22 febrúar, 2010

Verulega pirraður, en staðfastur (1)

Það má segja að ég lifi samkvæmt þeirri reglu (það er ekki eina reglan), að þegar um það er að ræða að fólk sé búið að mennta sig til einhvers, þá sé það rétta fólkið til að sinna ýmsu því sem fyrir mig kemur og sem ég er ekki menntaður til. Auðvitað á reglan ekki við þar sem ég get sjálfur sinnt viðkomandi máli fullkomlega sjálfur, og ég verð að viðurkenna, að slík tilvik eru mörg.

Þegar kemur að bílaviðgerðum af einhverju tagi þarf ég ekki einu sinni að hugsa mig um áður en ég panta tíma á verkstæði, og greiði gjarnan fyrir það ógrynni fjár, en ætlast þá til þess að allt sé í lagi þegar ég nálgast bifreiðina að viðgerð lokinni.

Ég neita því ekki, að í talsverðan tíma hef ég tekið eftir því að svartleitt duft hefur legið yfir annarri framfelgunni á eðalbifreið minni. Ég hef kosið að telja þetta hið eðlilegasta mál, ekki síst þar sem ég er meira og minna á bremsunni þegar ég ek í vinnuna og þaðan til baka. Því pantaði ég ekki tíma á verkstæði af þessum sökum (engin móðursýki í gangi hér!).

Það var síðan fyrir nokkrum dögum, að ég var á leið til vinnu að vanda. Óvenju kalt var í veðri (> - 10°C). Það var þá sem ég fór að heyra einhvern hvin, sem ég hafði ekki heyrt áður. Þetta taldi ég fyrst koma frá útvarpinu, en þaðan koma ansi oft ókennileg hljóð. Til að sannprófa þetta slökkti ég á útvarpinu, en það hafði engin áhrif á hvininn. Það var þá sem ég ákvað að þetta hlyti að tengjast köldu veðri, og hélt áhyggjulaus minn veg, lauk vinnudeginum og hélt heim á leið, hafandi algerlega gleymt öllu um þennan hvin. Þegar ég nálgaðist Svínavatn, sem er um miðja vegu milli vinnustaðar og heimils, fór stýrið að titra.
Þetta afgreiddi ég auðvitað snarlega sem svo, að eitt af þessum stykkjum sem þeir festa á felgurnar þegar þeir eru að jafnvægisstilla dekkin (heitir vísast eitthvað), hefði dottið af. Ég ákvað þó, svona til öryggis, að stöðva bifreiðina við Svínavatn til að fullvissa mig um að öll hjólin væru ennþá föst. Svo reyndist vera, svo ég skoðaði aðeins nánar felguna með áðurnefndu svartleitu dufti. Þar sem ég snerti á felgunni, fann ég fyrir hita, sem varð því meiri sem ég nálagðist bremsudiskinn meira. Létt snerting, sem olli lítilsháttar bruna, opnaði loks augu mín fyrir því að hér gæti verið eitthvað bremsutengt á ferð. Hröð ferð um hugskotið leiddi mig að þeirri niðurstöðu, að bremsudæla hlyti að vera föst; blemsuklossinn þrýsti stöðugt á diskinn. Ég taldi eðllilegt að álykta sem svo, að það gæti valdið þeim hita sem þarna var um að ræða.

Að þessari niðurstöðu fenginni hélt ég áfram ferð minni í öryggið í Laugarási. Sló ekkert af ferðahraða, sem, eftir á að hyggja var talsvert vanhugsað, en það kom í ljós þegar ég renndi í hlað: þegar ég steig út úr bifreiðinni gaus á móti mér ógurlegur fnykur, og ég er ekki í nokkrum vafa um það það hefði verið hægt að spæla egg í 15 cm fjarlægð frá bremsudiskinum. Með þessar upplýsingar hélt ég í öryggið innandyra, hálfpartinn óskandi þess að þetta vandamál hyrfi bara si svona, en vissi það jafnfram að svo yrði ekki. Mér var nauðugur einn kostur að gera eitthvað í málinu.

Það sem ég gerði var að ég fór í símann (ekki nýtt þegar vandi blasir við á þessum bæ, þar sem ég tel vandann meiri en svo, að ég ráði við hann).
"Ég þarf að panta hjá þér tíma".
"Jahá, hvaða númer er á bílnum?"
Ég sagði númerið og svaraði í bein framhaldi spurninum um hver vandinn væri.
"Þetta hljómar ekki vel. það gæti þurft að renna diskinn. Geturðu komið með bílinn á mánudaginn?"
"Já", sagði ég, en leit um leið á fD, þar sem hún og Corollan hennar voru forsendur fyrir því að þetta gæti gengið eftir. fD kinkaði ákaft kolli, og taldi þetta nú vera minnsta mál.....jamm.

Mánudagurinn var í dag.

Í dag ók ég bifreiðinni á Selfoss.

Sú ferð......... já sú ferðasaga verður skráð innan skamms.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...