28 febrúar, 2010

Menningarhvað


Hófleg menningarneysla heldur manni við efnið, en gerir mann aldrei saddan. Það er fínt að vita af allri þeirri menningu sem, borin er á borð. Það er síðan undir manni sjálfum komið hve mikils maður vill neyta af krásunum þeim.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst menningarást ákveðinna einstaklinga ganga nokkuð úr hófi og að hún hljóti að vera farin að ganga á líf þeirra að öðru leyti.

Þegar ég er hér að tala um menningu notast ég við þá skilgreiningu á fyrirbærinu, sem snýst um það þegar einstaklingur, eða hópur einstaklinga gerir eitthvað, eða býr til eitthvað sem aðrir einstaklingar eiga síðan að njóta. Í þessum tilvikum finnst mér að gerendurnir hljóti að fá mest út úr aðgerðinni, en hinir njóti um stund, en séu síðan jafn nær nokkru síðar.

Menningu má einnig skilgreina með miklu víðari hætti en ég hef gert hér að ofanþ Þetta er auðvitað öllum ljóst. Þegar ég ákveð t.d. að aka bilaðri bifreið minni 40 km leið til að koma henni á verkstæði, þá er þar á ferðinni ákveðinn menningarkimi, eða jafnvel menningarstefna, sem jafnvel má gefa nafnið 'bílviðgerðaandúðarstefna'. Það sama má segja um flest það annað sem gert er.

Nú er fjarri því að ég vilji gera lítið úr þeirri menningu sem ætluð er til þess að aðrir geti notið hennar, heldur eingöngu að benda á það að við getum öll talist jafn 'menningarleg' þó svo við stundum ekki mikið af myndlistarsýningum, tónleikum eða leiksýningum.

Það er auðvitað ekki svo, að með ofansögðu sé ég að finna mér afsökun fyrir því hve óduglegur ég (og þá væntanlega fD líka) er við að sækja menningarlega viðburði, heldur eingöngu það, að ég vil telja mig mikinn menningarpostula jafnvel þó ég (og þá væntanlega einnig fD) ástundi ekki í ríkum mæli viðburði sem almennt teljast til menningarviðburða.

Þetta gerðist þó í gærkvöldi.

Eftir töluvert mikinn aðdraganda, sem verður að skrifa á það nútímalega einkenni fólks sem kalla má 'oranizational overload', eða 'skipulagningarofhleðslu', tókst svokölluðum 'Gullaldargellum', sem er hópur sem fD tilheyrir (samanstendur af miðaldra konum, sem eitt sinn unnu saman í leikskólanum Álfaborg), að finna tíma þar sem allar gætu farið saman í leikhús. það var auðvitað aukaatriði hvort viðhengi þeirra kæmust, en auðvitað var það svo, að þar var ekki mikið um val, eða þannig.


Leikverkið sem stefnan var sett á, var 'Undir hamrinum', sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstunga setur á svið í Aratungu um þessar mundir.
Auðvitað var búið að gera úr ferð þessari heilmikinn pakka, sem fólst í leikhúsmáltíð í Hamrinum, nei Klettinum, ásamt leiksýningunni og síðan tilteknu framhaldi.

Eins og von var á, settu náttúruöflin nokkuð breitt strik í reikninginn með því að ein 'gellan' var veðurteppt á höfuðborgarsvæðinu (reyndar viðhengi hennar einnig, þó það sé auðvitað ekki stóra málið hér), eins og virðist vera regla fremur en undartekning þegar blásið er til samverustunda þessa tiltekna hóps.

Leikhúsmáltíðin á Klettinum reyndist verða með nokkuð öðrum hætti en vonir höfðu staðið til, en þannig var, að þennan sama dag hafði Hestamannafélagið Logi blásið til skemmti- og fræðsluferðar um Biskupstungur. Þessi ferð fólst í sem stystu máli í því, að áhugamenn um hross söfnuðust saman í fólksflutningabifreið og óku sína um sveitina og heimsóttu valda hestamenn

heim.

Það fór auðvitað þannig, að ótæpilegar veitingar voru bornar á borð fyrir ferðalangana á þeim fimm bæjum sem heimsóttir voru, með þeim afleiðingum, að rólegheita, lágstemmda leikhúsmáltíðin á Klettinum, varð heldur fjörugri og hástemmdari en til stóð, en hestamannahópurinn endaði ferðina einmitt með kvöldmáltíð á umræddum veitingastað.
Ekkert er þó út á viðurgjörninginn þann sem í magann fór, að setja.

Þá var næst á dagskrá leikhúsferðin sjálf.


Leikverkið sem um ræðir, 'Undir hamrinum', reyndist vera hið kostulegasta og byggist á minnum úr sveitamenningu landans, þar sem ýmislegt viðgekkst, að því er mér skildist, sem ekki er hægt að fjalla um þegar um er að ræða að halda á lofti gildum menningarinnar sem skóp þetta land. Þarna er ótæpilega vegið að prestastéttinni og almættinu sjálfu, ásamt konum og körlum.

Ef þetta leikverk vísar að einhverju leyti í raunverulegt líf fólks á fyrri tímum, þá kemur manni fátt á óvart í nútímanum.
Það er í sjálfu sér aðdáunar- og virðingarvert hve hópurinn sem þarna flögraði um fjalirnar leggur á sig til að færa okkur skemmtan aftur og aftur. Það er samt ekkert sérstaklega undarlegt, því þeim ber engin skylda til að standa í þessu og ekki eru það hin veraldlegu laun sem þau eru að sækjast eftir. Það veit ég af eigin reynslu, að þetta er bara svo óskaplega gaman, bæði það að undirbúa svona verkefni og að fá þakkirnar fyrir.

Ekki ætla ég að fara að gera upp á milli leikaranna, en þeir komu vel til skila því sem líklegast er boðskapur þess verks. Því er þó ekki að neita, að það ríkti nokkur spenna um það, eftir upplýsingar sem fengist höfðu undir borðhaldinu fyrir sýninguna, hvort einn tiltekinn leikari yrði fyllilega með sjálfum sér. Hann reyndist hafa fulla stjórn á hlutverki sínu.

Ef ti sýninguna var aftur komið að samverustund 'Gullaldargellanna', en um hana fjölyrði ég ekkert, hún var bara ágæt og hin siðsamasta.

Kærar þakkir til leikdeildar fyrir skemmtunina.
Ég fór í menningarreisu.

3 ummæli:

  1. og í menningarveislu sé ég.
    Matarveisla, vínmenning hestamanna og leikskemmtun eins og hún gerist best.
    Við þurfum ekki alltaf að leita yfir fjallið eftir menningarforfrömun.

    SvaraEyða
  2. sorry Palli! Leitt að skemma fyrir þér stemminguna á Klettinum. Þarna var á ferð Hrossaræktarfélag Biskupstungna í sinni einmitt árlegu "menningarreisu"

    SvaraEyða
  3. Kæri/kæra anonymous - ég var hreint ekkert að kvart og vissi hver félagsskapurinn var og hvernig þetta var allt tilkomið. :)

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...