Sýnir færslur með efnisorðinu trú Skálholt kórinn Hilmar kirkjan. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu trú Skálholt kórinn Hilmar kirkjan. Sýna allar færslur

19 desember, 2011

Hornsteinn að brú.

Í aftari röð, svona aðeins hægra megin, er stórt gat, sem höfundur skildi eftir sig.
Það eru örlög hans, enda kannski eins gott.
Það eru liðin einhver ár síðan ég tók þátt í kórsöng í Skálholtsdómkirkju. Ég ætla nú ekki að fara að rekja forsöguna, því hana hef ég sagt áður, með ýmsum hætti.

Hvað um það, í lok október kom póstur frá Þrúðu. (Þrúða er þessi manneskja sem er alltaf til í slaginn og telur ekkert eftir sér og fær oftar en ekki það hlutverk, vegna innrætis síns og persónulegra eiginleika, að vera hið sameinandi afl þess hóps sem eitt sinn skipaði Skálholtskórinn.) Í þessum pósti sagði, meðal annars:
Sæl verið þið kæru gömlu kórfélagar:)
Hilmar talaði um það í vor að hann langi svo að halda tónleika í Skálholti í tilefni af því að í haust eru 20 ár síðan hann kom í Skálholt. Hann treysti sér ekki til þess í haust, en nú langar hann að hafa litla snotra aðventutónleika í Skálholtskirkju 18. desember með Karítunum og okkur gömlu kórfélögunum í Skálholtskórnum. Stelpurnar í Karítunum hafa bókað kirkjuna 18. desember sem er sunnudagur.
Hvað segið þið um þetta? Mig dauðlangar allavega:)
Látið endilega heyra í ykkur. Ef af þessu á að verða, þarf að drífa í að gera "plan":)
Með kærri kveðju,
Þrúða
Það þurfti nú ekki að koma á óvart, en fleiri fyrrverandi kórfélaga "dauðlangaði" . Meira að segja þann sem kallar sig "þann gamla", en hann þykist vera löngu hættur öllu svona söngstússi (er búinn að vera að hætta í ein 10 ár). Hann skellti í einn tölvupóst, þar sem hann tjáði vilja sinn til að vera með.

Það var æft lítillega, en óorðaður, sameiginlegur skilningur allra sem að komu, að ég held, var sá, að það væri ekki nákvæmni hins þaulæfða kórs, sem sýna skyldi á tónleikunum, heldur eitthvað allt annað.

Tónleikarnir voru í gær, þann 18. desember, eins og fram kemur hér að ofan.

Karíturnar voru auðvitað afbragð, og við hin sannarlega líka, þó segja megi að þar skipti máli hvaða mælikvarði var notaður.

Við lok tónleikanna reis nýr vígslubiskup úr sæti og hafði yfir orð, sem ekki er hægt að skilja með öðrum hætti en þeim, að það sé hafin brúarbygging. Ef svo er, þá er það mikið fagnaðarefni.

Nú velti ég því fyrir mér hvort tími sé til kominn fyrir mig panta efni, eða hvort efnið sem til er sé kannski nægilega mikið.

MYNDIR

26 mars, 2011

Trúarleg afskipti (6) - lokaþáttur

Ekki neita ég því að eftir því sem nálgaðist lok þess tíma sem ég hef verið að tjá mig um hér á talsvert löngum tíma, varð ég, og aðrir kórfélagar, var við að samskiptin á Skálholtsstað voru ekki eins og best verður á kosið. Þar hefur eflaust eitthvað átt sér stað af einhverjum ástæðum, sem leiddi smám saman til þess að ráðamenn á staðnum töldu að ekki yrði lengur fram haldið.  Kórinn hafði lengi fundið fyrir því að framlag hans til helgihalds var ekki metið af því sem kalla má verðleika. Ástæður þessa voru mér nú aldrei fyllilega ljósar - og eru reyndar ekki enn.

Ég get nú bara greint frá því að tenórinn var aldrei sáttur við hvernig aðstaða honum var sköpuð við athafnir í kirkjunni. Hún var í sem stystu máli þannig, að fyrir aftan stóla sópransins var komið fyrir bekk, sem reyndar er mjög vel smíðaður. Bekkurinn þessi er baklaus og grjótharður. Þarna var tenórnum gert að híma í hvarfi meðan ekki var sungið og síðan að príla upp á bekkinn þegar söngur hófst. Eftir því sem árin liðu varð prílið æ meira áhættuatriði og ég beið þess að einhverjum tenórnum fataðist prílið með vandræðalegri uppákomu í öllum hátíðleikanum, en sem betur fer slapp það til.

Því verður ekki haldið fram, að kórnum hafi þótt hann velkominn, þó svo framlag hans hafi þótt nauðsynlegt. Þetta er ekki eitthvað sem var sagt, svo ég viti til, heldur eitthvað sem lá í loftinu og birtist með óorðuðum hætti í óljósum skilaboðum.

Þar sem ég hef ekki staðfestar upplýsingar um það sem gerðist bak við tjöldin á staðnum, sem síðan varð til þess leiðir skildi með Hilmari Erni og Skálholtsstað, treysti ég mér ekki til að fjalla um þá sálma þannig að ég sleppi við að verða uppvís að því að fara með hálfkveðnar vísur eða órökstuddar dylgjur. Ég reikna með að það verði hlutverk sagnfræðinga síðar meir, að grafast fyrir um hvað þarna átti sér stað. Það liggur þó fyrir að stjórnendur á staðnum ákváðu að segja upp samningi við Hilmar.

Viðbrögð mín, og margra annarra skjólstæðinga Hilmars, við uppsögninni voru nú nokkuð fjarri því að vera jákvæð; margt var rætt og undirbúið, en það var auðvitað ljóst, að trúnaðarbrestur var orðinn slíkur að ekki yrði aftur snúið.

Ég geri mér grein fyrir því, að ég er að sumu leyti ekki eins og fólk er flest. Sem dæmi um það vil ég geta þess, að ég hef ekki einusinni flett tilteknu dagblaði frá því tiltekinn ritsjóri var ráðinn þar til starfa, jafnvel þótt umrætt dagblað hafi borist inn á heimilið af og til fD til upplyftingar. Það sama á við um viðbrögð mín við því sem gerðist í Skálholti.  Ég hef ekki talið mig eiga samleið með því starfi sem þar fer fram eftir að þeir atburðir gerðust sem hér hefur verið tæpt á. Hvort eða hvenær það breytist verður bara að koma í ljós.

Ég ólst upp við það að ganga til messu í Skálholti, kominn af trúræknu fólki og hef gegnum tíðina tekið þátt í ýmsu því sem lýtur að kirkju og trú.  Vissulega fékk ég aldeilis nóg af öllum messuferðunum áður fyrr, en taldi samt að ég hefði eitthvað að sækja í þann heim sem kirkjan fæst við.   Ég vil hinsvegar gera skýran greinarmun á trúnni og kirkjunni, eins og ég hef áður fjallað um. Trúin er eitthvað sem er persónulegt og sem hver maður metur og sinnir að sínum hætti. Kirkjan er stofnun sem sett er á fót af mönnum og sem hefur löngum beitt trúnni fyrir sig til að öðlast vald yfir lífi og sálum manna. Með aukinni menntun og flóknara samfélagi finnst mér að kirkjan hafi misst fótanna vegna þess að hún er of upptekin af valdi sem hún hefur ekki lengur, siðum og boðskap sem ná ekki eyrum fólks eins og áður var.

Með þessari messu ætla ég að setja punkt aftan við greinaflokkinn um trúarleg afskipti mín, eins og þau hafa þróast. Þau hafa verið harla lítil undanfarin ár og líklega þarf eitthvað að breytast ef breyting á að verða þar á.
En, lífið heldur áfram. Maðurinn, eitt örsmátt sandkorn á eilífðarströnd, heldur áfram að streitast í gegnum líf sitt, eins og leikari á leiksviði, en hverfur síðan í óræðan buska.

13 mars, 2011

Trúarleg afskipti (5)

Kórbúðir á Nesjavöllum
Tíminn í Skálholtskórnum, sem ég reikna með að verði að teljast með því viturlegra sem ég hef tekið mér fyrir hendur á lífsgöngunni, stóð í um 20 ár. Því vil ég halda til haga, að ég tók ekki þátt í þessu starfi af trúarþörf einni saman, þó ekkert hafi ég haft á móti því að sinna þeim hluta starfsins. 

Vissulega kölluðu hefðbundnar messur ekkert á sérlega mikla sköpun eða frumlegheit. Þar fer nú allt fram samkvæmt messuskrá og líkist því að mörgu leyti leikþætti. Ekki ætla ég mér hinsvegar að fara að agnúast út í það, enda hef ég ekki betri lausn á því hvernig trúariðkum þeirra, sem játa evangelísk lúterska trú, ætti að vera (meginkrafan í þeim efnum ætti væntanlega að vera sú, að messugjörð sé þess eðlis að fólk þyrpist í kirkjurnar).
Í Gethsemane kirkjunni í Berlín
við undirbúning flutnings á
Brynjólfsmessu og Berlínarmessu

Kórinn fékk nú stundum að spreyta sig í tengslum við messurnar, flutti glæsilega kirkjutónlist við og við. Kirkjutónlist finnst mér vera sérlega skemmtileg og hún er ein megin ástæða þess að ég ákvað að endast í Skálholtskórnum svo lengi. 

Önnur megin ástæða fólst auðvitað í því, að það er mikilvægt fyrir samfélag að geta treyst á þjálfaðan kór til að flytja tónlist við ýmsar kirkjulegar athafnir, ekki síst á fagnaðar og sorgarstundum. 

Þriðja ástæðan fyrir þátttöku minni var auðvitað mikilvægi þess, í mínum huga, að taka þátt í félagsstarfi af einhverju tagi; komast út meðal félaga sinna, bæði til að njóta samvistanna og til að sinna einhverju sem skiptir miklu máli, bæði fyrir mann sjálfan og aðra. 

Fjórðu ástæðuna vil ég telja þann sem valdist til að stjórna tónlistarflutningnum; mann sem  virtist stundum fara fram úr sér í markmiðum, gerði stundum kröfur til samstarfsfólks, sem virtust út fyrir það sem eðlilegt mátti teljast, en sem reyndist vita nákvæmlega hvað hann vildi þar sem tónlistin sjálf var annarsvegar. Það sem þessi hópur lærði, ekki síst, var að vera tilbúinn að takast á við eitthvað nýtt, oft með stuttum fyrirvara. Við lærðum að takast á við áskoranir af æðruleysi, festumst, að ég tel, ekki í einhverju fari vanans - við lærðum að takast á við breytingar og fjölbreytni.
Í Pompei

Fimmta ástæðan, og hreint ekki sú sísta, voru ferðir kórsins vítt og breitt um Evrópu. Ætli fyrsta ferðin út fyrir meginland Íslands hafi ekki verið farin til Vestmannaeyja. Síðan var farið að hugsa stærra - meginland Evrópu varð áfangastaður kórsins í það minnst fjórum sinnum: 
- Sú fyrsta var í Móseldalinn og til Elsass, 
- Næst lá leiðin til Strassborgar og til Gardavatnsins (fór ekki - ekki viss), 
- Í þriðja skiptið lá leið til Slóveníu og Króatíu
- Fjórða, og stærsta ferðin var farin til Ítalíu.
- Sú síðasta, eftir að kórinn hafði verið leystur upp formlega, til Berlínar. 
Fornt hringleikahús á Sikiley

Ég held að ferðasögur hafi verið skrifaðar í lok allra þessara ferða, og þeim þyrfti að halda saman. 

Ein mikilvægasta ástæða þess að þessar ferðir (allar nema sú síðasta) voru svo einstakar sem rauning varð, var sú að við nutum þess að hafa í okkar röðum snilldar skipuleggjanda og fararstjóra, Hólmfríði Bjarnadóttur 'Hófí', en hún kom í sveitina með Hilmari Erni og starfaði með kórnum stærstan hluta þess tíma sem ég tók þar þátt.

Framundan um þetta efni - trúarleg afskipti mín - er lokakaflinn, sem mun væntanlega fjalla um aðdraganda þess að Hilmar Örn lét af störfum í Skálholti og það sem síðan hefur gerst.
Meðan á þeim umbrotatímum stóð var ýmislegt sagt og skrifað, staðfest eða óstaðfest. 


Sett hér af rælni: Þetta rákumst við á
í Pompei, en það gengdi það lílkega
því hlutverki að vísa leiðina að stað
þar sem unnt var að njóta holdsins
lystisemda.

05 mars, 2011

Trúarleg afskipti (4)

Skálholtskórinn, undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, var sannarlega ekki bara þessi hefðbundni kirkjukór sem starfar fyrst og fremst í  og í kringum messuhald eða kirkjulegar hátíðir. Slíkt er í sjálfu sér verðugt verkefni, ekki síst á stórhátíðum, við fermingar eða jarðarfarir. Aðkoma kórsins að þessum venjulegu messum var nú löngum ekki eitthvað sem var áhersluatriði - á seinni árunum var reyndar skipað í svokallaða messuhópa, sem síðan var raðað á sunnudagsmessurnar. Kórinn hafði stærri markmið en svo. Það var kannski einmitt það, að vera stöðugt að takast á við nýja áskorun með nýjum markmiðum, með metnaðarfullum átökum við tónlist af ýmsu tagi, sem gerði það að verkum að ég, í það minnsta, hafði mikla ánægju af þessu starfi. Það var alltaf eitthvað framundan sem manni fannst reyndar stundum vera fyrir utan það sem við myndum ráða við svo sómi væri að, en sem síðan reyndist vera ánægjan ein.

Ég vil halda því til haga, og það bera auðvitað að þakka, að kirkjan (Skálholtsstaður og sóknirnar í Biskupstungum) skópu með sínum hætti grunn fyrir svo öflugt kórstarf - bæði með því að greiða söngstjóranum laun og með greiðslum til kórsins fyrir söng við kirkjulegar athafnir. Ekki er ég svo vel upplýstur um fjármálin að ég viti hverjar upphæðir var þarna um að ræða, en í það minnsta urðu þær til þess, að mínu mati, að það var hægt að halda þessu starfi úti.

Ég þykist nú viss um það, þó ekki viti ég það með vissu, að ekki hafi kirkjustjórnin (þeir sem fóru með málefni kirkjunnar á Skálholtsstað) verið fullkomlega ánægðir með áherslur í starfi Skálholtskórsins. Það má vissulega segja sem svo, að með því að greiða fyrir þetta starf hafi kirkjan átt kröfu á því að starfið miðaði einvörðungu að tónlistarflutningi við kirkjulegar athafnir. Það máttu þeir þó vita, að til þess að söngfólk komi að málum til langframa, skiptir höfuðmáli, að um metnaðarfullt starf sé að ræða og alltaf sé til staðar einhver gulrót, eða áskorun. Gulrætur og áskorun þess fólks, sem kaus að starfa með Skálholtskórnum fólust í því að gera miklu meira en það sem rúmaðist innan veggja kirknanna í Biskupstungum.
Kórferð til Ítalíu 2008 - Á Caprí með Bubbu og Kristni

Tónlist er, eins og segir í inngangi að tónlistarstefnu kirkjunnar: "Forspil eilífðarinnar". Hún er ekki einskorðuð við ákveðna tegund, eða ákveðnar byggingar. Hvar sem hún er flutt gegnir hún hlutverki sínu - að gera mannskepnuna betri, að sætta hana betur við hlutskipti sitt, vekja með henni von, og dýpka skilning hennar á tilverunni.

Þá kem ég enn að því sem ég  hef svo sem áður nefnt á þessum síðum: kirkjan er eitt - trúin, guðsdýrkunin og lofsöngvar til dýrðar almættinu, er annað, þó þessir þættir skarist vissulega með því að kirkjan sér hlutverk sitt sem utanumhald og skipulag trúmála og býr þannig til ákveðinn ramma, sem hún telur að hæfi trúariðkun. Árið 2008, að mig minnir, var kynnt til sögunnar ný tónlistarstefna þjóðkirkjunnar. Ég vísa hér fyrir neðan til setninga úr þessari stefnu:

Meginstefna Þjóðkirkjunnar varðandi kirkjutónlist er sem hér segir:Musica praeludium vitae aeterna. Tónlistin er forspil eilífðarinnar.
Organistar og kirkjukórar stuðli jafnframt að því að efla safnaðarsöng.Leggja skal rækt við almennan söng safnaðarins.Prestar og söngstjórar styðji almennan söng við kirkjuathafnir svo sem útfarir, hjónavígslur, skírnir og fermingar.Í samræmi við eðli guðsþjónustunnar er hún haldin hátíðleg með söng þar sem söfnuðurinn allur er virkur.Almennur safnaðarsöngur hæfir jafnan helgihaldi og helgidómi með eða án undirleiks.

Þetta hljómar fallega, því verður ekki á móti mælt. Nú hefur þessi stefna varið í gildi í eitthvað um þrjú ár og ég velti því fyrir mér hverju hún hefur breytt. Ég minnist enn orða gamla unglingsins þegar ég kynnti fyrir honum þessa nýju stefnu þjóðkirkjunnar: "Það verður ljóta návælið!"  Hvort sú er raunin, veit ég ekki - hef ekki kynnt mér það.

Ég velti því fyrir mér, að hve miklu leyti það sem ég hef fjallað um hér að ofan, hafði áhrif á það að formlegu  starfi Hilmars Arnar hér í uppsveitum lauk.

Ætli ég kíki ekki á gulræturnar næst þegar ég fjalla um þetta málefni.


12 febrúar, 2011

Tveim tugum ára seinna

Á tónleikum í tilefni af því að 10 ár voru frá stofnun
Barna- og kammerkórs Biskupstungna.
Frá vinstri: Guðný Rut Pálsdóttir, Hilmar Örn Agnarsson,
Eyrún Ósk Egilsdóttir, Kristrún Harpa Gunnarsdóttir.

Á því var vakin athygli í gærkvöld, þegar félagar úr Skálholtskórnum þeim sem starfaði þar til fyrir nokkrum árum, komu saman til að rifja upp hluta af þeim ótölulega fjölda söngverka af ýmsu tagi sem þeir geyma enn í höfðum sínum, að á þessu ári eru 20 ár síðan Hilmar Örn Agnarsson kom til starfa í Skálholti. 
Þessi samkoma fólst nú bara í því að koma saman og syngja sér til ánægju og hittast til að rifja upp og gera að gamni sínu. Reyndar fylgdi þessu indælissúpa og nýbakað brauð í boði vertsins á Klettinum, enda átti hún sinn blómatíma innan sönglistarinnar, einmitt í Skálholtskórnum, sem og svo margir aðrir.
Ég hef nú hugsað mér að fjalla um brotabrot af þessum tuttugu árum undir öðrum formerkjum síðar. 

Þessi tími reyndist verða meiri vítamínsprauta inn í menningarlíf hér í uppsveitum en margur getur ímyndað sér. Hilmar skilur eftir sig á þessum slóðum, og víða um land og nánast veröld alla, gróður sem er vaxinn upp af þeim fræjum sem hann sáði hér. Hann stjórnaði ekki bara Skálholtskórnum á þessum tíma, heldur stofnaði hann einnig til:
- Kórs Menntaskólans að Laugarvatni, hvaðan margir öflugir söngvarar og tónlistarmenn eru síðan sprottnir, 
- Barna- og Kammerkór Biskupstungna sem lengi var ein helsta skrautfjöður  þessarar sveitar og sem varð til þess að fjöldi barna héðan hefur haldið áfram í tónlistariðkun vítt um land eða lönd, og  
- Kammerkórs Suðurlands, sem enn starfar og hlýtur alþjóðlegar viðurkenningar fyrir flutning sinn.

Ég gæti nú óefað talið upp margt fleira sem Hilmar hefur áorkað á þessu svæði bæði beint og óbeint, enda var varla haldin sú samkoma hér um árabil sem hann kom ekki að með einhverjum hætti.

Síðustu árin hefur Hilmar starfað í höfuðborginni að mestu og er þar smám saman byrjaður að setja svip sinn á menningarlífið með sínum yfirlætislausa hætti. Þetta hefur ýmsum okkar hér austanfjalls svo sem ekki verið neitt fagnaðarefni, en svona geta mál þróast.

Fjarri fer því að ég vilji hér vera að gera Hilmar að einhverjum hálfguði, enda pilturinn bara mannlegur eins og við hin. Það verður þó ekki af honum tekið, að fáir standa honum framar þegar kemur að því að móta og flytja tónlist með góðu fólki. 

Ég hef, gegnum árin tekið þátt í aðventutónleikum í Skálholtskirkju þar sem fjöldi merkra listamanna hefur komið til liðs við Skálholtskórinn og Barna- og kammerkórinn. Í allmörg ár stóð Hilmar fyrir því að fá tónskáld og textasmiði til að semja jólalag Skálholts. Þessi verk voru síðan frumflutt á aðventutónleikum - yfirleitt afbragðs góð verk. Mér hefur oft verið hugsað til þess, að það væri synd að þau skuli ekki hafa verið tekin upp við góðar aðstæður og gefin út. 
Hér er um að ræða tónverk sem búa í höfðum okkar sem æfðum þau og fluttum. Þekkingin á þeim er til og því finnst mér, og er þar sammála hugmynd sem ég heyrði í gærkvöld, að í tilefni af því að nú eru tuttugu ár frá því Hilmar hóf að taka til höndum í Skálholti, komi Hilmarskórar saman ásamt öðrum sem að komu, og rifji upp, taki upp, og flytji síðan á aðventutónleikum, öll jólalög Skálholts.
Hugmyndin er góð, en hún er dýr og útheimtir mikla vinnu fjölda fólks. 

Samkoman í gærkvöld var betri en engin.

05 febrúar, 2011

Trúarleg afskipti (3)

Skálholtskórinn í júlí 2007
Það yrði ansi mikil langloka ef ég færi út í að segja þá 16 ára sögu (eða svo), sem hófst þegar Hilmar Örn Agnarsson gerðist stjórnandi Skálholtskórsins. Það á reyndar að nægja að segja það, svona þegar litið er til baka, að þessi kórtími minn var sérlega ánægjulegur fyrir margra hluta sakir. Maður fann það fljótt, að þarna var kominn maður með metnað. Hann virkaði á mann sem óskipulagður á ýmsum sviðum, en þegar um var að ræða tónlistina, var hann ávallt með hlutina á hreinu, vissi hvað hann vildi og tókst að fá kórinn með sér í ótrúlegustu flugferðir í þeim efnum. 
Smám saman byggðist upp kjarni af tiltölulega ungu fólki, sem margt var ómótað í kórstarfi - feiknalega góður efniviður fyrir kórstjóra til að setja sitt mark á, sem hann sannarlega gerði.

Auðvitað verð ég að halda þvi til haga hér, sem annarsstaðar áður, að röddin eina, í þessum kór var auðvitað ekkert slor, til í allt, umbar allt. Mér þótti heiður að því að fá að vera hluti af henni. Ekki var hún fjölmenn á öllum tímum, en öflug var hún, svo mjög að stjórnandinn þurfti ítrekað að halda aftur af henni svo aðrar raddir heyrðust yfirleitt. Og fögur var hún, um það er ekki hægt að deila, bæði að því er varðaði söngfærni, raddfegurð, stundvísi, jákvæðni, lítillæti, andlegt atgervi og líkamlegt. Allt var rétt. Ég  er viss um að aðrir stjórnendur hafa litið stjórnanda Skálholtskórsins öfundaraugum vegna silkimjúkra tenóranna.

Aðrar raddir voru svo sem einnig ágætar. 

Sópran var þarna með þeim hætti, að engu var líkara en að þar væru á ferð stúlkur um tvítugt. Sannkallaðar englaraddir - enginn var þarna, að jafnaði sópraninn sem skar sig út úr öðrum sökum hás aldurs, eða vegna óperutilburða - mjúk og létt var röddin þó vissulega hefði hún mátt láta meira til sín taka á stundum í öðru en hléspjalli. Þetta lagðist þó eftir því sem árin liðu.

Altinn var, þegar best lét, afburða þéttur og fær í sínum þætti. Auðvitað átti hann misauðveldlega heimangengt á æfingar, en þegar allur altinn var á staðnum munaði sannarlega um hann, bæði þegar hann fékk í einstaka tilvikum  línur sem skáru sig einhvern veginn úr og þegar stjórnandanum tókst að fá aðrar raddir til að leggja við hlustir og hugsa um altinn. Það fjölgaði í altinum eftir því sem á leið.

Bassar voru reyndar ekki nægilega margir að öllu jöfnu, til að viðvera þeirra virtist breyta einhverju. Einhvernveginn reyndist kjarninn sem þeir mynduðu á þessum árum ekki ná að verða jafn öflugur botn og hann hefði getað verið. Þeir sem þarna voru á hverjum tíma gerðu þó sannarlega sitt til að mála    flutninginn sínum dökku tónum. Oft voru kallaðir til aukabassar þegar mikið stóð til, sem betur hefðu verið stöðugri. Það sem stendur upp úr í minningunni um bassana er tvennt: opnunartími kauphallarinnar í Tókýó, og neftóbak. Bössum fjölgaði aldrei til langframa.

Þetta var efniviðurinn sem stjórnandi Skálholtskórsins hafði úr að moða: mikið efni til að móta úr glæsilegt menningarlegt fyrirbæri. Það gerði hann.

Það eru margar hliðar sem hægt er að fjalla um í sambandi við þann eina og hálfa áratug sem ég kom þarna að starfi Skálholtskórsins. Hérna hef ég litið á hraðferð efniviðinn. Ég get einnig skoðað áhrif þess á samfélagið að Hilmar Örn og fjölskylda hans fluttu í sveitina, aðbúnað kórsins á Skálholtsstað, veraldlegan hluta starfseminnar og kirkjulegan einnig, ferðirnar sem alltaf voru hluti þeirra markmiða sem sett voru, að ógleymdum starfslokum kórstjórans. Allir þessir þætti verðskulda mikla umfjöllun hver og einn. Ég mun á einhverjum punkti sinna þeirri umfjöllun frá mínu sjónarhorni.

30 janúar, 2011

Trúarleg afskipti (2)

Síðast þegar ég tæpti á þessu málefni, þann 12. september á síðasta ári, lét ég að því liggja, að ef til vill yrði framhald á. Framhaldið hefur látið á sér standa af ýmsum ástæðum, en nú hyggst ég gera tilraun til að gera grein fyrir sýn minni á aðkomu mína að málefnum Skálholtsstaðar frá þeim tíma.

Þar sem ég er ekkert sérlega minnugur á menn og tíma, hlýtur það sem ég skrái hér og sem vísar til einstakra tilvika, tíma, eða manna, að verða nokkuð ónákvæmt, en það skiptir nú ekki öllu máli.

Glúmur Gylfason
Hér hóf ég kennslu við Reykholtsskóla haustið 1979, og smám saman hóf ég að kynnast samfélaginu aftur. Hafði verið fjarverandi í 4 ár. Það liðu einhver ár áður en að því kom að mér datt í hug að hefja þátttöku í starfi Skálholtskórsins, en þá stjórnaði Glúmur Gylfason honum. Hann var þó þarna til bráðbirgða, að mig minnir - man ekki hve lengi ég var þarna undir hans stjórn.
dr. Róbert Abraham Ottósson
Ólafur Sigurjónsson
Að koma inn í svona gróinn kór, reyndist mér nú ekkert auðvelt, en ég haði áður tekið þátt í kórstarfi, m.a. með Árnesingakórnum í Reykjavík og vissi út á hvað þetta gekk. Þar að auki hafði ég lært að spila lítillega á orgel hjá Guðjóni Guðjónssyni, sem var þá að læra til prests og sem ég held að starfi nú sem slíkur í Svíþjóð. Ég var nokkuð viss um að tenór væri sú rödd sem helst hentaði mér, en þar voru fyrir í kórnum, ekki minni söngvarar en Sigurður á Heiði og Bragi á Vatnsleysu, sem þá höfðu verið í kórnum, undir stjórn Róberts Abrahams Ottósonar, frá því kórinn var stofnaður fyrir vígslu kirkjunnar árið 1963.
Örn Falkner
Ég man að það auðveldaði mér mjög að koma þarna inn í tenórinn með svo örugga og öfluga tenóra mér við hlið. Vissulega var ég ekki alltaf sáttur þegar til stóð að æfa einhvern sálm sem ég hafði aldrei komið nálægt og hinir reyndu kórfélagar tilkynntu: "Við kunnum þetta. Alveg óþarfi að vera að æfa það eitthvað". Mér fannst ég nú samt vera furðu fljótur að aðlagast þessu umhverfi, og fannst þetta skemmtilegur félagsskapur.
sr. Guðmundur Óli Ólafsson
Fljótlega hvarf Glúmur af vettvangi og í hans stað kom til skjalanna Ólafur Sigurjónsson frá Forsæti. Mér líkaði ágætlega við hann sem stjórnanda, en það kom að því, af einhverjum ástæðum, að hans stjórnunartíð lauk. Það gerðist ekki með friði og spekt og það var þá sem kórinn leystist upp í einhvern tíma. Við þá "sprengingu" sem þarna varð hurfu margir þeirra sem höfðu myndað hryggjarstykkið í kórnum af vettvangi. Stofnfélagar, voru þá búnir að vera í kórnum í 20-30 ár. Hvað gerðist næst og hvernig er ég ekkert viss um. Ég man að það var haldið áfram eftir einhvern tíma. Þá vara ráðin ung kona til að stjórna, en ég man ómögulega hvað hún heitir. Þá var ráðinn til starfa annar ungur kórstjóri, Örn Falkner. Þarna fór einnig að tínast inn nýtt fólk.  Það var svo um það bil sem 10. áratugurinn hófst, þegar ég var í sóknarnefnd í Skálholti, sem að því koma að ráða nýjan organista að kirkjunni, á breiðari grunni en verið hafði. Hann skyldi hafa búsetu í Skálholti. Þáverandi sóknarprestur, sr. Guðmundur Óli Ólafsson, mælti eindregið með einum umsækjandanum og sagði um hann, að hann hefði aðeins einn galla, hann kynni ekki á klukku. Þessi umsækjandi var Hilmar Örn Agnarsson. Hann var að koma frá námi í Hamborg, hafði áður starfað um hríð við kórstjórn í Þorlákshöfn og verið meðlimur í hljómsveitinn "Þeyr". Þetta vissum við um manninn. Hann var ráðinn og flutti með fjölskyldu sinni, konu og tveim sonum í Skálholt.



Hér er gert hlé á þessari umfjöllun. Það kemur kannski meira síðar.

Mér þætti auðvitað vænt um, ef einhver sem er betur að sér í nöfnum fólks og ártölum, léti mig vita um það sem betur  má fara í þessum efnum, eða rétt væri að láta fylgja með.

12 september, 2010

Trúarleg afskipti (kannski 1)

Það hlýtur eiginlega að vera, að tilraunir til kristilegs uppeldis á mér, hafi skilað einhverju, þar sem það varð hlutskipti mitt að eiga í talsverðum samskiptum við kirkjuna lengi vel. 


Ég var ekki fyrr búinn að ljúka stúdentsprófi, en ég réði mig sem kennara í Lýðháskólanum, sem þá var tiltölulega nýtekinn til starfa, Hann átti að starfa í anda lýðháskóla á Norðurlöndunum og gerði það sannarlega fyrstu árin. Árið sem ég var þarna kennari um tvítugt, var einstaklega ánægjulegur tími og varð til þess að ég ákvað að leggja það starf fyrir mig. Þarna voru nemendur á aldrinum 16 ára til tvítugs auk þess sem skólinn tók að sér kennslu nemenda í efsta bekk grunnskólans í sveitinni. Þarna var skólastjóri sr. Heimir Steinsson. Hann nálgaðist starf sitt með afskaplega mannlegum og kreddulausum hætti og því varð þarna til afar skemmtilegt samfélag.
Það átti ekki fyrir lýðháskólanum að liggja að verða langlífur. Ástæðurnar? Það er sjálfsagt ekki auðvelt að fullyrða neitt um það, en tvennt kemur mér í hug. Annarsvegar má nefna þá tilhneigingu (félagsmálayfirvalda eða foreldra) að senda unglinga sem lent hafa á rangri braut, í skóla úti á landi. Þegar það gerist minnkar sjálfkrafa aðsókn þess markhóps sem skólinn hefur. Hin skýringin sem ég vil nefna, og ég treysti mér ekki að fullyrða um hvort var orsök eða afleiðing, er að kirkjan sóttist eftir meiri áhrifum á innihald námsins. Þetta birtist t.d. í því að efnt var til svokallaðs leiðtoganáms, sem ég veit ekki nákvæmlega í hverju fólst - væntanlega var því ætlað að þjálfa ungt fólk til að verða leiðtogar í æskulýðsstarfi kirkjunnar.


Eftir nám í höfuðborginni kom ég til baka og hóf fyrst kennslu í Reykholti í ein 7 ár. Ekki löngu eftir að við fluttum í Laugarás var ér kosinn í sóknarnefnd í Skálholtssókn og þar var ég í einhver ár. Það var á þeim tíma þegar ákveðið var að ráðast í að útbúa nýjan grafreit fyrir austan kirkjuna og að ráða nýjan organista. Eins og svo margt í Skálholti, var (og væntanlega er) staða sóknarnefndar dálítið sérkennileg. Skálholtsstaður laut stjórn sem sat fyrir sunnan, eins og sagt var. Kirkjuráð vélaði um málefni staðarins og hafði mest með það að gera hvað var gert á staðnum og hvernig. Það var með ýmsum hætti sem sóknarbörn í Skálholtssókn höfðu, eða gátu ekki haft, áhrif á það sem gert var. Ég held að megi segja, að sóknarnefnd hafi haft einhverskonar tillögurétt í flestu, en engan ákvörðunarrétt. Nefndin mátti ráðskast með mál sem harla litlu máli skiptu í heildarsamhenginu, eins og t.d. ræstingu á kirkjunni. Fyrir hönd þeirra fyrir sunnan var í Skálholti staðarráðsmaður, sem hafðu umsjón með því sem þar fór fram, sem ekki taldist til starfsemi kirkjunnar sem slíkrar.  Ég vil nú eiginlega ganga svo langt að segja, að stór hluti íbúa í Skálholtssókn hafi upplifað sig og upplifi sig enn, sem áhrifalitla í málefnum sóknarkirkju sinnar, og að þeim hafi fundist, frá því dómkirkjan reis, þeir vera hálf utangarðs. Það hafa meira að segja heyrst raddir um að réttast væri að reisa sérstaka kirkju í sókninni - en það hefur nú aldrei farið hátt eða langt, kannski vegna þess að trúarþörf íbúanna á svæðinu er virðist ekki vera sérstaklega mikil. Hvort vegur meira, trúarþörfin eða áhrifaleysið, skal ég ekki um segja.
Hvað sem því líður má segja, að andinn meðal fólksins hafi verið sá, að Skálholt tileyrði einhverjum öðrum frekar en okkur. Að mörgu leyti er þetta eðlilegt, hér er um að ræða eign þjóðarinnar allrar og einn merkasta sögustað landsins. Þrátt fyrir það er ég nú þeirrar skoðunar, að staða Skálholts væri í engu lakari en hún er, með því að hafa hleypt þeim sem búa á eða í nágrenni staðarins meira að ákvörðunum en reyndin er.  Stjórnarnefnd í höfuðborginni er ekkert endilega best til þess fallin að ákvarða um hvernig málum er best komið á staðnum.
Enn er ótalin aðkoma mín að málefnum staðarins , sem stóð frá síðari hluta níunda áratugarins þar til hrunárið 2008. 
Hvernig ég fer í það mál, verður að koma í ljós.

22 maí, 2010

Enn er sungið þó enginn sé kórinn

Á þessum bæ eru menn búnir að vera í ótímabundnu leyfi frá reglulegum kórsöng um allnokkra hríð. Ástæðum þess hafa verið gerð nokkur skil á þessum síðum og ekki verður fjölyrt um þær - breytir líklega litlu.

Það hefur hinsvegar æxlast svo, að af og til hafa gefist tilefni hjá fyrrverandi kórfélögum að koma saman í eitt og eitt "gigg", sér til upplyftingar og viðhalds.

Þannig var það í gærkvöld, þegar kórstjórinn okkar, fyrrverandi fagnaði fimmtugsafmæli sínu ásamt samstarfsfólki í gegnum árin, með tveggja tíma tónleikum í Kristskirkju í Landakoti. 
Þarna komu fram, auk kóranna sem afmælismaðurinn stjórnar og hefur stjórnað, fjöldi af úrvals tónlistarfólki.

Á eftir var síðan skellt á veisluborð í biskupshúsinu.

Ansans ári skemmtileg stund bara.

Enn er sungið þó enginn sé kórinn
því alltaf er tilefni.
(hirðkveðill botnar) :)

Heimildir:
Staðreyndir daglegs lífs og hugarfylgsni höfundar.

08 desember, 2009

Sama hvar gott gerist

Sönglausri aðventu var reddað þessu sinni, með því að við tókum okkur til og sungum tvenna tónleika í Kristskirkju í Landakoti á sunnudaginn var. Þetta gerðum við ásamt stórum hluta fyrrverandi félaga í Skálholtskórnum, í samvinnu við fyrrverandi kantor í Skálholti og nýja kórinn hans þarna í höfuðborginni. Diddú og Egill Ólafsson sáu um einsöng og Hjörleifur Valsson og hans fólk um undirleik.
Það er skemmst frá því að segja, að húsfyllir var á báðum tónleikunum (það má víst ekki segja 'báðum' um þetta orð vegna þess að tónleikar eru ekki til í eintölu - ég nenni bara ekki að pæla í hvernig þetta er best orðað) og ég verð að halda því fram, að þetta hafi allt tekist framar vonum. Auðvitað alltaf hnökrar, en þannig er nú bara lífið í þessum bransa. Tilganginum var náð og nú horfir maður til jóla, stútfullur af viðeigandi skapi.

Það var talsvert um það rætt hvaða áhrif umfjöllun um ritstjórann á Mbl gæti haft á aðsókn. Það runnu tvær grímur á ýmsa þegar sást til KG fyrrverandi framkvæmdastjóra tiltekins stjórnmálaflokks, smeygja sér að miðasölunni og leggja út fyrir miða. Tilhugsunin um veru hans og sálufélaga hans á tónleikunum vakti blendnar tilfinningar í brjósti, en þær hurfu þegar lengra var hugsað og komist var að þeirri, að ef til vill væri rétt að horfa framhjá hugsjónum og dægurþrasi og fagna þess í stað öllum krónum í kassann. Krónurnar eru allar eins.

Ég gat um viðtal við sjónvarpsstöð síðast þegar ég átti erindi hér inn. Mér varð að ósk minni í því efni. Nálgun sjónvarpsstöðvarinnar finnst mér hinsvegar hafa verið stórfurðuleg, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.

Aðventutónleikar næsta árs eru þegar í bígerð í hugum þeirra sem eru áhugasamastir. Nú er stefnt á dómkirkjuna í Biskupstungum, á þeirri forsendu að þar sé um að ræða kirkju allra landsmanna.

Verður gaman að sjá hvernig það mál þróast.

30 nóvember, 2009

Allt um Alt



Nei, það var aldrei ætlun mín, enda hreint hvorki ástæða né tilefni til að fara að gera sér frekari mat úr því sem áður hefur verið afrekað í þeim efnum. Altinn stendur altaf (ekki stafsetningarvilla) fyrir sínu.

Ég neita því ekki að ég varð dálítið undrandi þegar ég rakst á mynd þar sem kvenfélagskonur út Biskupstungum, þar með voru auðvitað altar, eins og áður hefur komið fram, voru að undirbúa myndatökur vegna árlegs dagatals, að undir myndina hafði aðdáandi skrifað eftirfarandi: "Túttur!!! Mega sega Tungna-túttur". Viðbrögð við þessari athugasemd voru sérlega og, að mínu mati, undarlega jákvæð. Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi hvernig viðbrögðin hefðu orðið, hefði ég látið þessa athugasemd falla, svona orðaða. Ég hugsa þá hugsun ekki til enda -ég hefði frekar orðað athugasemd mína sem svo: "Hér eru á ferð afar myndarlegar konur", eða eitthvað í þá veruna.
------------------------------------
Nú hugsa ég miklu frekar um sérlega veglega aðventutónleika sem framundan eru í Landakotskirkju á komandi sunnudegi. Tungnamenn, og þá meina ég auðvitað einnig þá sem telja sig ekki Tungnamenn nema í hjarta, létu sig hafa það að berjast í talsverðu og óvenjulegu vetrarveðri yfir Heiðina (fyrir utan þá sem skelltu sér yfir eftir öðrum leiðum). Eftir það, sem kórstjórinn kallar nú 'túrbó' æfingu í safnaðarheimili kirkjunnar, fengu kórfélagar að kynna sér aðstæður í kirkjunni sjálfri. Þar varð fljótt ljóst að hljómburður er einstaklega góður og gefur að mínu mati, ekkert eftir þeim sem við eigum að venjast hér austanfjalls.
Þarna er hinsvegar um að ræða ákveðinn hönnunargalla. Orgelið er í öðrum enda kirkjunnar, en kórsöngurinn á að eiga sér stað í hinum. Eins og við mátti búast fór ekki allt eins og ætlast var til, ekki síst vegna þess að hljóðið berst hægar en ljósið. Mér skilst að því verði kippt í liðinn með því að notast við 'SKYPE' - auðvitað hlakka ég (og nokkrir fleiri sjálfsagt) ákaflega til að sjá hvernig það á eftir að ganga fyrir sig.

Þessi fína mynd er eftir Ingu Helgadóttur (IngaHel), en þetta er slóðin að myndum hennar. Ef hún skyldi rekast á mynd sína hér, biðst ég afsökunar á að hafa tekið hana ófrjálsri hendi, en hún var bara of góð til að velja hana ekki.

Komandi helgi verður væntanlega nokkuð ásetin vegna umstangs í kringum tónleikana, en ekki efa ég að hún verður eftirminnilega skemmtileg.

28 nóvember, 2009

Uppreist æru eftir margra ára niðurlægingu

Mér finnst faglegra að nota orðið uppreist frekar en uppreisn, vegna þess, að það var með því orði sem þingmaðurinn okkar Sunnlendinga losnaði við syndir sínar fyrir nokkrum árum.

Þannig er, að árum saman söng þáverandi Skálholtskórinn aðventutónleika í dómkirkjunni í Biskupstungum. Þetta voru orðnir einir vinsælustu tónleikarnir í þessum tónlistarkima. Það sem einkenndi þá, meðal annars, var frumflutningur á einu aðventu- eða jólalagi í hvert sinn. Eitt þessara laga, það fyrsta, held ég, heitir Fyrirbæn og er eftir Ragnar 'svepp' K. Kristjánsson við texta Helgu Ágústsdóttur. Hvort tveggja skilaði þarna ágætis verki.

Í gærkvöld var æft fyrir tónleika í Kristskirkju í Landakoti, en þar sem ekki er það Skálholtskórinn, sem þar er á ferð, heldur söngfólk úr Biskupstungum (þó ekki séu allir úr Biskupstungum), fékk söngfólkið inni á Torfastöðum, sem oftar á undanförnum mánuðum.

Enn er Fyrirbæn æfð, enda bæði skemmtilegt að syngja og hlusta á.
Á þessu hefur alltaf verið einn hængur. Þrátt fyrir að tenórinn í þessum sönghóp sé eins og tenórar gerast bestir í kórum, hefur það alltaf gerst á sama stað í æfingum á þessu lagi að kórstjórinn stöðvar æfinguna og segir:
'Strákar, þið þurfið bara að passa ykkur á að þessi nóta þarna er mjög djúp' - Þetta þýðir á leikmannamáli, að tenórinn hefur alltaf sungið þessa nótu vitlaust.
Það verður að viðurkennast, að tenórunum hefur alltaf fundist þessi niðurstaða kórstjórans einstaklega undarleg og þar hafa verið uppi rökstuddar tilgátur um, að með þessu væri verið að senda skilaboð til hinna raddanna um, að þó svo tenórinn sé að flestu leyti fullkominn, þá geti hann misstigið sig líka.
Með þessu móti á hinum röddunum þá að líða betur með sitt. Það er svo sem gott og blessað að reyna að 'peppa' þær upp með þessum hætti, á kostnað tenórsins, svo fremi að einhver innistæða sér fyrir.

Það háttar þannig til í þessu lagi, að það gerist á nokkrum stöðum, að tenórinn og altinn eiga að syngja sömu nótuna. Það vill svo til, að það er einmitt nótan sem tenórinn hefur setið upp með sem vitlaust sungna árum saman, með tilheyrandi áhrifum á sálarlífið.

Í gærkvöld kom það í ljós, að það hefur öll þessi ár verið altinn sem söng vitlaust!

Svipurinn sem kom á altinn við þessa uppgötvun er ógleymanlegur. Þessar ágætu konur störðu í vantrú á nótuna á blaðinu og þurftu síða ófáar endurtekningar til að leiðrétta margra ára vitlaust sungna nótu.

Í stórmennsku sinni tóku hinir ágætu tenórar þessari niðurstöðu af mikilli yfirvegum og tóku í framhaldinu, af yfirlætisleysi sínu, við afsökunarbeiðni kórstjórans.

Það sem síðan varð til þess að altarnir náðu aftur jafnvægi var frumsýning á landsfrægu dagatali kvenfélagskvenna úr Biskupstungum, en þar sitja margar hinna ágætu alta, fyrir og eru þá í léttklæddari kantinum. Þar sem þær tóku þarna við ómældu hrósi kórstjórans gleymdist fljótt nótan áðurnefnda. Öllu jafnað út eins og vera ber. Allir sáttir. Ekkert hefði getað endað þessa Torfastaðaæfingu betur, nema kannski ef tenórarnir hefðu verið að frumsýna sitt dagatal.



08 nóvember, 2009

Eitt leiðir af öðru, eða litli fingurinn.

Eins og áður hefur komið fram hér, var gerður um það samningur milli fyrrverandi kórstjóra við dómkirkjuna í Biskupstungum, að svokallaður Berlínarkór eða Tungnaraddir skyldi syngja eina messu í Kristskirkju í Landkoti , þar sem kórstjórinn starfar nú, með kór kirkjunnar.
Messan var keyrð í gegn, engin vandamál þar, enda vant fólk. Það var það sem fram koma í í aðdraganda messunnar sem kom nokkuð á óvart, þó svo það hefði ekki átt að gera það, ef litið er til þess hver umræddur kórstjóri er.
Það var sem sagt gert ráð fyrir því að frumeindir fyrrverandi dómkórs í Biskupstungum tækju þátt í aðventutónleikum í Kristskirkju.

Ég þurfti nú að melta þetta mál lítillega með sjálfum mér áður en ég komst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri líklega bara skemmtileg hugmynd.

Þeir Kristskirkjumenn munu ekki hafa haldið aðventutónleika áður, en við, sveitafólkið, erum hinsvegar hokin af reynslu, með mikið forðabúr af allskyns aðventu- og jólatónlist í langtímaminninu.

Það var aldrei raunveruleg spurning um það hvort við fD létum dragast inn í þetta mál. Æfiingar verða miðsvæðis, í Hveragerði, í hóflegum mæli, en tónleikar í byrjun desember.
Ég taldi eina tólf til fimmtán hokna sveitamenn í Hveragerði í dag.

Nú bíð ég spenntur eftir því hverju kórstjórinn finnur upp á næst, en einhvern veginn held ég nú að það styttist í samstarfinu - þó skemmtilegt sé.

31 október, 2009

Myndir og messa

Það þykir við hæfi að efna til fagnaðar til að rifja upp skemmtilegheit sem fólk hefur upplifað eða afrekað í sameiningu. Þessar samkomur kallast líklega oftast myndakvöld. Í fullkomnum heimi myndu þeir sem þátt tóku í hinu eftirminnilega afreki tína saman nokkrar bestu myndirnar sínar, af þeim hundruðum sem teknar voru, og senda á einn stað, þar sem samræmingaraðili tæki við þeim og setti saman í skemmtilega, hóflega langa sýningu, sem næði að fanga allt það helsta sem fyrir bar. Síðan fælist sýningin í því, að rennt væri í rólegheitum gegnum sýninguna og tökumönnum hverrar myndar fyrir sig gæfist færi á að tjá sig með hnyttnum hætti um tilurð sinna mynda.


Það var myndakvöld í gærkvöld til að rifja upp för fyrrverandi félaga í Skálholtskórnum til Berlínar í byrjun júní s.l. Hér er lítil upptaka frá þeirri för.
Ég segi ekkert um það hvort fyrirkomulag myndasýningar var með þeim hætti sem að ofan er lýst, en við eigum hinsvegar að vera farin að átta okkur á því, eftir niðurbrot samfélagsins að undanförnu, að heimurinn er ekki fullkominn og verður það ekki svo lengi sem mannkynið ræður einhverju á þessari jörð.
Hvernig svo sem myndasýningunum var háttað, var samkoman afskaplega skemmtileg; hófst með kóræfingu þar sem æfðir voru sálmar og katólsk messusvör. Ástæða þessa er sú að á morgun (sunnudag) hyggjast félagar úr þessum fyrrverandi kór, leggja land undir fót og syngja við messu í Kristskirkju í Landakoti. Hér er um að ræða loforð sem var gefið í tengslum við undirbúning Berlínarferðarinnar.


Æfingin reyndist hefjast allnokkru seinna en til stóð. Seinkunartímann nýtti kórfólkið til athafna sem fH hefur síðan kallað 'að laumast í músakornið'. Af þeim sökum eða öðrum, gekk æfingin einstaklega vel og var talin nægur undirbúningur fyrir biskupamessuna. Kórfólkið kann allflest hin katólsku messusvör frá því það tók þátt í katólskri messu á Skálholtshátíð og söng síðan nokkrar messur í Ítalíuför sinni skömmu síðar.

Ótrúlegu samsafni af ýmsu matarkyns, voru gerð skil á meðan áðurnefnd myndasýning hófst.
Að henni lokinni og meðan á henni stóð, hóf hljómsveit leik sem stóð síðan fram eftir.

Allt þetta gerðist í sérlega skemmtilegum húsakynnum Gistiheimilisins á Geysi.




23 maí, 2009

Pärtísk andans næring og upplyfting

Nú þéttast æfingar fyrir Berlínarför. Arvo Pärt er étinn upp til agna nánast á hverju kvöldi og heill dagur æfinga framundan. Um Berlínarmessuna hans Arvos er það að segja, að til þess að ná sambandi við hana þarf maður að búa yfir einstaklega opnum huga og jákvæðu hugarfari, nákvæmlega eins og er raunin í mínu tilviki, að sjálfsögðu. Árangurinn er sá, að ég þykist vera að nálgast kjarnann í verkinu og er farinn að njóta einstakra hluta þess. 
Það gerðist samt fyrir stuttu, þegar ekið var til höfuðborgarinnar, að ákveðið var, að áskoran stjórnandans, að diskur með messunni var settur í, í þeim tilgangi að öðlast sýn inn í hvernig þetta hljómaði í heild sinni. Það gekk ágætlega með KYRIE kaflann, enda er hann stuttur og nokkurnveginn að komast á hreint. Þá hófst næsti kafli: GLORIA. 
"Eigum við að syngja þetta?" 
"Ég kannast ekkert við þetta."
Það verður nú samt að viðurkennast, að smám saman fóru að heyrast þekktir hljómar og ljóst þótti að þetta væri á söngskránni. 
Þriðji hlutinn: CREDO, er bara nokkuð skemmtilegur, en krefst mikillar einbeitingar, ekki síst af hálfu tenóranna, en þeir rísa eðlilega auðveldlega undir því.
Í gærkvöld var síðan kynntur til sögunnar ALLELUIA (það eru svo margar aðferðir við að skrifa þetta orð að ég fullyrði að þessi ritháttur er ekkert síðri en aðrir)  kafli, sem á víst ekki að vefjast fyrir þessum þrælþjálfaða hóp.

Brynjólfsmessa Gunnars Þórðarsonar er orðin eins og nokkurskonar dægurlag miðað við Berlínarmessuna, en þó er ekki laust við ákveðið óöryggi í þeim köflum sem hafa verið endurskoðaðir af þessu tilefni. Með opnum huga og jákvæðni mun það yfirstígast eins og annað.

Þessar messur tvær verða fluttar ásamt hundrað manna þýskum kór í þessari kirkju:



Söngskrá fyrir tónleikana sem við höldum síðan ein, í Elias-Kuppelsaal er óðum að fá á sig mynd, en auðvitað er af mörgu að taka, en íslenskt skal það vera, að því mér skilst. 

Allt er lífið einskisvert
undurvitlaust, ísjárvert,
utan sértu, aftanvert
útbúinn með Arvo Pärt.

(þessa verður að íhuga vel og lengi)

01 mars, 2009

Hugsað fram í júní.....

Eins og öllum ætti að vera ljós sem kíkja hingað inn við og við, er framundan utanlandsför kórs nokkurs. Ferðinni er heitið til Berlínar í byrjun júní.  
Smám saman hefur verið að skýrast hvernig ferðinni verður háttað, en einn meginþáttur hennar, sem fyrir liggur, er samsöngur okkar með 110 manna kór á tveim messum: Brynjólfsmessu Gunnars Þórðarsonar og Berlínarmessu Arvo Pärt. Flutningurinn fer fram í einni merkustu kirkju Berlínar, Gethsemanekirche, sem er í fyrrverandi austur Berlín. Þessi kirkja er einna þekktust í tengslum við átökin sem áttu sér stað í lok níunda áratugar síðustu aldar. 
  • Í kirkjunni, sem var byggð um miðja 19. öld, safnaðist fólk víða að saman árið 1989 til að taka þátt í friðarvökum sem voru haldnar á hverju kvöldi og sem presturinn í kirkjunni stjórnaði. Þessar vökur reyndust eiga mikilvægan þátt í því að Þýskaland var sameinað.

Gethsemanekirche Stargarder Straße 77, Berlin  10437 • +49-(0)-30-4471-5567







28 febrúar, 2009

Öðruvísi

Mannskepnan aðlagast umhverfinu eða menningunni sem hún lifir og hrærist í og eftir því sem hún staldrar við lengur nálgast hún það æ meir að verða hluti af umhverfinu. Hápunkti nær manneskja síðan með því að verða umhverfið sjálft. 
Manni verður þetta auðvitað fullljóst við að heimsækja aðrar þjóðir og uppgötvar hvernig þær haga lífi sínu að mörgu leyti með öðrum hætti en við. Það getur meira að sesgja gengið svo langt að maður áttar sig ekki á hvernig húsbúnaður, eisn og bara klósettskálar virka.

Það þarf ekki að fara til útlanda til að upplifa menningarmun. Hann er fyrir hendi, jafnvel milli tveggja nágranna, sem hafa búið hlið við hlið árum saman.

Hér kann einhver að velta fyrir sér hvert í ósköpunum ég er að fara með þessu. Það skal nú skýrt.
Ég tók þátt í starfi Skálholtskórsins, sáluga nánast svo telja megi í áratugum. Ég lít svo á, að þar sem þátttaka mín náði yfir svo langt tímabil, þá hafi ég í það minnsta haft áhrif á þá menningu sem þar þróaðist. Ég vil ekki ganga svo langt að halda því fram, að ég hafi beinlínis verið menningin, þó ég gæti það alveg ef ég væri þannig innréttaður. Í öllu falli hrærðist ég þarna í umhverfi sem ég þekkti orðið vel og sem mér leið bara nokkuð vel í.

Nú er enginn Skálholtskór lengur, en það er önnur umræða.
Í sama sveitarfélagi starfar annar kór af svipuðum toga og Skálholtskórinn. Þetta er Söngkór Miðdalskirkju. Ég hef líklega þrisvar áður kíkt í heimsókn til þessa kórs við sérstök tækifæri og í dag er framundan fjórða skiptið. 

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom til æfinga hjá þessum kór, var að þar var menningin önnur. Hvorki betri né verri, bara önnur. Hér var kannski um að ræða annarskonar samskipti milli radda, eða innan hverrar raddar fyrir sig. Þeirra menning hefur þróast í gegnum áratugi, alveg eins og menning Skálholtskórsins. 
Lítið dæmi um þennan menningarmun er, að Laugdælir hafa kaffi og með því í æfingahléum. Í gærkvöld voru t.d. 4 sortir.
Allt er þetta sjálfsagt hið ágætasta mál.

Kórar tveir starfa með konum
og köllum.
Þeir djamma með dætrum og sonum
og öllum.

- ég veit, ég veit.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...