
Því verður ekki haldið fram, að kórnum hafi þótt hann velkominn, þó svo framlag hans hafi þótt nauðsynlegt. Þetta er ekki eitthvað sem var sagt, svo ég viti til, heldur eitthvað sem lá í loftinu og birtist með óorðuðum hætti í óljósum skilaboðum.
Þar sem ég hef ekki staðfestar upplýsingar um það sem gerðist bak við tjöldin á staðnum, sem síðan varð til þess leiðir skildi með Hilmari Erni og Skálholtsstað, treysti ég mér ekki til að fjalla um þá sálma þannig að ég sleppi við að verða uppvís að því að fara með hálfkveðnar vísur eða órökstuddar dylgjur. Ég reikna með að það verði hlutverk sagnfræðinga síðar meir, að grafast fyrir um hvað þarna átti sér stað. Það liggur þó fyrir að stjórnendur á staðnum ákváðu að segja upp samningi við Hilmar.
Viðbrögð mín, og margra annarra skjólstæðinga Hilmars, við uppsögninni voru nú nokkuð fjarri því að vera jákvæð; margt var rætt og undirbúið, en það var auðvitað ljóst, að trúnaðarbrestur var orðinn slíkur að ekki yrði aftur snúið.
Ég geri mér grein fyrir því, að ég er að sumu leyti ekki eins og fólk er flest. Sem dæmi um það vil ég geta þess, að ég hef ekki einusinni flett tilteknu dagblaði frá því tiltekinn ritsjóri var ráðinn þar til starfa, jafnvel þótt umrætt dagblað hafi borist inn á heimilið af og til fD til upplyftingar. Það sama á við um viðbrögð mín við því sem gerðist í Skálholti. Ég hef ekki talið mig eiga samleið með því starfi sem þar fer fram eftir að þeir atburðir gerðust sem hér hefur verið tæpt á. Hvort eða hvenær það breytist verður bara að koma í ljós.
Ég ólst upp við það að ganga til messu í Skálholti, kominn af trúræknu fólki og hef gegnum tíðina tekið þátt í ýmsu því sem lýtur að kirkju og trú. Vissulega fékk ég aldeilis nóg af öllum messuferðunum áður fyrr, en taldi samt að ég hefði eitthvað að sækja í þann heim sem kirkjan fæst við. Ég vil hinsvegar gera skýran greinarmun á trúnni og kirkjunni, eins og ég hef áður fjallað um. Trúin er eitthvað sem er persónulegt og sem hver maður metur og sinnir að sínum hætti. Kirkjan er stofnun sem sett er á fót af mönnum og sem hefur löngum beitt trúnni fyrir sig til að öðlast vald yfir lífi og sálum manna. Með aukinni menntun og flóknara samfélagi finnst mér að kirkjan hafi misst fótanna vegna þess að hún er of upptekin af valdi sem hún hefur ekki lengur, siðum og boðskap sem ná ekki eyrum fólks eins og áður var.
Með þessari messu ætla ég að setja punkt aftan við greinaflokkinn um trúarleg afskipti mín, eins og þau hafa þróast. Þau hafa verið harla lítil undanfarin ár og líklega þarf eitthvað að breytast ef breyting á að verða þar á.
En, lífið heldur áfram. Maðurinn, eitt örsmátt sandkorn á eilífðarströnd, heldur áfram að streitast í gegnum líf sitt, eins og leikari á leiksviði, en hverfur síðan í óræðan buska.
Langar að yrkja um allífismál
SvaraEyðaálít þó kirkju vor' harðlífisstál
vitandi allt svo ógnar, já best
ætíð sig reiðir á sitjandi prest
títt mun og linkan og lákúran sjást
Lítið um hreinskiptni, hlýju og ást.
Fyrri vísan hefði þurft að lúta breytingum af hálfu hiðrkveils, en svo varð ekki.
SvaraEyðaBáðar vísskammirnar eftir téðan Hirðkveðil Kvistholts.
Amen :)
SvaraEyðaMig langar í örfáum orðum að þakka þér pistlana. Mér finnst þér hafi tekist að fjalla um þetta viðkvæma mál á hógværan hátt og laus við kroka og ásakanir. Það er ekki öllum gefið.
SvaraEyðaUm tenórbekkinn mættir þú gjarnan fjalla meira um og bágindi þeirrar mildu raddar. Með alla hæfileikaríku meðlimina: Gísla(líkkistu)smið,Jóel húsgagnaviðgerðarmann og þúsundþjalasmiðina upp til hópa þá hefði nú kannski verið hægt að ganga í málið að útbúa betra hægindi en árans bekkinn. Þið hefðuð nú rúllað því upp ef þið hefðuð gengið í málið.
Bkv. Aðalheiður
Þakka þér lesturinn og jákvæðar athugasemdir, fA.
SvaraEyðaÞað væri margt hægt að segja um tenórbekkinn og sálarlíf tenóra í framhaldi af því, en....