05 júní, 2010

118 klikkar

Það stóð þannig á í líðandi viku, að ég þurfti að komast milli landshluta og kaus að ferðast með flugi frekar en nýta mér þjóðvegi. Á Sauðárkrók þurfti ég að komast, en þangað flýgur flugfélag sem kallast Ernir. Ekki ætla ég að fjölyrða um kaup á farmiða, þó það sé í sjálfu sér efni í pistil, heldur bara það sem gerðist að morgni þess dags þegar flugið átt sér stað. Brottför var sett á kl. 08:00 að morgni, sem þýddi að ég þurfti að vera talsvert snemma á fótum. Hélt af stað tímanlega, enda annálaður fyrir stundvísi í hvívetna. Þar sem ég ók niður Grímsnesið, fór að allt í einu að hugsa, sem virðist gerast æ sjaldnar, að því er virðist. "at það hugsanlega átt sér stað, að Flugfélagið Ernir fljúgi frá einhverri annarri flugstöð við Reykjavíkurflugvöll, en Flugfélag Íslands? Það var eitthvað sem olli því að ég fór að hugsa eftir þessum brautum. Mér var það jafnframt ljóst, að ekki hefði ég tíma til að fara að leita að mögulega annarri flugstöð í kringum flugvöllinn. 


Við þessar aðstæður greip ég til þess ráðs að hringja í símanúmerið sem á að leysa öll okkar vandamál: 118. Þjónustunni er lýst svo á já.is:

Við veitum þjónustu allan sólahringinn í símanúmerinu 118 / 1818. Þar færð þú upplýsingar um: 

  •      • Síma-, farsíma- og faxnúmer
  •      • Nöfn og heimilisföng skráðra símnotenda
  •      • Netföng og heimasíður
  •      • Gulu síðurnar
Að auki veita þjónustufulltrúar okkar í 118 / 1818 ýmsar aðrar upplýsingar sem nýtast í dagsins önn.


"118, góðan dag."
"Já, góðan dag. Gætirðu sagt mér hvor Flugfélagið Ernir flýgur frá sömu flugstöð og Flugfélag Íslands?"
"Augnablik......... Hérna hjá mér kemur bara fram, að það sé á Reykjavíkurflugvelli."
"Þú getur sem sagt, ekki fundið út úr þessu?"
"Neiiii... augnablik........... Erna, veist þú hvort... o.s.frv.?"
"Neeeeiiiii -" heyrðist kvenmannsrödd segja í bakgrunni.
"Nei, því miður þetta get ég ekki sagt þér. Á ég ekki bara að gefa þér samband?"
"Jú, takk."
Hér átti ég nú að vera farinn að hugsa dýpra, en vegna aðstæðna minna, frekar seinn, sem sagt, datt mér ekki hið augljósa í hug: að biðja þessa góðu konu að fara á ja.is og sjá fyrir mig á korti hvar téð flugfélag væri til húsa. En hugsun mín náði ekki svona djúpt við þessar aðstæður. 
Nú, þegar klukkan var korter yfir sjö, og ég uppi á Hellisheiði, hringdi síminn sem já konan ætlaði að gefa mér samband við.
"Þetta er sjálfvirkur símsvari hjá Flugfélagi Íslands. Við getum ekki tekið símann þar sem við erum að afgreiða flugvél. Vinsamlegast hringdu í .....eitthvað annað númer" ..... sem ég síðan hringdi í og þá gerðist þetta:
"Þetta er sjálfvirkur símsvari hjá Flugfélagi Íslands. Skrifstofan er opin frá kl. 9 til 18 virka daga."

Neyðin kenndi mér við þessar aðstæður, að dýpka hugsun mína, og ég fór með þeim hætt yfir stöðu mála. Niðurstaða þeirra pælinga varð sú, að hringja aftur í 118.
"118, góðan dag."
"Gætirðu gefið mér samband við Flugfélagið Erni?"
"Augnablik..... gjörðu svo vel.."
"Flugfélagið Ernir, góðan dag....."

...og málið leystist þar með. Eins gott að ég fór ekki út að flugstöð FÍ.

Nú er spurningin sem ég hef velt fyrir mér: Hvort klikkaði, ég með því að biðja ekki strax um númerið hjá Flugfélaginu Örnum, eða 118 - konan sem gat ekki fundið staðsetninguna eins og um var beðið.

1 ummæli:

  1. Þið klikkuðuð hvorugt að marki
    ég komst fyrir stystu, með harki,
    að því að þær lenda
    við Lofleiðaenda
    með látum og hvissi og skarki!

    Hirðkveðlill yrkir um þá staðreynd að tveir flugvellir skuli nefndir Reykjavíkurflugvellir... (sem er ruglandi í besta falli)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...