísast eitthvað), hefði dottið af. Ég ákvað þó, svona til öryggis, að stöðva bifreiðina við Svínavatn til að fullvissa mig um að öll hjólin væru ennþá föst. Svo reyndist vera, svo ég skoðaði aðeins nánar felguna með áðurnefndu svartleitu dufti. Þar sem ég snerti á felgunni, fann ég fyrir hita, sem varð því meiri sem ég nálagðist bremsudiskinn meira. Létt snerting, sem olli lítilsháttar bruna, opnaði loks augu mín fyrir því að hér gæti verið eitthvað bremsutengt á ferð. Hröð ferð um hugskotið leiddi mig að þeirri niðurstöðu, að bremsudæla hlyti að vera föst; blemsuklossinn þrýsti stöðugt á diskinn. Ég taldi eðllilegt að álykta sem svo, að það gæti valdið þeim hita sem þarna var um að ræða.

Að þessari niðurstöðu fenginni hélt ég áfram ferð minni í öryggið í Laugarási. Sló ekkert af ferðahraða, sem, eftir á að hyggja var talsvert vanhugsað, en það kom í ljós þegar ég renndi í hlað: þegar ég steig út úr bifreiðinni gaus á móti mér ógurlegur fnykur, og ég er ekki í nokkrum vafa um það það hefði verið hægt að spæla egg í 15 cm fjarlægð frá bremsudiskinum. Með þessar upplýsingar hélt ég í öryggið innandyra, hálfpartinn óskandi þess að þetta vandamál hyrfi bara si svona, en vissi það jafnfram að svo yrði ekki. Mér var nauðugur einn kostur að gera eitthvað í málinu.

Það sem ég gerði var að ég fór í símann (ekki nýtt þegar vandi blasir við á þessum bæ, þar sem ég tel vandann meiri en svo, að ég ráði við hann).
"Ég þarf að panta hjá þér tíma".
"Jahá, hvaða númer er á bílnum?"
Ég sagði númerið og svaraði í bein framhaldi spurninum um hver vandinn væri.
"Þetta hljómar ekki vel. það gæti þurft að renna diskinn. Geturðu komið með bílinn á mánudaginn?"
"Já", sagði ég, en leit um leið á fD, þar sem hún og Corollan hennar voru forsendur fyrir því að þetta gæti gengið eftir. fD kinkaði ákaft kolli, og taldi þetta nú vera minnsta mál.....jamm.

Mánudagurinn var í dag.

Í dag ók ég bifreiðinni á Selfoss.

Sú ferð......... já sú ferðasaga verður skráð innan skamms.

30 desember, 2009

Yfirborðslíf



Það vita allir að grunnir lækir sem falla niður fjallshlíð fara mikinn, en það

afl sem í þeim býr, þegar á reynir er harla lítilvægt. "Still waters run deep", segir málshátturinn.
Yfirborðsmennskan birtist okkur á hverjum einasta degi í gegnum gaspur þeirra sem telja sig hafa höndlað sannleikann eina, í gegnum fjölmiðla af ýmsu tagi, ekki síst á síðum eins og þessari. Oftar en ekki er fjallað um menn og málefni af afskaplega mikilli vanþekkingu og grunnhyggni. Því meiri sem lætin eru, því meira er froðusnakkið. Því meiri sem dómharkan er, því minna er mark takandi á málflutningnum.
Það sama má segja um ýmsa vöru og þjónustu sem okkur standa til boða, ekki síst þegar halda skal hátíð.
Þá er ég loksins kominn að efninu, eða dæmisögunni sem ég ætla að nota til að undirbyggja það sem að framan er sagt.

Eins og margir aðrir, tók ég þátt í jólahlaðborði í byrjun desember. Þar voru gestir beðnir að koma með gjöf með sér, eina á mann. Síðan fékk hver og einn sína gjöf. Þetta var nú bara skemmtilegt. Gjöfin sem ég fékk, var nú ekki af lakara taginu; 6 rauð kerti í glæsilegum kassa. Kertin voru sérlega fögur í fína kassanum sínum - mótuð í formi rauðrar rósar - ávísun á rómantíska kvöldstund, sem auðvitað hentar mér sérlega vel. Þar fyrir utan sá ég fyrir mér, að þetta hlytu að vera ilmkerti og að rósailmurinn myndi fylla herbergið og auka þannig enn á fegurð rósaljóssins. Fullkomið loforð um fullkomna stund.

Ég ákvað nú að prófa eitt kertanna þegar leið að jólum. Myndir segja meira en þúsund orð (reyndar alræmd klisja) og því læt ég þær sjá um lýsingu á því sem gerðist. Og ég læt ykkur, góðir lesendur um að tengja saman það sem ég sagði í upphafi og kertið "góða".


Þau ilmuðu ekki einu sinni.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...